Ágrip gestafyrirlestra

Ágrip gestafyrirlestra

G 1 Er sóri sjálfsofnæmissjúkdómur?

Helgi Valdimarsson

Rannsóknastofa í ónæmisfræði, HÍ og Landspítali

helgiv@landspitali.is

Sóri (psoriasis) er algengur og þrálátur bólgusjúkdómur í húð og einkennist af offjölgun hornfrumna í yfirhúð. Framundir 1990 beindust rannsóknir á orsökum sóra fyrst og fremst að því að leita að galla í yfirhúðarfrumunum sjálfum, og þær bólgufrumur sem eru áberandi í sóraútbrotum voru taldar vera afleiðing en ekki orsök offjölgunar hornfrumnanna. Sóri getur verið mjög ættlægur og vitað er að vefjaflokkasameindin HLA-Cw6 tengist sjúkdómnum. Þó fá ekki nema um 10% þeirra sem eru Cw6 jákvæðir sóra.

Ég mun gera mjög stuttlega grein fyrir helstu niðurstöðum rannsókna sem við unnum að milli 1980 og 1995. Í fyrsta lagi virtist íferð T-eitilfrumna ónæmiskerfisins inn í húð sórasjúklinga orsaka offjölgun hornfrumnanna og koma útbrotunum af stað. Í öðru lagi benti ýmislegt til þess að það séu T-frumur sem eru sérhæfðar til að bregðast við hálsbólgusýklum (streptókokkum) sem ráðast gegn keratíni í húð sórasjúklinga eins og um streptókokka væri að ræða. Vitað var að sóri getur byrjað skömmu eftir streptókokkasýkingar í koki. Í ljós kom að M-prótein á yfirborði streptókokka hefur mjög áþekka byggingu og keratín sem er aðalstoðefni hornfrumna. Þannig blasti það við fyrir um 10 árum að kanna hvort sóri væri sjálfsofnæmissjúkdómur sem orsakast af víxlviðbrögðum (cross-reactivity) T-frumna sem eru upphaflega virkjaðar af streptókokkum en ráðast síðan gegn hornfrumum.

Í dag er staðan í stuttu máli þessi. 1. Í blóði sórasjúklinga eru T-frumur sem virkjast af peptíðum sem eru til staðar annars vegar í M-próteinum (M-peptíð) og hins vegar í keratínum (K-peptíð). Í blóði náinna ættingja sjúklinganna, sem hafa ekki sóra þótt þeir séu HLA-Cw6 jákvæðir, finnast ekki T-frumur sem virkjast af K-peptíðum, en hins vegar finnast í blóði þeirra T-frumur sem virkjast af M-peptíðum. 2. Um 10% T-frumna í blóði tjá á yfirborði sínu sameindir sem gera þeim kleift að komast út úr blóðrás inní húð (húðsæknisameindir). Hins vegar tjá nær allar T-frumur sem bregðast við K-peptíðum slíkar húðsæknisameindir. 3. Margt bendir til þess að sá undirflokkur T-frumna (CD8), sem greinir ónæmisvaka, meðal annars í tengslum við HLA-Cw6, eigi beina aðild að myndun sóraútbrota. Þær T-frumur sem bregðast við K-peptíðunum eru nær allar CD8 T-frumur. 4. Margt bendir til þess að kverkeitlarnir séu uppeldisstöðvar fyrir þær T-frumur sem ráðast á húð sórasjúklinga. Við ætlum því að kanna hvort útbrot sórasjúklinga lagast eftir brottnám kverkeitla.

G 2 Áhrif Transforming Growth Factor beta (TGFβ) á stofnfrumur úr fósturvísum

Guðrún Valdimarsdóttir1, Helga Eyja Hrafnkelsdóttir1, Níels Árni Árnason1, Sæmundur Oddsson1, Stieneke van den Brink2, Robert Passier2, Eiríkur Steingrímsson1, Christine Mummery2

1 Lífefna-og sameindalíffræðistofa, læknadeild HÍ, 2 Hubrecht Laboratory, Netherlands Institute for Developmental Biology and Heart-Lung Institute, Utrecht, Hollandi

gudrunva@hi.is

Stofnfrumur úr fósturvísum (embryonic stem cells, ES-frumur) eru einangraðar úr innri frumumassa fósturvísis á kímblöðrustigi. ES-frumur geta annað hvort endurnýjast óendanalega eða sérhæfst í hvaða frumugerð líkamans sem er. Þessir eiginleikar bjóða upp á einstaka möguleika í stofnfrumulækningum enda er markmiðið að nýta ES-frumur sem ótakmarkaða uppsprettu til að sérhæfa þær í frumulínur sem nota má til ígræðslu í skaddaðan vef. Auk þess geta ES-frumur hugsanlega skýrt þróun ýmissa sjúkdóma. Til að þetta verði að veruleika er nauðsynlegt að skilja samspil þeirra þátta sem viðhalda fjölhæfi eða ákvarða sérhæfingu ES-frumna.

TGFβ boðleiðin hefur mikilvægu hlutverki að gegna í fósturþroskun eins og sýnt hefur verið fram á með “knockout” tilraunum á músum þar sem ákveðin gen TGFβ boðleiðarinnar hafa verið slegin út. ES-frumur virðast henta vel til að athuga nánar mikilvægi TGFβ í þroskun og sérhæfingu enda erfitt að athuga slíkt í spendýrum, þá sérstaklega í mönnum.

Tilgangur þessa verkefnis er að kanna hlutverk TGFβ boðflutnings í endurnýjun og sérhæfingu ES-frumna og einblínum við á sérhæfingu ES-frumna í hjartavöðvafrumur en þær tilheyra miðlaginu. ES-frumum er haldið ósérhæfðum og fjölhæfum (pluripotent) í skilyrtu æti. Sérhæfingu ES-frumna er komið af stað með myndun frumukúla (embryoid bodies) sem sérhæfast enn frekar í hjartavöðvafrumur á gelatínhúðuðum brunnum. Til þess að betri heimtur fáist á sláandi hjartavöðvafrumum er hægt að rækta saman ES-frumur og innlagsfrumur (endoderm cells). Sláandi samdráttarsvæði (beating areas) voru greind og kom í ljós að fjöldi þeirra eykst í samræktunum án sermis. ES-frumurnar voru örvaðar með vaxtarþáttum TGFβ fjölskyldunnar eða látnar yfirtjá sívirka TGFβ viðtaka. Frumurnar voru greindar á ólíkum tímapunktum með tilliti til tjáningar TGFβ gena með RT-PCR og virkni TGFβ boðleiðarinnar athuguð með “western blotting” aðferðinni. Ákveðnir meðlimir sem tilheyra TGFβ stórfjölskyldunni virðast örva ES-frumur til þess að sérhæfast í hjartavöðvafrumur.

G 3 Erfðafræði algengra sjúkdóma

Kári Stefánsson

 

 

G 4 Kennsl borin á menn í stórslysum og stríði

 

Svend Richter

Tannlækningastofnun, tannlæknadeild HÍ

svend@hi.is

 

Inngangur: Til að bera kennsl á menn eru fyrst og fremst notaðar þrjár greiningaraðferðir sem hver getur staðið ein og sér. Tannfræðileg greining, DNA greining og fingrafaragreining. Aðrar greiningaraðferðir eins og persónuskilríki, fatnaður, skartgripir og aðrar persónulegar eigur geta einar og sér ekki staðfest greiningu en geta stutt önnur gögn. Trúverðugri eru ýmis líkamleg kennileiti eins og húðflúr, ör og merki eftir áverka eða uppskurði og brottnám líffæra. Hér á landi er rannsókn óþekktra einstaklinga, lífs eða liðinna, í höndum DVI-kennslanefndar ríkislögreglustjóra.

Scandinavian Star ferjuslysið: Þann 7. apríl 1990 kom upp eldur í ferjunni á Oslóarfirði á leið milli Noregs og Danmerkur. Eitt hundrað fimmtíu og átta farþegar af 494 fórust. Ferjan var dregin til Svíþjóðar og látnir fluttir til Osló til greiningar. Rannsóknarhópar voru myndaðir til að starfa um borð í ferjunni, safna gögnum um hina horfnu, samanburðar- og kennsluhópar og krufningshópar. Danska DVI-nefndin kom til Osló, enda margir Danir sem fórust. Í þessum vinnuhópum störfuðu 17 tannlæknar, þar af tveir Danir og einn Íslendingur. Eldur kom upp á nokkrum stöðum nánast samtímis við stigaganga sem lokaði útgönguleiðum. Merki um neyðarútganga voru fjarlægð og fundust í káetu þekkts brennuvargs sem talinn er valdur slyssins. Hann var einn þeirra sem fórust. Yfir 1.000 tilkynningar um horfna menn bárust lögreglu, þar á meðal falskar tilkynningar.

Dánarorsök var fyrst og fremst eitraður reykur. Á aðalbruna–svæðinu brann nánast allt. Þar fór hitastig yfir 1.000°C og aðeins brunnin bein og tennur voru eftir. Niðurstaða tannfræðilegrar greiningar varð sú að greining var staðfest hjá 107, greining sennileg hjá 16, möguleg hjá 23, en engin niðurstaða hjá 12 eða alls 158. Með öðrum greiningaraðferðum tókst að staðfesta kennsl á öllum. Við lok greiningaferilsins komu í ljós mistök þar sem greining tveggja stúlkna á sama aldri víxlaðist eftir að útför annarrar hafði farið fram. Mistökin voru leiðrétt.

Rannsókn fjöldagrafa í Kosovo í ágúst 1999: Tilgangur verkefnisins var að bregðast við ósk Stríðsglæpadómstólsins í Haag (ICTY) og Interpol um rannsókn meintra fjöldamorða í Kosovo. Sendir voru þrír fulltrúar íslensku DVI-kennslanefndarinnar. Hópnum var falið að starfa á friðargæslusvæði Bandaríkjamanna í Suðaustur-Kosovo í teymi með sex austurrískum lögreglumönnum. Starf íslenska hópsins yrði uppgröftur, krufning, skráning persónueinkenna og frágangur hinna látnu, með það meginhlutverk að finna dánarorsök. Hlutverk Austurríkismanna yrði vettvangsrannsókn, ljósmyndun, fingrafaragreining og rannsókn skotfæra.

Áður en rannsókn á vettvangi hófst var svæðið sprengjuleitað, girt af með gaddavír og þungvopnaðir hermenn settir í gæslu allan sólahringinn. Við rannsókn látinna var útbúin krufningsaðstaða í hertjaldi á vettvangi þar sem hiti fór oft í 40°C. Eftir uppgröft voru málmleitartæki notuð til að staðsetja byssukúlur. Við skráningu notaði íslenski hópurinn í fyrsta sinn tölvuforrit frá danska fyrirtækinu Plass Data.

Áverkar voru flokkaðir eftirfarandi: skotáverkar (high velocity damage), áverkar eftir hnífa, byssustingi, axir og þess háttar (sharp or semi-sharp trauma) og höggáverkar af þungum áhöldum (blunt trauma). Skotáverki var staðfestur ef fannst skotgangur í gegnum lög af fatnaði, hringlaga op og skotgangur (tractus) í mjúkvefjum með/án áverka á beini. Sennilegur skotáverki ef op fannst á húð og rekjanlegur gangur í mjúkvefjum. Mögulegur skotáverki ef op fannst á húð, gangur í mjúkvefjum, sem var illa rekjanlegur vegna rotnunar.

Rannsakað var 21 lík. Hægt var að staðfesta dánarorsök 16 einstaklinga, mögulega dánarorsök þriggja, en í tveimur tilvikum voru líkin það illa farin að ekki var hægt að greina dánarorsök. Dánarorsök flestra voru skotáverkar, en einnig komu við sögu höggáverkar, stungusár og skorinn háls. Heildarskýrslu var skilað til Haag-dómstólsins í desember sama ár.

Tsunami. Rannsókn látinna á flóðasvæðum Thailands: Talið er að um 283.000 manns hafi látist í flóðbylgjunni miklu í Suðaustur-Asíu 26. desember 2004, þar af um 5.400 í Thailandi. Tveir íslenskir tannlæknar og einn lögreglumaður voru sendir til að starfa með norrænum starfsbræðrum. Í greiningarstöðum látinna var fórnarlömbum komið fyrir í kæligámum eftir að hafa verið án kælingar í eina til tvær vikur. Af trúarlegum ástæðum voru greiningarstaðir staðsettir til bráðbirgða í Búddahofum, en síðar var sett upp fullkomin stöð á Phuketeyju. Alþjóðasamfélagið brást fljótt við og 37 lönd sendu sérfræðinga til aðstoðar.

Upplýsingar um tennur hinna látnu (PM) og hinna horfnu (AM) voru færðar í tölvuforritið DVI System International (Plass Data, Danmörk). Forritið leitar að mögulegum greiningum sem staðfestar eru með samanburði frumgagna. Sér tölvuforrit (AFIS) var notað fyrir fingraför. Öll meðferð AM- og PM-gagna svo og samanburður var unninn af erlendum sérfræðingum í samvinnu við innlend stjórnvöld í TTVI-IMC miðstöðinni á Phuketeyju.

Í desember 2005, þegar greiningarstöðinni á Phuketeyju var lokað, hafði tekist að bera kennsl á tæplega 3.000 af þeim 3.750 látnum sem skráðir voru í miðstöðinni. Þá voru 1.392 (47,62%) greindir af tönnum, 997 (34,11%) af fingraförum, 506 (17,31%) af DNA og 28 (0,96%) af öðrum líkamlegum einkennum.

Tannfræðileg greining reyndist árangursrík, áreiðanleg og hraðvirk aðferð. Hún gagnaðist síst börnum sem voru án tannfyllinga. Tækni við fingrafaragreiningu fleygir fram meðal annars með möguleikum á að nota undirhúð (dermis) þegar húðþekju (epidermis) vantar. Ólíkt því sem verið hefur í öðrum stórslysum á seinni árum, til dæmis í árásinni á Tvíburaturnana 11. september 2001, þar sem stór hluti greininga byggðist á DNA, reyndist DNA-greining illa í Thailandi vegna mikillar rotnunar.

 

G 5 Hugur og heilsa: Forvörn þunglyndis meðal ung–menna

 

Eiríkur Örn Arnarson1, William Ed Craighead2

1 Sálfræðiþjónusta Landspítala endurhæfingarsviði og læknadeild HÍ, 2 sálfræðideild Emory-háskóla, Atlanta, Georgia, Bandaríkjunum

eirikur@landspitali.is

Inngangur: Meiriháttar þunglyndiskast (major depressive episode) og óyndi (dysthymia) er algengt, hamlandi og á oftast upptök seint á táningsaldri. Allt að fjórðungur ungmenna er talin fá slíkt kast áður en framhaldskóla sleppir. Ungmenni sem upplifa meiri háttar þunglyndiskast eiga frekar á hættu endurtekin köst síðar á lífsleið. Vendipunktur fyrir þróun fyrsta þunglyndiskasts er á aldrinum 14-15 ára og um 18 ára aldur hafa 19% ungmenna þegar greinst. Há tíðni þunglyndis skiptir máli því fylgifiskar eru gjarnan önnur vandkvæði svo sem erfiðleikar í skóla, áfengis- og/eða vímuefnamisnotkun, snemmbær þungun eða sjálfsvígshætta. Lagt var mat á langtímaárangur námskeiðsins Hugur og heilsa, sem sniðið er til að koma í veg fyrir þróun þunglyndis þeirra, sem ekki hafa upplifað meiriháttar þunglyndiskast.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 171 nemandi úr 9. bekk grunnskóla, sem taldir voru í áhættu að þróa þynglyndi eða óyndi vegna margra einkenna á CDI eða neikvæðs skýringarstíls á CASQ. Þeir sem uppfylltu skilyrði fyrir þátttöku var dreift af handahófi í tilrauna- og viðmiðunarhópa. Hittust hópar í 14 skipti. Námskeið, sem stýrt var af sálfræðingum, byggðust á sálfélagslegu líkani og var farið í viðnám þátta sem taldir er tengjast þróun þunglyndis. Hugmyndafræðilega og við framkvæmd var stuðst við kenningar hugrænnar atferlismeðferðar.

Niðurstöður: Með greiningarviðtali kom í ljós við 12 mánaða eftirfylgd að þátttakendur í samanburðarhópi voru í fimmfalt meiri áhættu að þróa MDE/DYS, en þeir sem höfðu setið námskeið, Wald Chi square = 4,8; p<0,03.

Um 6% þátttakenda í tilrauna- og rúmlega 21% í samanburðarhópi höfðu þróað þunglyndi eða óyndi í 12 mánaða eftirfylgd.

Ályktanir: Niðurstöður sýna að sporna megi við þróun þunglyndis ungmenna. Ráðgert að fylgja eftir breytingum einkenna þunglyndis, skýringarstíls rannsóknarhópa í 24 mánuði í kjölfar námskeiða.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica