11. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Læknafélag Íslands verður að rifa seglin. Viðtal við Birnu Jónsdóttur

Framundan eru heilmiklar aðhaldsaðgerðir í rekstri Læknafélags Íslands að sögn formannsins, Birnu Jónsdóttur. Fram kom á aðalfundi félagsins sem haldinn var á Selfossi í september síðastliðnum að æskilegt væri að minnka launakostnað félagsins um 12% á næsta ári og draga saman annan kostnað eftir föngum. Læknablaðið innti Birnu eftir því hvernig gengið yrði í þessi verk.

Birna Jónsdóttir formaður Læknafélags Íslands.

 

„Þetta er ekkert flókið. Við gerum þetta eins og fyrir okkur er lagt og spörum þar sem hægt er að koma því við,„ segir Birna. „Við höfum sagt okkur úr samstarfi við erlend læknasamtök eftir því sem við teljum okkur komast af án. Félagsgjöld okkar í þessi félög hafa tvöfaldast á árinu vegna gengisbreytinga og þegar við bætist ferðakostnaður er þetta sparnaður upp á nær 2 milljónir á ári. Við erum enn aðilar að CPME, sem er fastanefnd Evrópusamtaka lækna í Brussel, enda teljum við ekki hægt að vera utan þeirra. Við vorum reyndar byrjuð að íhuga fyrir bankahrunið hvort peningum félagsins væri nægilega vel varið með svo dreifðri þátttöku í erlendum samtökum og niðurstaðan er sú að við höfum sagt okkur úr Evrópusamtökum sérfræðinga, Evrópusamtökum heimilislækna og Evrópusamtökum unglækna. En við tökum þátt í starfi heimssamtaka lækna, WMA.“

Birna segir stjórn Læknafélagsins stefna að því að minnka heilar stöður á skrifstofu félagsins. „Við ættum samt að geta haldið óbreyttri þjónustu með því að verkefni færist milli starfsmanna. Það vill svo til að Gunnar Ármannsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri og lögfræðingur félagsins um átta ára skeið, hættir nú 1. nóvember, og það má segja að eini ljósi punkturinn við það mál, því okkur er mikil eftirsjá að Gunnari, er að með því gefst tækifæri til að endurskipuleggja störf hagfræðings, lögfræðings og formanns félagsins. Þetta voru þrjár heilar stöður en Sólveig Jóhannsdóttir hagfræðingur félagsins tók að sér framkvæmdastjórn félagsins tímabundið í sex mánuði og með því gefst stjórninni svigrúm til að átta sig á því hvernig best er að koma þessu fyrir.“

Birna segir vissulega koma til greina að ráða lögfræðing í hlutastöðu en Gunnar Ármannsson gegnir enn starfi lögfræðings fram til 1. desember og Sólveig er ráðin í starf framkvæmdastjóra til 1. mars. Þá verður að sögn Birnu einnig endurskipulögð önnur starfsemi skrifstofunnar, verkefni færð milli starfsmanna þannig að launakostnaður í heild náist niður.

Gengið á eigið fé

Birna segir að félagið hafi verið rekið með tapi árið 2008 og fyrirsjáanlegt sé tap á rekstrinum á þessu ári. „Það hefur gengið á eigið fé félagsins frá aldamótum. Þá átti félagið talsverða sjóði og fjármagnstekjur greiddu niður rekstur félagsins að umtalsverðu leyti. Í bankahruninu töpuðust um 30% af eigin fé félagsins sem ávaxtað var í peningamarkaðssjóðum og einnig gekk talsvert á eigið fé þegar aðalfundur félagsins 2007 ákvað að gefa 25 milljónir til Lækningaminjasafns á Seltjarnarnesi. Það var nærri helmingur af eigin fé félagsins á þeim tíma. Núna höfum við engar fjármagnstekjur og það hefur auðvitað sín áhrif.“

Birna nefnir beinharðar tölur máli sínu til stuðnings. „Árið 2000 kostaði rekstur félagsins 33 milljónir og fjármagnstekjur voru 7-8 milljónir. Á þessu ári er kostnaðurinn áætlaður 68 milljónir en fjármagnstekjurnar eru neikvæðar. Okkar vandi er reyndar ekkert einsdæmi, flestöll félög glíma við sama vanda og eru að ganga á eigið fé.“

Aðalfundurinn á Selfossi samþykkti hækkun á félagsgjöldum í 90.000 kr. en ætti að sögn Birnu að vera 100.000 kr. ef félagsgjald ársins 2000 er framreiknað miðað við verðlagsþróun. „Við þurftum í rauninni ekki að hafa svo hátt félagsgjald árið 2000 vegna þess að fjármagnstekjurnar greiddu niður reksturinn en í dag þurfum við svo sannarlega á hverri krónu að halda.“

Á aðalfundinum var samþykkt tillaga um að hefja aftur útleigu á sal félagsins í Hlíðasmára til félagsmanna. Hugmyndin að baki þessari tillögu er að leigan á salnum geti orðið félaginu tekjuauki. Birna segir að vissulega verði þetta kannað til hlítar og reynt að verða við þessari samþykkt en það sé alls ekki sjálfgefið að hægt sé að leigja út salinn með hagnaði. „Það er mikil samkeppni á þessum markaði, framboð á sölum er mikið, og ekki víst að félagsmenn séu tilbúnir að greiða hærri leigu fyrir salinn en gengur og gerist úti í bæ. Kostnaður við slíkan rekstur er talsverður og það er verr af stað farið en heima setið ef félagið situr uppi með kostnað vegna útleigu á salnum þegar allt er reiknað til. En við munum láta reyna á þetta.“

Hún segir að hins vegar hafi verið ákveðið að nýta húsakynni læknafélaganna í Hlíðasmára til hins ítrasta þegar um ráðstefnur og fundahöld á vegum félaganna er að ræða og ekki verði farið með fundi annað ef því verið mögulega fyrir komið. „Það var lagt í nokkurn kostnað á síðasta ári við að gera fundaraðstöðuna hér sambærilega við annað og því er engin ástæða til annars en að nýta það. Ég hvet sérgreinafélögin til að nýta sér þetta ágæta húsnæði sem hér er í boði.“

Á undanförnum árum hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir án árangurs til að selja húsnæði LÍ í Hlíðasmára og varla hægt að gera ráð fyrir að það gangi betur í því árferði sem nú er. Birna segir óraunhæft að huga að sölu á húsnæðinu núna enda eigi LÍ húsnæðið skuldlaust og sé því best sett með að hreyfa sig ekki og nýta húsnæðið sem best.

 

Augljósar andstæður innan félagsins

Læknablaðið sjálft var til umræðu á aðalfundinum og þar var hreyft þeirri hugmynd sem áður hefur komið fram hvort ekki væri sparnaður að því að vera eingöngu með netútgáfu og spara þannig kostnað við prentun og dreifingu. Rökin gegn þessu eru einföld að sögn Birnu þar sem 2/3 kostnaðar af rekstri blaðsins koma af sölu lyfjaauglýsinga og ekki gott að gera sér grein fyrir hvort auglýsendur yrðu tilbúnir að auglýsa í netútgáfunni. „Ef við hugsum okkur að auglýsingatekjurnar dyttu alveg niður en sparnaður með netútgáfunni væri um 50% þá sætum við uppi með meiri kostnað af rekstri blaðsins en nú er.“

Það gleymist gjarnan í umræðunni um netútgáfuna að hún yrði að vera lokuð öllum nema læknum til að leyfilegt væri að birta þar lyfjaauglýsingar. Netútgáfan kæmi þannig örugglega mun færri fyrir sjónir en prentaða útgáfan sem liggur víða frammi, bæði á bókasöfnum og annars staðar, og því álitlegri auglýsingamiðill en lokuð netútgáfa. „Ég held reyndar að læknar noti ekki lyfjaauglýsingar í Læknablaðinu til upplýsingar um hvaða lyfjum þeir eigi að ávísa til handa sjúklingum sínum og því er mér spurn fyrir hvern þessar auglýsingar eru. Persónulega vildi ég helst að bæði Læknablaðið og Læknadagar væru algjörlega laus við lyfjaauglýsingar en það er eins og hver önnur óskhyggja.“

Birna segir engu að síður augljóst að þróunin sé sú að útgáfa og skrifstofustarfsemi sé sífellt að færast meira yfir á netið. „Mér fyndist í rauninni fullkomlega eðlilegt að skrifstofa LÍ væri rekin að mestu á netinu. Hvað Læknablaðið varðar er ég alveg tilbúin til að vera laus við pappírinn og hafa það á netinu. Blaðið er hins vegar í góðu áliti, það gegnir mjög skýru hlutverki sem vísinda- og félagsrit, rekstur þess er traustur og því þarf að gæta vel að áður en hróflað er við því. Læknar eru einnig almennt stoltir af því að eiga svo gamalt og gott tímarit sem raun ber vitni.“

Fyrirfram var búist við að nokkur umræða yrði á aðalfundinum um skipulag félagsins. Er rétt að skipta félaginu í stéttarfélag og fagfélag lækna? „Þetta er nauðsynleg umræða en niðurstaða vinnuhópsins á aðalfundinum var að hún þarfnaðist mun ítarlegri umfjöllunar og því var ákveðið að skipa starfshóp sem hafið hefur störf undir stjórn Sigurbjörns Sveinssonar. Þarna er verið að fjalla um grundvallarspurningar sem snerta tilgang félagsins og mjög mikilvægt að þær séu ræddar ítarlega. Sumir telja að það eigi eingöngu að vera stéttarfélag og sjá um kjarasamninga. Aðrir vilja að félagið sé fagfélag þar sem læknar skiptist á skoðunum um fagið fyrst og fremst. Það er auðvitað ljóst að hagsmunir lækna eru margvíslegir og fara ekki alltaf saman. Sumir læknar eru stjórnendur og atvinnurekendur á meðan aðrir eru launþegar. Þarna eru augljósar andstæður. Þetta þarf að ræða og velta fyrir sér og hrapa ekki að niðurstöðum.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica