10. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Sýnum skynsemi. Samúel J. Samúelsson

Svínainflúensan er ekki verri en sú venjulega.

Eftir að ný inflúensuveira, svokölluð svína-inflúensa, kom upp í Mexíkó fyrr á þessu ári hefur almenningur á Vesturlöndum verið upplýstur nær daglega um það hve þessi svínainflúensa sé hættuleg. Með reglulegu millibili eru nefndar tölur um látna. Fjölmiðlar tala við sóttvarnalækna, sem útskýra að svínainflúensan sé sem stendur ekki svo skaðleg en hún geti orðið það og er þá er spænska veikin 1918 gjarnan nefnd, sem var reyndar líka inflúensa A stofn H1N1. Mikill viðbúnaður er viðhafður á Vesturlöndum og öll heilsugæslan og fleiri stofnanir á Íslandi sett í viðbragðsstöðu. Læknum eru reglulega settar leiðbeinandi reglur af yfirvöldum um það hvernig þeir eigi að umgangast sjúklinga sem eru hugsanlega með þessa „lífshættulegu“ sýkingu. Búið er að kaupa og útbýta á heilsugæslustöðvarnar hlífðarfatnaði fyrir starfsfólk (maska, sloppa og húfur). Mælst var til þess að læknar klæddust slíkum búningi við skoðun á grunuðum svínainflúensusjúklingi. Strax kom í ljós að svínainflúensufaraldurinn, sem nú er á Íslandi, er mjög vægur (líka í útlöndum) og eru heimilislæknar, sem eru í framlínunni og þekkja lækna best til, sammála um það. Hlífðarfatnaðurinn hefur nánast ekkert verið notaður. Það er lítil vörn í því að læknir klæði sig í slopp og setji á sig maska og hanska ef til hans kemur sjúklingur, sem er með einkenni sem gætu verið af völdum svínainflúensu. Það er mín skoðun að það verklag gagnist ekki utan einangrunarsjúkrastofu sjúkrahússins. Það gerir ekkert annað en veita lækninum falska vörn og hræða sjúklinginn og almenning og kostar mikið. Best er að umgangast sjúklinginn grímulaus eins og læknar gera venjulega og þvo hendurnar.

Nú á tímum eru samgöngur svo greiðar á milli landa og svæða innanlands að það er að mínu mati engin leið að hefta smit eða að takast á við þessa svínainfluensu öðruvísi en gert er á hverju ári þegar hin árlega inflúensa kemur. Eina leiðin til að varast hana hefði verið að loka landinu alveg með sóttkvíum eða banna ferðalög! Það er ekki hægt og var auðvitað ekki gert enda ástæðulaust. Sagan segir okkur að einhvern tíma muni inflúensuveira stökkbreytast, sem muni verða mönnum mjög skaðleg eins og spænska veikin reyndist vera. Það verður þó sennilega aldrei hægt að segja til um slíkt í tíma því að læknavísindin eru ekki þess megnug að sjá fyrir hvort eða hvenær inflúensuveiran stökkbreytist í aðra hættulegri eða meinlausari. Þetta er sennilega eins flókið, ef ekki flóknara en að segja fyrir um eldgos. Tölur sýna að í Bandaríkjunum deyja um 3000 manns í hverjum mánuði vegna hinnar árlegu inflúensu. Inflúensa er í sjálfu sér hættulegur sjúkdómur, því er ekki að neita en skv. WHO hafa „aðeins“ um 3000 manns látist úr svínainflúensunni í öllum heiminum frá upphafi. Viðbrögð sóttvarnaembætta yfirdrifin og skilaboðin til almennings því röng. Við vitum núna að svínainflúensan er meinlítil og virðist lítið smitandi og það á að segja almenningi það. Það á ekki að hræða með hugsanlegri stökkbreytingu til hins verra sem við vitum ekkert um.

Bólusetningin á að vera fyrir alla. Ákveðið hefur verið að bólusetja landsmenn gegn svína-inflúensunni. Keyptir verða 300.000 skammtar af bóluefni sem í raun eru mest 150.000 skammtar því að það þarf að bólusetja hvern tvisvar sinnum og þannig gengið útfrá því að öllum Íslendingum verði ekki boðin bólusetning. Bóluefnið er vandmeðfarið og geymist í stuttan tíma eftir að það hefur verið dregið í sprautu sem heilbrigðisstarfsmaður á heilsugæslustöð þarf að gera. Lauslega reiknað fara 833 vinnudagar í það að undirbúa bóluefnið til notkunar á heilsugæslustöðvunum. Sóttvarnalæknir ráðleggur flókið innköllunarferli við bólusetningu gegn svínainflúensunni og fólk er dregið í dilka eftir mikilvægi fyrir samfélagið og hvernig því hefur vegnað heilsufarslega. Heilsugæslunni er fyrirskipað að kalla fólk inn bréflega og sú framkvæmd er ófullkomin og tímafrek. Aðferðin gengur ekki upp að mínu mati þegar mikilvægt er talið að bólusetja sem flesta hratt. Nógu tímafrek er meðhöndlun bóluefnisins.

Ég tel einfaldast og best að bólusetja gegn svínainflúensunni eins og við gerum í heilsugæslunni við hinni venjulegu árlegu inflúensu. Læknir eða hjúkrunarfræðingur á heilsugæslustöð getur ekki staðið í því að velja úr þá sem má bólusetja. Það á auðvitað að bjóða öllum Íslendingum bólusetningu. Birst hafa rann-sóknir sem sýna að sennilega er nægjanlegt að bólusetja einu sinni. Bólusetningin er frjáls, þ.e. ekki lögbundin. Kannanir í Svíþjóð hafa sýnt að um þriðjungur almennings vill láta bólusetja sig gegn svínainflúensu og svipaða tölu hef ég séð um heilbrigðisstarfsmenn í Englandi. Mitt mat er að bóluefnið dugi fyrir alla þá sem vilja láta bólusetja sig jafnvel þó að bólusetja þurfi tvisvar sinnum. Sennilega munu eflaust fleiri vilja fá bólusetningu gegn svínainflúensu en hinni „venjulegu“ vegna umræðunnar.

Verum skynsöm.Þetta vefsvæði byggir á Eplica