Ágrip veggspjalda

Ágrip veggspjalda

V 1 Hjartabilun með varðveitta slegilvirkni (hlébilsbilun). Samanburður á hlé- og slagbilsbilun


Auður Sigbergsdóttir1, Axel F. Sigurðsson2
1Læknadeild HÍ, 2Landspítali


axelfsig@landspitali.is

Inngangur: Flestar klínískar rannsóknir á hjartabilun hafa verið gerðar á sjúklingum með skertan samdrátt í vinstri slegli (slagbilsbilun). Rannsóknir benda til að stór hluti sjúklinga með hjartabilun hafi varðveitta slegilvirkni. Rannsókn þessi nær til sjúklinga sem þurftu á sjúkrahúsinnlögn að halda vegna hjartabilunar. Tilgangurinn var að gera samanburð á sjúklingum með slag- og hlébilsbilun, með tilliti til aldurs, kyns, orsaka sem að baki liggja og afdrifa.


Efniviður og aðferðir: Skoðaðar voru sjúkraskrár einstaklinga sem fengu hjartabilunargreiningu á Landspítala tímabilið 01.03. 2002-31.12. 2003. Sjúklingar voru flokkaðir eftir útfallsbroti hjarta í tvo hópa. Útstreymisbrot ≤40% var skilgreint sem slagbilsbilun (hópur A) og útsreymisbrot >40% var skilgreint sem hlébilsbilun (hópur B). 


Niðurstöður: Í hópi A (n=147) voru 108 karlar (74%) og 39 konur (26%) Í hópi B (n=199) voru 92 karlar (46%) og 107 konur (54%). Meðalaldur í hópi A var 72 ár og í hópi B 77 ár (p<0,01). Í hópi A lést 21 í sjúkrahúslegunni en 12 í hópi B (p<0,01). Kransæðasjúkdómur var algengasta orsök hjartabilunar, 65% hjá hópi A og 51% hjá hópi B. Háþrýstingur var algengari orsök hjartabilunar hjá hópi B (11%) en hópi A (5%). Hópur B hafði að meðaltali þykkari hjartavöðva og stærri vinstri gátt en hópur A, samkvæmt niðurstöðum hjartaómskoðana. Ekki var marktækur munur á lyfjameðferð við útskrift.


Ályktanir: Algengt er að sjúklingar sem leggjast inn á sjúkrahús vegna hjartabilunar hafi varðveitta slegilvirkni. Þessi sjúkdómsmynd virðist algengari meðal kvenna en karla. Þótt meðalaldur sé hærri virðast skammtímahorfur betri hjá sjúklingum með hlébilsbilun en hjá sjúklingum með slagbilsbilun.


V 2 Insúlíndælur á ÍslandiÁgúst Hilmarsson, Arna Guðmundsdóttir
Landspítali


arnag@internet.is mailto:agusth@gmail.com

Inngangur: Notkun á insúlíndælum við sykursýki hefur aukist til muna á síðastliðnum áratug. Slík meðferð var hafin á Íslandi í janúar 2004 og eru nú 33 einstaklingar með dælu. Valdir voru einstaklingar sem uppfylltu tiltekin skilyrði, voru með góða blóðsykurstjórnun og mældu blóðsykur minnst fjórum sinnum á dag. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hversu vel meðferðin hefur reynst, bæði með tilliti til sykurstjórnunar og fylgikvilla.


Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk. Tíu dælur voru settar upp árið 2004 og 12 árið 2005. Skoðuð voru sjúkragögn þeirra 14 einstaklinga sem hafa verið með insúlíndælu í eitt ár eða lengur. Athugað var hvaða áhrif meðferðin hafði á HbA1c og þyngdarstuðul. Einnig var gerð úttekt á því hvort insúlínmagnið á dag breyttist samanborið við meðferð með insúlínpennum. 


Niðurstöður: HbA1c lækkaði hjá 11 einstaklingum um að meðaltali 0,7 (dreifing 0,1-1,8). Hjá þremur einstaklingum hækkaði HbA1c, hjá tveimur um 0,1 og einum um 0,4. Að meðaltali var lækkunin 6% (95% vikmörk 2%-10%). Dagleg notkun insúlíns minnkaði hjá 13 einstaklingum um að meðaltali 14 einingar (dreifing 5-34). Hjá einum jókst insúlínskammtur um tvær einingar. Meðalþyngdarstuðull (BMI) var 25,1 (dreifing 21,8-30,5) og var hann svo til óbreyttur eftir eitt ár. Einn einstaklingur fékk sýkingu í húð og þarfnaðist sýklalyfjameðferðar. Almenn ánægja er með meðferðina meðal sjúklinga og hefur enginn óskað þess að hefja meðferð með pennum á ný.


Ályktanir: Árangur meðferðar með insúlíndælum hérlendis er góður. Þessar fyrstu niðurstöður staðfesta að meðferðin er örugg og stenst samanburð við önnur meðferðarform. Betri sykurstjórnun náðist um leið og insúlínþörfin var minni. Insúlíndælur eru að ryðja sér til rúms hér á landi og með áframhaldandi framförum í tæknibúnaði má gera ráð fyrir auknum vinsældum þeirra.


V 3 Bætt sykurstjórnun barna og unglinga eftir meðferð með langvirku insúlíni


Rannveig L. Þórisdóttir1, Ragnar Bjarnason2,3, Elísabet Konráðsdóttir2, Árni V. Þórsson1,2 
1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítali Hringsins Landspítala, 3GP-GRC, Drottning Silvias barn- och ungdomssjukhus, Sahlgrenska Akademi við Gautaborgarháskóla


arnivt@simnet.is

Inngangur: Langvirk insúlínafbrigði hafa verið notuð í vaxandi mæli á síðastliðnum árum við meðferð hjá börnum og unglingum með sykursýki af tegund 1. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta árangur sykurstjórnunar eftir að insúlínmeðferð var breytt úr NPH í meðferð með langvirku insúlíni (insúlín glargine (Lantus)) hjá íslenskum börnum og unglingum, sem fylgt er eftir við göngudeild Barnaspítala Hringsins.


Efniviður og aðferðir: Upplýsingum var safnað frá 59 sjúklingum (34 stúlkum og 25 piltum) í sex mánuði fyrir og 12 mánuði eftir að meðferð með langvirku insúlíni hófst. Skráður var fjöldi alvarlegra blóðsykurfalla, niðurstöður mælinga á blóðrauða (hemoglobin) A1c (HbA1c) mældar með DCA 2000. Ennfremur voru skráðir daglegir insúlínskammtar.


Niðurstöður: Meðalaldur (+/-SD) við upphaf meðferðar með langvirku insúlíni var 13,9+/-3,2 ár. Eftir sex mánuði hafði meðalgildi HbA1c hjá öllum hópnum lækkað úr 9,5+/-1,5 í 8,8+/-1,3% (p<0,001). Eftir 12 mánuði hafði meðalgildi HbA1c lækkað í 8,6+/-1,0% (p<0,001). Mesta lækkunin kom fram hjá þeim einstaklingum sem mældust í upphafi með HbA1c yfir 10,5%. Hjá þeim hópi var lækkunin 1,5+/-0,4%. Ellefu tilfelli af alvarlegum blóðsykurföllum komu fram á fyrstu sex mánuðum meðferðarinnar (37,2/100 sjúklingaár), en 15 slík tilfelli voru skráð á síðasta hálfa árinu fyrir meðferð með langvirku insúlíni (50,8/100 sjúklingaár). Engar marktækar breytingar urðu á insúlínskömmtum þegar borin voru saman tímabilin sex mánuðir fyrir og eftir að meðferðin hófst (p>0,5).


Ályktanir: Meðferð með langvirku insúlíni bætti marktækt sykurstjórnun íslenskra barna og unglinga með sykursýki tegund 1. Stjórnun blóðsykurs batnaði mest hjá elstu börnunum og hjá þeim börnum sem höfðu hvað versta sykurstjórnun. Alvarlegum blóðsykurföllum fækkaði eftir meðferð með langvirku insúlíni.


V 4 Bráðar kransæðaþræðingar á Íslandi


Berglind G. Libungan, Kristján Eyjólfsson, Guðmundur Þorgeirsson
Lyflækningasvið Landspítala


6950580@internet.is

Inngangur: Bráð kransæðaþræðing hefur rutt sér til rúms sem kjörmeðferð við bráðri kransæðastíflu með ST-hækkun. Frá 1. desember 2003 hefur Landspítali starfrækt sérstaka gæsluvakt allan sólarhringinn alla daga ársins til að meðhöndla slík tilfelli. Hér er greint frá reynslunni af þessari vakt fyrsta árið sem hún var starfsrækt.


Efniviður og aðferðir: Á tímabilinu 01.12.2003 til 01.12.2004 fóru 124 sjúklingar í bráða kransæðaþræðingu, 94 karlar (75%), meðalaldur 66 ár, aldursbil 19-85 ár, og 30 konur (25%), meðalaldur 66 ár, aldursbil 38-94. Langflestir (90%) höfðu merki hjartadreps með ST-hækkun, 4% höfðu hjartadrep án ST-hækkunar en 6% fóru í kransæðamyndatöku af öðrum orsökum. Tíu sjúklingar (9%) höfðu farið í hjartastopp og 8% voru í losti við komu á spítalann. Að meðaltali liðu 47 mínútur frá því sjúklingur með hjartadrep með ST-hækkun kom á spítalann þar til þræðing hófst en í tæpum 80% tilfella hófst þræðing innan 60 mínútna og í 94% tilfella innan 90 mínútna frá komu á spítalann. Meðallegutími á spítalanum var 5,5 dagar.


Niðurstöður: Alls létust níu sjúklingar eða 7% hópsins, þar af voru fimm í losti við komu á sjúkrahúsið og fjórir höfðu verið endurlífgaðir eftir hjartastopp. Dánartíðni þeirra sem hvorki voru í losti né höfðu farið í hjartastopp fyrir hjartaþræðingu var 1,7% (tveir sjúklingar). Níu sjúklingar fóru í kransæðaskurðaðgerð og jafnmargir þurftu endurþræðingu og víkkun.


Ályktanir: Reynslan fyrsta árið af stöðugri vakt á Landspítala til að meðhöndla bráða kransæðastíflu með bráðri kransæðaþræðingu og -víkkun telst mjög góð. Tími frá komu sjúklings á sjúkrahúsið til þræðingar er stuttur, meðallegutími er einnig stuttur og dánartíðni lág.


V 5 Algengi mótefna gegn bogfrymli á Íslandi, í Eistlandi og Svíþjóð. Tengsl við ofnæmi og lungnastarfsemi


Bjarni Þjóðleifsson1 , Alda Birgisdóttir2, Hulda Ásbjörnsdóttir2, Elísabet Cook3, Davíð Gíslason1, Christer Jansson4, Ísleifur Ólafsson3, Rain Jögi5, Þórarinn Gíslason1
1Lyflækningadeild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3meinefnafræðideild Landspítala, 4lungnasjúkdóma- og ofnæmisdeild Háskólasjúkrahúsinu Uppsölum, 4lungnasjúkdómadeild Háskólasjúkrahúsinu Tartu, Eistlandi


bjarnit@landspitali.is

Inngangur: Bogfrymilssótt orsakast af snýkjudýri (Toxoplasma gondii), sem smitar um þriðjung jarðarbúa og getur valdið alvarlegum sjúkdómi eða dauða hjá nýburum og ónæmisbældum einstaklingum. Heimiliskötturinn er smitberi en aðalsmitleiðir eru neysla á hráu kjöti eða jarðvegstengt smit. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna algengi IgG mótefna gegn bogfrymli á Íslandi, í Eistlandi og Svíþjóð og kanna þá tilgátu að bogfrymill geti framkallað bólgusvar, skert lungnastarfsemi og verndað gegn ofnæmi (hreinlætiskenningin).


Efniviður og aðferðir: Sermissýnum var safnað hjá 1016 einstaklingum (488 körlum og 528 konum), meðalaldur 41,9+7,3, sem tóku þátt í fjölþjóðarannsókninni Lungu og heilsa (www.ecrsh.org), 440 voru frá Reykjavík, 361 frá Uppsölum og 215 frá Tartu. IgG mótefni gegn bogfrymli og sértæk IgE mótefni voru mæld með ELISA aðferð. Þátttakendur svöruðu ítarlegum spurningalista um lungnaeinkenni.


Niðurstöður: Algengi mótefna fyrir bogfrymli var 9,8% í Reykjavík, 23% í Uppsölum og 54,9% í Tartu (p<0,0001). Áhætta fyrir jákvæðum mótefnum hafði fylgni við fjölda systkina og við aldur í Svíþjóð (p=0,004), en við leikskólavist fyrir þriggja ára aldur á Íslandi. Áhætta var ekki aukin við kattahald. Jákvæð mótefni höfðu fylgni við astmatengd einkenni og hækkað Hs-CRP (p<0,02) en engin fylgni fannst við IgE næmi eða lungnastarfsemi.


Ályktanir: Meginsmitleiðir bogfrymils virðast tengjast jarðvegs-mengun og meðhöndlun og neyslu á illa elduðu á kjöti. Niðurstöður varðandi astma og ofnæmi styðja ekki hreinlætiskenninguna. Bogfrymilssmit hefur fylgni við lágstillta bólgu.


V 6 Fæðutengdar sýkingar á Íslandi. Tengsl við ofnæmi og lungnaeinkenni


Bjarni Þjóðleifsson1 , Hulda Ásbjörnsdóttir2, Rúna B. Sigurjónsdóttir2, Signý V. Sveinsdóttir2, Alda Birgisdóttir2, Elísabet Cook3, Davíð Gíslason2, Christer Jansson4, Ísleifur Ólafsson3, Þórarinn Gíslason1
1Lyflækningadeild Landspítala, 1læknadeild HÍ, 3meinefnafræðideild Landspítala, 4lungna- og ofnæmislækningadeild Háskólasjúkrahúsinu Uppsölum


bjarnit@landspitali.is

Inngangur: Smit sem berst með fæðu eða saurmengun getur haft áhrif á heilsu einstaklinga með beinum áhrifum sýkingar eða óbeint gegnum ónæmiskerfi. Tilgangur rannsóknarinnar var að rannsaka algengi og áhættuþætti fyrir smiti með bogfrymli, H. pylori og lifrarbólguveiru A meðal Íslendinga og jafnframt að kanna áhrif smits á ofnæmistengd lungnaeinkenni og lungnastarfsemi. 


Efniviður og aðferðir: Blóðsýnum var safnað á árinu 1999-2001 frá 505 einstaklingum á aldrinum 28-52 ára. Rannsóknarþýðið var upphaflega valið með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Mælingar á IgG mótefnum gegn bogfrymli, H. pylori og lifrarbólguveiru A voru gerðar með ELISA aðferð. Ofnæmistengd lungnaeinkenni voru metin með spurningalista og IgE miðlað ofnæmi og lungnastarfsemi mæld. X2 próf var notað fyrir leitni en óleiðrétt aðhvarfspróf til að bera saman mismun í algengi IgG mótefna. Fjölbreytuaðhvarf var notað til að reikna leiðrétt áhættuhlutfall og 95% öryggismörk fyrir mismunandi þætti sýkinganna.


Niðurstöður: Algengi mótefna var 9,8% fyrir bogfrymli, 36,3% fyrir H. Pylori og 4,9% fyrir lifrarbólguveiru A. Áhættuþáttur fyrir smiti með bogfrymli var leikskólavist fyrir þriggja ára aldur. Áhættuþættir fyrir H. pylori smiti voru aldur og reykingar. IgG mótefni gegn hverjum einum þessara þriggja smitvalda eða öllum saman höfðu ekki áhrif á algengi astma eða ofnæmis. Einstaklingar sem höfðu IgG mótefni gegn bogfrymli höfðu marktækt oftar skerta lungnastarfsemi sem kom fram í lækkuðu FEV/FVC hlutfalli. 


Ályktanir: Smit með bogfrymli, H. pylori og lifrarbólguveiru A hefur ekki áhrif á algengi ofnæmis eða astma. Niðurstöður bentu til að smit með bogfrymli hefði fylgni við skerta lungnastarfsemi.


V 7 Langtímanotkun NSAID og COX-2 lyfja. Áhrif á mjógirni metin með myndhylki


Bjarni Þjóðleifsson1, Sigurbjörn Birgisson1, Laurence Maiden2, Andrew Seigal1, Ingvi I. Bjarnason1, Roy Sherwood2, David Scott3, Ingvar T. Bjarnason1
1Lyflækningadeild Landspítala, 2Department of Medicine, 3Clinical Biochemistry og 4Rheumatology, King’s College Hospital, London


bjarnit@landspitali.is

Inngangur: NSAID og COX-2 lyf eru mikið notuð sem gigtar- og verkjalyf en meginvandamál við notkun þeirra eru aukaverkanir frá meltingarvegi. Aukaverkanir í maga hafa verið vel rannsakaðar en aukaverkanir á mjógirni hafa lítið verið skoðaðar, sérstaklega ekki í langtímanotkun. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða með myndhylki áhrif þessara lyfja á mjógirni hjá sjúklingum sem höfðu tekið lyfin lengur en þrjá mánuði.


Efniviður og aðferðir: Rannsóknarsetrin voru tvö, King´s College Hospital (KC) í London og Landspítali. Alls tóku 160 sjúklingar þátt (38 karlar og 122 konur), 90 frá KC og 70 frá Landspítala. Miðgildi aldurs var 53 ár (aldursbil 29-80). Eitt hundrað og tuttugu sjúklingar tóku NSAID lyf og af þeim 15 í 3-12 mánuði og 105 í 1-20 ár en 40 tóku COX-2 lyf. Samanburðarhópur var heilbrigðir einstaklingar, sem tekið höfðu þátt í fyrri rannsóknum. Myndhylkisrannsóknin var framkvæmd samkvæmt viðteknum vinnureglum. Sex tegundir áverka (sjá töflu) voru metnar og áhrif breytna (NSAIDs/COX, aldur, kyn, sjúkdómsgreining og tímalengd meðferðar) metin með margþátta aðhvarfsgreiningu.


Niðurstöður: Allar tegundir áverka voru marktækt algengari hjá sjúklingum á NSAID og COX-2 lyfjum miðað við samanburðarhóp en aðrar breytur höfðu ekki áhrif. Fimm tegundir áverka voru algengari hjá sjúklingum á NSAID lyfjum miðað við COX-2 lyf en munurinn var ekki marktækur.


* p<0,05 miðað við samanburðarhóp.


Ályktanir: Langtímanotkun NSAID lyfja veldur verulegum áverka á mjógirni en rannsókn okkar hefur ekki nógu mikið vægi til að svara spurningunni hvort COX-2 lyfin valdi minni áverka.


V 9 Smásteinamyndun í lungnablöðrum. Sjúkratilfelli


Björn Magnússon1, Helgi Ísaksson2
1Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað, 2Rannsóknastofa HÍ í meinafræði


bjorn@hsa.is

Inngangur: Smásteinamyndun í lungnablöðrum (pulmonary alveolar microlithiasis) er sjaldgæfur lungnasjúkdómur sem ekki hefur verið skýrt frá áður á Íslandi. Ástæða sjúkdómsins er óþekkt. Mögulega er um að ræða truflun á kalk- eða fosfatefnaskiptum, viðbrögð við umhverfisþáttum auk þekkts arfgengis. Steinarnir, sem eru lagskiptir, mælast frá 0,01 mm upp í 3 mm að stærð og innihalda mestmegnis kalsíum og fosfat. Sjúkdómurinn leggst oftast á einstaklinga á aldrinum 30-50 ára. Einkenni eru lítil í byrjun en síðar fer mæði vaxandi með bláma og loks öndunarbilun sem oftast dregur sjúklingana til dauða. Röntgenmyndir af lungum sýna aragrúa dreifðra smákornóttra þéttinga og á öndunarmælingum kemur oft fram hægt vaxandi herpa auk þess sem misræmi öndunar og blóðrásar hefur verið lýst. Lungnaskipti hafa gagnast í einstaka tilfellum en annars er sjúkdómurinn ólæknandi.


Tilfelli: Við rekjum sjúkrasögu og skýrum frá niðurstöðum rannsókna á konu sem greindist 21 árs gömul með steinamyndun í lungnablöðrum eftir opna sýnatöku sem gerð var vegna mikilla röntgenbreytinga á lungnamynd. Konan greindist um líkt leyti með liðagigt en var þá einkennalaus frá lungum. Síðan fór mæði hægt vaxandi með bláma og einkennum hægri hjartabilunar. Konan fékk súrefnismeðferð frá 56 ára aldri en þrátt fyrir það var súrefnisskortur vaxandi.


Meðferð með súrefni um barkalegg og stuðningsöndun með nefgrímu (BiPAP) bætti ástand tímabundið, þar til konan andaðist 60 ára gömul vegna öndunarbilunar.


V 10 Tvær boðleiðir virkja AMPK í æðaþelinu


Brynhildur Thors1, Haraldur Halldórsson1, Guðmundur Þorgeirsson1,2
1Rannsóknastofa HÍ í lyfjafræði, 2lyflækningadeild Landspítala


brynhit@hi.is

Inngangur: AMPK (AMP-activated protein kinase) er vel þekktur prótein kínasi sem oft er nefndur „aðalrofi efnaskipta“, enda hefur hann áhrif á hina ýmsu þætti frumunnar sem viðhalda innra orkujafnvægi. Nýlegar rannsóknir hafa bendlað AMPK við víðtækari stjórnun efnaskipta, jafnvel orkustjórnun líkamans alls.


Efniviður og aðferðir: Við kynntum nýlega niðurstöður sem sýndu að G-prótein örvararnir histamín og thrombín valda NO myndun og fosfórun á eNOS á Ser1177 í æðaþelsfrumum (HUVEC) og sýndum einnig að þessari örvun er miðlað með AMPK óháð PI3K-Akt. Kalsíum klóbindirinn BAPTA hindraði algjörlega fosfórun AMPK og eNOS og kalsíum jónferjan A23187 líkti eftir áhrifum histamíns og thrombíns á AMPK og eNOS. Til að líta nánar á þá þætti sem verka á AMP kínasann sjálfan höfum við mælt breytingar á ATP og AMP í æðaþelinu, eftir meðhöndlun með ýmsum áverkunarefnum bæði með HPLC og „luciferasa assay“.


Niðurstöður: Thrombín, histamín og A23187 höfðu öll áhrif til lækkunar á ATP innan frumunnar (14%, 7% og 20%). Þetta kom fram eftir tvær mínútur og náði lækkunin hámarki á fimm mínútum. Samtímis þessu varð hækkun í AMP. CaMKK hindrinn STO-609 hindraði að hluta fosfórun AMPK og eNOS eftir meðhöndlun með thrombíni, histamíni eða A23187.


Ályktanir: Við drögum þá ályktun að G-prótein örvararnir thrombín og histamín valdi á kalsíumháðan hátt fosfórun á AMPK fyrir tilstuðlan tveggja AMPKK; annars vegar kalmodulín háða kínasans CaMKK og hins vegar LKB1, sem bregst við lækkun á ATP/AMP hlutfallinu.


V 11 Aukin blæðingareinkenni hjá heilbrigðum unglingum tengjast vægum, mælanlegum frumstorkugöllum


Brynja R. Guðmundsdóttir1, Páll Torfi Önundarson1,2
1Blóðmeinafræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ


brynjarg@landspitali.is

Inngangur: Blæðingareinkenni eru það algeng í samfélaginu, að það er mögulegt að þau finnist fyrir tilviljun hjá fólki, sem mælist með mjög væga frumstorkugalla. 


Efniviður og aðferðir: Til þess að meta hvort vægir frumstorkugallar valdi aukinni blæðingarhneigð könnuðum við blæðingareinkenni hjá hópi heilbrigðra unglinga. Síðan var undirhópur unglinga með aukin blæðingareinkenni og samanburðarhópur rannsakaður nánar til þess að ákvarða aukna blæðingarhættu, sem tengist vægri, tölfræðilegri lækkun á von Willebrand þætti (VWF), og hjá þeim sem höfðu væga skerðingu á blóðflöguvirkni samkvæmt blóðflögukekkjun.


Helstu niðurstöður: Aukin blæðingarhneigð var til staðar hjá 63 af 809 táningum (7,8%) og 48 (76%) komu til blóðrannsóknar. Af 48 komu 39 (62%) í aðra blóðprufu til að endurtaka VWF mælinguna. Til viðmiðunar komu 162 einkennalausir í eina mælingu en 151 í tvær. Lág gildi VWF samkvæmt þremur mælingaraðferðum voru algengari hjá einkennahópnum en hinum einkennalausu, það er lág virkni ristócetín hjálparþátta (ristocetin cofactors) (23,1% á móti 5,3%; OR 5,3), lág kollagenbinding virkni (15,3% á móti 4,6%; OR 3,7) og lágt VWF prótein (25,6% á móti 6,6%; OR 4,8). Lág gildi ristócentín hjálparþátta voru frá 35-45 U/dL nema hjá einum sem var með gildið 26 U/dL. Matshæf blóðflögukekkjun var gerð hjá 47 af 63 með blæðingarhneigð (75%) og 159 einkennalausum. Væg óeðlileg kekkjun (það er óeðlileg kekkjun samtímis með ADP og epinephrini) var algengari hjá táningum sem höfðu blæðingarhneigð en hjá viðmiðunarhópnum (12,8% á móti 4,8%; OR 3,2).


Ályktanir: Táningar með vægt lækkaðan VWF og vægt óeðlilega blóðflögukekkjun eru í 5,3-faldri og 3,2-faldri hlutfallslega aukinni blæðingarhættu. Frekari rannsóknir eru nauðsynlegar til að geta metið nánar klíníska þýðingu þessarar áhættu.


V 12 Algengi efnaskiptaheilkennis og tengsl þess við líkamsástand og hreyfingu þriggja starfsstétta í Þingeyjarsýslu


Börkur Már Hersteinsson1,2, Ásgeir Böðvarsson3, Kristján Þór Magnússon3, Erlingur Jóhannsson2, Þórarinn Sveinsson4, Sigurbjörn Árni Arngrímsson2
 1August Krogh Institute Kaupmannahafnarháskóla, 2Íþróttafræðasetur KHÍ Laugarvatni, 3Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, 4Rannsóknastofa í hreyfivísindum HÍ


borkur_mar@hotmail.com


Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að athuga líkamsástand og hreyfimynstur þriggja starfsstétta í Þingeyjarsýslu og algengi efnaskiptaheilkennis (metabolic syndrome) samkvæmt skilgreiningu Amerísku hjartasamtakanna (American Heart Association).


Efniviður og aðferðir: Alls voru 162 einstaklingar (52 verkamenn, 69 skrifstofumenn og 41 bóndi) af báðum kynjum rannsakaðir. Líkamsástand var athugað með húðklípum, líkamsþyngdarstuðli og ummáli mittis og mjaðma. Blóðþrýstingur var mældur, fastandi blóðsýni tekin og blóðsykur, HDL-kólesteról og þríglýseríð mæld, en þessi þrjú blóðgildi ásamt mittismáli og blóðþrýstingi, eru þeir áhættuþættir sem mynda efnaskiptaheilkenni. Hreyfing þátttakenda var mæld með hreyfimælum.


Niðurstöður: Bændur höfðu marktækt lægri (p<0,05) blóðsykur og þríglýseríð í blóði heldur en hinar starfsstéttirnar og hærra HDL-kólesteról. Enginn marktækur munur fannst á milli líkamsmælinganna og starfsstétta. Allir þættirnir sem mynda efnaskiptaheilkenni sýndu tölfræðilega marktæka fylgni sín á milli og hafði heildarhreyfing yfir daginn marktæka fylgni við alla þættina, en tími í hreyfingu sem samsvarar þrefaldri grunnbrennslu eða meira (3METs) sýndi einungis fylgni við mittisummál. Bændur hreyfðu sig marktækt meira yfir daginn en hinar tvær starfsstéttirnar, en ekki fannst munur á tíma yfir 3METs. Í rannsókninni teljast 11,1% þátttakenda vera með efnaskiptaheilkenni.


Ályktanir: Við ályktum að á meðal þessara þriggja starfsstétta hafi bændur betri blóðgildi hvað varðar efnaskiptaheilkenni, án þess þó að líkamsástand þeirra sé hagstæðara. Er þetta líklega vegna virkari lífsstíls bænda samanborið við verkamenn og skrifstofumenn.


V 13 Algengi á beinþynningu í íslensku þýði samkvæmt skilmerkjum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar


Gunnar Sigurðsson, Díana Óskarsdóttir, Sigríður Lára Guðmundsdóttir, Leifur Franzson, Ólafur Skúli Indriðason
Landspítali


gunnars@landspitali.is

Inngangur: Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur skilgreint bein-þynningu samkvæmt beinþéttniniðurstöðum mælt með DEXA (dual energy x-ray absorptiometry): Beinþéttni neðan við 2,5 staðalfrávik frá meðaltali ungra kvenna (T-gildi = <-2,5). Við höfum kannað algengið samkvæmt þessari skilgreiningu í íslensku þýði til að unnt sé að gera sér grein fyrir stærð vandamálsins.


Efniviður og aðferðir: Slembiúrtaki karla og kvenna af Reykja-víkursvæðinu, á aldrinum 30-85 ára, var boðin þátttaka (alls 2310), 1630 (70%) tóku þátt. Beinþéttnin var mæld með DEXA (Hologic QDR 4500) í lendhrygg, L1-L4 og mjöðm (lærleggsháls og lærhnútusvæði). Þrjátíu ára aldurshópurinn var notaður sem viðmið til að reikna út T-gildi fyrir hvort kyn. Við þennan útreikning var enginn útilokaður til að fá algengið í heildarhópnum, skipt í fimm ára aldurshópa. 


Niðurstöður: Sumir einstaklingar náðu einungis skilmerkjum í hrygg en aðrir einungis í mjöðm. Tafla I sýnir hundraðshluta þeirra sem uppfylla skilmerki beinþynningar á öðrum mælistaðnum að minnsta kosti.


Tafla I.


Ályktanir: Fjórðungur sjötugra kvenna uppfyllir skilmerki beinþynningar og um 60% um áttrætt. Meðal karla hafa um 20% náð þessum mörkum við 75 ára aldur og allt að þriðjungur um 85 ára aldurinn. Athuga ber að þetta er faraldsfræðileg skilgreining en taka þarf einnig mið af öðrum þáttum við ákvörðun lyfjameðferðar. Við erlendan samanburð verður að gæta samræmis í vali þýðis og stöðlunar milli mælitækja sem gerir slíkan samanburð erfiðan.


V 14 Óvenju alvarlegar hjartsláttartruflanir hjá einstaklingum með arfgerð en ekki svipgerð heilkennis lengds QT-bils


Davíð O. Arnar1, Gunnlaugur Sigfússon2, Jónína Jóhannsdóttir3, Hjörtur Oddsson1, Jón Jóhannes Jónsson3, Gizur Gottskálksson1
1Lyflækningasvið I, 2barnasvið og 3rannsóknarsvið Landspítala, Hringbraut


davidar@landspitali.is

Inngangur: Ættgengt heilkenni lengds QT-bils stafar af afbrigðilegri endurskautun í hjartavöðvafrumum sem eykur hættu á lífshættulegum hjartsláttartruflunum. Nokkrir undirflokkar af ættgengu heilkenni lengds QT-bils eru þekktir og byggist flokkunin á mismunandi arfgerð. Hættan á illvígum hjartsláttartruflunum er talin vera meiri því lengra sem QT-bilið er. Undanfarin ár hefur komið í ljós að í ættum þar sem þetta heilkenni finnst geta verið svokallaðir þöglir berar sem hafa arfgerð en ekki svipgerð heilkennisins. 


Efniviður og aðferðir: Við höfum haft til meðferðar ætt með heilkenni lengds QT-bils af tegund 1 þar sem stökkbreytingin er í KCNQ1 geninu. Klínískar og erfðafræðilegar upplýsingar þessarar fjölskyldu voru skoðaðar.


Niðurstöður: Af 29 fjölskyldumeðlimum sem hafa verið skoðaðir með tilliti til heilkennisins er stökkbreyting í KCNQ1 geninu til staðar hjá 18. Móðir og tvær dætur í þessari ætt hafa ekki haft lengingu á QT-bili á hjartalínuriti en móðirin og önnur dóttirin eigi að síður fengið staðfestar lífshættulegar hjartsláttartruflanir og hin dóttirin fengið yfirlið af óútskýrðum toga. Þetta er afar óvenjulegt þar sem horfur hjá slíkum einstaklingum hafa verið taldar góðar. Ellefu aðrir einstaklingar í þessari ætt hafa arfgerð en ekki svipgerð heilkennisins, en eru einkennalausir. 


Ályktanir: Hér er um að ræða mjög illkynja takttruflanir hjá einstaklingum með arfgerð lengds QT-bils af tegund 1 án þess að því fylgi lenging QT-bils á hjartalínuriti. Þetta sýnir að eðlilegt QT-bil á hjartalínuriti er alls ekki nægilegt til að útiloka tilvist sjúkdómsins og þörf er á því að skoða arfgerð allra fjölskyldumeðlima þeirra sem greinast með langt QT sem mögulega er arfgengt. Kanna þarf betur hvaða þættir gætu orsakað svæsin einkenni þeirra sem hafa arfgerð en ekki svipgerð lengds QT-bils í þessari fjölskyldu.


V 15 Arfgerð og svipgerð heilkennis lengds QT-bils í íslenskum fjölskyldum


Gunnlaugur Sigfússon1, Davíð O. Arnar2, Jón Þór Sverrisson3, Jónína Jóhannsdóttir4, Hjörtur Oddsson2, Jón Jóhannes Jónsson4, Gizur Gottskálksson2
1Barnasvið, 2lyflækningasvið I og 4rannsóknasvið Landspítala, 3lyflækningadeild FSA


mailto:davidar@landspitali.is

Inngangur: Heilkenni lengds QT bils orsakast af stökkbreytingu í jónagöngum í frumuhimnum hjartavöðvafrumna sem leiðir til afbrigðilegrar endurskautunar. Þessu heilkenni fylgir hætta á alvarlegum hjartsláttartruflunum og skyndidauða. Nokkrar mismunandi stökkbreytingar eru þekktar sem orsök heilkennis lengds QT-bils og getur útlit QT-bils á línuriti og áhætta á skyndidauða verið mismunandi eftir arfgerð. Jafnframt geta meðferðaáherslur verið breytilegar eftir arfgerð og því mikilvægt að kortleggja hvaða stökkbreyting er til staðar hjá þessum sjúklingum. 


Efniviður og aðferðir: Á Íslandi eru nú þekktar tvær fjölskyldur sem hafa heilkenni lengds QT-bils. Önnur fjölskyldan er mjög stór og þar eru þekktir fjórir ættliðir með heilkennið. Hin fjölskyldan er minni en þar hafa nokkrir ungir einstaklingar dáið skyndidauða. Arfgerðir, svipgerðir og afdrif þessara fjölskyldna voru kannaðar.


Niðurstöður: Erfðarannsóknir á þessum fjölskyldum hafa leitt í ljós að þær hafa sitt hvora stökkbreytinguna. Önnur er í KCNQ1 geninu (LQT1) og hin í HERG geninu (LQT2). Einkenni þeirra og afdrif eru að miklu leyti í samræmi við undirtegund heilkennisins. Nokkrir nýburar hafa greinst með stökkbreytta genið fyrir útskrift af fæðingarstofnun. Meðferð einstaklinganna í þessum fjölskyldum er breytileg eftir svipgerð sjúkdómsins og getur falið í sér bjargráðsmeðferð, lyf eða ráðleggingar. Í báðum fjölskyldum hafa fundist einstaklingar sem eru með eðlilegt QT-bil á hjartalínuriti en hafa eigi að síður stökkbreytt gen. 


Ályktanir: Arfgerð tveggja stökkbreytinga sem valda heilkenni lengds QT-bils er nú þekkt á Íslandi. Þekking á arfgerð heilkennisins sem og mismunandi svipgerð þess, er forsenda fyrir hvoru tveggja markvissri forvörn hjá þeim sem eru einkennalausir og einnig meðferð þeirra sem hafa einkenni. Þetta er mikilvægt í ljósi þeirra alvarlegu afleiðinga sem stökkbreytinginn getur haft.


V 16 Bráðakransæðastífla í kjölfar flysjunar á ósæð. Sjúkratilfelli


Freyr Gauti Sigmundsson, Jón Þór Sverrisson 
Lyflækningadeild FSA


freyrgauti@fsa.is


Inngangur: Tilfellið lýsir sjötíu og tveggja ára manni sem fann fyrir þyngslaverk fyrir brjósti með leiðni upp í herðar skömmu fyrir komu á FSA. Í heilsufarssögu kom fram hækkað kólesteról, háþrýstingur, heilablóðfall og brottnám vinstra nýra. Hann hafði hægan hjartslátt þegar komið var að honum í heimahúsi, með fulla meðvitund en leið illa. Hjartalínurit við komu sýndi engar bráðar breytingar. Skömmu eftir komu á slysadeild fékk hann þyngslaverk að nýju fyrir brjóst með leiðni upp í herðar og vinstri hendi og hjartalínurit sýndi ST hækkanir í leiðslum II, III og aVF. Gefin var segaleysandi meðferð. EKG breytingar gengu ekki til baka og fór ástand sjúklings versnandi og hann missti meðvitund og fékk vinstri helftarlömun og púlsar í hálsslagæðum hurfu. Gerð var hjartaómun vegna versnandi ástands sjúklins sem sýndi samdráttartruflun í neðri vegg hjartans, ósæðarleka og í ósæðarboganum voru merki um ósæðarflysjun. Tekin var tölvusneiðmynd af brjóstholi og sáust veggkalkanir miðsvæðis í ósæðarboganum sem vöktu grun um flysjun í ósæð frá ósæðarboga niður í brjóstholsósæð. Ástand sjúklings versnaði frekar og lést hann sólarhing eftir komu.


Krufning sýndi útbreidda flysjun í ósæð, DeBakey gerð 1, frá ósæðarloku niður að deilingu ósæðar í náraslagæðar. Flysjunin gekk inn í hægri kransæð ásamt því að ná upp í báðar hálssamslagæðar og holhandarslagæðar. Flysjunin gekk inn í hægri nýrnaslagæðina ásamt því að ganga inn í efri garnahengisslagæð og niður í mjaðmarsamslagæðarnar. Merki voru um drep í bak- og neðri vegg hjartans. 


Umræða: Flysjun á ósæð er afar sjaldgæf orsök fyrir bráðri kransæðastíflu. Í tilfellinu sem lýst er hér að ofan reyndist hjartaómun við rúmstokkinn vekja afgerandi grun um ósæðarflysjun. Við ódæmigerða sjúkdómsmynd ætti að sýna varkárni við segaleysandi meðferð þrátt fyrir dæmigerðar breytingar á hjartalínuriti. 


V 18 Greining bráðrar kransæðastíflu með hjartalínuriti þegar hægra greinrof er til staðar


Gunnar Þór Gunnarsson1, Peter Eriksson2, Mikael Dellborg2
1Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, 2Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið Gautaborg


gunnar.gunnarsson@est.is

Inngangur: Hjartalínurit er enn mikilvægt þegar greina á bráða kransæðastíflu og velja viðeigandi meðferð. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort viðmið fyrir hjartalínurit til greiningar á bráðri kransæðastíflu eigi einnig við þegar hjartalínritið sýnir hægra greinrof. Þetta hefur aldrei verið kannað áður.


Efniviður og aðferðir: Um er að ræða framsæja fjölsetra rannsókn sem gerð var á 14 sænskum hjartagjörgæslum. Inntökuskilyrði voru: grunur um kransæðstíflu, einkenni sem staðið höfðu skemur en sex klukkustundir og hjartalínurit með hægra greinrofi. Eftirfarandi hjartalínuritsviðmið til greiningar bráðrar kransæðastíflu á hjartalínuritum með eðlilega breitt QRS-bil voru könnuð: viðmið ráðlögð af sameiginlegri nefnd evrópsku og amerísku hjartalæknafélaganna (ESC/ACC), viðmið úr einni hjartalínuritarannsókn (Menown, et al. Eur Heart J 2000; 21: 275-83) og viðmið úr GUSTO og TIMI rannsóknunum. Breytingar á ST-bili voru mældar við J-punkt og J+60ms. Þetta var gert til að kanna hvort ST-bils breytingar, sem tilheyra venjulega hægra greinrofi, hafi áhrif á greiningarhæfni viðmiðanna. Hjartalínurit var tekið við innlögn og 12-24 klukkustundum seinna.


Niðurstöður: Níutíu og þrír sjúklingar uppfylltu inntökuskilyrði. Þrjátíu og sex sjúklingar (41%) fengu bráða kransæðastíflu. Næmi og sértæki viðmiða með ST-bils hækkun má sjá í töflu I. ESC/ACC viðmið fyrir staðfesta kransæðastíflu (ný Q-bylgja í meira en einni samliggjandi leiðslu) voru með 33% næmi og 83% sértæki. 


Ályktanir: Öll fjögur viðmiðin höfðu svipaða greiningarhæfileika. Að mæla ST-bils hækkun við J punkt gefur betri raun en að mæla við J+60ms. Viðmið Menowns hafa í fyrri rannsóknum sýnt 56% næmi og 94% sértæki hvað varðar hjartalínurit með eðlilega breitt QRS-bil en hafa verri greiningarhæfni hér. Það er ekki hægt að gera viðlíka samanburð hvað varðar hin viðmiðin. ESC/ACCC viðmiðin hafa aldrei verið könnuð hjá sjúklingum með eðlilega breitt QRS-bil og í TIMI og GUSTO rannsóknunum eru einungis sjúklingar með ST-bils hækkanir.


V 19 Fjarlækningakerfi í hjartalækningum, nær til Vesturfjarða, Stranda, Norðurlands vestra og eystra, Austurlands að Glettingi og Austfjarða


Gunnar Þór Gunnarsson1, Jón Þór Sverrisson1, Inga Stella Pétursdóttir1, Valgerður Jónsdóttir1, Sigurbjörg Sigurðardóttir1, Óskar Jónsson2, Ásgeir Böðvarsson3, Þorsteinn Jóhannesson3, Pétur Heimisson4, Björn Magnússon5
1Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, 2Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki, 3Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, 4Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ, 5Heilbrigðisstofnun Austurlands


gunnar.gunnarsson@est.is

Inngangur: Framfarir í tækni hafa á undanförnum árum opnað fleiri og fleiri möguleika til fjarlækninga (e. telemedicine). Fjarlækningar má nota á ýmsan hátt, til samskipta milli lækna, til samskipta milli læknis og sjúklings, til flutnings á rannsóknarniðurstöðum og gögnum úrlestrar og yfirferðar fjarri skráningarstöðum og fleira. Fjarlækningar geta þannig auðveldað rannsóknir, greiningu og meðferð og einnig sparað tíma og fyrirhöfn. Hér verður lýst fjarlækningakerfi sem lífeðlisfræðideild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA) hefur komið á fyrir síritun á hjartarafriti í heimahúsi (e. HOLTER, HOme Long Term ECG Recording).


Efniviður og aðferðir: Árið 2003 var keypt HOLTER skráningartæki og úrvinnslustöð til notkunar á lífeðlisfræðideild FSA. Við undirbúning að kaupum og uppsetningu á nýjum tækjum var strax hugað að því að kaupa tæki með möguleika á að koma upp fjarlækningakerfi. Fyrir valinu urðu Zymed Digitrack Plus (Philips) skráningartæki, Zymed EASITrack 12 (Philips) atburðaskrái og Zymed HOLTER 2010 (Philips) úrvinnslustöð. Skráningartækin skrá þrjár hornréttar leiðslur samkvæmt vigurkerfi og hægt er að fá 12 leiðslu hjartalínurit af hverju slagi. Forrit úrvinnslustöðvar og forrit í útstöðvum sem senda til úrvinnslustöðvar er í venjulegum einkatölvum. Forrit á útstöðvum leyfa skoðun á niðurstöðum án sjálfvirkrar yfirferðar. Niðurstöður eru síðan sendar um lokað kerfi um venjulega internettengingu til úrvinnslustöðvar og svar til baka eftir yfirferð og túlkun starfsfólks lífeðlisfræðideildar FSA.


Strax í byrjun (mars 2003) tengdust Heilbrigðistofnunin Sauðárkróki og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, við kerfið með sitt hvort skráningartækið og útstöð. Úrvinnslustöðin leyfir tengingu við ótakmarkaðan fjölda útstöðva og fljótlega bættust við Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ (maí 2003) og Heilbrigðisstofnun Austurlands með sitt hvort tækið á Neskaupstað (desember 2004) og Egilsstöðum (júní 2005). Rannsóknum hefur fjölgað með hverju ári og hafa samtals verið gerðar 1117 rannsóknir.


Niðurstaða: HOLTER skráning og úrlestur gegnum fjarlækn–ingakerfi milli FSA og annarra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni hefur reynst vel.


Ályktanir: HOLTER skráningin og úrlesturinn gegnum fjarlækningakerfið hefur sennilega sparað tíma og fyrirhöfn hjá sjúklingum og aukið samskipti heilbrigðisstofnana. Þessi reynsla hvetur til þess að huga að fjarlækningum á öðrum sviðum.


V 20 Sjúklingur með sýkingu á gangráðsvír sem síðar var fjarlægður með aðstoð leysigeislatækni. Sjúkratilfelli


Jóhanna Gunnarsdóttir1, Charles Kennergren2, Sigurður Heiðdal1, Tómas Guðbjartsson3, Gizur Gottskálksson3, Jón Þór Sverrisson1, Gunnar Þór Gunnarsson1
1Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, 2Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið Gautaborg, 3Landspítali


gunnar.gunnarsson@est.is

Inngangur: Sýkingar á gangráðsvírum eru erfiðar viðfangs. Mælt er með að fjarlægja sýkta víra en það getur verið erfiðleikum bundið sérstaklega ef langur tími er liðinn frá ígræðslu. Hér er greint frá sjúklingi með sýkingu á gangráðsvírum 11 árum eftir ígræðslu.


Lýsing á tilfelli: Tilfellið fjallar um sextíu og níu ára karlmann sem greindist með sleglahraðtakt af óljósri ástæðu og endurkomandi gáttaflökt 11 árum fyrr. Ígræðsla tveggjahólfa gangráðs reyndist nauðsynleg til að geta meðhöndlað með hjartsláttartruflunarlyfjum. Engin vandkvæði eða fylgikvillar voru tengd gangráðnum þar til um 11 árum seinna. Þá fékk sjúklingur roða og hita í húð yfir gangráðsdós og var meðhöndlaður með díkloxacillínum í töfluformi í sjö daga og einkenni hurfu á einum sólarhring. Um sex vikum seinna lagðist hann inn á lyflækningadeild FSA með fjögurra til fimm vikna sögu um slappleika, þreytu, svitaköst og hitaslæðing. 


Blóðrannsóknir sýndu merki um sýkingu.Vélindaómskoðun tveimur dögum eftir innlögn sýndi hrúður á sleglagangráðsvírnum. Tölvusneiðmynd af lungum gaf grun um blóðrek á sýkingarhrúðri til lungna. Eftir endurteknar blóðræktanir ræktuðust Staphylococcus epidermidis í þremur af átta flöskum og Eikanella corrodens og Moraxella sp. í einni flösku. Þrátt fyrir viðeigandi sýklalyfjameðferð var sjúklingur áfram með toppóttan hita og sýkingarmerki í blóði lækkuðu aðeins lítillega viku seinna. Kennergren fjarlægði gangráðsvírana með aðstoð leysigeislatækni (Spectranectics caridal lead removal system). Gangráðsdósin var einnig fjarlægð. Á sleglavírnum var hrúður sem samræmdist því sem sást við vélindaómun.


Tveimur vikum eftir að gangráðsvír og gangráðsdós voru fjarlægð var reynt að setja nýjan gangráð um vinstri viðbeinsbláæð en fyrri gangráður hafði verið hægra megin. Sjúklingur reyndist þá hafa vinstri efri holæð (persitent vena cava superior) sem mynnti í kransstokkinn. Sjúklingur var því fluttur frá FSA á LSH þar sem gangráðsdós var grædd undir húð vinstra megin í brjóstkassa og gangráðsvírar þræddir undir húð og inn um hægri viðbeinsbláæð.


V 21 Meðgöngu- og fæðingartengd hjartabilun, fyrsta tilfelli á Íslandi? Sjúkratilfelli


Gunnar Þór Gunnarsson1, Guðmundur Otti Einarsson1, Ragnheiður Baldursdóttir1, Magnús Gottfreðsson2, Gestur Þorgeirsson2, Árni Kristinsson2
1Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, 2Landspítali


gunnar.gunnarsson@est.is

Inngangur: Meðgöngu- og fæðingartengd hjartabilun (e. peripartum cardiomyopathy, PPCM) er sjaldgæf tegund hjartabilunar. Hún er skilgreind sem hjartabilun sem kemur fram á tímibili frá síðasta mánuði meðgöngu og allt að fimm mánuðum eftir fæðingu, að því uppfylltu að ekki finnst önnur skýring á hjartabiluninni og ekki sé vitað til fyrri hjartasjúkdóms eða galla. Nýgengi meðgöngu- og fæðingartengdrar hjartabilunar er óþekkt, en talið vera 1/3000-15.000 fæðingar. Dánartíðni er talin vera á bilinu 9-56%. Nýgengi og horfur virðast þó vera mismunandi eftir ýmsum þáttum, meðal annars eftir kynþætti. Ástæður þessarar tegundar hjartabilunar eru óljósar. Bati er yfirleitt góður, komi hann á annað borð, en umtalsverðar líkur eru á bakslagi við seinni meðgöngur (1). Meðgöngu- og fæðingartengd hjartabilun hefur ekki áður greinst á Íslandi svo höfundar viti til.


Lýsing á tilfelli: Tilfellið varðar tuttugu og eins árs gamla kona í annarri meðgöngu. Fyrri meðganga þremur árum áður var án vandkvæða. Konan veiktist með niðurgangi þremur vikum fyrir fæðingu, en þau einkenni gengu yfir. Síðustu fjóra daga fyrir fæðingu var aukin mæði og hósti, en talið vera berkjubólga og meðhöndluð með betaörvandi úða. Konan var þreytt og móð í fæðingunni og eftir fæðingu var blæðing frá leggöngum, áætlað um tveir til þrír lítrar. Skömmu eftir það fór konan í lostástand. Tölvusneiðmynd af lungum sýndi ekki merki um lungablóðrek. Blóðrauði var 73 g/l. Konan var strax meðhöndluð með blóð-, blóðvökva- og vökvagjöf og meðferð hafin með C-PAP. Ómskoðun af hjarta sýndi víkkun á báðum sleglum með mikið skertum samdrætti, útflæðisbrot 20-25% og stóran míturlokuleka. Lungnaslagæðarþrýstingur var 55-60 mmHg. Konan var flutt af FSA á Landspítala til að vera nærri viðbúnaði, kæmi til þess að nota þyrfti ósæðardælu eða hjarta- og lungavél, ef hjartabilun versnaði. Konan var meðhöndluð með „inotrope“ hjartalyfjum á gjörgæslu Landspítala og hafin var meðferð með betahemli, ACE hemli og digitalis, auk þvagræsilyfja. Próf fyrir enteróveirum reyndust jákvæð. Konan var flutt aftur á FSA eftir sjö daga dvöl á Landspítala.


Bati var hægur fyrstu þrjá til fjóra mánuðina, litlar sem engar breytingar urðu á útflæðisbroti og stærð vinstri slegils sem sýndi óheppilega aðlögun að hjartabiluninni með þynningu á hjartavöða á vissum svæðum. Þremur og hálfum mánuði eftir fæðingu fór að bera á mælanlegum breytingum á starfsemi hjartans sem héldu áfram að batna eftir það (tafla I).


Hjartastarfsemi er nú, tveimur árum eftir fæðingu barnsins, nær eðlileg og líkamleg líðan góð. Allri lyfjameðferð, nema lágum skammti af betahemlum, hefur verið hætt.


V 22 Ungur maður með þríknippa hjartablokk og skyntaugaheyrnardeyfu. Sjúkratilfelli


Gunnar Þór Gunnarsson, Jón Þór Sverrisson
Lyflækningadeild FSA


gunnar.gunnarsson@est.is

Inngangur: LeNegres sjúkdómur og Levs sjúkdómur eru aldurstengdir hrörnunarsjúkdómar í leiðslukerfi hjartans sem geta leitt til hjartsláttartruflana. Yngsti einstaklingur, sem til þessa hefur fengið úrskurð eða úrskurðaðan grun um LeNegres sjúkdóm, er 21 árs karlmaður (1). Hér er lýst þríknippa blokki hjá 21 árs karlmanni með skyntaugaheyrnardeyfu.


Lýsing á tilfelli: Tilfellið varðar 21 árs gamlan karlmann með skyntaugaheyrnardeyfu frá barnsaldri. Við sex ára aldur var gerð aðgerð á báðum fótum vegna mikillar innskeifu. Hann hafði annars verið frískur og stundað íþróttir. Engin ættarsaga var um hjartasjúkdóma, efnaskiptasjúkdóma eða ífarandi sjúkdóma.


Hann lagðist inn á lyflækningadeild FSA með þriggja daga sögu um endurtekin yfirlið og næryfirlið. Hjartalínurit sýndi þríknippablokk og eðlilegt QT-bil. Ómskoðun af hjarta var eðlileg. Eftir innritun komu fram á hjartasírita endurtekin köst með hægtakti og hléum án rafvirkni í hjarta allt að 10-15 sekúndur. Innan við sólarhring eftir komu var græddur í hann tvíhólfa gangráður. Við eftirfylgd í tvö ár hefur hann reynst algerlega gangráðsháður. 


Rannsóknir sýndu engin merki um annan sjúkdóm sem gæti skýrt ofannefnd einkenni. Engin merki fundust um ífarandi sjúkdóma. Skjaldkirtilsprufur voru eðlilegar, svo og blóðsölt, lifrarpróf, blóðmynd, sökk, CRP og kreatínín. CK-MB og TnT var eðlilegt og ómskoðun sýndi engin merki um hjartavöðvasjúkdóm. Blóðvatnspróf fyrir Borellia burgdorferi var neikvætt. Hann hafði engin skilmerki Sjögrenssjúkdóms, sem getur tengst AV blokki. Skoðun á taugakerfi og augnskoðun var eðlileg. Hjartalínurit og ómskoðun hjá foreldrum og systkinum var hvort tveggja eðlilegt.


Umræða: Skyntaugaheyrnadeyfa getur tengst hjartsláttartruflunum við Lange-Nielsen heilkenni með skyntaugaheyrnadeyfu og lengdu QT-bili og við orkukornasjúkdóma, svo sem Kearns-Sayre en um það er ekki að ræða hér. Hér gæti verið um snemmkomin LeNegres sjúkdóm að ræða. Óvíst er hvort skyntaugaheyrnardeyfan tengist hjartasjúkdómi hans en forvitnilegt er, að þótt yfirleitt sé talið að frumur leiðslukerfis hjartans séu upprunnar frá miðkímlagi (mesoderm) þá halda aðrir fram að þær séu upprunnar frá hnoðkambi (neural crest) eins og miðtaugakerfið (2).


Heimildir: 1. Dianzumba SB, Singer DH, Meyers S, Barresi V, Belic N, Smith JM. Lenegre’s disease in youth. Am Heart J 1977; 94: 37-44.


2. Moorman AF, de Jong F, Denyn MM, Lamers WH. Development of the cardiac conduction system. Circ Res 1988; 82: 629-44. 


V 23 Nýrnakölkun í kjölfar ristilhreinsunar með natríumfosfati


Hjalti Guðmundsson1, Margrét Árnadóttir1, Sverrir Harðarson2, Margrét Birna Andrésdóttir1
1Lyflækningadeild, 2Rannsóknastofa í meinafræði, Landspítala


mailto:mariubaugur@simnet.is

Inngangur: Lyf sem innihalda natríumfosfat (til dæmis Phosphoral) eru notuð til úthreinsunar við undirbúning fyrir rannsóknir eða skurðaðgerðir á ristli. Í Sérlyfjaskrá er varað við notkun Phosphorals, meðal annars hjá sjúklingum með skerta nýrnastarfsemi, vegna mögulegra áhrifa lyfsins á salt- og vökvajafnvægi. Ekki er getið alvarlegra aukaverkana. Nýlega hefur nýrnakölkun (nephrocalcinosis) verið lýst í kjölfar ristilhreinsunar með natríumfosfati og er talið að þetta sé vangreind aukaverkun hjá áhættuhópi. 


Lýsing tilfella: Við lýsum tveimur tilfellum með bráða nýrnabilun sem greindust 7-30 dögum eftir úthreinsun með Phosphorali. Báðir sjúklingarnir höfðu áður lítilsháttar hækkun á s-kreatíníni en eftir úthreinsunina versnaði nýrnastarfsemi beggja til muna og hefur ekki lagast aftur. Vefjagreining sýndi dæmigerða nýrnakölkun, það er kalkútfellingar í píplum auk píplurýrnunar og bandvefsaukningar í millivef. Einnig lýsum við tilfelli með verulega hækkun á s-fosfati sem rekja mátti til úthreinsunar með Phosphorali og prerenal nýrnabilunar. 


Umræða: Sjúkdómstilfellin gefa tilefni til að rannsaka algengi og áhættuþætti nýrnakölkunar í kjölfar úthreinsunar með natríum fosfati. Mikilvægt er að endurmeta leiðbeiningar um notkun þessa algenga lyfs í ljósi nýrra upplýsinga.


V 24 Lokun á opi milli gátta í hjartaþræðingu 


á Landspítala


Hróðmar Helgason1, 2, Gunnlaugur Sigfússon1, Ragnar Danielsen2, Kristján Eyjólfsson1
1Barnaspítali Hringsins og 2hjartadeild Landspítala


hrodmar@landspitali.is

Inngangur: Op á milli gátta (ASD) er algengur hjartagalli sem greinist ekki eingöngu á barnsaldri heldur finnst oft í fullorðnum einstaklingum. Á barnsaldri eru einkenni oft lítil en á fullorðinsárum leiðir mikið flæði milli gátta til hjartastækkunar, hjartsláttartruflana og hjartabilunar. Nýlega var tekin upp meðferð á Landspítala þar sem opum milli gátta er lokað í hjartaþræðingu.


Efniviður og aðferðir: Sextán sjúklingar á aldrinum 8-69 ára (miðgildi 26 ár) gengust undir hjartaþræðingu og var opi á milli gátta lokað í 14 sjúklingum. Þar af voru fjögur börn (8-18 ára). Ábendingar fyrir lokun voru hjartastækkun vegna aukins lungnablóðflæðis, sex sjúklingar, heilaáfall (heilablóðfall vegna paradox embolia), sex sjúklingar og blóðþurrðarköst í heila, tveir sjúklingar. Þræðingin var framkvæmd í svæfingu og vélindasómskoðun framkvæmd samtímis. Notaður var Amplatzer hnappur til að loka opunum eftir að opið hafði verið mælt með belglegg. Hjá tveimur sjúklingum var opinu ekki lokað, annar hafði afbrigðilega tengingu á lungnabláæð og hinn hafði ekki fullnægjandi kanta á opinu til að hengja á hnappinn sem lokar opinu. 


Niðurstöður: Stærð opanna var frá 10-25 mm (miðgildi 13 mm). Það tókst að loka opinu hjá öllum 12 sjúklingunum. Tímalengd aðgerðar var 60-135 mínútur, að meðtöldum tímanum sem innleiðsla svæfingar tekur. Einn sjúklingur hafði annað op sem ekki var unnt að loka í sömu þræðingu. Engir fylgikvillar komu fram í sjálfri aðgerðinni. Þrír sjúklingar fengu höfuðverkjaköst fyrstu tvær vikurnar eftir lokun. Tveir sjúklingar fengu blæðingu í nára eftir að þeir voru komnir upp á sjúkradeild um tveimur klukkustundum eftir að slíður hafði verið tekið úr nára. Ellefu sjúklinganna voru útskrifaðir daginn eftir þræðingu og einn sjúklingur á öðrum degi eftir þræðinguna. Leki meðfram hnappinum eftir ísetningu sást hjá einum sjúklingi. Einn sjúklingur hafði fengið gáttaflökt (atrial flutter) þremur vikum eftir ísetningu.


Ályktanir: Við ályktum að lokun á opi á milli gátta á þennan hátt sé örugg og áhrifarík meðferð og er unnt að loka flestum opum á milli gátta á þennan hátt. Legutími er mun styttri en við opnar aðgerðir og sjúklingarnir fljótir að komast á ról. Lítil hætta er á leka meðfram hnappinum.


V 25 Notkun faktors VII við meiriháttar blæðingar í hjartaskurðaðgerðum. Fyrsta reynsla af Landspítala


Jóhann Páll Ingimarsson1, Felix Valsson2,4, Brynjar Viðarsson3,4, Bjarni Torfason1,4, Tómas Guðbjartsson1,4
1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2gjörgæslu- og svæfingadeild og 3blóðmeinafræðideild Landspítala, 4læknadeild HÍ


johapall@mi.is

Inngangur: Meiriháttar blæðingar eru þekktir fylgikvillar opinna hjartaaðgerða. Storkuhvetjandi lyf og blóðhlutar eru gefin til að stöðva blæðingu, en duga þó ekki alltaf og dánarhlutfall er hátt. Recombinant factor VII (rfVII), sem ætlað er sjúklingum með blæðingarsjúkdóma hefur verið reynt við slíkar blæðingar, oft með góðum árangri. Lítið er skráð um virkni lyfsins við blæðingar í hjartaaðgerðum. Markmið þessarar afturvirku rannsóknar var að kanna árangur meðferðar með rFVII á Landspítala í slíkum aðgerðum.


Efniviður og aðferðir: Frá júní 2003 til febrúar 2006 hafa 10 sjúklingar fengið rFVII vegna meiriháttar blæðinga, tengdum hjartaaðgerðum á Landspítala. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám og aðgerðarlýsingum.


Niðurstöður: Algengustu aðgerðirnar voru ósæðarlokuskipti með eða án kransæðarhjáveitu. Meðalaldur sjúklinganna var 66 ár (36-82) og voru allir í NYHA*-hjartabilunarflokki III eða IV. Meðaltímalengd aðgerðanna var 673 mínútur (475-932). Sjúklingar fengu að meðaltali 17 einingar af rauðkornaþykkni í aðgerð (5-61) auk blóðs úr hjarta- og lungnavél. Hjá níu sjúklingum náðist að stöðva blæðingu. Þrír þurftu þó í enduraðgerð vegna blæðinga, þar af einn sjúklingur í tvær. Blæðingartími (APTT** og PT***) styttist mjög við gjöf rFVII. Fimm sjúklingar létust. Einn lést úr óstöðvandi blæðingu í aðgerð. Annar dó úr blóðtappa í heila og í lungum. Aðrar orsakir voru hjartadrep, fjölkerfabilun og blóðstorkusótt.


Ályktanir: Hár aldur, alvarlegur hjartasjúkdómur og langar skurðaðgerðir, mikil blæðing og fullreynd meðferð blóðhluta eru einkennandi fyrir sjúklinga sem fengið hafa rFVII í hjartaaðgerð hér á landi. Svo virðist sem rFVII sé mjög virkt lyf í að stöðva alvarlegar blæðingar í hjartaaðgerðum. Dánartíðni er þó há. Rannsaka þarf betur fylgikvilla rFVII-meðferðar, en lyfið gæti hafa stuðlað að myndun blóðtappa í heila og lungum hjá einum sjúklingi.


* NYHA = New York Heart Association


** APTT = Activated Partial Throboplastin Time; *** PT = Prothrombin Time


V 26 Carcinoid lungnaæxli á Íslandi 


Jóhanna M. Sigurðardóttir1, Kristinn Jóhannsson1, Helgi Ísaksson2, Steinn Jónsson3,4, Bjarni Torfason1,5, Tómas Guðbjartsson1,5
1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2Rannsóknastofa HÍ í meinafræði, 3lungnadeild Landspítala, 5læknadeild HÍ


tomasgudbjartsson@hotmail.com johannamsig@yahoo.com

Inngangur: Carcinoid æxli eru krabbamein af taugainnkirtlauppruna (neuroendocrine) (APUD-frumur) og er algengast að þau greinist í kviðarholi, sérstaklega í botnlanga. Þau geta einnig greinst í lungum, jafnt í báðum kynjum og á öllum aldri. Til er eldri rannsókn á carcinoid lungnaæxlum greindum á Íslandi. Sú rannsókn náði hins vegar aðeins til 20 tilfella sem öll voru greind á tímabilinu 1955-1984 (1). Markmið þessarar rannsóknar er að kanna hegðun þessa sjúkdóms hér á landi frá 1981, með aðaláherslu á árangur meðferðar og vefjafræði æxlanna. 


Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og nær til allra sjúklinga sem greindust með carcinoid æxli í lungum á Íslandi á tímabilinu 1981-2005. Upplýsingar fengust úr meinafræði- og sjúkraskrám auk Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands. Skráðar voru upplýsingar um einkenni, meðferð og greiningarmáta. Lagt var mat á árangur meðferðar og reiknaðar lífshorfur. Öll vefjasýni voru endurskoðuð af meinafræðingi og æxlin stiguð samkvæmt TNM-stigunarkerfi fyrir lungnakrabbamein.


Niðurstöður: Frá 1981 til 2005 greindust samtals 46 sjúklingar (17 karlar og 29 konur, meðalaldur 47 ár, bil 20-86 ár) með carcinoid lungnaæxli á Íslandi, sem er 2% af öllum lungnakrabbameinum sem greindust á sama tímabili. Algengasta einkenni sem leiddi til greiningar var hósti og lungnabólga en 30 sjúklingar (65%) greindust fyrir tilviljun við myndrannsóknir á lungum. Hjá 31 sjúklingi voru æxlin staðsett í miðju lunganu, oftast í hægra lunga. Meðalstærð æxlanna var 2,6 cm (bil 1-5,5 cm). Langoftast var um dæmigerða (classical) vefjagerð að ræða (90%) en fjórir sjúklingar voru með illkynja afbrigði (atypical). Einn þessara sjúklinga greindist með meinvörp í litla heila og dó skömmu síðar. Hinir sjúklingarnir voru allir á stigum I eða II, þar af tveir með meinvörp í miðmætiseitlum Allir sjúklingarnir fóru í skurðaðgerð, oftast blaðnám (87%) en hjá einum sjúklingi þurfti að nema á brott allt lungað. Engir sjúklingar létust innan 30 daga eftir skurðaðgerð. Af 46 sjúklingum hefur aðeins einn (2%) látist úr sjúkdómnum. 


Ályktanir: Carcinoid lungnaæxli virðast álíka algeng hér á landi og í nágrannlöndum okkar. Hegðun þessara æxla er yfirleitt tiltölulega góðkynja en í sumum tilvikum geta þau sáð sér í eitla og jafnvel í önnur líffæri. Árangur skurðaðgerða er góður og langtímahorfur sömuleiðis. 


Heimildir


1. Hallgrimsson JG, et al. Bronchopulmonary carcinoids in Iceland 1955-1984. A retrospective clinical and histopathologic study. Scand J Thorac Cardiovasc Surg 1989; 23: 275-8.


V 27 Miðblaðsheilkenni. Klínísk einkenni og meinafræði


Jón Þorkell Einarsson1, Jónas G. Einarsson1, Helgi J. Ísaksson2, Gunnar Guðmundsson1
1Lungnadeild og 2rannsóknastofa í meinafræði, Landspítala


mailto:jonthorkell@gmail.com

Inngangur: Miðblaðsheilkenni (middle lobe syndrome) er sjaldgæft sjúkdómsástand í miðblaði hægra lunga. Lítið er vitað um klínísk einkenni og meinafræði þess. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna þessi atriði.


Efniviður og aðferðir: Skoðuð voru sjúkragögn sjúklinga þar sem miðblaðið hafði verið fjarlægt árin 1993 til 2006. Þeir fundust með leit í gagnagrunni Rannsóknarstofu í meinafræði Landspítala og sjúkraskýrslur frá klínískum deildum voru kannaðar.


Niðurstöður: Um var að ræða 18 sjúklinga, fimm karla og 13 konur á aldrinum 2-86 ára (meðaltal 53 ár). Algengast var að sjúklingar hefðu endurteknar sýkingar (13) og hósta (12). Einnig uppgang (níu), mæði (átta), brjóstverk (sjö) og blóðhósta (tveir) sem einkenni.


Átta voru með teppusjúkdóm í lungum. Við skoðun heyrðist önghljóð yfir lungum hjá sjö sjúklingum. Tölvusneiðmyndir voru til af öllum sjúklingunum og sýndu þær þéttingu (níu), samfall (níu), berkjuskúlk (sex) og dreifðar þéttingar (fjórar). Hjá einum sást aðskotahlutur í berkju. Vefjafræðilegar greiningar voru berkjuskúlk hjá 10 sjúklingum, trefjavefslungnabólga hjá sex, langvinnar bólgubreytingar hjá fimm, lungnahrun hjá tveimur, einn sjúklinganna hafði æxli við eða í berkju og einn var með aðskotahlut í berkju. Berkjuspeglun hafði verið gerð í 15 sjúklinganna og var fyrirstaða í miðblaðsberkju hjá einum. Ályktanir: Miðblaðsheilkenni var algengt í konum. Endurteknar sýkingar, hósti, uppgangur og mæði voru algeng einkenni. Ýmsar vefjagreiningar koma fyrir en berkjuskúlk er algengast og æxli er sjaldgæft. Fyrirstaða í berkju var sjaldan fyrir hendi. 


V 28 Lungnatrefjun (pulmonary fibrosis). Yfirlit 22 ára á Íslandi


Jónas Geir Einarsson1, Helgi J. Ísaksson2, Gunnar Guðmundsson1 
1Lungnadeild Landspítala, 2Rannsóknastofa HÍ í meinafræði


jonasge@internet.is

Inngangur: Millivefslungnabólgu af óþekktri orsök (idiopathic interstitial pneumonia, IIP) er skipt upp í usual interstitial pneumonia (UIP), nonspecific interstitial pneumonia (NSIP), cryptogenic organizing pneumonia (COP), acute interstitial pneumonia (AIP), respiratory bronchiolitis-associated interstitial lung disease (RB-ILD) og desquamative interstitial pneumonia (DIP) (1). Greining þessara sjúkdóma og flokkun byggir á sértæku vefjamynstri. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna faraldsfræði á Íslandi.


Efniviður og aðferðir: Einungis voru rannsakaðir sjúklingar sem greinst höfðu með sýnatöku í skurðaðgerð eða í krufningu og höfðu ekki aðrar skýringar á sjúkdómi. Leitað var í gagnagrunni Rannsóknastofu HÍ í meinafræði á árunum 1984-2005. Sjúklingum með trefjavefslungnabólgu var sleppt.


Niðurstöður: Á umræddu tímabili voru 45 einstaklingar greindir með millivefslungnabólgu af óþekktri orsök, 30 karlar og 15 konur. Sýnataka með skurðaðgerð greindi 27 en 18 greindust með krufningu. Nýgengi á tímabilinu var 0,76/100.000. Algengasta greiningin var UIP hjá 34, NSIP höfðu fjórir, DIP þrír og hjá fjórum var greining óviss (endastig). Núverandi eða fyrrverandi reykingamenn voru 32/45. Meðferð með sterum var gefin hjá 38/45, súrefni fengu 26/45 og 11/45 fengu ónæmisbælandi meðferð. Í byrjun árs 2006 var 31 látinn en 14 voru á lífi og reyndist meðallifun eftir greiningu vera um fimm ár. 


Ályktanir: Millivefslungnabólgu af óþekktri orsök er sjaldgæfur sjúkdómaflokkur á Íslandi. Dreifing meðal flokka er svipuð og í öðrum rannsóknum. Sjúkdómurinn er algengari hjá karlmönnum og þeim sem reykja. Meðferð er reynd hjá flestum en dánartíðni er há.


1. American Thoracic Society/European Respiratory Society International Multidisciplinary Consensus Classification of the Idiopathic Interstitial Pneumonias. Am J Respir Crit Care Med 2002; 165: 277.


V 29 Áhrif kransæðavíkkunar á heildutengd lífsgæði


Álfhildur Þórðardóttir, Hólmfríður Aðalsteinsdóttir, Karl Andersen
Hjartadeild Landspítala


mailto:andersen@landspitali.is

Inngangur: Kransæðavíkkanir eru árangursrík aðferð til að bæta blóðflæði í hjarta og draga úr sjúkdómseinkennum. Auk þess að minnka hjartaverk hefur verið sýnt fram á að meðferðin bætir heilsutengd lífsgæði. Konur hafa oft ódæmigerð einkenni kransæðasjúkdóms. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort kynjamunur væri í áhrifum kransæðavíkkana á heilsutengd lífsgæði. 


Efniviður og aðferðir: Hjartasjúklingar, sem voru á leið í kransæðavíkkun með stoðnetsísetningu (PCI), svöruðu SF-36v2 spurningalistanum um heisutengd lífsgæði. Að sex mánuðum liðnum var sama próf lagt fyrir aftur og síðan gerð ný hjartaþræðing til að meta endurþrengsli í stoðnetinu. Reiknilíkan spurningalistans gefur niðurstöður fyrir átta mismunandi svið heilsutengdra lífsgæða sem eru dregin saman í tveimur flokkum sem endurspegla líkamlega (PCS) og andlega (MCS) heilsu. Niðurstöður eru bornar saman við meðaltal þýðis heilbrigðra þar sem 50 er meðaltalsgildi í hverjum flokki og staðalfrávik 10 (norm based scoring).


Niðurstöður: Sextíu og fjórir hjartasjúklingar tóku þátt í rannsókninni og voru 12 (19%) konur. Meðalaldur var 63,6 (+/- 9,1) ár. 


Konur hafa marktækt lægra PCS skor (p<0,01) og MCS skor (p<0,001) bæði fyrir og eftir víkkun PCS (p<0,05), MCS (p<0,05).


Ályktanir: Kransæðavíkkun bætir líkamlega þætti heilsutengdra lífsgæða fremur en andlega. Áhrifin eru greinileg meðal karla en ekki marktæk hjá konum. Heilsutengd lífsgæði mælast lægri hjá konum en körlum bæði fyrir og eftir kransæðavíkkun. 


V 30 Endurþrengsli í stoðneti eftir kransæðavíkkun veldur ekki breytingu á heilsutengdum lífsgæðum


Hólmfríður Aðalsteinsdóttir, Álfhildur Þórðardóttir, Kristján Eyjólfsson, Axel F. Sigurðsson, Þórarinn Guðnason, Sigurpáll Scheving, Torfi F. Jónasson, Þorbjörn Guðjónsson, Karl Andersen
Hjartadeild Landspítala


mailto:andersen@landspitali.is

Inngangur: Kransæðavíkkanir eru árangursrík aðferð til að bæta blóðflæði í hjarta og draga úr sjúkdómseinkennum. Sýnt hefur verið fram á að meðferðin bæti heilsutengd lífsgæði. Í um 20-30% tilvika verða endurþrengsli í stoðneti kransæða fjórum til sex mánuðum eftir aðgerðina. Ekki er vitað hvort þetta hafi áhrif á heilsutengd lífsgæði.


Efniviður og aðferðir: Hjartasjúklingar sem voru á leið í kransæðavíkkun með stoðnetsísetningu (PCI) svöruðu SF-36v2 spurningalistanum um heilsutengd lífsgæði. Að sex mánuðum liðnum var sama próf lagt fyrir aftur og síðan gerð ný hjartaþræðing til að meta endurþrengsli í stoðnetinu. Reiknilíkan spurningalistans gefur niðurstöður fyrir átta mismunandi svið heilsutengdra lífsgæða sem eru dregin saman í tveimur flokkum sem endurspegla líkamlega (PCS) og andlega (MCS) heilsu. Niðurstöður eru bornar saman við meðaltal þýðis heilbrigðra þar sem 50 er meðaltalsgildi í hverjum flokki og staðalfrávik 10 (norm based scoring).


Niðurstöður: Þrjátíu og sex sjúklingar hafa komið til nýrrar hjartaþræðingar hálfu ári eftir stoðnetsísetningu. Endurþrenging (>50%) greindist hjá 10 sjúklingum (28%). Meðalaldur var 62,5±9,1 ár.


Ályktanir: Heilsutengd lífsgæði breyttust ekki marktækt hjá þeim sjúklingum sem fengu endurþrengsli í stoðnet. Hins vegar mældist marktækur bati í líkamlega þætti heilsutengdra lífsgæða sem ekki fengu endurþrengsli.


V 31 Áreynsluþolpróf er ekki gagnleg aðferð til að greina endurþrengsli í stoðnetum kransæða


Sandra Dís Steinþórsdóttir1, Sigurdís Haraldsdóttir2, Karl Andersen1,2
1Læknadeild HÍ, 2hjartadeild Landspítala


andersen@landspitali.is

Inngangur: Kransæðavíkkun er árangursrík meðferð við kransæðaþrengslum. Í flestum tilfellum er sett stoðnet til að bæta langtímaárangur meðferðarinnar. Þrátt fyrir góðan árangur víkkunarinnar verða endurþrengsli í stoðneti í allt að 20-30% tilfella innan fjögurra til sex mánaða. Hluti þessara endurþrengsla er án einkenna. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hversu vel áreynslupróf og klínískt einkennamat segja til um hvort að endurþrenging hafi orðið.


Efniviður og aðferðir: Þrjátíu og sex sjúklingar sem komu til kransæðavíkkunar með stoðnetsísetningu voru skoðaðir að hálfu ári liðnu með klínísku einkennamati og áreynsluþolprófi. Einkennamat byggðist á hjartalínuriti og einkennum um áreynslutengda brjóstverki. Áreynsluþolprófið var gert á þrekhjóli og leitað var að hjartalínuritsbreytingum sem bent gætu til endurþrengsla í kransæðum. Að lokum voru endurþrengsli í stoðnetum metin með kransæðaþræðingu.


Niðurstöður: Meðalaldur var 62,5±9,1 ár. Þrjár konur (8,3%) og 33 karlar tóku þátt.


PPV: Positive predictive value


NPV: Negative predictive value


Ályktanir: Hvorki klínísk mat né áreynsluþolpróf voru áreiðanlega til að meta endurþrengsli í stoðnetum en neikvætt spágildi prófanna var nokkuð gott. Áreynsluþolpróf veitir ekki frekari upplýsingar en klínískt einkennamat í þessari rannsókn.


V 32 Greining endurþrengsla í stoðnetum kransæða með sextíu og fjögurra sneiða tölvusneiðmyndatæki


Sigurdís Haraldsdóttir1,3, Birna Jónsdóttir2, Sandra Dís Steinþórsdóttir3, Jónína Guðjónsdóttir2, Axel F. Sigurðsson1, Kristján Eyjólfsson1, Þórarinn Guðnason1, Sigurpáll Scheving1, Ragnar Danielsen1, Torfi Jónasson1, Guðmundur Þorgeirsson1, Kristleifur Kristjánsson4, Hákon Hákonarson4, Karl Andersen1,3
1Hjartadeild Landspítala, 2Læknisfræðileg myndgreining Domus Medica, 3læknadeild HÍ, 4Íslensk erfðagreining 


mailto:andersen@landspitali.is

Inngangur: Endurþrengsli verða í allt að 30% af þeim stoðnetum sem sett eru í kransæðar og takmarkar það verulega meðferðarárangur. Greining endurþrengsla byggir á klínískum einkennum, áreynsluþolprófi og nýrri hjartaþræðingu þegar klínískur grunur er sterkur. Með þessari rannsókn vildum við kanna hversu vel sneiðmyndataka af kransæðum með nýjustu 64 sneiða tækni nýtist við greiningu á endurþrengslum í stoðnetum.


Efniviður og aðferðir: Sjúklingar sem fengið höfðu stoðnet í kransæð vegna kransæðaþrenginga voru kallaðir aftur inn í endurmat að hálfu ári liðnu. Kransæðamyndataka með 64 sneiða CT var gerð og borin saman við niðurstöðu hjartaþræðingar. Marktæk endurþrengsli voru talin til staðar ef þrengslin voru yfir 50% af þvermáli æðarinnar.


Niðurstöður: Þrjátíu og níu sjúklingar (8% konur) með samtals 57 stoðnet voru rannsakaðir. Ellefu stoðnet (í fimm sjúklingum) voru útilokuð, sjö vegna tæknilegra vandamála (kalkbreytinga/atrial fibrillation) og fjögur vegna þess að stoðnetið var minna en 3 mm í þvermál. Meðalaldur (staðalfrávik) var 62,8 (9,1) ár. Af sjúklingum höfðu 72% fjölskyldusögu, 15% höfðu sykursýki, 41% höfðu hækkun á kólesteróli og 28% reyktu. Lyfjahúðuð stoðnet voru notuð í 18% tilfella. Miðtími (25% og 75% dreifing) frá kransæðavíkkun að þræðingu var 191 (181/206) dagur. Miðtími (25%, 75% dreifing) frá CT að hjartaþræðingu var fjórir (-3,4) dagar. Næmni (sensitivity) CT rannsóknar til að greina yfir 50% endurþrengsli í stoðneti var 22%, sértækni (specificity) 80%, jákvætt forspárgildi (ppv) 29% og neikvætt forspárgildi (npv) 74%.


Ályktanir: Sneiðmyndataka af kransæðum með 64 sneiða CT er ný aðferð sem getur gagnast við að útiloka endurþrengsli í stoðnetum. Hins vegar er jákvætt forspárgildi lágt. Aðferðin er í þróun og þörf er á stöðlun viðmiða til greiningar endurþrengsla í stoðnetum.


V 33 Sameindafaraldsfræði pneumókokka í ífarandi sýkingum á Íslandi 1990-2004


Karl G. Kristinsson, Hólmfríður Jensdóttir, Helga Erlendsdóttir, Þóra R. Gunnarsdóttir
Sýklafræðideild Landspítala


karl@landspitali.is

Inngangur: Tilhneiging pneumókokka til að valda ífarandi sýkingum er háð hjúpgerð, en meinvirkni virðist þó geta verði misjöfn meðal stofna innan sömu hjúpgerðar. Markmið rannsóknarinnar var að skoða pneumókokka sem ræktuðust frá ífarandi sýkingum (blóði og mænuvökva) á Íslandi með tilliti til klónasamsetningar og breytinga á tíðni klónanna á 15 ára tímabili.


Efniviður og aðferðir: Ífarandi pneumókokkasýkingar hafa verið skráðar fyrir allt landið síðan 1975 og flestir stofnarnir sem ræktuðust eftir 1990 hafa verið hjúpgreindir og frystir. Gert var næmispróf á öllum lifandi stofnum fyrir oxasillíni, erýþrómýsíni, klóramfeníkóli, trímetóprím-súlfa og tetrasýklíni með skífuprófi og fyrir penisillíni og ceftríaxóni með E-strimlum (oxasillín ónæmir stofnar). Allir stofnarnir voru hjúpgreindir og flestir voru stofngreindir með „pulsed field gel electrophoresis (PFGE)“ á DNA (eftir bútun með SmaI skerðihvatanum).


Niðurstöður: Af 698 pneumókokkum sem höfðu ræktast frá ífarandi sýkingum fundust 492 lífvænlegir stofnar. Minnkað næmi fyrir penisillíni fannst hjá 41 (8,3%), en aðeins einn þeirra stofna var alveg ónæmur. Ónæmi/minnkað næmi fyrir klóramfeníkóli var 5,5%, erýþrómýsíni 8,9%, tetrasýklíni 6,7% og súlfa-trímetóprími 21,2%. Minnkað næmi fyrir penisillíni var 7,7% á árunum 1990-1994, 9,4% á árunum 1995-1999 og 7,8% 2000-2004. Eryþrómýsín ónæmi fyrir sömu tímabil var 8,8%; 8,8% og 9,1%. Algengustu hjúpgerðirnar voru 7F (108), 9V (44), 6B (41), 14 (39), 23F (29), 4 (27) og 19A (22). PFGE stofngreining hefur verið gerð á 343 (70%) af stofnum helstu hjúpgerða. Fjöldi klóna innan hjúpgerða er breytileg. Hjúpgerðir 4, 19A og 3 hafa allar aðeins einn klón, og hjúpgerð 7F aðeins tvo. Allir stofnar hjúpgerðar 1 nema einn tilheyra einum klóni sem birtist fyrst 2002. Hjúpgerð 14 hefur hins vegar átta mismunandi klóna.


Ályktanir: Breytileiki innan hjúpgerða er mismunandi og nýgengi þeirra breytist með tíma sem þó þarf ekki að endurspeglast í nýgengi viðkomandi hjúpgerðar. Þetta skiptir máli þegar meta þarf áhrif nýrra bóluefna. Verið er að PFGE stofngreina pneumókokka frá heilbrigðum börnum á sama tíma til samanburðar.


V 34 Remicade-meðferð við Crohns sjúkdómi og sáraristilbólgu. Árangur af meðferð


Kjartan B. Örvar, Guðmundur Ragnarsson, Margrét Steindórsdóttir, Birna Steingrímsdóttir
Lyflækningadeild St. Jósefsspítala, Sólvangi


kjartan@stjo.is

Inngangur: Tumor Necrosis factor alfa (TNF alfa) gegnir mikilvægu hlutverki í bólgusvari þarma bæði í Crohns sjúkdómi (CD) og sáraristilbólgu (colitis ulcerosa, UC). Anti-TNF alfa (Remicade) hefur verið notað í erfiðum Crohns sjúkdómi frá 1999 og við sáraristilbólgu frá 2005. Tilgangur rannsóknar var að athuga árangur af Remicade-meðferð hjá fyrstu 15 sjúklingunum sem fengu lyfið á lyflækningadeild St. Jósefsspítalans í Hafnarfirði. 


Efniviður og aðferðir: Tólf sjúklingar með Crohns sjúkdóm og þrír með sáraristilbólgu hafa fengið Remicade-meðferð frá 1999 til 15 apríl 2006, alls 154 inngjafir. Lyfjasvörun var talin fullkomin ef sjúklingur var án einkenna og af sterum, hlutasvörun ef viðkomandi var betri, en ekki einkennalaus og enn á sterum. Talið var að um enga svörun væri að ræða ef mikil einkenni voru til staðar og áfram þörf fyrir stera. Fjöldi innlagna og innlagnardaga var skoðaður fyrir og eftir upphaf Remicade-meðferðar. Aukaverkanir voru skoðaðar. 


Niðurstöður: Tólf sjúklingar með Crohns sjúkdóm hafa fengið Remicade og sjö hafa fengið fullkomna svörun, þrír hafa svarað að hluta og tveir svöruðu vel en urðu að hætta á Remicade vegna aukaverkana. Þrír sjúklingar með sáraristilbólgu hafa fengið Remicade og tveir hafa svarað að hluta en einn svaraði ekki og fór í aðgerð. Meðalfjöldi innlagnardaga var 4,46 (0-98 ) fyrir upphaf Remicade-meðferðar, en eftir Remicade 2,06 (1-50).


Aukaverkanir voru eftirfarandi:


Sjúklingur Aukaverkun Remicadegjafir


A. CD Streptókokkahálsbólga 3


Serum sickness viðbragð 4


Aðgerð á ristilþrengslum 5


B. CD Aðgerð á perianal abscess 8


C. CD Sýking eftir hálskirtlatöku 12


Jákvætt Mantoux próf 16


D. CD Svæsin ofnæmisútbrot 1


E. CD Höfuðverkur 4


Ályktanir: Góður árangur hefur náðst með Remicade-meðferð í erfiðum sjúkdómstilfellum af Crohns sjúkdómi en ekki af sáraristilbólgu. Árangur okkar er svipaður og sést hefur í erlendum rannsóknum. Jafnvel þeir sem ekki svara fullkomlega fá greinilegan bata og geta tekið lægri skammta af sterum. Aukaverkanir eru tíðar og eru sýkingar algengar. 


V 35 Faraldsfræði gauklasjúkdóma á Íslandi 1993-1997


Konstantín Shcherbak1, Ólafur Skúli Indriðason2, Viðar Eðvarðsson3, Jóhannes Björnsson4, Runólfur Pálsson2
1Lyflækningasvið I, 2nýrnalækningaeining, 3Barnaspítali Hringsins og 4rannsóknastofa í meinafræði Landspítala


runolfur@landspitali.is

Inngangur: Þótt gauklasjúkdómar séu ein af helstu orsökum lokastigsnýrnabilunar hér á landi, liggja ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar um faraldsfræði þeirra. Þá finnast takmarkaðar upplýsingar meðal annarra þjóða. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna algengi gauklasjúkdóma á Íslandi.


Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tekur yfir 20 ára tímabil, frá 1983 til 2002. Unnið hefur verið úr gögnum frá fimm ára tímabili, 1993-1997. Upplýsingar um vefjagreiningu voru fengnar úr skrám meinafræðideildar Landspítala og klínískar upplýsingar úr sjúkraskrám. Endaleg sjúkdómsgreining var byggð á niðurstöðu meinafræðilegrar rannsóknar með hliðsjón af klínískum þáttum.


Niðurstöður: Á tímabilinu 1993-1997 komu 116 nýrnasýni til rannsóknar á Rannsóknarstofu í meinafræði vegna gruns um gauklasjúkdóm. Nákvæm sjúkdómsgreining var staðfest hjá 101 einstaklingi en í 15 tilvikum var sjúkdómsgreiningin óviss. Algengust var IgA-tengd gauklabólga sem greindist hjá 27 einstaklingum (23,3%), þar af IgA-nýrnamein hjá 21 (18,1%) og Henoch-Schönlein purpura hjá sex (5,2%). Nýrnahersli var næstalgengast en það fannst hjá 16 einstaklingum (13,8%) og reyndust 12 (10,3%) vera með góðkynja nýrnahersli af völdum háþrýstings. Focal segmental glomerulosclerosis (FSGS) greindist hjá 11 (9,5%), mýlildi (amyloidosis) hjá átta (6,9%) og minimal change disease (MCD) hjá sex einstaklingum (5,2%).


Ályktanir: Fyrstu niðurstöður benda til að IgA-nýrnamein sé algengasta tegund gauklasjúkdóms hér á landi eins og víðast annars staðar. Athygli vekur að enginn sjúklingur greindist með membranous nephropathy á framangreindu fimm ára tímabili. Þá er hlutdeild FSGS og MCD lægri en flestar erlendar rannsóknir hafa sýnt. 


V 36 Sameindaerfðafræðileg rannsókn á algengi faraldra sveppasýkinga í blóði


Lena Rós Ásmundsdóttir1, Helga Erlendsdóttir2, Gunnsteinn Haraldsson1,2, Hong Guo3, Jianping Xu3, Magnús Gottfreðsson1,2
1Læknadeild HÍ, 2Landspítali, 3McMaster University, Hamilton, Kanada


magnusgo@landspitali.is

Inngangur: Tíðni alvarlegra sveppasýkinga fer ört vaxandi hér á landi. Dánartíðni sjúklinga með slíkar sýkingar er mjög há. Rannsóknir hafa verið gerðar á útbreiðslu þessara sýkinga en umfang faraldra í stærra samhengi er óljóst. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka sameindaerfðafræðilega eiginleika allra Candida stofna sem ræktuðust úr blóði sjúklinga á Íslandi á 15 ára tímabili og meta þannig umfang faraldra sveppasýkinga í blóði á landsvísu. 


Efniviður og aðferðir: Öllum tiltækum stofnum af Candida sp. sem ræktast höfðu úr blóði sjúklinga á Íslandi 1980-2005 (N=205) var safnað. Arfgerð sveppastofnanna var ákvörðuð með því að magna upp erfðaefnið með AP-PCR. Notaðir voru fjórir vísar: M13, (GACA)4, T3B og PA03. Skyldleikatré voru gerð til að meta innbyrðis skyldleika sveppastofnanna. Hópsýking var skilgreind þegar stofnar af sömu arfgerð ræktuðust frá tveimur eða fleiri sjúklingum á sömu deild á innan við 30 daga tímabili


Niðurstöður: Sveppastofnarnir skiptust þannig: Candida albicans 61,5% (126 stofnar), C. glabrata 14,1% (29), C. tropicalis 10,2% (21), C. parapsilosis 8,3% (17), C. dubliniensis 3,9% (átta) og aðrar Candida tegundir 2% (fjórir). Með því að nota M13 vísinn fundust 62 stofnar C. albicans, átta af C. glabrata, fimm af C. tropicalis, fimm af C. parapsilosis og sjö af C. dubliniensis. Á rannsóknartímabilinu greindust 12 hópsýkingar, tveir stofnar með sambærilega arfgerð í hverri: C. albicans sjö, C. tropicalis þrír, C. glabrata einn og C. parapsilosis einn. Hlutfall sveppasýkinga í blóði sem orsakaðist af útbreiðslu skyldra stofna var því að lágmarki 11,7% (n=24).


Ályktanir: Í óvöldu þýði sjúklinga má álykta að 11,7% sveppasýkinga í blóði hið minnsta megi rekja til lítilla faraldra eða hópsýkinga. Hætta á slíkri útbreiðslu er háð bæði sjúklingahópi og legudeild og reynist vera mest á gjörgæsludeildum.


V 37 Alvarleiki og birtingarmynd ífarandi sýkinga með Streptococcus pyogenes á Íslandi


Lovísa Ólafsdóttir1, Helga Erlendsdóttir2, Magnús Gottfreðsson1,3
1Læknadeild HÍ, 2sýklafræðideild og 3lyflækningadeild Landspítala


magnusgo@landspitali.is

Inngangur: Streptococcus pyogenes er algeng orsök yfirborðssýkinga hér á landi. Í undantekningartilfellum getur sýkillinn borist í blóðrás og þá valdið alvarlegum sýkingum með hárri dánartíðni. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna faraldsfræði ífarandi sýkinga hér á landi ásamt einkennum, meðferð og afdrifum sjúklinga.


Efniviður og aðferðir: Farið var yfir niðurstöður blóð-, lið- og mænuvökvaræktana og sjúkdómsgreiningar á sjúkrahúsum á árunum 1975-2005. Rannsóknarhópinn mynduðu þeir sem höfðu jákvæða ræktun fyrir S. pyogenes eða fengu greininguna sýklalost eða fellsbólga með drepi. Upplýsingar voru fengnar með því að yfirfara sjúkraskrár rannsóknarhópsins. APACHE-II stigunarkerfið var notað til þess að bera sjúklinga saman og meta alvarleika sýkingarinnar við komu á sjúkrahús.


Niðurstöður: Tvö hundruð og sjö tilfelli uppfylltu skilyrði rannsóknarinnar á síðustu 30 árum. Upplýsingar fundust um 192 sjúklinga, 150 fullorðna og 42 börn. Meðalaldur fullorðinna var 62,6 ár og barna 5,1 ár. Fyrstu 10 ár rannsóknartímabilsins var nýgengi sýkinga 0,79/100.000/ár, næstu 10 árin 2,79/100.000/ár og á síðustu 10 árunum var nýgengið 3,43/100.000/ár (p<0,05). Greinilegur árstíðarbundinn munur var á sýkingatíðni, en 28,65% sýkinganna greindust í mars og apríl. Sýkingar í mjúkvefjum ásamt blóðsýkingu var algengasta birtingarformið. ß-laktam lyf voru notuð í 97,2% tilfella. Meðallengd sýklalyfjameðferðar í æð var 11,6 dagar. Dánartíðni sjúklinga var 10,4%.


Ályktanir: Nýgengi ífarandi sýkinga af völdum S. pyogenes hefur aukist á síðastliðnum 30 árum. Alvarlegum sýkingum virðist fara fjölgandi. Áhugavert væri að skoða þessar niðurstöður í samhengi við stofngerðir sýkilsins.


V 38 Meðferð við sykursýki tegund 2 á Heilbrigðisstofnuninni Selfossi


Margrét Dís Óskarsdóttir1, Ragnar Gunnarsson2
1Læknadeild HÍ, 2Heilbrigðisstofnunin Selfossi


mdo@hi.is

Inngangur: Sykursýki er algengur og alvarlegur sjúkdómur (1). Á undanförnum árum hefur komið í ljós að góð stjórn blóðsykurs, blóðþrýstings og fleiri þátta getur seinkað eða komið í veg fyrir langvinna fylgikvilla (2,3) sem valda skerðingu lífsgæða og miklum kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið (1). Árið 2002 voru gefnar út klínískar leiðbeiningar á vegum Landlæknisembættisins um meðferð við sykursýki af tegund 2 og er því tímabært að spyrja hvort slíkt skili sér í bættri meðferð sykursjúkra (4).


Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk og tók til áranna 1999-2003. Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám 60 einstaklinga, völdum handahófskennt úr þýði 130 einstaklinga sem höfðu greininguna sykursýki tegund 2 á þessu tímabili á Heilsugæslustöðinni á Selfossi (2,0% af íbúum svæðisins). Skráð var í töflu hvort og hvaða ár eftirfarandi mælingar/rannsóknir lágu fyrir: hjartalínurit, augnskoðanir, fótapúlsar, taugaskoðanir, blóðþrýstingur og þyngdarstuðull. Öll mæld blóðrannsóknargildi, sem getið er um í klínískum leiðbeiningum, voru einnig skráð.


Niðurstöður: Meðalaldur úrtaksins var 69±11,5 ár. Meirihlutinn voru karlar (59%) og meðalþyngd var 96±21 kg. hjá þeim 76% sem voru vigtaðir á tímabilinu. Meðaltal langtímablóðsykursmælinga, HbA1C, lækkaði úr 7,46±1,2% í upphafi tímabilsins í 6,53±0,7% við lok þess (p<0,01). Blóðþrýstingurinn lækkaði úr 154±17,5 og 83±10,8 mmHg árið 1999 í 138±18,1 og 80±8,4 mmHg árið 2003 (p<0,01). Árið 1999 var heildarkólesteról 5,7±0,7 mmól/l en árið 2003 var það komið niður í 4,7±0,9 mmól/l (p<0,01). Hlutfall sjúklinga, sem náði settum markmiðum leiðbeininga, jókst á tímabilinu (HbA1C: 50 á móti 88%; blóðþrýstingur: 17 á móti 76% og 39 á móti 88%; heildarkólesteról: 35 á móti 71% (p<0,01). Ekki voru marktækar breytingar (p<0,1) í tíðni mælinga. Sérstaklega þarf að auka eftirfarandi þætti: hjartalínurit, tauga- og æðaskoðanir, líkamsþyngdarmælingar sem og vísun til augnlækna.


Ályktanir: Á rannsóknartímabilinu urðu mæld gildi betri og náðu flest markmiðum klínískra leiðbeininga á síðasta ári rannsóknartímabilsins. Þörf er að auka tíðni mælinga. 


Heimildir


1. American Diabetes Association. Economic consequenses of diabetes mellitus in the U.S. in 1997. Diabetes Care 1998; 21: 296-309.
2. UK Prospective Diabetes Study (UKPDS) group. Tight blood pressure control and risk of macrovascular complicantions in type 2 diabetes (UKPDS 38). BMJ 1998: 703-13.
3. DCCT Research Group. The effect of intensive treatment of diabetes in the development and progression of long-term complications in insulin-dependent diabetes mellitus. N Engl J Med 1993; 329: 977-86.
4. Landlæknisembættið. Klínískar leiðbeiningar um greiningu og meðferð sykursýki af tegund 2.

www.landlaeknir.is

Sjá klínískar leiðbeiningar við sykursýki tegund 2.


V 39 Mið- og utanbrúarafmýling í kjölfar leiðréttingar blóðnatríumlækkunar. Sjúkratilfelli


Ólafur Sveinsson1, Runólfur Pálsson1,2
1Lyflækningasvið I og 2nýrnalækningaeining Landspítala


runolfur@landspitali.is


Inngangur: Mið- og utanbrúarafmýling (central pontine and extrapontine myelinolysis) er sjaldgæfur en alvarlegur fylgikvilli of hraðrar leiðréttingar á svæsinni blóðnatríumlækkun (hyponatremia). Þessi fylgikvilli kom nýlega fyrir hjá ungri konu þótt varlega væri farið við meðferð blóðnatríumlækkunar.


Tilfelli: Fjörutíu og þriggja ára gömul kona var lögð inn á Landspítala vegna svæsinnar blóðnatríumlækkunar. Hún hafði haft vaxandi slappleika um einnar viku skeið og kastað upp nokkrum sinnum. Saga var um háþrýsting sem var meðhöndlaður með atenólóli og hýdróklórtíazíði/tríamtereni. Við komu var konan sljó en gat svarað einföldum spurningum og hún var áttuð. Vökvaástand var metið eðlilegt. S-Na var 91mmól/l og S-osmólaþéttni 194 mosm/kg. Hún var einnig með öndunarlýtingu. Þ-Na var 79 mmól/l og Þ-osmólaþéttni 187 mosm/kg. Blóðnatríumlækkun var talin hafa myndast á fremur löngum tíma og því var stefnt að hægfara leiðréttingu. Konan fékk í fyrstu 0,9% NaCl 100 ml/klst og furósemíð 40 mg, hvort tveggja í æð auk þess sem hýdróklórtíazíð/tríamteren var stöðvað. Um 24 klukkustundum eftir komu hafði S-Na hækkað í 98 mmól/l, eftir 48 stundir var það komið í 106 mmól/l og í 118 mmól/l eftir 72 stundir. Samhliða fór meðvitundarástand batnandi. Á fjórða degi fékk konan alflog í þrígang og reyndist S-Na þá 121 mmól/l. Hún jafnaði sig skjótt og ekkert markvert fannst við tölvusneiðmyndun og segulómun af höfði. Á 11. degi fór að bera á vaxandi sljóleika á ný en þá var S-Na orðið eðlilegt. Næstu daga versnaði ástand konunnar verulega með vægri sundurvísun augnhreyfinga, taltruflun, kyngingartregðu og ferlömun. Segulómun sýndi segulskærar breytingar miðsvæðis í brú og í djúphnoðum (basal ganglia) beggja vegna er þóttu samrýmast mið- og utanbrúarafmýlingu. Konan fékk almenna stuðningsmeðferð og síðan endurhæfingu. Hún var útskrifuð af sjúkrahúsinu fjórum mánuðum eftir komu og hafði þá náð nær fullum bata.


Umræða: Þrátt fyrir að hraði leiðréttingar blóðnatríumlækkunar væri innan þeirra marka (<10-12 mmól/l/24 klst) sem ráðlagt hefur verið, þá myndaðist mið- og utanbrúarafmýling. Þetta undirstrikar að þegar blóðnatríumlækkun telst langvinn skal ávallt leiðrétta S-Na eins hægt og kostur er og kann að vera æskilegt að hraði leiðréttingar sé ekki meiri en 6-8 mmól/dag.


V 40 Dánarmein aldraðra á Íslandi


Lilja Sigrún Jónsdóttir1, Ársæll Jónsson2
1Landlæknisembættið, 2öldrunarsvið Landspítala Landakoti


arsaellj@landspitali.is

Inngangur: Dánarmein aldraðra gefa upplýsingar um aldursháða sjúkdóma og er áhugavert að bera þau saman við dánarmein yngri aldurshópa og kanna hvaða breytingar hafa orðið í tímans rás. Skráning dánarmeina samkvæmt alþjóðlegu flokkunarkerfi var tekin upp á Íslandi árið 1911 og fyrir liggja rannsóknir og staðtölulegar upplýsingar til ársins 2003. Á þessum tíma hafa ævilíkur landsmanna aukist um 30 ár.


Efniviður og aðferðir: Upplýsinga var aflað frá krufningarannsóknum á 90 ára og eldri og þær bornar saman við tæplega sjötuga Íslendinga frá 1966-1979, sérstakri krufningarannsókn á hjartameinum aldraðra frá 1951-1980, framsærri þýðisrannsókn á 80 ára og eldri sem létust 1982-1997, dánarorsökum á hjúkrunarheimili 1983-2002 og dánarvottorðum þaðan eftir ICD-10 frá 1997-2002 og loks frá staðtölulegum upplýsingum um samanburð dánarmeina á Norðurlöndum á einstaklingum eldri en 85 ára.


Sérstaklega var könnuð dánartíðni vegna elli (senilitas) úr heilbrigðisskýrslum á Íslandi ásamt samanburðarrannsókn við Evrópulönd.


Niðurstöður: Háaldraðir, 90 ára og eldri, höfðu hærri tíðni öndunarfærasjúkdóma og fleiri framkallandi og meðverkandi sjúkdóma en sjötugir. Háaldraðir höfðu færri æxli og hærri tíðni sjúkdóma í þvagfærum, í heilaæðum og meiri pokamyndanir í ristli. Háaldraðir höfðu lægri tíðni dánarmeina úr kransæðasjúkdómum og sýndu víðtækari skemmdir í hjartavegg en hinir yngri. Glöp, eins og lýst var í dagálum, voru mjög algeng meðal háaldraðra. Niðurstöður krufningarannsókna á einstaklingum um sjötugt sýndu ekki marktæk frávik frá klínískum dánarvottorðum.


Góð fylgni var á milli skráðra dánarorsaka í framsærri rannsókn á 80 ára og eldri og heilbrigðisskýrsla fyrir árið 1990. Um helmingur aldraðra bjó á elli- og hjúkrunarheimili þegar andlát bar að höndum. Krufningum hafði þá fækkað verulega borið saman við eldri rannsóknir. Blóðrásarsjúkdómar voru algengustu dánarmeinin. Elliglöp voru tilgreind í þriðjungi þessara dánarvottorða og aðeins í einu tilviki færð sem dánarmein.


Algengustu sjúkdómar heimilismanna við komu á hjúkrunarheimili í Reykjavík árin 1983-2002 voru heilabilun, kransæðasjúkdómar og beinbrot. Algengustu heilsufarsáföllin á stofnuninni voru sýkingar, hjarta- og heilaáföll og kviðverkir. Algengustu dánarmeinin flokkast sem blóðrásar-, geð- og öndunarfærasjúkdómar. Heilabilunarsjúkdómar töldust aðeins vera um 22% dánarmeina.


Tíðni elli sem dánarmeins var um 24% árið 1911 en lækkaði síðan og féll hratt úr 16% í um 4% um miðja öldina og lækkaði áfram í 0,26% árið 1998 á Íslandi.


Samanburður við önnur Norðurlönd 2002-2003 sýnir að blóðrásarsjúkdómar eru algengastir og elliglöp þar næst, en talsverður munur er á milli landa hvað varðar aðrar greiningar dánarmeina.


Ályktanir: Þessi rannsókn bendir til að gæði dánarvottorða hafi tekið framförum í tímans rás og sé orðin í betra samræmi við sjúkdóma aldraðs fólks en áður var. Skilgreina þarf vægi greiningaraðferða (til dæmis krufninga), reglna um skráningu dánarmeina og breyttrar eiginlegrar tíðni sjúkdóma í skráningu dánarmeina hjá þessum aldurshópi. Góð saga og dómgreind lækna mun áfram leggja grunn að gæðum dánarmeinagreininga.


V 41 Þróun vefjaræktunarlíkans til rannsókna 


á þekjuvef lungna 


Valþór Ásgrímsson1,4, Guðmundur Hrafn Guðmundsson2, Margrét Steinarsdóttir5, Ólafur Baldursson3,6, Skarphéðinn Halldórsson2, Þórarinn Guðjónsson1,4,7
11Læknadeild, 2Líffræðistofnun og 3lyfjafræðideild HÍ, 4Rannsóknastofa í sameinda- og frumulíffræði Krabbameinsfélagi Íslands, 5meinafræðideild, 6lungnadeild og 7blóðmeinafræðideild Landspítala


olafbald@landspitali.is

Inngangur: Aukinn skilningur á þroskun og sérhæfingu lungnafrumna er nauðsynlegur til að hægt sé að kortleggja uppruna og eðli ýmissa lungnasjúkdóma. Skortur hefur verið á frumulínum og vefjaræktunarlíkönum sem endurspegla starfrænt og myndrænt form lungnaþekjufrumna í líkamanum. Markmið þessa verkefnis var að búa til lungnþekjufrumulínu og þróa vefjaræktunarlíkan til rannsókna á þekjuvef lungna. 


Efniviður og aðferðir: Með innleiðslu á HPV-16 veirugenum E6 og E7 í eðlilegar mannaberkjufrumur hefur okkur tekist að búa til frumulínuna VA-10. Frumulínan hefur verið notuð í ýmsum tilraunum í yfir tvö ár (sjá veggspjald um áhrif aziþrómýsíns) og hefur ekki sýnt merki öldrunar. Litningagreining sýnir að í hærri umsáningum hafa orðið einhverjar litningabreytinar en þó minni en í sambærilegum birtum frumulínum. Þá tjáir frumulínan sömu frymisgrindarprótein og fyrsta stigs berkjufrumur í rækt (e. primary cultures). 


Niðurstöður: Þegar frumulínan er ræktuð á gegndræpum himnum myndar hún skautað þekjulag og hátt rafviðnám milli efri (apical) og neðri (basolateral) hluta þekjunnar sem unnt er að mæla með rafviðnámsmæli. Þetta endurspeglar að hún tjáir þéttitengslapróteinflókann sem er mælikvarði á skautun frumnanna. Með mótefnalitunum höfum við sýnt fram á að frumulínan tjáir prótein þéttitengsla. Tjáningin kemur fram sem netlíkt form þar sem próteinin eru staðsett í frumuhimnunni á milli frumna. Við höfum einnig ræktað frumulínuna í svokölluðu air-liquid interface en þá er frumuætið sogað af efri hluta frumnanna svo eini vökvinn sem liggur ofan á þekjunni er sá sem hún framleiðir sjálf, líkt og gerist í mannslíkamanum. Í þrívíðri rækt í millifrumuefni sem líkir eftir aðstæðum in vivo myndar frumulínan skautaða vefjabyggingu sem staðfest hefur verið með frystiskurði og mótefnalitunum gegn ýmsum kennipróteinum fyrir lungnaþekjufrumur.


Ályktanir: Ræktun VA-10 frumulínunnar í umhverfi sem líkir eftir aðstæðum í líkamanum mun nýtast til rannsókna á: 1) sérhæfingu lungnafrumna, 2) sjúkdómsmyndun í lungum, auk þess að vera hentugt líkan til lyfjaprófana.


V 42 Áhrif aziþrómýsíns á þekjuvef lungna


Valþór Ásgrímsson1,4, Þórarinn Guðjónsson1,4,5, Guðmundur Hrafn Guðmundsson2, Ólafur Baldursson3,6
1Læknadeild HÍ, 2Líffræðistofnun og 3lyfjafræðideild HÍ, 
4Rannsóknastofa í sameinda- og frumulíffræði Krabbameinsfélagi Íslands, 5blóðmeinafræðideild og 6lungnadeild Landspítala


olafbald@landspitali.is

Inngangur: Slímseigja (e. cystic fibrosis) er talin stafa af galla í rafhrifum yfir þekjuvef. Rafhrifum er stýrt af þéttitengslum milli frumna og af jónagöngum á yfirborði frumna. Helsta dánarorsök sjúklinga með slímseigju er öndunarbilun vegna langvinnra sýkinga í berkjum. Rannsóknir sýna að leiðrétting á gallanum losar lungnaberkjur við pseudomonas sýkingar. Aziþrómýsín (AZM) er sýklalyf sem bætir líðan sjúklinga með slímseigju, óháð bakteríudrepandi áhrifum þess.


Efniviður og aðferðir: Markmið okkar var að kanna hvort AZM hefði áhrif á rafviðnám yfir lungnaþekju. Við ræktuðum lungnaþekjufrumulínuna VA10 á brunnum með gegndræpri himnu. AZM (0,4; 4,0 eða 40 µg/ml) var sett í frumuætið undir þekjuna og rafviðnám mælt og borið saman við ómeðhöndlaðar frumur. 


Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að AZM jók rafviðnám yfir lungnaþekju, skammtaháð. Sambærilegar niðurstöður fengust þegar fyrsta stigs lungnaþekjufrumur (e. primary cultures) voru ræktaðar við sömu aðstæður. Erýþrómýsín og penisillín höfðu engin áhrif á rafviðnámið. Mótefnalitanir og western blot bentu til þess að tjáning á próteinum þéttitengslaflókans, þar með talið claudin-1 og -4, breyttist við meðhöndlun með AZM. Engin breyting varð á tjáningu E-cadherins sem tilheyrir viðloðunartengslaflókanum. Fyrstu rannsóknir á boðleiðum sem tengjast ferlinu benda til þess að fosfórun á ezrin-radixin-moesin (ERM) próteinum og F-actin komi þar við sögu. ERM prótein skorða meðal annars prótein af í frumuhimnunni og tengjast F-actini en þéttitengslaflókinn er einnig tengdur F-actini í gegnum ZO (e. zonula occludens) próteinin. Auk þess sýndi western blot minnkun í styrk ENaC jónaganganna með hækkandi styrk AZM, sem er áhugavert þar sem starfsemi ENaC er talin of mikil í þekjuvef sjúklinga með slímseigju.


Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til nýrra verkunarmáta AZM og gætu útskýrt gagnsemi þess fyrir sjúklinga með slímseigju og berkjuskúlk (e. bronchiectasis).


V 43 Samanburður á jöfnum er byggja á kreatíníni og cystatín-C í sermi og notaðar eru til mats á gaukulsíunarhraða


Ólafur Skúli Indriðason1, Runólfur Pálsson1,3, Leifur Franzson2, Gunnar Sigurðsson1,3 
1Lyflækningasvið I og 2rannsóknarsvið Landspítala, 3læknadeild HÍ


mailto:osi@tv.is

Inngangur: Þó kreatínín í sermi (S-Kr) sé ónákvæmur mælikvarði á nýrnastarfsemi hefur það verið notað til að meta gaukulsíunarhraða (GSH). Nýlegar rannsóknir benda til að cýstatín-C í sermi (S-CC) sé betri mælikvarði á nýrnastarfsemi. Tilgangur þessarar rannsóknar var að bera saman gaukulsíunarhraða sem reiknaður er með jöfnum er byggja á kreatíníni í sermi og cýstatín-C í sermi.


Efniviður og aðferðir: Við mældum kreatínín í sermi og cýstatín-C í sermi í slembiúrtaki fólks á aldrinum 30-85 ára. Þrjár mismunandi aðferðir voru notaðar til að reikna gaukulsíunarhraða (ml/mín/1,73 m2):


1. Cockroft-Gault (CG)-jafna: GSH=0,84*[(140-aldur)*þyngd *0,85(konur)]/(72*S-Kr)].


2. MDRD-jafna: GSH=186,3*(S-Kr)−1,154 *(aldur)−0.203 *0,742 (konur).


3. CC-jafna: GSH=84,69*S-CC-1,686 *0,948 (konur). 


Við bárum saman gaukulsíunarhraða, sem reiknaður var með þessum þremur jöfnum, og flokkun nýrnastarfsemi í stig byggt á gaukulsíunarhraða: 


Stig I >90, stig II 60-90, stig III 30-60, stig IV 15-30 og stig V <15 ml/mín/1,73 m2. Samræmi milli jafna var reiknað með κ-tölfræði (>0,75 mikið; 0,40-0,75 meðal og <0,40 lítið samræmi).


Niðurstöður: Alls tóku 1630 einstaklingar þátt í rannsókninni. Miðgildi (fjórðungsbil) gaukulsíunarhraða var 89,2 (69,5-110,7) ml/mín/1,73 m2 samkvæmt CG, 80,5 (69,9-92,1) samkvæmt MDRD og 81,6 (62,6-103,4) samkvæmt CC. Eftirfarandi tafla sýnir flokkun nýrnastarfsemi. 


Ekki reyndist mikið samræmi í niðurröðun einstaklinga í stig nýrnastarfsemi samkvæmt jöfnunum, κ var 0,40-0,56. 


Ályktanir: Ekki er mikið samræmi í útreikningum á gaukulsíunarhraða með aðferðum sem notaðar voru í þessari rannsókn. Því miður höfum við ekki nákvæma mælingu á gaukulsíunarhraða til samanburðar og getum því ekki metið hver þeirra er best. 


V 44 Efnaskiptaáhættuþættir fyrir myndun nýrnasteina meðal sjúklinga á nýrnasteinagöngudeild Landspítala


Ólafur Skúli Indriðason1, Viðar Eðvarðsson2, Runólfur Pálsson1,3
1Nýrnalækningaeining og lyflækningasvið I og 2Barnaspítali Hringsins Landspítala, 3læknadeild HÍ


osi@tv.is

Inngangur: Meðal sjúklinga sem fá nýrnasteina er í mörgum tilfellum hægt að greina efnaskiptaáhættuþætti í þvagi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tíðni þessara áhættuþátta meðal sjúklinga á nýstofnaðri göngudeild fyrir sjúklinga á Landspítala með nýrnasteina, en þangað er vísað sjúklingum með endurtekin köst.


Efniviður og aðferðir: Þetta var afturvirk rannsókn á sjúklingum sem komu í nýrnasteinagöngudeild Landspítala frá maí 2005 til loka mars 2006. Sjúklingar gengust undir blóðrannsóknir og söfnuðu sólarhringsþvagi í tvígang. Við mat á efnaskiptaþáttum í þvagi var notast við meðaltal beggja safnana. Hyperoxaluria var skilgreind sem sólarhringsútskilnaður >0,49 mmól, hypercalciuria sem >7,5 mmól (karlar) og >6,5 mmól (konur), hyperuricosuria sem >4,8 mmól (karlar) og 4,5 mmól (konur) og hypocitraturia sem <2 mmól. Of lítill þvagútskilnaður var skilgreindur sem <1 L/24 klst. 


Niðurstöður: Alls hafa 36 einstaklingar gengist undir fullnægjandi efnaskiptarannsókn, 26 karlar og 10 konur. Ein kona greindist með frumkalkvakaóhóf á blóðprófi og safnaði ekki þvagi, hins vegar skilaði einn karl með þekkta cystínmigu þvagsöfnunum. Af þessum 35 sjúklingum voru þrír (8,6%) með þvagútskilnað undir 1 L/24 klst. Hyperoxaluria fannst hjá 11 (31,4%), hypercalciuria hjá sjö (20%), hyperuricosuria hjá níu (25,7%) en hypocitraturia hjá 20 (57,1%). Tveir voru með þrjá áhættuþætti, 16 með tvo og 12 með einn áhættuþátt. Ekki var hægt að sýna fram á áhættuþætti fyrir myndun nýrnasteina hjá fimm sjúklingum samkvæmt skilgreiningu okkar. Af þeim voru tveir með oxalatútskilnað við efri mörk, einn með cítratútskilnað við neðri mörk og kalsíumútskilnað við efri mörk, einn með þvagútskilnað um 1,2 L/24 klst. og kalsíumútskilnað við efri mörk og einn með þvagútskilnað undir 1,2 L/24 klst.


Ályktanir: Sjúklingar sem koma í nýrnasteinagöngudeild Landspítala hafa slæman steinasjúkdóm og meirihluti þeirra hefur að minnsta kosti einn efnaskiptaáhættuþátt. Sértæk meðferð gæti fækkað steinaköstum þessara sjúklinga.


V 45 Langvinn eósínófíllungnabólga á Íslandi


Ólafur Sveinsson1, Helgi J. Ísaksson2, Gunnar Guðmundsson1
1Lungnadeild og 2Rannsóknastofa í meinafræði, Landspítala


olafursv@hotmail.com ggudmund@landspitali.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa langvinnri eósínófíllungnabólgu (LEL) á Íslandi .


Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er aftursæ þar sem upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám árin 1990-2004. Sjúkraskrár voru yfirfarnar, kannaðar voru myndgreiningarrannsóknir og vefjafræðilegar niðurstöður voru endurskoðaðar.


Niðurstöður: Á tímabilinu greindust 10 einstaklingar með langvinna eósínófíllungnabólgu, sjö karlar og þrjár konur. Meðalaldur var 58 ár. Enginn sjúklinganna reykti. Nýgengni sjúkdómsins á tímabilinu var aðeins 0,23 af 100.000/ári en jókst mjög hlutfallslega síðustu fimm árin, í 0,54 af 100.000/ári. Einkenni voru slappleiki, þreyta, hósti, mæði og megrun. Sökk var 72 og CRP 125. Átta af 10 voru með hækkað hlutfall eósínófíla í blóði. Brak heyrðist við hlustun hjá flestum en einnig önghljóð. FVC var 75% af spáðu gildi og FEV1 var 73% af spáðu gildi. Meðalhlutþrýstingur súrefnis (pO2) var 68 mmHg. Allir sjúklingarnir höfðu dæmigerðar dreifðar íferðir beggja vegna og yfirleitt nokkuð útlægar (peripheral). Allir nema einn fengu sterameðferð og allir svöruðu meðferðinni fljótt og vel. Upphafsskammtur með prednisóloni var 42,5 mg. Hjá sjö kom sjúkdómurinn aftur en allir svöruðu endurtekinni sterameðferð.


Ályktanir: Langvinn eósínófíllungnabólga er sjaldgæfur sjúkdómur en þó með einkennandi myndrænt og vefjafræðilegt útlit. Mikilvægt er að hafa hann í huga hjá sjúklingum með dreifðar íferðir sem svara ekki hefðbundinni sýklalyfjameðferð. Sjúkdómurinn svarar vel meðferð með barksterum sem getur þó þurft að endurtaka.


V 46 Notkun samfelldrar blóðskilunar við meðferð svæsinnar blóðnatríumlækkunar hjá sjúklingi með bráða nýrnabilun. Sjúkratilfelli


Ólöf Viktorsdóttir1, Runólfur Pálsson2, Ólafur Skúli Indriðason2
1Svæfinga- og gjörgæsludeild og 2nýrnalækningaeining og lyflækningasvið I Landspítala


mailto:runolfur@landspitali.is

Inngangur: Við meðferð blóðnatríumlækkunar (hyponatremia) er mælt með að leiðrétta S-Na ekki hraðar en um 10-12 mmól/l (mM) á sólarhring til að forðast miðbrúarafmýlingu (central pontine myelinolysis). Meðferð svæsinnar blóðnatríumlækkunar er sérlega vandasöm hjá sjúklingum sem þarfnast skilunarmeðferðar þar sem lægsti Na-styrkur í skilunarvökva er 125-130 mM og því líklegt að leiðrétting á S-Na verði of hröð.


Tilfelli: Fimmtug kona með sögu um langvarandi áfengisneyslu var send á bráðamóttöku Landspítala frá Vogi þar sem hún hafði verið lögð inn til meðferðar tveimur dögum áður. Þar hafði borið á vaxandi slappleika og rugli hjá henni, auk þess sem hún mun hafa dottið og fengið höfuðhögg. Við komu var konan mjög sljó en svaraði þó einföldum spurningum; hún var ekki áttuð. Lífsmörk voru ómarkverð og vökvaástand var metið eðlilegt. Marblettir voru víða á líkama hennar. Blóðrannsóknir sýndu að S-Na var aðeins 92 mM, S-kreatínín 1439 µmól/l, CK 7582 U/l. Tölvusneiðmyndir af höfði voru ómarkverðar.


Strax var hafin meðferð með 0,9% NaCl 100 ml/klst. í æð. Fljótlega kom í ljós alger þvagþurrð og var konan flutt á gjörgæslu. Daginn eftir komu hrakaði konunni hratt og var hún sett í öndunarvél vegna aukinnar meðvitundarskerðingar og öndunarbilunar. Einnig var brýn þörf fyrir skilunarmeðferð. Ákveðið var að beita samfelldri blóðskilun (CVVHD) og var Na-styrk í skilunarvökva haldið 6-10 mM hærri en S-Na. Við upphaf skilunar var S-Na 97 mM. Dagleg hækkun S-Na var mest 7 mM og eftir 10 daga var S-Na 131 mM. 


Eftir þriggja vikna legu hafði nýrnastarfsemi batnað verulega svo unnt var að stöðva skilunarmeðferð. Meðvitund hafði einnig batnað umtalsvert þótt enn bæri nokkuð á rugli. Við útskrift af sjúkrahúsinu átta vikum eftir komu var meðvitundarástand eðlilegt en eftir sat væg kraftminnkun í vinstri handlegg og handskjálfti. Segulómun gerð skömmu fyrir útskrift sýndi engar sjúklegar breytingar í heila eða heilastofni.


Umræða: Meðvitund við komu var skárri en búast mátti við í ljósi svæsinnar blóðnatríumlækkunar og þvageitrunar og því var álitið að þróun blóðnatríumlækkunar hafi verið fremur hæg. Með samfelldri blóðskilunarmeðferð tókst að stýra nákvæmlega hraða leiðréttingar S-Na. Slíkt hefði ekki verið hægt með hefðbundinni blóðskilun. 


V 47 Lifrarbólga C. Árangur tveggja lyfja meðferðar með interferóni og ríbavírini


Ólöf Viktorsdóttir1, Már Kristjánsson2, Arthúr Löve3, Sigurður Ólafsson2
1Svæfinga- og gjörgæsludeild, 2lyflækningasvið I og 3veirufræðideild Landspítala


sigurdol@landspitali.is

Inngangur: Lifrarbólga C er vaxandi vandamál og algeng orsök langvinnrar lifrarbólgu og skorpulifrar. Meðferð lifrarbólgu C byggir á samblandsmeðferð með vikulegum skammti af peginterferóni (P-INF) gefnum undir húð og daglegum skammti af ríbavírini (RV) um munn í 24-48 vikur. Árangur meðferðar fer meðal annars eftir arfgerð veirunnar og meðferðarfylgni. Tilgangur rannsóknarinnar er að meta árangur lyfjameðferðar á Íslandi, meðferðarfylgni og aukaverkanir.


Efniviður og aðferðir: Um er að ræða aftursæja rannsókn á sjúklingum sem fengu meðferð með peginterferóni og ríbavírini á árunum 2001-2004 á Landspítala. Aflað var upplýsinga um aldur, smitleið, arfgerð og gang meðferðar.


Niðurstöður: Alls fékk 41 sjúklingur meðferð með peginterferóni og ríbavírini. Karlar voru 27 (66%) og meðalaldur 38 ár. Langflestir (73%) höfðu sögu um að sprauta sig með fíkniefnum. Enginn var með lifrarbólgu B en einn (2%) með jákvætt HIV-próf. Alls höfðu 27 (66%) arfgerð 3A, 13 (32%) arfgerð 1 en arfgerð var óþekkt hjá einum (2%). 


Tuttugu og níu (71%) luku fullri meðferð. Samtals var 21 (51%) með neikvætt PCR fyrir lifrarbólguveiru C 24 vikum eftir lok meðferðar og þar með taldir læknaðir. Af þeim sem luku fullri meðferð læknaðist 21 (72%). Fjórir (14%) þeirra sem luku meðferð svöruðu henni ekki og fjórir (14%) mættu ekki í eftirlit eftir að meðferð lauk þannig að óljóst er um afdrif þeirra. Af 27 sjúklingum með arfgerð 3A voru 18 (66%) taldir læknaðir en aðeins þrír (23%) af 13 með arfgerð 1.


Tólf (29%) luku ekki áætluðum meðferðartíma, þar af þrír (7%) vegna lélegrar meðferðarfylgni og fjórir (10%) vegna aukaverkana. Hjá fimm (12%) voru skammtar minnkaðir vegna aukaverkana en helstu aukaverkanir voru þunglyndi, blóðleysi og afturhvarf til neyslu. 


Ályktanir: Um helmingur sjúklinga með lifrarbólgu C sem fær meðferð með peginterferóni og ríbavírini læknast. Árangur er betri hjá sjúklingum með arfgerð 3A. Árangur er svipaður og lýst er í erlendum rannsóknum.


V 48 Um notagildi PFA-100® lokunartíma við greiningu á frumstorkugöllum


Margrét Ágústsdóttir1, Brynja R. Guðmundsdóttir1, Páll Torfi Önundarson1,2
1Blóðmeinafræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ


pallt@landspitali.is

Inngangur: von Willebrand sjúkdómur (VWD) og ýmsir blóðflögugallar valda afbrigðilegri blæðingarhneigð vegna truflunar á myndun frumstorku. Erfitt getur reynst og kostnaðarsamt að greina þessa sjúkdóma sökum breytileika í mælingum og skorts á góðu skimprófi. Við rannsökuðum notagildi lokunartíma (closure time mælt á Platelet function analyzer, PFA-100® frá Dade-Behring) til skimunar fyrir mismunandi svæsnum frumstorkugöllum.


Efniviður og aðferðir: Rannsakaðir voru allir þeir 266 einstaklingar, sem vísað hafði verið til rannsóknar vegna blæðingarhneigðar á tímabilinu 2000 til 2005 og gerð hafði verið á fullkomin rannsókn með tilliti til þess. Bornar voru saman greiningar og niðurstöður lokunartíma (closure time, CT c/epi og CT c/ADP), von Willebrand þáttar (VWF) og blóðflögukekkjunar. 


Helstu niðurstöður: Lokunartímar CT c/epi og c/ADP lengjast stighækkandi við lækkandi VWF, og lengjast upp fyrir mælisvið við Bernard-Soulier heilkenni. Við aðra blóðflögugalla fer CT c/epi hækkandi eftir því hve svæsinn blóðflögugallinn er samkvæmt kekkjunarprófi en CT c/ADP lengist ekki. Mesta lengingin á CT c/epi við blóðflögugalla, aðra en Bernard-Soulier heilkenni, er eftir aspiríninntöku. Bæði CT c/epi og CT c/ADP höfðu marktæka neikvæða fylgni við VWF-virkni (mæld sem ristocetin cofactor eða collagen bindigeta VWF). 


Ályktanir: Lokunartími CT c/epi lengist stigvaxandi við vaxandi frumstorkugalla en CT c/ADP lengist aðeins við lækkun á VWF og Bernard-Soulier heilkenni. Þannig virðist CT c/ADP ef til vill vera sérstaklega næmur fyrir göllum í viðloðunareiginleikum blóðflagna (sem tengjast VWF og/eða GPIb viðtakanum á blóðflögum), en CT c/epi virðist vera næmt fyrir bæði viðloðunar- og samloðunareiginleikum. 


V 49 Tengsl stærðar QRS-útslaga á hjartalínuriti við dánartíðni karla


Steinunn Þórðardóttir1, Thor Aspelund2, Árni Grímur Sigurðsson1, Vilmundur Guðnason2, Þórður Harðarson1
1Lyflækningasvið I Landspítala, 2Hjartavernd


steinunnt@internet.is

Inngangur: Þykknun vinstri slegils er mikilvægt teikn þar sem henni fylgja auknar líkur á hjartabilun, takttruflunum, kransæðastíflu, skertu útfallsbroti, skyndidauða, ósæðargúl og heilaáfalli. Hefð er fyrir að greina þykknaðan vinstri slegil með stórum QRS-útslögum á hjartalínuriti og eru ýmis líkön notuð í þeim tilgangi, þar á meðal Minnesota-líkanið sem Hjartavernd styðst við. Rannsóknin fólst í því að kanna forspárgildi líkansins varðandi dánartíðni og sjúkrahlutfall karla og finna þá stærð QRS-útslaga sem hefðu mest næmi og sértæki þar að lútandi.


Efniviður og aðferðir: Í tilfellahópnum voru þeir karlar sem greindust með þykknaðan vinstri slegil samkvæmt hjartalínuriti í Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar (n=209). Samanburðarhópinn skipuðu hinir þátttakendur rannsóknarinnar (n=8896). Skilmerki varðandi stærð QRS-útslaga voru þrengd kerfisbundið og dánartíðni og sjúkrahlutfall þeirra sem uppfylltu þrengri skilmerki borin saman við hina. Þeir sem ekki uppfylltu þrengd skilmerki fluttust í samanburðarhóp. 


Niðurstöður: Ekki fannst marktækur munur á dánartíðni og sjúkrahlutfalli þeirra sem uppfylltu skilmerki Minnesota-líkansins um þykknun vinstri slegils og þeirra sem gerðu það ekki. Þegar skilmerkin voru þrengd fannst aðeins ein samsetning sem gaf marktæka aukningu á dánartíðni (p=0,04):


R í aVL >18 mm


R í I, II, III eða aVF >20 mm


R í V5 eða V6 >34 mm


Þó sást leitni í þá átt að stærri útslögum fylgdi aukning á dánartíðni, en sú leitni var ekki sterk. Eins fannst engin samsetning skilmerkja sem sameinaði gott næmi og sértæki.


Ályktanir: Stærstu QRS-útslögum á hjartalínuriti fylgir aukning á dánartíðni og sjúkrahlutfalli af völdum hjarta- og æðasjúkdóma. Leitnin í þessa átt er þó ekki sterk og virðist helst um að kenna hversu lágt hlutfall karla (0,5%) hafa nægilega stór útslög til að fram komi marktækur munur á þeim og þeim sem ekki ná að uppfylla svo ströng skilyrði. Því má segja að stærð QRS-útslaga á hjartalínuriti sé ófullkomið tæki til forspár um dánartíðni karla.


V 50 Hjartamýlildi


Theódór Skúli Sigurðsson1, Jón Þór Sverrisson1, Jóhannes Björnsson2
1Lyflækningadeild FSA, 2meinafræðideild HÍ


theodor@fsa.is

Tilfelli: Fimmtíu og sjö ára gamall maður, almennt heilsuhraustur, án þekktra áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma, leitaði til hjartalæknis í janúar 2002 vegna brjóstverkja við áreynslu. Við áreynslupróf koma fram 2 mm ST-lækkanir í vinstri brjóstleiðslum sem vekja grun um kransæðasjúkdóm auk þess sem ísótópaskann af hjarta er jákvætt. Hjartaómun er hins vegar eðlileg og hjartaþræðing skömmu síðar sýnir engar marktækar þrengingar á kransæðum. Tímabundið hlé var á einkennum næstu mánuði. Á vormánuðum 2003 fer svo að bera á auknum einkennum, með vaxandi þróttleysi og bjúgsöfnun. Endurtekin hjartaómun sýnir miklar breytingar samanborið við fyrri rannsókn. Merki er um restrictive hjartasjúkdóm og vaknar strax grunur um hjartamýlildi (cardiac amyloidosis). Frekari rannsóknir leiða í ljós sjúkdóm í blóðmerg (AL amyloidosis). Vegna sterks gruns um hjartamýlildi er ákveðið að taka hjartavöðvasýni sem sýnir klárar mýlildisútfellingar og staðfesta greiningu. Hafin var ónæmisbælandi lyfjameðferð í júlí 2003 í samráði við blóðmeinasérfræðing. Áður en meðferð gat hafist að fullu lést maðurinn skyndidauða í ágúst 2003.


Umræða: Hjartamýlildi er skilgreint sem uppsöfnun mýlildis-útfellinga í hjartavöðva með klínískum einkennum um vanstarfsemi í virkni hjartavöðvans eða leiðslukerfi hjartans. Sjúkdómurinn getur verið erfiður í greiningu, orsök er oftast vegna sjúkdóms í blóðmerg, en langvarandi bólgur eða sýkingar, erfðagallar, nýrnaskiljun og hár aldur geta líka verið orsök. Meðferðarúrræði eru fá, hjartaskipti hafa verið reynd með takmörkuðum árangri. Sjúkdómsgangur er yfirleitt hraður og horfur afar slæmar. Meðallifun einstaklinga með hjartabilun er sex til níu mánuðir, en rúmir 12 mánuðir hjá einstaklingum með vægari einkenni frá hjarta.


V 51 Algengi ofnæmis í frumbernsku í Póllandi


Iwona Maria Gabriel, Krystyna Stencel-Gabriel
Medical University of Silesia Póllandi, Landspítali


ginsiar@interia.pl magnij@landspitali.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að ákvarða algengi ofnæmis meðal ungbarna í Silesiu í suðurhluta Póllands.


Efniviður og aðferðir: Rannsóknin fór fram milli 2002 og 2005 í stærsta þéttbýlissvæði Póllands (18.000.000 íbúa eða um 20% íbúafjölda Póllands). Rannsóknarþýðið samanstóð af 500 ungbörnum mæðra, á þremur fæðingardeildum, sem féllust á að taka þátt í rannsókninni og töku blóðs úr naflastreng við fæðingu. Rannsóknin hófst á fæðingardeildinni og börnunum var fylgt eftir við þriggja, sex, 12 og 18 mánaða aldur með læknisskoðun og heildar-IgE við fæðingu, 12 og 18 mánaða aldur, sérstök IgE-mæling gerð við þriggja, 12 og 18 mánaða aldur. SPT við sex mánaða aldur og frumuflæðirannsókn við fæðingu, 12 og 18 mánaða aldur. Einkennum barnanna var skipt í fjóra hópa: 1. ofnæmisútbrot, 2. meltingarfæraeinkenni (uppköst, kviðverkir), 3a. ofnæmiskvef, 3b. útþot (urticaria), 4. barkateppa.


Niðurstöður: Af 500 þátttakendum luku 180 eftirliti frá fæðingu til 18 mánaða aldurs. Í þessum hópi var algengi ofnæmisútbrota 13,9% (25 af 180), ofnæmiskvef 15,6% (28 af 180), útþot 8,4% (15 af 180), fæðuóþol 4,4% (átta af 170) og barkateppa 10% (18 af 180).


Ályktanir: Ofnæmisútbrot hafa verið talin einkenna ofnæmishneigð í frumbernsku en ofnæmiskvef og nefeinkenni eru jafnmikilvæg merki um ofnæmishneigð hjá ungbörnum.


V 52 Endurkomutíðni nýrnasteina á Íslandi


Viðar Eðvarðsson1, Runólfur Pálsson2,3, Ólafur S. Indriðason2
1Barnaspítali Hringsins og 2nýrnalækningaeining og lyflækningasvið I, Landspítala; 3læknadeild HÍ


runolfur@landspitali.is Inngangur: Nýrnasteinar eru algengt heilsufarsvandamál á Vesturlöndum þar sem 10-15% karla og 5-7% kvenna fá nýrnasteina fyrir 70 ára aldur. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að endurkomutíðni er um það bil 50% innan 10 ára frá greiningu. Markmið rannsóknarinnar var að kanna endurkomutíðni meðal íslenskra nýrnasteinasjúklinga.
Efniviður og aðferðir: Leitað var að sjúkdómsgreiningum sem gáfu til kynna nýrnasteina í gagnagrunnum á Landspítala, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og Læknisfræðilegri myndgreiningu frá 1983-2003. Sjúklingar sem greindust með stein sex mánuðum eða seinna eftir fyrstu greiningu voru taldir hafa fengið annan stein. Sjúklingum var skipt í hópa eftir kyni, ári greiningar (1983-87, 1988-92, 1993-97 og 1998-2003) og aldri (innan við 18, 18-30, 30-60 og yfir 60 ára) við fyrstu greiningu nýrnasteins. Kaplan-Meyer aðferð var notuð til þess að meta lifun án steinamyndunar og log-rank próf til að bera saman hópa.
Niðurstöður: Á tímabilinu greindust 6053 sjúklingar með fyrsta nýrnastein, 3781 karl (meðalaldur 53,1+17,9 ár) og 2272 konur (49,9+20,0 ár). Meðallengd eftirfylgni var 9,3±5,9 ár og fengu 1513 (25%) sjúklingar stein aftur, 972 karlar og 541 kona. Kaplan-Meyer greining sýndi að 20% sjúklinga höfðu fengið annan stein eftir fimm ár, 28% eftir 10 ár og 35% eftir 20 ár. Endurkomutíðni var marktækt hærri hjá sjúklingum á aldrinum 30-60 ára en hjá fullorðnum í öðrum aldurshópum (p=0,0014) og var 40% borið saman við 29% eftir 20 ár. Sjúklingar yngri en 18 ára voru ekki líklegri en fullorðnir til að endurmynda steina. Engin tengsl voru milli kyns, greiningarárs og endurmyndunar steina.
Ályktanir: Endurkomutíðni nýrnasteina í okkar rannsókn er lægri en í sambærilegum erlendum rannsóknum. Hugsanlegt er að munur á aldurssamsetningu okkar þýðis og annarra skýri þennan mun því endurkomutíðni er hæst hjá sjúklingum á miðjum aldri. 


V 53 Notkun ytri öndunarvélar á Landspítala


Þórunn Helga Felixdóttir1, Gunnar Guðmundsson2, Felix Valsson3
1Læknadeild HÍ, 2lungnadeild og 3svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala


thhf@hi.is

Inngangur: Meðferð með ytri öndunarvél hefur á síðustu árum komið fram sem nýtt meðferðarúrræði við bráðri öndunarbilun á Landspítala. Sýnt hefur verið fram á ýmsa kosti þessarar meðferðar miðað við hefðbundna öndunarvélarmeðferð. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna notkun ytri öndunarvélar á Landspítala og hvort notkunin samræmist erlendum rannsóknum og klínískum leiðbeiningum.


Efniviður og aðferðir: Fylgst var með 57 sjúklingum sem fengu meðferð með ytri öndunarvél 70 sinnum á fjórum mánuðum, frá 1. janúar til 1. maí 2005. 


Niðurstöður: Sjúklingar voru á aldrinum 40 til 94 ára, meðalaldur var 70±11 ár. Karlar voru 60% sjúklinganna og var meðalaldur þeirra 68 ár, en 73 ár hjá konum (p<0,05). Dánartíðni karla var marktækt lægri en kvenna (17% miðað við 38%; p<0,05). Blóðgös voru mæld í 73% tilvika fyrir meðferð. Í 48% tilvika hóf deildarlæknir meðferðina, í 30% svæfinga- og gjörgæslulæknir, í 13% lungnalæknir og í 4% hjartalæknir. Algengustu orsakir meðferðar voru lungnabólga (34%), langvinn lungnateppa (LLT) versnaði (31%) og hjartabilun (27%). Meðferð hófst á bráðamóttöku í 25% tilvika, í 35% á gjörgæslu og í 40% á almennri deild. Helstu aukaverkanir voru húðóþægindi hjá 6% sjúklinga og þoldu 10% ekki meðferðina. Innri öndunarvélarmeðferð með barkaþræðingu þurfti í 19% tilvika. Alls létust 26% sjúklinganna.


Ályktanir: Dánartíðni kvenna var hærri en karla. Þetta gæti skýrst af hærri meðalaldri kvenna og mismunandi orsökum fyrir meðferðinni. Konur voru oftar meðhöndlaðar vegna langvinnrar lungnateppu og karlar oftar vegna hjartabilunar. Í þessari rannsókn voru blóðgös tekin sjaldnar en í sambærilegum erlendum rannsóknum og sjaldnar en mælt er með í klínískum leiðbeiningum. Meðferð með ytri öndunarvélum er orðin viðurkennd sem góður möguleiki í meðferð öndunarbilunar. Athuga mætti hvort betri skráning og leiðbeiningar geti bætt meðferðina frekar.


Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica