12. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Fjölbreytnin einkennir 


Læknadaga 2010

Kreppan margnefnda hefur vissulega áhrif á Lækna-daga sem framundan eru í janúar en þó er alls ekki allt með öllu illt, segir Arna Guðmundsdóttir, formaður Fræðslustofnunar lækna, sem skipuleggur nú Læknadaga í 5. sinn. Jákvæð áhrif kreppunnar birtast í auknu framlagi íslenskra lækna til dagskrárinnar og aldrei hafa fleiri sótt um að vera með framlag á Læknadögum en einmitt nú.


Ein helsta breytingin sem snýr að kostnaðarhluta Læknadaganna felst í því að þátttökugjald hækkar úr tíu í fjórtán þúsund krónur og nú greiða allir þátttökugjald, fyrirlesarar jafnt og aðrir. „Þetta er sannarlega nokkur hækkun en það má segja að þátttökugjaldið hafi verið mjög hagstætt fram að þessu. Læknadagar standa í fimm daga frá morgni til kvölds með þéttskipaðri dagskrá málþinga, fyrirlestra og kynninga. Það þykir ekki mikið að greiða tvöfalda þessa upphæð fyrir dagnámskeið víðast hvar svo þetta verður að teljast afskaplega sanngjarnt. Þá er líka hægt að sleppa með 6000 kr. ef keyptur er dagpassi eða 12.000 í stað 14.000 ef greitt er tímanlega á netinu. Við tókum ennfremur þá ákvörðun að láta alla greiða þátttökugjald núna, fyrirlesara líka, en það tíðkast á flestum ráðstefnum bæði erlendis og hér heima.“


Hærra gjald og færri útlendingar


Þrátt fyrir að réttlæta megi hækkað þátttökugjald og færa rök fyrir því að talsvert fáist fyrir aurana þá er ljóst að ástæðan er verri fjárhagsstaða Fræðslustofnunar lækna en verið hefur. Rétt er að rifja upp að fjármagn Fræðslustofnunar er upphaflega tilkomið sem framlag frá Domus Medica þegar sá félagsskapur var formlega lagður niður og er kveðið svo á um í stofnskrá Fræðslustofnunar að nýta megi vexti af höfuðstól en ekki ganga á höfuðstólinn sjálfan. Arna segir að á undanförnu ári hafi höfuðstóllinn rýrnað um ein 12% og því engar vaxtatekjur að hafa. „Við verðum því að haga seglum eftir vindi og kljúfa kostnað við Læknadagana með öðrum hætti eða fara fram á að breytingar verði gerðar á stofnskrá Fræðslustofnunarinnar ef takast á að leiðrétta þennan halla. Læknadagar hafa hingað til staðið undir sér og okkar markmið er að svo verði áfram. Hins vegar þykir okkur heldur ómaklegt að ætlast til að þingið skili slíkum hagnaði að það leiðrétti tap á sjóðum sem urðu vegna bankahruns.“


Verður erfitt að velja


Aðspurð um hvort eitthvert þema sé ráðandi í væntanlegri dagskrá segir Arna ekki svo vera. „Einkenni Læknadaganna er mikil fjölbreytni. Þarna verða nær allar sérgreinar með innlegg ásamt umræðu um lyfjamál, heilsuhagfræði, skipulag heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og margt fleira.“ 


„Læknadagar hafa hingað til staðið undir sér og okkar markmið er að svo verði áfram,” segir Arna Guðmundsdóttir.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica