05. tbl. 95. árg. 2009

Fræðigrein

Sinnepsgas: notkun þess og eitranir

Ágrip

Sagt er frá fundi tveggja sinnepsgassprengikúlna sem komu upp árið 1972 með skeljasandi úr Faxaflóa vegna aðdrátta til Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi. Önnur sprengjan festist í mulningsvél í verksmiðjunni. Hún rifnaði og úr henni lak dökkur, hvítlaukslyktandi vökvi, en sprakk síðan, þegar átti að losa hana. Hin sprengjan var sprengd á víðavangi. Sagt er frá eitrunareinkennum hjá þeim mönnum, sem véluðu um sprengjurnar, svo og helstu eitrunareinkennum af völdum sinnepsgass. Lögð er áhersla á megingildi tafarlausrar hreinsunar og þvottar við sinnepsgaseitranir. Hið virka efni í sinnepsgasi, TTS (tvíklórtvíetýlsúlfíð), er auðframleitt og engar hömlur eru á notkun þeirra grunnefna, sem unnið er úr. Talið er að sinnepsgassprengjur leynist enn í vopnabúri ýmissa þjóða þrátt fyrir bann við að framleiða, eiga eða nota slíkar sprengjur. Þá eru vísbendingar um að skemmdaverkamenn hafi haft ýmis spjót úti til þess að komast yfir sinnepsgassprengjur. Því megi enn búast við sinnepsgaseitrunum.

Inngangur

Árið 1860 bjó enskur prófessor, Frederick Guthrie að nafni, til brennisteinssamband í vökvaformi, sem efnafræðilega heitir tvíklórtvíetýlsúlfíð (TTS, sjá mynd 1). Efnið var ekki hreint og af því var lykt „ekki ógeðfelld, en erfitt að skilgreina“ og bragð „mjög sætt og stingandi“. Með því að efnið minnti á sinnep (e. mustard), bæði að lit, bragði og lykt og var brennisteinssamband festist við það nafnið brennisteins-mustarður (e. sulphur mustard). Íslenska orðið sinnep er venjulega haft um kryddið fullgert en mustarður fremur notað um möluð fræ sinnepsplöntunnar (Sinapis alba) og nokkurra annarra plantna af krossblómaætt sem notuð eru til sinnepsgerðar.1 Við framleiðslu á brennisteins-mustarði myndast ýmis brennisteinssambönd (óhreinindi), sem gefa honum sína sérkennilegu lykt. Hreint TTS er aftur á móti talið lyktar- og bragðlaust. Ýmsum efnum er blandað í brennisteins-mustarð til þess að auðvelda notkun í hernaði. Nefnist efnið þá sinnepsgas (e. mustard gas) og er því heiti haldið hér.

Mynd 1. Tvíklórtvíetýlsúlfíð (TTS).

Guthrie gerði enn fremur þá uppgötvun að: „Einn dropi á tunguna skemmir þekju tungunnar og veldur sársauka, sem stendur í marga daga“. Hann benti einnig á að brennisteins-mustarður gæti valdið langvarandi bólgu í augnlokum.2 Síðar kom í ljós að TTS myndi vera dæmigert blöðrugefandi efni (e. vesicant) og gæti framkallað áverka á húð er oft líkist annarrar gráðu bruna. Var enn fremur talið að sinnepsgasi mætti dreifa úr sérstökum sprengjum, sinnepsgassprengjum (e. mustard gas bombs), á vígvelli og gera bardagamenn með því óvíga. Þetta leiddi svo til þess að Þjóðverjar freistuðust til þess fyrstir allra að nota sinnepsgas í bardögum í fyrri heimsstyrjöldinni.3

Sinnepsgas var aldrei með vissu notað í síðari heimsstyrjöldinni, en það hefur verið notað í öðrum hernaðarátökum. Í lok heimsstyrjaldar-innar 1945 áttu stríðsgerendur samt mikið magn sinnepsgassprengna sem mörgum var fargað í sjó, ekki síst í Eystrasalti og Norðursjó, en líklega einnig hér við land (sjá viðauka). Það kom okkur samt í opna skjöldu að tvær slíkar sprengjur skyldu finnast á afvegum í Faxaflóa árið 1972. Við kynnum hér þetta atvik og fjöllum jafnframt nokkru nánar um efnið TTS og sinnepsgas, notkun þess og eitranir af þess völdum og meðferð þeirra. Í lokin er svo stutt umræða. Við þessi skrif er mjög stuðst við hina viðamiklu yfirlitsgrein Sidells, Urbanettis, Smiths og Hursts 19973, svo og óbirt gögn Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði (RLE). Hluti af þessum efniviði hefur áður verið kynntur á fundi (NAPC Annual Meeting) sem haldinn var á Íslandi 2002.

 

Mynd 2. Brot sinnepsgassprengju sem árið 1972 kom í Semetnsverksmiðju ríkisins á Akranesi með skeljasandi úr Faxaflóa. Sprengjan festist í mulningsvél í verksmiðjunni og sprakk, þegar reynt var að losa hana. Menn hlutu ekki beina áverka af sprengingunni, en fjórir starfsmenn fengu síðar dæmigerða áverka af völdum sinnepsgasins. Myndin er tekin í RLE 20. október 2008.

 

Eigindir TTS og notkun sinnepsgass í hernaði

TTS hefur sameindaþungann 159,1. Efnið er fljótandi við venjulegan stofuhita (bræðslumark 14,4°). TTS leysist lítið í vatni, en vel í flestum lífrænum leysiefnum. Efnið hefur lítinn eða fremur lítinn uppgufunarþrýsting og gufurnar (gasið) eru þyngri en andrúmsloft. Ef sinnepsgassprengjur eru sprengdar að næturlagi, hefur gufan (gasið) tilhneigingu til þess að liggja við jörð eða í lágum í landinu. Þegar morgnar og lofthiti eykst, færast gufurnar upp í mannhæð eða hærra. Eitrunarhætta er og meiri í heitu loftslagi (Mið-Austurlönd og víðar) en svölu.3

Þjóðverjar komu sinnepsgasi fyrir í sérstökum sprengikúlum sem þeir skutu á óvinina (aðallega Breta) í heiftarlegum orustum við bæinn Ypres í Belgíu í fyrri heimsstyrjöld. Þetta var í júlí 1917. Heitið Ypres festist að nokkru við sinnepsgas, sem stundum er nefnt l´ypérite. Þrátt fyrir að flestar þjóðir gengjust undir bann við notkun efnavopna og lífefnavopna í hernaði þegar árið 1925 (The 1925 Geneva Protocol), hefur sinnepsgas þó síðan allnokkrum sinnum verið notað í hernaði að því talið er. Þannig er álitið að Ítalir hafi beitt sinnepsgasi í bardögum við Abyssiníumenn (Etíópíumenn) árið 1935. Japanir notuðu sennilega einnig sinnepsgas gegn Kínverjum á árunum 1937-1944 og Egyptar gegn Jemenum á 7. áratug síðustu aldar. Þá notuðu Írakar sinnepsgas (og einnig tabún) með vissu í stríði við Írana á árunum 1982-1988. Hermenn frá Íran sem urðu fyrir sinnepsgasárásum á vígvellinum voru í sumum tilfellum fluttir til annarra landa til meðferðar þannig að áverkar þeirra urðu dæmdir af óvilhöllum læknum. Þar að auki var vökvi frá að minnsta kosti einni ósprunginni sprengju greindur bæði í Sviss og Svíþjóð og staðfest að í honum væri tvíklórtvíetýlsúlfíð (TTS).3, 4 Enda þótt sinnepsgas væri aldrei notað með vissu í síðari heimsstyrjöld varð samt mikil eitrun af völdum sinnepsgass á þeim árum,3,5 sjá einnig síðar.

 

Nítur-mustarður

Nítur-mustarður (e. nitrogen mustard) er eins að gerð og brennisteins-mustarður, að því undanskildu að nítur (köfnunarefni) er í sameindinni í stað brennisteins (sjá mynd 1). Árið 1919 var því lýst að sinnepsgaseitrun gæti leitt til hvítkornafæðar, mergþurrðar, hrörnunar í eitlavef og sára í meltingarvegi. Á árunum milli heimsstyrjalda fóru fram miklar rannsóknir með nítur-mustarð sem síðar leiddi til þess að farið var að nota eitt afbrigði hans, með heitinu meklóretamín, til lækninga á illkynja sjúkdómum. Þetta var árið 1942 og má segja að meklóretamín sé í raun fyrsta krabbameinslyfið. Það er enn notað í blöndum við önnur lyf gegn Hodgkins sjúkdómi. Nítur-mustarður hefur aftur á móti aldrei verið notaður í hernaði og þykir einkum af tæknilegum sökum ekki henta til þess.3, 6 Það auðveldar hins vegar mjög notkun meklóretamíns til lækninga að af því má búa til vatnsleysanleg sölt.

 

Sprengjufundurinn í Faxaflóa

Meðal aðfanga til sementsframleiðslu í Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi var skelja-sandur af botni Faxaflóa. Þann 21. febrúar 1972 barst sprengja inn í verksmiðjuna með skeljasandi úr Flóanum. Komst sprengjan í grjótkvörn í verksmiðjunni og sprakk þar svo sem nánar segir frá. Tveimur dögum áður hafði önnur sprengja sömu gerðar borist á land með skeljasandi, en náði ekki að komast inn í verksmiðjuna sjálfa. Var hún síðar sprengd á víðavangi.

Sprengjan hafði stöðvað kvörnina og rofnað um leið. Við það fór vökvi að leka úr sprengjunni og út úr kvörninni. Af vökvanum var lykt, sem minnti á hvítlauk. Tveir starfsmenn Sementsverk-smiðjunnar voru látnir losa sprengjuna úr kvörninni og aðrir tveir hafðir þeim til aðstoðar. Þeir töldu að um saklausan málmhlut væri að ræða og ætluðu að skera hann sundur með logsuðuloga. Skömmu eftir að þeir hófu verkið sprakk sprengjuhleðslan. Þá fór svo að vökvi sem eftir var í sprengjunni, spýttist á mennina. Allmörgum klukkustundum síðar fengu fjórmenningarnir dæmigerð einkenni í húð og augum um eitrun af völdum sinnepsgass. Þeir voru fluttir í slysadeild Borgarspítalans til aðhlynningar og voru svo lagðir í spítalann. Frá þessu greinir í frétt í Morgunblaðinu 23. febrúar 1972. Þar segir að tveir mannanna hafi brennst bæði í andliti og á höndum, en tveir einungis á höndum. Í frétt Morgunblaðsins segir enn fremur að leitað hefði verið til sprengjusérfræðings lög-reglunnar í Reykjavík og sprengjusérfræðinga á Keflavíkurflugvelli.7 Málinu var svo vísað til lögreglurannsóknar hjá bæjarfógetanum á Akranesi, sem leitaði til RLE um greiningu á sýnum.

Sýni sem sent var til RLE daginn eftir (22. 2.´72) var dökkbrúnn vökvi sem lekið hafði úr sprengjubrotunum. Vökvinn hafði stingandi lykt er minnti á lykt af hvítlauk. Sýnið var rannsakað samkvæmt greiningaferlum rannsóknastofu Dönsku almannavarnanna.8 Enn fremur var sýnið skoðað í innrauðu og útfjólubláu ljósi í ljós-gleypnimælum. Niðurstaðan varð sú að TTS væri í sýninu. Það var svo staðfest síðar í varðveittu sýni með gasgreiningu samtengdri massagreiningu (GC/MS) þegar þær greiningaraðferðir urðu aðgengilegar. Sprengjan sundurtætt sem sýnið lak úr, sést á mynd 2. Upphaflega voru sprengjurnar málmsívalningar með loki á, sjá mynd 3.

 

Mynd 3. Rissmynd af sinnepsgassprengju sem fannst utandyra í Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi 1972. Sprengjan var 75 mm í þvermál og u.þ.b. 300 mm löng. Myndin er gerð á vettvangi af JK eftir lýsingu Helga Andréssonar, lögregluþjóns, jafnframt því sem hliðsjón var höfð af útliti sprengjubrotsins sem sýnt er á mynd 2. Sjá einnig viðauka.

 

Hin sprengjan sem fannst utan dyra var sprengd á víðavangi við Elínarhöfða 22. 2.´72. Það gerði sprengjusérfræðingur lögreglunnar í Reykjavík að viðstöddum Helga Andréssyni, lögregluþjóni á Akranesi. Sprengjan var sprengd með dýnamíti í klettaskor nærri sjó. Sem betur fer stóð vindur á sjó út. Að sögn Helga fylgdi mikill mökkur sprengingunni líkt og þegar táragassprengja er sprengd. Af staðnum lagði mjög sterka lykt af sinnepsgasi og sterk lykt var að sögn af tvímenningunum þegar þeir komu í Sementsverksmiðjuna að verki loknu. Helgi brenndist framan á læri og rakti það til þess að hann kannaði á eftir staðinn þar sem sprengt hafði verið.

Þegar hér var komið sögu fór forstjóri Sem-entsverksmiðjunnar (tæknilegur forstjóri) þess á leit við RLE að stofnunin sendi mann til Akraness til vettvangskönnunar og frekari sýnatöku. Lá það að baki beiðninni að forstjórinn óttaðist að hættuleg mengun kynni að vera í verksmiðjunni og í grennd. Varð úr að annar okkar (JK) færi (25. 2. ´72) upp á Akranes og tæki þar alls 25 sýni til rannsóknar. Rannsóknin leiddi í ljós að sinnepsgas hefði lekið í nokkrum mæli úr sprengjunni sem festist og sprakk í mulningsvélinni. TTS varð einnig greint í sýnum sem tekin voru við Elínarhöfða í námunda við þann stað er heila sprengjan hafði verið sprengd með dýnamíti. Við þessa rannsókn var enn fremur haft samband við enskan vísindamann, dr. Alan Curry.9

Þegar JK kom á Akranes hitti hann fyrir sprengjusérfræðinginn úr Reykjavík og fjóra bandaríska hermenn af Keflavíkurflugvelli sem áður nefnir. Töldu hvorir tveggja að þeir ættu að fá heim með sér sprengjuleifarnar úr kvörninni. Við fengum því bæjarfógetann á Akranesi til þess að lýsa því yfir að sprengjan væri „okkar“ og skyldi vera geymd í RLE. Var þetta gert í ljósi þess að RLE var rannsóknaraðili í málinu. Ameríkumenn komu þó að sögn undan litlum feng, lokinu af sprengjunni sem mun hafa dottið af í mulningsvélinni - og létum við það gott heita!

 

Mynd 4. Myndin sýnir óljóst merki í málminum á ytra byrði sinnepsgassprengjunnar (sbr. mynd 2). Reynt var á sínum tíma að lesa úr þessum merkjum til þess að rekja hvaðan sprengjan væri komin. Myndin er tekin í RLE 20.10.2008.

 

En hvaðan var sprengjan (sprengjurnar)? Á ytra byrði hennar eru í málminum merki sem að vísu eru ekki mjög glögg, né auðveld ósprengjufróðum mönnum að ráða í (mynd 4). Sprengjan gæti hugsanlega verið þýsk, en okkur þóttu ekki merkin benda til þess. Við leituðum ráða hjá dr. Alan Curry í Englandi og hann taldi að sprengjurnar hefðu ekki verið enskar.9 Af augljósum ástæðum var látið ógert að spyrja Bandaríkjamennina um uppruna sprengnanna. Þess í stað fórum við þess á leit við opinbera aðila að kannað væri hvort sprengjurnar væru amerískar að uppruna. Svar við þeirri málaleitun hefur raunar aldrei borist, þótt það virðist liggja nokkuð í augum uppi í ljósi nýrra upplýsinga (sjá viðauka).

 

Eitranir af völdum sinnepsgass

Eins og sinnepsgas hefur verið notað á vígvöllum er áverkun þess á augu og húð svo og öndunarveg mest áberandi.

Næmi húðar og augna gegn eiturhrifum sinnepsgass er mjög mikið. Dropaögn af fljótandi brennisteins-mustarði á húð, sem inniheldur 10 míkróg af efninu, nægir til þess að framkalla blöðru. Næmi augna fyrir efninu í formi gass, sinnepsgass, er jafnvel talið enn meira. Dæmigert er að einkenni frá húð sjást fyrst um það bil 4-8 klst. eftir áverkun, en þó venjulega fyrr í augum. Þessi biðtími frá áverkun og þar til einkenni birtast er mjög sérkennandi fyrir eiturhrif sinnepsgass.3

 

Mynd 5. Myndin sýnir dæmigerðar blöðrur á fæti sjómanns sem varð fyrir sinneps­gasi úr lekum sprengjum við veiðar í Eystrasalti. Myndin er fengin að láni og birt með heimild Steens Christensen, fyrrverandi yfirlæknis á Borgundarhólmi.

 

Mynd 6. Myndin sýnir útbreidda áverka eftir sinnepsgas á húð íransks hermanns, sem kom til meðferðar á sænskum spítala í ófriðnum á milli Íraks og Írans á árunum 1982-1988. Myndin er fengin að láni af slóðinni: http://www.opcw.org/about-chemical-weapons/types-of-chemical-agent/mustard-agents/ og birt með heimild frá Organisation for the Prohibition of Chemical Weapons (OPCW).

 

Einkenni frá húð. Fyrstu einkenni eru roði (erythema), sem minnir á sólbruna. Ef áverkunin (bruninn) er mjög væg, skaðast húðin ekki frekar. Ef áverkunin er meiri myndast blöðrur í húðinni sem eru oft stórar og eru vökvafylltar (bullae). Sinnepsgas verkar sérstaklega á grunnlag (stratum basale) í yfirhúðinni (hornhúðinni) þar sem eru horngervandi frumur (keratínócýtar). Eftir áverkun af völdum sinnepsgass skaddast þessar frumur og þær deyja og leysast upp. Tengslin milli yfirhúðar og undirhúðar (leðurhúðar; corium) rofna og vökvi safnast í millirúmið. Blöðrurnar eru í fyrstu litlar (vesicula), en skilin milli þeirra bresta smám saman og þær ná „bulla-stærð“ (mynd 5). Ef áverkunin er mjög mikil, eins og getur gerst á vígvelli, er hætta á því að yfirhúðin eyðileggist á stórum svæðum (mynd 6).

Fremur sjaldgæft er að bruni af völdum sinnepsgass gangi niður úr leðurhúðinni, jafnvel á vígvelli. Yfirhúðin grær hins vegar seint og menn sem hafa orðið illa úti vegna sinnepsgasbruna þjást oft af miklum verkjum og þurfa gjarnan á langri spítalavist að halda.3

 

Mynd 7. Slímhimnubólga í auga og þrútin augnlok hjá manni sjö dögum eftir áverkun sinneps­gass. Myndin er fengin að láni úr: Willems JL. Clinical management of mustard gas casualties. Ann Med Milit Belg 1989; 3 (supplement 1): 1-61, og birt með leyfi höfundar.

 

Vökvinn í blöðrunum inniheldur ekki TTS og yfirleitt er talið að efnið hvarfist mjög fljótt í óvirk efni í líkamanum.3 TTS hefur þó með fullri vissu verið greint í fituvef í írönskum hermanni sem lést eftir sinnepsgasárás í styrjöldinni 1982-1988.10

Einkenni frá augum. Við væga áverkun á augu verður einungis vart við óþægindi og roða í augunum. Við meiri áverkun verður slímhúðar-bólga í augunum áberandi, þroti og samdráttur í augnlokum (mynd 7), svo og sársauki og skemmd í hornhimnu. Skemmdir í hornhimnu augans geta leitt af sér sjóntruflanir og blindu sem þó nær alltaf er tímabundin. Skemmdir í þekjuvef í augum eru af sama toga og í húð og áður ræðir.3

Einkenni frá öndunarvegi. Sinnepsgas skaðar slímhúð í öndunarvegi eftir honum endilöngum. Skemmdin færist því neðar því meiri sem áverkunin er. Ef slímhúðin er mikið sködduð getur hún myndað slímlægjur (pseudomembranae) og jafnvel stíflað öndunarveginn. Sinnepsgas hefur aftur á móti litla verkun á lungnavefinn og veldur yfirleitt ekki lungnabjúg þótt dæmi um slíkt séu vel þekkt.13

Einkennin líkjast í fyrstu mest kvefi með nefrennsli og hósta. Síðar kemur hæsi með þurrum, hvellum hósta og jafnvel raddleysi. Bólgan er í fyrstu ekki ígerð af sýklum. Þegar frá líður er hætta á að sýklar safnist í bólgna og skaddaða slímhúðina og geti valdið barkabólgu, berkjubólgu og jafnvel sýklasótt (sepsis). Í slíkum tilfellum er mjög líklegt að TTS hafi náð að frásogast og valda hvítkornafæð og með því dregið úr mótstöðuafli sjúklinganna (sjá einnig á eftir).3

Enda þótt sinnepsgas dugi mjög vel til þess að gera menn óvíga um lengri eða skemmri tíma eru dauðsföll af völdum þess á vígvelli samt tiltölulega fá (ca. 3% eða minna), og tengjast yfirleitt sýkingu í öndunarfærum.3

Önnur einkenni. Klígja og uppsala eru algeng eftir mikla áverkun sinnepsgass. Einkenni þessi eru eflaust af sömu rót og sams konar einkenni eftir töku krabbameinslyfja. Við mikla áverkun eru einnig þekkt einkenni frá miðtaugakerfi.3

Sinnepsgasslysið í höfninni í Bari árið 1943. Síðla árs 1943 gerðu Þjóðverjar loftárás á skip Bandamanna í höfninni í Bari á sunnanverðri Ítalíu. Í árásinni var ekki færri en sextán skipum sökkt. Meðal þeirra var bandarískt herflutningaskip (USAT John Harvey) sem hlaðið var um 100 tonnum af sinnepsgassprengjum auk sprengiefna. Skipið nánast sprakk í sundur og allir um borð dóu. Í höfninni voru einnig olíuskip og úr þeim flóði olía. Sinnepsgas blandaðist í olíuna og ýmist brann með henni eða hélst í olíubrákinni þar sem ekki brann. Björgunarmenn gerðu sér ekki ljóst að sinnepsgas væri í olíunni. Þess var því ekki gætt sem skyldi að fjarlægja föt og þvo olíuna af þeim sem bjargað var úr höfninni.5 Talið er að 617 hafi fengið sinnepsgaseitrun í árásinni og af þeim dóu 83, helmingurinn úr öndunarfærasýkingum samfara hvítkornafæð.5

Verkunarháttur TTS. Yfirleitt er talið að TTS-myndi óstöðugan súlfóníumjón sem er mjög rafsækinn (elektrófíl) og hvarfast greiðlega við kjarnasækna (núkleófíl) amínóhópa og súlfhýdrýlhópa í líkamanum.3 Þetta eru hliðstæð efnahvörf við myndun etýlenimíníumjóns út frá meklóretamíni (nítur-mustarði). Hvort-veggja jónirnar geta valdið alkýleringu á kjarnapróteinum og frumudauða af þeim sökum.3, 6 TTS er einnig þekkt að því að hvarfast við súlfhýdrýlhópa í glútatíóni og eyða þar með fríu glútatíóni. Ef glútatíón skortir er aukin hætta á oxunarskemmdum í frumum og sér í lagi, þar eð glútatíón er hjáensím við glútatíónperoxídasa sem er eitt af meginoxavarnarensímum líkamans.3, 11 Að jafnaði er skaðleg verkun efna á borð við TTS mest á frumur í hraðri skiptingu, svo sem á horngervandi frumur í neðsta lagi yfirhúðar og frumur í blóðmerg.

 

 

Meðferð eitrana

Klórkalk (kalcíumhýpóklórít) gengur í sam-band við TTS og breytir í síður skaðleg efni (saltsýru, koltvíoxíð, brennisteinstvíoxíð og alkýl-klóríð) samfara hitamyndun. Enn betra er að nota magnesíumoxíð í blöndu við klórkalk, en magnesíumoxíð bindur TTS og flýtir fyrir efnahvörfum þess við klórkalk.12 Alls staðar þar sem sinnepsgas hefur mengað hús, húsbúnað, tæki eða tól, ber að reyna að dreifa klórkalki með eða án magnesíumoxíðs.

Ef menn hafa orðið fyrir sinnepsgasi er eina róttæka aðgerðin sem völ er á að fjarlægja af þeim föt og þvo þeim með sápu og skola með klóramíni (er klórgjafi) í vatnslausn svo fljótt og kostur er. Að öðrum kosti verður að skola með ríkulegu vatni. Best er ef útsettir menn geta gert þetta sjálfir og helst innan fárra mínútna eftir að áverkunin varð. Annars má búast við að TTS hafi náð að frásogast gegnum húðina.3 Gildi slíkra hreinsiaðgerða kom berlega í ljós við slysið mikla í höfninni í Bari 1943. Allir sem náðu að komast úr fötum og hreinsa sig sjálfir, lifðu af.5

Andefni (antidote) gegn verkunum TTS eru ekki til. Einkenni frá líffærum verður því að meðhöndla svo sem tilefni er til hverju sinni. Áverkar í húð eru meðhöndlaðir eins og annars stigs bruni og áverkar í augum líkt og við bólgur í augum. Mjög mikilvægt er að skola augun sem allra fyrst. Við áverka í öndunarvegi er reynt að tryggja nægjanlegt súrefnisflæði og koma í veg fyrir sýkingar.

 

Umræða

Bandaríkjamenn sem kallaðir voru í Sementsverk-smiðjuna á Akranesi kunnu svo vel til verka að þeir dreifðu að sögn 200 kg af klórkalki á gólf verksmiðjunnar og víðar innan húss. Mikil mildi er hins vegar að ekki skyldi verða slys þegar sprengjusérfræðingur lögreglunnar í Reykjavík sprengdi sinnepsgassprengju á víðavangi við Elínarhöfða. Sem betur fer stóð vindur af landi og bar sinnepsgasmökkinn því beint á haf út.

Við höfum ekki kannað sjúkraskýrslur fjórmenninganna sem urðu fyrir vökvanum úr sinnepsgassprengjunni í mulningsvélinni í Sementsverksmiðjunni. Við höfum hins vegar munnlegar heimildir fyrir því að áverkar mannanna hafi sem betur fer verið vægir eða fremur vægir. Við sinnepsgaseitranir ber þess að minnast að öfugt við lífræn fosfórsambönd (tabún og fleiri) og arsensambönd, sem einnig hafa verið notuð í hernaði og til skemmdarverka, er ekki til andefni (antidote) gegn verkunum TTS. Því verður ekki lögð of rík áhersla á að svipta menn klæðum, þvo og hreinsa, er orðið hafa fyrir sinnepsgaseitrun. Því fyrr sem þetta er gert því betri eru að jafnaði horfur manna á að sleppa vel frá sinnepsgaseitrun. Jafnframt þurfa menn, læknar eða aðrir, sem að koma að gæta þess að menga ekki sjálfa sig eða nánasta umhverfi.

Okkur er ekki kunnugt um að sinnepsgas-sprengjur hafi oftar fundist í íslenskri landhelgi, né heldur komið í veiðarfæri íslenskra skipa eins og alloft hefur borið við hjá dönskum fiskimönnum í Eystrasalti.13, 14 Er vonandi að svo haldist. Hinu ber samt ekki að gleyma að þrátt fyrir ákvæði Convention on the prohibition of the development, production, stockpiling and use of chemical weapons and on their destruction frá 1993, sem Íslendingar og fjöldi annarra þjóða (alls 184) hafa gengist undir, má með rökum ætla að sinnepsgas leynist enn í vopnabúri sumra þjóða. Hér við bætist að TTS er auðvelt að framleiða og ekkert af undirstöðuefnunum til framleiðslunnar er sérstökum hömlum háð. Þá eru greinilegar vísbendingar um að skemmdarverkamenn hafi sýnt tilburði í þá átt að útvega sér sinnepsgas (og fleiri efnavopn) vel vitandi að sinnepsgas getur valdið gríðarlegum usla á fjölförnum leiðum og í mannþröng. Þetta leiðir allt hugann að því að sinnepsgaseitrana kunni áfram að verða vart og réttlætir, fremur en hitt, að um efnið sé fjallað.

Að lokum. Gamalt máltæki segir: Ekkert er svo illt, að ekki boði nokkuð gott. Þetta á vel við TTS eða sinnepsgas sem varð þess valdandi að tekið var að nota krabbameinslyf á 5. áratug síðustu aldar.

 

Viðauki

Þegar samning þessarar greinar var á lokastigi barst öðrum okkar (ÞJ) bréf frá Friðþóri Eydal, áður upplýsingafulltrúa varnarliðsins og nú Keflavíkurflugvallar, en hann er manna fróðastur um hernaðarumsvif Breta og Bandaríkjamanna hér á landi á stríðsárunum og síðar. Þar kemur meðal annars fram að: „Bretar og Bandaríkjamenn höfðu báðir sinnepsgaskúlur í fallbyssur sínar hér á landi og Bandaríkjaher var m.a. með liðssveit, sem annaðist geymslu og áfyllingar á slíkar kúlur, nærri Selvatni norðan Lækjarbotna“. Bretar höfðu ekki neinar byssur af hlaupvídd 75 mm (mynd 3), en Bandaríkjaher átti fjölda slíkra byssna, uns stærri byssur leystu þær af hólmi þegar á styrjöldina leið. Í bréfinu segir einnig: „Þessar byssur voru af þeirri gerð sem nefnist howizer, hlaupstuttar og til þess gerðar að skjóta kúlum í háum boga yfir hindranir á vígvelli“ (mynd fylgdi bréfinu af slíkri byssu við skotæfingar Bandaríkjahers á Sandskeiði). Friðþór vill sömuleiðis að fram komi að Landhelgisgæslan hafi staðfest að sprengjurnar væru bandarískar að uppruna og Bandaríkjaher hefði að stríði loknu leigt íslenska báta til þess að farga skotfærum í sjó í Faxaflóa og við Reykjanes. Var það að minnsta kosti í sumum tilvikum gert í fylgd íslenskra lögreglumanna.

 

Þakkir

Þakkir eru færðar Óttari Kjartanssyni, kerfis- fræðingi, fyrir töku mynda 2-4 og frú Jóhönnu Edwald, gömlum samstarfsmanni okkar, fyrir aðstoð við gerð prenthandrits.

Þá er Friðþóri Eydal þakkað fyrir upplýsingar, sem birtast í viðauka, og yfirlestur handrits.

 

 

Heimildir

 

1.  Matvælastofnun.  Bréflegar upplýsingar 12. 8. 2008.

2.  Jacques J. Les premières victimes de l ´ypérite.  New J Chem 1991; 15:3-4.

3.  Sidell FR, Urbanetti Jr, Smith WJ, Hurst CG.  Vesicants.  Í: Medical Aspects of Chemical and Biological Warfare (útg. Sidell FR, Takafuji ET og Franz DR).  Office of the Surgeon General.  Borden Institute, Walter Reed Army Medical Center 1997: 197-217.

4.  Budiansky S. Chemical weapons. United Nations accuses Iraq of military use.  Nature 1984; 308: 483.

5.  Alexander SF. Medical report of the Bari harbor mustard  casualities. The Military Surgeon 1947; 101:1-17.

6.    Chabner BA, Ryan DP, Paz-Ares L, Garcia-Carbonero R, Calabresi P.  Antineoplastic agents.  Í: Goodman & Gilman´s The Pharmacological Basis of Therapeutics (Útg.  Hardman JG, Limbird L og Gilman AF), McGraw-Hill, New York 2001: 1389-95.

  7.  Fjórir menn brenndust er sprengja af hafsbotni fór í mulningsvél í Sementsverksmiðjunni.  Frétt í Morgunblaðinu 23. 2. 1972.

  8.  Civilforsvarets laboratorium, Danmarks Farmaceutiske Højskole,København: Påvisning af kemiske kampstoffer. København 1962.

  9.  Curry A. Home Office Central Research Establishment, Aldermaston, Stóra-Bretlandi. Bréflegar upplýsingar 29. 3. 1972.

10.  Drasch G, Kretschmer E, Kavert G, von Meyer L. Concentrations of mustard gas (bis(2-chloroethyl)sulfide) in the tissues of a victim of a vesicant exposure.  J Forens Sci (JFSCA) 1987; 32: 1788-93.

11.  Jóhannesson Þ, Kristinsson J, Snædal J. Hrörnunarsjúkdómar í heila-oxavarnarensím og kopar. Kynning á rannsóknum. Læknablaðið 2003; 89; 659-71.

12.  Medicinsk rapport. Nya antidoter vid förgiftningar och sennepsgasexponering introduceras. Laekartidningen 1992; 89: 548.

13.  Aasted A, Wulf HC, Darr E, Niebuhr E. Fiskere udsat for sennepsgas. Ugeskr Laeger 1985; 147: 2213-6.

14.  Skou Jörgensen B, Olesen B, Berntsen O. Sennepsgasulykker paa Bornholm. Ugeskr Laeger 1985; 147: 2251-4.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica