04. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Skimun skiptir máli. Viðtal við Neu Malila

Í tengslum við fyrirhugað fræðsluátak um ristil- og endaþarmskrabbamein kom hingað til lands í marsmánuði Nea Malila frá Finnlandi en hún hefur stýrt yfirgrips-mikilli skimun fyrir ristilkrabbameini í Finnlandi frá árinu 2004.

Árangur hefur verið mjög góður og þátttaka farið fram úr björtustu vonum. Læknablaðið átti samtal við Neu Malila er hún var stödd hér á landi í boði Krabbameinsfélags Reykjavíkur og Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar en félögin stóðu fyrir málþingi um ristilkrabbamein 14. mars undir yfirskriftinni Forvörn er fyrirhyggja.

 

Nea_Malila_opt

 

Krabbamein í ristli og endaþarmi er þriðja algengasta krabbameinið í báðum kynjum meðal Íslendinga. Árlega greinast um 112 einstaklingar með þessi krabbamein og 40-50 sjúklingar deyja á hverju ári vegna þessa sjúkdóms, ef tekið er mið af árabilinu 1995-1999. Meðalaldur þeirra sem greinast eru um 70 ár, en nýgengi (fjöldi nýrra tilfella á ákveðnu tímabili) byrjar að aukast um 50 ára aldurinn, en er tiltölulega sjaldgæft fyrir fimmtugt eða um 6-7% af öllum greindum ristilkrabbamein-um. Krabbamein í ristli á árunum 1995-1999 er
heldur algengara hjá körlum (240) en konum (186), en endaþarmskrabbamein er nær jafn algengt (66 konur, 70 karlar). Þessi krabbamein eru því heldur algengari hjá körlum. Um 90% þeirra sem greinast eru 50 ára eða eldri. Þá greinast 11-12% æxlanna við 50-60 ára aldur, 20% við 60-70 ára aldur. Rúmlega helmingur ristilkrabbameina sem finnst á hverju ári greinist hjá einstaklingum sem eru á aldrinum 50-75 ára.

Ofangreindar upplýsingar koma fram í nýrri grein Ásgeirs Theódórs meltingarfærasérfræðings sem birt er á doktor.is. Þar segir Ásgeir enn-fremur:

„Hér á landi hefur verið í undirbúningi markvisst fræðsluátak, sem aðallega mun beinast að almenningi varðandi krabbamein í ristli og endaþarmi. Mun það fjalla um áhættuþætti, einkenni og ýmsar forvarnaraðgerðir. Fyrirhugað er að hefja þetta fræðsluátak næstkomandi haust. Þá hefur nefnd á vegum landlæknis skilað tillögum að leiðbeiningum um skimun fyrir krabba-meini í ristli og endaþarmi. Umsagnir nokkurra aðila um þessar tillögur eru nú til athugunar, en endanlegum leiðbeiningum um eftirlit og skimun fyrir þessu krabbameini er að vænta fljótlega.“

 

Góður árangur af skimun

„Frumkvæðið að skimunarátakinu fyrir ristil-krabbameininu kom frá samtökum Krabba-meinsfélaga í Finnlandi og undirbúningur hófst 2001. Rökin fyrir því að hefja skimun voru niðurstöður rannsókna í öðrum löndum þar sem sýnt var fram á með óyggjandi hætti að skimun drægi úr dauðsföllum af völdum krabbameins í ristli og endaþarmi,“ segir Nea Malila.

Hún segir að sveitarfélögum í Finnlandi sé í sjálfsvald sett hvort þau taki þátt í skimuninni en ef þau geri það gangi þau inn á skilmála um framkvæmd skimunarinnar sem krabbameinssamtökin hafa sett. „Sveitarfélögin greiða fyrir póstkostnað við skimunina og sjá síðan um að vinna úr gögnunum og sinna speglunum við þá sem kallaðir eru inn í kjölfarið. Þetta hefur gengið mjög vel og skilað mjög góðum árangri. Fram að þessu hefur um helmingur allra sveitarfélaga í landinu tekið þátt og framundan er þátttaka þriggja stærstu sveitarfélaganna, borganna, og markmiðið er að ná til helmings allra í markhópnum.”

Skimunin er takmörkuð við aldurshópinn 60-69 ára og Nea segir að vissulega hefði þau viljað
stækka markhópinn með því að taka inn aldurshópinn 50-59 ára en það hafi verið talið of kostn- aðarsamt. „Dánartíðni af völdum þessa krabba-meins er hæst hjá 74 ára karlmönnum og því varð aldurshópurinn 60-69 ára fyrir valinu.”

Skimunin fer þannig fram að þátttakendur fá sent í pósti einfaldan skimunarbúnað til að taka saursýni og senda það síðan til baka þar sem leitað er eftir hvort blóð leynist í saurnum en það er ein öruggasta vísbendingin um að frumubreytingar og æxlisvöxtur eigi sér stað í ristlinum. Nea tekur þó skýrt fram að þessi skimun sé ekki óyggjandi, krabbameinið getur verið til staðar þó ekkert komi fram við skimun. „Rannsóknir hafa sýnt fram á að hægt er að draga úr dauðsföllum af völdum ristil- og endaþarmskrabbameins um ca. 16% með skimun og þó það sé kannski ekki mjög hátt hlutfall er það umtalsvert, ekki síst ef haft er í huga að krabbameinsleit í brjóstum skilar um 22% árangri í lækkun dánartíðni. Í Finnlandi hefur leit að legháls-
krabbameini skilað 80% árangri sem er gríðarlega góður árangur.“

Skimunin í Finnlandi nær jafnt til karla og kvenna en Nea segir að það hafi vakið athygli þeirra að mun færri einhleypir karlar hafi tekið þátt í skimuninni en giftir. „Svörunin hjá ein-hleypum körlum var rétt innan við 50% en hjá giftum körlum var svörunin um 70%. Það er því ljóst að eiginkonurnar hafa mjög hvetjandi áhrif á karlana en lítill munur er á svörun hjá giftum og einhleypum konum. Meðalsvörun er um 70% sem verður að teljast mjög gott.“

Nea Malila segir mjög mikilvægt að fjölmiðlar taki þátt í átaki um skimun með umfjöllun og hvatningu til almennings. „Það skiptir miklu máli við að upplýsa almenning um tilgang skimunar-innar og draga úr fordómum og feimni við hana.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica