05. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Breytingar á sérfræðinámi í geðlækningum. Viðtal við Pál Matthíasson

Framhaldsnám í geðlækningum hérlendis hefur gengið í gegnum talsverðar breytingar og endurskoðun á undanförnum mánuðum og segir Páll Matthíasson, kennslustjóri framhaldsnáms í geðlæknisfræði að þjálfun deildarlækna eftir nýrri áætlun muni hefjast í haust.

„Viljum bjóða sérfræðinám í geðlækningum sem stenst samanburð við gott nám erlendis,“ segir Páll Matthíasson kennslustjóri geðsviðs Landspítala.

Samkvæmt núgildandi sérfræðireglugerð eru einungis gerðar formlegar kröfur um að deildarlæknir hafi starfað í 4½ ár á geðdeildum til að öðlast sérfræðileyfi í geðlækningum. Endur-skoðun á reglugerðinni mun hafa staðið yfir um nokkra hríð og segir Páll að bundnar séu vonir við að ný reglugerð líti dagsins ljós innan tíðar. „Við ætlum þó ekki að bíða eftir því. Stefnt er að því að hefja framhaldsnám eftir nýju skipulagi í haust og markmiðið að það verði sambærilegt við góð prógrömm erlendis.

Sérnám í geðlækningum hefur haft nokkra sérstöðu meðal þeirra greina sem kenndar eru hérlendis á sérfræðistigi, þar sem hægt hefur verið að ljúka náminu að fullu hér heima um allnokkurt skeið. Í flestum öðrum greinum þarf að fara utan til að ljúka sérfræðináminu. Það hafa verið ákveðin vandkvæði við útfærslu námsins og ein af ástæðunum er hversu óljós sérfræðireglugerðin er hvað varðar inntak námsins. Fyrri kennslustjórar og prófessor greinarinnar hafa hins vegar gætt þess að deildarlæknar fari á milli deilda til að öðlast reynslu af sem flestum þáttum geðlækninga,“ segir Páll.

Hann nefnir annan þátt sem valdið hefur vandkvæðum við framkvæmd námsins og samfellu þess. „Stundum hefur verið undirmannað sem gerir erfitt um vik með að skipuleggja hreyfingu deildarlækna þannig að eðlileg stígandi sé í þjálfuninni.“

Nýtt námsfyrirkomulag í haust

Einn þáttur námsins er að sögn Páls með þeim hætti að umsjónarlæknir úr hópi deildarlækna hefur umsjón með þremur miðvikudagseftirmiðdögum í mánuði þar sem deildarlæknar fara yfir ákveðin grunnatriði í geðlækningum. „Þeir fá þá gjarnan sérfræðing til sín til að skýra tiltekin atriði. Þá er einn föstudagur í mánuði helgaður kennslu þar sem ákveðið þema er tekið fyrir. Að auki eiga deildarlæknar rétt á námsleyfi árlega og eru þá hvattir til að sækja ráðstefnur og námskeið. Þetta hefur allt verið ágætt en engu að síður hafa verið ákveðin vandkvæði sem tengjast mönnun deilda fyrst og fremst. Við höfum nú mjög öflugan hóp áhugasamra deildarlækna sem gerir kröfur til námsþáttar starfsins, en það hefur á stundum reynst erfitt að samræma kennsluþáttinn við þarfir þjónustunnar vegna vaktafría sem deildarlæknar fá fyrir og eftir vaktir og gerir að verkum að þeir eru talsvert oft fjarverandi á dagvinnutíma ef vaktirnar sem þeir verða að taka eru margar. Þá hefur skort á mönnun á bráðadeild geðsviðsins og göngudeildum svo þeir sem eru að byrja hjá okkur hafa þurft að hefja starf sitt þar, þó við teljum almennt heppilegra að unglæknar byrji á legudeildum þar sem auðveldara er að sinna handleiðslu þeirra og leiðbeina þeim fyrstu vikurnar og mánuðina.“

Páll tók við stöðu kennslustjóra framhaldsnáms af Engilbert Sigurðssyni og um tíma höfðu þeir báðir umsjón með náminu en frá því í ársbyrjun 2008 hefur Páll einn gegnt stöðunni. „Undanfarið ár hefur hópur sérfræðinga í umboði Hannesar Péturssonar prófessors í geðlækningum verið að vinna að breytingum á náminu til að gera það markvissara og skilgreint betur ramma um námið. Þetta starf er núna að skila sér og í haust munum við byrja að starfa samkvæmt nýrri áætlun í sérfræðináminu. Þá efndum við til starfsdags í byrjun þessa árs þar sem deildarlæknarnir unnu í starfshópum og lögðu fram hugmyndir sínar um inntak námsins og hvernig þeir sæju sjálfir að samsetning þjónustu og náms í deildarlæknisstarfinu ætti að vera. Þetta skilaði mjög gagnlegum niðurstöðum og í framhaldinu er verið að skipa nefnd þriggja deildarlækna og tveggja sérfræðinga sem mun vinna að endanlegum tillögum á nýju námsfyrirkomulagi sem tekur gildi í haust.

Breytingarnar beinast meðal annars að þörfum þeirra sem vilja taka allt námið hér heima. Þetta er mikilvægt þar sem á næstu árum er ljóst að margir geðlæknar munu hætta störfum vegna aldurs og því verður mönnun enn mikilvægari en ella. Við viljum því halda í sem flesta af okkar deildarlæknum þó vissulega sé gagnlegt og jákvætt að fara erlendis til náms í hluta af náminu. Okkar markmið er samt sem áður að bjóða fullt sérfræðinám í geðlækningum sem stenst samanburð við gott sérfræðinám erlendis þannig að það sé ekki af þeirri ástæðu einni sem áhugasamir unglæknar leita annað.“

 

Náminu skipt í þrjá hluta

Páll segir að endurskilgreiningu framhaldsnáms-ins megi skipta í þrjá hluta og eftir því verði farið þegar ný námstilhögun tekur gildi í haust. „Enn er verið að að vinna að útfærslu ýmissa atriða en þessi skipting er það módel sem gengið er útfrá. Það er í fyrsta lagi ramminn um námið, í öðru lagi innhald námsins eða skilgreining námsmarkmiða og þriðja lagi klínískur þáttur hluti námsins. Ramminn verður þannig hugsaður að við ráðningu geri deildarlæknirinn samning við okkur um að skuldbinda sig til að taka þátt í náminu en á móti fái þeir fullt svigrúm til að sinna því og þeim sé tryggður ákveðinn starfstími á hverri deild með fullri handleiðslu þannig að hann nýtist þeim sem best. Þetta er hugsað sem tveggja eða þriggja ára ferli þar sem áherslan er meiri á námsþáttinn en þjónustuþáttinn og að þessu loknu hafi deildarlæknirinn farið í gegnum flesta þætti geðlækninga á mjög skipulagðan hátt og undir styrkri handleiðslu sérfræðinga. Síðasti hluti náms/starfstímans að loknum þessum tíma er með meiri áherslu á þjónustuhlutverkið, en þó þannig að deildarlæknirinn geti valið sér deild eða svið til að starfa eftir því sem áhugi hans stendur mest til. Jafnframt þessu verði áfram svigrúm til að taka við námslæknum í stöður til skemmri tíma, sem og læknum í heimilislæknaprógrammi í hálfs árs stöður.“

Páll segir að handleiðslan sé mjög mikilvægur þáttur í náminu og á það verði lögð sérstök áhersla. „Handleiðslan er tvíþætt, annars vegar persónuleg handleiðsla eins sérfræðings sem er eins konar mentor deildarlæknisins meðan á námstímanum stendur en einnig klínísk handleiðsla sem sérfræðingur á viðkomandi deild veitir. Varðandi námsinnihald þá eru ákveðin atriði sem geðlæknar þurfa að kunna. Því má skipta í tvennt, annars vegar klínískir hlutir, sjúkdómagreining, lyfjafræði o.þ.h. og hinn er þekking og þjálfun í öllum þáttum viðtalstækni sem er mjög yfirgripsmikil í þjálfun geðlækna. Enn einn hluti af innhaldi námsins snýr síðan að siðfræði sem er ein af undirstöðum mjög mikilvægur hluti geðlækninga. Í starfi geðlæknisins koma oft upp ýmis siðfræðileg álitaefni í meðhöndlun sjúklinga, samskiptum við þá og aðstandendur þeirra.“

Hvað varðar klíníska hluta námsins segir Páll að þess verði gætt að deildarlæknar öðlist fjölbreytta reynslu á öllum sviðum geðlækninga og njóti handleiðslu sérfræðinga meðan á því stendur. „Deildarlæknirinn mun halda eins konar dagbók eða „log-bók“ þar sem fram kemur hvað hann fékkst við á hverjum tíma og sérfræðingurinn mun staðfesta að svo hafi verið. Ákveðin stígandi þarf einnig að vera til staðar.“

Við framkvæmd námsins segir Páll að tekin verði upp árleg stöðupróf til að meta árangur og þróun í námi hvers deildarlæknis. „Við erum að leita leiða til að taka þetta upp og höfum fyrirmyndir bæði úr geðlækninganámi erlendis og einnig úr öðrum sérfræðigreinum. Þetta á að styðja við námið en við höfum hins vegar ekki í hyggju að svo komnu máli að efna til lokaprófs. Það er mun flóknara og þarfnast meiri undirbúnings ef af yrði.“

Loks nefnir Páll fleiri þætti sem koma við sögu í náminu en þar eru rannsóknir og þátttaka deildarlækna í þeim mikilvægar. „Við eigum mjög vel menntaða sérfræðinga hér innan sviðsins sem mikilvægt er að ýta til að þjálfa námslækna í vísindavinnu. Hvernig það verður gert er ekki ljóst á þessari stundu en ein leið væri að stofna rannsóknarstöðu við sviðið sem deildarlæknar geta sótt um til ákveðins tíma. Þá er einnig mikilvægt að deildarlæknar fái innsýn og þjálfun í stjórnun deilda og sviðsins og skipulagi þjónustunnar. Allt eru þetta þættir sem skipta máli við samsetningu vandaðs sérfræðináms í geðlækningum sem stenst samanburð við það sem er í boði í löndunum í kringum okkur.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica