Ágrip erinda

Ágrip erinda

E 1 Endurþrengsli í stoðnetum kransæða. Tengsl við stærð stoðnets, sykursýki og áhættuþætti kransæðasjúkdóms

Karl Andersen, Axel F. Sigurðsson, Þórarinn Guðnason, Sigurpáll Scheving, Torfi Jónasson, Ragnar Danielsen, Guðmundur Þorgeirsson, Kristján Eyjólfsson Hjartadeild Landspítala andersen@landspitali.is

Inngangur: Kransæðavíkkanir eru gerðar til að bæta blóðflæði og minnka einkenni kransæðasjúkdóms. Þrátt fyrir góðan árangur meðferðarinnar í upphafi er algengt að æðin þrengist aftur þar sem hún var víkkuð. Notkun stoðneta hefur dregið talsvert úr tíðni endurþrengsla sem verða samt sem áður í um 25-30% tilvika. Endurþrengsli myndast vegna ofholdgunar í æðavegg (intimal hyperplasia) oftast innan tveggja til sex mánaða frá inngripinu. Erfitt hefur reynst að spá fyrir um hvaða sjúklingar koma til með að mynda endurþrengsli.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar sem komið hafa til kransæðavíkkunar og stoðnetsísetningar á 11 ára tímabili (1993-2003) voru rannsakaðir. Eftirfylgni var að minnsta kosti eitt ár eftir stoðnetsísetningu. Hjá þeim sjúklingum sem síðar komu til nýrrar hjartaþræðingar var leitað að endurþrengslum (>50% af þvermáli æðarinnar).

Niðurstöður: Tvö þúsund átta hundruð og ellefu kransæðavíkkanir með stoðnetsísetningu voru framkvæmdar á 2495 sjúklingum á tímabilinu. Af þessum sjúklingum komu 747 (30%) aftur til hjartaþræðingar og greindust 257 (34%) þeirra með endurþrengsli. Tengsl endurþrenginga við nokkra áhættuþætti eru sýnd í töflu I.


Hlutfall með endurþrengsli (%)


p


Lengd stoðnets 20 mm+

51

0,001

Lengd stoðnets <20 mm

32

 

 

 

Þvermál stoðnets 3,5 mm+

28

0,002

Þvermál stoðnets <3,5 mm

39

 

Sykursýki

37

0,61

Ekki sykursýki

34

 
Háþrýstingur

37

0,81

Ekki háþrýstingur

32

 

 

 

 

Karlar

37

0,03

Konur

27

 

 

 

 

Reykja

32

0,66

Reykja ekki

35

 Ályktanir: Endurþrengsli voru algengust í lengri og grennri stoðnetum og er það í samræmi við fyrri rannsóknir. Hins vegar fundust ekki tengsl við sykursýki eins og þekkt er í erlendum rannsóknum og er það hugsanlega vegna betri meðferðar við sykursýki hér en víðast erlendis.

 

E 2 Stofngreining á Streptococcus pyogenes stofnum úr ífarandi sýkingum á Íslandi árin 1988-2005


Hrefna Gunnarsdóttir1, Helga Erlendsdóttir2, Þóra Rósa Gunnarsdóttir2, Magnús Gottfreðsson3, Karl G. Kristinsson2

1Háskólinn í Reykjavík, 2sýklafræðideild og 3smitsjúkdómadeild Landspítala

helgaerl@landspitali.is

Inngangur: Ífarandi sýkingar af völdumStreptococcus pyogenes geta verið mjög skæðar. Nýleg íslensk rannsókn sýnir að nýgengi þessara sýkinga hefur aukist síðastliðna áratugi. Ákveðnar stofngerðir og ákveðin úteitur (aðallega Spe A og Spe C) hafa verið tengd aukinni meinvirkni. Stofngreiningar hafa hins vegar aðallega verið gerðar á völdum hópum eða í faröldrum. Skort hefur rannsóknir sem ná yfir heila þjóð og lengri tíma.

Efniviður og aðferðir: Til eru 145 stofnar á sýklafræðideild Landspítala úr ífarandi sýkingum á landinu öllu af völdum S. pyogenes, þeir elstu frá árinu 1988. Jafnframt liggja fyrir upplýsingar um dagsetningu sýkingar, aldur sjúklings, kyn, sýkingarstað og afdrif. Gerð var T-prótein greining á öllum stofnunum. Jafnframt voru þeir stofngreindir með skerðiensímum og rafdrætti (PFGE). Að auki var leitað að tilvist spe úteitursgena með PCR aðferð í 40 nýjustu stofnunum, eða öllum stofnum síðastliðinna fjögurra ára.

Niðurstöður: Algengasta T-próteingerðin var T-1 (36 alls eða 25%) og voru þeir stofnar aðallega frá tveimur klónum. Algengasti klónninn var 1.001 (+1.002), en 24 stofnar tilheyrðu honum, og voru þeir flestir af próteingerð T-1. Próteingerðirnar T-4 og T-12 voru algengari hjá börnum, en T-28 hjá fullorðnum. Marktækt fleiri fullorðnir létust er höfðu T próteingerð T-1 í samanburði við þá sem höfðu aðrar próteingerðir (p=0,009). Dauðsföll voru einnig marktækt algengari meðal þeirra sem höfðu klón 1.001 (p=0,003). Af 40 nýjustu stofnunum reyndust allir hafa speB, 35% speA og 45% speC. Aðeins einn sjúklingur hefur látist síðastliðin fjögur ár og var stofn hans af próteingerð T-1 og hafði öll spe genin.

Ályktanir: Alvarleiki ífarandi sýkinga með S. pyogenes tengist ákveðnum T-próteingerðum og klónum. Meira en helmingur sjúklinganna sem létust sýktust af sama klóni. Sá klónn hefur verið viðvarandi allt rannsóknartímabilið, en tíðni hans hefur lækkað undanfarin sex ár og kann það að eiga þátt í því að horfur sjúklinga hafa batnað. Þessar niðurstöður benda einnig til að rétt sé að skoða klíníska birtingarmynd í samhengi við stofngerðir S. pyogenes.
E 3 Greining á meðgöngusykursýki hefur áhrif á fæðingarmáta og útkomu barna óháð fæðingarþyngd þeirra


Ína K. Ögmundsdóttir1, Ástráður B. Hreiðarsson1, Bertha María Ársælsdóttir1, Þórður Þórkelsson2, Reynir Tómas Geirsson3, Hildur Harðardóttir3, Arna Guðmundsdóttir1

1Göngudeild sykursjúkra, 2barnadeild og 3kvennadeild Landspítala

kariind@mmedia.is


Inngangur: Rannsókn beinist að því hvort meðgöngusykursýki hefur áhrif á fæðingarmáta og fæðingarútkomu barna meðal íslenskra kvenna á árunum 2002-2003.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og byggir á sjúkraskýrslum. Hún náði til 185 kvenna sem greindar voru með meðgöngusykursýki (sykurþolspróf samkvæmt WHO) á árunum 2002-2003.

Niðurstöður: Tíðni meðgöngusykursýki var 2,4% árið 2002 og 3,1% 2003. Mæðurnar fengu allar leiðbeiningar um mataræði og 40% kvennanna voru meðhöndlaðar með insúlíni að auki. Meðalfæðingarþyngd barnanna var 3693 gr. 27% barnanna voru >4000 gr. og 5% voru >4500 gr. Meðalmeðgöngulengd var um 39 vikur. Það var marktæk tilhneiging hjá konum með líkamsþyngdarstuðul (BMI) yfir 35 að fæða þung börn. Fæðing var framkölluð hjá 47% kvennanna samanborið við 14% almennt. Með vaxandi þyngd móður jukust líkur á gangsetningu. Í 67% tilfella var um að ræða fæðingu um leggöng og þar af 5% með sogklukku/töng. Keisarafæðingar voru 33%. Það var enginn munur á fjölda keisaraskurða við framkallaða eða eðlilega (spontan) fæðingu hjá mæðrum með líkamsþyngdarstuðul undir eða yfir 30 eða þegar börnin eru undir eða yfir 4000 gr. Af börnunum voru 10% greind með sykurfall og 9% með gulu.

Ályktanir: Meðgöngusykursýki þrefaldar líkurnar á gangsetningu fæðingar og tvöfaldar líkurnar á keisaraskurði miðað við almennt, jafnvel þó að fæðingarþyngd barnanna sé álíka. Börnin hafa hærri líkur á að fá sykurfall og gulu miðað við almennt.
E 4 Samanburður á segavörnum á Landspítala á árunum 1992 og 2006


Kristín Ása Einarsdóttir1, Brynja R. Guðmundsdóttir1, Páll Torfi Önundarson1,2

1Blóðmeinafræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ

pallt@landspitali.is


Inngangur: Árið 1992 var gerður samanburður á notkun prótrombíntíma (PT) og prótrombín–prókonvertíntíma (PP) við skömmtun K-vítamínhemla (KVH) á Landspítalanum. INR gildi reiknuð samkvæmt PP prófi reyndust algerlega sambærileg við INR samkvæmt prótrombíntíma og í ljósi þess hefur áfram verið skammtað eftir PP prófi. Árið 1992 voru K-vítamínhemlar skammtaðir af hjartalæknum og tókst að halda sjúklingum innan meðferðarmarkmiðanna INR 2,0-3,0 um 37% meðferðartímans en 51% voru innan markanna 2,0-4,5. Nær 50% meðferðartímans fengu sjúklingar blóðþynningu innan við INR 2,0. Rannsóknin 1992 leiddi einnig í ljós, að blæðingarhætta var fyrst og fremst hjá einstaklingum með INR yfir 6,0. K-vítamínhemlar voru skammtaðir árið 2006 af sérhæfðu starfsfólki með hjálp tölvuforritsins DAWN AC.

Efniviður og aðferðir: Árið 2006 var með þverskurði borin saman blóðþynning (anticoagulation intensity) þriggja sambærilegra ábendingarhópa á einum tímapunkti úr rannsóknarhópnum frá 1992 og úr hópi skjólstæðinga segavarna 2006.

Helstu niðurstöður: Sjúklingar með gáttatif voru innan markgilda INR 2,0-3,0 í 43% tilvika árið 1992 en 65% tilvika árið 2006 (49% aukning) og sjúklingar með bláæðasega með eða án segareks til lungna í 35% á móti 65% tilvika (86% aukning). Sjúklingar með gervihjartalokur (mechanical heart valves, MHV) voru innan markgilda 2,5-3,5 í 30% tilvika 1992 á móti 51% árið 2006 (70% aukning). Séu meðferðarmarkmið víkkuð um +/- 0,2 INR-stig eru í sömu röð árið 2006 83%, 78% og 66% sjúklinga innan markgilda. Tölvuskammtar eru ýmist auknir eða dregið úr þeim í 21% tilvika við markgildin INR 2,0-3,0 en í 36% tilvika þegar markgildin eru 2,5-3,5.

Ályktanir: Árangur segavarna mældur sem blóðþynning innan marka hefur batnað verulega á tímabilinu en árangur mætti þó enn batna hjá sjúklingum með gervihjartalokur. Líklegt er að DAWN AC eigi þátt í þessum árangri.E 5 Algengi sykursýki af tegund 2 og

efnaskiptavillu á Íslandi 1967-2002


Jóhannes Bergsveinsson1, Thor Aspelund2, Vilmundur Guðnason2, Rafn Benediktsson1,2,3

1Læknadeild HÍ, 2Hjartavernd, 3innkirtladeild Landspítala

johannes@mi.is


Inngangur: Algengi sykursýki af tegund 2 (SS2) og efnaskiptavillu (metabolic syndrome) hefur aukist gríðarlega í hinum vestræna heimi en einnig í svokölluðu þróunarlöndum. Á síðustu árum hafa verið lögð til ný og mismunandi greiningarskilmerki fyrir sykursýki sem leitt hefur til ósamræmis hvað algengistölur varðar. Tilgangur þessarar rannsóknar er að meta algengi sykursýki af tegund 2 og efnaskiptavillu á Íslandi á tímabilinu 1967-2002 með mismunandi greiningarskilmerkjum (WHO 1985, ADA 1997, WHO 1999).

Efniviður og aðferðir: Notuð voru gögn úr þremur rann–sóknum Hjartaverndar: Hóprannsókn Hjartaverndar, Afkom–endarannsókninni og Rannsókn á ungu fólki. Alls voru þetta 16.184 einstaklingar 7747 karlar og 8437 konur. Skoðað var aldursbilið 45-64 ára. Rannsóknartímabilinu var skipt niður í fimm þversniðstímabil, 1967-1972, 1974-1979, 1979-1984, 1985-1991 og 1997-2002 og var algengi og nýgengi SS2 og efnaskiptavillu metin á hverju tímabili.

Niðurstöður: Algengi (95% öryggismörk) SS2 samkvæmt ADA 1997 hefur á 30 ára tímabili vaxið úr 3,3% (2,6-4,0) í 4,9% (3,5-5,3) hjá körlum sem er um 48% hækkun og úr 1,9% (1,4-2,4) í 2,9% (1,9-3,9) hjá konum á sama aldri eða um 53% hækkun. Tímaleitnin var marktæk bæði hjá körlum og konum. Fyrir hvern einn sem er með þekkta sykursýki eru nú þrír með óþekkta sykursýki, en hlutfall óþekktrar sykursýki var vaxandi á rannsóknartímabilinu. Algengi efnaskiptavillu hefur aukist enn meira en SS2, úr 4,6% (3,8-5,4) í 8,7% (6,9-10,5) hjá körlum sem er um 89% hækkun og úr 2,8% (2,2-3,4) í 5,0% (3,8-6,2) hjá konum sem er um 79% hækkun.

Ályktanir: Ljóst er að sama þróun er að eiga sér staðar hérlendis og annars staðar hvað varðar hækkun á algengi SS2 og efnaskiptavillu en þó er algengi SS2 á Íslandi með því lægsta sem þekkist í Evrópu.E 6 Alvarleiki og fylgikvillar ífarandi meningókokkasýkinga á Íslandi


Ingi Karl Reynisson1, Helga Erlendsdóttir2, Magnús Gottfreðsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2 sýklafræðideild og 3lyflækningadeild Landspítala

magnusgo@landspitali.is


Inngangur: Ífarandi sýkingar af völdum meningókokka (Neisseria meningitidis) eru gríðarlegt heilsufarsvandamál um allan heim. Settar hafa verið fram kenningar um síðbúna sjálfsofnæmiskvilla í kjölfar sýkinga með meningókokkum af hjúpgerð B. Við gerðum afturvirka rannsókn þar sem könnuð voru klínísk einkenni, alvarleiki sjúkdóms og fylgikvillar hjá þeim sem greindust með ífarandi sýkingu af völdum meningókokka á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Sjúkraskrár þeirra einstaklinga sem höfðu greinst með ífarandi sýkingu af völdum meningókokka á Íslandi á árunum 1975 til 2004 voru skoðaðar. Enn fremur leituðum við handvirkt að síðbúnum sjálfsofnæmisfylgikvillum og leituðum að sjálfsofnæmissjúkdómum með leit í ICD 9 og ICD 10 kóðum.

Niðurstöður: Á þessu 30 ára tímabili greindust 562 einstaklingar með 566 tilfelli af ífarandi meningókokkasýkingum. Skoðaðar voru sjúkraskár 538 einstaklinga. Þar af voru 400 börn (meðalaldur 4,7 ár) og 138 fullorðnir (meðalaldur 32,3 ár). Meðallengd einkenna fyrir innlögn var 27,6 klukkustundir. Meirihluti einstaklinga greindist með heilahimnubólgu, eða 62,5%, en 33,6% einstaklinga greindust með blóðsýkingu. Meðaltal GMSPS skors hjá börnum sem lifðu var 1,9 en 8,3 hjá þeim sem létust (p<0,05). Meðaltal APACHE II skors hjá fullorðnum sem lifðu var 8,4 en 20,5 hjá þeim sem létust (p<0,05). Dánartíðnin hélst óbreytt á rannsóknartímabilinu. Tíðni langtímafylgikvilla var 8,7%. Algengasti fylgikvilli var heyrnarskerðing og drep í húð.

Ályktanir: Dánartíðni einstaklinga með ífarandi meningó-kokkasýkingu er svipuð hér á landi og hefur verið lýst annars staðar. Sterk tengsl eru milli klínískra einkenna við innlögn og dánartíðni, bæði á meðal barna og fullorðinna. Tíðni langtímafylgikvilla er há. Engin tengsl fundust milli sýkinga með hjúpgerð B og síðbúinna sjálfsofnæmiskvilla. Okkar niðurstöður styðja að hafnar verði klínískar prófanir með bóluefni gegn hjúpgerð B sem fyrst.
E 7 Spá þarfir sjúklings við innlögn á sjúkrahús

fyrir um afdrif einu ári síðar?


Pálmi V. Jónsson1, Anja Noro2, Anna B. Jensdóttir1, Gunnar Ljunggren3, Else V. Grue4, Marianne Schroll5, Gösta Bucht6, Jan Björnsson4, Harriet Finne-Soveri2, Elisabeth Jonsén6

1Landspítali, STAKES, 2Centre for Health Economics, Helsinki, 3taugavísindadeild Karolinska Institutet Stokkhólmi, 4Diakonhjemmets Hospital Osló, 5Bispebjerg Hospital Kaupmannahöfn, 6Háskólasjúkrahúsið Umeå

palmivj@landspitali.is


Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að finna spáþætti fyrir afdrif við eitt ár með tilliti til lifunar, vistunar á stofnun og endurinnlagna meðal aldraðra sem eru lagðir brátt inn á sjúkrahús.

Efniviður og aðferðir: Slembiúrtak var tekið úr hópi sjúklinga 75 ára og eldri sem voru lagðir brátt inn á lyflækningadeildir sjúkrahúsa á Norðurlöndunum fimm; n=770. Gögnum var safnað á fyrsta sólarhring með MDS-AC mælitækinu og niðurstöður tengdar við afdrif (dauða, vistun á öldrunarstofnun og endurinnlagnir) eftir eitt ár í hverju landi fyrir sig: Danmörku (D), Finnlandi (F), Íslandi (Í), Noregi (N) og Svíþjóð (S). Beitt var fjölþáttagreiningu.

Niðurstöður: Eftir eitt ár bjuggu 55% sjúklinganna á eigin heimili (D=58%, F=47%, Í=58%, N=50%, S=61%), 11% bjuggu á stofnun (D=9%, F=5%, Í=19%, N=14%, S=6%) en 28% höfðu látist (D=13%, F=30%, Í=20%, N=36%, S=23%). Átján af hundraði bjuggu á eigin heimili án endurinnlagna á sjúkrahús á tímabilinu (D=5%, F=16%, Í=23%, N=26%, S=22%). Vitrænt og líkamlegt færnitap við innlögn voru marktækir spáþættir fyrir stofnanavistun en nýr heilsufarsvandi spáði fyrir um dauða eftir eitt ár. Sjálfstæðar innlagnarbreytur skýrðu 36% af breytileika varðaði stofnanavistun en 14% af breytileika vegna dauða (logistic regression analyses; R-square).

Ályktanir: Talsverður breytileiki sést eftir eitt ár í afdrifum sjúklinga sem eru lagðir brátt inn á lyflækningadeildir á Norðurlöndum. Niðurstöður okkar benda til þess að kerfisbundið mat á þörfum og færni aldraðra við innlögn geti skilgreint áhættuhóp hvað varðar óæskileg afdrif. Slíkt mat er fyrsta skrefið í því að vinna gegn endurinnlögnum og stofnanavistun aldraðra.
E 8 Áhættumat Hjartaverndar fyrir hjarta- og æðasjúkdóma í samræmi við nýjar evrópskar leiðbeiningar


Thor Aspelund1, Guðmundur Þorgeirsson1,2, Gunnar Sigurðsson1,2, Vilmundur Guðnason1,2

1Hjartavernd, 2Landspítali

aspelund@hjarta.is


Inngangur: Áhættureiknivél Hjartaverndar hefur verið í notkun á vefsetri stofnunarinnarðan 2003. Um svipað leyti gáfu Evrópusamtökin um forvarnir hjarta- og æðasjúkdóma út nýjar leiðbeiningar um áhættumat. Þar er lagt til að svonefnd SCORE- (Systematic Coronary Risk Evaluation) áhættukort verði notuð við mat á líkum á dauðsfalli vegna hjarta- og æðasjúkdóma á næstu 10 árum. Sitt hvort kortið er notað fyrir svæði með lága eða háa áhættu. Mikilvægt er að vita hvernig áhættumat á Íslandi samræmist áhættumati í Evrópu.

Efniviður og aðferðir: Gögn 15.553 einstaklinga (52% konur) úr Hóprannsókn Hjartaverndar voru notuð. Upplýsingar um dánardag og dánarorsök voru fengnar frá Hagstofu ÚÍslands. Sömu aðferðarfræði var beitt og við gerð SCORE-kortanna. Líkur á dauða á næstu 10 árum vegna hjarta- og æðasjúkdóma voru metnar fyrir hvern einstakling út frá aldri, reykingasögu, heildarkólesteróli og blóðþrýstingi. Grunnáhætta (meðaláhætta eftir aldri) fyrir karla og konur, svo og hlutfallsleg áhætta vegna reykinga, hækkunar kólesteróls um 1mmól/L og hækkunar blóðþrýstings um 10 mmHg var metin.

Niðurstöður: Hlutfallsleg áhætta vegna ofangreindra áhættuþátta er næstum sama á Íslandi og í Evrópu. Grunnáhætta karla er mitt á milli lágrar og hárrar áhættu, eins og hún er skilgreind af SCORE og grunnáhætta kvenna telst lág. Fylgni milli áhættumats Hjartaverndar og SCORE er næstum fullkomin eða 0,99. Með því að skoða næmi og sértæki sést að SCORE-kortið fyrir svæði með lága áhættu á vel við á Íslandi.

Ályktanir: Mjög gott samræmi er á milli áhættumats Hjartaverndar og SCORE. Grunnáhætta og hlutfallsleg áhætta vegna helstu áhættuþátta sker sig ekki úr á Íslandi miðað við Evrópu. Áhætta á dauðsfalli á næstu 10 árum vegna hjarta- og æðasjúkdóma telst lág á Íslandi, þó svo að lagt sé til af Evrópusamtökunum að nota kort fyrir háa áhættu fyrir lönd á norðurhveli.
E 9 Samband reykinga og beinheilsu hjá heilbrigðum fullorðnum Íslendingum


Örvar Gunnarsson1, Ólafur Skúli Indriðason1, Leifur Franzson2, Gunnar Sigurðsson1

1Lyflækningasvið I og 2rannsóknarsvið Landspítala

orvarg@gmail.com


Inngangur: Ýmislegt bendir til að reykingafólk hafi lægri beinþéttni (BMD) en þeir sem ekki reykja. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða samband reykinga og beinabúskaps.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru á aldrinum 30-85 ára og valdir með slembiúrtaki af höfuðborgarsvæðinu. Beinþéttni var mæld með DEXA, PTH mælt með PTH-C (mælir lífvirkt PTH) og PTH-E og PTH-T (mæla einnig niðurbrotsefni PTH) aðferðum. Ýmsir beinvísar voru mældir í sermi. Við útilokuðum einstaklinga með sjúkdóma eða lyf sem hafa áhrif á beinabúskap. Við notuðum ANCOVA með aldursleiðréttingu til að bera saman þá sem reykja og þá sem ekki reykja, fyrir karla og konur.

Niðurstöður: Eftir útilokun voru 490 karlar og 517 konur í rannsókninni. Hjá körlum var beinþéttni lægra hjá þeim sem reykja, jafnt í mjöðm (p≤0,001), lendhrygg (p≤0,001) og heildarbeinþéttni (p≤0,001). PTH-E var lægra hjá þeim sem reykja (p=0,004), en ekki var marktækur munur á PTH-C (p=0,43) eða PTH-T (p=0,46). Þeir sem reykja voru með lægra S-25(OH)D (p=0,009), hærra S-fosfat (p=0,006) en lægri fitulaus massi (lean mass) (p=0,02). Ekki var marktækur munur á beinvísum (p≥0,05). Reykingakonur voru á mörkum þess að vera með marktækt lægri heildarbeinþéttni (p=0,07) en þær voru með lægri beinþéttni í lendhrygg (p=0,03) og mjöðm (p=0,003). Þær voru með lægra PTH-E (p=0,002) og einnig á mörkum þess að vera með lægra PTH-C (p=0,06) og PTH-T (p=0,07). Konur sem reykja voru með lægra S-25(OH)D (p<0,009), hærra S-fosfat (p=0,002) en lægri líkamsþyngdarstuðul (BMI) (p=0,001), fitumassa (p=0,001) og fitulaus massi (p=0,01). Ekki var marktækur munur á beinvísum (p≥0,05).

Ályktanir: Reykingar tengdust lægri beinþéttni, einkum í lendhrygg og mjöðm, sem eru ríkust af frauðbeini en síður í heildarbeinagrind (70% skelbein). Á óvart kom að reykingum fylgdi lægri styrkur PTH án breytinga á beinvísum en lægri þéttni 25OHD vítamíns í blóði. Þessi tengsl beinþéttni og reykinga þarfnast því frekari rannsókna.
E 10 Ónæmisviðbrögð við áreynslu hjá sjúklingum með herslismein og merki sjúkdómsins í lungum


Hrönn Harðardóttir1, Hanneke van Helvoort2 , Madelon C. Vonk3, Richard P.N. Dekhuijzen2, Yvonne F. Heijdra2

1Lyf- og lungnalækningadeild Landspítala, 2lungnadeild og 3gigtardeild Radboud University Nijmegen Medical Centre, Nijmegen, Hollandi

hronnh@landspitali.is


Inngangur: Herslismein (Systemic sclerosis) er fjölkerfa sjúkdómur með háa tíðni af virkni sjúkdómsins í lungum. Sjálfsofnæmi og virkjun ónæmiskerfisins liggur að baki meingerð sjúkdómsins. Áreynsla kemur af stað einkennandi ónæmissvörun í heilbrigðum einstaklingum og í sjúklingum með lungnasjúkdóma. Þessi rannsókn lýsir áhrifum hámarksáreynslu á kerfisbundnar bólgubreytingar og oxunarsvörun hjá sjúklingum með herslismein og merki sjúkdómsins í lungum.

Efniviður og aðferðir: Almenn bólgusvörun og oxunarálag var mælt við hámarksáreynslu (cardiopulmonary exercise testing) hjá 11 sjúklingum með herslismein og merki sjúkdómsins í lungum og 10 heilbrigðum einstaklingum. Hvít blóðkorn og deilitalning þeirra, magn af interleukin-6 (IL-6), myndun frjálsra radikala daufkyrninga (free radical production of neutrophils), oxun eggjahvítuefna (carbonyls) og fituefna (TBARs) voru mæld í hvíld, við hámarksáreynslu og eftir 30 mínútna hvíld.

Niðurstöður: Áreynsla eykur á fjölda hvítra blóðkorna af öllum tegundum. Sjúklingar með herslismein náðu hámarksáreynslu við hlutfallslega mun minna vinnuálag (Wmax:88 watt), en samt sem áður var hækkun hvítra blóðkorna hjá þeim sambærileg því sem gerist hjá heilbrigðum einstaklingum eftir hámarksálag (Wmax:206 watt). IL-6 jókst í báðum hópunum eftir hámarksáreynslu en hækkunin var umtalsvert meiri hjá sjúklingunum með herslismein en hjá heilbrigðum einstaklingum. Marktæk hækkun var á kerfisbundnu oxunarálagi, mælt með framleiðslu frjálsra radicala í daufkyrningum, oxun á eggjahvítuefnum og fituefnum, hjá sjúklingum með herslismein en ekki hjá heilbrigðum einstaklingum. Marktæk fylgni fannst milli hækkunar á IL-6 og útbreiðslu herslishúðar í sjúklingunum.

Ályktanir: Þessi rannsókn sýnir fram á að almenn ónæmissvörun við hámarksáreynslu er aukin hjá sjúklingum með herslismein með merki sjúkdómsins í lungum í samanburði við heilbrigða einstaklinga. Fylgni fannst milli hækkunar á IL-6 við áreynslu og útbreiðslu herslishúðar hjá þessum sjúklingum.
E 11 Munur milli Norðurlanda á lyfjanotkun aldraðra sjúklinga á bráðadeild. Gögn úr MDS-AC rannsókninni


Ólafur Samúelsson1, Gösta Bucht2 , Jan Björnsson3 , Pálmi V. Jónsson1

1Landspítali, 2Háskólasjúkrahúsið í Umeå, 3Diakonhjemmet Osló

olafs@landspitali.is


Inngangur: Gögn úr rannsókn á Minimal Data Set - Acute Care (MDS-AC) öldrunarmatstækinu voru notuð til að bera saman lyfjanotkun eldri sjúklinga á bráðadeild á lyflækningadeildum á Norðurlöndunum.

Efniviður og aðferðir: MDS-AC er heildrænt öldrunarmatstæki sérhannað til notkunar á bráðadeildum. Árin 2001 og 2002 var gerð rannsókn á völdum bráðasjúkrahúsum á öllum Norðurlöndunum til að prófa MDS-AC tækið. Í hverju landi voru valdir með slembiúrtaki 160 sjúklingar 75 ára og eldri sem fengu bráðainnlögn á lyflækningadeildir sjúkrahúsanna. Gögnum var safnað við innlögn, á völdum tímapunktum meðan á dvölinni stóð og fjórum og 12 mánuðum eftir útskrift. Upplýsingar um lyfjanotkun voru skráðar við útskrift. Með því að tengja MDS-AC gagnagrunninn og lyfjanotkunina má skoða áhrif lyfjanotkunar á færni og útkomu. Athuganir sem hér eru tíundaðar sýna samanburð á lyfjanotkun þessara sjúklinga á Norðurlöndunum.

Niðurstöður: Sjö hundruð og sjötíu sjúklingar tóku þátt. Meðalaldur var 84 ár. Meðalfjöldi lyfja var 3,4 í Noregi (N), 6,5 í Finnlandi (F), 7,3 í Danmörku (D) og Íslandi (Í) og 7,5 í Svíðþjóð (S). Benzódíazepínnotkun var mest 20% (Í) og minnst 6% (S). Svefnlyfjanotkun var mest 40% (Í) og minnst 23% (D og N). Notkun geðdeyfðarlyfja var mest 30% (Í) og minnst 10,6% (N). Notkun sefandi lyfja var mest 12,8% (F) og minnst 3,1% (D). Notkun kalsíum og vítamína var mest 19% (Í) og 23% (Í). Notkun statína var mest um 10% (Í og S).

Ályktanir: Það er athyglisverður munur á lyfjanotkun á Norðurlöndunum meðal annars svipaðs hóps aldraðra sjúklinga á bráðadeildum. Til að meta þýðingu þessa er ítarlegri vinna fyrirhuguð þar sem lyfjaupplýsingar eru tengdar við upplýsingar um vitræna og líkamlega færni og útkomu í MDS-AC matinu.
E 12 Fjölskyldutengsl íslenskra sjúklinga með nýrnasteina


Viðar Eðvarðsson1, Sverrir Þóroddsson2, Runólfur Pálsson3,4, Ólafur S. Indriðason3, Kristleifur Kristjánsson2, Kári Stefánsson2, Hákon Hákonarson2

1Barnaspítali Hringsins Landspítala, 2Íslensk erfðagreining, 3nýrnalækningaeining og lyflækningasvið I Landspítala, 4læknadeild HÍ

runolfur@landspitali.is


Inngangur: Líklegt er að erfðaþættir hafi afgerandi áhrif á mein- myndun nýrnasteina. Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta möguleg áhrif erfðaþátta á steinasjúkdóm í nýrum með því að kanna ættlægni sjúkdómsins hjá íslenskum sjúklingum.

Efniviður og aðferðir: Leitað var að sjúkdómsgreiningum sem gáfu til kynna nýrnasteina í gagnagrunnum á Landspítala og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og hjá Læknisfræðilegri myndgreiningu (Domus Radiologica) á tímabilinu 1983-2003. Af 6054 sjúklingum með nýrnasteina fundust 5954 í ættfræðigagnagrunni Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) sem notaður var til þess að kanna fjölskyldutengsl þeirra. Hlutfallsleg áhætta (relative risk) og skyldleikastuðull (kinship coefficient) voru metin til þess að spá fyrir um hættu á nýrnasteinamyndun meðal ættingja sjúklinga með nýrnasteina og til að ákvarða fjölskyldumynstur.

Niðurstöður: Hlutfallsleg hætta á myndun nýrnasteina meðal fjölskyldumeðlima sjúklinganna var umtalsvert meiri en hjá samanburðareinstaklingum í ættfræðigagnagrunni ÍE. Í tilviki 2959 sjúklinga með röntgenþétta steina var hlutfallsleg áhætta frá 1,07 hjá fimmtu gráðu ættingjum (p<0,01) upp í 2,25 (p<0,001) hjá fyrstu gráðu ættingjum (p<0,001). Hlutfallsleg hætta á nýrnasteinum hjá foreldrum og börnum sjúklinga sem greinst höfðu með þrjá eða fleiri steina (n=453) var 10 (p<0,001), sem er meira en fjórum sinnum hærra en hjá þeim sjúklingum sem aðeins höfðu greinst með einn stein. Mat á skyldleikastuðli sýndi að íslenskir sjúklingar með nýrnasteina eru skyldari hver öðrum en Íslendingar eru almennt, jafnvel þegar skyldleiki er ≥4 rýriskiptingar (meiosis) (p<0,05).
Ályktanir: Niðurstöður rannsóknar okkar benda til þess að erfðaþættir geti haft umtalsverð áhrif á meinmyndun nýrnasteina.E 13 Nýgengi, orsakir og horfur sjúklinga með skorpulifur á Íslandi og í Svíþjóð


Steingerður Anna Gunnarsdóttir1, Bjarni Þjóðleifsson2, Nick Cariglia3, Sigurður Ólafsson2, Einar Björnsson1

1Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið Gautaborg, 2Landspítali, 3Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri

Anna.Gunnarsdottir@medic.gu.se

Inngangur: Nýgengi skorpulifur á Íslandi hefur áður verið rannsakað fyrir árin 1950-1990 og var þá 2,4 sjúklingar á 105/ári sem er með lægstu tíðni af skorpulifur í hinum vestræna heimi (Ludviksdottir et al. Eur J Gast & Hepatol 1997). Takmarkaðar upplýsingar eru til um orsakir og horfur sjúklinga með skorpulifur eftir að lifrarbólga-C (HCV) uppgötvaðist og samanburður við önnur Norðurlönd hefur ekki áður verið gerður.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og nær til allra sjúklinga á Íslandi (280.000 íbúar) sem fengu sjúkdómsgreininguna skorpulifur í fyrsta skipti á árunum 1994-2003, sama gildir fyrir alla sjúklinga með sambærilega greiningu á sama tímabili í Gautaborg (600.000 íbúar).

Niðurstöður: Á Íslandi greindust 98 sjúklingar með skorpulifur og 918 sjúklingar í Gautaborg. Samanburður á orsökum skorpulifrar á Íslandi og í Gautaborg leiddi í ljós að alkóhóllifrarsjúkdómur (ALD) var algengasta orsökin í báðum löndunum (tafla I). Aðrar orsakir voru: lifrarbólga-C 5% á Íslandi á móti 10% í Gautaborg, alkóhól-lifrarsjúkdómur + lifrarbólga-C 3% á móti 12%, af óþekktum uppruna (cryptogenic) 21% á móti 16%, Primary Biliary Cirrhosis 14% á móti 4%, Auto-Immune Hepatitis 9% á móti 2%, hemochromatosis 7% á móti 1% og aðrar orsakir 12% á móti 5%. Heildarhlutfall sjúklinga með lifrarbólgu-C var 8% á Íslandi á móti 22% í Gautaborg (p<0,01). Dánarorsakir voru: lifrarbilun hjá 31% á Íslandi á móti 39% í Gautaborg, blæðing frá vélindaæðahnútum 7% á móti 10%, GI-blæðingar 3% á móti 3%, sýkingar 14% á móti 10%, lifrarkrabbamein 17% á móti 13%, annað 28% á móti 25%.

Tafla I. Skorpulifur á Íslandi og í Gautaborg


Árlegt nýgengi á 105


% karla


Meðal-aldur ± SF


ALD %


Alkóhól-lítrar á hvern íbúa >15 ára

Eins árs lifun %


Fimm ára lifun %


Gautaborg


15***


69**


60 ±12*

50***


6,7


64


28*


Ísland


3,5


52


64 ±14

29


5,5


67


43


* p<0,01; **p<0,001; ***p<0,0001 

Ályktanir: Nýgengi skorpulifrar er enn mjög lágt á Íslandi, einungis fjórðungur af því sem það er í Svíþjóð, munurinn virðist liggja í lægri tíðni alkóhóllifrarsjúkdóms þrátt fyrir lítinn mun á áfengissölu. Þetta gæti skýrst af erfðaþáttum eða umhverfisáhrifum eins og til dæmis mismun á óskráðri áfengisneyslu eða mismunandi neysluháttum.

E 14 Lyfjaumsjá á hjúkrunarheimili með þátttöku klínísks lyfjafræðings í þverfaglegu teymi

Rannveig Einarsdóttir1, Sigurður Helgason2, Aðalsteinn Guðmundsson1

1Landspítali, 2Landlæknisembættið

rannve@landspitali.is


Inngangur: Aldraðir íbúar hjúkrunarheimila eru líkamlega veikari, með meiri færniskerðingu og flóknari lyfjameðferð en áður þekktist. Meira en helmingur íbúa hjúkrunarheimila á Íslandi notar níu lyf eða fleiri. Árið 2003 fékkst styrkur frá Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu til að kanna ávinning þess að hafa klínískan lyfjafræðing í skilgreindum gæðaverkefnum á Hrafnistu í Reykjavík, en erlendar rannsóknir á hjúkrunarheimilum hafa staðfest gagnsemi þess.

Efniviður og aðferðir: Verkefnið var kynnt fyrir læknum og hjúkrunarfræðingum heimilisins. Lyfjaver, sem sá um tölvustýrða lyfjaskömmtum, tók saman lyfjalista tiltekinna heimilismanna sem var áætlað að næðist að meta á þverfaglegum fundi hverju sinni. Klíníski lyfjafræðingurinn kynnti sér lyfja- og sjúkrasögu og skráði athugasemdir fyrir fundi með lækni og hjúkrunarfræðingi, þar sem athugasemdir voru ræddar.

Niðurstöður: Eftir skoðun lyfjameðferða 163 heimilismanna voru athugasemdir flokkaðar eftir afdrifum og fjölda á eftirfarandi hátt:


Athugasemd (163 einstaklingar)

Fjöldi

Fjöldi athugasemda sem voru ræddar

543

Samþykkt

381

Hafnað

72

Borið undir heimilismann

20

Vísað til utanaðkomandi sérfræðings

6

Frestað

31

Ýmislegt

33

Ályktanir: Vísbendingar eru um að verkefnið hafi leitt af sér aukið hagræði og hagkvæmni varðandi lyfjameðferð.

1. Kröfu um öryggi og gæði lyfjameðferðar á hjúkrunarheimilum verður betur mætt með skilgreindri aðkomu og þátttöku klínísks lyfjafræðings ásamt þverfaglegri lyfjaumsjá.

2. Mikilvægt er að útfæra og nýta frekar möguleika rafrænna lyfjaávísana og tölvustýrðrar skömmtunar með tilliti til öryggis lyfjameðferða.

3. Heilbrigðisyfirvöld þurfa að vinna markvisst að frekari útfærslu á lyfjaumsjá og gæðaeftirliti lyfjameðferðar á hjúkrunarheimilum.
E 15 Eiga erfðir þátt í tilurð gáttatifs?


Davíð O. Arnar1, Sverrir Þorvaldsson2, Guðmundur Þorgeirsson1, Kristleifur Kristjánsson2, Hákon Hákonarson2, Kári Stefánsson2

1Lyflækningasvið I Landspítala, 2Íslensk erfðagreining

davidar@landspitali.is


Inngangur: Gáttatif er algeng hjartsláttartruflun og er búist við að algengi sjúkdómsins eigi eftir að aukast verulega á næstu áratugum. Nokkrir áhættuþættir gáttatifs, eins og kransæðasjúkdómur, hjartabilun og háþrýstingur eru vel þekktir. Hins vegar getur gáttatif einnig sést hjá þeim sem ekki hafa neinn af áhættuþáttum sjúkdómsins. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt fram á að erfðaþættir auki áhættu á gáttatifi í völdum fjölskyldum en möguleg áhrif erfðaþátta í stærra þýði hafa ekki verið könnuð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknarþýðið samanstóð af 5269 sjúklingum sem greinst höfðu með gáttatif á tímabilinu 1987-2003 og var meðaldur hópsins 71,5 ár. Alls voru 914 sjúklingar (17,3%) undir sextugu við greiningu. Ættlægni sjúkdómsins var metin með skyldleikastuðli (kinship coefficient) tjáð sem GIF (genealogic index of familiality) og áhættuhlutfalli (risk ratio).

Niðurstöður: Skyldleikastuðull gáttatifshópsins (GIF=15,8) var marktækt hærri en viðmiðunarhóps (GIF=13,8, p<0,00001) og hélst hliðstæður munur jafnvel þegar allt að sex lög skyldmenna höfðu verðið fjarlægð. Áhættustuðull fyrir fyrstu gráðu ættingja var 1,77 en fór minnkandi í annarrar til fimmtu gráðu ættingjum (1,36; 1,18; 1,10; 1,05) þó munurinn hafi haldist marktækur (p<0,001 hjá öllum). Ef hópnum var skipt eftir aldri í þá sem voru undir sextugu við greiningu og þá sem voru 60 ára og eldri við greiningu kom í ljós að áhættuhlutfall var 4,67 (p<0,001) í fyrstu gráðu ættingjum hjá yngri hópnum en 1,94 (p<0,01) hjá eldri hópnum.

Ályktanir: Þessar niðurstöður sýna að gáttatif hefur sterka tilhneigingu til ættlægni hérlendis. Þetta bendir til þess að erfðaþættir kunni að auka hættuna á tilkomu gáttatifs. Niðurstöður gefa jafnframt vísbendingu um að hlutverk erfðaþátta kunni að vera stærra hjá yngri sjúklingum og að erfðafræði gáttatifs gæti verið ólík hjá yngri og eldri sjúklingum.E 16 Faraldsfræði frumkalkvakaóhófs í Íslendingum - tengsl við beinheilsu


Helga Eyjólfsdóttir1, Ólafur Skúli Indriðason1, Leifur Franzson2, Gunnar Sigurðsson1

1Lyflækningasvið 1 og 2rannsóknasvið Landspítala

helgaeyj@yahoo.com


Inngangur: Frumkalkvakaóhóf er oft einkennalaust og ábendingar fyrir aðgerð hafa ekki verið skilgreindar. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna algengi þess í fullorðnum Íslendingum og bera hópinn saman við viðmiðunarhóp með tilliti til beinumsetningar og beinþéttni (BMD).

Efniviður og aðferðir: Gögn voru fengin úr þversniðsrannsókn á beinheilsu sem gerð var frá 2001 til 2003. Þátttakendur voru á aldrinum 30-85 ára og valdir með slembiúrtaki. Þeir svöruðu ítarlegum spurningalista, teknar voru blóðprufur, þvagprufur, hæð og þyngd mæld sem og líkamssamsetning. Beinþéttni var mæld með DEXA. Beinumsetning var metin með mælingum á osteókalcíni, kollagenkrossum og TRAP í sermi. Skilgreining á frumkalkvakaóhófi var PTH ≥65 ng/L og jóníserað kalsíum ≥1,30 mmól/L. Við notuðum t-próf og Mann-Whitney próf til að bera saman sjúklinga með frumkalkvakaóhóf og heilbrigðan viðmiðunarhóp sem valinn var af handahófi og var eins samsettur, hvað varðar aldur, kyn og komumánuð í rannsóknina.

Niðurstöður: Af 1630 einstaklingum höfðu 16, þar af einn karl, einkennalaust frumkalkvakaóhóf. Heildaralgengi er því 0,98%, 1,44% meðal kvenna og 0,17% meðal karla. Meðal kvenna hækkaði tíðnin með aldri og var 0,7% hjá konum 30-45 ára, 1,4% hjá 50-65 ára og 2,1% hjá 70-85 ára. Munur milli aldurshópanna var þó ekki tölfræðilega marktækur. Sjúklingahópurinn hafði marktækt meiri beinumsetningu og kalsíumútskilnað en viðmiðunarhópurinn en ekki var marktækur munur á beinþéttni.

Ályktanir: Í rannsókninni kom fram að frumkalkvakaóhóf er mun algengara meðal kvenna en karla og tíðnin eykst með vaxandi aldri. Þessar tölur eru sambærilegar við niðurstöður erlendra rannsókna. Aukin beinumsetning þessara einstaklinga bendir til aukinnar áhættu á beinþynningu þó ekki hafi komið fram marktækur munur á beinþéttni. Niðurstaðan bendir til að þörf sé á langtímaeftirliti og að hugsanlega sé ástæða til að ráðleggja aðgerð snemma í gangi sjúkdómsins.

E 17 Versnun á þarmabólgu við gigtarlyf.

Algengi og meingerð


Bjarni Þjóðleifsson1, Ken Takeuchi2, Simon Smale2, Purushothaman Premchand2, Laurence Maiden2, Roy Sherwood3, Einar Björnsson4, Ingvar Bjarnason2
1Lyflækningadeild Landspítala, 2Department of Internal Medicine, Guy’s, King’s, St Thomas’ Medical School, London, 3Department of Clinical Biochemistry, King’s College Hospital, London, 4Department of Gastroenterology Sahlgrenska sjúkrahúsinu, Gautaborg

bjarnit@landspitali.is


Inngangur: Því hefur verið haldið fram að gigtarlyf hafi áhrif á gang þarmabólgu ýmist þannig að sjúklingi batnaði eða versnaði. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta áhrif NSAID og COX-2 lyfja á gang þarmabólgu og kanna mögulega meingerð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var gerð hjá 209 sjúklingum og var henni skipt í tvo hluta til að kanna algengi og meingerð sjúkdómsversnunar. Algengi: Sjúklingar með sáraristilbólgu og svæðisgarnabólgu sem voru í sjúkdómshléi fengu acetamínófen (n=26), naproxen (n=32), diklófenak (n=29) eða indómetasín (n=22) í fjórar vikur. Harvey-Bradshaw kvarðinn var notaður til að skilgreina versnun sjúkdóms. Meingerð: Mæling á kalprótektíni í hægðum fyrir og eftir meðferð var notuð til að meta bólgu hjá 20 sjúklingum sem fengu (hver hópur) acetamínófen, naproxen (COX-1 og-2 blokkari), nabúmetón (COX-1 og-2 blokkari), nimesúíð (sérhæfður COX-2 blokkari) og lágskammta aspirín (sérhæfður COX-1 blokkari).

Niðurstöður: Af hópnum sem fékk ósérhæfð gigtarlyf versnaði 17-28% innan níu daga og tengdist það hækkun á kalprótektíni. Engum sjúklingi sem tók acetamínófen, nimesúlíð eða aspirín versnaði á þeim tíma.

Ályktanir: Sjúklingar með þarmabólgu í sjúkdómshléi sem taka ósérhæfð (NSAIDs) gigtarlyf eru í aukinni áhættu að sjúkdómurinn versni. Meingerð virðist tengjast blokkun á báðum COX-1 og COX-2 hvötunum. Skammtímanotkun á sérhæfðum COX blokkum og lágskammta aspiríni virðist ekki valda því að þarmabólga versni.

Skammstafanir: COX, cyclooxygenase; NSAID, nonsteroidal anti-inflammatory drug.
E 18 Skráning lyfjasögu sjúklings, mat á lyfjatengdum vandamálum og nothæfi eigin lyfja


Ásta Friðriksdóttir1, Anna Birna Almarsdóttir1, Anna Ingibjörg Gunnarsdóttir2, Þórunn Kristín Guðmundsdóttir2

1Lyfjafræðideild HÍ, 2sjúkrahúsapótek Landspítala

annaig@landspitali.is


Inngangur: Rannsóknir sýna að lyfjafræðingar taka nákvæmari lyfjasögu en aðstoðarlæknar og greina fremur lyfjatengd vandamál, sem fækkar lyfjaávísunarvillum og leiðir til markvissari lyfjameðferðar. Til að skrá nákvæma lyfjasögu er meðal annars hægt að nota eigin lyf sjúklinga en sums staðar erlendis nota sjúklingar sín eigin lyf í sjúkrahúsinnlögn. Lyfin eru þá metin nothæf út frá ákveðnum viðmiðum og sýna rannsóknir að gæði þeirra eru almennt góð.

Efniviður og aðferðir: Óskað var eftir þátttöku allra sjúklinga, sem lögðust inn á skurðdeildir 12-E, 12-G, 13-D og 13-G á Landspítala og komu í gegnum innskriftarmiðstöð. Rannsóknartímabilið var sex vikur og heildarfjöldi sjúklinga 222. Rannsakandi tók viðtal við 134 sjúklinga eftir aðgerð og skráði lyfjasögu, lyfjatengd vandamál og mat gæði eigin lyfja sjúklinga. Lyfjasaga tekin af aðstoðarlækni í innskriftarmiðstöð var skráð upp úr sjúkraskrá og borin saman við lyfjasögu tekna af rannsakanda. Misræmi þar á milli sem og lyfjatengd vandamál voru greind og flokkuð. Farið var yfir eigin lyf sjúklinga og þau dæmd nothæf eða ónothæf með tilliti til notkunar í sjúkrahúsinnlögn.

Helstu niðurstöður: Þegar borin var saman lyfjasaga tekin af rannsakanda og aðstoðarlækni kom í ljós 331 misræmi hvað varðaði lyfseðilskyld lyf. En 804 misræmi ef náttúrulyf, náttúruvörur og lausasölulyf voru einnig tekin með. Gæði eigin lyfja sjúklinga voru almennt góð. Af þeim 267 eigin lyfjum sjúklinga voru 90,6% talin nothæf í sjúkrahúsinnlögn. Alls greindust 165 lyfjatengd vandamál hjá 79 sjúklingum. Flest þeirra tengdust óæskilegri verkun lyfs (39%) og lélegri meðferðarheldni (16%).

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að lyfjafræðingar taki mun ítarlegri lyfjasögu en aðstoðarlæknar. Gæði eigin lyfja sjúklinga sem koma í valaðgerðir á skurðlækningasvið Landspítala við Hringbraut eru almennt góð og nothæf í sjúkrahúsinnlögn. Tæplega helmingur þessara sjúklinga telur sig upplifa lyfjatengd vandamál sem styður mikilvægi lyfjafræðilegrar umsjár.
E 19 Tölvusneiðmyndir af lungnaslagæðum, ofnotuð rannsókn?


Teitur Guðmundsson1, Gunnar Guðmundsson2, Ólafur Kjartansson3

1Lyflækningasvið, 2lungnadeild og 3myndgreiningardeild Landspítala

teiturg@landspitali.is


Inngangur: Tölvusneiðmyndun (TS) af lungnaslagæðum hefur náð miklum vinsældum við greiningu lungnareks. Hún er fljótleg í framkvæmd og aðgangur að rannsókninni er greiður, en af henni er umtalsvert geislunarálag. Ekki er vitað um árangur af slíkum rannsóknum á Landspítala. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga hversu hátt hlutfall slíkra rannsókna greindi lungnarek. Einnig var kannað hversu oft D-Dímer og slagæðablóðgös voru mæld og hvort samsvörun væri við jákvæða tölvusneiðmyndun.

Efniviður og aðferðir: Allar röntgenrannsóknir með kóða 832.61 (lungnaslagæðamyndataka með tölvusneiðmyndatækni) sem voru gerðar á Landspítala á tímabilinu 01.01.2005-10.04.2006 voru skoðaðar, samtals 594 rannsóknir. Einnig voru könnuð D-Dímer gildi í blóði og niðurstöður slagæðablóðgasa..

Niðurstöður: Af 594 rannsóknum voru 12 endurtekningar og þeim því sleppt. Af 582 rannsóknum sýndu 89 (15%) lungnarek. D-Dímer var mældur hjá 56/89 (63%) sjúklinga og var meðalgildi 5,21 mg/L. Slagæðablóðgös voru tekin hjá 50/89 (57%) sjúklinga, einungis 18/89 (20%) voru á súrefnismeðferð. Af þeim sem voru með lungnarek var meðalgildi slagæðablóðgasa pH 7,45; pCO2 36 mmHg og pO2 71 mmHg

Ályktanir: Niðurstöður okkar sýna að lungnaslagæðarannsóknir með tölvusneiðmyndun í greiningu lungnareks eru sjaldnar jákvæðar á Landspítala. Erlendar rannsóknir hafa sýnt 21-31% jákvæðni. Vanda þarf betur val sjúklinga og endurskoða þarf þær klínísku ábendingar sem notaðar eru fyrir lungnaslagæðarannsókn með tölvusneiðmyndun. Kanna þarf hvernig markvissari notkun slagæðablóðgasa og D-Dímers getur rennt betri stoðum undir greiningu og ábendingum fyrir lungnaslagæðarannsókn með tölvusneiðmyndun.
E 20 Blóðsýkingar af völdum Candida dubliniensis og Candida albicans. Samanburður á meinvirkni og vefjameinafræðilegum breytingum


Lena Rós Ásmundsdóttir1, Helga Erlendsdóttir2, Bjarni A. Agnarsson1,2, Ragnar Freyr Ingvarsson2, Magnús Gottfreðsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Landspítali

magnusgo@landspitali.is


Inngangur: Candida dubliniensis greindist fyrst hjá HIV-smituðum einstaklingum með sveppasýkingu í munni og koki og var talin lítið meinvirk, en fljótlega kom í ljós að C. dubliniensis gat einnig valdið ífarandi sveppasýkingum svo sem blóðsýkingum. Markmið rannsóknarinnar var að meira saman meinvirkni C. dubliniensis og C. albicans í músalíkani af blóðsýkingu og meta vefjameinafræðilegar breytingar í innri líffærum.

Efniviður og aðferðir: Notaðir voru þrír stofnar C. albicans (ATCC 90028 og tveir klínískir blóðstofnar) og níu stofnar C. dubliniensis (allt klínískir blóðstofnar). Kvenkyns NMRI mýs voru sýktar í blóðbraut (C. albicans, n=99; C. dubliniensis, n=157) og fylgst með lifun dýranna þrisvar á dag. Eftir sjö daga var dýrunum fargað og annað nýrað sett í formalín en hitt nýrað ásamt lifrinni notað til ákvörðunar á sýklafjölda. Vefjameinafræðilegar breytingar í nýrum voru metnar á kerfisbundinn hátt án vitneskju um sýkingarvald.

Niðurstöður: Dánartíðni eftir sjö daga hjá dýrum sem sýkt voru með C. dubliniensis var að meðaltali 21,0%, (bil fyrir stofna: 0-57,1%) og 23,2% með C. albicans, (bil fyrir stofna: 6,7-85,0%), (p=0.757). Marktæk fylgni var milli dánartíðni og hærri talningar sýklafjölda í bæði lifur og nýrum (p<0,0005). Bólgubreytingar í nýrum voru meiri eftir sýkingu með C. albicans miðað við C. dubliniensis (p<0,0005). Myndun gerviþráða var ríkjandi í 18 (23,4%) nýrnasýna með C. albicans samanborið við fjögur (3%) sýni með C. dubliniensis (p<0,0005). Yfirgnæfandi gerviþráðamyndun tengdist aukinni útbreiðslu sýkingarinnar í nýrum auk hærri dánartíðni (p<0,0005).

Ályktanir: C. dubliniensis reyndist vera jafnmeinvirk og C. albicans en talsverður munur var á meinvirkni milli mismunandi stofna hvorrar tegundar. Nauðsynlegt er að taka tillit til uppruna stofna við rannsóknir sem þessar. Niðurstöður renna stoðum undir þá kenningu að stofnar sem ræktast frá blóði séu að jafnaði meinvirkari en þeir sem eingöngu valda yfirborðssýkingum.
E 21 Áhrif örvunar Protease-Activated Receptor 1 á æðakerfi manna


Ingibjörg J. Guðmundsdóttir, David J. Webb, Keith A. A. Fox, David E. Newby

Centre of Cardiovascular Sciences, University of Edinburgh, Scotland

darnellroad27@hotmail.com

Inngangur: Protease-Activated Receptor-1 (PAR-1) eru G-prótein tengdur viðtaki sem er talinn miðla beinum áhrifum þrombíns á frumur. Tjáning PAR-1 viðtaka er ólík milli dýrategunda og áhrif PAR-1 örvunar í mönnum hafa ekki verið könnuð áður in vivo. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hlutverk PAR-1 viðtakans í æðakerfi manna.

Efniviður og aðferðir: Þvermál bláæðar á handarbaki 14 heilbrigðra sjálfboðaliða var mælt með Aellig-tækni eftir innrennsli PAR-1 boðans SFLLRN (0,05-15 nmól/mín.) með og án noradrenalíns (1-128 ng/mín.) og glýkóprótein IIb/IIIa blokkunar með tírófibani (250 ng/mín.).

Blóðflæði í framhandlegg var mælt í átta heilbrigðum einstaklingum (e. venous occlusion plethysmography). Nál var þrædd í framhandleggsslagæð (a. brachialis) og tírófiban (1250 ng/mín) gefið til að hindra samloðun blóðflagna. Slagæðarinnrennsli af SFLLRN (5-50 nmól/mín.) var borið saman við bradykínín (100-1000 pmól/mín.). Styrkur tissue-plasminogen activator (t-PA), von Willebrand factor (vWF) og plasminogen-activator inhibitor 1 (PAI-1) var mældur reglulega og blóðsýni jafnframt tekin til mælingar á bindingu blóðflagna og einkyrninga sem er næmur mælikvarði á örvun blóðflagna.

Niðurstöður: SFLLRN olli skammtaháðum bláæðasamdrætti (n≥6; p<0,001) óháð noradrenalíni eða tírófibani. Í slagæðakerfinu olli SFLLRN skammtaháðri aukningu á framhandleggsblóðflæði (n=8; p<0,001), t-PA losun (frá 8,1±1,4 til 12,7±1,5 ng/mL; p=0,02) og blóðflögu-einkyrninga bindingu (frá 16±5% til 74±5%; p<0,0001) en ekki á vWF eða PAI-1 styrk.

Ályktanir: Hér hefur í fyrsta sinn verið sýnt fram á að örvun PAR-1 viðtaka in vivo í fólki veldur örvun blóðflagna, bláæðasamdrætti, slagæðavíkkun og t-PA losun. Þessar niðurstöður veita mikilvæga innsýn í hlutverk þrombíns í slag- og bláæðakerfi manna.


 

Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica