Ágrip erinda

Ágrip erinda

E 1 Bernard-Soulier á Íslandi. Blæðingaeinkenni og blóðflögumælingar hjá sjúklingum, arfberum og viðmiðunarhópi


Páll Torfi Önundarson1,3, Elísabet Rós Birgisdóttir1, Bylgja Hilmarsdóttir2, Brynja R. Guðmundsdóttir1, Brynjar Viðarsson1, Magnús K. Magnússon1,2

1Blóðmeinafræðideild Landspítala, 2erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 3læknadeild HÍ


brynjarg@landspitali.is


Inngangur: Bernard Soulier (BS) er sjaldgæfur arfbundinn blóðflögusjúkdómur sem einkennist af stórum blóðflögum með skerta starfhæfni vegna stökkbreytinga í viðloðunasameindinni glýkóprótein 1b alfa (GP1bα). Þessi rannsókn er gerð til að kanna arfgerð íslenskra BS-sjúklinga (BSS) og arfbera, meta blæðingaeinkenni og blóðflöguvirkni hjá sjúklingum og arfberum og bera saman við heilbrigðan viðmiðunarhóp.

Efniviður og aðferðir: Af 12 sjúklingum á Íslandi náðist í 10 ásamt 21 arfblendinn einstakling og 25 heilbrigða einstaklinga. Allir þátttakendur svöruðu spurningum um blæðingasögu. Gerðar voru eftirfarandi mælingar: Blóðhagur, storkupróf, blóðflögukekkjun, PFA-100 lokunartími, frumuflæðisjárgreining á blóðflögum og arfgerðargreining til að kanna stökkbreytingar í GP1bα.

Helstu niðurstöður: Greining BS-sjúklinga var staðfest með blóðflögukekkjun og flæðisjárgreiningu. Af 10 sjúklingum voru sjö arfhreinir, með sérstaka íslenska stökkbreytingu, T777 --> C (Cys65 --> Arg). Tveir sjúklingar voru tvíarfblendnir (compound heterozygosity), Cys65 --> Arg ásamt þekktri stökkbreytingu (Karlstad stökkbreyting), G2078 --> A (Trp 498 --> Stop). Einn sjúklingur var arfblendinn, með Karlstad stökkbreytingu og óskilgreinda BS stökkbreytingu. Af 21 arfbera, voru 14 með íslensku stökkbreytinguna, sex voru með Karlstad og einn með óskilgreinda stökkbreytingu. Eins og búast mátti við voru allir sjúklingar með stórar og fáar blóðflögur og enga tjáningu af GP1b komplex í flæðisjá og enga kekkjun með ristócetín. Miðað við viðmiðunarhóp voru BS-sjúklingar með umtalsvert meiri blæðingaeinkenni. Arfberar voru með fækkun á blóðflögun og óeðlilega stórar blóðflögur. Einnig voru þeir með marktæk blæðingaeinnkenni samkvæmt spurningarlistum þó svo að einkenni þeirra væru væg.

Ályktanir: Eins og búast mátti við voru sjúklingarnir með umtalsvert meiri slímhúðarblæðingaeinkenni, einnig óeðlilegri blæðingapróf. Einnig var áhugavert að arfberarnir voru líka með einkenni blóðflögugalla, það er aukin blæðingaeinkenni og færri og stærri blóðflögur en viðmiðunarhópur.


E 2 Aukin blæðingaeinkenni hjá heilbrigðum unglingum tengjast vægum, mælanlegum frumstorkugöllum


Brynja R. Guðmundsdóttir1, Páll Torfi Önundarson1,2

1Blóðmeinafræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ


brynjarg@landspitali.is


Inngangur: Blæðingaeinkenni eru það algeng í samfélaginu, að það er mögulegt að þau finnist fyrir tilviljun hjá fólki, sem mælist með mjög væga frumstorkugalla.

Efniviður og aðferðir: Til þess að meta hvort vægir frumstorkugallar valdi aukinni blæðingahneigð könnuðum við blæðingaeinkenni hjá hópi heilbrigðra unglinga. Síðan var undirhópur unglinga með aukin blæðingaeinkenni og samanburðarhópur rannsakaður nánar til þess að ákvarða aukna blæðingahættu, sem tengist vægri tölfræðilegri lækkun á von Willebrand þætt (von Willebrand faktor, VWF), og hjá þeim sem höfðu væga skerðingu á blóðflöguvirkni samkvæmt blóðflögukekkjun.

Helstu niðurstöður: Aukin blæðingahneigð var til staðar hjá 63 af 809 táningum (7,8%) og 48 (76%) komu til blóðrannsóknar. Af 48 komu 39 (62%) í aðra blóðprufu til að endurtaka VWF-mælinguna. Til viðmiðunar komu 162 einkennalausir í eina mælingu en 151 í tvær. Lág gildi VWF samkvæmt þremur mælingaraðferðum voru algengari hjá einkennahópnum en hinum einkennalausu, það er lág virkni ristocetin cofactors (23,1% á móti 5,3%; OR 5,3), lág kollagenbinding-virkni (15,3% á móti 4,6%; OR 3,7) og lágt VWF-prótein (25,6% á móti 6,6%; OR 4,8). Lág gildi ristocetin cofactors voru frá 35-45 U/dL nema hjá einum sem var með gildið 26 U/dL. Matshæf blóðflögukekkjun var gerð hjá 47 af 63 með blæðingahneigð (75%) og 159 einkennalausum. Væg óeðlileg kekkjun (það er óeðlileg kekkjun samtímis með ADP og epinephrini) var algengari hjá táningum sem höfðu blæðingarhneigð en hjá viðmiðunarhópnum (12,8% á móti 4,8%; OR 3,2).

Ályktanir: Táningar með vægt lækkaðan VWF og væga óeðlilega blóðflögukekkjun eru í 5,3-faldri og 3,2-faldri hlutfallslega aukinni blæðingahættu. Frekari rannsóknir eru nauðsynlegar til að geta metið nánar klíníska þýðingu þessarar áhættu.


E 3 Um notagildi PFA-100® lokunartíma við greiningu á frumstorkugöllum


Margrét Ágústsdóttir1, Brynja R. Guðmundsdóttir1, Páll Torfi Önundarson1,2

1Blóðmeinafræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ


brynjarg@landspitali.is


Inngangur: Von Willebrand sjúkdómur (VWD) og ýmsir blóðflögugallar valda afbrigðilegri blæðingahneigð vegna truflunar á myndun frumstorku. Erfitt getur reynst og kostnaðarsamt að greina þessa sjúkdóma sökum breytileika í mælingum og skorts á góðu skimprófi. Við rannsökuðum notagildi lokunartíma (closure time mælt, á Platelet function analyzer, PFA-100® frá Dade-Behring) til skimunar fyrir missvæsnum frumstorkugöllum.

Efniviður og aðferðir: Rannsakaðir voru allir þeir 266 einstaklingar, sem vísað hafði verið til rannsóknar vegna blæðingahneigðar á tímabilinu 2000 til 2005 og gerð hafði verið á fullkomin rannsókn með tilliti til blæðingahneigðarinnar. Bornar voru saman greiningar og niðurstöður lokunartíma (closure time, CT c/epi og CT c/ADP), von Willebrand þáttar (von Willebrand factor, VWF) og blóðflögukekkjunar.

Helstu niðurstöður: Lokunartímar CT c/epi og c/ADP lengjast stighækkandi við lækkandi VWF, og lengjast upp fyrir mælisvið við Bernard-Soulier heilkenni. Við aðra blóðflögugalla fer CT c/epi hækkandi eftir því hve svæsinn blóðflögugallinn er samkvæmt kekkjunarprófi en CT c/ADP lengist ekki. Mesta lengingin á CT c/epi við blóðflögugalla, aðra en Bernard-Soulier heilkenni, er eftir aspiríninntöku. Bæði CT c/epi og CT c/ADP höfðu marktæka neikvæða fylgni við VWF-virkni (mæld sem ristocetin cofactor eða kollagen bindigeta VWF).

Ályktanir: Lokunartími CT c/epi lengist stigvaxandi við vaxandi frumstorkugalla en CT c/ADP lengist aðeins við lækkun á VWF og Bernard-Soulier heilkenni. Þannig virðist CT c/ADP ef til vill vera sérstaklega næmur fyrir göllum í viðloðunareiginleikum blóðflagna (sem tengjast VWF og/eða GPIb viðtakanum á blóðflögum), en CT c/epi virðist vera næmur fyrir bæði viðloðunar- og samloðunareiginleikum.


E 4 Notkun þáttar VII við meiriháttar blæðingar í hjartaskurðaðgerðum á Íslandi


Jóhann Páll Ingimarsson1, Felix Valsson2,4, Brynjar Viðarsson3,4, Bjarni Torfason1,4, Tómas Guðbjartsson1,4

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2gjörgæslu- og svæfingadeild, 3blóðmeinafræðideild Landspítala, 4læknadeild HÍ


johapall@mi.is


Inngangur: Alvarlegar blæðingar eru þekktir fylgikvillar opinna hjartaaðgerða. Árið 1994 kom á markað rekombinant þáttur VII (recombinant factor VII, rfVII) og var lyfið fyrst og fremst ætlað sjúklingum með blæðingarsjúkdóma. Síðar var lyfið prófað við meiriháttar blæðingar í skurðaðgerðum, oft með góðum árangri. Lítið er vitað um virkni lyfsins við blæðingar í hjartaaðgerðum. Markmið þessarar afturvirku rannsóknar var að kanna ábendingar og árangur meðferðar með rFVII á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Frá nóvember 2003 til febrúar 2006 fengu 10 sjúklingar rFVII vegna meiriháttar blæðinga í eða eftir hjartaaðgerðir á Landspítala. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám og afdrif sjúklinganna skráð.

Niðurstöður: Algengustu aðgerðirnar voru ósæðarlokuskipti með eða án kransæðarhjáveitu. Meðalaldur sjúklinganna var 66 ár (36-82 ár). Tímalengd aðgerðanna að meðtöldum enduraðgerðum var 673 mínútur (bil 475-932) og tími á hjarta- og lungnavél 287 mínútur (bil 198-615). Meðalblæðing var 12.9 L (bil 9-18L) og fengu sjúklingar að meðaltali 19 einingar af rauðkornaþykkni í aðgerð (bil 5-61) og er þá ekki talið með hreinsað blóð úr hjarta- og lungnavél. Hjá níu sjúklingum stöðvaðist blæðingin eftir gjöf rFVII. Fimm sjúklingar lifðu af og útskrifuðust. Af sjúklingunum fimm sem létust, dó einn úr óstöðvandi blæðingu í aðgerð og annar sjúklingur dó úr blóðtappa í heila og í lungum.

Ályktanir: Hár aldur, alvarlegur hjartasjúkdómur og meiriháttar blæðingar (> 9L) eru einkennandi fyrir sjúklinga sem fengið hafa rfVII í hjartaaðgerð hér á landi. Í öllum tilvikum hafði önnur meðferð verið reynd og sjúklingarnir fengið mikið magn blóðhluta. Svo virðist sem rfVII sé mjög virkt lyf í að stöðva alvarlegar blæðingar í hjartaaðgerðum. Ljóst er að rannsaka þarf betur fylgikvilla rfVII-meðferðar, en lyfið gæti hafa stuðlað að myndun blóðtappa í heila og lungum hjá einum sjúklingi í þessari rannsókn.


E 5 Samanburður á segavörnum á Landspítala á árunum 1992 og 2006


Kristín Ása Einarsdóttir1, Brynja R. Guðmundsdóttir1, Páll Torfi Önundarson1,2

1Blóðmeinafræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ


brynjarg@landspitali.is


Inngangur: Árið 1992 var gerður samanburður á notkun próthrombíntíma (PT) og próthrombín-prókonvertíntíma (PP) við skömmtun K-vítamín hemla (KVH) á Landspítalanum. INR gildi reiknuð samkvæmt PP prófi reyndust algerlega sambærileg við INR samkvæmt PT og í ljósi þess hefur áfram verið skammtað eftir PP prófi. Árið 1992 var KVH skammtað af hjartalæknum og tókst að halda sjúklingum innan meðferðarmarkmiðanna INR 2,0-3,0 um 37% meðferðartímans en 51% voru innan markanna 2,0-4,5. Nær 50% meðferðartímans voru sjúklingar þynntir minna en INR 2,0. Rannsóknin 1992 leiddi einnig i í ljós, að blæðingahætta var fyrst og fremst hjá einstaklingum með INR yfir 6,0. Arið 2006 skammtaði sérhæfðt starfsfólki KVH með hjálp tölvuforritsins DAWN AC.

Efniviður og aðferðir: Árið 2006 var borin saman blóðþynning (anticoagulation intensity) þriggja sambærilegra ábendingahópa á einum tímapunkti úr rannsóknahópnum frá 1992 og úr hópi skjólstæðinga segavarna 2006. Beitt var þverskurði í rannsókninni.

Helstu niðurstöður: Sjúklingar með gáttatif voru innan markgilda INR 2,0-3,0 í 43% tilvika árið 1992 en í 65% tilvika árið 2006 (49% aukning) og sjúklingar með bláæðasega með eða án segareks til lungna í 35% á móti 65% tilvika (86% aukning). Sjúklingar með gervihjartalokur (mechanical heart valves, MHV) voru innan markgilda 2,5-3,5 í 30% tilvika 1992 á móti 51% árið 2006 (70% aukning). Séu meðferðarmarkmið víkkuð um +/- 0,2 INR-stig eru í sömu röð árið 2006 83%, 78% og 66% sjúklinga innan markgilda. Tölvuskammtar eru ýmist auknir eða dregið úr þeim í 21% tilvika við markgildin INR 2,0-3,0 en í 36% tilvika þegar markgildin eru 2,5-3,5.

Ályktanir: Árangur segavarna mældur sem blóðþynning innan marka hefur batnað verulega á tímabilinu en árangur mætti þó enn batna hjá sjúklingum með MHV. Líklegt er að DAWN AC eigi þátt í þessum árangri.


E 6 Nýburamýs geta myndað ónæmissvar gegn meningókokka B bóluefnum


Sindri Freyr Eiðsson1, Þórunn Ásta Ólafsdóttir1,2, Mariagrazia Pizza3, Rino Rappuoli3, Ingileif Jónsdóttir1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Novartis Vaccines, Siena, Ítalíu


sfel@hi.is ingileif@landspitali.is


Inngangur: Mikill fjöldi tilfella heilahimnubólgu og blóðsýkinga um allan heim á uppruna sinn að rekja til Neisseria meningitidis eða meningókokka. Dánartíðni er há og stór hluti sjúklinga lifir við varanleg örkuml í kjölfar sýkingar. Meningókokkasjúkdómur er algengastur í ungum börnum en getur komið fyrir á öllum aldri. Bóluefni eru til gegn gerðum A, C, Y og W135 en ekkert alhliða bóluefni er til gegn gerð B (MenB), sem veldur ~56% tilfella hér á landi. Genamengjarannsóknir hafa gjörbylt bóluefnisrannsóknum, en með því að skoða erfðamengi sýkla má finna vel varðveitt yfirborðstjáð meinvirk prótein og nota til að þróa bóluefni gegn sýklum sem hefur verið erfitt eða ómögulegt áður. Próteinin sem notuð voru í þessari rannsókn voru fundin með genamengjarannsóknum.

Markmið rannsóknarinnar var að meta hvort MenB próteinin GNA33, GNA1870 og NadA væru ónæmisvekjandi í nýburamúsum og hvort auka megi ónæmissvör með ónæmisglæðunum LT-K63 eða MF-59, en próteinin hafa ekki verið prófuð áður í nýburalíkani.

Efniviður og aðferðir: Nýburamýs (einnar viku gamlar) voru bólusettar undir húð (s.c.) eða un nef (i.n.) með 10 eða 2,5 µg af GNA33, GNA1870 eða NadA með/án LT-K63 eða MF-59, og endurbólusettar þriggja og fimm vikna. Mótefni í sermi voru mæld með ELISA, drápsvirkni sermis (serum bactericidal activity) verður metin.

Niðurstöður: Meinvirkniprótein MenB; GNA33, GNA1870 og NadA voru ónæmisvekjandi í nýburamúsum. Ónæmisglæðarnir LT-K63 (s.c. og i.n.) og MF-59 (s.c.) ollu marktækri hækkun í mótefnasvörun, marktæk aukning mótefna varð við hvern skammt allra próteinanna, en áhrif skammtastærða voru breytileg milli próteina.

Ályktanir: Próteinbóluefni gegn meningókokkum B eru ónæmisvekjandi í nýburamúsum. Frekari rannsóknir á próteinblöndum og ónæmisglæðum eru liður í þróun Men B bóluefna fyrir nýbura.


E 7 B-minnisfrumur sem myndast við bólusetningu gegn meningókokkum C eru langlífar


Maren Henneken1, Nicolas Burdin2, Einar Thoroddsen3, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1,4, Emanuelle Trannoy2, Ingileif Jónsdóttir1,4

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2Sanofi Pasteur, Marcy lÉtolie, Frakklandi, 3háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala, 4læknadeild HÍ


marenh@landspitali.is


Inngangur: Mikilvægt er að bólusetning veki ónæmisminni sem veitir langtímavernd gegn smitsjúkdómum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna myndun og viðhald B-minnisfrumna gegn fjölsykru (FS) Neisseria meningitides (meningókokka) af gerð C (MenC)

Efniviður og aðferðir: B-frumur voru merktar með flúrskinsmerktri MenC-FS og tíðni þeirra metin í flæðifrumusjá eftir bólusetningu fullorðinna (n=12) með MenC-FS tengdri TT (MenC-TT), ungbarna (n=21) sem fengu MenC-TT sex og átta mánaða og eldri barna sem fengu einn skammt. Tíðni MenC-FS sértækra plasmafrumna fyrir bólusetningu var mæld með ELISPOT og mótefni mæld með ELISA.

Niðurstöður: Tíðni MenC-FS sértækra B-frumna í blóði var hæst á níunda degi (0,07% fyrir og 0,29% eftir bólusetningu) og marktæk aukning var í tíðni MenC-FS-sértækra plasmafrumna. MenC-sértæk IgA mótefni voru 1,2µg/ml og 5,0µg/ml fyrir og eftir bólusetningu (P=0,002), IgG mótefni voru 1,9µg/ml og 5,4µg/ml fyrir og eftir bólusetningu (P=0,006) og hátt hlutfall IgG/IgM benti til minnissvars. Í ungbörnum sem fengu tvo skammta af MenC-TT var tíðni MenC-FS sértækra 0,16% og IgG mótefni 1,5µg/ml. Í börnum sem fengu einn skammt af MenC-TT 0,5-2 (n=15), 3-10 (n=14) eða 11-18 (n=4) ára gömul var tíðni MenC-FS sértækra B-frumna 0,12%, 0,10% og 0,08% og magn IgG mótefna var 1,3, 4,2 og 1,6 µg/ml. Langflestar MenC-FS sértækar B frumur höfðu svipgerð minnisfrumna (86,6%; 6,7-100%) og það var marktæk fylgni milli tíðni MenC-FS sértækra B-frumna og MenC-FS sértækra B-minnisfrumna (r=0,931; P<0,001).

Ályktanir: Rannsókn okkar sýnir að hægt er að greina og meta tíðni FS-sértækra B-minnisfrumna þrem árum eftir bólusetningu með próteintengdu fjölsykrubóluefni, jafnvel hjá börnum sem fengu einn skammt af bóluefni sem ungabörn. Aðferðin mun gagnast við mat á langtímaáhrifum bólusetninga.


E 8 LT-K63 og CpG2006 hafa ólík áhrif á svipgerð og virkni eitilfrumna í nýburamúsum

Þórunn Ásta Ólafsdóttir1,2, Sólveig G Hannesdóttir1,2, Giuseppe Del Giudice3, Emanuelle Trannoy4, Ingileif Jónsdóttir1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Novartis Vaccines, Siena, Ítalíu, 4Sanofi Pasteur, Marcy l’Etoile, Frakklandi


thorasta@landspitali.is ingileif@landspitali.is


Inngangur: Fjölsykrur er hægt að tengja við burðarprótín og breyta þeim þannig í T-frumu óháðan ónæmisvaka sem getur vakið ónæmissvar í nýburum. Hins vegar er ónæmissvarið lægra en í fullorðnum og því þörf á að finna örugga ónæmisglæða sem geta aukið ónæmissvar nýbura. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman áhrif LT-K63 og CpG2006 á ónæmissvar nýburamúsa.

Efniviður og aðferðir: Nýburamýs voru bólusettar með pneumókokkafjölsykrum af hjúpgerð 1, sem tengt var við tetanus toxoid (Pnc1-TT), með eða án LT-K63 og CpG2006. Mótefni gegn fjölsykruhluta bóluefnisins voru mæld með ELISA og T-frumusvör metin með boðefnaseytun og frumufjölgun eftir in vitro örvun með TT, prótínhluta bóluefnisins. Sýning ónæmisvaka og geta CD19+ B-frumna til að örva T-frumur var metin með litun fyrir MHCII, CD80, CD86 og CD40 og skoðun í FACS tæki.

Niðurstöður: Bæði LT-K63 og CpG2006 juku IgG mótefnasvar nýburamúsanna (p<0,001 og p=0,007) miðað við ef Pnc1-TT var gefið án ónæmisglæðis. Miltisfrumur úr músum bólusettum með Pnc1-TT og LT-K63 svöruðu TT örvun in vitro með aukinni frumufjölgun (P=0,01), IFN- (P=0,005), IL-4 (P=0,005), IL-5 og IL-10 (P=0,007) seytun miðað við hóp sem fékk Pnc1-TT án ónæmisglæða. Frumur úr músum sem fengu Pnc1-TT og CpG2006 sýndu einungis aukna IL-10 (p<0,001) seytun. B-frumur músa sem fengu Pnc1-TT með LT-K63 eða CpG2006 juku tjáningu á MHCII (p<0,005) og CD86 (P<0,005 og P<0,05) en CD40 var einungis aukið á B-frumum músa sem fengu LT-K63 (P<0,05) eftir in vitro örvun með TT. B-frumur músa sem fengu LT-K63 voru með hærri tjáningu á MHCII, CD86 og CD40 en þeirra sem fengu CpG2006 (P=0,008, P<0,001, P=0,009) eða engan ónæmisglæði (P=0,018, P=0,015, P=0,009).

Ályktanir: Bæði LT-K63 og CpG2006 auka ónæmissvar nýbura gegn Pnc1-TT þó svo þeir virki á mismunandi hátt.


E 9 Átfrumur úr miltum músa sem fengu fiskolíu í fæði auka IL-4 myndun miltisfrumna


Dagbjört Helga Pétursdóttir, Ingibjörg Harðardóttir

Lífefna- og sameindalíffræðistofa, læknadeild HÍ


dhp@hi.is ih@hi.is


Inngangur: Fiskolía í fæði dregur úr frumufjölgun og IL-2 myndun T-frumna eftir örvun með eitilfrumuræsum. Við höfum áður sýnt að fiskolía í fæði minnkar TNF- og IFN- myndun en eykur hins vegar IL-4 myndun miltisfrumna eftir örvun með eitilfrumuræsum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig fiskolía hefur þessi áhrif.

Efniviður og aðferðir: Miltisfrumur voru einangraðar úr BalbC músum sem fengið höfðu fæði bætt með fiskolíu eða kornolíu í fjórar vikur. T-frumur og átfrumur sem tjá CD11b voru einangraðar og ræktaðar sitt í hvoru lagi, saman, eða saman með innleggi til að koma í veg fyrir snertingu átfrumna og T-frumna. Frumurnar voru örvaðar með mótefnum gegn CD3 og CD28. Styrkur frumuboða í floti var mældur með ELISA aðferð.

Niðurstöður: Fiskolía í fæði jók IL-4 myndun miltisfrumna (T-frumur og átfrumur ræktaðar saman) eftir örvun með mótefnum gegn CD3 og CD28. Hins vegar hafði fiskolía í fæði ekki áhrif á IL-4 myndun einangraðra T-frumna. Fiskolía í fæði músa jók fjölda CD11b jákvæðra átfrumna í miltum. Einangraðar CD11b jákvæðar átfrumur úr milta mynduðu ekki IFN- eða IL-4 eftir örvun með mótefnum gegn CD3 og CD28. Þegar T-frumur voru ræktaðar með CD11b jákvæðum átfrumum jókst IL-4 myndun frumna úr músum sem fengið höfðu fiskolíu borið saman við IL-4 myndun frumna úr músum sem fengið höfðu kornolíu. Sama var hvort frumurnar voru ræktaðar með eða án snertingar (innlegg á milli T-frumna og átfrumna).

Ályktanir: CD11b jákvæðar átfrumur úr miltum músa sem fengu fiskolíu auka IL-4 myndun miltisfrumna mögulega með því að seyta leysanlegum þætti sem hefur áhrif á T-frumur.


E 10 Mótefnasvar og ónæmisminni aukast við bólusetningu nýburamúsa með próteintengdum meningókokkafjölsykrum C ef ónæmisglæðirinn LT-K63 er gefinn með


Siggeir F. Brynjólfsson1,2, Stefanía P. Bjarnarson1,2, Giuseppe Del Giudice3, Ingileif Jónsdóttir1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Novartis Vaccines, Siena, Ítalíu


siggeir@landspitali.is ingileif@landspitali.is


Inngangur: Ónæmiskerfi nýbura einkennist af vanþroska. Því er brýnt að þróa bólusetningarleiðir sem hámarka vernd gegn smitsjúkdómum, sértstaklega í nýburum. Meningókokkar, sem geta valdið heilahimnubólgu og blóðsýkingu, eru gott dæmi um slíkan sýkil. Nýburamúsalíkan fyrir pneumókokkasýkingar hefur verið aðlagað að bólusetningu gegn meningókokkum. Þar sem meningókokkar sýkja ekki mýs, er verndandi virkni í sermi eftir bólusetningu metin in vitro sem drápsvirkni sermis (serum bactericidial activity, SBA). Verndandi áhrifum próteintengdra MenC bóluefna hefur verið lýst í unglingum og ungbörnum en þau hafa ekki verið gefin nýburum.

Markmið rannsóknarinnar var að meta hæfni próteintengds fjölsykrubóluefnis gegn meningókokkum af gerð C (MenC-CRM197) til að vekja ónæmissvar í nýburamúsum. Áhrif ónæmisglæðisins LT-K63 og mismunandi bólusetningaleiða voru einnig könnuð.

Efniviður og aðferðir: Nýburamýs (einnar viku gamlar) voru frumbólusettar með MenC-CRM með eða án LT-K63, undir húð (s.c.) eða um nef (i.n.) og endurbólusettar 16 dögum síðar með MenC-CRM með eða án LT-K63, MenC fjölsykru, LT-K63 eða saltvatni eftir sömu leið. Mótefni voru mæld með ELISA og minnismyndun metin. Eftir er að mæla SBA.

Niðurstöður: MenC-CRM var lítt ónæmisvekjandi, en LT-K63 jók ónæmisvarið marktækt gagnvart MenC-CRM bæði við bóluetningu s.c. og i.n. Endurbólusetning með MenC-CRM og LT-K63 kallaði fram sterkt ónæmissvar og mikla aukningu í IgG mótefnamagni, sem gefur til kynna að minnisfrumur hafi myndast við frumbólusetningu. Endurbólusetning með fjölsykru og LT-K63 gaf slakt mótefnasvar.

Ályktanir: Rannsóknin sýndi að ónæmisglæðirinn LT-K63 eykur mótefnasvar og ónæmisminni gegn MenC-CRM í nýburamúsum, bæði við bólusetningu s.c. og i.n., og bendir til að hægt sé að þróa örugga og öfluga leið til bólusetningar nýbura gegn meningókokkum C.


E 11 Fyrstu sýnilegar breytingar í Sveinssons æðu- og sjónhimnurýrnun eru yst í taugavef sjónhimnu


Friðbert Jónasson

Augndeild Landspítala


sirrybl@landspitali.is


Inngangur: Kristján Sveinsson augnlæknir lýsti fyrstur allra þessum sjúkdómi og sýndi fram á ríkjandi erfðir. Við höfum nú fundið genið sem veldur sjúkdómnum. Tilgangur núverandi rannsóknar er að finna þær frumur þar sem sjúkdómurinn byrjar, en slíkt er æskilegt ef huga skal að meðferð.

Efniviður og aðferðir: Við rannsökuðum átta sjúklinga með Sveinssons æðu- og sjónhimnurýrnun á mismunandi stigi og skiptum í þrjá flokka. Við notuðum til þessa æðamyndatöku og sneiðmyndatöku af augnbotnum, skynjunareðlisfræðilegar rannsóknir svo sem svæðisbundna sjónsviðsmælingu og svæðisbundin sjónhimnurit.

Niðurstöður: Myndir, sneiðmyndir og æðamyndir af sjónhimnu benda til þess að fyrst verði breytingar í ysta hluta taugalags sjónhimnu, en breytingar í litþekju, innri taugalögum sjónhimnu og æðuhimnu komi síðar. Þetta er einnig staðfest með ofannefndum raflífeðlisfræðilegum rannsóknum og skynjunareðlisfræðilegum rannsóknum.

Ályktanir: Fyrstu breytingar í Sveinssons sjónu- og æðahimnurýrnun virðist vera í ysta hluta stafa og keilna.


E 12 Lyfjagjöf í bakhluta augans með örkornum


Þorsteinn Loftsson1, Einar Stefánsson2, Fífa Konráðsdóttir1, Dagný Hreinsdóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2læknadeild HÍ, augndeild Landspítala


thorstlo@hi.is


Inngangur: Sjúkdómar í bakhluta augans er helsta orsök blindu en jafnframt er lyfjameðhöndlun slíkra sjúkdóma oftast mjög erfið þar sem mjög erfitt er að ná fram læknisfræðilegri þéttni lyfs í bakhluta augans eftir staðbundna lyfjagjöf. Því verður oft að sprauta lyfjunum beint inn í augað, eða gefa þau í töflum, en slíkar lyfjagjafir eru oft óhentugar, áhættusamar og valda tíðum aukaverkunum. Markmið þessa verkefnis er að auðvelda staðbundna lyfjagöf til bakhluta augans með gjöf augndropa sem innihalda örkorn.

Efniviður og aðferðir: Örkorn sem innihalda geislamerkt dexametasón í fléttu með γ-sýklódextríni voru mynduð. Kornin voru gefin kanínum og dreifing lyfsins í auga ákvörðuð tveimur tímum eftir gjöf augndropanna. Til samanburðar var dreifing lyfsins í lausn sem innihélt sýklódextrín rannsökuð á sama hátt í kanínum. Augndroparnir voru gefnir í vinstra auga (n=8 (örkorn); n=6 (lausn)) en styrkur lyfs mældur tveimur tímum seinna í báðum augum og að auki í blóði. Magn lyfs sem náði frá yfirborði augans til bakhlutans var fengið með því að draga það magn sem fannst í hægra auga frá magninu sem fannst í vinstra auga

Niðurstöður: Styrkur dexametasóns í „vitreous“ fór úr 18 ng/g fyrir lausnina í 25 ng/g fyrir örkornin og úr 9 ng/g í 28 ng/g í sjónu (retina). Magn í blóði fór úr 45±24 ng/g (meðal±SD) fyrir lausnina í 10±7 ng/g fyrir örkornin.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að með lyfjagjöf í sýklódextrínörkornum megi auka lyfjagjöf til bakhluta augans og minnka magn lyfs sem fer frá yfirborði augans inn í blóðrásina.


E 13 Þáttur ependymins í endurvexti sjóntaugar gullfiska


Marteinn Þór Snæbjörnsson, Sigurjón B. Stefánsson, Finnbogi R. Þormóðsson

Rannsóknastofa í líffærafræði, læknadeild HÍ


finnbogi@hi.is


Inngangur: Sjóntaug gullfisks endurnýjast fullkomlega eftir að hún hefur verið sködduð. Þessi eiginleiki hverfur með þróun hryggdýra og nánast engin endurnýjun á sér stað í sködduðu miðtaugakerfi spendýra. Endurvöxtur sjóntaugar í gullfiski er hér til skoðunar með sérstöku tilliti til utanfrumupróteinanna ependymins, en sýnt hefur verið fram á umtalsverða aukningu í framleiðslu þeirra við endurvöxt sjóntaugarinnar. Við höfum mótefnalitað sjóntaugar í endurnýjun, með mótefni gegn ependymins til að skoða samband próteinanna og taugarinnar. Auk þess er hafinn undirbúningur að því að meta breytingu á tjáningu próteinanna með magnbundinni PCR-greiningu og staðsetja tjáningu þeirra með in situ þáttapörun.

Efniviður og aðferðir: Gullfiskar (Carassius auratus) eru deyfðir í 0,4% MS222 og síðan er hægri sjóntaugin skert með því að fara á bakvið augað með flísatöng og kremja taugina. Eftir mislangan endurvaxtartíma (eina til fjórar vikur) eru sýni undirbúin til frystiskurðar á hefðbundinn hátt og mótefnalituð fyrir ependymins. Lituð sýni eru síðan skoðuð undir hefðbundinni smásjá, auk þess sem confocal smásjá er beitt. Einnig er RNA einangrað úr sjóntaug og sjónhimnu til að meta tjáningu ependymins með magnbundinni PCR-mælingu, bæði í eðlilegum vef og við endurvöxt. Að lokum hafa þreifarar verið útbúnir til að staðsetja ependymins tjáninguna með in situ þáttapörun. Tilraunadýranefnd hefur veitt leyfi fyrir þessum rannsóknum.

Niðurstöður: Smásjárskoðun á mótefnalituðum vefjasýnum sýnir töluverða uppsöfnun á ependymins í nánasta umhverfi vaxandi sjóntaugar.

Ályktanir: Áður hefur verið sýnt fram á aukna nýmyndun ependymins próteinanna í endurvexti sjóntaugar í gullfiski. Hér er sýnd uppsöfnun próteinanna í nánum tengslum við endurnýjaða taug.

Þakkir: Styrkt af Rannsóknasjóði HÍ.


E 14 Sveinssons æðu- og sjónhimnurýrnun, fyrsta vefjarannsókn á auga


Friðbert Jónasson1, Sverrir Harðarson1, Björn Már Ólafsson2, Gordon K. Klintworth3

1Læknadeild HÍ, 2St. Jósefsspítali Hafnarfirði, 3augndeild Duke-háskólans, Durham, North Carolina


sirrybl@landspitali.is


Inngangur: Við segjum frá fyrstu og einu vefjarannsókn á auga með Sveinssons æðu- og sjónhimnurýrnun, en þessum sjúkdómi var fyrst lýst af Kristjáni Sveinsyni augnlækni.

Efniviður og aðferðir: Gerð var smásjárrannsókn á auga 82 ára gamals einstaklings sem vitað var að hafði haft sjúkdóminn að minnsta kosti frá 10 ára aldri. Greiningin hafði verið staðfest með myndatökum og æðamyndatökum 20 árum fyrr og einnig verið staðfest með erfðafræðirannsóknum, þar sem stökkbreytt gen fannst. Með tilliti til næsta skrefs og hugsanlegrar lækningar er mikilvægt að vita í hvaða frumutegund sjúkdómurinn byrjar.

Niðurstöður: Á svæðum þar sem sjúkdómurinn var á hæsta stigi var ytri hluti taugalags og litþekjulag sjónhimnu algerlega horfið og einnig æðar æðuhimnu. Á svæðum þar sem virtist vera um byrjandi breytingar að ræða sáust fyrst og fremst breytingar á mörkum ljósnema og litþekju. Utan svæðanna sem voru með augljósar skemmdir virtist sjónhimnan eðlileg.

Ályktanir: Mildustu og líklega fyrstu breytingarnar vegna þessa sjúkdóms virðast verða á mörkum ljósnema og litþekju, en æðar æðuhimnu og innri taugafrumur sjónhimnu skemmast síðar.


E 15 Þáttur adrenergra viðtaka í stjórnun blóðflæðis í sjónhimnu


Svanborg Gísladóttir, Þór Eysteinsson, Stefán B. Sigurðsson

Lífeðlisfræðistofnun, læknadeild HÍ


stefsig@hi.is


Inngangur: Hlutverk adrenergra viðtaka á sléttum vöðvum í stjórnun á blóðflæði í sjónhimnu augans var kannað.

Efniviður og aðferðir: Slagæðlingabútar, einangraðir úr sjónhimnu kýraugans voru notaðir í tilraununum. Æðlingarnir voru settir upp í svokölluðum mygraph (15 ml að rúmmáli) sem hefur innbyggðan tognema sem skráir samdrætti smárra æða. Æðlingarnir voru í lífeðlisfræðilegri saltlausn við 37oC, stöðugt súrefnisflæði og pH 7,4. Lyfjum var bætt út í baðið eftir því sem við átti og samdráttarviðbrögð æðlinganna skráð.

Niðurstöður: Áhrif ósérhæfðu adrenergu agonistanna, adrenalíns og noradrenalíns (virkja bæði alfa og beta viðtaka) voru athuguð og ollu bæði efnin samdrætti í æðaveggnum með skammtaháðum viðbrögðum.

Áhrif alfa agonista voru skoðuð. Þegar ósértækur (DHE) og sértækur alfa1 agonisti (cirazólín) voru skoðaðir kom fram skýr samdráttur þegar efnunum var bætt í líffærabaðið. Sértækur alfa2 agonisti (klonidín) hafði aftur á móti engin áhrif. Ósértækur alfa antagonisti (fentólamín) og sértækur alfa1 antagonisti (korinantín) hindruðu marktækt þau samdráttaráhrif sem fengust með noradrenalíni og cirazoline. Hinsvegar hafði sértækur alfa2 antagonisti (yohimbín) engin hindrunaráhrif.

Áhrif beta agonista bæði ósértækra (ísópróterenól) og sértækra beta2 (terbútalín) voru einnig skoðuð og fengust ekki marktæk samdráttar né slökunaráhrif. Ósértækir beta antagonistar (própranólól og timólól) hindruðu hins vegar samdráttaráhrif noradrenalíns.

Ályktanir: Þessar niðurstöður gefa til kynna að noradrenalín, adrenalín, DHE og cirazólín miðli samdráttaráhrifum sínum gegnum alfa1 viðtaka á sléttum vöðvum í sjónhimnuslagæð. Alfa antagonistarnir fentólamín og korinantín hindra þessi viðbrögð. Beta viðtakar eru sennilega ekki til staðar og sú slökun sem fæst með beta antagonistum verkar líklega með öðrum hætti en með hindrun beta viðtaka.


E 16 Fylgni bólgumiðilsins C3 við áhættuþætti kransæðasjúkdóms


Perla Þorbjörnsdóttir1, Karólína Einarsdóttir1, Sigurður Þór Sigurðarson2, Sigurður Böðvarsson2, Guðmundur Þorgeirsson2, Guðmundur Jóhann Arason1

1Rannsóknastofnun Landspítala, ónæmisfræðideild, 2lyfjadeild Landspítala

garason@landspitali.is


Inngangur: Magnakerfið er einn öflugasti bólgumiðill mannslíkamans og kemur við sögu í meinþróun kransæðasjúkdóms. Styrkur magnaþáttar C3 hefur sýnt fylgni við suma áhættuþætti í erlendum rannsóknum en mikið skortir þó á að öll kurl séu komin til grafar.

Efniviður og aðferðir: Skoðaðir voru 74 íslenskir sjúklingar með hjartaöng (angina pectoris), 84 með innlögn vegna hjartaáfalls, 109 með fyrri sögu um kransæðastíflu og 132 heilbrigðir. Efnaskiptaheilkenni (metabolic syndrome) var greint ef þrír eftirfarandi þátta voru til staðar: sykursýki eða hár fastandi blóðsykur (pre-DM) (>6,1 mmól/L), háþrýstingur (>130/85 mmHg), lágt HDL-kólesteról (HDLC) (<1,04 mmól/L í körlum og 1,29 mmól/L í konum), há fastandi þríglýseríð (>1,69 mmól/L) og ofþyngd (LÞS >25). C3 var mælt með rafdrætti í mótefnageli.

Niðurstöður: Í viðmiðunarhópi var styrkur C3 hærri í efnaskiptaheilkenni (p<0,001) og fólki með hækkuð þríglýseríð (p<0,001), ofþyngd (p=0,002), háþrýsting (p=0,019), sykursýki (p=0,076 - NS) eða HDLC-lækkun (0,188 - NS). Fylgni var milli C3 styrks og líkamsþyngdarstuðuls (r=0,359; p=0,02). Samanburður viðmiðunarhóps og sjúklinga sýndi að C3 gildi voru hækkuð í hjartaöng (p=0,035), kransæðastíflu (p<0,001) og í sjúklingum sem höfðu lifað af fyrri kransæðastíflu (p=0,004), en þessi hækkun var bundin við þann hluta sjúklingahópsins sem uppfyllti skilyrði efnaskiptaheilkennis (p<0,001). Tíðni efnaskiptaheilkennis var hærri (p=0,005) í kransæðasjúkdómi (53%) en viðmiðunarhópi (24%) og efnaskiptasjúkdómur við komu hafði sterkt forspárgildi fyrir síðari greiningu kransæðasjúkdóms (p<0,001).

Ályktanir: Styrkur C3 sýnir fylgni við efnaskiptaheilkenni og einstök skilmerki hans, og getur hugsanlega spáð fyrir um kransæðasjúkdóm síðar meir.


E 17 Samband stærðar og staðsetningar hjartadrepa, mælt með segulómun, og kalkmagns í kransæðum, mælt með tölvusneiðmyndun (TS)


Gyða S. Karlsdóttir1, Andrew Arai2, Sigurður Sigurðsson1, Milan Chang1, Thor Aspelund1, Guðný Eiríksdóttir1, Lenore Launer3, Jie J. Cao2, Tamara B. Harris3, Robert Detrano4, Vilmundur Guðnason1

1Hjartavernd, 2IRP, National Heart, Lung and Blood Institute, Bethesda, USA, 3IRP, National Institute on Aging, Bethesda, USA, 4Harbor - UCLA Medical Center Torrance, USA


gyda@hjarta.is


Inngangur: Hjarta- og æðasjúkdómar eru í dag algengasta dánarorsök mannkyns. Með þeim rannsóknaraðferðum sem til eru í dag er nú hægt að greina stærð og staðsetningu hjartadrepa með mikilli nákvæmni með segulómun. Þá hafa mælingar á magni kalks í kransæðum með tölvusneiðmyndun verið í þróun síðustu 10 ár. Markmiðið með þessari rannsókn er að kanna hvort samband er á milli magns og dreifingu kalks í kransæðum greint með tölvusneiðmyndun og stærðar og staðsetningar hjartadrepa greint með segulómun.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur í þessarri rannsókn höfðu allir tekið þátt í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar sem er framhald af Reykjavíkurrannsókninni. Í tilviljunarkenndu úrtaki voru 708 þátttakendur og niðurstöður fyrir 408 eru í þessari rannsókn, 224 konur og 184 karlar á aldrinum 68 til 89 ára, meðalaldur 76 (staðalfrávik ±5,3 ár). Allir þátttakendur fóru í tölvusneiðmyndun og segulómun af hjarta og var 17 hluta líkanið notað til að skrá staðsetningu hjartadrepanna.

Niðurstöður: Níutíu og þrír þátttakendur greindust með hjartadrep með segulómun, 55 karlar og 38 konur. Miðhlutfall (geometric mean) af Agatston stigum (95% CI) fyrir þá sem greinudst með hjartadrep var 593,2 (422,2-833,3), karlar; 985,9 (747,1-1301,4) og konur; 284,3 (143,9-561,9). Miðhlutfall af Agatston stigum fyrir þá sem greindust ekki með hjartadrep var 126,5 (97,2-164,54), karlar; 276,0 (200,0-380,6) og konur; 73,5 (50,8-106,1). Þátttakendur með hjartadrep tengt öllum þrem stóru kransæðunum (n=24) greindust með meira kalk; 1137,6 (718,1-1802,1) en þeir sem greindust með hjartadrep tengt einni kransæð (n=42) 404,9 (219,5-747,2) (p<0,05). Auk þess voru þeir þátttakendur sem greindust með hjartadrep í einum eða tveimur hlutum (n=35) samkvæmt 17 hluta líkaninu, með minna kalk; 326,4 (161,4-660,0) en þeir sem greindust með hjartadrep í þremur eða fleiri hlutum (n=58); 850,6 (613,7-1178,7) (p<0,05).

Ályktanir: Einstaklingar með hjartadrep hafa marktækt meira kalk í kransæðum, borið saman við þá sem ekki eru með hjartadrep. Einnig hafa þátttakendur sem greindust með hjartadrep sem tengjast þrem stærstu kransæðunum meira kalk en þeir með hjartadrep sem tengdust einni eða tveimur kransæðum.


E 18 Áhætta á dauðsföllum af völdum hjarta- og æðasjúkdóma hjá öldruðum borin saman við áhættu miðaldra fólks. Reykjavíkurrannsóknin

Bolli Þórsson1, Thor Aspelund1 Gunnar Sigurðsson1,2,3, Vilmundur Guðnason1,3

1 Hjartavernd, 2 Landspítali, 3 læknadeild HÍ

bolli@hjarta.is


Inngangur: Áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma virðast breytast með aldri. Við rannsökuðum því hvaða áhættuþættir nýtast til að meta líkur á dauðsföllum af völdum hjarta- og æðasjúkdóma hjá einstaklingum 70 ára og eldri og bárum þá saman við áhættuþætti miðaldra fólks.

Efniviður og aðferðir: Áhættuþættir fyrir dauða af völdum hjarta- og æðasjúkdóma hjá 515 körlum og 825 konum 70 ára og eldri sem komu í Reykjavíkurrannsóknina á árunum 1991-1996 voru kannaðir. Þeir voru bornir saman við áhættuþætti miðaldra fólks, byggt á niðurstöðum 6.173 karla og 6.818 kvenna á aldrinum 36-64 ára sem komu í fyrri stig rannsóknarinnar frá 1967.

Helstu niðurstöður: Fyrir einstaklinga 64 ára og yngri reyndust sterkustu áhættuþættirnir fyrir dauðsföllum af völdum hjarta- og æðasjúkdóma vera kólesteról, systólískur blóðþrýstingur (SBÞ) og reykingar, líkt og hjá öðrum Evrópuþjóðum í svokölluðu European SCORE project. Auk þess var sykursýki mikilvægur þáttur HR=1,7 (1,4-2,1).

Hjá eldra fólki var kólesteról ekki marktækur áhættuþáttur. Systólískur blóðþrýstingur reyndist aðeins vera áhættuþáttur ef tekið var tillit til blóðþrýstingsmeðferðar og taka þurfti tillit til fyrri reykinga þegar reykingar voru metnar. Sykursýki var enn sterkur áhættuþáttur HR=1,6 (1,1-2,2). Aðrir áhættuþættir sem voru sterkari í eldra fólki voru prótein í þvagi (þvagstrimill) HR=1,4 (1,0-2,0) og hvíldarpúls hraðari en 80 HR 1,5 (1,1-2,2), auk þess sem líkamleg hreyfing var verndandi HR=0,6 (0,5-0,9).

Ályktanir: Áhættuþættir aldraðra fyrir dauðsföllum af völdu hjarta- og æðasjúkdóma eru ólíkir áhættuþáttum yngra fólks. Hefðbundnir áhættuþættir hætta sumir að hafa forspárgildi eða vægi þeirra minnkar. Aðrir áhættuþættir koma fram sem nýtast við áhættumat fyrir eldra fólk.


E 19 Langtímanotkun kvenhormóna og tengsl við magn kalks í kransæðum og staðfests kransæðasjúkdóms í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar (AGES)


Aðalsteinn Guðmundsson1,2, Miran Chang1, Thor Aspelund1, Vilmundur Guðnason1, Gunnar Sigurðsson1,2

1 Hjartavernd, 2Landspítali


adalstg@landspitlai.is


Inngangur: Óvissa ríkir um forvarnargildi langtímanotkunar kvenhormóna eftir tíðahvörf með tilliti til hjarta- og æðasjúkdóma í kjölfar bandarísku Womens Health Initiative rannsóknarinnar. Markmið þessarar rannsóknar er að meta tengsl langtímanotkunar kvenhormónsins estradíóls við magn kalks í kransæðum og staðfests kransæðasjúkdóms hjá eldri konum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknarþýðið er 1.108 konur á aldrinum 67-84 ára meðal fyrstu 2.300 þátttakenda í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar tímabilið 2002-2003. Hópur kvenna (n=85) sem hafði tekið estradíól (E2) lengur en fimm ár var borinn saman við hóp (n=814) sem hafði enga fyrri sögu um notkun kvenhormóna og hóp (n=209) sem hafði fyrri sögu um notkun kvenhormóna. Helstu áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma voru bornir saman milli rannsóknarhópa. Kalkmagn í kransæðavegg var metið samkvæmt Agatston-stuðli með tölvusneiðmyndatækni. Tilurð kransæðasjúkdóms var metin útfrá skráningu Hjartaverndar á staðfestri sögu um hjartadrep, kransæðavíkkanir og -hjáveituaðgerðir til ársloka 2004.

Helstu niðurstöður: Langtímanotendur estradíóls voru marktækt (p<0,05) yngri (72,4 ára) en þær sem höfðu notað kvenhormón áður (74,4 ára) eða aldrei (75,9 ára). Eftir aldurleiðsréttingu voru áhættuþættir kransæðasjúkdóma sambærilegir milli hópanna nema gildi kólesteróls sem var lægra (p<0,05) í estradíóls-hópi. Kalkmagn í kransæðum var marktækt lægra (20) í estradíóls-hópi (p<0,001) borið saman við fyrri notendur (113) og þeirra sem hafði enga fyrri sögu (159) um notkun kvenhormóna. Ekki var munur (p=0,90) á tíðni kransæðasjúkdóms á milli hópanna.

Ályktanir: Sterk tengsl eru á milli langtímanotkunar estradíóls og minna magns kalks í kransæðum eldri kvenna. Hins vegar virðist langtímanotkun estradíóls ekki draga marktækt úr tíðni staðfests kransæðasjúkdóms í þessum sama hópi.


E 20 Greining endurþrengsla í stoðnetum kransæða með klínísku einkennamati og áreynsluþolprófi


Sandra Dís Steinþórsdóttir1, Sigurdís Haraldsdóttir2, Karl Andersen1, 2

1Læknadeild HÍ, 2hjartadeild Landspítala


sandras@hi.is


Inngangur: Kransæðavíkkun með stoðnetsísetningu er árangursrík meðferð við kransæðaþrengslum. Þrátt fyrir góðan árangur víkkana verða endurþrengsli í stoðneti í allt að 20-30% tilfella innan fjögurra til sex mánaða og takmarkar það verulega meðferðarárangur. Hluti þessara endurþrengsla er án einkenna. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hversu vel áreynsluþolpróf og klínískt einkennamat segja til um hvort endurþrenging í stoðneti hafi orðið.

Efniviður og aðferðir: Úrtakið var 36 sjúklingar sem allir komu til kransæðavíkkunar með stoðnetsísetningu í fyrsta sinn. Þeir voru skoðaðir að hálfu ári liðnu með klínísku einkennamati, sem byggðist á hjartalínuriti og einkennum um áreynslutengda brjóstverki, og með áreynsluþolprófi á þrekhjóli þar sem leitað var að hjartalínuritsbreytingum sem benda til endurþrengsla. Að lokum voru endurþrengsli í stoðnetum metin með kransæðaþræðingu.

Niðurstöður: Meðalaldur sjúklinganna var 62,59,1 ár. Tvær konur (5,6%) og 34 karlar, með samtals 61 stoðnet, voru rannsökuð. Klínískt einkennamat reyndist hafa 11,1% næmi, 81,5% sértæki, 16,7% spágildi jákvæðs prófs og 73,3% spágildi neikvæðs prófs. Áreynsluþolprófin reyndust hafa 33,3% næmi, 55,6% sértæki, 20,0% spágildi jákvæðs prófs og 71,4% spágildi neikvæðs prófs. Jákvæð fylgni mældist milli áreynsluþolprófs og klínísks einkennamats (R=0,661). Hittni áreynsluþolprófa var 50% en klíníska einkennamatsins 63,9%.

Ályktanir: Hvorki klínískt einkennamat né áreynsluþolpróf eru áreiðanleg til að meta endurþrengingu í stoðnetum kransæða, áreynsluþolprófin hafa þó heldur skárra næmi. Neikvætt spágildi prófanna er gott en jákvætt spágildi er lélegt. Áreynsluþolpróf eru oftar falskt jákvæð en klínískt einkennamat.


E 21 Magnakerfið gegnir hlutverki í meinþróun fæðumiðlaðs kransæðasjúkdóms


Perla Þorbjörnsdóttir1, Ragnhildur Kolka1, Eggert Gunnarsson2, Slavko H. Bambir2, Guðmundur Þorgeirsson3, Girish J. Kotwal4, Guðmundur Jóhann Arason1

1Rannsóknastofnun Landspítala, ónæmisfræðideild, 2Tilraunastofa HÍ í meinafræði að Keldum, 3lyfjadeild Landspítala, 4University of Cape Town, Höfðaborg


garason@landspitali.is


Inngangur: Æðakölkunarsjúkdómur er ein aðal orsök hjarta- og æðasjúkdóma og er aðal dánarorsökin um allan heim, að undanskildri Afríku sunnan Sahara. Algengi sjúkdómsins er 85% hjá fólki um fimmtugt og sjúkdómurinn á sök á yfir 30% dauðsfalla í heiminum öllum. Kransæðasjúkdómur er þrálátur bólgusjúkdómur. Magnakerfið er einn öflugasti bólgumiðill mannslíkamans og gæti því komið við sögu í meinþróun kransæðasjúkdóms. Í þessari rannsókn voru áhrif magnahindrans VCP (vaccinia virus complement control protein) athuguð í músalíkani.

Efniviður og aðferðir: Fiturákir voru framkallaðar í kvenkyns C57BL/6 músum með fituríku fæði í 15 vikur og saltvatni eða magnahindranum VCP (20 mg/kg) sprautað í æð á viku 8-15 (sex mýs hvor hópur). Til samanburðar voru þrjár mýs sem fengu venjulegt fæði og voru sprautaðar með saltvatni. Æðaskemmdir (sem hlutfall af umfangi æðar) voru metnar með smásjárskoðun á ósæð eftir litun með "oil-red-O", og bornar saman með aðstoð Leica Qwin forrits. Til athugunar voru sneiðar teknar af 280μm bili við upptök ósæðar (fjórða hver sneið) samkvæmt aðferð Paigen og félaga (Atherosclerosis 1987; 68: 231-240).

Niðurstöður: Greinilegar vefjaskemmdir mynduðust í músum sem fengu fituríkt fæði og voru sprautaðar með saltvatni (0,75% ósæðar). Þær einkenndust af samsöfnun fitu og átfrumna í innri lögum æðarinnar (tunica intima/media). Marktækt minni fiturákir (0,41% ósæðar) mynduðust hjá músum sem fengu 20 mg/kg VCP (p=0,004). Engar skemmdir sáust í æðum músa sem fengu venjulegt fæði (0,04% ósæðar).

Ályktanir: Hindrun magnakerfis hefur marktæk áhrif á fæðumiðlaðan kransæðasjúkdóm í músalíkani.


E 22 Áhrif fisk- og fiskolíuneyslu á blóðfitur. Íhlutandi rannsókn á þyngdartapi meðal of þungra einstaklinga


Ingibjörg Gunnarsdóttir1, Helgi Tómasson2, Mairead Kiely3, J. Alfredo Martinéz4, Narcisa M. Bandarra5, Maria G. Morais6, Inga Þórsdóttir1

1Rannsóknastofa í næringarfræði Landspítal og matvæla- og næringarfræðiskor HÍ, 2viðskipta- og hagfræðideild HÍ, 3Department of Food and Nutritional Sciences, University College Cork, Írlandi, 4The Department of Physiology and Nutrition, University of Navarra, Spáni, 5The National Research Institute on Agriculture and Fisheries Research, Lissabon, Portúgal, 6Faculty of Medical Sciences of Lisbon, Portúgal


ingigun@landspitlai.is


Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif af fiskneyslu á blóðfitur í íhlutandi rannsókn á þyngdartapi.

Efniviður og aðferðir: Alls hófu 324 karlar og konur (20-40 ára) frá Íslandi, Spáni og Írlandi þátttöku. Líkamsþyngdarstuðul (LÞS) þeirra var á bilinu 27,5-32,5 kg/m2. Íhlutun stóð yfir í átta vikur. Dagleg orka sem þarf til að halda óbreyttri þyngd var metin fyrir hvern þátttakanda í upphafi íhlutunarinnar og hver einstaklingur fékk matseðil sem svaraði 30% orkuskerðingu. Þátttakendum var af handahófi skipt í fjóra rannsóknarhópa: 1) viðmiðunarhópur (sólblómaolíuhylki, hvorki fiskur né fiskiolíur), 2) þorskhópur (þrisvar í viku 150g af þorski), 3) laxhópur (þrisvar í viku 150g af laxi), 4) fiskolíuhópur (DHA/EPA hylki, enginn fiskur). Mælingar á styrk kólesteróls, LDL og HDL, þríglýceríða (TG) auk líkamsmála voru gerðar við upphaf og lok íhlutunar.

Helstu niðurstöður: Lækkun á heildarkólesteróli var meiri í þorskhópnum (-0,2 mmól/L; p=0,047) heldur en í viðmiðunarhópnum, þegar tekið hafði verið tillit til upphafsgildis, kyns og þyngdartaps. Lækkun í heildarkólesteróli í þorskhópi var að hluta til hægt að skýra með lækkun í HDL fremur en LDL. HDL lækkun virtist minni í þeim hópum sem fengu langar n-3 fitusýrur (laxhópur og fiskolíuhópur). Lækkun í logTG var mest í laxhópnum og marktækt meiri en í viðmiðunarhópi (munur milli hópanna -0,062 í logTG; p=0,004). Lækkun logTG í þorskhópi og fiskolíuhópi var sambærileg en á mörkum þess að vera tölfræðilega marktækt frábrugðin viðmiðunarhópi, eftir að leiðrétt hafði verið fyrir áhrifum þyngdartaps.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að fiskur og fiskolíur geti haft jákvæð áhrif á blóðfitur og séu mikilvægur hluti af fæði sem notað er til að framkalla þyngdartap.


E 23 Fiskolía í fæði músa eykur fjölda frumna í milta sem mynda TNF- og IL-10, fækkar frumum í kviðarholi sem mynda IL-10 en eykur TNF- myndun hverrar kviðarholsátfrumu


Dagbjört Helga Pétursdóttir, Ingibjörg Harðardóttir

Lífefna- og sameindalíffræðistofa, læknadeild HÍ


dhp@hi.is ih@hi.is


Inngangur: Fiskolía í fæði hefur áhrif á ónæmissvar, meðal annars á frumuboðamyndun. Við höfum áður sýnt að fiskolía í fæði músa hefur mismunandi áhrif á frumuboðamyndun át- og eitilfrumna og átfrumna frá mismunandi svæðum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig fiskolía hefur áhrif á TNF- og IL-10 myndun átfrumna úr milta og kviðarholi.

Efniviður og aðferðir: Miltis- og kviðarholsátfrumur voru einangraðar úr BalbC músum sem höfðu fengið fæði bætt með fiskolíu eða kornolíu í fjórar vikur. Fjöldi frumna sem mynda TNF- og IL-10 var metinn með ELISpot aðferð og fjöldi frumna sem tjá LPS viðtaka próteinið, CD14, með því að meðhöndla frumur með FITC merktu mótefni gegn CD14 og greiningu í frumuflæðisjá.

Niðurstöður: Fleiri frumur úr miltum músa sem fengu fiskolíu í fæði mynduðu TNF- og IL-10 en úr miltum músa sem fengu kornolíu. Fiskolía hafði ekki áhrif á meðal TNF- og IL-10 myndun hverrar miltisfrumu. Á hinn bóginn fækkaði fiskolía IL-10 myndandi frumum í kviðarholi músa án þess að hafa áhrif á meðal IL-10 myndun hverrar frumu. Ennfremur jók fiskolía meðal TNF-ccccc myndun hverrar kviðarholsátfrumu án þess að hafa áhrif á fjölda frumna í kviðarholi sem mynda TNF-. Hliðstætt við áhrif hennar á fjölda frumna úr milta sem mynda TNF- og IL-10 og fjölda frumna úr kviðarholi sem mynda IL-10 jók fiskolía fjölda miltisfrumna sem tjá CD14 en fækkaði kviðarholsfrumum sem tjá CD14.

Ályktanir: Fiskolía í fæði músa getur annars vegar haft áhrif á frumuboðamyndun hverrar frumu sem skýrist líklega af innlimun ómega-3 fitusýra í frumuhimnur og áhrifum þeirra á starfsemi frumunnar. Hins vegar getur fiskolía í fæði músa haft áhrif á fjölda frumna sem mynda ákveðna frumuboða, líklega með áhrifum á íferð frumna í vef og/eða þroskun og sérhæfingu frumna í vefjum.


E 24 Áhrif þyngdartaps og fiskneyslu á leptínstyrk í blóði


Alfons Ramel1, Mairead Kiely2, J. Alfredo Martinéz 3, Inga Þórsdóttir1

1Rannsóknarstofa í næringarfræði Landspítala og Háskóli Íslands, 2Department of Food and Nutritional Sciences, University College Cork, Írlandi, 3The Department of Physiology and Nutrition, University of Navarra, Spáni


alfons@landspitali.is


Inngangur: Leptín getur haft áhrif á háþrýsting og æðakölkun í ofþungum einstaklingum. Það eru bein tengsl milli leptíns í blóði og líkamsfitu. Íhlutandi rannsóknir á samspili þyngdartaps og fiskmetisneyslu vantar. Markmið rannsóknarinnar var því að kanna áhrif þyngdartaps og fiskneyslu á leptínstyrk í blóði.

Efniviður og aðferðir: Alls hófu 324 karlar og konur (20-40 ára) frá Íslandi, Spáni og Írlandi þátttöku. Líkamsþyngdarstuðull þeirra var á bilinu 27,5-32,5 kg/m2. Íhlutun stóð yfir í átta vikur. Dagleg orka sem þarf til að halda óbreyttri þyngd var metin fyrir hvern þátttakanda í upphafi íhlutunarinnar og hver einstaklingur fékk matseðil sem samsvaraði 30% orkuskerðingu. Þátttakendum var af handahófi skipt í fjóra rannsóknarhópa: 1) viðmiðunarhópur (sólblómaolíuhylki, hvorki fiskur né fiskiolíur), 2) þorskhópur (þrisvar í viku 150g af þorski), 3) laxhópur (þrisvar í viku 150g af laxi), 4) fiskolíuhópur (DHA/EPA hylki, enginn fiskur). Mælingar á leptíni í blóði auk líkamsmælinga voru gerðar við upphaf og lok íhlutunar. Tvíhliða ANCOVA var notuð til að meta áhrif þátta á leptín.

Niðurstöður: Leptínstyrkur í blóði í upphafi rannsóknar var hærri í konum en í körlum (38,2±18,2 á móti 13,4±5,5; P<0,001). Leptínstyrkur í blóði lækkaði meðan á íhlutun stóð, meira í konum en í körlum (leptín = 12,5±12,9 á móti 5,7±4,6; P<0,001), líka ef tillit var tekið til magns fitutaps (leptín/fituprósenta = 8,41±28,08 á móti 2,26±6,21; P<0,001). Það var jákvæð fylgni milli leptínlækkunarinnar og líkamsfituprósentu í upphafi og einnig milli leptínlækkunar og fitutaps meðan á íhlutun stóð. Hvorki fisk né lýsisneysla höfðu áhrif á leptínlækkun.

Ályktanir: Leptínstyrkur í blóði lækkar meðan á megrun stendur, en meira í konum en í körlum. Hvorki fisk- né lýsisneysla í hófi hafa áhrif á leptínlækkun meðan á megrun stendur.


E 25 Tengsl ómega-3 fitusýrunnar DHA í fæðu við minni í Alzheimers músalíkani


Anna Lilja Pétursdóttir1, Susan A. Farr2, William A. Banks2, John E. Morley2, Guðrún V. Skúladóttir1

1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2Geriatric Research Education and Clinical Center (GRECC), VA Medical Center, St. Louis, Missouri, USA


gudrunvs@hi.is


Inngangur: Ómega-3 fjölómettaða fitusýran dókósahexaensýra (DHA, 22:6n-3), sem kemur aðallega úr sjávarfangi, er lífsnauðsynleg fyrir eðlilegan þroska og starfsemi miðtaugakerfisins. Í gráa hluta heilans er fitusýran DHA um 50% af fitusýrum í fosfólípíðum (FL), sem er aðal byggingarefni frumuhimnu. SAMP8 músastofninn er talinn vera gott líkan fyrir Alzheimers sjúkdóm. Snemma á lífsleiðinni tapa mýsnar námsgetu og minni, sem meðal annars er talið orsakast af auknu oxunarálagi fjölómettaðra fitusýra í frumuhimnum í hippókampus músanna. Nýlegar rannsóknir gefa til kynna að aukið magn DHA og E-vítamíns í heila geti dregið úr oxunarálagi. Tilgangurinn var að kanna hvort aukin neysla DHA hefði áhrif á magn DHA og E-vítamíns í frumuhimnum í heila eldri SAMP8 músa og á námsgetu og minni þeirra.

Efniviður og aðferðir: Tíu mánaða gömlum músum var gefið fóður, sem innihélt annað hvort lítið (L-DHA) eða mikið magn af DHA (H-DHA). Tveimum mánuðum síðar var minnisgeta þeirra könnuð í T-laga völundarhúsi. Hippókampus og amygdala svæðum heilans var síðan safnað og þau fitudregin með klóróform-metanól blöndu. Gerðir FL í fituefni heilasýnanna voru aðskilin á þunnlagsskilju og fitusýrur þeirra aðgreindar í gasgreini. E-vítamín í fituefni var einangrað úr heilasýnunum með EtOH-hexan blöndu og mælt í vökvagreini (HPLC).

Niðurstöður: DHA úr fóðrinu skilaði sér inn í himnu FL heilasýnanna. Hjá músunum, sem fengu H-DHA fóður var meira (P<0,05) DHA í himnu FL heilasýna og betri (P<0,01) námsgeta og minni en hjá þeim sem fengu L-DHA fóður. Enginn munur var á styrk E-vítamíns í heilasýnunum milli fóðurhópanna.

Ályktanir: Niðurstöður Alzheimers músalíkansins styðja tilgátuna um að DHA í fæðu auki magn DHA í heila og dragi úr námstregðu og minnisleysi.


E 26 Tengsl ómega-3 fitusýra í rauðum blóðkornum á fyrri hluta meðgöngu og hlutfalls fylgju- og fæðingarþyngdar


Anna R. Magnúsardóttir1, Laufey Steingrímsdóttir2, Hólmfríður Þorgeirsdóttir2, Arnar Hauksson3, Guðrún V. Skúladóttir1

1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2Lýðheilsustöð, 3Miðstöð mæðraverndar


arm@hi.is


Inngangur: Ómega-3 fitusýran EPA er forveri prostaglandíns af gerð 3 sem er æðavíkkandi og minnkar seigju blóðs og eykur því blóðflæði. DHA er önnur ómega-3 fitusýra sem er nauðsynleg til þroskunar miðtaugakerfis fósturs. Fóstrið er háð því að fá þessar fitusýrur frá móðurinni um fylgjuna. Næring fósturs á fyrri hluta meðgöngu er ekki síður mikilvæg en seinna á meðgöngunni því þá eru líffæri fóstursins að þroskast, og talið er að skert blóðflæði um fylgju á þessu skeiði geti haft afleiðingar fyrir heilsu einstaklingsins seinna á ævinni. Hlutfall fylgju- og fæðingarþyngdar hefur verið notað til að meta hvort um ofvöxt fylgju er að ræða (hypertrophy), en ofvöxtur getur orðið þegar blóðflæði um fylgju er skert. Hlutfallið hefur lítt verið skoðað þegar meðganga er eðlileg og nýburi heilbrigður.

Efniviður og aðferðir: Fitusýrusamsetning rauðra blóðkorna (RBK) var ákvörðuð hjá 86 heilbrigðum barnshafandi konum við 11.-15. viku meðgöngu. Konurnar svöruðu spurningalistum um neyslu og lífsstíl. Upplýsingum um útkomu meðgöngunnar var safnað og allar þær konur sem áttu í vandamálum tengdum meðgöngu eða fæðingu voru útilokaðar.

Niðurstöður: Um neikvæða fylgni var að ræða milli ómega-3 fitusýra í rauðum blóðkornum og hlutfalls fylgju- og fæðingarþyngdar (r=-0,27; P=0,013; n=86) eftir að leiðrétt var fyrir meðgöngulengd, þannig að því hærri sem hlutur ómega-3 fitusýra var í rauðum blóðkornum kvennanna, því léttari var fylgjan miðað við þyngd nýburans. Fylgnin var mun sterkari hjá þeim konum sem hvorki tóku lýsi né ómega-3 hylki/lýsisperlur (r=-0,48; P<0,001; n=53). Kyn barns og lífsstíll móður hafði engin áhrif.

Ályktanir: Þessi rannsókn bendir til þess að það séu tengsl milli hærri hluts ómega-3 fitusýra í rauðum blóðkornum á fyrri hluta meðgöngu og betra blóðflæðis um fylgju.


E 27 Alkalóíðar úr íslenskum jafnategundum (Lycopodium), andkólínesterasaverkun in vitro


Elsa Steinunn Halldórsdóttir, Elín Soffía Ólafsdóttir

Lyfjafræðideild HÍ


esh2@hi.is


Inngangur: Jafnar eru lágplöntur sem framleiða áhugaverð efnasambönd, alkalóíða, sem sýnt hafa hindrandi verkun á asetýlkólínesterasa ensímið, og gætu því reynst áhugaverð sem hugsanleg lyf við Alzheimers sjúkdómi. Yfir 500 tegundir jafna vaxa víðsvegar í heiminum, en aðeins fimm þeirra hér á landi. Þeir eru lyngjafni, mosajafni, litunarjafni, skollafingur og burstajafni. Meginmarkmið rannsóknarinnar voru tvíþætt. Í fyrsta lagi að rannsaka alkalóíðainnihald í íslenskum jafnategundum, einangrun alkalóíða og byggingarákvörðun þeirra. Í öðru lagi að kanna andkólínesterasavirkni þessara alkalóíða.

Efniviður og aðferðir: Notaðar voru þrenns konar súluskiljunaraðferðir til einangrunar á alkalóíðum og við sannkenningu þeirra var stuðst við prótónu- og kolefniskjarnsegulróf (NMR). Mæling á andkólínesterasavirkni var framkvæmd á efnablöndum og hreinum efnum einangruðum úr jafnategundunum með hjálp sérhæfðar þunnlagsskiljunar- (TLC-) aðferðar.

Niðurstöður: Frumrannsóknir sýndu að íslenskir jafnar innihalda fjölda alkalóíða. Einangraðir voru þrír alkalóíðar úr lyngjafna og reyndust þeir vera annotinin, annotin og annotin N-oxíð. Í rannsóknum á verkun efnanna á asetýlkólínesterasa sýndu alls sex efni hindrandi verkun samkvæmt TLC-aðferð. Tveir þeirra eru annotin og annotin N-oxíð, en annotinin sýndi ekki virkni. Annotin og annotin N-oxíð hafa einungis fundist í lyngjafna og hefur asetýlkólínesterasaverkun þessara alkalóíða ekki verið líst fyrr.

Ályktanir: Lyngjafni inniheldur lýkópódíum alkalóíða sem hemja asetýlkólínesterasa en einnig alkalóíða sem hemja ekki ensímið. Áhugavert er að rannsaka frekar samband milli byggingar og vikni þessara alkalóíða.


E 28 Taugasækni mæði-visnuveirunnar


Valgerður Andrésdóttir, Þórður Óskarsson, Hulda S. Hreggviðsdóttir, Sigurður Ingvarsson

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum


valand@hi.is


Inngangur: Mæði-visnuveiran (MVV) tilheyrir flokki lentiveira og er því náskyld eyðniveirunni (HIV). Veiran veldur aðallega lungnasjúkdómi, en oft veldur hún einnig heilabólgu, og var taugasjúkdómur (visna) aðaleinkenni í sumum kindahjörðum, þegar veiran gekk hér á landi á árunum 1933-1965. Sett hefur verið fram sú tilgáta, að sumir MVV-stofnar séu heilasæknari en aðrir og hafa slíkar tilgátur einnig verið settar fram varðandi HIV-stofna. Í fyrra verkefni fannst endurtekin núkleótíðröð í LTR (long terminal repeat) MVV sem gerði það að verkum að veirurnar gátu vaxið í æðaflækjufrumum, liðþelsfrumum og fíbróblöstum auk átfrumna, sem eru aðal markfrumur veirunnar in vivo. Vel getur verið að veirurnar þurfi að geta vaxið í öðrum frumugerðum en átfrumum til þess að komast inn í heila. Í þessu verkefni voru MVV-stofnar úr mæðilungum og visnuheilum úr faraldrinum 1933-1965 rannsakaðir með tilliti til endurtekinna raða í LTR. Líklegt er að á þessu svæði séu efliraðir sem umritunarþættir úr frumunni þekkja og var þessum mismunandi LTR-svæðum skeytt framan við merkigen á tjáningarplasmíði til þess að komast að því hvort þau stjórnuðu mismikillli tjáningu í hinum ýmsu frumugerðum.

Efniviður og aðferðir: LTR DNA úr vaxkubbum frá 1949-1965 var magnað upp með PCR og raðgreint. Fjögur heilasýni og átta lungnasýni voru raðgreind. Einnig var LTR með og án tvöföldunar sett framan við luciferasagen á tjáningarplasmíði og æðaflækjufrumur eða liðþelsfrumur genaleiddar með þessum plasmíðum og magn lúsiferasa mælt.

Niðurstöður: Endurtekin núkelotíðröð fannst í LTR úr veirustofnum sem einangraðir voru úr visnuheilum, en slík tvöföld röð fannst ekki í stofnum sem voru einangraðir úr mæðilungum. Hins vegar fannst ekki munur á tjáningu í æðaflækjufrumum hvort sem röðin var einföld eða tvöföld. Niðurstöðurnar styðja því þá kenningu að heilasækni mæði-visnuveiru tengist stofnum sem geta vaxið í öðrum frumum en átfrumum, en stjórn tjáningar er líklega á litnings DNA.


E 29 Tíðni sýkinga og afföll af völdum Loma branchialis (Microsporidia) í eldi þorskseiða


Matthías Eydal
, Árni Kristmundsson, Slavko H. Bambir, Sigurður Helgason

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum


meydal@hi.is


Inngangur: Undanfarin ár hefur eldi á þorski verið stundað við Ísafjarðardjúp. Seiði á fyrsta aldursári eru veidd og alin í strandkerjum frá hausti til næsta vors og þá flutt í sjókvíar til eldis í sláturstærð. Fylgst hefur verið með sýkingum af völdum sníkjudýra, sveppa og baktería. Loma branchialis, sem er innanfrumusníkill (sníkjusveppur) sem sýkir tálkn, milta og fleiri líffæri, hefur valdið hvað mestum afföllum í eldinu. Náttúruleg sýkingartíðni í seiðum í Ísafjarðardjúpi er 5-10%.

Efniviður og aðferðir: Fylgst var sýkingum í seiðaárgöngum 2002 og 2003. Samhliða voru alin jafngömul þorskseiði af eldisuppruna, ýmist sér eða í bland með villiseiðunum í strandeldinu, en alltaf í blönduðu eldi í sjókvíum. Tekið var tilviljanakennt úrtak fiska og deyjandi fiskar rannsakir sérstaklega.

Niðurstöður: Afföll af völdum Loma sýkinga komu fram eftir fjögurra til fimm mánaða eldi, en einungis í veiddum seiðum og tíðni sjúklegra breytinga jókst smám saman. Eftir sex mánaða eldi í sjókvíum, náði sýkingartíðni um það bil 60% í bæði fiskum af villtum uppruna og eldisuppruna. Næstu sex mánuði lækkaði tíðnin í 36% í villifiski og 17% í eldisseiðum, trúlega vegna affalla. Tíðni var mun lægri í eldisfiskum sem voru aldir sér í byrjun, 8% og 18% eftir sex og níu mánuði í kvíum. Vefjabreytingar sáust í tálknum og fleiri líffærum, fiskarnir urðu dökkir og vesluðust upp.

Ályktanir: Afföll á sérhverjum tíma voru ekki mikil vegna Loma sýkinga, en sýkingar voru viðvarandi allan eldisferilinn, en heildarafföllin umtalsverð yfir tveggja til þriggja ára eldistímabil. Rannsóknin staðfestir að smit berst auðveldlega milli fiska í sama keri. Besta framtíðarlausnin væri að nota eingöngu fiska af eldisuppruna í þorskeldi.

Þakkir: Verkefnið er styrkt af AVS sjóði Sjávarútvegsráðuneytisins.


E 30 Notkun nýrra aðferða við greiningu á riðu í kindum


Stefanía Þorgeirsdóttir, Jóna Aðalheiður Aðólfsdóttir, Marianne Jensdóttir

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.


stef@hi.is


Inngangur: Á árinu 2005 var byrjað að nota elísupróf (ELISA) til riðuskimunar í heilbrigðu sláturfé á Tilraunastöðinni að Keldum í stað hefðbundinnar vefjalitunar. Slík fljótvirk próf eru notuð í flestum löndum Evrópu til að skima fyrir kúariðu auk riðu í kindum, bæði í heilbrigðum dýrum og áhættuhópum. Virkt eftirlit með þessum sjúkdómum er nú skylda í öllum Evrópusambandslöndum.

Efniviður og aðferðir: Árlega eru prófuð um 3.000 sláturhúsasýni úr fullorðnu fé, auk sýna sem koma til prófunar vegna gruns um riðu. Í elísuprófinu er magn riðusmitefnis (PrPSc) í heilasýnum mælt með einstofna mótefnum (TeSeE kit, Bio-Rad). Elísuskimunin er næmari en vefjameinafræðileg skoðun og getur einnig numið óhefðbundin riðuafbrigði. Til að staðfesta riðusmit, ef sýni er jákvætt í elísuprófi, er notað próteinþrykk (western blot) og með því er einnig hægt að greina mun á riðuafbrigðum.

Niðurstöður: Um 5.000 sláturhúsasýni hafa verið prófuð með elísu og reyndust þau öll vera neikvæð fyrir riðusmiti. Hins vegar hefur riða greinst á þremur bæjum síðan 2005, í öllum tilvikum í kindum með sjúkleg einkenni. Nokkrar jákvæðar kindur til viðbótar fundust í þessum þremur hjörðum. Við rannsókn á riðuhjörð frá 2004, þar sem hafði greinst Nor98 riðuafbrigði, fannst einnig eitt jákvætt sýni til viðbótar upprunalega riðutilfellinu, en sjaldgæft er að finna fleiri en eina jákvæða kind í slíkum hjörðum.

Ályktanir: Til að taka upp þessa nýju aðferð við riðuskimun var komið upp sérstakri rannsóknaraðstöðu á Keldum, þar sem eingöngu er unnið að rannsóknum á riðu. Riðusmitefnið er afar þolið og því nauðsynlegt að halda því á einangruðu svæði. Með næmari aðferð getum við hugsanlega fundið fleiri tilfelli og fyrr á sjúkdómsferlinum þannig að smit út frá hverju tilfelli verður minna. Þessi nýja aðferð gæti þannig flýtt fyrir útrýmingu riðusjúkdómsins á Íslandi.


E 31 Greining nýrnaveiki í laxfiskum


Sigríður Guðmundsdóttir, Sigurður Helgason, Árni Kristmundsson

Rannsóknadeild fisksjúkdóma, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum


siggag@hi.is


Inngangur: Nýrnaveikibakterían, Renibacterium salmoninarum, getur sýkt allar tegundir laxfiska bæði í fersku vatni og sjó. Hún smitast milli einstaklinga og frá kynslóð til kynslóðar í sýktum hrognum. Fiskurinn getur borið smit í langan tíma áður en einkenna verður vart og bakterían lifað vikum saman í umhverfinu. Sjúkdómurinn veldur erfiðleikum í eldi laxfiska víða um heim. Hérlendis olli nýrnaveiki miklu tjóni í laxeldi á árunum 1986-1991. Upp úr þeim faraldri kom til skjalanna umfangsmikið eftirlit með nýrnaveiki í klakfiski og milli 1992 og 2003 var smit einungis greint í stöku tilfellum, einkum í villtum klakfiski og matfiski í eldi. Árið 2003 greindist bakterían í seiðaeldisstöð og síðan hefur hún greinst í laxi, bleikju og regnbogasilungi í alls 14 eldisstöðvum.

Efniviður og aðferðir: Öll greiningarpróf voru gerð á nýrnasýnum úr laxfiskum. ELISA prófi, sem greinir prótein-mótefnavaka á bakteríunni, var beitt á flot úr öllum nýrnasýnum. Greiningarhæfni mismunandi mótefna í ELISA prófum var könnuð. Þá var notað próf sem litar bakteríuna með flúrljómandi mótefni (DFAT) og PCR greining (nemur kjarnsýrubúta) gerð á hluta sýnanna.

Helstu niðurstöður og ályktanir: Næmi greiningarmótefna í ELISA prófum var mjög breytilegt. Einnig var talsvert misræmi milli ELISA prófa og PCR greininga. Næmi DFAT var mun minna. Nauðsynlegt er að prófa fleiri nýrnasýni auk annarra sýna svo sem hrognavökva og tálknsýna, með að minnsta kosti tvenns konar PCR greiningum og bera saman við ELISA próf. Þetta er mikilvægt bæði vegna krafna frá Alþjóðadýraheilbrigðisstofnuninni, OIE, og til að hafa tiltækt næmt próf sem hægt er að beita á smáan fisk. Nauðsynlegt er að afla meiri vitneskju um líffræði bakteríunnar, samspil hennar við hýsilinn og skilgreina kosti og galla einstakra aðferða á ólíkum stigum sýkingarinnar.


E 32 Próteinmengjagreining í þorsklirfum (Gadus morhua)


Hólmfríður Sveinsdóttir, Ágústa Guðmundsdóttir

Raunvísindastofnun Háskólans


holmfrs@hi.is


Inngangur: Markmið verkefnisins var að aðlaga þekktar aðferðir próteinmengjagreininga að rannsóknum á próteinmengi lirfa Atlantshafsþorsk (Gadus morhua) og kennigreina helstu prótein próteinmengis þeirra. Með rannsóknunum verður lagður grunnur að upplýsingum um mikilvæg lífefnaferli í frumþroska þorsks.

Efniviður og aðferðir: Þorsklirfusýni til próteinmengjagreininga voru tekin á 24. degi eftir klak í tilraunaeldisstöð Hafrannsóknarstofnunarinnar í Grindavík. Próteinextrakt úr samsettu þorsklirfusýni var greint með tvívíðum rafdrætti (2DE) og próteinmengið greint með tölvuhugbúnaði. Próteinmagn í sérhverjum depli var staðlað með tilliti til heildarpróteinmagns á geli. Meðalpróteinmagn í depli (n=3) var notað til ákvörðunar á helstu próteinum próteinmengis þorsklirfa. Áhugaverðir deplar (próteinmagn ≥0,5% af heildarmagni próteins á geli) voru sneiddir út úr geli, meltir með trypsíni og peptíðin greind með MALDI-TOF massagreiningu. Peptíðmassarófin voru nýtt við leit í gagnabönkum sem innihalda skilgreind prótein.

Niðurstöður: Fjöldi greindra próteindepla á 2DE geljunum með jafnhleðslupunkt á bilinu pH 4-7 og mólmassa frá 6,7-97,3 kDa var 425 til 445. Próteinmagn einstakra greindra depla á geljunum var 0,002-19,2%. Alls innihéldu 25 próteindeplar ≥0,5% af heildarmagni próteins á geli. Tuttugu próteindeplar voru kennigreindir, þar af fannst samsvörun við fimm skilgreindum þorskpróteinum. Níu af kennigreindu próteindeplunum voru vöðvaprótein.

Ályktanir: Fjöldi greindra próteindepla á 2DE geljum (425-445) sem og kennigreiningarhlutfall upp á 80% staðfesta að aðferðirnar henta vel til rannsókna á próteintjáningu þorsklirfa. Niðurstöður úr kennigreiningum (9 vöðvaprótein) sýna að á þennan hátt mætti fá mikilvægar upplýsingar um þroskun stoðkerfis en vansköpun er algengt vandamál í lirfueldi.


E 33 Innbyggðar varnir gegn lentiveirum


Katrín Ólafsdóttir, Sigríður Rut Franzdóttir, Ólafur S. Andrésson, Valgerður Andrésdóttir

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum


katrino@hi.is


Inngangur: Á síðustu árum er sífellt að koma betur í ljós að lífverur hafa komið sér upp ýmsum vörnum gegn veirusýkingum. Veirurnar hafa á hinn bóginn þróað tæki til að komast hjá þessum vörnum. Nýlega hefur komið fram að mannafrumur hafa prótein sem eyðileggur erfðaefni retróveira jafnóðum og það myndast með því að afamínera cýtósín í uracil í einþátta DNA. Þetta prótein nefnist APOBEC3G. Lentiveirur hafa komið sér upp mótleik við þessu, sem er próteinið Vif, sem eyðileggur þennan afamínasa. Rannsóknir okkar á Vif úr mæði-visnuveiru hafa leitt í ljós að það sama gerist í kindafrumum. Í fyrri rannsókn voru nokkrar stökkbreytingar innleiddar í vif gen mæði-visnuveiru. Breytingar bæði á C- og N-helmingi Vif próteinsins höfðu áhrif á sýkingarhæfni veiranna sem rekja mátti til aukinnar tíðni G-A stökkbreytinga í veirunum en þær eru vísbendingar um afamíneringu cytidíns. Ein innleidd breyting á C-helmingi Vif hafði engin áhrif ein og sér en dró úr sýkingarhæfni veiranna þegar hún var klónuð í veiru með breytt hylkisprótein (CA-Vif). Í þessu verkefni var kannað hvort minnkuð sýkingarhæfni þessarar veiru væri vegna afamíneringar.

Efniviður og aðferðir: Kinda-fósturliðþelsfrumur voru sýktar með CA-Vif stökkbreyttri veiru og 428 basa bútur úr innlimuðu veiru-DNA var magnaður upp með PCR, klónaður og raðgreindur. Þrjátíu og sex klónar voru raðgreindir, það er 14.400 basar í heildina.

Niðurstöður og ályktanir: Veirur með þessar stökkbreytingar í CA og Vif urðu ekki fyrir afamíneringu. Niðurstöðurnar benda því til þess að Vif gegni fleiri en einu hlutverki og að fleiri frumuþættir en cytidín deamínasar komi þar við sögu.


E 34 Alvarleiki og fylgikvillar ífarandi meningókokkasýkinga á Íslandi


Ingi Karl Reynisson1, Helga Erlendsdóttir2, Magnús Gottfreðsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2sýklafræðideild og 3lyflækningadeild Landspítala


ikr@hi.is


Inngangur: Ífarandi sýkingar af völdum meningókokka (Neisseria meningitidis) eru gríðarlegt heilsufarsvandamál um allan heim. Settar hafa verið fram kenningar um síðbúna sjálfsofnæmiskvilla í kjölfar sýkinga með meningókokkum af hjúpgerð B. Við gerðum afturvirka rannsókn þar sem könnuð voru klínísk einkenni, alvarleiki sjúkdóms og fylgikvillar hjá þeim sem greindust með ífarandi sýkingu af völdum meningókokka á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Sjúkraskrár þeirra einstaklinga sem höfðu greinst með ífarandi sýkingu af völdum meningókokka á Íslandi á árunum 1975 til 2004 voru skoðaðar. Enn fremur leituðum við handvirkt að síðbúnum sjálfsofnæmisfylgikvillum og leituðum að sjálfsofnæmissjúkdómum með leit í ICD 9 og ICD 10 kóðum.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu greindust 562 einstaklingar með 566 tilfelli af ífarandi meningókokkasýkingum. Skoðaðar voru sjúkraskár 538 einstaklinga. Þar af voru 400 börn (meðalaldur 4,7 ár) og 138 fullorðnir (meðalaldur 32,3 ár). Meirihluti einstaklinga greindist með heilahimnubólgu, eða 62,5% en 33,6% einstaklinga greindust með blóðsýkingu. Meðaltal GMSPS skors hjá börnum sem lifðu var 1,9 en 8,3 hjá þeim sem létust (p<0,05). Meðaltal APACHE II skors hjá fullorðnum sem lifðu var 8,4 en 20,5 hjá þeim sem létust (p<0,05). Dánartíðnin hélst óbreytt á rannsóknartímabilinu. Tíðni langtímafylgikvilla var 8,7%. Algengasti fylgikvilli var heyrnarskerðing og drep í húð.

Niðurstöður: Dánartíðni einstaklinga með ífarandi meningókokkasýkingu er svipuð hér á landi og hefur verið lýst annars staðar. Sterk tengsl eru milli klínískra einkenna við innlögn og dánartíðni, bæði á meðal barna og fullorðinna. Tíðni langtímafylgikvilla er há. Engin tengsl fundust milli sýkinga með hjúpgerð B og síðbúinna sjálfsofnæmiskvilla.


E 35 Arfgerðagreining methicillín ónæmra Staphylococcus aureus (MÓSA) á Íslandi


Hjördís Harðardóttir1, Ólafur Guðlaugsson2, Þóra Rósa Gunnarsdóttir1, Gunnsteinn Æ. Haraldsson1, Karl G. Kristinsson1

1Sýklafræðideild og 2sýkingavarnadeild Landspítala


hjordish@landspitali.is


Inngangur: Fram til ársins 2000 var tíðni Staphylococcus aureus (MÓSA) lág hér á landi, eða frá engu til fimm tilfella (sýktir eða sýklaðir einstaklingar) á ári. Þetta breyttist með tilkomu þriggja faraldra, á árunum 2000 (þrjú tilfelli), 2001 (10 tilfelli) og 2002-03 (37 tilfelli). Ekki hafa orðið neinir MÓSA-faraldrar síðan og fór fjöldi tilfella niður í átta árið 2004 en árin 2005 og 2006 má aftur merkja greinilega aukningu í fjölda MÓSA-tilfella, sem sum hver tengjast beint (allt að fjórir einstaklingar í hverjum hópi). Þrátt fyrir þetta teljast MÓSAr enn sjaldgæfir á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Allir MÓSAr, sem greinast á Íslandi eru sendir til sýklafræðideildar Landspítala til staðfestingar og frekari rannsókna. Á tímabilinu frá 1. janúar 2000 til 30. september 2006 greindust 154 nýir einstaklingar með MÓSA á Íslandi. MÓSA-stofnar frá 142 þeirra voru tiltækir til arfgerðagreiningar. Beitt var “Pulsed Field Gel Electrophoresis” (PFGE) aðferð, samkvæmt aðferðarlýsingu Murchan og félaga (2003, HARMONY). Samanburður PFGE-mynstra fór fram með tölvuhugbúnaðinum BioNumerics.

Niðurstöður: Sérhver faraldursstofnanna þriggja reyndist hafa sitt sérstaka PFGE-mynstur og greindust þau ekki utan faraldranna. Hinir stofnarnir voru af margvíslegum arfgerðum og engin ein þeirra ríkjandi, jafnvel þó innfluttar arfgerðir væru undanskildar. PFGE-niðurstöðurnar leiddu í ljós mikinn fjölda áður óþekktra tenginga á milli tilfella, sem faraldsfræðin ein og sér hafði ekki afhjúpað.

Ályktanir: Ofangreindar niðurstöður kalla á nánari faraldsfræðilega eftirgrennslan og undirstrika mikilvægi stofnagreininga svo sem PFGE sem hjálpartækja við faraldsfræðilega uppvinnslu og eftirlit með MÓSA-tilfellum. Stefnt er að því að bera PFGE-mynstur íslensku stofnanna saman við erlenda gagnagrunna og að gera PCR fyrir PVL, SCCmec flokkun og Spa-greiningu.


E 36 Ífarandi sýkingar af völdum pneumókokka á Íslandi 1975-1995


Sandra Halldórsdóttir1, Helga Erlendsdóttir1,2, Magnús Gottfreðsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2sýklafræðideild og 3lyflækningadeild Landspítala


sah3@hi.is magnusgo@landspitali.is


Inngangur: Streptococcus pneumoniae (pneumókokkar) eru algengasta orsök lungnabólgu og næstalgengasta orsök heilahimnubólgu af völdum baktería hérlendis. Faraldsfræði ífarandi pneumókokkasýkinga hefur verið rannsökuð víða um heim en fáar rannsóknir hafa náð til heillar þjóðar.

Efniviður og aðferðir: Rannsókn þessi náði yfir tímabilið 1975-1995. Farið var yfir sjúkraskrár þeirra einstaklinga sem greinst höfðu með ífarandi pneumókokkasýkingar og legið á sjúkrahúsum hér á landi. Skráðar voru ítarlegar upplýsingar úr sjúkraskrám, þar með talin APACHE II eða PRISM III stig, meðferð og horfur.

Niðurstöður: Á þessu 21 árs tímabili, greindist 551 sjúklingar með ífarandi pneumókokkasýkingar hér á landi. Farið hefur verið yfir 440 sjúkraskrár frá þessu tímabili. Börn voru 154 (35%) og fullorðnir 286 (65%). Lungnabólga með blóðsýkingu var algengasta greiningin (52,1%), þar á eftir blóðsýking án greinanlegs uppruna (24,3%) og heilahimnubólga (12,5%). Meðaltímalengd einkenna fyrir innlögn var tveir dagar. Meðal APACHE II stigafjöldi fullorðinna sem lifðu var 12,9 en 24,4 hjá þeim sem létust (p<0,0001). Meðal PRISM III stigafjöldi þeirra barna sem lifðu var 2,4 samanborði við 17,8 hjá þeim sem létust (p=0.04). Dánartíðni fullorðinna með heilahimnubólgu var 24,2% en 9,1% meðal barna. Af fullorðnum sem fengu aðrar ífarandi sýkingar en heilahimnubólgu létust 14,2% en 2,3% barna.

Ályktanir: Þrátt fyrir miklar framfarir í læknisfræði hafa horfur sjúklinga með ífarandi pneumókokkasýkingar lítið breyst síðustu áratugi. Stigunarkerfin APACHE II og PRISM III virðast spá vel fyrir um horfur sjúklinga. Frekari rannsókna er þörf til að skoða meðal annars hvort þættir eins og hjúpgerðir hafi tengsl við á afdrif.


E 37 Ífarandi sýkingar af völdum Streptococcus pyogenes. Tengsl stofngerða og afdrifa


Helga Erlendsdóttir1,2, Hrefna Gunnarsdóttir3, Þóra Rósa Gunnarsdóttir2, Magnús Gottfreðsson4, Karl G. Kristinsson2

1Læknadeild HÍ, 2sýklafræðideild Landspítala, 3Háskólinn í Reykjavík, 4smitsjúkdómadeild Landspítala


helgaerl@landspitali.is


Inngangur: Ífarandi sýkingar af völdumStreptococcus pyogenes geta verið mjög skæðar og nýgengi þeirra hefur aukist síðastliðna áratugi. Ákveðnar stofngerðir og ákveðin úteitur (aðallega SpeA og SpeC) tengjast meinvirkni. Stofngreiningar hafa hins vegar aðallega verið gerðar á völdum hópum og/eða í faröldrum. Skort hefur rannsóknir sem ná yfir heila þjóð og lengri tíma.

Efniviður og aðferðir: Til eru 145 stofnar á sýklafræðideild Landspítala úr ífarandi sýkingum á landinu öllu af völdum S. pyogenes, elstu frá 1988. Jafnframt liggja fyrir upplýsingar um dagsetningu sýkingar, aldur sjúklings, kyn, sýkingarstað og afdrif. Gerð var T-prótein greining á öllum stofnunum og þeir stofngreindir með skerðiensímum og rafdrætti (PFGE). Að auki var leitað að spe úteitursgenum með PCR aðferð hjá öllum stofnum síðastliðinna fjögurra ára, en stefnt er að því að ljúka verkinu næstu vikurnar.

Niðurstöður: Algengasta T-próteingerðin var T-1 (36, 25%) og voru þeir stofnar einkum frá tveimur klónum. Algengasti klónninn var 1.001 (+1.002), 24 stofnar og voru flestir af próteingerð T-1. Marktækt fleiri fullorðnir er höfðu próteingerð T-1 létust í samanburði við þá sem höfðu aðrar próteingerðir (p=0,009). Dauðsföll voru einnig marktækt algengari meðal þeirra sem höfðu klón 1.001 (p=0,003). Búið er að skoða spe gen 40 stofna. Allir stofnarnir reyndust hafa speB, en 35% speA og 45% speC. Aðeins einn sjúklingur hefur látist síðastliðin fjögur ár (próteingerð T-1, með öll spe genin).

Ályktanir: Alvarleiki ífarandi sýkinga tengist ákveðnum T-próteingerðum og klónum. Yfir helmingur sjúklinganna sem létust sýktist af sama klóni sem hefur verið viðvarandi allt rannsóknartímabilið þótt tíðni hans hafi lækkað undanfarin sex ár og kann það að eiga þátt í því að horfur sjúklinga hafa batnað.


E 38 Sýklasótt á gjörgæsludeildum Landspítala árið 2004


Einar Björgvinsson1, Sigurbergur Kárason2, Gísli Sigurðsson2

1Læknadeild HÍ, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala


einabjo@hi.is skarason@landspitali.is


Inngangur: Sýklasótt (SS) er heilkenni sem orsakast af almennu bólguviðbragði í líkamanum við alvarlega sýkingu og hefur háa dánartíðni. Alvarlegustu stig sýklasóttar eru svæsin sýklasótt (SSS) og sýklasóttarlost (SSL). Markmið þessarar rannsóknar var að kanna eðli og umfang svæsinnar sýklasóttar og sýklasóttarlosts á gjörgæsludeildum Lanspítala á árinu 2004.

Efniviður og aðferðir: Aftursæ rannsókn var gerð á sjúkraskýrslum allra sem lögðust inn á gjörgæsludeildir Landspítala árið 2004. Þeir sjúklingar sem höfðu skilmerki svæsinnar sýklasóttar og sýklasóttarlosts voru greindir. Upplýsingum var safnað um ástand við innlögn (APACHE, SAPS), líffærabilanir (SOFA), umfang meðferðar (NEMS) og tegund sýkingar. Dvalartími á gjörgæslu og spítala ásamt dánartíðni á gjörgæslu, eftir 28 daga og sex mánuði voru könnuð.

Niðurstöður: Árið 2004 lögðust 1.325 sjúklingar á gjörgæsludeildir Landspítala (meðalaldur 58 ár, APACHE 11, SAPS 38, meðallegutími þrír dagar og dánartíðni 8%). Af þeim reyndust 75 (5,7%) hafa svæsna sýklasótt (20) eða sýklasóttarlost (55). Meðalaldur var 65±14 ár, APACHE 26±9, SAPS 50±18, SOFA 9±3 og NEMS 43±14. Meðaldvöl á gjörgæslu var 9,3±13 dagar og á spítala 29±34 dagar. Dánartíðni á gjörgæslu var 21%, eftir 28 daga 28% og eftir sex mánuði 43%. Þau líffærakerfi sem oftast biluðu voru öndunarfæri (84%) ásamt blóðrás (71%). Við innlögn voru 87% voru með sýklasótt en 13% fengu sýklasótt meðan á gjörgæsludvöl stóð. Algengasta orsök sýkingar var lungnabólga (44%). Gram jákvæðar bakteríur voru sýkingarvaldurinn hjá 63% og gram neikvæðar hjá 36%. Blóðræktanir voru jákvæðar í 45% tilfella.

Umræða: Dánartíðni af völdum sýklasóttar á gjörgæsludeildum Landspítala árið 2004 er há (21%) í samanburði við alla þá sem vistast á gjörgæslu (8%). Þessar niðurstöður eru sambærilegar eða heldur lægri en aðrar nýlegar rannsóknir.


E 39 Ofnæmi og öndunarfæraeinkenni fullorðinna í ljósi fyrri sýkinga


Þórarinn Gíslason1,2, Davíð Gíslason1,2, Rúna Björg Sigurjónsdóttir 1 , Hulda Ásbjörnsdóttir1, Alda Birgisdóttir1, Ísleifur Ólafsson1,3, Elizabeth Cook3, Rain Jögi4, Christer Jansson5, Bjarni Þjóðleifsson1,6

1Læknadeild HÍ, 2lungnadeild Landspítala, 3Rannsóknastofa Landspítala, 4Tartu University Lung Clinic, Eistlandi, 5Respiratory Medicine and Allergology, Akademiska sjukhuset Uppsölum, 6meltingardeild Landspítala


thorarig@landspitali.is


Inngangur: Ofnæmi fer vaxandi á Vesturlöndum, en sýkingum fækkandi. Fyrri rannsóknir benda til þess að tengsl geti verið milli ofnæmis og þess hvaða sýkingar einstaklingur hefur fengið fyrr á ævinni. Þetta samband hefur þó yfirleitt verið rannsakað með tilliti til fárra sýkinga í einu og niðurstöður hafa verið misvísandi.

Markmið: Að kanna samband sýkinga og ofnæmis í vel skilgreindum efniviði.

Efniviður og aðferðir: Niðurstöður eru frá 1249 einstaklingum úr Evrópukönnuninni Lungu og heilsa frá Reykjavík, Tartu og Uppsölum. Aðferðafræðinni hefur áður verið lýst www.ECRSH.org Auk þess voru mæld IgG mótefni fyrir H. pylori, T. Gondi, Herpes simplex, Chlamydia pneumonii, Epstein Barr og Hepatitis A. Mælt var sértækt IgE fyrir vallarfoxgrasi, köttum, D. preonyssinus og Cladosporium. Ofnæmi var skilgreint sem hækkun á sértæku IgE (>0,35 KU/L) fyrir einhverjum ofnæmisvaldi.

Niðurstöður: Þeir sem höfðu mótefni gegn nefndum sýkingum sjaldnar en þrisvar höfðu oftar ofnæmi, einkum gagnvart köttum. Þeir höfðu einnig oftar ofnæmisastma og nefofnæmi. Þeir sem ekki höfðu ofnæmi voru eldri, reyktu oftar og höfðu oftar mótefni fyrir H. pylori, H. simplex og C. pneumonii (p>0,001; p>0,01 og p>0,002). Ekki var munur á löndunum þremur varðandi þessar niðurstöður. Niðurstöðurnar voru enn marktækar eftir fjölþátta aðhvarfsgreiningu þar sem tekið var tillit til aldurs, kynferðis, rannsóknarstaðar, reykinga, þyngdarstuðuls, gæludýrahalds í bernsku, sjúkrahúsdvalar í bernsku og aldurs móður.

Ályktanir: Rannsókn á vel skilgreindu þýði frá þremur löndum og leiðir í ljós minni líkur á ofnæmi hjá þeim sem sýkst hafa oftar. Ofangreindar sýkingar hafa verið taldar mælikvarði á heilsuspillandi umhverfi og þröngan húsakost, en rannsókn okkar sýnir hugsanlega verndandi áhrif slíks umhverfis varðandi ofnæmi.


E 40 Efnasmíð og rannsóknir á katjónískum metýleruðum kítósykru­afleiðum með bakteríuhamlandi eiginleika

Ögmundur Viðar Rúnarsson1, Jukka Holappa2, Tapio Nevalainena2, Martha Hjálmarsdóttir3, Tomi Järvinen2, Þorsteinn Loftsson1, Jón M. Einarsson4, Már Másson1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Háskólinn í Kuopio, Finnlandi, 3Háskólinn í Reykjavík, 4Genis ehf.


ovr1@hi.is


Inngangur: Kítósykrur og afleiður kítósykra hafa sýnt margs konar áhugaverða lyfjafræðilega eiginleika svo sem bakteríu­drepandi, genaferjunar, sáragræðandi eiginleika og fleira. Hins vegar er samband byggingar og virkni ekki fullkomlega þekkt þar sem efnagreining þeirra getur verið ófullnægjandi. Samanburður á bakterívirkni kítósykruafleiða hefur einnig reynst erfið þar sem efnin eru ekki mæld við staðlaðar aðstæður.

Efniviður og aðferðir: Smíðuð var fjölbreytt flóra af metýleruðum kítósanafleiðum. Reynt var að stýra metýleringu á amínóhóp sykrunar og hafa mismikla O-metýleringu. Notast var við þrjú upphafsefni, eina fjölsykru og tvær fásykrur. Upphafsefnin höfðu einnig mismunandi fjölda N-asetýlhópa. Afleiðurnar voru byggingargreindar með NMR, IR og frumefnagreiningu. Bakteríuhamlandi virkni afleiðnanna var ákvörðuð gegn S. aureus við tvö sýrustig. Notuð var stöðluð aðferð frá The Clinical and Laboratory Standards Institute (CLSI) sem gerir samanburð mögulegan.

Niðurstöður og ályktanir: Metýleruðu kítósanafleiðurnar voru með fjölbreytta byggingu, það er mismunandi mólþunga, mismunandi N-asetýleringu, fjölbreytta NN-dí-, N-mónó- og O-metýleringu og með N,N,N-trímetýleringu á bilinu 0-74%. Afleiður kítófjölsykrunar sýndu virkni gegn S. aureus á meðan fásykrurnar voru óvirkar. Við pH 5,5 var bakteríuhamlandi virknin á bilinu 16-512 g/mL. Við pH 7,2 voru efnin almennt minni bakteríuhamlandi en virkasta efnið náði niður í 8 g/mL. Samband byggingar og virkni leiddi í ljós að jákvæð fylgni var milli N,N,N-trímetýleringar og bakteríhamlandi eiginleika við pH 7,2. Við pH 5,5 var neikvætt samband milli N,N,N-trimetýleringar og bakteríuhamlandi eiginleika sem segir okkur að jónuðu amínóhópanir leggja til bakteríuhamlandi eiginleikanna. O-metýlering hafði lítil áhrif á virknina.


E 41 Virkni APOBEC3 próteina mismunandi spendýra gegn retróveirum


Stefán Ragnar Jónsson1,2,3,4, Guylaine Haché2,3,4, Mark D. Stenglein2,3,4, Valgerður Andrésdóttir1, Reuben S. Harris2,3,4

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Department of Biochemistry, Molecular Biology and Biophysics, 3Institute for Molecular Virology, 4Beckman Center for Transposon Research, University of Minnesota, USA


stefanjo@hi.is


Inngangur: Lífverur hafa frá örófi alda þróað með sér varnir gegn retróveirusýkingum. Dæmi um slíkt eru APOBEC3 próteinin en þau eru fjölskylda cytósín deaminasa sem geta hindrað retróveirur með afamíneringu cýtósíns í úrasil í ssDNAi meðan á víxlritun stendur. Lentiveirur hafa þó mótleik við þessu, veirupróteinið Vif sem stuðlar að niðurbroti APOBEC3 próteina. APOBEC3 prótein er einungis að finna í spendýrum. Í þessu verkefni hafa klaufdýr verið skoðuð með það fyrir augum að ákvarða hvort APOBEC3 prótein þeirra virki á sama hátt og manna APOBEC3 prótein gegn retróveirum.

Efniviður og aðferðir: Leitað var í cDNA söfnum af APOBEC3 próteinum kúa og svína og upplýsingar um varðveitt hneppi notuð til að klóna kinda APOBEC3 prótein. Athugað var hvort próteinin gætu hindrað retróveirusýkingu með HIV-GFP sýkingu í frumurækt. Kannað var hvort hindrunin ætti sér stað með cDNA afamíneringu með því að klóna og raðgreina innlimaða veiru DNA. Einnig var athugað hvort þau væru ónæm fyrir hindrum með HIV-1 Vif. Staðsetning APOBEC3 próteinanna var könnuð með því að nema tjáningu GFP-tengdra APOBEC3 próteina.

Niðurstöður og ályktanir: Klaufdýra APOBEC3 prótein eru að mestu tjáð í umfrymi. Þau geta hindrað retróveirusýkingu með cýtósín afamíneringu og eru ónæm fyrir hindrun með Vif próteini HIV-1. Flest APOBEC3 prótein hafa tvö afamineringarhneppi og er C-enda hneppið virkt í þeim mannapróteinum sem skoðuð hafa verið. Klaufdýra APOBEC3 próteinin hafa hins vegar virkt N-enda afamíneringarhneppi. Þetta bendir til þess að staðsetning innan frumu og virkni gegn retróverum sé varðveitt milli spendýra, en að staðsetning virka af-amíneringarhneppisins og næmni gegn Vif sé ólík. Saman benda þessar niðurstöður því til aðlögunar og virkrar baráttu milli APOBEC3 próteina og retróveira.


E 42 Ný berkjufrumulína; sérhæfing og notagildi


Skarphéðinn Halldórsson1, Valþór Ásgrímsson3, Guðmundur Hrafn Guðmundsson1, Ólafur Baldursson2,4, Þórarinn Guðjónsson3,5

1Líffræðistofnun og 2lyfjafræðideild HÍ, 3Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands, 4lungnadeild og 5blóðmeinafræðideild Landspítala


olafbald@landspitlai.is


Inngangur: Þekjuvefur lungnaberkju samanstendur af mismunandi frumugerðum, bifhærðum frumum, slímfrumum, kirtilfrumum, clarafrumum og basalfrumum. Basalfrumurnar eru sérstakar að því leyti að þær eru taldar sérhæfast yfir í hinar frumugerðirnar. Með tilliti til þeirra fjölda frumugerða sem finnast í berkjum þá er mikil þörf á skilgreindum frumulínum sem endurspegla svipgerð ofangreindra frumugerða. Við lýsum hér svipgerð nýrrar berkjufrumulínu sem nefnist VA10. Þessi frumulína var útbúin með retróveiruinnskoti (E6 og E7 æxlisbæligen) í berkjufrumur úr mannslunga.

Aðferðir: Við beittum litningagreiningu, mótefnalitunum, Western blot greiningu, confocal smásjárskoðun og sérhæfðum ræktunaraðstæðum til að rannsaka svipgerð og starfsemi VA10. Frumulínan hefur verið ræktuð í meira en tvö ár (um 60 umsáningar).

Niðurstöður: VA10 sýnir hefðbundna þekjuvefssvipgerð í tvívíðri rækt. Tjáning á Keratín 5,13, 14 og 17 bendir til þess að VA10 hafi basalfrumusvipgerð. Einnig tjáir VA10

α6β4 integrin og p63 sem er einkennandi fyrir basalfrumur í hinum ýmsu vefjum. VA10 myndar hátt rafviðnám þegar hún er ræktuð á himnum í sérhæfðu ræktunaræti sem bendir til þess að frumulínan myndi starfræn þéttitengi milli frumna. Mótefnalitanir sýna að VA10 tjáir flesta þætti þéttitengsla-flókans svo sem Claudin-1, Occludin, JAM, and ZO1. Confocal skönnun sýnir að þéttitengsla-flókinn skiptir þekjunni í “apical” og “basolateral” hluta og að aktin stoðgrindin binst greinilega við þéttitengslaflókann. Þegar frumulínan er ræktuð í þrívíðu millifrumuefni myndar hún skautað byggingarform þar sem integrin eru tjáð á basolateral-hlutanum og tengja þar með frumurnar við millifrumuefnið.

Ályktanir: Þessi frumulína býr yfir eiginleika sem gerir okkur kleift að rannsaka áhrif sýkla og lyfja á varnir lungna en þéttitengslaflókinn gegnir miklu hlutverki í því sambandi. Auk þess sýnir basalfrumusvipgerð frumulínunnar að mögulegt er að nýta hana til rannsókna á vefjasamsetningu berkjuþekju.


E 43 Samanburður í Mitf geninu milli fjarskyldra tegunda leiðir í ljós ný varðveitt svæði


Benedikta S. Hafliðadóttir1, Jón H. Hallsson2, Alexander Schepsky1, Heins Arnheiter3, Eiríkur Steingrímsson1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa, læknadeild HÍ, 2Landbúnaðarháskóli Íslands/Keldnaholt, 3Mammalian Development Section, National Institute of Neurological Disorders and Stroke, National Institutes of Health, Bethesda, MD, USA


bsh@hi.is


Inngangur: Mitf umritunarþátturinn (microphthalmia-associated transcription factor) tilheyrir fjölskyldu MYC próteina sem innihalda basic Helix-Loop-Helix Leucine Zipper svæði. Stökkbreytingar í Mitf geninu hafa áhrif á þroskun mismunandi frumutegunda og valda meðal annars heyrnleysi í mönnum. Nýlega hefur komið í ljós að Mitf kemur við sögu í myndun sortuæxla og skiptir miklu máli við viðhald á stofnfrumum litfrumna. Hér berum við saman Mitf genið og próteinið milli fjarskyldra tegunda, bæði hryggdýra og hryggleysingja og finnum ný varðveitt svæði. Einnig berum við saman stýrisvæði Mitf gensins sem notað er í litfrumum (1M promoter) og 3´UTR svæðið.

Efniviður og aðferðir: Raðirnar sem notaðar eru koma úr almennum gagnabönkum eða fengust með raðgreiningu. Raðirnar voru bornar saman með ClustalW forritinu. Við notuðum Mitf 3´UTR röðina og 1M stýrilinn úr mús til að finna viðeigandi raðir í öðrum tegundunum með BLAST. TargetScan forritið var notað til að finna miRNA bindiset í 3´UTR röð Mitt og rVISTA forritið til að finna varðveitt bindiset í stýriröðunum.

Helstu niðurstöður: Ný varðveitt svæði í Mitf próteininu fundust sem sýna mikla varðveislu milli fjarskyldra tegunda. Vel varðveitt miRNA bindiset komu í ljós í 3´UTR svæði Mitf og bindiset í stýrilsvæði Mitf eru einnig vel varðveitt milli tegunda.

Ályktanir: Ný varðveitt svæði sem komið hafa í ljós við samanburð á Mitf geninu í fjarskyldum tegundum veita frekari innsýn í hlutverk og stjórnun Mitf próteinsins. Varðveitt miRNA bindiset í 3´UTR svæði Mitf benda til þess að stjórnun á genastarfsemi Mitf sé flóknari en áður var talið og að miRNA taki þátt í stjórnun þess. Frekari rannsóknir á þessum svæðum munu auka skilning á stjórnun og hlutverki Mitf gensins enn frekar.


E 44 Tvívíður rofháður rafdráttur, greiningar á basabreytingum í flóknum sýnum


Guðmundur Heiðar Gunnarsson1,2, Bjarki Guðmundsson2, Hans Guttormur Þormar1, Jón Jóhannes Jónsson1,3

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 2Lífeind, 3erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala


jonjj@hi.is


Inngangur: Stöðugt eru gerðar meiri kröfur um öflugar og áreiðanlegar aðferðir til að skima fyrir öllum, bæði þekktum og óþekktum, stökkbreytingum sem fram koma í einstökum genum. Nýlega hafa verið skilgreind ensím sem með rjúfa annan þátt DNA sameinda sem innihalda mispörun vegna breytinga á stökum bösum (SNP) eða lítilla innskota/úrfellinga. Slíkt ensímrof er greint með einvíðum rafdrætti. Þetta hefur takmarkað afkastagetu greininganna þar sem aðeins er hægt að skoða eina DNA sameind í einu. Við lýsum þróun tvívíðs rafdráttarkerfis fyrir greiningar á rofsetum í flóknum DNA sýnum. Með aðferðinni er hægt að greina mislangar DNA sameindir samtímis með tilliti til hvort þær innihaldi rofset og greina þannig samtímis flókin sýni sem ná yfir heil gen.

Aðferðir: Mynduð voru tvíþátta prófefni með skurði á lambda erfðaefni. Hluti prófefnanna var rofinn með ensími sem veldur rofi þegar það binst við bindiset sitt ( GAGTCNNNN^N). Efniviðurinn var svo notaður til að þróa og staðla tvívíðu rafdráttaraðferðina. Í framhaldinu voru prófefni sem innihéldu allar einfaldar misparanir mynduð og þau notuð til að skilgreina sértækt rof með endónúkleasa V og CEL I. Prófefnum var svo blandað við flóknari sýni og sýnt fram á sértækni rofsins með tvívíðum rofháðum rafdrætti.

Niðurstöður: Hægt var að aðskilja flókin sýni af rofnum og heilum DNA sameindum. Sýnt var fram á skilvirkan aðskilnað á DNA sameindum sem innihéldu einfalda mispörun úr safni réttparaðra DNA sameinda með því að meðhöndla sýnið fyrst með CelI núkleasa.

Ályktanir: Við höfum þróað tvívíðan rofháðan rafdrátt til að aðgreina DNA sameindir sem innihalda rofset frá DNA sameindum sem eru heilar. Þessi aðferð opnar nýja möguleika á greiningu flókinna sýna og gæti reynst öflug við mispörunarskimun á heilum genum.


E 45 Bein einangrun á lengdarbreytileika í umritunarmengjum


Bjarki Guðmundsson1, Sólveig Kristín Guðnadóttir2, Guðmundur Heiðar Gunnarsson1,2, Hans Guttormur Þormar1,2,3, Jón Jóhannes Jónsson2,3

1Lífeind ehf., 2lífefna- og sameindalíffræðistofa, læknadeild HÍ, 3erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala


bjarki@biocule.com


Inngangur: Talið er að afurðir um 50% gena gangist undir valsplæsingu, sem mikilvægt er að rannsaka með tilliti til stjórnunar og þess hvaða afleiðingar hún hefur á virkni próteina. Mikill skortur er á skilvirkum aðferðum til að rannsaka og einangra valsplæsingar. Rannsakendur hafa þróað tvívíðan þáttaháðan rafdrátt (2D-SDE) sem er notaður til að aðgreina kjarnsýrur eftir þætti og lengd, auk þess sem hægt er að aðgreina réttparaðar og misparaðar DNA sameindir. Markmið þessa verkefnis var að beita 2D-SDE aðferðinni til að einangra úr cDNA sýni lengdarbreytileika af völdum valsplæsinga.

Efniviður og aðferðir: cDNA var víxlritað eftir mRNA úr 293T frumulínu. cDNA var skorið, aðhæfar límdir á enda og þeir notaðir sem vísar í PCR mögnun. Aðhæfar voru fjarlægðir, sýnið brætt og eftir stutta endurblendingu var sýnið styrkjafnað með því að fjarlægja tvíþátta DNA. Þetta var gert með mangan fellingu á einþátta DNA, sem er aðferð þróuð af rannsóknarhópnum. Einþátta DNA sameindum sem eftir voru í sýninu var í kjölfarið endurblendað til að mynda misparanir. Mispöruðu sameindirnar voru einangraðar með 2D-SDE, þær magnaðar upp og klónaðar.

Niðurstöður og ályktanir: Aðstæður PCR mögnunar cDNA sýnis voru staðlaðar fyrir hæst hlutfall tvíþátta DNA sameinda miðað við einþátta. Í framhaldinu voru skilgreindar skilvirkustu endurblendingaraðstæður og þær kannaðar með rafdrætti á 2D-SDE. Til að jafna út styrk afurða var sýnið endurblendað í 30 sekúndur sem nægði til að gera búta í háum styrk tvíþátta. Eftir slíka endurblendingu var hægt að einangra allar einþátta cDNA sameindir með mangan fellingu, endurblenda þeim á ný og þar með styrkjafna sýnið á einfaldari hátt en áður hefur þekkst. Unnið er raðgreiningu klóna og samanburði við þekktar valsplæsingar í gagnabönkum.


E 46 Tjáning Aquaporin 9 gensins í miðtaugakerfi músar


Pétur H. Petersen

Læknadeild HÍ


phenry@hi.is


Inngangur: Aquaporin 9 er himnubundið prótein er hleypir vatni, glýceróli og öðrum smásameindum í gegnum frumuhimnuna. Starfsemi Aqp9 próteinsins er best þekkt í lifur þar sem að Aqp9 sér líklega um flutning á glýceróli en mögulega líka eiturefna eins og arsenite. Aqp9 genið fannst 1998 og síðan þá hefur tjáningu þess verið lýst meðal annars í miðtaugakerfi nagdýra. Þannig hefur Aqp9 próteinið verið staðsett í stjörnufrumum heilans og í undirflokkum taugafrumna til dæmis taugafrumum í sorta (substanstia nigra). Þar sem þær frumur deyja í Parkinsons sjúklingum hefur kviknað sú hugmynd að Aqp9 gæti gert þær viðkvæmari fyrir og til dæmis orðið til þess að þær taka upp smásameindir sem gætu leitt þær til dauða eftir óþekktum leiðum.

Efniviður og aðferðir: Nýlega hefur verið útbúin mús án hluta Aqp9 gensins og er hún hentugt tæki til að rannsaka hlutverk þess, en einnig til að sannreyna lýsingar á tjáningu gensins og staðsetningu próteinsins. Borin var saman tjáning Aqp9 gensins (RNA in situ, rtPCR, real time PCR) og Aqp9 próteins (mótefnalitun vefja og gullmótefnalitun) í mús með og án hluta Aqp9 gensins.

Niðurstöður og ályktanir: Tjáningu Aqp9 í lifur var staðfest en niðurstöður styðja síður fyrri ályktanir um tjáningu, og þar af leiðandi hlutverk, Aqp9 í miðtaugakerfi. Niðurstöður undirstrika mikilvægi erfðabreyttra líffvera í greiningu á genastarfsemi og til að staðfesta sértækni mótefna.


E 47 Hlutverk boðleiða í starfsemi Mitf umritunarþáttarins


Jón Hallsteinn Hallsson1,2, Norene O'Sullivan3, Heinz Arnheiter4, Neal G. Copeland3, Nancy A. Jenkins3, Eiríkur Steingrímsson1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa, læknadeild HÍ, 2Rannsóknarstofa í sameindaerfðafræði, auðlindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands, 3National Cancer Institute, Frederick, USA, 4National Institutes of Health, Bethesda, USA


jonhal@lbhi.is


Inngangur: Umritunarþátturinn MITF (microphthalmia-associated transcription factor) tilheyrir MYC fjölskyldu basic Helix-Loop-Helix Leucine zipper (bHLH-Zip) umritunarþátta. Stökkbreytingar í Mitf geninu í mús hafa áhrif á þroskun nokkurra frumutegunda, þar með taldar litfrumur í húð og auga, mastfrumur og beinátsfrumur. Nýlega hefur verið sýnt að Mitf gegnir einnig mikilvægu hlutverki við að tryggja lifun stofnfrumna litfrumna (melanocyte stem cells) auk þess sem yfirtjáning þess getur valdið myndun sortuæxla. Mitf próteinið er fosfórað á nokkrum amínósýrum, þar með talið á Ser73 og Ser409 amínósýrunum. Kit boðleiðin og Map kínasarnir Erk2 og p90Rsk hvata fosfórun þessara amínósýra en það hefur þær afleiðingar að umritunarvirkni próteinsins eykst og stöðugleiki minnkar. Boðleið þessi er mikilvægt líkan fyrir starfsemi boðleiða almennt en þar sem einungis hefur verið sýnt fram á mikilvægi hennar in vitro er mikilvægt að greina einnig hlutverk hennar in vivo.

Efniviður og aðferðir: Til að rannsaka hlutverk þessara boðleiða í starfsemi Mitf próteinsins voru framkvæmdar tvenns konar erfðabreytingar. Annars vegar voru búnar til knock-in mýs þar sem Serín amínósýru 73 var breytt í Alanín og svipgerð músanna athuguð. Hins vegar voru búnar til BAC transgenískar mýs sem báru um 200kb BAC klón sem geyma Mitf genið og stökkbreytt hafði verið þannig að Ser73 og Ser409 var breytt í Alanín. Athuguð var hvort mýs sem voru transgenískar fyrir stökkbreyttar BAC genaferjur gátu leiðrétt svipgerð Mitf stökkbreytinga.

Helstu niðurstöður og ályktanir: Niðurstöður okkar sýna að stökkbreytingar í Ser73 og Ser409 setunum hafa ekki augljós áhrif á svipgerð erfðabreyttra músa og benda niðurstöðurnar til þess að í raun hafi fosfórun á Ser73 og Ser409 amínósýrunum lítið að segja fyrir virkni Mitf in vivo. Hugsanleg skýring er að aðrir ferlar innan frumunnar geti bætt upp breytta virkni stökkbreyttu próteinanna eða að önnur fosfórunarset geti tekið við af Ser73 og 409 þegar þau vantar. Hver sem skýringin kann að vera þá undirstrika niðurstöðurnar að ekki er alltaf hægt að yfirfæra niðurstöður úr in vitro rannsóknum yfir á flóknar fjölfrumalífverur.

E 48 Mitf umritunarþátturinn tengist -catenin til að ákvarða tjáningu markgena


Alexander Schepsky1, Katja Bruser2, Gunnar J. Gunnarsson1, Jane Goodall3, Jón H. Hallsson1, Colin R. Goding3, Eiríkur Steingrímsson1, Andreas Hecht2

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa, læknadeild HÍ, 2Institute for Molecular Medicine and Cell Science, University of Freiburg, Þýskalandi, 3Signal transduction laboratory, Marie Curie Research Institute, The Chart, Oxted, Surrey, Bretlandi


A.Schepsky@mcri.ac.uk


Inngangur: Þroskun, viðhald og fjölgun litfrumna, sem mynda lit í húð og hárum, er algerlega háð virkni Mitf (microphthalmia-associated transcription factor) umritunarþáttarins. Mitf gegnir veigamiklu hlutverki í endurnýjun og viðhaldi á litstofnfrumum auk þess sem tjáning Mitf er aukin í sortuæxlum. Sýnt hefur verið að Mitf örvar umritun ýmissa ólíkra gena í óskyldum frumum en hvernig starfsemi Mitf er stjórnað í hinum ýmsu frumum er ekki ljóst. Ein skýringin gæti falið í sér samspil á milli Mitf og annarra hjálparpróteina. Til að einangra slíka þætti notuðum við Yeast-2-hybrid aðferðina. Meðal þeirra próteina sem fundust var -catenin sem er lykilsameind í Wnt-háðum boðleiðum. Örvun Wnt boðleiðarinnar hefur þau áhrif að -catenin flyst inn í kjarna þar sem það myndar flóka með Lef1/Tcf umritunarþáttunum og virkjar umritun markgena. Hugsanlegt er að svipað eigi við um starfsemi Mitf gensins og að virkni þess sé háð samstarfi við -catenin. Samstarf þessara próteina gæti skipt máli fyrir þroskun litfrumna eða í æxlismyndun. Markmið þessarar rannsóknar var að skilgreina samskipti Mitf og -catenin próteinanna og meta áhrif þessara samskipta á umritunarvirkni Mitf próteinsins.

Efniviður og aðferðir: Samskipti próteinanna voru staðfest og skilgreind nánar með co-immunoprecipitation, GST pulldown og Yeast-2-hybrid aðferðum. Stökkbreytigreining sýndi að -catenin binst Mitf í gegnum armadillo-svæðið og að helix 1 svæðið í Mitf er mikilvægt fyrir samskipti próteinanna. Yfirtjáning Mitf minnkar umritunarvirkni -catenin en yfirtjáning á -catenin eykur umritunarvirkni Mitf. ChIP aðferðin staðfesti að -catenin gæti bundist Mitf markgenum í frumum og siRNA aðferðin sýndi að -catenin þarf Mitf til að geta bundist.

Niðurstöður og ályktarnir: Við höfum sýnt að samskipti -catenins og Mitf eiga sér stað í kjarna litfrumna og að þessi samskipti draga úr umritunarvirkni -catenin frá -catenin/LEF1 sértækum stýrlum en auka umritun frá Mitf sértækum stýrlum. Rannsóknir okkar veita því nýja innsýn í stjórn á umritunarvirkni Mitf próteinsins og áhrif á þroskun litfruma og æxlismyndun.


E 49 Greining og hámörkun gæða flókinna PCR hvarfa með tvívíðum lögunarháðum rafdrætti


Guðmundur H. Gunnarsson1,2, Bjarki Guðmundsson2, Hans G. Þormar1,3, Jón Jóhannes Jónsson1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 2Lífeind ehf., 3erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala


hans@hi.is


Inngangur: PCR á flóknum kjarnsýrusýnum er eitt af lykilskrefum í nútíma lífvísindum. Það er til dæmis notað þar sem lítið er af upphafserfðaefni fyrir fósturvísagreiningar, við myndun cDNA safna fyrir örsýnaraðsafnagreiningar, fyrir frádráttarblendingu og fyrir samanburð á erfðamengjum (comparative genomic hybridization, CGH). Þrátt fyrir þessa miklu notkun flókinna PCR hvarfa hefur engin tækni rutt sér til rúms til að greina afurðir þessara hvarfa með nægjanlega skilvirkum hætti. Við kynnum hér niðurstöður úr greiningum á flóknum PCR hvörfum með tvívíðum þáttaháðum rafdrætti (2D-SDE).

Efniviður og aðferðir: Notuð voru flókin PCR hvörf byggð á þekktum skerðibútasamsvörunum úr erfðamengi mannsins. Þessi hvörf voru sett upp með mismunandi polýmerösum, mismunandi hringafjölda og mismunandi íbætiefnum. Hvörfin voru skoðuð bæði á venjulegum agarósa- og akrýlamíðgelum og jafnframt greind með 2D-SDE.

Niðurstöður og ályktanir: Niðurstöður 2D-SDE greininga benda til þess að flókin PCR hvörf séu mjög óskilvirk, sérstaklega með auknum hringafjölda. Magn einþátta DNA í sýnunum er mikið vandamál og getur valdið vanmati á magni og stærðardreifingu afurðanna við venjubundna greiningu á agarósa- eða pólýakrýlamíðgeli. Niðurstöður okkar sýna að með því að skoða flókin PCR hvörf með 2D-SDE megi komast hjá þessum vandamálum.


E 50 Söfnun og vinnsla á stofnfrumum ætluðum til stuðnings eftir háskammtalyfjameðferð sjúklinga með eitlakrabbamein og mergfrumuæxli


Steinunn J. Matthíasdóttir1, Leifur Þorsteinsson1, Björgvin Hilmarsson1, Kristbjörn Orri Guðmundsson1, Ólafur E. Sigurjónsson1, Erna Guðmundsdóttir1, Svala Karlsdóttir1, Guðmundur Rúnarsson2, Sigrún Reykdal2, Hlíf Steingrímsdóttir2, Þórunn Sævarsdóttir2, Þorbjörn Jónsson1, Sveinn Guðmundsson1

1Blóðbankinn, 2blóðlækningadeild Landspítala


steinmat@lsh.is


Inngangur: Háskammtalyfjameðferð með stofnfrumustuðningi þar sem frumur eru einangraðar frá sjúklingi (autologous) í sjúkdómshléi (remission), hefur verið beitt gegn ýmsum illkynja blóðsjúkdómum um tveggja áratuga skeið. Frumurnar eru ýmist einangraðar úr beinmerg eða blóði eftir tilfærslu úr merg í blóð. Fyrsta aðgerð af þessu tagi var framkvæmd á Landspítala í desember 2003.

Efniviður og aðferðir: Í lok árs 2005 höfðu 27 sjúklingar hafið meðferð, 18 með eitlakrabbamein (lymphoma) og níu með mergfrumuæxli (myeloma). Tilfærsla á stofnfrumum (CD34+) úr merg í blóð var gerð með frumuvaxtaþætti (G-CSF) að undangenginni meðferð með frumuhemjandi lyfjum. Stofnfrumum var safnað með blóðskiljunarvél.

Niðurstöður: Söfnun stofnfrumna tókst hjá öllum sjúklingunum nema tveimur. Þar varð engin tilfærsla á CD34+ úr merg í blóð. Frá sjúklingunum 25 var safnað 71 sinni, meðaltal 2,8 (1-5). Meðalheildarfjöldi CD34+ frumna sem tókst að safna frá hverjum sjúklingi var 8,4x106/kg (3,0x106/kg-31,0x106/kg). Tuttugu og þrír sjúklingar hafa fengið sínar frumur til baka að hluta eða öllu leyti. Allir fengu lifandi CD34+ frumur, ≥2,0x106/kg, sem er það lágmark sem reynslan sýnir að þurfi til að rótun (engraftment) verði í beinmergnum. Hjá öllum sjúklingunum mældist fjöldi hvítfrumna ≥0,5x109/L 12-14 dögum eftir ígræðslu. Á sama hátt var fjöldi á blóðflögum komin upp í ≥25,0x109/L á 15-17 dögum.

Ályktanir: Rótun varð hjá öllum sjúklingunum innan eðlilegra tímamarka. Enn er of snemmt að segja til um hvort um langtíma lækningu sé að ræða. Þessi árangur er í samræmi við það sem best hefur náðst í löndunum í kringum okkur.


E 51 Vefjagerð carcinoid lungnaæxla er óáreiðanleg til að spá fyrir um klíníska hegðun þeirra


Jóhanna M. Sigurðardóttir1, Kristinn Jóhannsson1, Helgi Ísaksson2, Steinn Jónsson3,4, Bjarni Torfason1,4, Tómas Guðbjartsson1,4

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2rannsóknarstofa HÍ í meinafræði, 3lungnadeild Landspítala, 4læknadeild HÍ


johannamsig@yahoo.com tomasgudbjartsson@hotmail.com


Inngangur: Carcinoid-æxli eru krabbamein af neuroendocrine uppruna sem oftast greinast í kviðarholi en geta greinst í lungum. Þau hegða sér oftast sem góðkynja æxli en geta þó meinverpst. Hefð er fyrir því að skipta þeim í illkynja (atypical) og hefðbundna (classical) vefjagerð. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna faraldsfræði og árangur meðferðar við carcinoid-lungnaæxlum á Ísland með sérstaka áherslu á vefjagerð æxlanna.

Efniviður og aðferðir: Afturvirk rannsókn sem nær til allra tilfella sem greinst hafa á Íslandi frá 1955 til 2005. Upplýsingar fengust úr sjúkra- og aðgerðarskrám. Æxlin voru stiguð samkvæmt TNM stigunarkerfi fyrir lungnakrabbamein. Öll æxlin voru endurskoðuð af meinafræðingi.

Niðurstöður: Alls greindust 64 tilfelli (22 karlmenn, 42 konur; meðalaldur 49 ára), sem er 1,9% af öllum lungnakrabbameinum greindum á þessum 50 árum. Algengustu einkennin voru takverkur og hósti en 18 sjúklingar greindust fyrir tilviljun. Hjá 45 sjúklingum fannst æxlið miðlægt í lungum, jafnt í hægra og vinstra lunga. Langoftast var um að ræða klassíska vefjagerð (84%) en 10 sjúklingar voru með illkynja vefjagerð. Meðalstærð æxlanna var 2,6 cm (bil 0,4-5,5 cm) og reyndust 33 sjúklingar vera á stigi I og tveir á stigi II. Hjá fjórum sjúklingum fundust meinvörp í miðmætiseitlum (stig III) og fjórir reyndust með fjarmeinvörp (stig IV), en tveir þeirra voru með hefðbundna vefjagerð. Einn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð en algengasta aðgerðin var blaðnám (82%) og fjórir sjúklingar gengust undir lungnabrottnám. Við eftirlit höfðu fimm af 64 sjúklingum látist af völdum sjúkdómsins (7,8%), tveir þeirra voru með hefðbundna vefjagerð. Fimm ára lífshorfur voru mun betri fyrir sjúklinga með hefðbundna vefjagerð, eða 96% samanborið við 70% (p<0,001).

Ályktanir: Carcinoid-lungnaæxli hegða sér oftast góðkynja en þessi æxli geta sáð sér í miðmætiseitla og/eða önnur líffæri. Þetta getur dregið sjúklingana til dauða. Engu að síður eru horfur hópsins í heild mjög góðar og árangur skurðaðgerða er góður. Vefjagerð virðist ekki vera áreiðanleg til að spá fyrir um klíníska hegðun þessara æxla.


E 52 Ungur aldur við greiningu eykur lífslíkur sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein


Ásgeir Thoroddsen1, Guðmundur Vikar Einarsson1,4, Sverrir Harðarson3,4, Vigdís Pétursdóttir3,4, Jónas Magnússon2,4, Tómas Guðbjartsson2,4

1Þvagfæraskurðdeild og 2handlækningadeild Landspítala, 33rannsóknarstofa HÍ í meinafræði, 4læknadeild HÍ


tomasgudbjartsson@hotmail.com


Inngangur: Nýrnafrumukrabbamein er aðallega sjúkdómur eldra fólks og flestir sjúklinganna eru á sjötugsaldri við greiningu. Sjúkdómurinn greinist hins vegar oft í yngri einstaklingum og má gera ráð fyrir að 10-15% sjúklinga séu undir fimmtugu við greiningu. Hegðun sjúkdómsins getur verið frábrugðin í þessum hópi sjúklinga og flestar rannsóknir hafa sýnt fram á betri lífshorfur yngri sjúklinga. Aðrar rannsóknir hafa lýst illskeyttari vefjagerðum og hærri tíðni eitilmeinvarpa hjá yngri sjúklingahópnum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort um sé að ræða sama sjúkdómsform hjá yngri og eldri sjúklingum með nýrnafrumukrabbamein og kanna áhrif aldurs á lífshorfur.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nær til allra íslenskra sjúklinga sem greindust á lífi með nýrnafrumukrabbamein á tímabilinu 1971-2000. Af 629 sjúklingum sem höfðu staðfesta vefjagreiningu voru 99 (16%) yngri en 50 ára við greiningu og 530 eldri. Klínískir og vefjafræðilegir þættir; til dæmis einkenni sem leiddu til greiningar, TNM-stigun, vefja­fræði æxlanna og gráðun, voru bornir saman í hópunum tveimur. Reiknaðar voru lífshorfur og fjölbreytugreining notuð til að meta forspárþætti lífshorfa.

Niðurstöður: Meðalaldur við greiningu var 64 ár, 43 ár í yngri hópnum (bil 17-49) og 68 í þeim eldri (bil 50-96). Kynjahlutfall var sambærilegt í hópunum tveimur (kk:kvk 1,5 á móti 2,2; p>0,1), einnig einkenni, meðferð og hlutfall tilviljanagreiningar. Vefjagerð var sömuleiðis mjög sambærileg, sem og TNM-stigun, æxlisstærð og gráðun. Sjúkdómsfrí fimm ára lifun var hins vegar marktækt betri hjá yngri sjúklingunum, eða 66,4% miðað við 54,5% hjá eldri sjúklingum (p<0,05). Forspárþættir lífshorfa voru sambærilegir í báðum hópum og vó TNM-stig langþyngst.

Ályktanir: Um er að ræða sömu sjúkdómsmynd hjá yngri og eldri einstaklingum sem greinast með nýrnafrumukrabbamein. Þetta á ekki síst við um TNM-stigun og gráðun. Engu að síður eru lífshorfur yngri sjúklinganna marktækt betri en þeirra eldri. Skýring á þessu er ekki augljós. Nýrnafrumukrabbamein er þekkt fyrir flókið ónæmisfræðilegt samspil hýsils og æxlis. Því getur verið að betri lífshorfur yngri sjúklinganna skýrist af öflugri ónæmisfræðilegri svörun, bæði við sjúkdómnum sjálfum og meðferð hans.


E 53 Notkun óhefðbundinna meðferðarúrræða meðal krabbameinssjúklinga á sérhæfðri dagdeild/göngudeild á Landspítala


Arna D. Einarsdóttir1, Helgi Sigurðsson1,3, Ragnhildur S. Georgsdóttir2, Sigurður Örn Hektorsson1, Eiríkur Örn Arnarson2,1, Snorri Ingimarsson1

1Krabbameinslækningadeild Landspítala, 2sálfræðiþjónusta Landspítala, endurhæfingarsvið, 3læknadeild HÍ


eirikur@landspitali.is


Inngangur: Samkvæmt skýrslu frá Heilbrigðisráðuneytinu hefur heimsóknum til óhefðbundinna meðferðaraðila aukist fjórfalt á tímabilinu 1985-2000. Árið 1985 var talin ein heimsókn til óhefðbundins meðferðaraðila á móti 10 til heilsugæslu, sérfræðilækna eða sjúkraþjálfara. Árið 2000 hafði hlutfall breyst í eina á móti þremur. Rannsóknir frá Norðurlöndum benda til þess að allt að því 70% krabbameinssjúklinga leiti í óhefðbundin meðferðarúrræði. Í rannsókn var metin notkun krabbameinssjúklinga á sérhæfðri dagdeild/göngudeild (11 B/C) á Landspítala á óhefðbundnum meðferðarúrræðum .

Efniviður og aðferðir: Í ársbyrjun 2006 voru fimm spurningalistar lagðir fyrir 149 sjúklinga við 11B/C Landspítala. Þátttakendur svöruðu GHQ-30, HADS, spurningalistum um svefnvenjur, heilsu, lífsgæði auk lýðfræðiupplýsinga. Spurningalistar töldu 154 spurningar, 18 um óhefðbundin lyf eða efni og 13 um önnur óhefðbundin meðferðarúrræði. Upplýsingar fengust frá 134 sjúklingum. Gögn voru unnin í SPSS.

Helstu niðurstöður: Sextíu prósent þátttakenda notuðu eitt (25%) eða fleiri óhefðbundin lyf eða efni og algengust notkun á lúpínuseyði (19%), aloe vera notuðu (16%), sólhatt (13%), hákarlalýsi (12%), birkiösku (9%), hvannarótarseyði (8%), hvítlauk (7%), ginseng (7%) og gingo biloba (6%). Áttatíu prósent þátttakenda nýtti sér önnur úrræði svo sem bænir/fyrirbænir (41%), lækningamiðla (16%), jóga ( 12%), hugleiðslu (10%) og orkumeðferð (8%). Þeir sem nýttu önnur úrræði skoruðu marktækt hærra á HADS í heild t (132) = -2,8; p<0,01 og kvíðaþætti t (132) = -3,2; p<0,01 prófsins.

Ályktanir: Hjálækningar voru algengt úrræði meðal krabbameinssjúklinga. Niðurstöður HADS prófsins benda til meiri álagseinkenna meðal þeirra sem sækja meðferðarúrræði utan Landspítala. Rannsóknin gefur til kynna að huga þurfi betur að álagseinkennum sjúklinga í krabbameinsmeðferð.


E 54 Brjóstakrabbamein og notkun tíðahvarfahormóna á Íslandi 1979-2005


Ólöf Júlía Kjartansdóttir1, Elínborg J. Ólafsdóttir2, Jón Gunnlaugur Jónasson1,2, Jens Guðmundsson1,3, Laufey Tryggvadóttir2

1Læknadeild HÍ, 2Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 3kvennadeild Landspítala


ojkokj@gmail.com


Inngangur: Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á aukna hættu á brjóstakrabbameini hjá konum sem nota tíðahvarfahormón í yfir fimm ár. Áhættuaukningin er meiri fyrir samsetta estrógen- og prógesterónmeðferð en fyrir estrógen eingöngu. Markmiðið með þessari rannsókn er að athuga áhrif notkunar tíðahvarfahormóna á hættu á brjóstakrabbameini á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Um er að ræða tilfellaviðmiða rannsókn innan ferilrannsóknar (nested case control). Notuð voru gögn úr Heilsusögubanka Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands frá árunum 1979-2005. Með samkeyrslu við Krabbameinsskrá fundust 1.093 konur sem höfðu fengið brjóstakrabbamein eftir fimmtugt og höfðu svarað spurningalistum Heilsusögubankans fyrir greiningu. Við tilfellin voru paraðar 5-10 konur sem ekki höfðu fengið brjóstakrabbamein og áttu svar í Heilsusögubankanum. Skilyrt lógistísk aðhvarfsgreining var notuð til að reikna líkindahlutfall (Odds Ratio, OR) með 95% öryggismörkum (Confidence Interval, CI). Tekið var tillit til flækjuþátta.

Niðurstöður: Fyrir meira en fimm ára notkun var OR 1,58 (95% CI 1,30-1,93) fyrir allar hormónablöndur, 1,37 (95% CI 0,98-1,92) fyrir estrógen, 2,19 (95% CI 1,53-3,14) fyrir kaflaskipt estrógen og prógesterón og 2,63 (95% CI 1,73-4,01) fyrir samfelld estrógen og prógesterón. Æxli af ductal vefjagerð höfðu sterkust tengsl við samfellda estrógen- og prógesterónmeðferð með OR 2,58 (95% CI 1,65-4,02) fyrir meira en fimm ára notkun. Lobular-æxli höfðu sterkust tengsl við estrógenmeðferð með OR 3,23 (95% CI 1,51-6,92) fyrir meira en fimm ára notkun.

Ályktanir: Á Íslandi gildir sem annars staðar að notkun tíðahvarfahormóna fylgir aukin hætta á brjóstakrabbameini. Mest er áhættan fyrir konur á samsettri estrógen- og prógesterónmeðferð sem stendur yfir lengur en fimm ár. Merkja má mismunandi áhrif hormóna eftir vefjagerð æxlisins.


E 55 Tengsl krabbameina við störf og menntun á Íslandi

Halldóra Viðarsdóttir1,2, Elínborg J. Ólafsdóttir2, Guðríður H. Ólafsdóttir2, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir3, Rafn Sigurðsson2, Laufey Tryggvadóttir2

1Háskóli Íslands, 2Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 3rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins


halldvi@hi.is


Bakgrunnur: Fyrri rannsóknir benda til þess að krabbameinsáhætta tengist störfum og menntun og skýrast þau tengsl ýmist af lífsháttum eða af áhættuþáttum á vinnustað. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tengsl algengustu krabbameina við störf og menntun á Íslandi og er það hluti af rannsókn á vegum krabbameinsskránna á Norðurlöndunum. Rannsókn af þessu tagi hefur ekki verið gerð áður á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var sagnfræðileg ferilrannsókn. Í rannsóknarhópnum voru allir Íslendingar sem voru 20-64 ára við töku manntalsins 1981, alls 122.429 manns. Upplýsingar úr manntalinu voru tengdar Krabbameinsskrá á einkennisnúmerum. Einstaklingar voru flokkaðir eftir upplýsingum í manntalinu í þrjá menntunarhópa (grunn-, milli- og háskólamenntun) og í starfsflokka. Rannsóknartímabilið var frá 1. janúar 1982 til 31. desember 2004. Reiknað var staðlað nýgengihlutfall (SIR) eftir kyni, aldri og almanaksári.

Niðurstöður: Skýr tengsl sáust milli menntunarstigs og krabbameinsáhættu. Háskólamenntaðir karlar höfðu aukna áhætta á að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli (SIR=1,15, 95% ÖB 1,02-1,28) og sortuæxli (SIR=1,45, 95% ÖB 1,02-1,99), en lækkaða áhættu á lungnakrabbameini (SIR=0,74, 95% ÖB 0,60-0,89), krabbameini í þvagvegum (SIR=0,73, 95% ÖB 0,56-0,93) og magakrabbameini (SIR=0,66, 95% ÖB 0,47-0,90). Háskólamenntaðar konur höfðu aukna áhættu á að greinast með brjóstakrabbamein (SIR=1,20, 95% ÖB 1,08-1,34). Einnig fundust tengsl milli starfa og krabbameina. Fiskimenn höfðu aukna áhættu á lungnakrabbameini (SIR=1,52, 95% ÖB 1,20-1,89) og karlkyns bændur höfðu lækkaða áhættu á lungnakrabbameini (SIR=0,52, 95% ÖB 0,38-0,68).

Ályktanir: Krabbameinsáhætta á Íslandi tengist menntun og starfi. Orsakir þessara tengsla eru líkast til þær að lífshættirnir eru ólíkir milli þjóðfélagshópa og verður það næsta skref í rannsókninni hér á landi að kanna áhrif lífshátta á tengsl krabbameina við störf og menntun.


E 56 Hraður framgangur krabbameins í blöðruhálskirtli hjá arfberum BRCA2 stökkbreytingar


Laufey Tryggvadóttir1, Linda Viðarsdóttir2, Tryggvi Þorgeirsson2, Jón Gunnlaugur Jónasson1.2, Elínborg Jóna Ólafsdóttir1, Guðríður Helga Ólafsdóttir1, Þórunn Rafnar3, Steinunn Thorlacius3, Eiríkur Jónsson4, Jórunn Erla Eyfjörð2, Hrafn Tulinius1

1Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 2læknadeild HÍ, 3Urður, Verðandi, Skuld, 4Landspítali


laufeyt@krabb.is


Inngangur: Brýn þörf er á nýjum aðferðum til að spá fyrir um horfur karla sem greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli. Stökkbreytingar í BRCA2 geninu tengjast aukinni áhættu á að greinast með sjúkdóminn en ekki er vitað hvort þær tengist framgangi hans að öðru leyti. Við könnuðum tengsl lifunar, stigs og gráðu við íslensku BRCA2 landnemastökkbreytinguna hjá sjúklingum með krabbamein í blöðruhálskirtli.

Efniviður og aðferðir: Með samkeyrslu við Krabbameinsskrána fundust 596 sjúklingar greindir á tímabilinu 1955 til og með 2004, úr hópi 29.603 karlkyns ættingja óvalins hóps kvenna með brjóstakrabbamein. Sýni fengust úr 527 einstaklingum (88,4%). Líkan Cox var notað við lifunargreininguna.

Niðurstöður: Stökkbreytingin fannst hjá 30 sjúklingum (5,7%). Miðað við sjúklinga án stökkbreytingarinnar höfðu arfberarnir lægri greiningaraldur (69 ára miðað við 74 ára (p<0,01)), hærra hlutfall greindist með útbreiddan sjúkdóm eða meinvörp (79% miðað við 39%, p<0,001) og hærra hlutfall hafði gráðu G3-4 (87% miðað við 51%, p=0,003). Hjá arfberum var hlutfallsleg áhætta á að deyja af völdum krabbameinsins 3,41 (95% öryggisbil (CI): 2,11-5,48), leiðrétt fyrir áhrifum greiningarárs og fæðingarárs, en 2,16 (95% CI: 1,01-4,66) þegar einnig var tekið tillit til áhrifa stigs og gráðu. Helmingur arfbera var látinn úr sjúkdómnum eftir 2,1 ár miðað við 12,4 ár hjá sjúklingum án stökkbreytingarinnar. Hvorki skyldleiki við brjóstakrabbameinssjúklingana né greiningartímabil höfðu áhrif á horfur arfberanna.

Ályktanir: Arfberar BRCA2 stökkbreytingarinnar virðast vera hópur sem rétt væri að fylgjast vel með varðandi krabbamein í blöðruhálskirtli. En gildi niðurstaðnanna liggur ekki síður í því að þær beina sjónum að atriðum sem gætu hjálpað til við að skilgreina stærri hópa sem líklegir eru til að hafa slæmar horfur, t.d. sjúklingar með svipaða genatjáningu og arfberarnir eða sjúklingar með óvirkt BRCA2 gen.


E 57 Mæðravernd á Monkey Bay svæðinu í suðurhluta Malaví


Geir Gunnlaugsson1,2, Sigríður Bára Fjalldal3, Jane Somanje4, Þóra Steingrímsdóttir1,3,5

1Læknadeild HÍ, 2Miðstöð heilsuverndar barna, 3Landspítali, 4Monkey Bay Community Hospital, Malaví, 5Miðstöð mæðraverndar


Geir.Gunnlaugsson@hr.is


Inngangur: Mæðravernd í lágtekjulöndum einkennist víða af óreglulegum og fáum heimsóknum á meðgöngu og margar konur koma seint í fyrstu skoðun. Einnig er algengt að þær komi ekki í fyrirhugaða eftirfylgd vegna vandamála sem uppgötvast. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna aðgengi að og aðsókn þungaðra kvenna í mæðravernd, framkvæmd hennar og viðhorf mæðra til þjónustunnar á Monkey Bay heilsugæslusvæðinu í Malaví í sunnanverðri Afríku.

Efniviður og aðferðir: Slembiúrtak 215 mæðra sem áttu barn yngra en eins árs var valið með svonefndri klasaaðferð sem er sniðin fyrir aðstæður lágtekjulanda. Saminn var spurningalisti með eigindlegum og megindlegum spurningum sem snertu lýðfræðilegar breytur, komur í mæðravernd, áhættuþætti á meðgöngu, fræðslu í mæðravernd og álit mæðranna á þjónustunni. Viðtöl fóru fram með aðstoð túlks á heimili þátttakenda.

Niðurstöður: Allar mæðurnar nema fjórar sóttu mæðravernd í síðustu þungun. Um þrír fjórðu þeirra höfðu skráningu af einhverjum toga yfir heimsóknir sínar. Að meðaltali höfðu þær farið 4,1 sinni í mæðraskoðun á síðustu meðgöngu. Fyrsta mæðraskoðun var að meðaltali við 24 vikna meðgöngu. Alls höfðu 65% skráðan einn eða fleiri áhættuþátt á meðgöngunni. Alls var 101 kona spurð hvort hún minntist þess að hafa fengið fræðslu í mæðraverndinni og mundi helmingur þeirra eftir einhverju um fræðsluna. Langflestar kvennanna voru jákvæðar gagnvart þjónustu mæðraverndar.

Ályktanir: Mæðraverndin teygir anga sína vel út í þorpin með góðri þátttöku mæðranna og þær eru að jafnaði jákvæðar gagnvart þjónustunni. Aftur á móti koma þær seint í fyrstu skoðun. Skráning niðurstöðu mæðraskoðunar er ómarkviss og þarfnast samræmingar. Fræðsla í mæðravernd virðist ekki skila sér til mæðranna sem skyldi. Huga þarf betur að vinnuferlum sem snerta gæði þjónustunnar.


E 58 Notkun IMCI vinnuferla í heilsugæslu Monkey Bay svæðisins í Malaví


Sigurður Ragnarsson1, Lovísa Leifsdóttir2, Fredrick Kapinga3, Geir Gunnlaugsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2Þróunarsamvinnustofnun Íslands, 3Monkey Bay Community Hospital, 4Miðstöð heilsuverndar barna


sigurra@hi.is


Inngangur: Meirihluta þeirra 10,6 milljóna barna yngri en fimm ára (U5s) sem látast á ári hverju er unnt að fyrirbyggja með einföldum aðgerðum. Integrated Management og Childhood (IMCI) vinnuferlarnir auðvelda heilbrigðisstafsmönnum að meta veik U5s og beita aðgerðum sem lækka dánartíðni barnanna. Tilgangur verkefnisins er að lýsa komum veikra barna í heilsugæslu í lágtekjulandi í Afríku með áherslu á notkun IMCI vinnuferlana í slíku umhverfi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var framkvæmd á Monkey Bay svæðinu í Malaví í mars 2005 á tveimur ríkisreknum stofnunum sem veita heilbrigðisþjónustu endurgjaldslaust og þremur einkareknum stofnunum þar sem þjónusta er gjaldskyld. Gögnum var safnað um allar komur á göngudeildir heilbrigðisstofnananna en sérstaklega um U5s. Viðtöl voru tekin við heilbrigð­is­starfsmenn og lyfja­birgðir stofnananna fimm voru kannaðar.

Niðurstöður: Komur voru 8.808 og U5s voru 32,5%. Það var 1,22 sinnum líklegra (RR, 95% CI 1,18-1,26) að komið væri með U5s á ríkisrekna heilbrigðisstofnun en á einkarekna. Rúmlega fjórir fimmtu allra sjúkdómsflokkanna á rannsóknartímabilinu eru viðfangsefni IMCI. Um helmingur U5s voru skráð með malaríu, 28% með efri öndunarfærasýkingar, 6% með lungnabólgu og 5% með niðurgang. Malaríulyf voru til á öllum stöðum en skortur var á sýklalyfjum í sprautuformi. Átta af 10 starfsmönnum sem sinna veikum börnum voru þjálfaðir í IMCI.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að IMCI nær til heilsugæslu á landsbyggðinni í lágtekjulandi eins og Malaví. Þær sýna að IMCI tekur á flestum sjúkdómum sem hrjá U5s í slíku umhverfi. Þjónustugjöld virðast hafa áhrif á hvert fólk leitar sér þjónustu. Mikilvægt er að styðja við uppbyggingu heilbrigðisþjónustu við börn á svæðinu og símenntun starfsfólks og tryggja að lyf og nauðsynlegur aðbúnaður séu til staðar.


E 59 Mæðravernd og fæðingarhjálp fyrir konur sem fæða í Monkey Bay, Malaví


Eyþór Örn Jónsson1, Ruth Nkana2, Geir Gunnlaugsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2Monkey Bay Community Hospital, Malaví, 3Miðstöð heilsuverndar barna


eythororn@gmail.com


Inngangur: Á hverju ári deyr um hálf milljón kvenna af völdum fylgikvilla meðgöngu og fæðingar. Slæm heilsa móður á meðgöngu og vandamál við fæðingu auka líkur á nýburadauða. Tiltölulega litla fjármuni þarf til að auka þjónustuna þannig að mæðra- og nýburadauði lækki verulega. Markmið rannsóknarinnar er að meta þá þjónustu sem veitt er konum sem fæða á svæðissjúkrahúsinu í Monkey Bay í Malaví í suðurhluta Malaví, bæði á meðgöngu og við fæðingu.

Efniviður og aðferðir: Safnað var gögnum um þær konur sem fæddu á sjúkrahúsinu í Monkey Bay á mánaðartímabili vorið 2004. Gögnin voru skráð á sérhönnuð eyðublöð. Upplýsingar fengust úr gögnum spítalans og með viðtölum við konurnar. Tekin voru ítarleg viðtöl við 13 konur. Gögn voru tölvugerð með FileMakerPro en úrvinnsla fór fram í Excel. Rannsóknin var samþykkt af malavíska heilbrigðisráðuneytinu og heilbrigðisvísindanefnd Malaví.

Niðurstöður: Sextíu og átta konur fæddu á spítalanum á tímabilinu. Á meðgöngunni fengu 92% viðunandi malaríuforvörn og 81% höfðu viðundandi stífkrampabólusettningu. Blóðrauði var mældur hjá 79% kvennanna, að meðaltali í 29. viku og voru 87% þeirra blóðlausar (Hb<11g/dl). Við fæðingu fengu allar konurnar ergómetrín. Fimm af konunum sem tekin voru ítarleg viðtöl við fæddu á spítalanum án þess að ljósmóðir væri viðstödd.

Ályktanir: Sumir þættir þeirrar þjónustu sem spítalinn veitir eru í viðunandi horfi svo sem malaríuforvarnir á meðgöngu og ergómetríngjöf við fæðingu. Aðra þætti má bæta, til dæmis mætti mæla blóðrauða hjá fleiri konum og fyrr á meðgöngunni. Mikilvægt er að ljósmæður séu viðstaddar allar fæðingar sem fram fara á sjúkrahúsinu. Til að auka nýtingu og gæði þjónustunar þarf að bæta úr manneklu og efla starfsandann.


E 60 Framkvæmd forvarnarstarfs fyrir börn undir fimm ára aldri á Monkey Bay svæðinu í Malaví


Björg Jónsdóttir1, Jane Somanje2, Geir Gunnlaugsson1,3

1Háskóli Íslands, 2Monkey Bay Community Hospital, Malaví, 3 Miðstöð heilsuverndar barna


bjorjon@hi.is


Inngangur: Árlega deyja 10,6 milljón börn í heiminum fyrir fimm ára aldur. Hæst dánartíðni er í löndum Afríku sunnan Sahara en þar getur verið erfitt að bjóða börnunum gagnreyndar forvarnaraðgerðir, sérstaklega á strjálbýlum svæðum. Heilsusel eru því skipulögð með reglulegum heimsóknum frá næstu heilsugæslustöð þar sem í boði eru meðal annars bólusetningar, vigtun barna og A vítamíngjöf. Markmið rannsóknarinnar er að skoða framkvæmd forvarnaraðgerða fyrir börn yngri en fimm ára á heilsugæslustöðvum og heilsuseljum á Monkey Bay svæðinu í suðurhluta Malaví.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingum var safnað úr skráningarbókum heilsugæslustöðva fyrir tímabilið janúar 2005 til mars 2006. Einnig voru tekin viðtöl við mæður. Öll gögn voru tölvuvædd og úrvinnsla fór fram í Excel.

Niðurstöður: Alls voru 50.612 heimsóknir barna yngri en fimm ára skráðar á rannsóknartímabilinu og voru 36.321 (72%) barnanna yngri en eins árs. A vítamín var gefið í 187 (53%) móttökum. Um 3/5 var framkvæmdur í heilsuseljum en af 480 áætluðum voru 355 (74%) heilsusel í reynd framkvæmd. Vandamál við framkvæmd þeirra voru til dæmis skortur á farartækjum, erfitt aðgengi á regntímabili, slæmir vegir og skortur á starfsfólki. Einnig vantaði í sumum tilvikum bóluefni og A vítamín. Um 90% barnanna reyndust vera í eðlilegri þyngd en vigtun barnanna var ábótavant. Mæður sóttu þjónustuna vegna áhuga á því að bólusetja og vigta börn sín til að fylgjast með vexti þeirra.

Ályktanir: Gagnreyndar forvarnaraðgerðir fyrir börn yngri en fimm ára á Monkey Bay svæðinu ná til margra barna. Framkvæmd heilsuselja er þó ábótavant. Til að bæta þjónustuna þarf að tryggja aðgengi starfsfólks að farartækjum, bóluefnum og A vítamíni. Einnig þarf að endurskoða aðferðir við vigtun barna.


E 61 Meðferð veikra nýbura á Monkey Bay Community Hospital í Malaví


Berglind Eik Guðmundsdóttir1, Frederick Kapinga2, Geir Gunnlaugsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2Monkey Bay Community Hospital, 3Miðstöð heilsuverndar barna


berglinc@hi.is


Inngangur: Árlega deyja fjórar milljónir nýbura fyrir eins mánaðar aldur og 99% af nýburadauðanum á sér stað í lágtekjulöndum og þá sérstaklega í Afríku sunnan Sahara. Fyrirburafæðingar, alvarlegar sýkingar og súrefnisskortur við fæðingu eru aðalástæður hás nýburadauða. Með einföldum og ódýrum aðgerðum er hægt að lækka hann um allt að ¾. Markmið rannsóknarinnar var að kanna meðferð veikra nýbura í landi í Afríku sunnan Sahara.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingum úr sjúkraskýrslum og skráningarbókum var safnað á nýburadeild Monkey Bay Community Hospital (MBCH) í suðurhluta Malaví í mars til apríl 2006. Gögn voru tölvuvædd og úrvinnsla fór fram í Excel.

Niðurstöður: Af 34 nýburum sem fæddust á tímabilinu voru 22 (65%) yngri en eins vikna við innlögn. Innlagnarþyngd var ekki skráð fyrir 11 nýbura. Af 34 nýburum nærðust 33 eingöngu á brjóstamjólk. Af þeim 29 sem voru með skráða ástæðu fyrir innlögn voru 24 (83%) grunuð um að hafa nýburablóðeitrun. Gentamísín var gefið 33 nýburum og allir nema sex fengu þar að auki benzýlpensilín. Lyfin voru aldrei gefin bæði í réttum skammti miðað við skráða þyngd og í réttan tíma. Útskriftargreining var blóðeitrun hjá 18 (53%) nýburum, en fyrir 16 þeirra var engin greining skráð. Af 34 nýburum útskrifuðust 23 (68%) heim og voru hitalaus, sex mæður stungu af með nýburana áður en kom að útskrift og tveir (6%) létust.

Ályktanir: Flestir nýburanna voru yngri en viku gamlir við innlögn og voru flokkaðir með alvarlegan sjúkdóm. Það er jákvætt að nær allir nærðust eingöngu á brjóstamjólk, þar sem brjóstamjólk veitir nýburum vernd gegn sýkingum. Meðferð veikra nýbura á MBCH, þar með talið skráningarferli, vigtun, lyfjagjöf og eftirfylgni var hins vegar ónákvæm og þarf að bæta ef árangur á að nást í að lækka nýburadauðann.


E 62 Heilsusel í dreifbýli Gíneu-Bissá


Jónína Einarsdóttir

Félagsvísindadeild HÍ


je@hi.is


Inngangur: Heilsa fyrir alla árið 2000 var markmið Alma Ata yfirlýsingar WHO frá árinu 1978. Lögð var meðal annars áhersla á heilsu mæðra og barna, meðferð algengra sjúkdóma og heilsufræðslu. Þátttaka almennings var skilgreind sem grunnstólpi þjónustunnar og svokölluð heilsusel í dreifbýli Afríku sunnan Sahara voru byggð og rekin af þorpsbúum. Sjálfboðaliðar fengu þjálfun í meðferð algengra sjúkdóma og yfirsetukonum var kennd fæðingarhjálp. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hug þorpsbúa til starfs heilsuselja, greina helstu vandamál og finna þætti sem skilja milli vel og illa rekinna heilsuselja í héraðinu Oio í Gíneu-Bissá.

Efniviður og aðferðir: Þrjú vel rekin og þrjú illa rekin heilsusel að mati starfsfólks heilsugæslu Oio voru valin. Eigindleg viðtöl voru tekin við 69 þorpsbúa, karlmenn og konur, og fimm hjúkrunarfræðinga sem sáu um eftirfylgd með starfi og menntun sjálfboðaliðanna.

Niðurstöður: Þorpsbúum fannst jákvætt að heilsuseljunum fylgdi lægri kostnaður og meiri nálægð borið saman við heilsugæslustöðvar. Þeir töldu kunnáttu sjálfboðaliðanna vera nægjanlega. Þorpsbúar mátu meira meðferð með lyfjum en fyrirbyggjandi aðgerðir. Þar sem heilsusel voru illa rekin voru þorpsbúar tregir til að leggja fé í sjóð til lyfjakaupa og báru við skorti á trausti á sjálfboðaliðunum. Hjúkrunarfræðingarnir áttu stundum í erfiðleikum með að safna fé til lyfjakaupa og afla liðs til að reisa heilsuselin. Skortur á farartækjum hindraði eftirfylgd þeirra með starfinu og sjálfboðaliðar áttu erfitt með að tileinka sér námsefnið vegna ólæsis.

Ályktanir: Traust þorpsbúa á þeim sem sjá um starf heilsuseljanna er forsenda þess að þeir leggi fé í sjóð til lyfjakaupa og taki þátt í starfi þeirra. Forsenda góðrar símenntunar sjálfboðaliðanna og eftirfylgd er ásættanlegur aðbúnaður þeirra sem hana annast.


E 63 Hagkvæmari eftirmeðferð eftir mjaðmaliðskipti. Kostnaðargreining í slembiúrvalsrannsókn


Kristín Siggeirsdóttir1,2, Eyjólfur Sigurðsson3, Halldór Jónsson Jr.4

Vilmundur Guðnason1,5, Þórólfur Matthíasson3, Brynjólfur Y. Jónsson6

1Hjartavernd, 2Janus endurhæfing ehf., 3hagfræðideild HÍ,

4Landspítalinn, 5Háskóli Íslands, 6bæklunardeild Háskólasjúkrahússins í Málmey, Svíþjóð


kristin@hjarta.is


Inngangur: Fyrirsjáanleg fjölgun gerviliðaaðgerða á mjöðm og aukinn kostnaður þrýsta á hagræðingu og minnkuð útgjöld á hverja aðgerð.

Markmið: Bera saman kostnaðarliði við hefðbundna og nýja eftirmeðferð við mjaðmaliðskipti.

Efniviður og aðferðir: Kostnaðargreining var gerð á 50 sjúklingum sem fóru í aðgerð á árunum 1997-2000 á Landspítala (29) og Sjúkrahúsi Akraness (21). Slembiúrval var notað til að skipta hópnum í samanburðarhóp (23) og fræðsluhóp (27). Fræðsluhópurinn fékk fræðslu fyrir aðgerð, var útskrifaður á fimmta til sjöunda degi ef engir fylgikvillar komu upp og fékk leiðbeiningar heima eftir útskrift. Engin breyting var gerð á samanburðarhópnum. Hóparnir héldu mjaðmadagbók þar sem allur kostnaður var skráður eftir að heim var komið. Árangur meðferðarinnar var mældur með Oxford Hip Score (OHS). Kostnaður fyrir allt tímabilið var umreiknaður samkvæmt gengi ársins 1999.
Niðurstöður: Meðaltalskostnaður meðan á sjúkrahúsveru stóð var 423.800 kr. hjá fræðsluhóip og 528.400 kr. hjá samanburðahópi. Heildarkostnaðurinn var 464.000 kr. að meðaltali hjá fræðsluhópnum og 670.200 kr. hjá samanburðarhópnum. Sé meðaltals útlagður kostnaður sjúklinganna meðtalinn var kostnaður fræðsluhópsins 693.500 kr. og samanburðarhópsins 969.500 kr. p=0,0001) eða 28% hærri. Þegar tekið var tillit til allra þátta sem haft gætu áhrif á niðurstöðurnar í aðfallsjöfnu (regression analysis) og notað “Ramsey reset test” kom í ljós að breytan “hópur” var tölfræðilega marktæk. Ekki var marktækur munur á kostnaði milli sjúkrahúsanna. Ef árangur samkvæmt OHS var tekinn með í jöfnuna reyndist kostnaðarlækkunin 45% fræðsluhópi í hag.

Ályktanir: Stytting á sjúkrahúslegu eftir mjaðmaliðskipti með leiðbeiningum og fræðslu fyrir aðgerð ásamt stuðningi heima eftir aðgerð virðist lækka kostnaðinn.


E 64 Áreiðanleiki og réttmæti tveggja nýrra mjólkursýruprófa


Halldóra Brynjólfsdóttir, Þórarinn Sveinsson

Rannsóknastofa í hreyfivísindum, Lífeðlisfræðistofnun HÍ


thorasve@hi.is


Inngangur: Loftfirrðarmörk er sá punktur í áreynslu þegar líkaminn hættir að vinna eingöngu loftháð og hluti vinnunnar byrjar að koma frá loftfirrtum efnaferlum með tilheyrandi uppsöfnun úrgangsefna. Upplýsingar um loftfirrðarmörk íþrótta- og líkamsræktarfólks eru mikilvægar þegar fylgjast á með framvindu þjálfunar og til að skipuleggja þjálfunina. Það er því mikilvægt fyrir þennan hóp fólks að eiga kost á áreiðanlegri og aðgengilegri mælingu á loftfirrðarmörkunum. Markmið rannsóknarinnar var að meta áreiðanleika og réttmæti tveggja nýrra aðferða (0,5 mM mjólkursýru og hlaupaprófi) við að meta loftfirrðarmörk og bera þau samana við hefðbundnar mælingar á mjólkursýruþröskuldi og súrefnisupptöku.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 100 sjálfboðaliðar úr hópi íþróttafólks og líkamsræktarfólks. Hver þátttakandi mætti í tvær til þrjár þolmælingar með tveggja til þriggja daga millibili. Mælingarnar voru þrennskonar: A) 4 mM og 0,5 mM mjólkursýruþröskuldar og hámarkssúrefnisupptaka; B) nýtt hlaupapróf sem er hámarksþrepapróf (0,6 m/s og 7 mín. þrep); og C) mat á mestu stöðugu mjólkursýru. Slembival réði því í hvaða próf þátttakandi fór í hvert skipti.

Niðurstöður: Áreiðanleiki allra mælinganna var mjög góður (mælivilla=1,1-3,6%CV) og bestur fyrir hlaupaprófið. Allar mjólkursýrumælingarnar voru sambærilegar og allt misræmi á milli þeirra má skýra með óáreiðanleika mælinganna. Samræmið á milli hlaupaprófsins og mjólkursýrumælinganna var gott (SEE= 0,18-0,24 m/s). Samræmið á milli hámarkssúrefnisupptöku og allra hinna mælinganna var minna.

Ályktanir: Hlaupaprófið er mjög áreiðanlegt próf og réttmæti þess á loftfirrðarmörk ágætt en misræmið má skýra með mismikilli loftfirrtri vinnu.


E 65 Áreiðanleiki beinbrotaspurningalista og áhrif notkunar þeirra á hreyfigetu og styrkleika mælingar


Kristín Siggeirsdóttir1,2, Thor Aspelund1, Gunnar Sigurðsson3, Brynjólfur Mogensen3, Miran Chang1, Birna Jónsdóttir4, Guðný Eiríksdóttir1, Lenore Launer5, Tamara Harris5, Brynjólfur Y. Jónsson6 , Vilmundur Guðnason1,7


1Hjartavernd, 2Janus endurhæfing ehf., 3Landspítalinn, 4Domus Medica, 5Öldrunarstofnun bandaríska Heilbrigðisráðuneytisins, Bethesda, USA, 6bæklunardeild Háskólasjúkrahússins, Málmey, Svíþjóð, 7Háskóli Íslands


kristin@hjarta.is


Inngangur: Faraldsfræðirannsóknir reiða sig mikið á niðurstöður úr spurningalistum. Mikilvægt er að fá vitneskju um áreiðanleika þeirra og hvaða þættir geta haft áhrif á niðurstöður.

Markmið: Bera saman niðurstöður fengnar úr spurningalista og beinbrotagagnagrunni Öldrunarrannsóknar Hjartaverndar með tilliti til áhrifa beinbrota á hreyfigetu og styrkleika og áhrifa vitrænnar getu á nákvæmni upplýsinga beinbrotaspurningalista.

Efniviður og aðferðir: Niðurstöður fengnar úr spurningalista frá 2255 manna úrtaki Öldrunarrannsóknar Hjartaverndar voru bornar saman við niðurstöður beinbrotagagnagrunns byggðan á sjúkra- og röntgenskýrslum frá sjúkrahúsum Reykjavíkur og Akureyrar og Domus Medica.

Niðurstöður: Næmni og jákvætt forspárgildi fór eftir tegundum brots. Samkvæmni milli beinbrotagagnagrunnsins og spurningalistans var 0,11-0,80 (Kappa). Talsverður fjöldi einstaklinga gaf falskt jákvæð og neikvæð svör. Mikið ósamræmi var varðandi mjaðmabrot. Falskt neikvæð svör voru marktækt oftar tengd skertri vitrænni getu borið saman við þá sem svöruðu rétt (p<0,0001). Niðurstöður samkvæmt spurningalista vanmátu áhrif úlnliðs- hryggjar og mjaðmabrota á hreyfigetu og vöðvastyrk. Vigtaður útþynningarstuðull var 11% (CI 0%, 24%) aðlagaður eftir aldri og kyni en minnkaði niður í 6% (CI -10%, 22%) þegar aðlagað var eftir vitrænni getu.

Ályktanir: Beinbrotaspurningalistinn er tiltölulega áreiðanlegur varðandi öll brot nema mjaðmabrot. Spurningalistinn hefur tilhneigingu til að útþynna áhrif beinbrota á hreyfifærni og styrkleika. Þeim mun meira sem áhrifa á ofangreindar mælingar gætir er mikilvægara að nota beinbrotagagnagrunninn.


E 66 Bein – örvaðu eða það hörfar


Fjóla Jóhannesdóttir1,2, Þórður Helgason1, Sigurður Brynjólfsson2, Paolo Gargiulo1, Páll Ingvarsson3, Sigrún Knútsdóttir3, Vilborg Guðmundsdóttir3, Stefán Yngvason3

1Rannsóknar- og þróunarstofu Landspítala, 2verkfræðideild HÍ, 3endurhæfingadeild Grensás, Landspítala


fjolajo@hi.is


Inngangur: Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort hægt væri að endurheimta tapaða beinþéttni lærleggs eftir mænuskaða með raförvun. Verkefnið var hluti af alþjóðlegu verkefni sem nefnist RISE. Markmið RISE var að þróa nýja raförvunarmeðferð sem er margfalt öflugri en núverandi staðlar leyfa fyrir sjúklinga með varalegan útlægan mænuskaða.

Efniviður og aðferðir: Tekið var QCT skann af þremur karlmönnum með aftaugaða og rýra vöðva ásamt einum heilbrigðum. Sjúklingarnir raförvuðu læri og kálfa í tvær klukkustundir á dag, sex daga vikunnar í fimm mánuði. Sneiðmyndatökur voru teknar við upphaf og lok tímabilsins. Beinþéttnidreifingar lærleggs og fjögurra þversniða hans voru ákvarðaðar. Beinþéttni var einnig metin fyrir þétt- og frauðbein á eftirfarandi stöðum: lærleggshálsi, lærhnútu, öllum nærenda og fjærenda lærleggs. Einnig voru metnar breytingar á veggþykkt í þversniðunum fjórum.

Helstu niðurstöður: Beinþéttni sjúklinganna var talsvert lægri en í heilbrigðum einstaklingi. Rýrnun í frauðbeini var miklu meiri en í þéttbeini og lærleggshálsinn rýrnar mest. Sjúklingurinn sem var duglegastur að örva sýndi besta svörun við meðferðinni. Beinþéttni hans jókst innanfótar á lærlegg og á endum leggsins. Rýrnun á innra yfirborði lærleggs var greind hjá öllum sjúklingum. Allir sjúklingarnir töpuðu beinþéttni í grennd við lærhnútu. Beinþéttni lærleggsháls jókst hjá þeim sjúklingi sem var duglegastur að örva. Veggþykkt lærleggsins þynntist hjá þeim sjúklingi sem síðast varð fyrir mænuskaða en reyndist nánast óbreytt hjá hinum.

Ályktanir: Bein þéttist ekki nema þar sem vöðvi togar eða veldur álagi á lærlegg. Þykkur fituvefur torveldar raförvun og rýrir árangur. Meðferðarheldni þarf að vera góð til að árangur náist, það er að örvað sé reglulega að minnsta kosti fjórum til fimm sinnum í viku.


E 67 Styrkur og starfræn færni hjá íslenskum knattspyrnukonum: Samanburður á leikmönnum sem hlotið hafa krossbandameiðsli og viðmiðunarhópi


Særún Jónsdóttir1, Tinna Stefánsdóttir2, Árni Árnason3,4

1MT-stofan, Síðumúla 37, 2Efling sjúkraþjálfun, Akureyri3, sjúkraþjálfunarskor HÍ, 4Gáski sjúkraþjálfun, Bolholti


saerun@hi.is


Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt háa meiðslatíðni í knattspyrnu. Slit á fremra krossbandi í hné veldur hvað lengstri fjarveru knattspyrnumanna frá æfingum og keppni. Algengi slita á fremra krossbandi í knattspyrnu er á bilinu 0,06-3,7 á hverjar 1.000 klukkustundir í leik. Krossbandaslit eru talin vera tvisvar til átta sinnum algengari meðal kvenna en karla. Tilgangur rannsóknarinnar var að mæla styrk, liðleika og starfræna færni hjá íslenskum knattspyrnukonum sem slitið hafa krossbönd og bera saman við viðmiðunarhóp.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur rannsóknarinnar voru leikmenn úr efstu deild kvenna í knattspyrnu á Íslandi. Leikmönnum var skipt í tvo hópa: a) Rannsóknarhópur: leikmenn sem slitið höfðu fremra krossband b) Viðmiðunarhópur: jafnmargir leikmenn úr sömu liðum og af svipaðri hæð og þyngd. Þátttakendur mættu þrisvar sinnum til mælinga. Fjórtán þátttakendur luku rannsókninni, átta úr viðmiðunarhópi og sex úr rannsóknarhópi. Rannsóknin fólst í því að: 1) Mæla jafnhraða vöðvastyrk í aftan- og framanlærisvöðvum með KinCom 500H vöðvastyrksmæli. 2) Meta almennan liðleika með ,,Modified Beighton” aðferð. 3) Kanna starfræna færni með reitahoppi; þátttakendur hoppa á öðrum fæti inn og út úr í reit með krossmynstri í 30 sekúndur. 4) Skoða jafnfætis lendingu úr hoppi niður af stól, þar sem lendingin var mynduð með stafrænni myndbandstökuvél og staða hnjáa við lendingu greind í Kineworks hreyfigreiniforriti.

Niðurstöður: Enginn marktækur munur fannst á milli hópanna tveggja í þeim þáttum sem athugaðir voru. Starfrænt styrkhlutfall aftan- og framanlærisvöðva var mjög lágt hjá báðum hópunum.

Ályktanir: Þrátt fyrir lítið úrtak gefur lágt starfrænt styrkhlutfall tilefni til að ætla að styrkþjálfun knattspyrnukvenna í efstu deild á Íslandi geti verið ábótavant.E 68 Brjóstkassaþan hryggiktarsjúklinga: Forkönnun


María Ragnarsdóttir1, Árni Jón Geirsson2, Björn Guðbjörnsson2,3

1Sjúkraþjálfun Landspítala Hringbraut, 2lyflækningasvið I og 3Rannsóknamiðstöð í gigtlækningum Landspítala


mariara@landspitali.is


Inngangur: Skert brjóstkassaþan hefur verið viðurkennt sem mikilvægt einkenni hryggiktar í aldaraðir. Það er vanalega mælt með málbandi, sem er ódýr og þægileg aðferð, en áreiðanleiki hennar er umdeildur og næmni á breytingar í rannsóknum sem spanna stuttan tíma ófullnægjandi.

Markmið: Að kynna nýja aðferð við að mæla brjóstkassaþan og bera saman öndunarhreyfingar sjúklinga með hryggikt og viðmiðunarhóps af sama kyni, aldri og líkamsþyngdarstuðli, BMI.

Efniviður og aðferðir: Fjórtán körlum með hryggikt var boðin þátttaka. Hæð og þyngd var mæld og almennt heilsufar kannað. Hárifja-, lágrifja- og kviðarhreyfingar hægra og vinstra megin voru mældar með ÖHM-Andri (ReMo ehf, Reykjavík) á meðan þátttakandinn andaði djúpt í tvær mínútur. Niðurstöður voru bornar saman við 14 heilbrigða einstaklinga af sama kyni, aldri og BMI úr fyrri rannsókn. Samband öndunarhreyfinga og tíma frá sjúkdómsgreiningu voru könnuð. Lýsandi tölfræði og Wilcoxon Signed Ranks Test var notað með SPSS forriti (11. útgáfa) þar eð gögn reyndust ekki normaldreifð. Marktækni var sett við p>,5.

Niðurstöður: Meðalaldur þátttakenda var 47±9,5 ár, meðal BMI 27±3,6 og meðal sjúkdómslengd í 13±6 ár. Hárifja öndunarhreyfingar hryggiktarsjúklinganna voru marktækt minni en hjá viðmiðunarhópnum (hægri p=,01, vinstri p=,05). Lágrifja- og kviðarhreyfingar voru samhverfar og ekki marktækt minni en hjá viðmiðunarhópi. Þó var spönn öndunarhreyfinga hryggiktarsjúklinganna mun víðari en hjá viðmiðunarhópnum.

Ályktanir: Hreyfiskerðingar þátttakenda hefðu líklega ekki uppgötvast ef málbandsmæling hefði verið notuð. Niðurstöðurnar gefa til kynna þörf á frekari rannsóknum á samanburði á niðurstöðum mælinga á brjóstkassaþani með málbandi og ÖHM-Andra og á gagnsemi ÖHM-Andra í eftirfylgnirannsóknum á stærra úrtaki hryggiktarsjúklinga.

E 69 Binding við gamalt plastfyllingarefni


Sigurður Örn Eiríksson1, Jónas Geirsson1, Sigfús Þór Elíasson1, Patricia N.R. Pereira2

1Tannlæknadeild HÍ, 2tannlæknadeild University of North Carolina


sigeir@hi.is


Inngangur: Viðgerð á plastfyllingarefnum, þar sem gert er við brotnar fyllingar eða lekar brúnir, er vaxandi þáttur í tannlækningum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna áhrif mismunandi yfirborðsmeðferða eldra plasts á bindistyrk við nýtt plast og finna út hvaða meðferð nær hæstum tog-gildum samanborið við upphafsbindistyrk plastefna (TBS).

Efniviður og aðferðir: Tuttugu og einn plasthringur (Tetric Ceram), 4 mm, var settur í hitaskáp í 30 mánuði. Sjö mismunandi yfirborðsmeðferðir voru prófaðar: (1) sýruæting; (2) demantsskurður og sýruæting; (3) sandblástur (Co-Jet) og sýruæting; (4) Co-Jet og sýruæting og Composite Restore (sérstakt plastviðgeðarefni); (5) Co-Jet og sjálfætandi Primer (SE bond); (6) Co-Jet og sýruæting og Silane; (7) Co-Jet og Clearfil Repair. Excite tannbeinsbindiefni var borið á yfirborð allra hópa nema (5) og (7) og ljóshert. Nýtt plastefni var sett á yfirborðið í tveimur 2 mm lögum og ljóshert. Viðmiðunarhópur (8) var búinn til með því að herða tvö plastlög á nýja 4 mm plasthringi. Sýnin voru geymd í eimuðu vatni í 24 klukkustundir og því næst skorin í 0,8 mm þykkar sneiðar. Sneiðarnar, 12 í hverjum hópi, voru trimmaðar niður í stundaglasalögun með 1 mm2 flatarmál prófunarsvæðis. EZ-prófs togvél var notuð til að toga í sundur og brjóta sýnin með hraðanum 1 mm/mín. og var brotkraftur notaður til að mæla styrk svæðisins í MPa. Gögnin voru með ANOVA og Tukey B prófi (p<0,05).

Niðurstöður: Plast við plast bindistyrkur var eftirfarandi í MPa: (1) 17,5a; (2) 30,3b; (3) 30,0b; (4) 28,9b; (5) 36,9b,c; (6) 40,7c,d; (7) 47,8d; (8) 47,6d. Hópar með sama bókstaf náðu ekki tölfræðilegum mun (p<0,05).

Ályktanir: Þegar gert er við gamalt plastefni með nýju ná hópar (6) og (7) að endurheimta upphafsbindistyrk plastefna.


E 70 Ástæður tannslits hjá Íslendingum til forna


Sigfús Þór Elíasson, Svend Richter

Tannlækningastofnun, tannlæknadeild HÍ

sigfuse@hi.is


Inngangur: Fornhandritin íslensku eru vafalaust stærsta framlag þjóðarinnar til heimsbókmenntanna. Þau gefa ekki einungis upplýsingar um hinn sameiginlega norræna menningararf, uppruna Íslendinga og landnámið, heldur einnig mikilvægar upplýsingar um lifnaðarhætti á söguöld. Sýnt hefur verið fram á að nútímafæði Vesturlandabúa veldur tiltölulega litlu tannsliti. Á síðustu árum hefur borið meira á sýrueyðingu á tönnum, einkum hjá ungu fólki, sem talið er stafa fyrst og fremst af mikilli aukningu á neyslu gosdrykkja. Við fornleifarannsóknir víða um heim hefur komið í ljós að tennur eru oftast mjög slitnar. Ástæðan hefur verið talin gróft fæði til. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta ástæður tannslits í íslenku fornbeinasafni með tilliti til líklegs fæðis.

Efniviður og aðferðir: Tannslit í 55 höfuðkúpum úr tveimur fornleifauppgröftum var skoðað. Reynt var að meta klínískt líklegar aðalástæður tannslits. Tölvuorðaleit var framkvæmd á íslenskum fornsögum til að kanna mataræði til forna.

Helstu niðurstöður: Mikið tannslit var hjá öllum aldurshópum sem jókst marktækt eftir aldri (p<0,001). Ekki var marktækur munur milli kynja. Tannslitið líktist oftast sliti sem talið hefur verið vegna grófmetis. Í þessari rannsókn líktist tannslitið samt oft sliti sem sést eftir sannanlega sýrueyðingu hjá nútíma Íslendingum, sértaklega hjá yngri aldurshópunum. Líklegt er að súrir mysudrykkir og súrmeti hafi verið stór þáttur í mataræði Íslendinga til forna.

Ályktanir: Auk grófmetis og sjúkdóma sem valda sýrueyðingu tanna, hafa súrir drykkir og súrmeti átt stóran þátt í tannsliti Íslendinga til forna.


E 71 Tíðni tannréttingameðferðar og bitskekkju hjá miðaldra Íslendingum


Teitur Jónsson, Sigurjón Arnlaugsson, Karl Örn Karlsson, Björn Ragnarsson, Eiríkur Örn Arnarson, Þórður Eydal Magnússon*

Tannlæknadeild HÍ, *prófessor emeritus


tj@hi.is


Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tíðni bitskekkju hjá miðaldra Íslendingum og hvaða reynslu þeir hefðu af tannréttingum. Notuð var stöðluð skráningaraðferð og niðurstöður metnar með hliðsjón af sambærilegum erlendum könnunum.

Efniviður og aðferðir: Kannað var slembiúrtak 829 einstaklinga, 342 karla og 487 kvenna, á aldrinum 31 til 44 ára. Notaður var spurningalisti til að afla upplýsinga um reynslu þátttakenda af tannréttingum, en bitskekkja og rými í tannbogunum voru metin með staðlaðri klínískri skoðun. Rúmlega helmingur kvennanna (52,8%) var fulltenntur, en lægra hlutfall karlanna (45,3%). Bitskekkju- og rýmisþættir voru skráðir hver fyrir sig sem tvígildar breytur.

Niðurstöður: Marktækt fleiri konur en karlar höfðu farið í tannréttingu með föstum tækjum (16% samanborið við 9,5%) og einnig í tannréttingu með hvers konar aðferðum (24,3% samanborið við 16,9%). Tæpur helmingur þátttakenda (45,5%) hafði ekkert bit- eða rýmisfrávik, 33,9% höfðu einn fráviksþátt og 20,5% höfðu tvo til fjóra fráviksþætti. Algengustu skekkjuþættir í biti og rými voru distalbit á jöxlum (27,7%), þrengsli við neðri framtennur (13,4%), krossbit á jöxlum (11,9%), djúpt framtannabit (11,8%), þrengsli við efri framtennur (7,1%) og mesíalbit á jöxlum (6,9%). Tíðni undirbits, mesíalbits og saxbits var marktækt lægri hjá konum en körlum.

Ályktanir: Tíðni yfirbits var marktækt lægri hjá þeim sem höfðu farið í tannréttingu, sem bendir til þess að slík meðferð sé yfirleitt árangursrík og varanleg. Tíðni krossbits á jöxlum var hins vegar hærri hjá þeim sem höfðu farið í tannréttingu, líklega vegna þess að meðferð við því hafi oft verið ófullnægjandi eða gengið til baka. Tíðni flestra bit- og rýmisfrávika á Íslandi reyndist mun lægri en fram hefur komið í erlendum rannsóknum


E 72 Áhrif sneiðinga þráða í tannvegi á stöðugleika eftir tannréttingameðferð


Kristín Heimisdóttir1, Bjarni Elvar Pjetursson2, Sabine Ruf3, Urs Gebauer2, Niklaus Peter Lang2

1Tannlæknadeild HÍ, 2tannlæknadeild Háskólans í Bern, Sviss, 3tannlæknadeild Háskólans í Giessen, Þýskalandi


kristin@tennur.is


Inngangur: Sneiðing þráða í tannvegi (circumferential supracrestal fiberotomy) eftir tannréttingameðferð hefur verið notuð til að auka stöðugleika tanna og til að varna því að tennur skekkist að nýju. Rannsóknin beindist að því að athuga hvort munur væri á stöðugleika tanna sem væru sneiddar (fiberotomized) eða ekki, skoðað innan munns í sama einstaklingi.

Efniviður og aðferðir: Níu einstaklingar sem voru að ljúka tannréttingameðferð voru valdir til þátttöku. Neðri góms bogi var fjarlægður úr sporum og sneiðing þráða var gerð frá augntönn að miðframtönn öðru megin í neðri góm (valið að handahófi). Hin hliðin var notuð til viðmiðunar (control). Við upphaf rannsóknar og svo á fjögurra til sex vikna fresti í allt að sex mánuði voru teknar ljósmyndir og mát. Afsteypur tanna voru greindar með því að nota óregluindex Little (1975), en einnig voru staðlaðar ljósmyndir af gifsafsteypum notaðar til að meta hreyfingar tannanna. Rennsli (translation) sem og snúningur (rotation) einstakra tanna voru skoðuð. Einnig var ástand tannholds kannað reglulega.

Niðurstöður: Hvorug rannsóknaraðferðanna (óregluindex Little og staðlaðar ljósmyndir gifsafsteypna) sýndi marktækan mun á stöðugleika tanna, þar sem sneiðing þráða hafði farið fram miðað við viðmiðunarhóp. Sneiðing þráða hafði engin áhrif á tannhold.

Ályktanir: Þar sem enginn ávinningur hlaust af sneiðingu tannþráða til að auka stöðugleika í allt að sex mánuði eftir tannréttingameðferð, er ekki hægt að mæla með því að þessi aðgerð sé framkvæmd.


E 73 Herðingardýpt og ljósstyrksmælingar á tannlæknastofum á Íslandi


Sigurður Örn Eiríksson, Birgir Pétursson, Jóhann Vilhjálmsson, Sigurður Rúnar Sæmundsson, Jónas Geirsson

Tannlækndeild HÍ


sigeir@hi.is


Markmið: Mikilvægi plastfyllingarefna og þar af leiðandi gæði herðingarljósa fer hratt vaxandi í nútíma tannlækningum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna gæði herðingarljósa sem notuð eru í tannlæknastofum á höfuðborgarsvæðinu með ljósstyrksmælingum og mælingum á herðingardýpt plastefna (depth of cure eða DOC).

Efniviður og aðferðir: Útbúinn var listi yfir 30 tannlækna með slembiúrtaki og var ljósstyrkur 37 herðingarljósa mældur með herðingarmæli (Curing radiometer Model 100). Að auki voru tvö mismuandi plastefni, Tetric Ceram (TC) og Heliomolar (HM) ljóshert með þessum herðingarljósum í 20 sekúndur og DOC mælt samkvæmt ISO staðli. Samband ljósstyrks og herðingardýpt var reiknað.

Niðurstöður: Þrjátíu og sjö herðingarljós voru prófuð, 20 Quartz Tungsten Halogen ljós og 17 Light Emitting Diodes (LED). Af ljósunum mældust 81% með styrk yfir 300 mW/cm2 Styrkur fjögurra ljósa mældist undir 200 mW/cm2 eða 11%. Þrjú ljós að auki mældust á bilinu 200-300 mW/cm2. Meðalljósstyrkur var 527 mW/cm2 og meðal DOC LED ljósa var 2,11 mm og 1,90 mm fyrir halógenljós. Þessi munur var ekki tölfræðilegur (t-test). Meðal DOC HM var 1,66 mm og 2,35 mm hjá TC sem var tölfræðilegur munur (p<0,05). Tölfræðilegt samband sást á milli ljósstyrkleika og DOC með Pearsons correlation r=0,78 fyrir HM og r=0,92 fyrir TC (p<0,001).

Ályktanir: Herðingarmælir er nothæfur til að áætla herðingardýpt hjá halógenljósa og LED ljósum þar sem ekki var tölfræðilegur munur á milli tegunda af ljósum. Af herðingarljósum reyndust 81% hafa ljósstyrk yfir 300 mW/cm2.


E 74 Glerungsgallar: Niðurstöður úr landsrannsókn á munnheilsu Íslendinga – MUNNÍS


Sigurður Rúnar Sæmundsson1, Helga Ágústsdóttir2, Inga B. Árnadóttir1, Hólmfríður Guðmundsdóttir3, Hafsteinn Eggertsson4, Sigfús Þór Elíasson1, Peter Holbrook1, Stefán Hrafn Jónsson3

1Tannlæknadeild HÍ, 2Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 3Lýðheilsustöð, 4University of Indiana


sigurd@hi.is


Inngangur: Fyrsti áfangi landsrannsóknar á munnheilsu Íslendinga, MUNNÍS, hefur þann tilgang að safna gögnum um munnheilsu íslenskra barna og unglinga. Eitt markmið könnunarinnar var að meta algengi glerungsgalla í fullorðinstönnum barnanna.

Efniviður og aðferðir: Úrtak 2.256 íslenskra barna, sem hannað var til að endurspegla allt þýði barna á Íslandi í fyrsta, sjöunda og tíunda bekk (um 6, 12 og 15 ára), var skoðað. Munnskoðun fór fram í skólum og var gerð af einum skoðara eftir hreinsun tanna. Glerungsgallar í fullorðinstönnum voru skráðir samkvæmt fyrirfram ákveðnum og hefðbundnum greiningarkennimerkjum.

Niðurstöður: Glerungsgallar fundust í fullorðinstönnum 29,7% barnanna (1. bekkur 20,0%; 7. bekkur 35,0%; 10. bekkur 34,0%). Glerungsgallar í sex ára jöxlum fundust í 15,6% barna (1.bekkur 14,8%, 7.bekkur 14,7%, 10 bekkur 17,4%). Börn með glerungsgalla á sex ára jöxlum og fullorðinsframtönnum höfðu jafnframt markvert fleiri skemmdar eða fylltar fullorðinstennur (DMFT 1,68 sd 2,30) heldur en þeir sem ekki höfðu slíka glerungsgalla (DMFT 1,36 sd 2,63, p<0,01).

Ályktanir: Glerungsgallar í fullorðinstönnum íslenskra barna eru algengir. Glerungsgöllum fylgja umtalsvert auknar tannskemmdir og viðgerðarþörf.


E 75 Munnheilsa Parkinsons sjúklinga á Íslandi


Erna Rún Einarsdóttir, Hallfríður Gunnsteinsdóttir, Margrét Huld Hallsdóttir, Sigurjón Sveinsson, Sonja Rut Jónsdóttir, Vilhelm Grétar Ólafsson, Þorvaldur Halldór Bragason, Sigurður Rúnar Sæmundsson, W. Peter Holbrook

Tannlæknadeild HÍ


ernaei@hi.is sigurd@hi.is


Tilgangur: Parkinsons sjúkdómur hefur í erlendum rannsóknum ýmist tengst slæmri eða góðri munnheilsu. Rannsóknir eru fáar og niðurstöður stangast á. Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta munnheilsu Parkinsons sjúklinga á Íslandi og bera munnheilsu þeirra saman við munnheilsu einstaklinga án Parkinsons sjúkdóms.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingum var boðin þátttaka með aðstoð Parkinsonssamtakanna sem virkjaði félagsmenn til þátttöku. Samanburðareinstaklingar voru valdir úr hópi maka sjúklinganna, sambýlisfólks, og einstaklinga sem líklegir voru til að hafa svipaðar venjur hvað varðar mataræði og munnhirðu til að fá sem sambærilegastan samanburðarhóp. Skoðaðir voru 67 Parkinsons sjúklingar og 56 samanburðareinstaklingar. Munnskoðun fór fram á tannlæknadeild Háskóla Íslands og á tannlæknastofu á Akureyri og var munnheilsa metin með tilliti til tannátu, viðgerða, tapaðra tanna, munnhirðu, tannholdsástands, slímhúðar, munnbaktería og munnvatnsframleiðslu. Spurningar voru lagðar fyrir þátttakendur meðal annars til að meta heilsufar, munnhirðu og mataræði.

Niðurstöður: Miðað við samanburðarhópinn höfðu Parkinsons sjúklingar tapað marktækt fleiri tönnum (P<0,05). Þeir höfðu hærra DMFT (P<0,05) og DMFS (p<0,01), dýpri meðaltalspokadýpt á mældum tönnum (p<0,05), hærri gingival index (p<0,01) og meiri tannsýklu (p<0,001). Ekki mældist marktækur munur á sykurneyslu, sælgætisneyslu, tannburstun eða munnvatnsframleiðslu meðal Parkinsons sjúklinga og samanburðarhóps.

Ályktanir: Vitað er að vegna hreyfi-og farlömunar eiga Parkinsons sjúklingar erfitt með eigin munnhirðu og að sækja tannlæknaþjónustu. Hugsanlegt er að þetta valdi lakari útkomu Parkinssons sjúklinga í flestum mælingum á munnheilsu í rannsókn þessari. Niðurstöðurnar gætu komið heilbrigðisyfirvöldum að gagni við að móta forvarnir og skipuleggja aðstoð við þennan hóp.


E 76 Að innleiða nýja tækni í meðgönguvernd: Orðræða í íslenskum fjölmiðlum um hnakkaþykktarmælingu


Helga Gottfreðsdóttir, Kristín Björnsdóttir

Hjúkrunarfræðideild HÍ


helgagot@hi.is


Inngangur: Í nútímasamfélögum eru fjölmiðlar áhrifamikill þáttur í að móta viðhorf fólks varðandi heilbrigði og heilbrigðisþjónustu. Í þessari rannsókn er leitast við að skoða umræðu um hnakkaþykktarmælingu í fjölmiðlum á Íslandi, áður en tekin var ákvörðun um að bjóða hana öllum verðandi foreldrum. Rannsóknin er hluti af stærra verkefni sem felst í að skoða hvernig ákvörðun verðandi foreldra um að þiggja skimun fyrir fósturgöllum á fyrsta þriðjungi meðgöngu verður til.

Efniviður og aðferðir: Þau gögn sem byggt er á í þessum hluta eru greinar og viðtöl sem birtust í dagblöðum frá ársbyrjun 2000 til loka árs 2005. Jafnframt voru skoðuð viðtöl og fréttaskýringar í ljósvakamiðlum á sama tímabili, auk fræðsluefnis um hnakkaþykktarmælingu sem ætlað var verðandi foreldrum. Úrvinnsla gagna byggir á orðræðugreiningu þar sem lögð er áhersla á að tungumálið sé mikilvægasti þátturinn í að móta reynslu og vinnlag.

Niðurstöður: Áberandi í textum og viðtölum er það sem hægt er að kalla gagnrýnislausa virðingu fyrir tækniframförum. Rík áhersla er lögð á lykilhugtök svo sem upplýst val og áhættu. Inn í umræðuna fléttast hins vegar sjaldan umfjöllun um siðfræði, félagslegar hliðar fósturskimunar eða fjárhagslegan ávinning. Ákvörðun um að skima fyrir Downs heilkenni á meðgöngu er véfengd af örfáum aðilum.

Ályktanir: Samfélagslegir þættir eiga án efa stóran þátt í þeirri þróun sem á sér stað hér á landi varðandi innleiðingu nýrra aðferða til skimunar fyrir fósturgöllum. Íslenska þjóðin er fremur einsleit og rík áhersla er á neyslu og óheft val almennings varðandi hvers kyns þjónustu. Mikilvægt er að þeir sem koma að ráðgjöf og þjónustu við verðandi foreldra hafi þekkingu á samspili þeirra fjölmörgu þátta sem móta viðhorf og reynslu þess hóps, og skilji jafnframt mögulegar afleiðingar fósturskimunar.


E 77 Þekking og viðhorf varðandi fósturskimun og fósturgreiningu á Íslandi


Vigdís Stefánsdóttir1, Heather Skirton2, Jón Jóhannes Jónsson1,3, Hildur Harðardóttir4


1Erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 2Plymouth University, 3Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 4fósturgreiningadeild Landspítala

vigdisst@landspitali.is


Inngangur: Öllum þunguðum konum á Íslandi er boðin fósturskimun á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Ef líkur á fósturgalla/fráviki eru auknar, er boðið upp á fósturgreiningu með legástungu og litningarannsókn. Mikilvægt er að ákvörðun um þátttöku í fósturskimun sé tekin með réttar og nægar upplýsingar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna þekkingu og skilning barnshafandi kvenna á skimun og fósturgreiningu á fyrsta þriðjungi meðgöngu.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var í tveim hlutum hjá tveimur hópum kvenna á fyrsta þriðjungi meðgöngu, í hvorum hópi 200 konur. Fyrri hópurinn fékk hefðbundnar upplýsingar en seinni fékk að auki upplýsingabækling um fósturskimun og fósturgreiningu. Ljósmæður afhentu konum spurningalista með 21 spurningu. Spurt var um fósturskimun og fósturgreiningu, upplýsingagjöf og rannsóknir. Einnig hverju væri skimað fyrir og hvernig niðurstaða skimunar væri túlkuð með tilliti til hugsanlegra fósturgalla. Gefinn var kostur á því að svara með frjálsum texta á nokkrum stöðum.

Niðurstöður: Yfir 50% þátttakenda sögðust myndu þiggja boð um fósturskimun. Af þátttakendum í fyrri hluta sögðu 63% upplýsingar í mæðravernd vera mjög gagnlegar en 37% í seinni hluta. Úr fyrri hópnun sögðu rúmlega 40% að skimað væri fyrir þrístæðu 13 og 18 en yfir 60% í seinni hópnum.

Úr fyrri hluta rannsóknarinnar eru niðurstöður þær að 34% þátttakenda svara því að ólíklegt sé að barn sé með Downs heilkenni ef niðurstaða úr skimprófi sýnir litlar líkur en 78% úr seinni hópnum. Af heildarfjölda vissu 83% að fósturskimun er gerð með ómskoðun, 72% blóðrannsókn, 85% hnakkaþykkt. Þrjátíu og átta af hundraði höfðu fengið upplýsingar um rannsóknir á meðgöngu hjá ljósmóður. Um 60% vildu helst fá upplýsingar frá ljósmóður en 30% frá lækni. Greining á frjálsum texta, þar sem þátttakendur útskýra í eigin orðum fósturskimun og fósturgreiningu, sýndi að talsverð þörf er á aukinni fræðslu til verðandi foreldra varðandi fósturskimun og fósturgreiningu.

Ályktanir: Niðurstöður úr valspurningum og innihaldsgreining á frjálsum texta sýna að þekking verðandi mæðra á fósturskimun og fósturgreiningu er takmörkuð. Brýn þörf er að bæta úr upplýsingagjöf til verðandi foreldra.


E 78 Hlutverk hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra við skimun vanlíðunar eftir fæðingu og við meðferð hennar. Fræðileg úttekt


Marga Thome, Anna Ísabela Górska, Hrafnhildur Björk Brynjarsdóttir

Hjúkrunarfræðideild HÍ

marga@hi.is


Inngangur: Markmið fræðilegrar úttektar var að kanna hvaða efni er til á alþjóðavísu um hlutverk hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra um skimun við vanlíðan kvenna eftir barnsburð og meðferð hennar og að lýsa stöðu þekkingar á þessu sviði.

Efniviður og aðferðir: Gögnum var safnað við leitarvélarnar www.scholar.google.com, Ovid, PubMed, CINHAL, www.hvar.is, Scopus og www.termedia.pl. Einnig var leitað á netinu að námskeiðum fyrir hjúkrunarfræðinga og ljósmæður og eftir rannsóknum sem lýstu meðferðum, veittum af þessum stéttum. Leitin fór fram á ensku, íslensku og pólsku. Önnur gögn voru fræðslunámskeið á netinu og ýmsir bæklingar.

Niðurstöður: Tuttugu og fjórar rannsóknargreinar fundust og niðurstöður sýndu að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður í nokkrum vestrænum löndum eru í lykilstöðu til að skima fyrir vanlíðan eftir barnsburð og til að veita samtals- og stuðningsmeðferðir fyrir konur sem þjást af vanlíðan eftir barnsburð.

Ályktanir: Ályktað er að þrátt fyrir vaxandi hlutverk hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra við skimun eftir vanlíðan eftir barnsburð og meðferð hennar, gefi niðurstöður til kynna að í mörgum löndum vanti menntun og þjálfun þessara heilbrigðisstétta til að skima fyrir vanlíðan og veita viðeigandi meðferð.


E 79 Ráðgjöf um getnaðarvarnir á kvennasviði Landspítala í tíu ár


Sóley S. Bender,1,3, Reynir T. Geirsson2,3

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2læknadeild HÍ, 3kvennasvið Landspítala


ssb@hi.is


Inngangur: Í ljósi hækkandi tíðni fóstureyðinga meðal kvenna á frjósemisskeiði, einkum meðal unglingsstúlkna, lagalegra ákvæða frá 1975 um kynheilbrigðisþjónustu og alþjóðlegra samþykkta um slíka þjónustu var árið 1997 opnuð móttakan, Ráðgjöf um getnaðarvarnir, á kvennadeild landspítala og var hún einkum ætluð konum sem fóru í fóstureyðingu á spítalanum. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða þróun þjónustunnar yfir 10 ára tímabil.

Efniviður og aðferðir: Skoðaðar voru komur kvenna á móttökuna á árunum 1997-2006 með tilliti til fjölda, tegundar getnaðarvarna og aldurs kvenna.

Niðurstöður: Fyrstu árin fer komum hægt fjölgandi frá 135 árið 1997 og nær hámarki á árunum 2002-03, um 400 komur. Frá upphafi hafa unglingsstúlkur verið fjölmennasti hópurinn en næstflestar eru á aldrinum 21-25 ára. Ráðandi getnaðarvarnir yfir tímabilið eru getnaðarvarnarpillan og hormónasprautan. Í byrjun tímabilsins voru flestar komur vegna pillunnar en smám saman dregur úr notkun hennar og hormónasprautan verður algengari valkostur kvenna. Notkun lykkjunnar er mismikil milli ára, um 5%-20% af öllum getnaðarvörnum. Lítil notkun er á hormónahringnum og hormónaplástrinum.

Ályktanir: Sú þróun átti sér stað á árunum 1976-2000 að tíðni fóstureyðinga meðal unglingsstúlkna fór hækkandi. Hins vegar lækkar þessi tíðni á árunum 2001-2004 og er að meðaltali 20,3 á hverjar þúsund unglingsstúlkur. Það er líklegt að móttakan sé einn af skýringarþáttum þessarar lækkunar. Í því sambandi má gera ráð fyrir að ráðgjöfin stuðli að meðferðarheldni kvennanna en slíkt krefst frekari rannsókna. Niðurstöður sýna að hormónasprautan verður oft fyrir valinu og byggist það val iðulega á því að þetta er ódýr getnaðarvörn. Mikilsvert er að niðurgreiða getnaðarvarnir til að konur hafi val um fleiri tegundir getnaðarvarna.


E 80 Algengi brjóstagjafar á Íslandi hjá börnum fædd 1999-2003


Hjördís Þorsteinsdóttir1, Geir Gunnlaugsson2

1Læknadeild HÍ, 2Miðstöð heilsuverndar barna


hjordit@hi.is


Inngangur: Brjóstamjólk er flókinn seytingarvöki og talin besta næringin fyrir nýbura og ung börn. Hún er haldin ýmsum sérstökum eiginleikum. Þannig verndar brjóstamjólk gegn margs konar sýkingum hjá nýburum og ungbörnum en hefur einnig áhrif til lengri tíma hvað varðar vitsmunaþroska og ýmsa sjúkdóma. Mælt er með af WHO að börn séu eingöngu á brjósti fyrstu sex mánuðina eftir fæðingu. Algengi brjóstagjafar er hins vegar mjög breytileg í heiminum og er hún háð ýmsum menningarlegum venjum og siðum. Markmið rannsóknarinnar er að kanna algengi brjóstagjafar á fyrsta aldursárinu hjá íslenskum börnum fæddum árin 1999-2003.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingum um brjóstagjöf var safnað á sérstakt eyðublað úr heilsufarsskrám barna í ung- og smábarnavernd á heilsugæslustöðvum um allt land. Allar upplýsingarnar voru ópersónugreinanlegar og skráðar í sértakan gagnagrunn en tölfræðileg úrvinnsla var framkvæmd í JMP.

Niðurstöður: Rannsóknin nær til 13.003 barna eða um 63% barna fæddra á tímabilinu. Við einnar viku aldur voru 98% á brjósti og þar af 91% eingöngu á brjósti. Við fjögurra mánaða aldur voru 79% barna á brjósti en 48% eingöngu á brjósti. Við 6 mánaða aldur voru 66% barna á brjósti en 11% eingöngu á brjósti. Við 12 mánaða aldur voru 15% barna enn á brjósti.

Ályktanir: Niðurstöðurnar ná til stórs hluta af íslenskum börnum sem eru fædd á tímabilinu og gefa því góða mynda af algengi brjóstagjafar á Íslandi. Langflestar mæður hefja brjóstagjöf og eru með barn sitt á brjósti við einnar viku aldur. Aftur á móti er hlutfall barna sem eru eingöngu á brjósti við sex mánaða aldur langt frá því sem alþjóðlegar leiðbeiningar mæla fyrir um og mun lægra en til dæmis í Noregi og Svíþjóð. Efla þarf fræðslu um brjóstagjöf til íslenskra mæðra og styðja þær á þann hátt að brjóstagjöf verði ánægjuleg fyrir móður og barn.


E 81 Að mennta hjúkrunarfræðinga með internetnámskeiði til að bæta geðheilsu kvenna eftir fæðingu. Tilraunarannsókn frá 2001 til 2005


Marga Thome1, Eygló Ingadóttir1, Brynja Örlygsdóttir1, Anna Jóna Magnúsdóttir1

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítali


marga@hi.is


Inngangur: Efling geðheilsu eftir barnsburð er þríþætt: 1. Að fræða heilsugæsluhjúkrunarfræðinga um vanlíðan eftir fæðingu; 2. að kanna hvort þjónusta í kjölfar fræðslunnar dragi úr vanlíðan mæðra og 3. að þróa skráningu á hjúkrunargreiningu og meðferðir samkvæmt NANDA og NIC.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknasniðið var tilraunasnið og skiptust heilsugæslustöðvar í meðferðar- og samanburðarstöðvar og hjúkrunarfræðingar á meðferðarstöðvum sóttu netnámskeiðið Geðvernd eftir fæðingu. Konum var boðin þátttaka í rannsókninni ef þær fengu gildið 12 eða hærra á Edinborgar-þunglyndiskvarðanum (EPDS) níu vikum eftir barnsburð. Í þátttöku fólst að svara þremur spurningalistum, níu, 15 og 24 vikum eftir barnsburð sem mæla foreldrastreitu, þreytu, þunglyndiseinkenni og fleira. Starfsfólk á meðferðarstöðvum fékk fyrirmæli um að hjúkrunarfræðingar hefðu að lágmarki fjórum sinnum samskipti við hverja konu á tímabilinu, milli níundu og 24. viku eftir barnsburð. Á öllum stöðvum voru skráðar hjúkrunargreiningar (NANDA) og meðferðir (NIC).

Niðurstöður: Tuttugu og sjö heilsugæslustöðvar á landsvísu völdust í úrtakið, þar af 16 meðferðar- og 11 samanburðarstöðvar. Af 136 konum, sem fengu 12 stig og meira á EPDS, samþykktu 98 þátttöku. Í byrjun rannsóknar greindist ekki munur á þunglyndiseinkennum (EPDS), streitu (PSI/SF) og þreytu (fatigue scale) á milli kvenna á meðferðar- og samanburðarstöðvum. Hins vegar var marktækur munur á þunglyndiseinkennum kvenna milli þessara hópa 15 og 24 vikum eftir barnsburð. Prófun á klínískri marktækni EPDS sýndi að 70% kvenna á meðferðarstöðvum hafði batnað alveg á 24. viku miðað 53% á samanburðarstöðvum.

Ályktanir: Álykta má að stuðningsmeðferð hjúkrunarfræðinga á meðferðarstöðvum hafi tilætluð áhrif þar sem það dregur marktækt úr þunglyndiseinkennum og er háð þekkingu þeirra.


E 82 Hindrun magnakerfis minnkar vefjaskemmdir í kjölfar kransæðastíflu í rottum


Perla Þorbjörnsdóttir1, Michaele D'Amico2, Clara DiFilippi2, Guðmundur Þorgeirsson3, Girish J. Kotwal3, Guðmundur Jóhann Arason1

1Rannsóknastofnun Landspítala, ónæmisfræðideild, 22nd University of Naples, Napólí, 3lyfjadeild Landspítala, 4University of Cape Town, Höfðaborg


garason@landspitali.is


Inngangur: Magnakerfið er einn öflugasti bólgumiðill mannslíkamans og sýnt hefur verið fram á að bólga veldur helmingi þeirra vefjaskemmda sem verða í hjartadrepi þegar hin stíflaða æð er enduropnuð (endurflæðisskemmdir). Þetta gefur vonir um að magnahindrar geti hentað sem lyf til að minnka umfang hjartadreps eftir kransæðastíflu. Í þessari rannsókn voru áhrif magnahindrans VCP (vaccinia virus complement control protein) athuguð í rottulíkani.

Efniviður og aðferðir: Hjartaáfall var framkallað í Sprague-Dawley rottum með því að binda fyrir kransæð. Blóðþurrð var leyfð í 30 mínútur og æðin síðan enduropnuð, en fimm mínútum fyrir opnun æðarinnar var VCP eða saltvatni sprautað í hálsslagæð. Endurflæði var í þrjár klukkustundir. Að tilraun lokinni var hjartað fjarlægt, en fyrst var sprautað Evans bláma í æð meðan aftur var hnýtt fyrir kransæðina. Þannig var hægt að sjá hvaða hluti hjartans varð fyrir súrefnisskorti. Þessi hluti hjartans var einangraður og litaður með NBT, sem litar lifandi frumur. Umfang vefjaskemmda var metið með því að vigta lifandi og dauða hluta hjartans.

Niðurstöður: Í rottum sem fengu saltvatn í æð (N=3) námu vefjaskemmdir eftir hjartadrep 56±2,5% af svæðinu sem varð fyrir blóðþurrð, en í þeim rottum sem fengu 4 (N=3) eða 20 mg/kg VCP (N=2) námu þær 48±2,5% og 32±6%. Þetta benti til að ná mætti hámarks vernd með VCP í skammtinum 8-12mg/kg. Þegar gefin voru 8,5 mg/kg VCP námu vefjaskemmdir 31±2% blóðþurrðarsvæðis. Miðað við saltvatn reyndist VCP þannig vernda um 14% (p=0,017), 44% (p<0,001) eða 43% (p=0,007) þegar það var gefið í skömmtunum 4 mg/kg, 8,5 eða 20.

Ályktanir: VCP hefur skammtaháð áhrif á vefjaskemmdir sem verða í kjölfar kransæðastíflu.


E 83 Oxavarnaensímin cerúlóplasmín og súperoxíðdismútasi og hrörnunarsjúkdómar í miðtaugakerfi


Guðlaug Þórsdóttir1,3, Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir2, Grétar Guðmundsson2, Stefán Hreiðarsson4, Jakob Kristinsson1, Jón Snædal3, Þorkell Jóhannesson, prófessor emeritus1


1Rannsóknarstofa Háskólans í lyfja- og eiturefnafræði, 2taugalækningadeild Landspítala Fossvogi, 3öldrunarsvið Landspítala Landakoti, 4Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins


gudlaugt@hi.is


Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna magn, oxunarvirkni og sértæka oxunarvirkni cerúlóplasmíns (CP) og virkni súperoxíðsdismútasa (SOD1) í blóði sjúklinga með hrörnunarsjúkdóma í miðtaugakerfi og/eða meðfæddan breytileika í miðtaugakerfi.

Efniviður og aðferðir: Gerðar voru paraðar rannsóknir þar sem magn, virkni og sértæk oxunarvirkni CP í sermi ásamt virkni SOD1 í rauðum blóðkornum voru ákvörðuð í sjúklingum með Alzheimers sjúkdóm (AS), Parkinsons sjúkdóm (PS) eða amyotrophic lateral sclerosis (ALS). Einnig í einstaklingum með Downs heilkenni (DH), einhverfu og arfblendni fyrir Wilsons sjúkdóm (aWS). Sömu þættir voru skoðaðir í heilbrigðum viðmiðunarhópi. Rannsóknin var endurtekin á sömu PS sjúklingum sem enn voru á lífi fimm árum síðar.

Niðurstöður: Í AS og PS sjúkdómi var marktækt minnkuð oxunarvirkni CP og SOD1 borið saman við viðmiðunarhóp. Þessi munur var enn til staðar hjá PS sjúklingum fimm árum seinna. Enginn marktækur munur var á CP magni/virkni í einstaklingum með DH og viðmiðunarhópi en SOD1 virkni var um 50% hærri (genið sem skráir gerð SOD1 er á litningi 21). Bornir voru saman yngri og eldri (>40 ára) einstaklingar með DH og var SOD1 og sértæk oxunarvirkni CP marktækt lægri í eldri hópnum. Enginn marktækur munur var á milli sjúklinga með ALS, einstaklinga með einhverfu eða aWS og viðmiðunarhópa þeirra.

Ályktanir: Oxunarvirkni CP og SOD1 í blóði sjúklinga með AS og PS er minni en í viðmiðunarhópi. Það má því gera ráð fyrir að oxunarvörnum þessara sjúklinga sé ábótavant. Greina má breytingar á CP og SOD1 hjá eldri einstaklingum með DH en sá hópur þróar með sér AS líkt ástand um og eftir fertugt. Rannsaka þarf hvort breytingar á starfsemi CP og SOD1 í AS og PS tengist orsök sjúkdómanna fremur enn að vera afleiðing þeirra.


E 84 Þróun og prófanir á alginatfilmum til lyfjagjafar í munnhol


Jón Halldór Þráinsson1, Skúli Skúlason2, Þórdís Kristmundsdóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Líf-Hlaup ehf.


thordisk@hi.is


Inngangur: Vaxandi áhugi er á að nota slímhimnubindandi fjölliður í lyfjaform til staðbundinnar og systemískrar lyfjagjafar um munnhol. Lyfjagjöf um munnhol hefur ýmsa kosti í för með sér, meðal annars er komist hjá niðurbroti við fyrstu umferð um lifur, unnt er að fá hraðari verkun lyfja og með stjórnuðum lyfjaflutningi má minnka skammta svo og aukaverkanir. Natríum algínat er náttúruleg pólýsakkaríð fjölliða sem hugsanlega mætti nota til lyfjagjafar um munnhol vegna viðloðunarhæfni við slímhúð. Markmið verkefnisins var að þróa aðferð til framleiðslu algínatfilma sem nota mætti til lyfjagjafar á slímhúð.

Efniviður og aðferðir: Algínatfilmurnar voru framleiddar með uppgufunaraðferð. Áhrif hitastigs og þurrkunaraðstæðna voru metin. Hýdroxýprópýlmetýlcellulósa (HPMC) var notuð til að bæta eiginleika filmanna og própýlen glýkól var notað sem mýkingarefni. Viðloðunar- og slitþolseiginleikar filmanna voru metnir með texture analyser TA-XT2i og bólgnun filmanna í gervimunnvatnslausn var könnuð.

Niðurstöður: Þær þurrkunaraðstæður fyrir filmurnar sem gáfu bestu niðurstöðurnar var 50ºC í ofni í um 48 klukkustundir. Samanburður var gerður á filmum sem innihéldu mismunandi hlutföll af algínati, HPMC og própýlen glýkóli. Niðurstöður sýndu að viðloðun eykst með auknum styrk algínats í filmunum en þéttni mýkingarefnis hafði ekki afgerandi áhrif. Með lækkandi styrk algínats og þar með hækkandi styrk HPMC höfðu himnurnar hærri bólgnunarstuðul og lengri sundrunartíma. Bólgnunarstuðullinn hækkaði og sundrunartíminn lengdist með lækkandi þéttni mýkingarefnis. Hámarksslitþolskraftur náðist þegar styrkur algínats og HPLC fjölliðanna var jafn. Áhrif mýkingarefnis á slitþolskraft voru ekki sýnileg.

Ályktanir: Þróuð var aðferð til að framleiða alginatfilmur sem gætu hentað til lyfjagjafar um munnslímhúð.


E 85 Hönnun á samsettu himnulíkani til að meta flæði yfir lífrænar himnur


Fífa Konráðsdóttir, Þorsteinn Loftsson, Már Másson

Lyfjafræðideild HÍ


fifa@hi.is


Inngangur: Meirihluti lyfja á markaðinum flyst yfir lífrænar himnur með óvirku flæði. Lífrænar himnur hafa fitusækið himnulag sem hindrar að einhverju leyti flæði vatnssækinna sameinda. Á yfirborði himnanna myndast einnig kyrrstætt vatnslag sem getur verið áhrifarík hindrun fyrir fitusækin lyf. Við þróun lyfja eru himnulíkön nýtt til að skima fyrir lyfjaefnum sem flæða auðveldlega yfir himnur en vöntun er á himnulíkani þar sem hægt er að stjórna bæði hindrunareiginleikum kyrrstæða vatnslagsins og fitusækni himnunnar.

Efniviður og aðferðir: Nítrósellulósi var notaður sem burðarefni fyrir oktanól eða dódekanól (fitulag). Fitulagið var síðan borið á sellófanhimnur með mismunandi gatastærðum (kyrrstætt vatnslag). Lyfjalausnum komið fyrir í gjaffasa Franz flæðisella, sýni tekin úr móttökufasa á 30-60 mínútna fresti í fjórar klukkustundir og magnmæld í vökvaskilju (HPLC).

Niðurstöður: Sellófan/oktanól-nítrósellulósa (C/ON) himnur reyndust ódýrar og auðveldar í framleiðslu og lítið frávik var milli flæðitilrauna. Lyf á ójónuðu formi flæddu hraðar yfir C/ON himnuna en lyf á jónuðu formi og kyrrstætt vatnslag himnanna reyndist vera ráðandi í hindrun á flæði ójónaðra fitusækinna lyfja. Það tókst að stjórna áhrifum kyrrstæða vatnslagsins á flutning lyfja yfir C/ON himnurnar með notkun sellófanhimna með mismunandi gatastærðum. Með því að auka þykkt eða breyta samsetningu fitusæknu himnunnar var einnig hægt að hafa áhrif á hindrunareiginleika C/ON himnunnar.

Ályktanir: C/ON himnurnar hafa það framyfir önnur himnulíkön að það er mögulegt að rannsaka hindrun vegna fituhimnu og hindrun vegna kyrrstæða vatnslagsins á gegndræpni himnu fyrir lyfjum óháð hvort öðru. Við teljum C/ON himnurnar vera raunhæfan kost til að skima fyrir jákvæðum flæðieiginleikum lyfja úr lyfjaformum.


E 86 Rannsókn á örveruinnihaldi kítósans


Freyja Jónsdóttir1, Skúli Skúlason1,3, Þórdís Kristmundsdóttir1, W. Peter Holbrook2

1Lyfjafræðideild og 2tannlæknadeild HÍ, 3Líf-Hlaup ehf.


thordisk@hi.is


Inngangur: Kítósan er fjölsykra sem er framleidd með N-deasetýleringu á kítíni en kítíni er unnið úr skel krabbadýra. Kítósan býr yfir margvíslegum eiginleikum sem hefur leitt til vaxandi áhuga á að nota það sem hjálparefni í lyfjagerð. Við þróun aðferðar til framleiðslu kítósanhimna til lyfjagjafar í munnhol bentu niðurstöður til þess að mengun væri í efninu. Rannsóknin beindist þá að því kanna um hvaða mengun væri að ræða og hvort kítósan standist gæðakröfur sem gerðar eru til hráefnis í lyfjagerð.

Efniviður og aðferðir: Kítósan var frá Primex. Ræktað var úr kítósani á föstu formi á Brain Heart Infusion Broth og síðan sett á blóðagar; kítósan í mismunandi leysum var einnig ræktað á blóðagar. Kítósanið var hreinsað með sæfingu, UV-geislun og síun.

Niðurstöður: Mikill og fjölbreytilegur gróður ræktaðist úr kítósanlausnunum og úr föstu efninu. Við smásjárskoðun sáust meðal annars Bacillus tegundir, Micrococcus spp., Pseudomonas spp auk þess sem töluvert magn af bakteríugróum var í lausnunum. Í lyfjagerð á Íslandi sem og annars staðar í Evrópu er miðað við kröfur Evrópsku lyfjaskrárinnar til lyfja og hjálparefna. Ekki reyndist unnt að skera úr um hvort kítósan stenst þær kröfur því talning reyndist erfið vegna þess hve fast örverurnar hanga á kítósanflögum og því er talning þeirra ef til vill verulega vanáætluð.

Ályktanir: Draga má þá ályktun af niðurstöðum örverurannsóknarinnar að kítósanið sem unnið var með í rannsókninni henti ekki til lyfjagerðar að óbreyttu. Við vinnu á örverurannsókninni kom verulega á óvart hve vægar reglur Evrópsku lyfjaskrárinnar eru varðandi örveruinnihald lyfja og ef til vill þyrfti að endurskoða þær. Útbúa þyrfti staðlaðar aðferðir til að nota við greiningar á örveruinnihaldi við lyfjaframleiðslu svo hægt sé að bera saman greiningar milli framleiðenda.


E 87 Áhrif acetylsalicilic sýru á liðagigt í rottum


Jóna Freysdóttir1,2, Guðrún Lilja Kristinsdóttir1, Eggert Gunnarsson3, Arnór Víkingsson1,4


1Rannsóknastofa í gigtsjúkdómum, Landspítala, 2rannsóknastofa í ónæmisfræði, Landspítala, 3Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 4gigtardeild Landspítala


jonaf@landspitali.is


Inngangur: Lágskammtameðferð með acetylsalicilic sýru (magnýl) hefur sannað ágæti sitt í að fyrirbyggja kransæðaáföll og gefið lofandi niðurstöður í fyrirbyggjandi meðferð við margvíslegum krabbameinum og við Alzheimers sjúkdómi. Ýmis fræðileg rök eru fyrir því að lágskammta magnýlmeðferð gæti haft varnandi áhrif á myndun og/eða þróun liðagigtar.

Efniviður og aðferðir: Í þessu verkefni voru áhrif mismunandi skammta af magnýli á myndun og þróun liðbólgu könnuð í rottulíkani að liðagigt. Rottur voru meðhöndlaðar með lágum skömmtum (ýmist 3 eða 15 mg) eða venjulegum skammti (40 mg) af magnýli sem var gefið í tveimur skömmtum um munn á hverjum degi. Til samanburðar voru rottur meðhöndlaðar með vatni eða lyfinu piroxicam (Felden) sem búið er að sýna að dragi verulega úr liðbólgu í rottulíkaninu. Vakasértæk liðbólga í hnjálið rottna var framkölluð með því að bólusetja þær með BSA og sprauta síðan BSA í vinstri hnjálið þeirra. Til samanburðar var saltvatni sprautað í hægri hnjáliðinn. Þvermál beggja hnjáliða var mælt og var mismunurinn mælikvarði á magn liðbólgunnar. Fylgst var með liðbólgunni í fimm vikur.

Niðurstöður: Rottur sem fengu lágu skammtana af magnýli fengu tölfræðilega marktækt minni liðbólgu en rottur sem fengu bara vatn, þó ekki í sama mæli og sást hjá rottum meðhöndluðum með Feldeni. Þetta átti við bæði bráða og langvinna fasa bólgunnar.

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að lágir skammtar af magnýli geti verið fyrirbyggjandi meðferð við liðbólgum.


E 88 Tengsl reykinga, arfgerðarinnar C4B*Q0 og langvinnrar lungnateppu


Guðmundur Jóhann Arason1, Karólína Einarsdóttir1, Bryndís Benediktsdóttir2, Þórarinn Gíslason2,3


1Rannsóknastofnun Landspítala, ónæmisfræðideild, 2læknadeild HÍ, 3lungnadeild Landspítala


garason@landspitali.is


Inngangur: Reykingar eru sameiginlegur áhættuþáttur þess að fá langvinna lungnateppu (LLT) og kransæðasjúkdóm, en þó er margt óljóst um einstaklingsbundna áhættuþætti og þróun meingerðar. Við höfum áður lýst minnkandi tíðni arfgerðarinnar C4B*Q0 (ótjáð C4B) eftir miðjan aldur meðal einstaklinga sem reykja. Ástæða þessara hlutfallslegu fækkunar C4B*Q0 arfbera eftir miðjan aldur hefur verið rakin til þess að þeir hafa auknar líkur á að fá hjarta- og heilaáföll. Tilgangur þessarar rannsóknar er að kanna samband C4B*Q0 við langvinna lungnateppu.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknarhópurinn var slembiúrtak Íslendinga á höfuðborgarsvæðinu, 40 ára og eldri, sem tóku þátt í alþjóðlegri faraldsfræðirannsókn á algengi langvinnrar lungnateppu www.kpchr.org/boldcopd Þátttakendur voru alls 758 (80% svörun). Langvinn lungnateppa var skilgreind samkvæmt alþjóðaviðmiðun (www.goldcopd.org). Reyndist 131 (18%) með stig I af langvinnri lungnateppu eða hærra. Fjöldi C4A og C4B gena var ákvarðaður með prótínrafdrætti og lýkur mælingum í desember 2006.

Niðurstöður: Meðal 131 sjúklings með langvinna lungnateppu voru 90 án sögu um hjarta- og/eða æðasjúkdóma. Þar af reyktu 28 en 26 höfðu aldrei reykt. Einstaklingar án langvinnrar lungnateppu og kransæðasjúkdóms mynduðu viðmiðunarhóp, þar af reyktu 77 en 229 höfðu aldrei reykt. Búið er að greina 10% sýna og sýna þær niðurstöður að C4B*Q0 arfberar eru mun færri í hópi heilbrigðra sem eru eldri en 55 ára og reykja (p=0,08). Jafnframt sést að sjúklingar með langvinna lungnateppu sem reykja eftir 55 ára aldur eru oftar arfberar C4B*Q0 (14%) en viðmiðunarhópur (0%), sem styður tilgátu um að C4B*Q0 auki áhættu reykingafólks á að fá langvinna lungnateppu (p=0,05).

Ályktanir: Frumniðurstöður okkar samrýmast tilgátu um að C4B*Q0 auki áhættu reykingafólks á að greinast með langvinna lungnateppu. Stærð þýðis okkar mun jafnframt veita möguleika á að skoða samspilið við hjarta- og æðasjúkdóma ásamt sykursýki.


E 89 Öndunarhreyfingar og öndunarvöðvastyrkur eru skertar hjá Parkinsons sjúklingum með 2,5 stig á Hoehn og Yahr kvarða


María Ragnarsdóttir1, Yoshimi Matsuo2, Ella K. Kristinsdóttir3

1Sjúkraþjálfun, Landspítala Hringbarut, 2Kobe Gakuin Univerity, Osaka, Japan, 3sjúkraþjálfunarskor læknadeild HÍ


mariara@landspitali.is


Inngangur: Áhrif Parkinsons sjúkdóms á beinagrindarvöðva eru vel þekkt. En áhrif sjúkdómsins á öndunarvöðva eru ekki mikið rannsökuð, þrátt fyrir að lungnabólga sé aðaldánarorsök Parkinsons sjúklinga. Lungnabólgu fylgir aukin slímmyndun og besta aðferðin við að hreinsa lungun er hósti. Árangursríkur hósti krefst mikils innöndunarlofts, eðlilegra öndunarhreyfinga og kröftugrar útöndunar.

Markmið rannsóknarinnar var að bera saman lungnarýmd, öndunarhreyfingar og öndunarvöðvastyrk sjúklinga með Parkinsons sjúkdóm við viðmiðunargildi.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 36 (17 karlar meðalaldur 58,1 ár og 19 konur meðalaldur 62,2 ár) með Parkinsons sjúkdóm. Meðalstig þeirra á Hoehn og Yahre kvarða var 2,5. Lungnarýmd var mæld með Spiro 2000 Medikro (Kuopio, Finnlandi), öndunarhreyfingar með ÖHM-Andra (ReMo, Keldnaholti, Reykjavík) og öndunarvöðvastyrkur með MicroRPM (Micro Medical, Rochester, UK). Niðurstöður voru bornar saman við viðmiðunargildi. Lýsandi tölfræði, Wilkoxon Signed Ranks Test og Spearmans rho var notað við úrvinnslu gagna með SPSS forriti 11. útgáfa. Vísindasiðanefnd (VSN 04-092-S1) og Persónuvernd samþykktu rannsóknina.

Niðurstöður: Meðal FVC og FEV1 var marktækt skert (p=,044) hjá konunum. Meðaltal hárifja- og lágrifjahreyfinga í djúpri öndun var marktækt skert hjá körlunum miðað við viðmiðunargildi (p=,027 og p=,012). En meðaltal kviðar- og hárifjahreyfinga hjá konunum (p=,033 og p=,014). Allir þátttakendur voru með marktækt minni meðalinnöndunar- (kk p=,006, kvk p=,0001) og útöndunarvöðvastyrk (p=,0001).

Ályktanir: Parkinsons sjúklingar eru með marktækt skertar öndunarhreyfingar og öndunarvöðvastyrk og því óskilvirkan hósta. Mat og þjálfun á öndunarhreyfingum og öndunarvöðvastyrk ætti því að vera fastur liður í meðferð Parkinsons sjúklinga.


E 90 Samspil sykursýki og kæfisvefns

Bryndís Benediktsdóttir1, Ísleifur Ólafsson1,2, Þórarinn Gíslason1,3

1Læknadeild HÍ, 2Rannsóknastofa Landspítalans, 3lungnadeild Landspítala


brynben@hi.is


Bakgrunnur: Offita hefur lengst af verið talin orsök skerts sykurþols og sykursýki hjá kæfisvefnssjúklingum. Rannsóknir hafa þó leitt líkum að því að kæfisvefn sé sem slíkur, áhættuþáttur fyrir sykursýki. Þá hafa dýratilraunir bent til þess að endurtekinn súrefnisskortur valdi bólguferlum sem hafi slæm áhrif á sykurefnaskipti.

Markmið: Að mæla fastandi blóðsykur og insúlín meðal nýgreindra og ómeðhöndlaðra kæfisvefnssjúklinga í framsýnni rannsókn.

Efniviður og aðferðir: Nýgreindum kæfisvefnssjúklingum, sem voru að hefja meðferð með svefnöndunartæki við lungadeild Landspítala, var boðin þátttaka.

Niðurstöður: Meðal 170 sjúklinga (132 karlar og 38 konur) með nýgreindan kæfisvefn sem tóku þátt í rannsókninni, reyndust 12 vera með greinda sykursýki og á lyfjameðferð vegna þess. Af hinum 158 reyndust 12 vera með hækkað bæði insúlín og blóðsykur (7,6%) en höfðu ekki greinst áður með sykursýki. Fastandi blóðsykur yfir viðmiðunarmörkum fannst hjá 31 (20%) og 26 (16%) reyndust vera með hækkað fastandi insúlin. Þegar hópurinn með greinda sykursýki og þeir sem voru með hækkun bæði á insúlíni og glúkósa (n=57; 47 karlar og 10 konur) voru bornir saman við hina reyndust þeir vera þyngri (Body mass index 35,76,0 á móti 30,84,7, p<0,01) og hafa oftar sögu um háþrýsting (61% á móti 29%). Ekki var munur á dagsyfju mælt með Epworth Sleepiness Scale.

Ályktanir: Frumniðurstöður rannsóknar okkar leiða í ljós að sykursýki og skert sykurþol séu algeng meðal kæfisvefnssjúklinga. Ætlunin er að kanna tengslin enn frekar milli sykurefnaskipta, kæfisvefns, bólguferla og áhrif meðferðar með svefnöndunartæki.á þessa þætti.


E 91 Breytileiki í starfsemi æðaþels hjá kæfisvefnssjúklingum

Erna Sif Arnardóttir1, Björg Þorleifsdóttir2, Þórarinn Gíslason1

1Lungnadeild Landspítala, 2Lífeðlisfræðistofnun HÍ


ernaar@hi.is


Inngangur: Þekkt er að kæfisvefn tengist auknum líkum á hjarta-og æðasjúkdómum. Ein leið til að mæla slíkar líkur er að meta vanstarfsemi í æðaþeli, sem er sjálfstæður spávaldur fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. Markmið þessarar rannsóknar er að rannsaka starfsemi æðaþels í kæfisvefnssjúklingum fyrir og eftir þriggja mánaða meðferð með svefnöndunartæki (CPAP).

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur, heilbrigðir karlmenn með kæfisvefn, fóru í fulla svefnrannsókn. Kvöld- (18:00) og morgunmælingar (08:00) á blóðþrýstingi og starfsemi æðaþels voru gerðar eftir 4 klukkustunda föstu með mælingu á „reactive hyperemia peripheral arterial tone index“ (RH-PAT stuðull) (Itamar Medical Ltd.). Næturþvagi var safnað að morgni til greiningar á metanepríni og normetanepríni.

Niðurstöður: Fimmtán kæfisvefnssjúklingar (49 ára ±10 ár (meðaltal±SD)) hafa verið mældir fyrir og eftir meðferð í þrjá mánuði. Meðalfjöldi öndunarhléa á klukkustund lækkaði úr 45±15 í 5±4 við meðferð. Æðaþelsmælingar bentu til vanstarfsemi hjá aðeins fjórum af 15 þátttakendum, en að meðaltali var engin breyting á RH-PAT stuðli að kvöldi (2,1±0,5 og 2,0±0,6) eða morgni (2,0±0,3 og 1,9±0,3) við meðferð. Jákvæð fylgni var milli RH-PAT breytinga að kveldi við meðferð og systólísks (r=0,55 p=0,04) og díastólísks blóðþrýstings (r=0,54 p=0,05) fyrir meðferð. Sami þáttur sýndi einnig jákvæða fylgni við magn metanepríns (r=0,68 p=0,01

) og normetanepríns (r=0,60 p=0,03) í þvagi

fyrir meðferð.

Ályktanir: Áhrif kæfisvefns á hjarta- og æðastarfsemi hjá okkar rannsóknarhópi, kæfisvefnssjúklingum, sem eru að öðru leyti frískir, virðast vera minni en áður hefur verið lýst. Þeir kæfisvefnssjúklingar, sem fyrir meðferð hafa hærri blóðþrýsting og merki um aukið sympatískt álag sýna frekar bætta æðaþelsstarfsemi við meðferð. Erfðafræðilegur breytileiki gæti skýrt þennan mun.


E 92 Interleukin-6 (IL-6) hjá einstaklingum með langvinna lungnateppu

Sigurður James Þorleifsson1, Bryndís Benediktsdóttir1, Þórarinn Gíslason1,2, Ísleifur Ólafsson3

1Læknadeild HÍ, 2lungnadeild Landspítala, 3klínísk lífefnafræðideild Landspítala


sjth@hi.is


Inngangur: Interleukin-6 (IL-6) er forveri bólguboðefna (proinflammatory cytokine) sem tekur þátt í líffræðilegum ferlum sem tengjast langvinnri bólgu og hafa rannsóknir sýnt að IL-6 er hækkað við marga langvinna bólgusjúkdóma. Langvinn lungnateppa (LLT) er samheiti teppusjúkdóma í lungum svo sem langvinnrar berkjubólgu, lungnaþembu og lokastigs astma. Langvinn lungnateppa einkennist af óafturkræfri versnandi teppu í lungum. Rannsóknir á völdum sjúklingahópum hafa leitt í ljós að ýmis bólguboðefni eru hækkuð í langvinnri lungnateppu en ekki er ljóst hvort það sama eigi við um IL-6. Markmið rannsóknarinnar var að meta tengsl langvinnrar lungnateppu og IL-6 hjá slembiúrtaki íslensku þjóðarinnar með tilliti til blástursgetu á öndunarprófi eftir gjöf berkjuvíkkandi lyfs að teknu tilliti til kynferðis, aldurs, reykinga og líkamsþyngdar.

Efniviður og aðferðir: Í rannsókn þessari voru IL-6 gildi mæld í sermi 130 karla og kvenna, með langvinna lungnateppu, sem voru 40 ára og eldri og búsett á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var hluti af alþjóðlegri rannsókn á algengi langvinnrar lungnateppu www.kpchr.org/boldcopd

Niðurstöður: Mælingum á IL-6 í sermi var skipt í fjóra jafnstóra hópa (≤1,51; 1,51-2,82; 2,82-4,69 og >4,69 pg/mL). Há IL-6 gildi voru marktækt tengd hækkandi aldri og aukinni líkamsþyngd en ekki fundust tengsl við reykingar eða kynferði. Þeir sem mældust með IL-6 gildi í hæsta fjórðungi voru með marktækt minni blástursgetu á öndunarprófi. Þessar niðurstöður voru einnig marktækar þegar leiðrétt var fyrir reykingum, kyni, aldri og líkamsþyngd.

Ályktanir: Hátt IL-6 í sermi tengist tengist marktækt minni blástursgetu á öndunarprófi.


E 93 High sensitivity C – reactive protein (hsCRP) hjá einstaklingum með langvinna lungnateppu


Ólöf Birna Margrétardóttir1, Þórarinn Gíslason1,2, Bryndís Benediktsdóttir1, Gunnar Guðmundsson1,2, Ísleifur Ólafsson3

1Læknadeild HÍ, 2lungnadeild Landspítala, 3klínísk lífefnafræðideild Landspítala


olofbm@hi.is


Bakgrunnur: Langvinn lungnateppa (LLT) er samheiti teppusjúkdóma í lungum svo sem langvinnrar berkjubólgu, lungnaþembu og lokastigsastma sem einkennast af óafturkræfri, versnandi teppu í lungum. High sensitivity C – reactive protein (hsCRP) hækkar í bólgusvari. Möguleg tengsl hsCRP og lungnateppu hafa oftast verið metin í útvöldum sjúklingahópum en ekki í faraldsfræðirannsóknum. Markmið rannsóknarinnar var að meta tengsl langvinnrar lungnateppu og hsCRP hjá slembiúrtaki íslensku þjóðarinnar með tilliti til blástursgetu á öndunarprófi, að teknu tilliti til kynferðis, aldurs, reykinga og líkamsþyngdar.

Efniviður og aðferðir: Í rannsókn þessari var styrkur hsCRP mældur í sermi með agnahvattri gruggmælingu hjá 130 körlum og konum, með langvinna lungnateppu, sem voru 40 ára og eldri búsett á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var hluti af alþjóðlegri rannsókn á algengi langvinnrar lungnateppu www.kpchr.org/boldcopd

Niðurstöður: Mælingum á hsCRP í sermi þeirra var skipt í fjóra jafnstóra hópa (≤0,75; 0,75-1,27; 1,27-3,25 og >3,25 mg/L). Há hsCRP gildi voru marktækt tengd hærri aldri, aukinni líkamsþyngd og reykingum en ekki fundust tengsl við kynferði. Marktækt samband var milli hækkandi hsCRP gilda og minnkandi blástursgetu á öndunarprófi. Þær niðurstöður voru einnig marktækar þegar leiðrétt var fyrir reykingum, aldri og líkamsþyngd.

Ályktanir: Hjá slembiúrtaki reyndust vera marktæk tengsl milli hárra hsCRP gilda og skertrar blástursgetu og styðja niðurstöður okkar hugmyndir um almenna bólgusvörun í langvinnri lungnateppu.


E 94 Börn sem fá ífarandi pneumókokkasjúkdóm hafa lægri mótefni gegn meinvirknipróteinum pneumókokka en jafnaldrar þeirra sem bera pneumókokka í nefkoki


Ingileif Jónsdóttir1,2, Gunnhildur Ingólfsdóttir1, James C. Paton3, Karl G. Kristinsson2,4, Þórólfur Gudnason5

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Háskólinn í Adelaide, Adelaide, Ástralíu, 4sýkladeild Landspítala, 5Landlæknisembættið


ingileif@landspitali.is


Inngangur: Unnið er að þróun breiðvirkra próteinbóluefna gegn pneumókokkasjúkdómi og hafa meðal annars meinvirknipróteinin CbpA, Ply, PsaA og PspA verið prófuð í dýrum, en leitað er að nýjum próteinum til að nota í bóluefni. Markmið rannsóknarinnar var að greina ónæmisfræðilega þætti sem tengjast áhættu á ífarandi pneumókokkasjúkdómi í börnum.

Efniviður og aðferðir: IgG mótefni gegn CbpA, Ply, PsaA og PspA voru mæld með ELISA í átta börnum, sem fengu sjúkdóminn undir sjö ára aldri, og 15 börnum af sama aldri og kyni, sem báru pneumókokka af sömu/skyldri hjúpgerð í nefkoki. Heildarmagn immunóglóbúlína og IgG undirflokka og mannan-bindilektíns (MBL) var einnig mælt.

Niðurstöður: Ónæmisgeta allra barna í báðum hópum var eðlileg, þau höfðu eðlilegt heildarmagn IgM, IgG og IgA miðað við aldur, en 2/8 tifella og 5/15 viðmiða höfðu hækkað IgE. Magn IgG1, IgG2 og IgG4 undirflokka var innan eðlilegra marka hjá öllum, en 1/8 tilfella og 1/15 viðmiða höfðu hækkað IgG3. Styrkur MBL í sermi var sambærilegur milli hópa (p=0,455), en 1/8 tilfella og 3/15 viðmiða höfðu lágt MBL (<500 mg/L). Við upphaf ífarandi pneumókokkasjúkdóms höfðu börnin lægri IgG mótefni gegn pneumókokkapróteinum en viðmiðin og var munur á styrk gegn CbpA 26-faldur (p=0,005), PsaA fjórfaldur (p=0,005), Ply fjórfaldur (p=0,009) og PspA 13-faldur (p<0,001). Mótefnin hækkuðu í kjölfar sýkingarinnar, en voru mánuði síðar ennþá lægri en hjá viðmiðum gegn öllum fjórum próteinum.

Ályktanir: Lág mótefni gegn CbpA, PsaA, PspA og Ply tengjast áhættu á að fá ífarandi pneumókokkasjúkdóm. Virkt ónæmissvar gegn meinvirknipróteinunum virðist skipti máli fyrir vernd gegn ífarandi pneumókokkasjúkdómi. Skortur á mótefnum í upphafi sýkinga getur bent til að viðkomandi prótein gegni mikilvægu hlutverki í sjúkdómsferlinu og séu því líklega heppileg til notkunar í bóluefni.


E 95 Einangrun og raðgreining á Antigen 5 like protein - líklegum ofnæmisvaka í sumarexemi


Þórunn Sóley Björnsdóttir1, Vilhjálmur Svansson1, Guðbjörg Ólafsdóttir1, Eliane Marti2, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2dýrasjúkdómadeild háskólans í Bern, Sviss


thb7@hi.is


Inngangur: Sumarexem (SE) er ofnæmi í hrossum gegn prótíni sem berst við bit smámýflugna af ættkvíslinni Culicoides. Ofnæmið er vandamál í íslenskum hestum á erlendri grund en þessi ættkvísl flugna lifir ekki á Íslandi. Hins vegar myndar allt að 50% af hestunum ofnæmi gegn bitmýi, Simulium vittatum eftir að hafa fengið sumarexem. Öll hrossakyn geta fengið ofnæmið og það er afar algengt í útfluttum, íslenskum hestum. Sumarexemið er ofnæmi af gerð I en því fylgir framleiðsla á IgE og losun á bólguþáttum. Ætla má að ofnæmisvakarnir séu í bitvökvanum. Við höfum sýnt að það eru að minnsta kosti 10 ofnæmisprótín (prótín sem binda IgE úr SE hestum) í bitvökvakirtlum Culicoides spp.

Efniviður og aðferðir: Skimun á λZAPIIcDNA bitvökvakirtlasafni C. nubeculosus (GATC Biotech) og raðgreining með vísum hönnuðum eftir birtum röðum úr C. sonorensis (CsAg5B). Fjölstofna mótefni voru framleidd í músum og prófuð í ónæmisþrykki.

Niðurstöður: Við höfum tjáð sjö möguleg ofnæmisprótín úr bitmýi og framleitt fjölstofna mótefni gegn þeim. Mótefni gegn einu þessara prótína antigen 5 like protein (Ag5) binst við 30 kDa prótín í bitvökvakirtlum C. nubeculosus. Ag5 hefur nú verið fiskað upp úr λcDNA safni C. nubeculosus og verið er að raðgreina genið. Cul-Ag5-prótínið verður síðan framleitt í bakteríum og skordýrafrumum og prófað fyrir ofnæmisvirkni.

Ályktanir: Ag5 er að finna í mörgum öðrum bitflugum svo sem moskítóflugum og kleggjum. Það er aðalofnæmisvaki (major allergen) í vespum, geitungum og býflugum. Við teljum því líklegt að það sama eigi við um smámýið og að Ag5 sé einn af orsakavöldum sumarexems.

Þakkir: Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði HÍ, RANNÍS og Framleiðnisjóði landbúnaðarins.


E 96 Viðbótarörvun um hjálparsameindina CD28 upphefur bæliáhrif anti-TNF á ræsingu T-frumna


Brynja Gunnlaugsdóttir1, Sólrún Melkorka Maggadóttir2, Björn Rúnar Lúðvíksson1

1Ónæmisfræðideild Rannsóknastofnunar og rannsóknastofa í gigtsjúkdómum, Landspítala, 2læknadeild HÍ

brynja@landspitali.is


Inngangur: Hlutleysing á TNF hefur verið beitt með góðum árangri við meðhöndlun ýmissa sjálfsofnæmissjúkdóma. Viðbrögð T-frumna við meðferðinni og þáttur þeirra í batanum eru ekki þekkt nema að litlu leyti. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif anti-TNF meðferðar á frumræsingu óreyndra T-frumna og næmi þeirra gagnvart boðefninu TGF-1.

Efniviður og aðferðir: Óreyndar T-frumur voru einangraðar með neikvæðu vali úr naflastrengsblóði. T-frumurnar voru örvaðar með CD3 (10μg/mL), með eða án CD28 (1μg/mL), TNF (Infliximab, 100μg/mL), TNF (100ng/mL), TGF-1 (10ng/mL) og IL-10 (10μg/mL) í fjóra daga í æti án sermis. Frumufjölgun var metin út frá innlimun á [3H] merktu tymidíni síðustu 16 klukkustundir ræktunar eða út frá minnkuðum CFSE styrk allt ræktunartímabilið. Styrkur á IL-2 í frumufloti var metinn með “cytokine bead array”. Frumudauði var metinn með Viaprobe-litun.

Niðurstöður: Frumufjölgun í kjölfar CD3 örvunar minnkaði marktækt við hlutleysingu á TNF (P=0,000689) og þegar TGF-1 var til staðar (P=0,000506). Frumufjölgun minnkaði enn frekar ef hvort tveggja anti-TNF og TGF-1 voru til staðar (P=0,000000553). Bæliáhrif TGF-1 hurfu hins vegar þegar TNF var bætt í rækt (P=0,119). Þegar T-frumur voru eingöngu örvaðar með CD3, hafði anti-TNF mikil neikvæð áhrif á seytingu á IL-2. Ef viðbótarörvun um CD28 var bætt við, hafði anti-TNF nánast engin áhrif, hvorki á frumufjölgun né IL-2 seytingu. Bæliáhrifum TGF-1 og anti-TNF var ekki miðlað með IL-10 eða frumudauða.

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að örvunarskilyrði móti að miklu leyti áhrif anti-TNFmeðferðar á óreyndar T-frumur. Auk þess virðist anti-TNF meðferð auka næmi þeirra gagnvart bæliáhrifum TGF-1. Niðurstöðurnar eru mikilvæg viðbót við þekkingu okkar á virkni lyfja sem beinast gegn TNF.


E 97 Er hægt að nota ónæmisglæðinn monophosphoryl-lipid A (MPL) til þess að stýra ónæmissvari hjá hestum?


Guðbjörg Ólafsdóttir1, Vilhjálmur Svansson1, Mieke Roelse1, Eliane Marti2, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2dýrasjúkdómadeild háskólans í Bern, Sviss


gudbjol@hi.is


Inngangur: Sumarexem er ofnæmi gegn prótínum sem berast í hross við bit mýflugna af ættkvíslinni Culicoides, en tegundir af þessari ættkvísl lifa ekki hér á landi. Öll hrossakyn geta fengið ofnæmið og er það afar algengt í útfluttum, íslenskum hestum. Sumarexemið er ofnæmi af gerð I á Th2 braut en því fylgir framleiðsla á IgE og losun á bólguþáttum. Markmið rannsóknar var að finna ónæmisglæði til að stýra ónæmissvari hesta af ofnæmisbraut á Th1 braut með það framtíðarmarkmið að bólusetja gegn sumarexemi.

Efniviður og aðferðir: Fjórir hestar voru bólusettir þrisvar sinnum með „human serum albumin“ (HSA) prótíni í MPL glæði, HSA/MPL hestar og til samanburðar myndað HSA ofnæmi í tveimur hestum með HSA í alúm-glæði, HSA/alúm hestar. Tekið var blóð reglulega og gerðar mótefna- og boðefnamælingar í elísuprófi og rauntíma PCR.

Niðurstöður: HSA/MPL hestarnir höfðu ívið hærra IFNγ/IL4 hlutfall en HSA/alúm hestarnir. IgG undirflokkasnið var svipað hjá báðum hópum, hátt IgG3/5, lágt IgG1 og hverfandi IgG4. HSA/MPL svöruðu með óstöðugri framleiðslu á IgE en HSA/alúm með sterku og stöðugu svari. Til þess að athuga hvernig einkennandi Th1 svar ætti að vera var mæld svörun gegn γ-herpesveiru (γEHV) sem er dulið (latent) í fullorðnum hestum. Í ljós kom hátt IFNγ/IL4 hlutfall og IgG4 en lágt IgG3/5. Þrátt fyrir þetta reyndust allir hestarnir hafa öflugt γEHV sérvirkt IgE svar.

Ályktanir: Munurinn á milli HSA/MPL og HSA/alúm hesta var örlítið hærra IFNγ/IL4 hlutfall og óstöðugra IgE svar, IgG snið var eins. Eftir er að mæla stjórnboðefni. Ormasýkingar eru miklar hjá íslenskum hestum frá fæðingu og heildar IgE í blóði mjög hátt. Sökum þessa þarf trúlega öflugri aðgerðir en einungis MPL bólusetningu til að fá mælanlega Th1 ónæmisskautun hjá hrossum.

Þakkir: Styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Rannís og Rannsóknarsjóði HÍ.


E 98 Áhrif vatnsextrakts og einangraðra efna úr fjallagrösum (Cetraria islandica) á ónæmissvör in vitro og in vivo


Jóna Freysdóttir1,2, Sesselja Ómarsdóttir3, Sigurrós Sigmarsdóttir3, Kristín Ingólfsdóttir3, Arnór Víkingsson1,4, Elín Soffía Ólafsdóttir3

1Rannsóknastofa í gigtsjúkdómum Landspítala, 2rannsóknastofa í ónæmisfræði Landspítala, 3lyfjafræðideild HÍ, 4gigtardeild Landspítala


jónaf@landspitali.is


Inngangur: Fjallagrös hafa verið notuð í alþýðulækningum við ýmsum kvillum, auk þess að hafa verið notuð almennt til að bæta heilsu og til matar. Notkun fjallagrasa í alþýðulækningum hefur mest megnis verið á formi vatnsextrakts. Fjallagrös innihalda ýmis efnasambönd, bæði fjölsykrur og annars stigs efni með lágan sameindaþunga (fléttuefni) og hafa rannsóknir hafa sýnt að mörg þeirra hafa líffræðilega virkni, þó áhrif þeirra á ónæmiskerfið hafi lítið verið könnuð.

Efniviður og aðferðir: Í þessu verkefni voru könnuð áhrif vatnsextrakts og hreinna efna úr fjallagrösum á þroskun angafrumna í rækt. Angafrumur úr mönnum voru ræktaðar með vatnsextrakti af fjallagrösum eða hreinsuðum fjölsykrum (lichenan og isolichenan) og fléttuefnum (prótólichesterín-og fúmarprótósetrarsýru) og áhrifin metin með því að mæla seytingu boðefnanna IL-10 og IL-12 og tjáningu ýmissa yfirborðssameinda. Áhrif vatnsextraktsins voru könnuð nánar í liðbólgulíkani í rottum. Rottur voru sprautaðar með þremur styrkleikum af vatnsextraktinu eða vatni til samanburðar. BSA-sértæk liðbólga var framkölluð í vinstri hnéliði rottnanna og var aukning í þvermáli mælikvarði á magn liðbólgunnar.

Niðurstöður: Í ljós kom að vatnsextraktið jók myndun bæði IL-10 og IL-12 en IL-10 í mun meira mæli. Aðeins fjölsykran lichenan hafði svipuð áhrif og vatnsextraktið en ekki isolichenan eða fléttuefnin og má því leiða líkum að því að áhrif vatnsextraktsins á þroskun angafrumnanna sé að miklu leyti vegna áhrifa lichenans. Martæk minni liðbólga mældist hjá rottum sem voru meðhöndlaðar með hæsta styrk af vatnsextraktinu miðað við rottur meðhöndlaðar með vatni.

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að vatnsextrakt af fjallagrösum hafi ónæmisbælandi áhrif og þá hugsanlega með því að breyta hlutfalli boðefnaseytingar frá IL-12 í IL-10.


E 99 Notkun eitraðra einstofna mótefna til að kanna hlutdeild eintsakra frumutegunda í meinmyndun sóra


Jóhann E. Guðjónsson1, Andrew Johnston2, Helgi Valdimarsson2, James T. Elder1,3,4

1Department of Dermatology, University of Michigan Medical Center, Ann Arbor, MI, USA, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3Department of Radiation Oncology, University of Michigan Medical Center, Ann Arbor, MI, USA. 4Ann Arbor Veterans Affairs Health System, Ann Arbor, MI, USA


andrewj@landspitali.is


Inngangur: Flestir eru núorðið sammála um að sóri (psoriasis)sé sjálfsofnæmissúkdómur sem er miðlaður af T-eitilfrumum. Hins vegar eru skiptar skoðanir um hlutfallslegt mikilvægi CD4+ og CD8+ T-frumna í myndun sóraútbrota. Birtar niðurstöður benda til þess að CD4+ T-frumur séu nauðsynlegar til þess að útbrotin myndist. Hins vegar eru langflestar þeirra T-frumna sem eru í yfirhúð sóraútbrota fáklóna (oligoclonal) CD8+ T-frumur. Með sértækri eyðingu CD8+ T-frumna úr sóraskellum sem þegar hafa myndast, eða eru í þann veginn að brjótast út, má fá hugmynd um mikilvægi þeirra i meinmyndun sjúkdómsins.

Efniviður og aðferðir: Húð med sóraskellum var grædd á mýs sem hafa engar T-, B- eða virkar NK-frumur (NOD/SCID/cnull). Mýsnar voru síðan ýmist sprautaðar med saltvatni, óeiturtengdum eða eitur- (saporin) tengdum mótefnum gegn CD8+ T-frumum.

Niðurstöður: Eiturtengda mótefnið reyndist einvörðungu drepa CD8+ T-frumur þegar þvi var bætt út í in vitro ræktir hnattkjarna hvítfrumna sem einangraðar voru úr blóði (PBMCs). Jafnframt hurfu sóraútbrotin alveg eða að mestu leyti úr græðlingum músa sem gefið var eiturtengda mótefnið gegn CD8+ T-frumum, en héldust óbreytt hjá þeim sem fengu saltvatn eða eitur- (saporin) tengt viðmiðunarmótefni (isotype control). Jafnframt kom í ljós með ónæmislitun að engar CD8+ T-frumur voru greinanlegar i græðlingum þeirra músa sem fengu eiturtengda mótefnið en þessar frumur voru ennþá til staðar i græðlingum viðmiðunarmúsanna.

Ályktanir: Ofangreint músalíkan er nothæft til að kanna þætti sem orsaka sóraútbrot og þar með lyf sem geta eytt slíkum útbrotum eða komið í veg fyrir þau. Ennfremur virðast CD8+ T-frumur gegna lykilhlutverki í myndun sóraútbrota.


E 100 Fullorðinssykursýki í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar (AGES) - kynjamunur í efnaskiptaþáttum


Elín Ólafsdóttir1, Thor Aspelund1, Gunnar Sigurðsson2, Bolli Þórsson1, Rafn Benediktsson2, Tamara B. Harris3, Lenore J. Launer3, Guðný Eiríksdóttir1, Vilmundur Guðnason1

1Hjartavernd, 2Landspítali, 3NIA/NIH, Bethesda, MD, USA


elinolafs@hjarta.doc


Inngangur: Faraldsfræðileg rannsókn þar sem fylgt er breytingu yfir 25 ára tímabil á efnaskiptaþáttum sem tengjast sykursýki af gerð 2 (T2D).

Efniviður og aðferðir: Tvö þúsund tvö hundruð sjötíu og níu þátttakendur (konur 57,6%) sem komu í AGES á árunum 2002-2004, miðgildi er 76 ár. Allir höfðu tekið þátt í Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar (RS) á árunum 1968-1984 og var þá miðgildi aldurs 50 ár. T2D greining er fengin úr spurningalista, frá notkun sykursýkilyfja eða fastandi glúkósa ≥7 mmól/L. Hópnum er skipt eftir aldri við greiningu í snemmkominn sjúkdóm (T2D greind 40-66 ára) og síðkominn sjúkdóm (T2D greind ≥67 ára). Efnaskiptaeinkenni kynjanna eru borin saman.

Niðurstöður: Fjörutíu og átta prósent þeirra sem greindust með snemmkominn sjúkdóm hafa ættarsögu um sykursýki, miðað við 34% þeirra sem fá síðkominn sjúkdóm. Karlar í RS höfðu hærra meðal BMI en konur, þessu er öfugt farið í AGES. Aukning á BMI með aldri var mest í hópnum með fastandi glúkósa 6,1-6,9 mmól/L (IFG) og þeim með síðgreinda T2D. Allir hópar karla í RS voru með hærri styrk þríglýceríða en sambærilegir hópar kvenna. Í AGES höfðu konur með síðgreinda T2D hæstan meðalstyrk þríglýceríða allra hópa. Allir undirhópar kvenna sýna verulega aukningu í styrk þríglýceríða á tímanum frá RS til AGES, meðan meðalstyrkur þríglýceríða í öllum hópum karla lækka nema þeim sem greinast með síðkominn sjúkdóm. Efnaskiptavilla (MS) í AGES var metin samkvæmt skilmerkjum WHO og reiknað hlutfall einstaklinga í hverjum hópi með tvö eða fleiri MS skilmerki, önnur en þol gegn virkni insúlíns. Hlutfallslega fleiri konur en karlar hafa þessi skilmerki í öllum undirhópum nema í IFG hópnum, en þar er sama hlutfall hjá báðum kynjum.

Ályktanir: Aukning á BMI frá miðjum aldri til efri ára er meiri í öllum undirhópum kvenna en karla. Þríglýceríð aukast í konum eftir miðjan aldur en lækka í körlum. Hlutfallslega fleiri konur en karlar greinast með efnaskiptavillu á efri árum. Forvarnir og meðferð á fullorðinssykursýki ættu að taka mið af þessum kynjamun.


E 101 Spá þarfir sjúklings við innlögn á sjúkrahús fyrir um afdrif einu ári síðar?


Pálmi V. Jónsson1, Anja Noro2, Anna Birna Jensdóttir1, Ólafur Samúelsson1, Sigrún Bjartmars1, Gunnar Ljunggren3, Else V. Grue4, Marianne Schroll5, Gösta Bucht6, Jan Bjørnson4, Harriet U. Finne-Soveri2, Elisabeth Jonsén6

1Landspítali, 2STAKES, Centre for Health Economics, Helsinki, 3taugalækningadeild Karolinska Institutet, Stokkhólmi, 4Diakonhjemmets Hospital, Osló, 5Bispebjerg Hospital, Kaupmannahöfn, 6Háskólasjúkrahúsið Umeå


palmivj@landspitali.is


Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að skilgreina spáþætti fyrir afdrif við eitt ár með tilliti til tímalengdar innlagnar, lifunar og vistunar á stofnun, meðal aldraðra sem leggjast brátt inn á sjúkrahús.

Efniviður og aðferðir: Slembiúrtak úr hópi 75 ára og eldri sem lögðust brátt á lyflækningadeildir sjúkrahúsa á hverju hinna fimm Norðurlanda (n=770). Gögnum var safnað á fyrsta sólarhring með MDS-AC mælitækinu og niðurstöður tengdar við afdrif (dauða og vistun á öldrunarstofnun og endurinnlagnir) við eitt ár í hverju landi fyrir sig: Danmörku (D), Finnlandi (F), Íslandi (I), Noregi (N) og Svíþjóð (S). Beitt var fjölþáttagreiningu.

Niðurstöður: Eftir eitt ár voru 56% sjúklinganna á lífi á eigin heimili (D 60%, F 48%, I 60%, N 50%, S 61%), 10% voru á lífi á stofnun (D 9%, F 4%, I 18%, N 14%, S 6%), en 28% höfðu látist (D 13%, F 30%, I 20%, N 36%, S 23%). Tuttugu og einn af hundraði lifðu á eigin heimili án endurinnlagna á sjúkrahús á tímabilinu (D 23%, F 16%, I 24%, N 26%, S 22%). Kvenkyn, aldur, vitræn og líkamleg færniskerðing svo og þvagleki voru sjálfstæðir spáþættir fyrir innlögn sem var lengri en 12,6 dagar. Vitræn skerðing var sjálfstæður spáþáttur fyrir stofnanavistun en langvinnur heilsufarsvandi og sjónskerðing spáði fyrir um dauða við eitt ár.

Ályktanir: Talsverður breytileiki sést í afdrifum sjúklinga við eitt ár meðal þeirra sem leggjast brátt á lyflækningadeildir á Norðurlöndum. Niðurstöður benda til þess að kerfisbundið mat á þörfum og færni aldraðra við innlögn geti skilgreint áhættuhóp hvað varðar óæskileg afdrif. Slíkt mat er eitt skref í því auka skilvirkni og vinna gegn stofnanavistun aldraðra.


E 102 Breytingar á færni einstaklinga, 75 ára og eldri, í kjölfar bráðainnlagnar á lyflækningadeildir Landspítala


Sigrún Bjartmarz1, Kristín Björnsdóttir2

1Öldrunarsvið Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ


sbjartma@landspitali.is


Inngangur: Með hækkandi lífaldri fjölgar þeim eldri einstaklingum sem leita sér lækninga vegna bráðra veikinda. Mikil umræða hefur verið í íslensku þjóðfélagi um stöðu aldraðra einstaklinga sem eru lagðir inn á sjúkrahús og geta ekki, sökum erfiðleika við sjálfsbjörg, útskrifast í fyrra búsetuform. Mikilvægt er að kanna hvort og þá hvaða breytingar verða á færni þessa aldurshóps við bráðaveikindi og hvaða áhrif það hefur á getu þeirra til að sjá um sig sjálfir á eigin heimili. Markmið rannsóknarinnar er að lýsa breytingum sem verða á færni einstaklinga, 75 ára og eldri, til sjálfsumönnunar í kjölfar innlagnar á sjúkrahús vegna bráðra veikinda. Jafnframt var athugað hvort breytingar á færni hafi haft áhrif á afdrif þeirra, aðallega búsetu á eigin heimili eftir veikindin.

Efniviður og aðferðir: Í rannsókninni, sem var framskyggð, var notaður hluti af íslenskum gögnum úr samnorrænni rannsókn á MDS-AC mælitækinu þar sem upplýsingum um félagslegt, andlegt og líkamlegt heilsufar sömu einstaklinga var aflað á fjórum tímabilum. Upplýsingum um 160 einstaklinga, 75 ára og eldri, sem veiktust og voru lagðir inn á lyflækningadeild Landspítala í Fossvogi, var aflað á tímabilinu maí til desember 2001 og var þeim fylgt eftir í eitt ár.

Niðurstöður: Meðalaldur þátttakenda var 83,3 ár og konur voru fleiri (65%). Færni þátttakenda breyttist mikið við bráðaveikindin og varð þörf þeirra fyrir aðstoð meiri en var fyrir veikindi. Fimm mánuðum eftir innlögn á sjúkrahús voru 78% með sömu vitrænu færni og þeir höfðu fyrir veikindi, 81% þátttakenda með sömu ADL færni en aðeins 32% þátttakenda hafði sömu IADL færni fimm mánuðum eftir veikindi og þeir höfðu fyrir veikindi. Breyting á öllum færnikvörðunum (CPS, ADL og IADL) hafði marktæk áhrif á breytingu á búsetuformi fyrstu fimm mánuðina eftir bráða innlögn á sjúkrahús. Breyting á búsetu var sú að það fækkaði í öllum sjálfstæðum búsetuformum og fjölgaði eingöngu hjá þeim sem höfðu flutt á hjúkrunarheimili.

Ályktanir: Færni aldraðra fyrir innlögn var nokkuð góð og þessi hópur hafði verið nokkuð virkur og sjálfbjarga. Við bráða innlögn á sjúkrahús breyttist færni þátttakenda mikið og þeir þurftu meiri aðstoð við sjálfsbjörg. Mikill meirihluti þeirra náði þó fyrri færni á fimm mánuðum. Með aukinni skerðingu á færni jukust líkur á flutningi á elli- eða hjúkrunarheimili.


Verkefnið er meistaraverkefni til 30 eininga við hjúkrunarfræðideild HÍ.


E 103 Munur milli Norðurlanda á lyfjanotkun aldraðra bráðadeildarsjúklinga.

Gögn úr MDS-AC rannsókninni


Ólafur Samúelsson1, Gösta Bucht2 , Jan Björnson3 , Pálmi V. Jónsson1

1Landspítali,2 Háskólasjúkrahúsið í Umeå, 3Diakonhjemmet Osló


olafs@landspitali.is


Inngangur: Gögn úr rannsókn á Minimal Data Set – Acute Care (MDS-AC) öldrunarmatstækinu voru notuð til að bera saman lyfjanotkun eldri bráðadeildarsjúklinga á lyflækningadeildum á Norðurlöndunum.

Efniviður og aðferðir: MDS-AC er heildrænt öldrunarmatstæki sérhannað til notkunar á bráðadeildum. Árin 2001 og 2002 var gerð rannsókn á völdum bráðasjúkrahúsum á öllum Norðurlöndunum til að prófa MDS-AC tækið. Í hverju landi voru valdir með slembiúrtaki 160 sjúklingar 75 ára og eldri sem lögðust brátt á lyflækningadeildir sjúkrahúsanna. Gögnum var safnað við innlögn, á völdum tímapunktum meðan á dvölinni stóð og fjórum og 12 mánuðum eftir útskrift. Upplýsingar um lyfjanotkun voru skráðar við útskrift. Með því að tengja MDS-AC gagnagrunninn og lyfjanotkunina má skoða áhrif lyfjanotkunar á færni og útkomu. Athuganir sem hér eru tíundaðar sýna samanburð á lyfjanotkun þessara sjúklinga á Norðurlöndunum.

Niðurstöður: Sjö hundruð og sjötíu sjúklingar tóku þátt. Meðalaldur var 84 ár. Meðalfjöldi lyfja var 3,4 í Noregi (N), 6,5 í Finnlandi (F), 7,3 í Danmörku (D) og Íslandi (Í) og 7,5 í Svíðþjóð (S). Benzódíazepínnotkun var mest 20% (Í) og minnst 6% (S). Svefnlyfjanotkun var mest 40% (Í) og minnst 23% (D og N). Notkun geðdeyfðarlyfja var mest 30% (Í) og minnst 10,6% (N). Notkun sefandi lyfja var mest 12,8% (F) og minnst 3,1% (D). Notkun kalsíum og vítamína var mest 19% (Í) og 23% (Í). Notkun statína var mest um 10% (Í og S).

Ályktanir: Það er athyglisverður munur á lyfjanotkun á Norðurlöndunum meðal annars svipaðs hóps aldraðra bráðadeildarsjúklinga. Til að meta þýðingu þessa er frekari vinna fyrirhuguð þar sem lyfjaupplýsingar verða tengdar við upplýsingar um vitræna og líkamlega færni og útkomu í MDS-AC matinu.


E 104 Virkni til dægrastyttingar á hjúkrunarheimili


Dagmar Huld Matthíasdóttir1, Rúnar Vilhjálmsson2, Ingibjörg Hjaltadóttir2, 3

1Sunnuhlíð hjúkrunarheimili, 2hjúkrunarfræðideild HÍ, 3Landspítali


dhm@hi.is

Inngangur: Rannsókninni var ætlað að lýsa virkni til dægrastyttingar hjá skjólstæðingum hjúkrunarheimila með tilliti til líkamlegrar og andlegrar færni, lýsa eftirlætisvistarverum þeirra til virkni og hvaða tómstundir þeir kjósa helst. Athugað var hvort munur sé á meðaltíma í virkni til dægrastyttingar hjá skjólstæðingum hjúkrunarheimila í tengslum við aldur, kyn, fyrri búsetu, ADL-kvarða, vitræna getu og RUG-III flokkun.

Efniviður og aðferðir: Gögnin voru unnin upp úr gagnasafni um heilsufar og hjúkrunarþörf íbúa á öldrunarstofnunum (RAI-mælitækið). Úrtakið (N=1.825) eru þeir heimilismenn sem voru metnir með RAI-mælitækinu haustið 2004. Um er að ræða þversniðsrannsókn, við gagnavinnslu var notuð bæði lýsandi og skýrandi tölfræði.

Niðurstöður: Í ljós kom að 26,1% íbúa hjúkrunarheimila á landinu öllu haustið 2004 voru virkir í daglegum athöfnum. Þeir sem voru með meðaltíma í virkum athöfnum mikinn eða þó nokkurn voru 45,9%. Eigið herbergi heimilismanna hjúkrunarheimila var eftirlætisvistarvera til virkni, en eftirlætistómstundir þeirra samræður, útvarp, sjónvarp og tónlist. Því minni sem geta einstaklings er til að sinna athöfnum daglegs lífs (ADL) því minni var virkni hans og því meiri sem vitræn skerðing var því minni var virknin. Tónlistin sker sig á þann hátt frá annarri dægrastyttingu að allir kjósa hana, burtséð frá ADL færni eða vitrænni getu.

Ályktanir: Sá hópur sem þarf sérstaklega að horfa til varðandi aukna virkni á hjúkrunarheimilum eru þeir sem eru með mikla vitræna skerðingu og þeir sem þurfa mikla aðstoð við athafnir daglegs lífs. Hjúkrunarheimili ættu því að bjóða upp á virkni til dægrastyttingar með markvissum hætti og starfsfólk þarf að hvetja til og skipuleggja slíka dægrastyttingu á hjúkrunarheimilum, sérstaklega með tilliti til samskipta, samveru og tónlistar.


E 105 Sjálfsbjargargeta langlífra Íslendinga sem búa á eigin heimilum 


Hlíf Guðmundsdóttir

Skrifstofa sviðstjóra öldrunarsviðs Landspítala


hlifgud@landspitali.is


Inngangur: Tilgangurinn með þessu rannsóknarverkefni var að kanna sjálfsbjargargetu langlífra Íslendinga sem búa á eigin heimilum, hvaða stuðning þeir fá frá aðstandendum og hinu opinbera og hvaða þættir hafa áhrif á þann stuðning sem veittur er.

Efniviður og aðferðir: Um var að ræða nánari úrvinnslu á þversniðsrannsókn þar sem safnað var upplýsingum um heilsufar og hjúkrunarþarfir allra Íslendinga 90 ára og eldri (N=539) sem bjuggu á eigin heimili. Notast var við atriði úr RAI mælitækjum til að safna upplýsingum. Rannsóknin fór fram á tímabilinu frá mars árið 2000 til september árið 2002. Við gagnaúrvinnslu var notuð bæði lýsandi og skýrandi tölfræði.

Helstu niðurstöður: Niðurstöður sýndu að um 50% þátttakenda voru alveg sjálfbjarga við alla 11 þætti grunnathafna daglegs lífs (GADL) en einungis tæp 10% þátttakenda voru sjálfbjarga um alla sjö þætti almennra athafna daglegs lífs (AADL). Sjötíu og fjögur prósent þátttakenda fengu stuðning frá aðstandendum, 65% fengu stuðning frá félagslegri heimilisaðstoð og 41% frá heimahjúkrun. Af niðurstöðum má einnig álykta að aðstandendur og formleg þjónusta á höfuðborgarsvæði bregðist við með auknum stuðningi þegar skerðing á getu eykst en svo virðist sem aðrir þættir en skerðing á getu séu ákvarðandi um hvaða formlega þjónusta sé veitt á landbyggðinni. Kyn, aldur, sambúðarform (eða búsetuform) skýrðu mun minna en skerðing á sjálfsbjargargetu.

Ályktanir: Þessi rannsókn styður að mikilvægt er að kom á reglulegu mati á heilsufari og hjúkrunarþörf aldraðra til að auka þekkingu á hvaða stuðnings og þjónustu er þörf þegar sjálfsbjargargeta skerðist.


E 106 Glerungseyðing íslenskra barna, niðurstöður úr landsrannsókn á munnheilsu Íslendinga, MUNNÍS


Inga B. Árnadóttir1, Helga Ágústsdóttir2, Hólmfríður Guðmundsdóttir3, Hafsteinn Eggertsson4, Sigurður Rúnar Sæmundsson1, Sigfús Þór Elíasson1, Peter Holbrook1

1Háskóli Íslands, 2Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 3Lýðheilsustöð og Miðstöð tannverndar, 4Indiana University School of Dentistry


iarnad@hi.is


Inngangur: Tilgangur landsrannsóknar á munnheilsu Íslendinga, MUNNÍS, var að afla upplýsinga um munnheilsu barna og unglinga á landsvísu. Eitt af aðalmarkmiðum rannsóknarinnar var að mæla algengi glerungseyðingar í fullorðinstönnum.

Efniviður og aðferðir: Slembiúrtak 20% barna á aldrinum sex, 12 og 15 ára á Íslandi var valið. Samtals 2.256 börn í fyrsta, sjöunda og tíunda bekk víðs vegar um landið. Skoðanir fóru fram í færanlegum tannlæknastól í grunnskólum. Eftir tannhreinsun hjá tannfræðingi voru öll börnin skoðuð af sama tannlækni. Glerungseyðing var greind eftir staðsetningu og alvarleika með sömu aðferð og var notuð í fyrri rannsóknum á glerungseyðingu hér á landi (modified scale of Lussi)

Niðurstöður: Glerungseyðing greindist ekki í fullorðinstönnum sex ára barna en hjá 14,8% 12 ára barna. Piltar voru með hærra hlutfall en stúlkur (19,0% pilta, 9,8% stúlkna, p<0,001; c2). Glerungseyðing greindist hjá 30% 15 ára unglinga (37,4% pilta, 22,5 % stúlkna, p<0,001; c2). Þær tennur sem oftast greindust með glerungseyðingu voru neðri góms sex ára jaxlar.

Ályktanir: Hér er um að ræða rannsókn með nægilegt stórt úrtak á landsvísu til að hægt sé að draga af henni ályktanir fyrir börn og unglinga á þessum aldri á Íslandi. Glerungseyðing greindist hjá 30% 15 ára og 15% 12 ára barna og hjá nær tvöfalt fleiri piltum en stúlkum. Þetta er hærra hlutfall og önnur dreifing milli tannsvæða en áður hefur komið fram í rannsóknum á unglingum á þessum aldri á Íslandi.


E 107 Tíðni tannátu í fullorðinstönnum hjá börnum og unglingum, niðurstöður úr Munnís, landsrannsókn á munnheilsu Íslendinga

Sigfús Þór Elíasson1, Helga Ágústsdóttir2, Hólmfríður Guðmundsdóttir3, Inga B. Árnadóttir1, Sigurður Rúnar Sæmundsson1, Peter Holbrook1, Stefán Hrafn Jónsson3, Hafsteinn Eggertsson4

1Tannlæknadeild HÍ, 2Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 3Lýðheilsustöð og Miðstöð tannverndar, 4Indiana University, School of Dentistry

sigfuse@hi.is


Inngangur: Markmið Munnís rannsóknarinnar er að afla upplýsinga um munnheilsu Íslendinga. Í þessum fyrsta hluta rannsóknarinnar var tannátutíðni mæld hjá sex, 12 og 15 ára börnum og unglingum.

Efniviður og aðferðir: Slembiúrtak 20% grunnskólanema var valið úr fyrsta (sex ára), sjöunda (12 ára) og tíunda (15 ára) bekk. Skoðaðar voru fullorðinstennur í samtals 2.256 einstaklingum. Ný sex flokka sjónræn greiningaraðferð var notuð (International Caries Detection & Assessment System-ICDAS) sem gefur aukna möguleika á snemmgreiningu jafnt sem greiningu á lokastigum tannátu. Skoðun fór fram í grunnskólum í færanlegum tannlæknastól. Greining munnástands allra barnanna var gerð af einum og sama tannlækninum eftir tannhreinsun.

Helstu niðurstöður: Til einföldunar var flokkum tannátu skipt í tvennt: byrjandi tannátu (D1-2) og tannátu sem þarfnast viðgerða (D3-6). Hjá sex ára börnum mældist D3-6MFT 0,16 (0,7), hjá 12 ára 1,43 (2,0) og 2,74 (3,4) hjá 15 ára unglingum. D3-6MFS mældist 0,25 (1,3) hjá sex ára, 2,14 (3,6) hjá 12 ára og 4,12 (6,1) hjá 15 ára. Hlutfall einstaklinga án viðgerða og tannátu sem þarfnast viðgerða (D3-6MF=0) var 91,4% af sex ára, 47,8% af 12 ára og einungis 35,5% af 15 ára hópnum. Sé tannáta á byrjunarstigi einnig tekin með (D1-6MF=0), lækkar hlutfallið í 71,7% af sex ára, 22,1% af 12 ára og 16,25% af 15 ára hópnum.

Ályktanir: Tannátutíðni lækkaði hratt á árunum 1986 -1996. Nú virðist hafa hægt mikið á þessari þróun og tannátutíðni jafnvel hækkað hjá yngsta aldurshópnum, en tannátutíðni í þeim aldurshópi er talin hafa forspárgildi fyrir unglingsárin.


E 108 Líkamleg frávik og líkamsímynd unglinga: Niðurstöður landskönnunar í níunda og tíunda bekk


Rúnar Vilhjálmsson1, Guðrún Kristjánsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild, 2Landspítali


runarv@hi.is


Inngangur: Líkamsvöxtur einstaklinga er með ýmsu móti. Þegar hann víkur frá því sem gerist og gengur má segja að um líkamleg frávik sé að ræða. Slík frávik eru alla jafna sýnileg og geta kallað fram neikvæð eða jákvæð viðbrögð annarra. Á unglingsaldri eiga sér stað miklar breytingar á líkamsþroska sem beina athygli unglingsins að líkamanum. Jafnframt skiptir flesta unglinga miklu að falla inn í félagahópinn og skera sig ekki úr. Rannsóknir benda til að vöxtur og útlit geti haft mikil áhrif á sjálfsviðhorf og líðan, ekki síst á unglingsaldri. Rannsóknin athugaði tengsl milli þess að vera smávaxinn, hávaxinn, þybbinn/feitur, horaður, léttur og þungur á líkamsímynd pilta og stúlkna

Efniviður og aðferðir: Spurningalistar voru lagðir fyrir nemendur í 9. og 10. bekk á öllu landinu. Heimtur voru 92% (3.898 einstaklingar). Spurt var meðal annars um líkamsímynd með fimm atriða kvarða. Einnig var spurt um þyngd og hæð og reiknaður smár og hár vöxur, lítil og mikil þyngd og megurð og ofþyngd/offita (efstu og neðstu 5% og 15% miðað við aldur og kyn). Sambönd voru athuguð með fylgnireikningum og aðhvarfsgreiningu.

Helstu niðurstöður: Líkamsímynd stúlkna reyndist mun neikvæðari en pilta. Þeir sem voru þungir höfðu neikvæðari líkamsímynd en aðrir, og þeir sem voru hávaxnir höfðu jákvæðari líkamsímynd. Stuttur vöxtur hafði verri áhrif á líkamsímynd pilta en stúlkna, en megurð tengdist betri líkamsímynd stúlkna en verri líkamsímynd pilta.

Ályktanir: Kynferði og líkamleg frávik hafa mikið að segja um líkamsímynd unglinga. Ástæða er til að gefa nánari gaum að neikvæðri líkamsímynd stúlkna almennt og jákvæðum áhrifum megurðar á líkamsímynd þeirra. Þá eru neikvæð áhrif stutts vaxtar á líkamsímynd pilta einnig athugunar verð.


E 109 Matarvenjur skólabarna á unglingsaldri. Fræðileg greining


Guðrún Margrét Gunnsteinsdóttir1,2, Guðrún Kristjánsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítali


gkrist@hi.is


Inngangur: Rannsóknir sýna að matarvenjur hafi áhrif á heilbrigði og námsframmistöðu barna. Tilgangur verkefnisins var að kanna hvernig breytingar unglingsáranna í samspili við félagslegt umhverfi og skóla hafa áhrif á matarvenjur þeirra og hvaða þættir séu þar sem skipa lykilhlutverki í mótun matarvenja.

Efniviður og aðferðir: Fræðilegu efni var safnað í gegnum gagnasöfnin PubMed, ProQuest og OVID. Heimildarleit gaf 29 greinar; 21 rannsókn, fimm fræðilegar greinar og þrjár með almennri umfjöllun. Vettvangsathugun var gerð í fjórum grunnskólum á Stór-Reykjavíkursvæðinu og nágrenni. Rætt var við skólastarfsmenn, kennara, skólahjúkrunarfræðing og 12 nemendur úr 9. og 10. bekk sem mynduðu fjóra rýnihópa. Stuðst var við efnisflokka í niðurstöðum heimildagreiningar í greiningu gagna.

Helstu niðurstöður: Efni heimildanna skiptist í fjóra flokka; matarvenjur skólabarna (50%) og þættir sem tengjast matarvenjum barnanna; einstaklingsbundnir þættir (72%), þættir í félagslegu umhverfi (62%) og skólatengdir þættir (56%). Samtöl við skólastarfsmenn og nemendur staðfestu þá efnisflokka sem heimildir fjalla um, þó með ólíkum hætti. Skynjun og upplifun á aðstæðum við skólamáltíðir, gildi umhverfis, aðgengis, sjálfstæðis og sjálfsmyndar var áréttað með samtölum nemenda í rýnihópum en minna var gert úr gildi foreldra og fjölskyldu fyrir mataræði þeirra. Fræðsla um mataræði er ekki fyrirferðarmikil í samtölum, hvorki við nemendur né starfsfólks, en ljóst er að þessir aðilar hafa ólíka sýn á matarvenjur skólabarna.

Ályktanir: Rannsóknir benda til að matarvenjur raskist verulega á unglingsárum. Matarvenjur ráðast af einstaklingsbundnum þáttum, jafnt sem félagslegu og samfélagslegu umhverfi þeirra, þar sem fjölskylda og skóli gegna veigamiklu hlutverki þó svo að börnin sjálf séu ekki meðvituð um það. Niðurstöður benda einnig til að skólinn geti haft áhrif á matarvenjur unglinga með því aðgengi sem hann veitir að mat og því umhverfi og leiðsögn sem hann býður nemendum sínum í tengslum við máltíðir og matartíma. Þar skipa skólahjúkrunarfræðingar lykilhlutverki í samhæfingu og ráðgjöf.


E 110 Kynheilbrigðisþjónusta. Sjónarhorn unglinga


Sóley S. Bender

Hjúkrunarfræðideild HÍ


ssb@hi.is


Inngangur: Alþjóðlegar samþykktir hafa verið gerðar um mikilvægi sérstakrar kynheilbrigðisþjónustu fyrir unglinga og áhersla lögð á nauðsyn þess að taka mið af viðhorfum þeirra við þróun slíkrar þjónustu. Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða viðhorf unglinga hér á landi til kynheilbrigðisþjónustu.

Efniviður og aðferðir: Tekin voru viðtöl við 12 rýnihópa unglinga. Þátttakendur voru frá Stór-Reykjavíkursvæðinu og landsbyggðinni. Þeir voru á aldrinum 15-21 ára, alls 90 einstaklingar. Viðtölin voru um ein klukkustund að lengd, skráð orðrétt og greind eftir þemum.

Niðurstöður: Fram komu alls fjögur meginþemu varðandi þjónustuna, nálgun þjónustunnar, gæði þjónustunnar, sérþarfir unglinga og framtíðarskipulag. Nálgun þjónustunnar er þeim misauðveld. Þeir nefna hindranir eins og örðugleika við að fá tíma á heilsugæslustöðvum, óhentugan opnunartíma, erfiða reynslu af þjónustunni og kostnað. Sérþarfir unglinga birtast meðal annars á þann hátt að því yngri sem þeir eru þeim mun feimnari og óframfærnari eru þeir og eiga erfiðar með að nálgast og nota þjónustuna. Þeir eiga jafnframt í örðugleikum með að sækja þjónustu sem er opin til fjögur á daginn. Varðandi gæði þjónustunnar leggja þeir áherslu á trúnað, borin sé virðing fyrir þeim, framkoma sé fordómalaus og að umhverfið sé þeim vinveitt. Í framtíðinni vilja þeir hafa greitt aðgengi að þjónustunni og hún sé í notalegu og hlýlegu umhverfi.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að ýmislegt þurfi að bæta til að koma betur til móts við þennan hóp á þessu sviði og stuðla þannig að ábyrgari notkun getnaðarvarna. Mikilvægt er að taka mið af viðhorfum og sérþörfum þeirra við skipulagningu þjónustunnar, eins og hver veitir þjónustuna, hvenær hún er opin og hvernig er hugað að gæðum hennar.


E 111 Heilsutengdir lífstílsþættir meðal ungmenna á Íslandi. Niðurstöður úr landskönnun


Ingibjörg Katrín Stefánsdóttir1, Rúnar Vilhjálmsson2

1St.Franciskusspítalan í Stykkishólmi, 2hjúkrunarfræðideild HÍ


runarv@hi.is


Inngangur: Rannsókninni var ætlað að skoða heilsutengda hegðunarþætti meðal 18-24 ára ungmenna á Íslandi. Fjöldi ólíkra breytna er varða jákvæða og neikvæða heilsutendga hegðun var athugaður. Leitað var svara við því hvort ólíkur lífsstíll liggi að baki heilsutengdri hegðun hjá þessum aldurshópi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var unnin upp úr gögnum landskönnunarinnar „Heilbrigði og lífskjör Íslendinga“. Heildarúrtakið var 18 til 75 ára Íslendingar, valdir með tilviljunaraðferð úr Þjóðskrá (N=1.924, heimtur 69%). Í rannsókninni var athugað undirúrtak ungmenna 18 til 24 ára (N=348) úr áðurnefndri landskönnun. Alls voru athugaðar 37 breytur tengdar heilsutengdri hegðun. Leitandi þáttagreining (exploratory principal component factor analysis) var notuð til að þáttagreina heilsutengdu hegðunaratriðin.

Niðurstöður: Þáttagreiningin leiddi í ljós fjóra heilsutengda þætti: 1. hreyfingu, 2. óhollar fæðuvenjur, 3. ávanaefnanotkun og 4. hollar fæðuvenjur. Þættirnir fjórir skýrðu 35,3% af heildarbreytileika atriðanna (item variance). Meðal Chronbachs alpha fyrir þættina fjóra var ,69. Fylgni milli þátta var almennt veik.

Ályktanir: Ólíkir heilsutengdir lífsstílsþættir liggja að baki hinum ýmsu heilsutengdu hegðunarþáttum ungmenna á Íslandi. Greining á jákvæðum og neikvæðum heilsutengdum þáttum nýtist við að auðkenna áhættuhópa ungmenna. Veik fylgni milli þátta og hátt hlutfall óútskýrðs breytileika milli atriða bendir til þess að taka verði tillit til einstakra hegðunarþátta um leið og heilsutengd hegðun er skoðuð í stærra samhengi lífsstílsþátta. Í mörgum tilvikum kemur fram ósamræmi í heilsutengdri hegðun á þá leið að einstaklingar stunda bæði jákvæða og neikvæða hegðun.


E 112 Einstofna mótefnahækkun. Náttúrulegur gangur skoðaður á aftursýnan hátt


Hlíf Steingrímsdóttir1,2, Vilhelmína Haraldsdóttir1, Ísleifur Ólafsson1, Vilmundur Guðnason3, Helga M.Ögmundsdóttir2,4

1Landspítali, 2Háskóli Íslands, 3Hjartavernd, 4Krabbameinsfélag Íslands


hlifst@landspitali.is


Inngangur: Líkur á að góðkynja einstofna mótefnahækkun (MGUS) þróist yfir í illkynja mergæxli (MM) eða Waldenströms sjúkdóm (WM) eru um það bil 1% á ári. Þrátt fyrir þessa vitneskju, er ekki vitað hversu stórt hluti sjúklinga með MM og WM hefur áður haft MGUS. Aftursýnni nálgun er beitt til að skoða náttúrulegan gang MGUS með það markmið að áætla hlutfall MM og WM með MGUS forboða.

Efniviður og aðferðir: Listar yfir alla sjúklinga, sem greindust með MM og WM frá árinu 1955, voru fengnir hjá Krabbameinsskrá og bornir saman við skrá yfir sýni sem safnað var í tengslum við Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar. Frá 66 sjúklingum með MM og 10 með WM, fundust sýni sem var safnað á árunum 1967 til 1995. Prótein rafdráttur og „immunofixation“ var gerð á öllum sýnunum og tveimur pöruðum viðmiðum.

Niðurstöður: Með rafdrætti greindust einstofna mótefni í 28% tilfella (n=21, 1MM=20, WM=1) og 1,3% viðmiða. Með immunofixation greindist einstofna mótefni í 46% tilfella (n=35, MM=32, WM=3) og 2,6% viðmiða. Tími frá sýnatöku til greiningar illkynja sjúkdóms var 10,14 ár (meðaltal), níu ár (miðgildi, dreifing: 1-23,5) hjá tilfellum með greinanlegt einstofna mótefni í sýninu samanborið við 14,33 ár (meðaltal), 13,5 (miðgildi, dreifing: 1,8-31,4) hjá þeim sem ekki voru með einstofna mótefni í sýninu. Tegund eintofna mótefnis í sýnunum var IgA í 33,4%, IgG í 57% og IgM í 8,5% tilfella.

Ályktanir: 1. Tæplega helmingur MM tilfella hefur MGUS forboða.

2. Tíðni MGUS hjá viðmiðum var svipuð og í öðrum stærri rannsóknum.

3 Tíðni IgA einstofna mótefnis hjá MM tilfellum með MGUS forboða var hærri en lýst er við MGUS almennt sem endurspeglar niðurstöður stórra rannsókna sem hafa sýnt að áhættan á þróun úr MGUS yfir í MM eru mest ef mótefnið er af IgA gerð.


E 113 Ónæmiskerfi þorsks (Gadus morhua L.). Rannsóknir á náttúrulegum mótefnum


Bergljót Magnadóttir, Sigríður Guðmundsdóttir

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum


bergmagn@hi.is


Inngangur: Náttúruleg mótefni eru til staðar í sermi hryggdýra án utanaðkomandi ónæmisörvunar. Einkennandi er virkni gegn meðal annars hapteneruðum prótínum (til dæmis TNP-BSA), DNA og thýróglóbúlín. Náttúruleg mótefni taka þátt í fyrstu varnarviðbrögðum og stjórnun stöðugleika ónæmiskerfisins (homeostasis). Mótefnamagn í sermi þorska er hátt, hann myndar veikt sérvirkt mótefnasvar en sýnir háa virkni náttúrulegra mótefna. Í þessu verkefni var virkni og bindistyrkur náttúrulegra mótefna í þorski rannsökuð, bindisækni við ýmsa mótefnavaka og áhrif umhverfishita, aldurs, bólusetningar og sýkingar metin. Þá voru athuguð áhrif náttúrulegra mótefna á veirusýkingu fiskafrumulínu.

Efniviður og aðferðir: Sermi úr ýmsum þorskhópum var notað. Mótefnavakar voru meðal annars TNP-BSA, chítosan, thýróglóbúlín, DNA og pólýmannuronic acid. Virkni og bindistyrkur var mældur með ónæmisþrykki og ELISA prófi og bindisækni og greining á vakakeyrðri bindisækni með ammóníum thíócyanate-losun. Áhrif þorskamótefnis á sýkingarmátt VHS fiskaveiru voru prófuð í EPC frumulínu.

Helstu niðurstöður: Virkni náttúrulegra mótefna eykst með hækkandi aldri, hækkandi umhverfishita og eftir sýkingu. Náttúrulegt mótefnasvar hermdi eftir dæmigerðu sérvirku svari í kjölfar bólusetningar, sérstaklega við hærri umhverfishita. Í bólusetningar- og sýkingartilraun virtist sérvirkt svar bæla náttúrulega mótefnavirkni. Mótefni með háa virkni gegn TNP-BSA dró meira úr veirusýkingu en mótefni með lága virkni gegn TNP-BSA.

Ályktanir: Engar haldgóðar skýringar eru á því af hverju þorskur myndar lélegt sérvirkt mótefnasvar. Þessar niðurstöður sýna að náttúruleg mótefni gætu við ákveðnar aðstæður gegnt hlutverki sérvirkra mótefna en þegar sérvirk mótefni myndast sé það á kostnað náttúrulegra mótefna.


E 114 Ónæmiskerfi þorsks (Gadus morhua L.). Rannsóknir á bráðasvari


Berglind Gísladóttir1, Sigríður Guðmundsdóttir1, Zophonías O. Jónsson2,

Bergljót Magnadóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Líffræðistofnun HÍ


bergmagn@hi.is


Inngangur: Bráðasvar er þekkt ónæmisviðbragð hjá fiskum og verður í kjölfar áverka, álags eða sýkinga. Bráðasvari fylgir aukning á bráðaprótínum eins og pentraxínum, það er C-reactive prótín (CRP) og serum amyloid P (SAP). Vísbendingar eru um að CRP aukist í þorskasermi til dæmis í kjölfar sýkingar. Í þessu verkefni voru pentraxín einangruð úr þorskasermi, gerð þeirra skilgreind, þreifarar útbúnir og sérvirk mótefni framleidd. Bráðasvar var framkallað í þorski og áhrif á magn og tjáningu pentraxína greind svo og áhrif á átfrumuvirkni.

Efniviður og aðferðir: Pentraxín voru einangruð úr þorskasermi með sértækri- og jónskiptasúlum. Sannprófun var meðal annars með N-enda amínósýru- og MALDI-TOF MS greiningum. CRP og SAP vísar voru hannaðir eftir amínósýrugreiningu og míníprep útbúin. Framleidd voru sérvirk mótefni gegn pentraxínum og Grip-ELISA þróuð til að magnmæla CRP í sermi. Bráðasvar var framkallað í 125g þorskum sem voru sprautaðir í vöðva með terpentínu og sermis- og lifrarsýni tekin á mismunandi tímasetningum í allt að 10 daga. Jafnframt var átfrumupróf gert á hvítfrumum einangruðum úr nýra á hverjum tímapunkti.

Helstu niðurstöður: Ólíkt því sem haldið hefur verið fram í erlendum rannsóknum hefur þorskur bæði CRP og SAP. Mikill einstaklingsmunur var á gerð og magni CRP í sermi. Áhrif terpentínumeðhöndlunar á CRP í sermi var því óljós en hún hafði bælandi áhrif á átfrumuvirkni. Tekist hefur að útbúa míníprep fyrir CRP og raðgreining á CRP innskoti gekk vel. Verið er að gera PCR og tvívíddar rafdráttargreiningu á þessum sýnum.

Ályktanir: Með þessum rannsóknum verður lagður grunnur að þekkingu á einum af lykilþáttum í ónæmisviðbragði fiska og einnig má vænta þess að magnmælingar á CRP í sermi geti reynst nytsamt tæki til að meta heilbrigðisástand og eldisskilyrði þorsks í eldi.E 115 Áhrif æðaþels á ummyndun brjóstaþekjustofnfruma í bandvefsfrumu svipgerð


Valgarður Sigurðsson1,2,3, Geir Tryggvason3, Ragnar Pálsson3, Magnús K. Magnússon3, Þórarinn Guðjónsson1,2,3

1Læknadeild HÍ, 2Rannsóknastofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 3blóðmeinafræðideild Landspítala


thorarin@landspitali.is


Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að brjóstaæxlisfrumur geta myndað bandvefslíkar frumur sem afleiðing af þekjuvefs-bandvefs umbreytingu. Við höfum nýlega búið til þekjuvefsstofnfrumulínu úr brjóstkirtli (D492). D492 var búin til með innskoti á E6 og E7 æxlisgenunum frá vörtuveiru-16. Rannsóknir benda til að æðaþelsfrumur spili lykilhlutverk í formgerð ýmissa vefja og okkar niðurstöður benda til þess að æðaþel hafi ríkjandi áhrif á vöxt og sérhæfingu frumna í brjóstkirtli.

Markmið: Að kanna hvort æðaþelsfrumur undir ákveðnum kringumstæðum miðli boðum um óeðlilegan vöxt í brjóstastofnfrumulínu sem inniheldur æxlisgen og ýti þar með undir æxlisvöxt.

Aðferðir og niðurstöður: Þrívíðar samræktir í grunnhimnugeli milli D492 og æðaþelsfrumna gáfu þrjár mismunandi formgerðir hjá brjóstastofnfrumulínunni, 1) kirtilganga- og kirtilberjalíkar kóloníur, 2) stórar kúlulaga kóloníur og 3) kóloníur með bandvefslíkum frumum. Frumur úr bandvefslíkum kóloníum voru einangraðar og ræktaðar áfram sem D492F undirlína. D492F sýndi dæmigerða bandvefsfrumu svipgerð bæði í hefðbundinni tvívíðri frumurækt sem og í þrívíðu kollagen geli. Með því að nota mótefnalitun og Western blettun fyrir kennipróteinum þekjuvefs og bandvefsfrumna kom í ljós að bandvefslíka undirlínan var afleiðing af EMT. Ólíkt móðurlínunni D492 sýndu D492F frumurnar enga tjáningu á E-kadheríni, minnkaða tjáningu á cýtókeratíni 5/6, 14, 17 og 19 en aukna tjáningu á vimentini og EMT tengda umritunarþættinum Snail. D492F frumurnar sýndu ennfremur merki krabbameinsumbreytingar með vexti í mjúkagar.

Ályktanir: Samantekið þá höfum við sýnt fram á að æðaþelsfrumur geti örvað EMT í stofnfrumum úr brjóstkirtli og að mögulegt sé að æxli með EMT svipgerð eigi upptök sín í stofnfrumum brjóstkirtilsins.


E 116 Tengsl Aurora-A mögnunar við BRCA2 í brjóstaæxlum


Sigríður Klara Böðvarsdóttir1,2, Hólmfríður Hilmarsdóttir1,2, Valgerður Birgisdóttir1,2, Margrét Steinarsdóttir3, Jón Gunnlaugur Jónasson1,4, Jórunn Erla Eyfjörð1,2


1Læknadeild HÍ, 2Rannsóknastofa HÍ og Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffæði, 3litningarannsóknadeild Landspítala, 4meinafræðideild Landspítala


skb@krabb.is


Inngangur: Þekkt er að Aurora kínasi A gegni lykilhlutverki í seinni stigum frumuskiptinga. Aurora-A genið er staðsett á litningssvæði 20q13 sem oft reynist magnað í brjóstaæxlum, einkum af BRCA2 uppruna. Mögnun og yfirtjáning Aurora-A gens leiðir til mögnunar geislaskauta og tregðu í frymisskiptingu sem leiðir til litningaóstöðugleika. Þetta einkenni þekkist í brjóstaæxlum, einkum þeim sem bera kímlínubreytingu í BRCA2 geni eða TP53 stökkbreytingu. Tilgangur þessa verkefnis var að kanna tengsl Aurora-A mögnunar við galla í BRCA2 eða TP53 genum í brjóstaæxlum.

Efniviður og aðferðir: Valið var 61 brjóstaæxli með þekktan litningaóstöðugleika; 20 með kímlínubreytingu 999del5 í BRCA2 geni; 20 með BRCA2 samsætutap og 21 án galla í BRCA2 geni. Auk þess höfðu 16 æxlanna stökkbreytingu í TP53 geni, þar af þrjú BRCA2 æxli. Paraffínsteyptar vefjasneiðar úr brjóstaæxlum voru meðhöndlaðar með FISH (fluorescence in situ hybridization) á Aurora-A gen og þráðhaft 20. Yfir 100 kjarnar voru greindir í hverju sýni. Mögnun á Aurora-A var metin þegar meðalhlutfall gens og þáðhafts var yfir 1,5 eða meðalfjöldi gens var yfir fjórum.

Helstu niðurstöður: Mögnun Aurora-A gens greindist í 70% BRCA2 stökkbreyttra brjóstaæxla en aðeins í 22% brjóstaæxla án BRCA2 stökkbreytingar, munurinn var marktækur (p<0,001). Ekki reyndist marktækur munur á milli æxla með samsætutap í BRCA2 geni og æxla án galla í BRCA2. Helmingur æxla með TP53 stökkbreytingu reyndist hafa Aurora-A mögnun. TP53 stökkbreytingin tengdist marktækt Aurora-A mögnun í æxlum án BRCA2 kímlínubreytingar (p<0,01).

Ályktanir: Greinileg tengsl eru milli Aurora-A mögnunar í æxlisvef og stökkbreytinga í BRCA2 eða TP53. Lyf sem virka hindrandi á Aurora kínasa geta því orðið ákjósanleg til meðferðar á bjóstaæxli með stökkbreytingu í BRCA2 eða TP53 geni.


E 117 Kortlagning erfðabrenglana með hjálp örflögutækni í brjóstaæxlum sjúklinga úr fjölskyldum sem bera kímlínustökkbreytingu í BRCA1 og BRCA2 genunum og úr fjölskyldum með hækkaða tíðni meinsins án BRCA1/2-stökkbreytingar


Haukur Gunnarsson1, Göran Jonsson2, Aðalgeir Arason1, Bjarni A. Agnarsson3, Óskar Þór Jóhannsson4, Johan Vallon-Christersson2, Johan Staaf2, Hakan Olsson2, Ake Borg2, Rósa Björk Barkardóttir1

1Sameindalíffræðieining, rannsóknastofu í meinafræði Landspítala, 2krabbameinsdeild háskólasjúkrahússins í Lundi, 3rannsóknastofa í meinafræði Landspítala, 4krabbameinsdeild, Landspítala


haukur@landspitali.is


Inngangur: Um 5-10% brjóstakrabbameinstilfella tilheyra fjölskyldum með háa tíðni meinsins. Skýra má allt að helming þeirra með kímlínustökkbreytingu í BRCA1- og BRCA2-genunum. Ekki hefur tekist að finna önnur gen sambærileg BRCA1 og BRCA2 sem skýra tilurð sjúkdómsins í hinum helmingnum.

Markmið rannsóknarinnar er að bera saman tíðni og dreifingu erfðabrenglana í brjóstakrabbameinsæxlum fjölskyldna með 1) kímlínustökkbreytingu í BRCA1- eða BRCA2-geni, 2) tíð mein án BRCA1/2-kímlínubreytingar (BRCAX) og 3) stakstæð (sporadisk) brjóstakrabbamein.

Efniviður og aðferðir: DNA var einangrað úr fersk-frosnum æxlisvef: BRCA1 (n=24), BRCA2 (n=17), BRCAX (n = 89) og stakstæð viðmiðunarsýni (n=53). Framkvæmd var örflögurannsókn (array-CGH). Örflögurnar samanstóðu af yfir 32.400 BAC-klónuðum þreifurum með um 45 kb. upplausn. Örflögurnar voru skannaðar inn í tölvu (Agilent microarray scanner), niðurstöður villurýndar (GenePix Pro) og gögnum hlaðið inn á BASE (Bio Array Software Environment) til leiðréttingar á bakgrunni og stöðlunar. CGH-plotter hugbúnaðurinn var notaður til kortlagningar erfðabrenglana.

Niðurstöður: Tíðni erfðabrenglana er hærri hjá BRCA1- og BRCA2-hópunum miðað við BRCAX og stakstæða hópinn. Í samanburði við stakstæða hópinn eru úrfellingar á litningi 4 og 5q einkum einkennandi fyrir BRCA1 hópinn en fyrir BRCA2 hópinn mögnun á 20q og úrfelling á 13q. BRCAX hópurinn sker sig ekki afgerandi frá stakstæða hópnum hvað varðar tíðni brenglana og staðsetningu þeirra.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að þau gen sem hafa áhrif til myndunar brjóstakrabbameins í fjölskyldum sem ekki skýrast af stökkbreytingum í BRCA1 og BRCA2 séu mörg hver þau sömu og hafa áhrif í stakstæðum æxlum. Þær staðfesta einnig mjög háa brenglunartíðni BRCA1 og BRCA2 æxla sem endurspegla aftur mikilvægi þeirra í DNA-viðgerðaferli frumnanna.


E 118 Sjö ára yfirlit útskriftargreininga á bráðamóttöku


Oddný S. Gunnarsdóttir1, Vilhjálmur Rafnsson2

1Skrifstofa kennslu, vísinda og þróunar, Landspítala, 2rannsóknarstofa í heilbrigðisfræði, læknadeild HÍ


vilraf@hi.is


Inngangur: Markmið þessarar rannsóknar var að lýsa mynstri útskriftargreininga þeirra sem sendir eru heim af bráðamóttökunni.

Efniviður og aðferðir: Þetta er lýsandi rannsókn, sem byggir á tölvufærðum sjúkragögnum á bráðamóttökunni á Landspítala Hringbraut á sjö ára tímabili 1995 til 2001. Fyrstu sjúkdómsgreiningum þeirra, sem útskrifaðir voru heim og skráðar voru eftir Alþjóðlegu sjúkdóms- og dánarmeinaskránni, var breytt í aðalgreiningarflokka samkvæmt Evrópu-stuttlista. Breytingar á hlutfallslegum fjölda útskriftargreininga í hverjum flokki á rannsóknartímanum (1995 til 2001) voru skoðaðar og reiknað kíkvaðrat fyrir línulega stefnu hvers greiningarflokks.

Niðurstöður: Hlutfall notenda móttökunnar sem útskrifaðir voru heim jókst á tímabilinu. Á árinu 1995 voru 54,5% af sjúklingunum send heim en 72,5% á árinu 2001. Greiningar í flokknum Einkenni, merki, óeðlilegar rannsóknarniðurstöður og illaskilgreindar ástæður, voru oftast notaðar bæði fyrir konur og karla. Þessi flokkur var notaður í meir en 20% tilfella að meðaltali. Markverðasta breytingin á tímabilinu var aukningin á greiningum í þessum flokki bæði meðal kvenna og karla.

Ályktanir: Hlutfall notenda bráðmóttökunnar sem voru útskrifaðir heim en ekki lagðir inn á einhverja deild sjúkrahússins jókst og varð meir en 70% af þeim sem komu á bráðamóttökuna. Tuttugu prósent af útskriftargreiningunum voru í flokknum Einkenni, merki, óeðlilegar rannsóknarniðurstöður og illa skilgreindar ástæður, það er að segja ekki með ákveðna sjúkdómsgreiningu. Mynstur útskriftargreininganna endurspeglar að líkindum aukið álag á bráðamóttökuna.


E 119 Faraldsfræði millivefslungnabólgu á Íslandi 1984-2003


Jónas Geir Einarsson1, Helgi J. Ísaksson2, Friðrik E. Yngvason 3,Thor Aspelund4 Gunnar Guðmundsson1,5

1Lungnadeild, Landspítala, 2rannsóknastofa í meinafræði Landspítala, 3Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, 4Hjartavernd, 5Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði, HÍ


jonasge@internet.is


Inngangur: Millivefslungnabólgur (MVL) af óþekktum orsökum (idiopathic interstitial pneumonias) eru sjaldgæfir lungnasjúkdómar með miklum einkennum og hárri dánartíðni. Faraldsfræði þessara sjúkdóma er lítið þekkt. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna faraldsfræði sjúkdómsins hjá heilli þjóð.

Efniviður og aðferðir: Aftursæ rannsókn á millivefslungnabólgu á Íslandi yfir 20 ára tímabil. Faraldsfræði og lifun voru könnuð. Gerð var leit í skráningarkerfi Rannsóknarstofu í meinafræði að sjúklingum með lungnatrefjun. Greiningarnúmer í ICD kerfi voru athuguð á Landspítala og FSA. Allar sjúkraskýrslur voru skoðaðar, vefjasýni voru endurskoðuð og myndrannsóknir skoðaðar. Sjúklingar voru flokkaðir samkvæmt ströngum greiningarskilmerkjum og flokkaðir eftir áreiðanleika greiningar (öruggir, líklegir, mögulegir)

Niðurstöður: Eftir endurskoðun gagna uppfylltu 79 sjúklingar greiningarskilmerki fyrir MVL. Fjörutíu og þrír voru með örugga (definite) greiningu, 24 voru líklegir (probable) og 12 voru mögulega (possible) með MVL. Með venjulega millivefslungnabólgu (UIP) voru 34, með ósértæka millivefslungnabólgu (NSIP) voru þrír, með flagnandi millivefslungnabólgu (DIP) voru tveir, fjórir höfðu endastigstrefjun og 36 höfðu ekki vefjafræðilega greiningu en uppfylltu klínísk og myndræn greiningarskilmerki. Karlar voru 43 og konur 36. Meðalnýgengi var 1,5/100.000 íbúa á ári (95% öryggismörk (CI): 1,20-1,87). Algengi jókst jafnt og þétt á tímabilinu og var hæst 10,8/100.000. Meðalaldur við greiningu var 71 ár. Stöðluð dánartíðni (standardized mortality ratio) var 3,7 (95% öryggismörk: 2,9-4,8), sem er mun hærra en í almennu þýði (p<0,0001).

Ályktanir: Nýgengi og algengi MVL var nokkuð lægra en í erlendum rannsóknum . Þetta getur verið vegna strangra greiningarskilmerkja og mismunandi þýða. Dánartíðni var há.


E 120 Parkinsons veiki og heilkenni á Íslandi 1951-2005


Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir

Landspítali


sigurlaugs@hotmail.com sigurls@landspitlai.is


Inngangur: Parkinsons veiki er algengur taugasjúkdómur efri ára auk þess sem ýmis heilkenni gefa svipuð einkenni. Lýst er niðurstöðum rannsóknar á faraldsfræði Parkinsons veiki og heilkenna sem hófst á árinu 1995 og tekur til tímabilsins 1950-2005.

Efniviður og aðferðir: Upplýsinga um sjúklinga var aflað á margvíslegan hátt, svo sem úr fyrri faraldsfræðirannsókn frá árunum 1954-1963, við fram- og afturvirka leit að sjúklingum í tölvukerfum Landspítala, úr læknabréfum taugadeilda, hjá Parkinsonssamtökunum á Íslandi og hjá taugalæknum og heimilislæknum. Alls hafa 498 sjúklingar verið skoðaðir á rannsóknartímabilinu. 70% tiltækra sjúkragagna um hópinn hafa verið yfirfarin til þess að meta áreiðanleika sjúkdómsgreininga.

Niðurstöður: Tæplega 2.300 tilfelli fundust, þar af voru 1.685 taldir hafa dæmigerða Parkinsons veiki. Nýgengi sjúkdómsins á árunum 1951-2000 var 11-12/100.000 en algengið hækkaði úr 130 í 162/100.000 á rannsóknartímabilinu samhliða hækkandi meðalaldri við byrjun einkenna úr 64,5 í 67,5 ára. Kynjahlutfall var 1:1,2 körlum í vil. Af þeim 593 sem ekki töldust með dæmigerðan sjúkdóm voru 23% ranggreiningar, 14% höfðu lyfjaframkölluð einkenni, 8% heilaæðasjúkdóma, 8% Parkinsons einkenni samhliða heilabilun, 22% þekkt Parkinsons heilkenni svo sem Lewy sjúkdóm, Multiple System Atrophy, Progressive Supranuclear Palsy og Corticobasal Ganglionic Degeneration, og 5% höfðu skjálfta sem eina einkennið. Um bráðabirgðaniðurstöður er að ræða því yfirferð sjúkragagna er ekki lokið.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að nýgengi Parkinsons veiki hafi staðið í stað á Íslandi síðastliðin 20 ár en algengið vaxið samhliða hækkandi meðalaldri þjóðarinnar og auknu langlífi.


E 121 Arfgerðin C4B*Q0 eykur hættu á kransæðastíflu og tengdum dauðsföllum meðal þeirra sem reykja


Guðmundur Jóhann Arason1, Judit Kramer2, Bernadett Blaskó3, Ragnhildur Kolka1, Perla Þorbjörnsdóttir1, Karólína Einarsdóttir1, Aðalheiður Sigfúsdóttir1, Sigurður Þór Sigurðarson4, Garðar Sigurðsson4, Zsolt Rónai5, Zoltán Prohászka3,6, Mária Sasvári-Székely5, Sigurður Böðvarsson4, Guðmundur Þorgeirsson4, George Füst3,6

1Rannsóknastofnun Landspítala, ónæmisfræðideild, 4lyfjadeild Landspítala, 2Jahn Ferenc Hospital, Búdapest, 3,5,6Semmelweis University, Búdapest


garason@landspitali.is


Inngangur: Magnakerfið er einn öflugasti bólgumiðill mannslíkamans. Við höfum áður sýnt að tíðni arfgerðarinnar C4B*Q0 (ótjáð C4B úr magnakerfinu) minnkar með aldrinum í úrtaki heilbrigðra einstaklinga, og tengt þetta við aukna áhættu á að fá hjartaáfall og/eða heilablóðfall. Reykingar eru áhættuþáttur fyrir kransæðasjúkdómi og var því kannað samband reykinga og C4B*Q0 í kransæðasjúkdómi.

Efniviður og aðferðir: Skoðaðir voru 74 íslenskir sjúklingar með hjartaöng (angina pectoris), 84 með innlögn vegna hjartaáfalls, 109 með fyrri sögu um kransæðastíflu og 382 heilbrigðir. Einnig voru skoðaðir 233 ungverskir sjúklingar með alvarlegan kransæðasjúkdóm og 274 heilbrigðir. Reykingasaga var tekin við komu, og fjöldi C4A og C4B gena var ákvarðaður með prótínrafdrætti eða með PCR.

Niðurstöður: Tíðni C4B*Q0 var marktækt hækkuð í íslenskum sjúklingum sem greindust með hjartaöng (p=0,02) eða kransæðastíflu (p=0,001) eftir reykingar, og sama gilti um ungverska sjúklinga með alvarlegan kransæðasjúkdóm (P=0,023) en á meðal þeirra sem ekki reyktu var enginn munur milli sjúklinga og heilbrigðra. Eftirfylgni sjúklinga í 66,5 mánuði sýndi að líkur á dauðsföllum C4B*Q0-arfbera með hjartaáfall voru 7,78, óháð öðrum áhættuþáttum, og 85,7 á fyrstu sex mánuðunum. Styrkur CK (creatin kinase) í blóði, sem talinn er endurspegla umfang hjartadreps, var hærri í þeim sem reyktu og voru með C4B*Q0 (p=0,0019) miðað við aðra sjúklinga. Aldurstengt brottfall C4B*Q0, sem áður hafði greinst í viðmiðunarhópi bæði á Íslandi og í Ungverjalandi, sást einungis meðal þeirra sem reyktu, og sást strax eftir fimmtugt.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að C4B*Q0 arfgerðin geti stóraukið hættu reykingafólks á því að fá hjartaáfall og deyja úr því.


E 122 Áhættumat hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi


Thor Aspelund1, Guðmundur Þorgeirsson1,2, Gunnar Sigurðsson1,2, Vilmundur Guðnason1,3

1Hjartavernd, 2Landspítali, 3læknadeild HÍ


aspelund@hjarta.is


Inngangur: Áhættureiknivél Hjartaverndar hefur verið í notkun síðan 2003. Einstaklingsbundnar líkur á hjartasjúkdómi á næstu 10 árum eru metnar. Evrópusamtökin um forvarnir hjarta- og æðasjúkdóma gáfu út leiðbeiningar um áhættumat 2003. Lagt er til að svonefnd SCORE- áhættukort verði notuð við mat á líkum á dauðsfalli vegna hjarta- og æðasjúkdóma á næstu 10 árum. Sitt hvort kortið er notað fyrir svæði með lága eða háa áhættu. Samkvæmt SCORE átti Ísland að vera í hópi þjóða með háa áhættu. Spurt hvort þetta kallaði á breytingu í áhættumati á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Gögn rúmlega 15.000 einstaklinga úr Hóprannsókn Hjartaverndar voru notuð. Dánardagur og dánarorsök voru fengin frá Hagstofu Íslands. Sömu aðferðafræði var beitt og við gerð SCORE-kortanna. Grunnáhætta á hjartasjúkdómi og dauða á næstu 10 árum vegna hjarta- og æðasjúkdóma var metin svo og hlutfallsleg áhættuaukning fyrir hvern einstakling út frá aldri, reykingasögu og heildarkólesteróli.

Niðurstöður: Hlutfallsleg áhættaukning á dauða metin frá ofangreindum áhættuþáttum er næstum sama á Íslandi og í Evrópu. Grunnáhætta karla er nær lágri en hárri áhættu, eins og hún er skilgreind af SCORE, og grunnáhætta kvenna telst lág. Fylgni milli áhættumats Hjartaverndar og SCORE er 0,98 hvort sem notast er við spá fyrir hjartasjúkdómi eða dauða.

Ályktanir: Góð fylgni er á milli áhættumats Hjartaverndar og SCORE en íslensk gögn gefa betri mynd af grunnáhættunni. Áhætta á dauðsfalli á næstu 10 árum vegna hjarta- og æðasjúkdóma telst lág á Íslandi en lagt er til af Evrópusamtökunum að nota kort fyrir háa áhættu fyrir lönd á norðurhveli. Áhættureiknivél Hjartaverndar er grundvöllur að þætti áhættumats í klínískum leiðbeiningum landlæknis um áhættumat og forvarnir hjarta-og æðasjúkdóma frá 2006.


E 123 Rykmaurar á sveitabýlum á Suður- og Vesturlandi


Davíð Gíslason1, Sigurður Þór Sigurðsson2 , Gunnar Guðmundsson1 , Kristinn Tómasson3, Kristín Bára Jörundsdóttir1 , Þórarinn Gíslason1, Thorkil E Hallas4

1Lungna- og ofnæmisdeild Landspítala, 2Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, 3Vinnueftirlit ríkisins, 4Allergy Research Unit Rigshospitalet, Danmörku


davidg@landspitali.is

Inngangur: Um 6-9% íbúa Reykjavíkur, sem fæddir eru á árunum 1945-1970, hafa ofnæmi fyrir rykmaurum þrátt fyrir það að nær engir rykmaurar finnist í Reykjavík. Nýleg rannsókn sýndi að þeir sem höfðu rykmauraofnæmi í Reykjavík höfðu oftar dvalist í sveit sem börn en samanburðarhópur einstaklinga með ofnæmi fyrir grasfrjóum (Berglind Adalsteinsdottir, et al. Allergology International 2006; in press).

Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort meiri líkur væru á því að koma í snertingu við rykmaura á sveitabýlum en í Reykjavík.

Efniviður og aðferðir: Í tengslum við rannsókn á atvinnusjúkdómum bænda á Suður- og Vesturlandi var safnað húsryki úr rúmdýnum og af gólfi í setustofu á 42 bændabýlum. Aðferð við ryksöfnunina og meðferð og rannsókn á ryksýnunum var sú sama og var í Evrópurannsókninni Lungu og heilsa í Reykjavík (Hallas T, et al. Allergy 2004; 59: 515-9).

Niðurstaða: Gagnstætt því sem fannst í Reykjavík þá fannst við rannsóknina margbreytileg fána af maurum. Alls fundust 17 tegundir maura, þar af Acarus siro á 13 bæjum og Dermatophagoides pteronyssinus á átta bæjum. Sýnin bentu þó til þess að maurarnir væru aðfluttir en tímguðust ekki þar sem þeir fundust. Meira fannst af maurum nálægt sjávarströndu og hreiðurstæðum starra en á fjarlægari stöðum.

Ályktanir: Fundur D. pteronyssinus á sveitabæjum skýrir, að minnsta kosti að hluta, ofnæmi fyrir rykmaurum meðal Reykvíkinga, sem fæddir voru á árunum 1945-1970, og dvöldust í sveit á sumrin. Athugun á þeim maurum sem fundust bendir ekki til að þeir hafi tímgast þar sem þeir fundust og því eru aðrar hugmyndir viðraðar í því sambandi.


E 124 Tengsl varnarviðbragða og áfallaröskunar. Hlutverk hliðrunar og nálgunar


Berglind Guðmundsdóttir

Sálfræðiþjónusta Landspítala, áfallamiðstöð slysa, ofbeldis og hamfara, slysa- og bráðasviði


berggudm@landspitali.is


Inngangur: Talið er að viðbrögð einstaklings við áfalli (trauma) geti haft áhrif á hvort hann þrói með sér áfallaröskun (posttraumatic stress disorder) í kjölfar áfallsins. Ekki er ljóst hvaða varnarviðbrögð (coping strategies) stuðli að þróun áfallaröskunar eftir áfall.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin kannaði hlutverk tveggja varnarviðbragða (hliðrun eða nálgun) í aðlögun eftir tilbúið áfall (streituvaldandi myndskeið sem kallaði fram sterk neikvæð tilfinningaviðbrögð). Kannað var hvort konur sem notuðu hliðrun eða nálgun til að fást fást við tilbúna áfallið sýndu ólík einkenni áfallaröskunar og notuðu ólíkar hugrænar stjórnunaraðferðir. Þátttakendur voru 84 bandarískir háskólanemar á aldrinum 18 til 22 ára. Þátttakendum var skipt eftir handahófi í hópana tvo (hliðrun eða nálgun).

Helstu niðurstöður: Allir þátttakendur sýndu sterk neikvæð tilfinningaviðbrögð við tilbúna áfallinu. Hóparnir upplifðu ólík einkenni áfallaröskunar. Hliðrunarhópurinn upplifði meiri hliðrunareinkenni og notaðist frekar við neikvæðar hugrænar stjórnunaraðferðir (áhyggjur) til að takast á við einkenni áfallaröskunar en nálgunarhópurinn, sem notaðist frekar við jákvæðar hugrænar stórnunaraðferðir (hugrænt endurmat, félagslegan stuðning) til að takast á við einkennin. Tengsl voru á milli neikvæðra hugrænna stjórnunaraðferða og einkenna áfallaröskunar hjá báðum hópum.

Ályktanir: Niðurstöður sýna ólíkar afleiðingar af notkun hliðrunar og nálgunar á þróun einkenna áfallaröskunnar eftir tilbúið áfall. Niðurstöður varpa ljósi á mikilvægi þess að skilja áhrif mismunandi varnarviðbragða á þróun áfallaröskunar. Rannsóknin sýnir fram á gildi tilbúins áfalls til að skilja tengsl varnarviðbragða og áfallaröskunar.


E 125 Athygli og táknunarminni, tvær hliðar sama penings? Rannsókn með starfrænni segulómmyndun


Árni Kristjánsson1,2, Christian C. Ruff2, Jon Driver2

1Sálfræðiskor HÍ, 2University College London


ak@hi.is


Inngangur: Allt frá því á sjöunda áratugnum hafa tvær rannsóknahefðir innan hug- og taugavísinda átt sér samhliða en aðskilin líf. Annars vegar er um að ræða rannsóknarhefð um táknunarminni (Iconic Memory), sem er gjarnan mælt með því hversu lengi þátttakendur muna eftir áreitum sem birt eru á tölvuskjá og hins vegar athygli (attention) sem gjarnan er mæld með því að birta vísbendi á tilteknum stað á tölvuskjá og mæla síðan hvort þátttakendum gangi betur að greina áreiti sem þar birtast í kjölfarið. Í fyrra tilfellinu eru vísbendi birt til dæmis 200 ms eftir á (post-cue) eftir að áreiti birtast en í því síðara birtast vísbendin 200 ms á undan því sem dæma á um (pre-cue).

Efniviður og aðferðir: Í þessari rannsókn var starfrænni segulómmyndun beitt til þess að athuga hvort munur væri á heilavirkni tengdri þessum tveimur tegundum aðferða. Þátttakendur framkvæmdu erfitt aðgreiningarverkefni þar sem forvísbendi eða síðvísbendi sagði til um frá hvaða hluta áreitanna sem birtust ætti að skýra.

Niðurstöður og ályktanir: Niðurstöður voru þær að taugavirkni mæld með starfrænni segulómmyndun er afar svipuð í kjölfar forvísbenda (pre-cueing) og síðvísbenda (post-cueing). Þessi rannsókn sýnir að undanfarin 40 til 50 ár hefur aðferðafræðileg skipting milli athyglisáhrifa og táknunarminni hulið tauga- og lífeðlisfræðileg líkindi milli þeirra. Áhrif forvísbendinga og síðvísbenda eru einfaldlega tvær birtingarmyndir tveggja mismunandi heilaferla. Fjallað verður um mögulegar ástæður þessa og ekki síður hvernig starfræn segulómmyndun og skyldar aðferðir geta varpað nýju ljósi á langvinn álitamál inna taugavísinda og vísinda hugarstarfsins.


E 126 Tilfinningaleg líðan og lífsgæði sjúklinga með ristil- og
endaþarmskrabbamein eftir skurðaðgerð


Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1, Hjördís Hjörvarsdóttir2, Herdís Sveinsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2skurðlækningasvið Landspítala


herdis@hi.is


Inngangur: Á Íslandi greinast um 115 einstaklingar árlega með ristil- eða endaþarms­krabba­mein. Erlendar rann­sóknir benda til að sjúklingum líði verr tilfinn­inga­lega og meti lífsgæði lakar stuttu eftir skurðaðgerð heldur en fyrir, eða að lengri tíma liðnum. Rannsóknin kannar og lýsir tilfinningalegri líðan og lífsgæðum sjúklinga með ristil- og enda­þarms­krabbamein eftir skurðaðgerð.

Efniviður og aðferðir: Á hálfu áru tóku þátt 19 sjúklingar sem fóru í skurðaðgerð á Landspítala vegna ristil- og endaþarmskrabbameins án stóma. Spurningalisti (EQ-5D, HADS og sérhannaðar spurningar) var lagður fyrir á skurðdeild og aftur heima eftir sex til átta vikur.

Niðurstöður: Meðalaldur var 66,6 ár, 11 karlar og átta konur. Flestir töldu heilsu fyrir greiningu krabba­meins góða og voru jákvæðir gagnvart umönnun. Lífs­gæði táknuðu oftast heilbrigði, fjölskylduna og efnahagslega þætti. Á sjúkrahúsi voru lífs­gæði skert en bötnuðu marktækt varðandi hreyfigetu, sjálfsumönnun, venjubundin störf og athafnir. Vandamál tengd verkjum voru lítil. Tilfinningaleg líðan var almennt góð. Kvíða­einkenni og óvissa voru marktækt meiri, en stjórn á aðstæðum marktækt minni í sjúkra­hús­legu. Nokkrir þátttakendur höfðu töluvert skert lífsgæði og mikla vanlíðan í kjölfar aðgerðar.

Ályktanir: Lífsgæði eru að mestu leyti háð líkamlegum þáttum en tilfinningaleg líðan hefur minni áhrif. Líkamlegum þáttum og fræðslu er vel sinnt en heilbrigði er mikilvægt viðfangsefni í hjúkrun skurðsjúklinga. Mælitæki rannsóknarinnar geta nýst hjúkrunar­fræðingum við að meta vanlíðunareinkenni. Sífellt styttri legutími á sjúkrahúsum gerir það að verkum að hjúkrun þarf að verða markvissari til að besta mögulega heilbrigðisþjónusta sé veitt og líkur á mikilli vanlíðan eða alvarlegum sálrænum og líkamlegum fylgikvillum minnki.


E 127 Lífsgæði, einkenni kvíða og þunglyndis og endurhæfingarþarfir einstaklinga sem fá lyfjameðferð við krabbameini


Þórunn Sævarsdóttir1, Nanna Friðriksdóttir 1,2 , Sigríður Gunnarsdóttir1,2

1Landspítali, 2Háskóli Íslands


torunnsa@landspitali.is


Inngangur: Ár hvert greinast 1.100 einstaklingar með krabbamein hér á landi. Það að greinast og fá meðferð við krabbameini hefur áhrif á lífsgæði, lífsgæði hafa því verið mikilvægur þáttur í hjúkrun einstaklinga með krabbamein. Markmið rannsóknarinnar er að lýsa lífsgæðum, einkennum kvíða og þunglyndis og endurhæfingarþörfum, yfir tíma hjá einstaklingum sem fá lyfjameðferð við krabbameini.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur svöruðu spurningalista við upphaf lyfjameðferðar (T1) og eftir þrjá mánuði (T2). Mælitækið CARES-SF (CAncer Rehabilitation Evaluation System, Short Form) var notað til að meta lífsgæði og endurhæfingarþarfir. Einkenni kvíða og þunglyndis voru metin með HADS (Hospital Anxiety and Depression Scale) spurningalistanum.

Niðurstöður: Eitt hundrað fjörutíu og fjórir einstaklingar svöruðu spurningalistanum við upphaf lyfjameðferðar, 90 konur og 54 karlar. Meðalaldur var 55 (12,1) ár, 109 einstaklingar svöruðu spurningalistanum eftir þrjá mánuði.

Lífsgæði mældust marktækt verri eftir þrjá mánuði borið saman við upphaf lyfjameðferðar. Á báðum tímapunktum voru hæstu skorin á kynlífs- og líkamlega þætti CARES-SF spurningalistans, sem bendir til þess að lífsgæði séu verst á þeim þáttum. Lægsta skor, sem bendir til betri lífsgæða, var á báðum tímapunktum á þættinum samskipti við heilbrigðisstarfsfólk. Lýðfræðilegar breytur og sjúkdómsbreytur höfðu ekki marktæk áhrif á lífsgæði, fyrir utan aldur. Lífsgæði voru marktækt betri hjá þeim sem voru eldri. Marktækt fleiri þátttakendur skoruðu yfir 11 á þunglyndishluta HADS spurningalistans eftir þrjá mánuði sem gefur til kynna einkenni þunglyndis. Lífsgæði voru marktækt verri hjá þeim einstaklingum sem upplifðu möguleg einkenni, eða einkenni kvíða og þunglyndis, borið saman við þá sem ekki upplifðu einkenni kvíða eða þunglyndis.

Þátttakendur höfðu 1-25 (meðaltal 3,3) endurhæfingarþarfir við upphaf lyfjameðferðarinnar og 1-29 (meðaltal 2,97) eftir þrjá mánuði.

Ályktanir: Marktækt verri lífsgæði mældust eftir þrjá mánuði, borið saman við upphaf lyfjameðferðar. Lífsgæði mældust marktækt verri hjá þeim sem upplifðu einkenni kvíða eða þunglyndis.


E 128 Forprófun á PDQ-39 IS, lífsgæðalisti fyrir fólk með Parkinsons veiki. Pilot-study


Hafdís Gunnbjörnsdóttir, Ólöf H. Bjarnadóttir

Reykjalundur endurhæfing


OlofB@REYKJALUNDUR.is


Inngangur: Fólk með Parkinsons veiki hefur auk skerðingar á hreyfigetu ýmis önnur einkenni, sem hafa áhrif á þeirra daglega líf. PDQ-39 (Parkinson´s Disease Questionnaire) er sértækur lífsgæðalisti fyrir fólk með Parkinsons veiki sem hefur verið þýddur á mörg tungumál þar sem áreiðanleiki og réttmæti hafa verið prófuð. PDQ-39 er skipt í átta flokka með 39 spurningum. Niðurstöðum er breytt í 0-100 skala þar sem hærri gildi benda til verri sjúkdóms. Markmið þessarar rannsóknar er að forprófa íslenska þýðingu á PDQ-39 (PDQ-39 IS) hjá fólki með Parkinsons veiki.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingar með Parkinsons veiki á tauga- og hæfingarsviði Reykjalundar fylltu PDQ-39 IS út á fyrstu viku meðferðar. Gerð var taugaskoðun og skráð samkvæmt Hoehn og Yahr flokkun (HY). Til að meta innri stöðugleika listans var Cronbachs alpha reiknað og mörk sett við 0,7, ásamt “Item-total correlation” og mörk sett við 0,4.

Niðurstöður: Tuttugu og þrír karlar og 28 konur með Parkinsons veiki, sem lögðust inn á taugasvið Reykjalundar 2005-2006, svöruðu spurningalistanum. Flestir sjúklingar voru samkvæmt taugaskoðun í hópi HY I-III. Cronbachs alpha >0,7 var í 5/8 flokkum. “Item-total correlation” náði ekki lögmæti í níu spurningum af 39. Þar af voru sjö spurningar í flokkunum “cognition” og “communication”.

Ályktanir: PDQ-39 íslensk þýðing er réttmæt í fimm flokkum af átta. Skoða þarf betur níu spurningar. Möguleg skýring er að í íslenska sjúklingahópinn vantar sjúklinga með sjúkdóm á háu stigi eða HY IV og að hópurinn er tiltölulega fámennur.


E 129 Áhrif líkamlegrar þjálfunar á andlega getu meðal aldraðra

Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar


Milan (Miran) Chang1, Pálmi V. Jónsson1, Jón Snædal1, Sigurbjörn Björnsson1, Thor Aspelund2, Guðný Eiríksdóttir2, Lenore Launer3, Tamara Harris3, Vilmundur Guðnason2,4

1Landspítali, 2Hjartavernd, 3National Institute on Aging, Bethesda, MD, USA, 4


changmi@hjarta.is


Inngangur: Talsverður fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að tengsl eru á milli skertrar vitrænnar getu og lítillar líkamlegrar þjálfunar, flestar án þess að til staðar hafi verið upplýsingar um líkamsþjálfun þeirra á fyrri æviskeiðum. Hin óskerta vitræna geta gæti þá verið skýringin á áframhaldandi líkamsþjálfun en ekki orsök þess að vitræn geta væri óskert. Markmið rannsóknarinnar er að athuga áhrif líkamsþjálfunar sem er stunduð á miðju æviskeiði á tíðni heilabilunar á efri árum.

Efniviður og aðferðir: Valinn var hópur 2.300 þátttakenda sem endurkallaðir voru með slembiúrtaki inn til rannsóknar á vegum AGES-Reykjavíkurrannsóknarinnar. Meðalaldur og staðalfrávik við þær mælingar sem nú hafa farið fram voru 76,3±5,8 ár (karlar (M): 76,3±5,6; konur (W): 76,2±5,9) og 50,5±6,5 ár (M: 49,1±5,1; W: 51,6±6,1) á miðjum aldri. Við bárum saman einstaklinga með heilabilun (115/1741 (7%); M: 61/773 (8%), W: 54/968 (6%)) við þá sem höfðu óskerta andlega getu (sem mældust >23 á MMSE- (Mini-Mental State Examination) prófi og >17 á DSST- (Digit Symbol Substitution Test) prófi. Hópurinn (M=116 (15%), W=197 (20%)) var skilgreindur sem virkur ef einstaklingar höfðu stundað íþróttir reglulega á miðjum aldri eða fengið líkamlega þjálfun í tengslum við vinnu. Aðrir voru taldir óvirkir.

Niðurstöður: Tíðni heilabilunar (líkindahlutfall, OR: 2,7; 95% vikmörk, CI 1,2-6,6) mældist hærri meðal kyrrsetufólks heldur en meðal fólks sem tók reglulega þátt í líkamsrækt á miðjum aldri, eftir að búið var að leiðrétta fyrir áhrifum núverandi aldurs, kyns, reykinga á miðjum aldri, líkamsþyngdarstuðuls, slagbilsblóðþrýstings og kólesteróls.

Ályktanir: Þessar niðurstöður gefa til kynna að regluleg þátttaka í líkamsrækt tengist lægri tíðni heilabilunar á seinni hluta ævinnar.


E 130 AURKA 91T->A fjölbreytileiki og tengsl við áhættu á brjóstakrabbameini með tillit til BRCA stökkbreytinga


Linda Viðarsdóttir1,2, Sigríður K. Böðvarsdóttir1,2, Hólmfríður Hilmarsdóttir1,2, Laufey Tryggvadóttir3, Jórunn E. Eyfjörð1,2

1Læknadeild HÍ, 2Rannsóknarastofa HÍ og Krabbmeinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 3Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands


linda@krabb.is


Inngangur: AURKA gen sem ákvarðar Aurora kínasa A er skilgreint sem krabbameinsáhættugen með litla sýnd sem er gjarnan yfirtjáð og/eða magnað í mismunandi æxlistegundum. Fjölbreytileiki, 91T->A, í AURKA geninu veldur því að ammínósýran fenýlalanín breytist í ísólúsín og hefur breytileikinn verið tengdur við aukna áhættu í ýmsum krabbameinum. Greiningar á mögnun hafa bent til þess að 91A samsætan er oftar mögnuð í ristilæxlum en 91T.

Efniviður og aðferðir: Í þessari sjúklinga-viðmiðarannsókn voru 759 brjóstakrabbameinssjúklingar, níu með BRCA1 stökkbreytingu, 98 með BRCA2 stökkbreytingu, og 653 viðmið greind með tillit til AURKA 91T->A fjölbreytileika. Kannað hvort önnur samsætan væri oftar mögnuð í æxlisvef með því að greina 80 brjóstaæxli úr einstaklingum sem voru arfblendnir með tilliti til 91T->A með qRT-PCR aðferð.

Niðurstöður: Einstaklingar sem voru arfhreinir um 91A sýndu aukna áhættu á brjóstakrabbameini samanborið við arfhreina 91T einstaklinga (p=0,02; OR=1,87; 95% CI=1,09-3,21). Þessi tengsl styrktust þegar arfberar BRCA stökkbreytinga voru teknir úr sjúklingahópnum (p=0,01; OR=2,00; 95% CI=1,15-3,47). Niðurstöðurnar benda einnig til að arfblendir 91T->A einstaklingar hafi aukna áhættu á brjóstakabbameini þó ekki marktækt (p=0,12; OR=1,20; 95% CI=0,96-1,51). Tíðni 91T->A fjölbreytileikans meðal brjóstakrabbameinssjúklinga með BRCA stökkbreytingu líktist viðmiðum (OR=1,15 (0,38-3,48)). qRT-PCR greining á 80 brjóstaæxlum úr einstaklingum sem voru arfblendnir með tilliti til AURKA T/A fjölbreytileika sýndi engan mun á mögnun þessara samsæta í brjóstaæxlum.

Ályktanir: Þessar niðurstöður sýna að 91T->A fjölbreytileikinn hefur áhrif í stökum krabbameinstilfellum en ekki í einstaklingum sem bera BRCA stökkbreytingar. Þessar niðurstöður gætu útskýrt misvísandi niðurstöður sem áður hafa verið birtar með tillit til 91T->A fjölbreytileika í AURKA geni.


E 131 Stökkbreytingaleit í BCHE geni hjá íslenskri fjölskyldu með skort á bútýrýlkólínestera


Sif Jónsdóttir1, Thelma B. Róbertsdóttir1, Jón Jóhannes Jónsson1,2

1Erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 2Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ


sifjonsd@hi.is


Inngangur: Bútýrýlkólínesterasi (BChE) er ensím sem hvetur vatnsrof á kólínesterum, til dæmis bútýrýlkólíni, súccinýlkólíni, mívakúríum, kókaíni, heróíni, aspiríni og fleiri lyf- og eiturefnum. Einstaklingar með BChE skort eru yfirleitt einkennalausir en geta fengið öndunarlömun í og eftir svæfingu ef þeim er gefið súccinýlkólín (súxametóníum) eða mívakúríum, sem eru vöðvaslakandi lyf. Skortur á BChE stafar oftast af stökkbreytingum í BCHE geni sem er staðsett á litningi 3q. Tilgangur þessarar rannsóknar var að finna erfðafræðilega orsök BChE skorts hjá íslenskri fjölskyldu.

Efniviður og aðferðir: Árið 1974 lýstu Alfreð Árnason og fleiri íslenskri fjölskyldu með BChE skort. Rannsakaðir voru sex einstaklingar úr þessari fjölskyldu. Stökkbreytingaleit með raðgreiningu var gerð í einum fjölskyldumeðlimi með algjöran BChE skort (vísitilfelli). Allar tjáðar útraðir BCHE gensins (útraðir 2, 3 og 4) voru magnaðar upp með PCR og raðgreindar. Allir einstaklingarnir voru arfgerðargreindir með tveimur greiningarprófum: Prófi sem byggir á PCR á rauntíma og bræðslumarksgreiningu og prófi sem byggir á PCR og AluI skerðibútagreiningu.

Niðurstöður og ályktanir: Þessi rannsókn leiddi í ljós erfðafræðilega orsök BChE skortsins hjá íslensku fjölskyldunni. Fjölskyldumeðlimirnir sem voru með algjöran BChE skort (þrír talsins) voru allir arfhreinir með tilliti til stökkbreytinganna W490R (Trp→Arg, T→C í útröð 3) og A539T (Ala→Thr, G→A í útröð 4). Stökkbreytingunni A539T hefur verið lýst áður sem K- afbrigði (K-variant) og veldur á arfhreinu formi 30% skerðingu á ensímvirkni. Stökkbreytingunni W490R hefur hins vegar aldrei verið lýst áður og er því hér um að ræða nýja stökkbreytingu sem á arfhreinu formi veldur að öllum líkindum skorti eða verulegri skerðingu á BChE virkni.


E 132 Greining erfðabreytileika í HAMP geni með bræðslumarksgreiningu


Jónína Jóhannsdóttir1,1, Eiríkur Steingrímsson2, Jón Jóhannes Jónsson1,2

1Erfðaða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 2Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ


joninajo@hi.is


Inngangur: Járn er lífsnauðsynlegt fyrir allar lífverur en það þarf að vera í hæfilegu magni. Hemókrómatósa er arfgengur efnaskiptagalli sem stafar af aukinni upptöku járns í smáþörmum og ofhleðslu járns í vefjum. Tilgáta hefur verið sett fram um að hemókrómatósa geti verið tvígena sjúkdómur. Vitað er að stökkbreytingar í HAMP geninu samfara stökkbreytingum í HFE geninu auka alvarleika sjúkdómsins. Tilgangur rannsóknarinnar var meðal annars að kanna hvort þetta ætti við meðal íslenskra hemókrómatósusjúklinga og kanna tíðni stökkbreytinga í HAMP geninu meðal íslenskra blóðgjafa.

Efniviður og aðferðir: HFE arfgerðargreining var gerð hjá 39 hemókrómatósusjúklingum og 350 blóðgjöfum og var skimað eftir erfðabreytileika í HAMP geninu. Blóðgjöfum var skipt í tvo hópa: hetjublóðgjafa sem gáfu blóð oftar en 75 sinnum og almenna blóðgjafa. HFE arfgerðargreining var gerð með skerðibútagreiningu. Bræðslumarksgreining sem byggir á því að mispörungar bráðna í sundur við lægra hitastig en réttpörungar var notuð til að skima eftir breytileika í HAMP geni. Bútar sem spanna allt genið voru magnaðir upp með rauntíma PCR hvarfi og bræðslumarksgreining gerð í framhaldinu.

Niðurstöður og ályktanir: Einungis fannst breytileiki í innröð hjá einum sjúklingi (IVS+7G→C) og var hann væntanlega án starfsáhrifa á genið. Enginn breytileiki fannst hjá blóðgjöfum. Þessar niðurstöður benda til að stökkbreytingar í HAMP geni séu sjaldgæfar hjá Íslendingum og íslenskum hemókrómatósusjúklingum. Ekki var sýnt fram á að hemókrómatósa væri tvígena sjúkdómur HFE og HAMP genanna þó ekki sé útilokað að svo sé í sumum tilvikum. Stækka þyrfti sjúklingahópinn og skima fleiri járnbúskapsgen til að kanna betur hvort hemókrómatósa sé tvígena sjúkdómur meðal Íslendinga.


E 133 Líkan fyrir framþróun basalfrumu-líkra brjóstakrabbameinsæxla


Þórhallur Halldórsson1,2, Sævar Ingþórsson1,2, Agla Friðriksdóttir3, Valgarður Sigurðsson1,2, Óskar Þór Jóhannsson4, Sigríður Klara Böðvarsdóttir1,2, Margrét Steinarsdóttir5, Helga M. Ögmundsdóttir1,2, Þórarinn Guðjónsson1,2,6

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknastofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 3líffærafræðideild læknadeildar Kaupmannahafnarháskóla, 4rannsóknastofa í meinafræði Landspítala, 5litningarannsóknir sameinda- og erfðafræðideild Landspítala, 6blóðmeinafræðideild Landspítala


thorarin@landspitali.is


Inngangur: Estrógenviðtaka neikvæð brjósakrabbameinsæxli hafa slæmar horfur og með örflögugreiningu á genatjáningu hafa þessi æxli verið flokkuð í tvennt: 1) ErbB2 jákvæð æxli og 2) basal-lík æxli. Talið er að basal-lík æxli eigi upptök sín í stofnfrumum kirtilsins. Kenniprótein basal-líkra brjóstaæxla eru meðal annars tjáning keratín 5, 14,17, 18 og 19, vimentin og viðtakinn fyrir vaxtarþáttinn EGF (EGFR). Markmið verkefnisins var að búa til frumulínu sem endurspeglar myndun æxlisvaxtar í brjóstkirtli með áherslu á basal-lík brjóstakrabbamein.

Aðferðir og niðurstöður: Þekjufrumulínan A163 var búin til úr brjóstaæxli frá konu með ættarsögu um brjóstakrabbamein án þekktrar stökkbreytingar. A163 var ræktuð í sermislausu æti sem inniheldur meðal annars EGF. Mótefnalitun gegn kennipróteinum kirtilþekju- og vöðvaþekjufrumna staðfestir stofnfrumueiginleika frumulínunnar. Frumulínan tjáir keratín 5,14, 17, 18 og 19, vimentin og EGFR. Eftir brottnám á EGF úr frumuætinu liðu nokkrar vikur þar til frumuskiptingar urðu sýnilegar. Nokkrum umsáningum síðar varð til stöðug undirlína (A163-S1) sem vex óháð því hvort EGF sé í frumuætinu eða ekki. A163-S1 viðheldur basal-líkri svipgerð móðurlínunnar. Ólíkt A163 hleðst A163-S1 upp í rækt. Þetta gefur til kynna tap á þéttitálmun sem er eitt aðaleinkenni krabbameinsfrumna. Greining á genatjáningu með örflögum sýnir að A163-S1 hefur 17 yfirtjáð gen, þar af eru 14 á litningi 7, þar með talið viðtakinn fyrir EGF (EGFR). Litningagreining leiddi í ljós stækkaðan litning 7q og FISH greining sýndi mikla mögnun á EGFR-geninu á 7q í A163-S1.

Ályktanir: Í samantekt þá höfum við komið á fót nýrri basal-líkri brjóstaþekjufrumulínu frá sjúklingi með sterka ættarsögu um brjóstakrabbamein. Brottnám EGF úr frumuætinu leiddi til litningabrenglunar og mögnunar á EGF viðtakanum. Áframhaldandi rannsóknir miða að því að kanna vöxt A163 og A163-S1 í músum og nýta frumulínurnar til að skilgreina betur þær breytingar sem eiga sér stað við myndun æxlisvaxtar í brjóstkirtli.


E 134 c-Myc mögnun og hTERT tjáning í brjóstaæxlum


Sigríður Klara Böðvarsdóttir1,2, Margrét Steinarsdóttir3, Hólmfríður Hilmarsdóttir1,2, Jón Gunnlaugur Jónasson1,4 , Jórunn Erla Eyfjörð1,2

1Læknadeild HÍ, 2Rannsóknastofa HÍ og Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffæði, 3litningarannsóknadeild Landspítala, 4meinafræðideild Landspítala


skb@krabb.is


Inngangur: Flókið ferli litningaóstöðugleika, mögnunar æxlisgena eins og c-Myc, virkjun telomerasa og áhrif p53 hafa ekki enn verið að fullu skýrð í brjóstaæxlum. c-Myc örvar tjáningu á virku einingu telomerasans, hTERT, sem hefur gagnverkandi áhrif á p53. Brjóstaæxli með þekktan litningaóstöðugleika voru valin í þessa rannsókn til að kanna tengsl c-Myc genamögnunar við hTERT tjáningu við mismunandi stig í framþróun brjóstaæxla.

Efniviður og aðferðir: Genamögnun á c-Myc var greind í 27 paraffín steyptum brjóstaæxlum með FISH (fluorescense in situ hybridization) aðferð og hTERT litun var framkvæmd á alls 103 brjóstaæxlum. Öll brjóstaæxlin voru greind með tilliti til stökkbreytinga í TP53, DNA stuðuls, S-fasa og TNM stigunar.

Helstu niðurstöður: Mögnun á c-Myc geni greyndist vera til staðar í 59% (16/27) æxlanna og tengdist marktækt lágri TNM stigun, I & II (p<0,05), DNA stuðli yfir 1,5 (p<0,05) og S-fasa hlutfalli yfir 5% (p<0,05). Engin tengsl funust milli c-Myc mögnunar og hTERT litunar eða TP53 stökkbreytinga. Greining á hTERT litun í 103 brjóstaæxlum sýndi mikla litun í 58% æxlanna. Mikil hTERT litun tengdist DNA stuðli yfir 1,5 (p<0,05), S-fasa hlutafalli yfir 5% (p=0,056) og TP53 stökkbreytingum (p<0,05). Engin tengsl fundust milli hTERT litunar og TNM stigunar.

Ályktanir: Rannsóknin sýnir að c-Myc mögnun eigi sér stað snemma við myndun brjóstaæxla og tengist litningaóstöðugleika og örari æxlisvexti. Við framvindu brjóstaæxla virðist c-Myc mögnun svo fjara út samfara virkjun á hTERT. Niðurstöðurnar sýna jafnframt að hTERT virkni virðist vera haldið niðri af p53.


E 135 Áhrif BRCA2 stökkbreytinga á frymisskiptingar


Ásta Björk Jónsdóttir1,2,3, Károly Szuhai2, Hans J. Tanke2, Jórunn Erla Eyfjörð1,3

1Læknadeild HÍ, 2Department of Molecular Cell Biology, Leiden University Medical Center, 3Rannsóknastofa HÍ og Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði


astajo@hi.is


Inngangur: Arfgengar stökkbreytingar í æxlisbæligeninu BRCA2 auka mjög áhættu á brjóstakrabbameini og fleiri krabbameinum. Sýnt hefur verið fram á að BRCA2 gegni hlutverki við viðgerð á DNA brotum og að BRCA2 stökkbreytingar tengist óstöðugleika erfðaefnis. Rannsóknir á nagdýrafrumum benda til að BRCA2 gegni einnig hlutverki í lokaskrefum frumuskiptingarferils. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna hlutverk BRCA2 próteinsins við frymisskiptingar í mönnum.

Efniviður og aðferðir: Óumbreyttar bandvefsfrumur úr arfberum BRCA2 stökkbreytinga, íslenskra og hollenskra, og viðmiðum sem ekki bera slíkar stökkbreytingar voru rannsakaðar með myndgreiningu á lifandi frumum (live-cell imaging). Notað var Leica AS MDW smásjárkerfi þar sem hægt er að stjórna aðstæðum með tilliti til hitastigs, CO2 og rakastigs. Tilheyrandi tölvuforrit var notað til að búa til kvikmyndir af frumuskiptingarferlinu úr myndum sem teknar voru af 20 mismunandi staðsetningum á ræktunarskál með sýnilegu ljósi (bright field light) á fimm mínútna fresti. Fylgst var með frumuskiptingahraða frumnanna í allt að 24 klukkustundir í senn.

Niðurstöður: Bandvefsfrumur úr arfberum reyndust vera marktækt lengur að ljúka við frumuskiptingar borið saman við viðmiðin. Frumuskiptingahraði arfbera, bæði hollenskra og íslenskra, var 30 mínútur að miðgildi en 25 mínútur hjá viðmiðum (p ,000). Hins vegar var ekki munur milli mismunandi BRCA2 stökkbreytinga, milli viðmiða eða milli endurtekinna tilrauna með hverja frumugerð fyrir sig.

Ályktanir: Niðurstöður gefa til kynna að BRCA2 gegni hlutverki í lokaskrefum frumuskiptingaferilsins. Þetta er í fyrsta sinn sem sýnt er fram á þetta í manna bandvefsfrumum og að manna frumur sem bera BRCA2 stökkbreytingu hafi sérstaka svipgerð.


E 136 Bráðfasaprótínið CRP er ekki hækkað í mígrenisjúklingum.

Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar


Lárus S. Guðmundsson1, Guðmundur Þorgeirsson2,3, Magnús Jóhannsson1,2, Thor Aspelund3, Vilmundur Guðnason2,3

1Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði, HÍ, 2læknadeild HÍ, 3Hjartavernd


lsg@hi.is


Inngangur: Þeir sem þjást af mígreni eru í aukinni áhættu að fá heilablóðfall en ekki er vitað með hvaða hætti það gerist. Bráðfasaprótínið CRP (C-reactive protein) er áhættuþáttur fyrir heilablóðfall og það gefur vísbendingu um að bólgusvörun tengist sjúkdómnum. Vísbendingar fundust um að CRP væri hækkað í blóði mígrenisjúklinga hugsanlega vegna endurtekinnar bólgu í æðum, sem tengist ekki sýkingum. Niðurstöður úr lítilli rannsókn (n=60) sýndu að CRP var hækkað í blóði mígrenisjúklinga. Því var ráðist í að athuga þetta samband í stórri faraldsfræðilegri rannsókn.

Efniviður og aðferðir: Samband mígrenis og CRP var athugað í 3.257 körlum og 1.264 konum í Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar. Breytt útgáfa IHS skilmerkja (International Headache Society) var notuð til þess að greina mígreni. Logistíks aðhvarfsgreining var notuð til þess að athuga samband mígrenis og CRP, leiðrétt var fyrir aldri og kyni. Mælingar á CRP voru gerðar með stöðluðum aðferðum; CRP gildi yfir 3mg/L voru skilgreind sem hækkuð.

Niðurstöður: Aðhvarfslíkanið sýndi að CRP hækkaði lítillega með aldri, odds ratio (OR) 1,024 (95% CI: 1,018 til 1,030) en ekki fannst samband milli mígrenis og CRP, OR 1,073 (95% CI: 0,768 til 1,501). Aldursstöðluð CRP gildi voru eilítið hærri í körlum án mígrenis samanborið við konur án mígrenis 1,44 og 1,26 mg/L, p<0,0001.

Ályktanir: Faraldsfræðileg rannsókn á körlum og konum sýndi að CRP er ekki hærra á meðal mígrenisjúklinga samanborið við viðmiðunarhóp. Niðurstaðan styður ekki þá kenningu að bólga sé hluti af meingerð mígrenis.


E 137 Phenylketonuria á Íslandi


Karl Erlingur Oddason1, Atli Dagbjartsson1,2

Læknadeild HÍ1, Barnaspítali Hringsins2


keo@hi.is


Inngangur: Phenylketonuria (PKU) er A-litnings víkjandi erfður efnaskiptasjúkdómur. Orsök PKU er stökkbreyting í Phenylalanie hydroxylasa (PAH) geni sem leiðir til virkniskerðingar. PAH sér um að breyta amínósýrunni phenýlalaníni (Phe) í týrósín (Tyr). PAH þarf hjálparþáttinn BH4 til að framkvæma hvarfið. Við galla í PAH safnast Phe fyrir í blóði og vefjum, þar með talið í heila og veldur meðal annars þroskaskerðingu og flogum. Frá árinu 1972 hefur kembileit með þunnlagskrómatógrafíu verið framkvæmd á öllum nýfæddum börnum á Íslandi. Í dag er meðferð við PKU beitt í formi Phe-skerts fæðis. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta meðferð, árangur kembileitar og sýnd PKU á Íslandi ásamt athugun á nýjum meðferðarmöguleikum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var: 1)Afturskyggn þar sem athugaðar voru upplýsingar um alla þá 27 PKU sjúklinga sem greinst hafa á Íslandi. Fengust upplýsingar úr sjúkraskrám. Athugaðar voru upplýsingar um tegundir stökkbreytinga í PAH geni, mæld blóð-Phe gildi á fyrstu 10 árum æviskeiðs. Reiknað var algengi PKU á Íslandi frá árinu 1972 til 2005 út frá tölum fæðingaskrár; 2)BH4 hleðslupróf á tveimur einstaklingum.

Niðurstöður: Nýgengi PKU á Íslandi er ein af hverjum 9.675 fæðingum frá árinu 1972 til ársins 2005. Allir einstaklingar greindir með PKU á Íslandi eftir 1972 (19 talsins) eru á meðferð í dag fyrir utan einn. Eru þau öll með eðlilegan þroska. Er alvarleg tegund PKU (classical PKU) algengust á Íslandi eins og annars staðar í heiminum. Meðferðarheldni er góð fyrstu árin en upp úr sjö ára aldri fara sumir að hækka of mikið í B-Phe gildum miðað við meðferðarmarkmið á Íslandi. Á Íslandi hafa fundist 11 mismunandi stökkbreytingar í PAH geni og er ein þeirra séríslensk.

Ályktanir: Nýgengi PKU hér á landi er svipuð og heildaralgengi PKU í hvítum, vestrænum þjóðstofnum. Meðferðin gengur vel hjá flestum en nokkrir einstaklingar missa tökin á meðferðarheldni rétt fyrir unglingsaldur. BH4 gjöf er raunhæfur meðferðarkostur hjá sumum PKU einstaklingum. Fylgjast þarf náið með framþróun nýrra meðferðarmöguleika og uppfæra vitneskju reglulega til klínískra nota.


E 138 Djúpar sýkingar í bringubeinsskurði eftir opnar hjartaskurðaðgerðir á Íslandi 1997-2004


Steinn Steingrimsson1, Magnús Gottfreðsson1,2, Bjarni Torfason1,3, Karl G. Kristinsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2smitsjúkdómdeild-, 3hjarta- og lungnaskurðdeild og 4sýklafræðideild Landspítala


steinns@hi.is


Inngangur: Sýking í bringubeinsskurði er alvarlegur fylgikvilli opinna hjartaskurðaðgerða og samkvæmt erlendum rannsóknum greinast þær í allt að 5% tilfella. Dánartíðni og legutími eykst umtalsvert og fylgikvillar meðferðar eru algengir. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tíðni þessara sýkinga hér á landi og áhættuþætti.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og náði til allra fullorðinna sem gengust undir opnar hjartaaðgerðir á Íslandi 1997-2004, samtals 1.650 einstaklinga. Upplýsingar um sjúklinga fengust úr sjúkra- og aðgerðarskrám. Fyrir sérhvern sjúkling með sýkingu voru valdir fjórir sjúklingar í samanburðarhóp sem gengist höfðu undir hjartaskurðaðgerð á sama tímabili. Hóparnir voru bornir saman með tilliti til ýmissa áhættuþátta og fjölbreytugreining notuð til að meta áhættuþætti fyrir sýkingu. Einnig var gangur eftir aðgerð kannaður, lífshorfur, ræktunarsvör og meðferð.

Niðurstöður: Alls greindist 41 sjúklingur með sýkingar (2,5%). Ekki var marktækur munur á sýkingartíðni milli ára á þessu átta ára tímabili (bil 1,2-4%). Algengustu sýkingavaldar voru Staphylococcus aureus (37%) og kóagúlasa-neikvæðir staphýlókokkar (34%). Einu ári frá aðgerð voru 83% og 95% í hópunum tveimur á lífi (p=0,06). Hóparnir voru sambærilegir hvað varðar kynjahlutföll, líkamsþyngdarstuðul og ábendingu fyrir aðgerð. Fjölbreytugreining sýndi að sterkustu sjálfstæðu áhættuþættirnir fyrir sýkingu voru reykingar (RR = 3,66), heilablóðfall (RR = 5,12), útæðasjúkdómar (RR = 5,00), sterameðferð (RR = 4,25) og enduraðgerð vegna blæðinga (RR = 4,66).

Ályktanir: Tíðni bringubeins- og miðmætissýkinga á Íslandi (2,5%) og áhættuþættir eru sambærilegir við stærri erlendar rannsóknir. Dánarhlutfall sjúklinga með sýkingar er umtalsvert hér á landi (17,1%) en sambærilegt og í nágrannalöndum okkar.


E 139 Tengsl þriggja áhættuþátta fyrir rauða úlfa; PD-1.3A, C4AQ0 og lágt Mannan bindilektín, við rauða úlfa og sjálfsofnæmissjúkdóma í íslenskum fjölskyldum með ættlæga rauða úlfa


Helga Kristjánsdóttir1,3, Sædís Sævarsdóttir2, Gerður Gröndal1, Marta E. Alarcon-Riquelme3, Helgi Valdimarsson2, Kristján Steinsson1
1Rannsóknastofa í gigtjsúkdómum og 2rannsóknastofa í ónæmisfræði Landspítala, 3Department of Genetics and Pathology, Rudbeck Laboratory, Háskólanum í Uppsölum


helgak@landspitali.is


Inngangur: Erðafræðilegir áhættuþættir geta verið sameiginlegir ólíkum sjálfsofnæmissjúkdómum. Hér eru skoðuð tengsl þriggja áhættuþátta fyrir rauða úlfa (systemic lupus erythematosus, SLE); PD-1.3A, C4A próteinskortur (C4AQ0) og lágt Mannan bindilektín (MBL) í sermi, við sjálfsofnæmissjúkdóma og sjálfsmótefni í fjölskyldum með ættlæga rauða úlfa og háa tíðni sjálfsofnæmissjúkdóma.

Efniviður og aðferðir: Átta fjölskyldur með rauða úlfa (n=124): Tuttugu og þrír sjúklingar með rauða úlfa, 101 ættingi. Viðmiðunarhópar: PD-1.3 (n=263), C4A (n=250), MBL (n=330). Arfgerðagreing fyrir PD-1.3 A/G með PCR og PStI skerðiensími (RFLP) og fyrir breytileika í MBL-geninu með RT-PCR. C4A allótýpur greindar með próteinrafdrætti og MBL-gildi í sermi með ELISU. Sjálfsmótefni mæld í sermi.

Niðurstöður: A. Af fjölskyldumeðlimum hafa 33% rauða úlfa eða aðra sjálfsofnæmissjúkdóma, samanborið við 5-8% í viðmiðunarhópi.

B. 48% fjölskyldumeðlima mælast jákvæðir fyrir sjálfsmótefnum.

C. Tíðni PD-1.3A og C4AQ0 er hækkuð í fjölskyldunum miðað við viðmiðunarhóp og tíðni PD-1.3A, C4AA0 og lágs MBL er hærri í hópi sjúklinga með rauða úlfa, samanborið við ættingja.

D. PD-1.3A, C4AQ0 og lágt MBL sýna ekki marktæk tengsl við aðra sjálfsofnæmissjúkdóma samanborið við heilbrigða ættingja. Hins vegar er vísbending um tengsl C4AQ0 við aðra sjálfsofnæmissjúkdóma.

E. Samlegðaráhrif PD-1.3A, C4AQ0 og lágs MBL koma fram bæði í rauðum úlfum og öðrum sjálfsofnæmissjúkdómum: i)Allar samsetningar eru algengari hjá sjúklingum með rauða úlfa. ii) PD-1.3A samhliða lágu MBL eða C4AQ0 sýnir tilhneigingu um tengsl við sjálfsofnæmissjúkdóma samanborið við heilbrigða ættingja. iii) 91% sjúklinga með rauða úlfa og 85% ættingja með sjálfsofnæmissjúkdóma hafa einn eða fleiri af áhættuþáttunum þremur.

F. PD-1.3A, C4AQ0 eða lágt MBL sýna ekki tengsl við sjálfsmótefni í sermi.

Ályktanir: Í þessum íslensku SLE-fjölskyldum, þar sem áhættuþættirnir PD-1.3A, C4AQ0 og lágt MBL eru fyrir hendi, er jafnframt hækkuð tíðni annarra sjálfsofnæmissjúkdóma og sjálfsmótefna. Niðurstöður okkar sýna að PD-1.3A, C4AQ0 eða lágt MBL sýna ekki jafn sterk tengsl við aðra sjálfsofnæmissjúkdóma. Hins vegar koma fram samlegðaráhrif áhættuþáttanna í tengslum við bæði rauða úlfa og aðra sjálfsofnæmissjúkdóma.


E 140 Grunnskólabörn með langvinnan heilsuvanda. Greining á þörf fyrir heilbrigðisþjónustu


Sigríður Kr. Gísladóttir, Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, Guðrún Bjarnadóttir, Ragnheiður Elísdóttir, María Guðnadóttir

Miðstöð heilsuverndar barna


Ragnheidur.erlendsdottir@hr.is


Inngangur: Börn með langvinnan heilsuvanda á Íslandi stunda nám í almennum skólum og þarfnast og njóta að mismiklu leyti þjónustu heilsugæslunnar. Markvissa stefnu í málefnum þeirra hefur þó skort. Markmið þessa verkefnis var að greina eðli og umfang langvinns heilsuvanda meðal grunnskólabarna, þá þjónustu, sem er í boði fyrir þau innan heilsugæslunnar, og hvað þyrfti að bæta.

Efniviður og aðferðir: Til að sinna þessu verkefni var skipaður þverfaglegur starfshópur innan Miðstöðvar heilsuverndar barna. Í hópnum voru tveir hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfi, barnalæknir og sálfræðingur.

Fengnar voru upplýsingar um fjölda barna með langvinnan heilsuvanda í grunnskólum á landsvísu. Svör bárust frá 125 skólum, eða 70% grunnskóla í landinu. Einnig var gerð viðhorfskönnun starfsfólks heilsugæslu í skólum til þjónustu sem veitt er börnum með langvinnan heilsuvanda. Auk þess voru með viðtölum kortlagðar hugmyndir og/eða væntingar hagsmunahópa og fagaðila sem að málefnum þessara barna koma.

Niðurstöður og ályktanir: Í ljós kom að samkvæmt mati frá skólunum átti tæpur fimmtungur grunnskólabarna í langvinnum heilsuvanda af ýmsum toga. Stærsti hópurinn (tæp 6% grunnskólabarnanna) voru börn með athyglibrest með/án ofvirkni og drengir í þeim hópi þrír á móti hverri stúlku. Þau ásamt of þungum börnum voru talin í mestri þörf fyrir aukna þjónustu heilsugæslu í skólum. Brotalöm var talin á boðleiðum milli kerfa og stofnana og þörf fyrir víðtækari samvinnu faghópa kom skýrt fram. Niðurstöður þarfagreiningarinnar voru lagðar til grundvallar við mótun hugmynda að bættri þjónustu heilsugæslunnar við börn með langvinnan heilsuvanda í grunnskólum. Þær hugmyndir snúa meðal annars að samræmdu verklagi, skráningu upplýsinga og mati á árangri aðgerða. Jafnframt að styrkja og byggja upp mannauð í grunnþjónustu og þverfaglegri, miðlægri þjónustu heilsugæslunnar.


E 141 Samanburður á opnum aðgerðum og aðgerðum með brjóstholssjá við sjálfkrafa loftbrjósti


Guðrún Fönn Tómasdóttir1,3, Bjarni Torfason1,3, Helgi Ísaksson2, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild og 2rannsóknarstofa í meinafræði Landspítala, 3læknadeild HÍ


gft@hi.is


Inngangur: Hér á landi hafa skurðaðgerðir við loftbrjósti verið framkvæmdar jöfnum höndum með opinni aðgerð og brjóstholsspeglun. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna árangur þessara aðgerða og bera þær saman, sérstaklega með tilliti til fylgikvilla.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er óslembuð og náði til allra sjúklinga sem fóru í aðgerð vegna sjálfkrafa loftbrjósts á Landspítala 1991-2005. Af 210 sjúklingum (160 karlar, meðalaldur 28,7 ár) voru 200 með loftbrjóst án einhvers lungnasjúkdóms (95%). Sjúklingum var skipt í tvo hópa: 134 sjúklinga sem fóru í brjóstholsspeglun og 100 í opna aðgerð (axillar minithoracotomy). Af sjö skurðlæknum framkvæmdu fjórir brjóstholsspeglun og val á aðgerðartækni fór því eftir því hvaða læknir var á vakt hverju sinni. Snemmkomnir fylgikvillar, ásamt endurteknu loftbrjósti sem þarfnaðist aðgerðar, voru meðal þeirra breyta sem skráðar voru niður.

Niðurstöður: Fleygskurður á lungnatoppi var framkvæmdur í öllum aðgerðum og fleiðruertingu bætt við í 25% brjóstholsspeglana og 67% opnu aðgerðanna. Aðgerðartími (meðaltal) var marktækt lengri fyrir speglunarhópinn, eða 65 mínútur á móti 51 mínútu fyrir opna hópinn (p=0,001). Enduraðgerðir vegna síðkomins endurtekins loftbrjósts voru þrjár eftir opna aðgerð og 10 eftir brjóstholsspeglun (p=0,004) og viðvarandi loftleki sást hjá tveimur og 14 sjúklingum í sömu hópum (p<0,05). Enduraðgerðir vegna blæðinga voru hins vegar sambærilegar (2%). Enginn lést eftir aðgerð. Legutími (miðgildi) var lengri eftir opna aðgerð, eða fjórir dagar á móti þremur.

Ályktanir: Enduraðgerðir eftir brjóstholsspeglanir eru algengari samanborið við opnar brjóstholsaðgerðir. Skýringin á þessu felst aðallega í hærra hlutfalli viðvarandi loftleka og endurtekins loftbrjósts. Báðar aðgerðirnar eru öruggar og meiriháttar fylgikvillar sjaldgæfir. Legutími er styttri eftir brjóstholsspeglun, en á móti kemur að aðgerðartími er lengri. Meiri áhyggjum veldur þó hærri tíðni enduraðgerða samanborið við opna aðgerð og er brýnt að finna lausnir á því.


E 142 Aldur sjúklinga hefur áhrif á árangur utanbastverkjameðferðar við brjóstholsaðgerðir


Gísli Vigfússon, Illugi Fanndal, Kristín Pétursdóttir

Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala Hringbraut


gislivig@landspitali.is


Inngangur: Rannsóknir sýna að aldur hefur áhrif á verkun og frásog staðdeyfilyfja úr utanbasti. Um er að ræða fáar ransóknir með litlu úrtaki sjúklinga. Engar stærri klínískar rannsóknir liggja fyrir sem staðfesta áhrif aldurs á verkun utanbastverkjameðferðar. Í ljósi þessa voru gögn úr gagnagrunni svæfingadeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss skoðuð með tilliti til aldurs og utanbastverkjameðferðar við brjóstholsaðgerðir.

Efniviður og aðferðir: Úr skráðum gögnum áranna 1996-2005 var kannaður árangur utanbastverkjameðferðar eftir brjóstholsaðgerðir (597 sjúklingar) hjá þremur aldurshópum; 50 ára og yngri (171 sjúkingur, meðalaldur 34,1 ár), 51-70 ára (270 sjúklingar, meðalaldur 60,4 ár) og 70 ára og eldri (156 sjúklingar, meðalaldur 74,8 ár). Árangur var metinn á fyrsta og öðrum degi eftir aðgerð og notast við VAS kvarða. VAS3 var metinn ásættanlegur árangur. Dreypihraði í ml/klst. og notkun sterkra verkjalyfja voru borin saman milli hópa.

Niðurstöður:

Verkjastilling í hvíld/hreyfingu  50 ára 51-70 ára  70 ára

Fyrsti dagur, VAS3, í hvíld 88% 91% 93%

Fyrsti dagur, VAS3, við hreyfingu 61% 66% 76%

Annar dagur, VAS3, í hvíld 91% 93% 94%

Annar dagur, VAS3, við hreyfingu 74% 84% 87%

Dreypihraði á öðrum degi 8,09 ml/klst. 7,5 ml/klst. 6,95 ml/klst.

Notkun ópíat verkjalyfja 34,5% 25% 20,5%

_______________________________________________________________

Ályktanir: Verkjastilling var betri, dreypihraði lægri og notkun sterkra verkjalyfja var minni í eldri aldurshópi en í öðrum hópum. Ofangreindar klínískar niðurstöður staðfesta því fyrri rannsóknir.


E 143 Óbein efnaskiptamæling á orkunotkun gjörgæslusjúklinga


Bjarki Kristinsson1, Kristinn Sigvaldason2, Sigurbergur Kárason2

1Læknadeild HÍ, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala


bjarkikr@hi.is skarason@landspitali.is


Inngangur: Næringargjöf til gjörgæslusjúklinga er mikilvægur þáttur í meðferð þeirra og hefur áhrif á fylgikvilla og dánartíðni. Þó að orkuþörf sjúklinga sé mismunandi er ekki venja að mæla hana. Markmið þessarar rannsóknar var að mæla orkunotkun sjúklinga á gjörgæsludeild og bera saman við áætlaða orkunotkun og heildarnæringargjöf og að kanna mun á fyrirskipaðri og raunverulegri næringargjöf.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar ≥18 ára sem voru meðhöndlaðir í öndunarvél >24 klukkustundir á gjörgæsludeildum Landspítala á rannsóknartímabilinu voru hæfir til þátttöku. Orkunotkun var mæld með óbeinni efnaskiptamælingu daglega í 30 mínútur meðan á öndunarvélarmeðferð stóð. Áætluð orkunotkun var metin með Harris-Benedict jöfnu með/án streitustuðuls.

Niðurstöður: Rannsakaðir voru 12 sjúklingar. Mæld orkunotkun á sólarhring var 21,5±3,1 kcal/kg/dag (max 27±2,8, mín. 16,4±3,6). Í samanburði vanmat Harris-Benedict jafnan án streitustuðuls orkunotkunina (18±2kcal/kg/dag (p<0,001; r = 0,58)) en ofmat með streitustuðli (25 ±3 kcal/kg/dag (p<0,001; r=0,55)). Næringargjöf um sondu hófst að meðaltali 2,4±0,2 dögum eftir upphaf öndunarvélarmeðferðar. Meðalnæringargjöf var 14±3,7 kcal/kg/dag. Munurinn á mældri orkunotkun og heildarnæringargjöf var tölfræðilega marktækur (p<0,001; r = 0,16). Raunveruleg sondunæring var minni en fyrirskipuð um 1,3±0,7 kcal/kg/dag (p< 0,001).

Umræða: Mæld orkunotkun er í samræmi við niðurstöður annarra rannsókna. Talsverður munur var á mældri orkuþörf milli einstakra sjúklinga og milli mælinga hjá sama sjúklingi. Lítil fylgni var milli mældrar og áætlaðrar orkunotkunar en hvort tveggja styður gagnsemi efnaskiptamælinga. Næringargjöf var einungis 65% af mældri orkunotkun. Lítill munur var á fyrirskipaðri næringargjöf og raunverulegri.

Ályktun: Mun betra er að mæla orkunotkun en áætla.


E 144 Er röskun á tjáningu bakteríudrepandi peptíða í kverkeitlum mikilvægur orsakavaldur sóra?


Sigrún Laufey Sigurðardóttir1,2, Geir Hirlekar2, Bjarki Jóhannesson3, Guðmundur Hrafn Guðmundsson3, Helgi Valdimarsson1,2, Andrew Johnston1

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Líffræðistofnun HÍ


sigrunls@landspitali.is


Inngangur: Samkvæmt nýlegri framskyggnri rannsókn fá sórasjúklingar tíu sinnum oftar hálsbólgu heldur en óskylt sambýlisfólk. Þessar hálsbólgur virðast orsakast bæði af streptókokkum og öðrum sýklum, en að öðru leyti fá sórasjúklingar ekki oftar sýkingar en gengur og gerist. Kverkeitlar eru klæddir flöguþekju og í gegnum hana liggur hlykkjótt gangakerfi (kryptur). Flöguþekjan tjáir fjölda bakteríudrepandi peptíða svo sem LL-37 sem hefur virkni gegn Gram neikvæðum og jákvæðum bakteríum, en sér í lagi streptókokkum. Einnig er LL-37 virkur efnatogi og örvi fyrir eitilfrumur. Markmið verkefnisins er því að kanna hvort tjáning á LL-37 sé afbrigðileg í kverkeitlum sórasjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Tjáning LL-37 í kverkeitlum, fjarlægðum vegna endurtekinna sýkinga úr sjö sórasjúklingum og 15 einstaklingum án sóra, var metin með Western blot og ónæmislitunum.

Niðurstöður: LL-37 var sterkt tjáð af frumum á yfirborði kryptuganga en veik tjáning var í yfirborðsþekju nema á svæðum með ífarandi bólgufrumum. Neutrófílar og makrófagar reyndust jákvæðir fyrir LL-37, auk þess sem æðaþel og frumur innan bláæðlinga virtust framleiða peptíðið. Vægt jákvæðar frumur, líklega angafrumur, sáust einnig í kímmiðjum kverkeitlanna. Í kverkeitlum einstaklinga án sóra virtist tjáning á LL-37 í kryptum vera háð því hversu langt var liðið frá síðustu hálsbólgu en hins vegar var þetta samband ekki eins greinilegt fyrir tjáningu þekjufrumna.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður benda til þess að LL-37 sé yfirtjáð í kverkeitlum sórasjúklinga miðað við einstaklinga án sóra. Verði þessa aukna tjáning staðfest með nánari rannsóknum gæti hún skýrt hvers vegna sórasjúklingar fá oft einkenni um hálsbólgur, þar sem LL-37 hefur öfluga efnatogsvirkni á eitilfrumur og örvar þær.E 145 Hlutverk adipókína í meingerð sóra


Andrew Johnston1, Arndís A. Sigmarsdóttir2, Sverrir I. Gunnarsson2, Sigurlaug Árnadóttir2, Jón Þ. Steinsson3, Helgi Valdimarsson1, 2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Heislulind Bláa lónsins


andrewj@landspitali.is


Inngangur: Fituvefur er ekki lengur álitinn óvirk orkubirgðageymsla heldur mögulegur áhrifavaldur í meingerð sumra ónæmisfræðilegra sjúkdóma. Sóri (psoriasis) er algengur sjálfsofnæmissjúkdómur er hrjáir 2% íbúa Norður-Evrópu og sýnt hefur verið að offita sem er áhættuþáttur fyrir þennan sjúkdóm, tengist beint virkni sjúkdómsins.

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var því að kanna sambandið milli offitu og sóra og þá sérstaklega þeirra frumuboðefna sem eru að öllu eða einhverju leyti framleidd af fituvef (adipókína), það er leptín, resistín, adipónektín, IL-8 og IL-18. Vitað er að þessi adipónektín geta haft áhrif á virkni T-frumna og sýnifrumna og þar með á virkni sórans.

Efniviður og aðferðir: Hæð, þyngd og mittismál voru mæld og sjúkdómsvirkni metin (PASI) hjá sórasjúklingum (n=32) sem komu til meðferðar í Heilsulind Bláa lónsins. Blóðsýni voru tekin úr fastandi sjúklingum fyrir og eftir UVB ljósameðferð og böðun í lóninu. ELISA aðferð var notuð til að mæla þéttni leptíns, leptínviðtaka, resistíns, adipónektíns, IL-8, IL-18 og IL-22 í sermi. Viðmiðunarhópur (n=32) samanstóð af einstaklingum sem voru sambærilegir sjúklingunum að því er varðar kyn, aldur og BMI.

Niðurstöður: Við upphaf rannsóknarinnar var enginn marktækur munur á styrk leptíns, leptínsviðtaka, adipónektíns, IL-18 eða IL-22 milli sórasjúklinga og viðmiðunarhóps. Hins vegar var þéttni bæði resistíns og IL-8 marktækt hækkað í sjúklingahópnum (p≤0,005) og auk þess var jákvæð fylgni milli þéttni resistíns í sermi og sjúkdómsvirkni (r=0,412, p=0,019). Við lok meðferðar voru marktæk tengsl milli bötnunar og lækkunar á styrk IL-8 og IL-22 í sermi. Hins vegar hækkaði IL-18.

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að sum frumuboðefni sem uppruna sinn eiga í fituvef séu mikilvægir bólgumiðlar og gætu verið tengdir meingerð sóra í offeitum einstaklingum.

1


Þetta vefsvæði byggir á Eplica