12. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Rannsaka vinnuánægju, lífsánægju og geðheilsu íslenskra lækna

Á fyrrihluta næsta árs verður framkvæmd umfangsmikil rannsókn hérlendis á vinnu-ánægju, lífsánægju og geðheilsu íslenskra lækna með áherslu á tengsl við starf og starfsumhverfi. Rannsóknin er framkvæmd af íslenskum læknanema á rannsóknarbraut við Óslóarháskóla, Ingunni Bjarnadóttur Solberg, undir handleiðslu prófessors Reidars Tyssens við deild atferlisvísinda í læknisfræði. 


Fyrirmynd þessa verkefnis er stór langtímarann-sókn sem deild atferlisvísinda og norska lækna-félagið hófu árið 1993 þar sem 1000 norskum læknum og læknastúdentum hefur verið fylgt eftir í 15 ár. Tyssen hefur umsjón með þessari rannsókn og hafa verið birtar á sjötta tug greina í vísindalegum tímaritum sem hafa veitt mikilvægar upplýsingar um geðheilsu lækna, starfsánægju og fleira.1


Meginniðurstöður Tyssens og samstarfsmanna hans eru þær að geðheilsu norskra lækna er almennt svipað farið og Norðmanna almennt en þó eru nokkur mikilvæg frávik. Tíðni þunglyndis og sjálfsmorða er allt að tvöfalt hærri meðal læknanna en almennings og tengsl geðrænna vandamála við litla stjórn á vinnuumhverfi, tímapressu og krefjandi sjúklinga koma skýrt fram. Munur á milli kynja er lítill framan af starfsferli læknanna en margt bendir til þess að fleiri konur en karlar lendi í vanda síðar á starfsferlinum. Læknarnir taka sér sjaldan veikindaleyfi og nýta sér síður þjónustu heilbrigðiskerfisins en allur almenningur. Sjálfsmeðhöndlun er algeng, jafnvel við geðrænum vandamálum. 


Í samtali Læknablaðsins við Tyssen og Ingunni kemur fram að ekki er sjálfgefið að rannsókn á geðheilsu, starfsánægju og lífsánægju íslenskra lækna skili sömu niðurstöðum og í Noregi, og verður fróðlegt að sjá hverjar þær verða. 


Tyssen segir að í Noregi hafi læknafélagið opnað meðferðarstöð fyrir lækna og hjúkrunarfræðinga, svokallað Low threshold facility (Villa sana við sjúkrahúsið Modum bad) þar sem þeir geta leitað með stuttum fyrirvara og án tílvísunar og fengið meðferð/ráðgjöf í 1-7 daga eftir óskum og þörfum hvers og eins.


„Það er ljóst að ákveðin einkenni eru algengari en önnur meðal lækna, og þetta höfum við tengt við krefjandi starfsumhverfi en þetta snýr einnig að persónugerð lækna. Þar eru einkenni eins og ofurnæmi, fullkomnunarþörf, viðkvæmni fyrir gagnrýni og ótti við mistök mjög algeng en kannski eru það einmitt líka þessir þættir sem gera fólk að góðum læknum. Sumir bogna undan kröfunum og þurfa aðstoð. Þar hefur skort nokkuð á eins og rannsóknir okkar í Noregi sýna glöggt. Úr því erum við að bæta. Þegar læknir er einnig í hlutverki sjúklings koma upp ákveðnar mótsagnir, eins og varðandi þagnarskyldu og að gefa út lyfseðil á sjálfan sig. Í fleiri löndum en Noregi hafa yfirvöld áttað sig á því að þörf er sérstakrar heilsugæslu fyrir lækna.“


Ingunn segir að í rannsókn sinni á íslenskum læknum sé markmiðið að allir læknar sem starfa á Íslandi fái sendan spurningalista í lok janúar. „Við höfum rætt við fulltrúa frá landlæknisembættinu, Læknafélagi Íslands, vinnueftirlitinu og læknaráði og voru þeir einnig beðnir um álit á spurningunum. Vonandi skilar rannsóknin gagnlegum niðurstöðum fyrir alla. Aðal áskorunin er að fá sem flesta lækna til að svara. Úrvinnsla gagnanna fer fram næsta sumar/haust í háskólanum í Osló og fyrstu niðurstaðna er að vænta næsta haust.“


1. Tyssen R. Health Problems and the Use of Health Services among Physicians; A Review article with Particular Emphasis on Norwegian Studies. Industrial Health 2007; 45: 599-610.

Ingunn Bjarnadóttir Solberg og prófessor Reidar Tyssen.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica