04. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Mikilvægt að stjórn sjóðsins geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir. Viðtal við Odd Ingimarsson

Oddur Ingimarsson, deildarlæknir á geðsviði Landspítala, var nýverið kjörinn í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins. Samhliða læknisnámi las Oddur viðskiptafræði við Háskóla Íslands og eftir að hafa lokið læknaprófi 2005 tók hann meistarapróf í viðskiptafræði í janúar 2008. Frá því í apríl 2007 og til október 2008 starfaði Oddur hjá Landsbankanum, fyrst í fyrirtækjaráðgjöf og síðan á sviði eigin fjárfestinga bankans. Ekki þarf því að efast um að læknar hafi fengið hæfan fulltrúa í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins.

Oddur_Indrdason_opt

Oddur Ingimarsson læknir og viðskiptafræðingur.

„Ástæða þess að ég ákvað að bjóða mig fram í stjórn lífeyrissjóðsins var að við Andrés Magnússon geðlæknir áttum líflegar samræður um málefni sjóðsins í vetur. Hann hafði gagnrýnt stjórn sjóðsins eftir bankahrunið og vildi fá að vita hvort Bjarni Ármannsson, sem setið hafði í stjórninni, hefði átt þátt í að hún tók stöðu með krónunni en hann sjálfur tekið stöðu gegn henni.

Okkur varð fljótlega ljóst að í stjórn sjóðsins voru alls ekki nægilega margir með menntun eða reynslu af fjármálum og verðbréfaviðskiptum. Úr varð að við buðum okkur báðir fram til stjórnarsetu en Andrés dró framboð sitt til baka eftir að hann ákvað að bjóða sig fram í forvali VG.

Mér finnst því að þeir sem taka að sér að sitja í stjórn lífeyrissjóðs og bera ábyrgð á fjárfestingum sjóðsins þurfi að hafa einhverja þekkingu og reynslu af fjárfestingum og fjármálamörkuðum. Heildareignir Almenna lífeyrissjóðsins eru um 84 milljarðar og er því um talsverða fjármuni að ræða. Hluti stjórnarinnar þarf að minnsta kosti að hafa þessa þekkingu svo hún sé ekki algerlega háð ráðleggingum rekstraraðilans. Stjórnin þarf að geta myndað sér sjálfstæða skoðun á fjárfestingar-ráðleggingum hans.“

Aðspurður um stöðutöku sjóðsins með krónunni segir Oddur að hann telji að það hafi verið rangt að taka stöðu með þessum hætti. „Sjóðurinn er langtímafjárfestir og skiptir því ekki öllu máli þó að krónan sveiflist eitthvað milli ára en það er langt í það að meirihluti sjóðsfélaga hefji töku lífeyris. Undir eðlilegum kringumstæðum má þó alveg halda uppi rökum fyrir gengisvörnum til að minnka sveiflur í ávöxtun. Árið 2008 var hins vegar óvenjulegt ár og áttu önnur rök að vega þyngra. Á fyrstu mánuðum ársins fór skuldatryggingarálag Kaupþings upp í 10% en það þýddi að markaðurinn mat það svo að raunveruleg hætta væri á því að Kaupþing færi í þrot en ljóst var að ef það gerðist myndi það skapa mikla erfiðleika í íslenska bankakerfinu ásamt mikilli veikingu krónunnar. Á þessum tíma var eina vörn Almenna lífeyrissjóðsins gegn bankahruni erlendar hlutabréfaeignir þar sem þær hækka í verði ef krónan lækkar. Stöðutakan með krónunni veikti þessar varnir talsvert og varð tap upp á 5,3 milljarða á stöðutökunni. Þetta tap lækkar þó væntanlega vegna möguleika á skuldajöfnun en það er ekki ljóst í dag hvort það gengur eftir. Almenna lífeyrissjóðnum til varnar má segja að það var erfitt að spá fyrir um að það yrði hrun á íslenska bankakerfinu og flestir aðrir lífeyrissjóðir tóku einnig stöðu með krónunni en það breytir því þó ekki að þessi ákvörðun var mjög kostnaðarsöm fyrir sjóðsfélaga.“

Á síðasta aðalfundi kom fram fyrirspurn frá einum fundargesta um hvort sjóðurinn hafi losað eignir sínar í sjóði 9 síðustu vikuna í október og kom þá í ljós að það var ekki gert. Oddur var ekki sammála þeirra ákvörðun miðað við þær upplýsingar sem voru til staðar á þeim tíma. „Eftir yfirtöku ríkisins á 75% hlut í Glitni var fagfjárfestum ljóst að áhættan við að eiga í peningamarkaðssjóðum var gríðarlega mikil og í litlu samræmi við væntan ávinning. Margir losuðu eign sína í sjóðnum strax eftir yfirtökuna, sérstaklega fagfjárfestar sem voru upplýstir um áhættuna. Það olli mér vonbrigðum að Almenni lífeyrissjóðurinn skyldi ekki hafa losað um þessa stöðu.“

Einnig vill Oddur minnast á athugasemd endurskoðenda sjóðsins í ársreikningi sjóðsins varðandi óvissu í verðmati á verðbréfaeign sjóðsins en þessi óvissa getur leitt til þess að það þurfi að endurmeta afskriftarþörf vegna ársins 2008.

„Bein skuldabréf sjóðsins hafa verið færð niður um 9,6 milljarða eða um 53% af markaðsvirði og óbein eign í gegnum sjóði hefur verið færð niður um 4,9 milljarða. Ríkir mikil óvissa um hvernig heimtur verða á þessum skuldabréfum og getur það haft mikil áhrif á afkomu sjóðsins á árinu 2009 og geta menn því átt von á því að það verði ennþá bið eftir stöðugleika í ávöxtun sjóðsins.“

Efla má kostnaðarvitund ungra lækna

Oddur starfaði í Landsbankanum á fyrirtækjasviði og eigin fjárfestingum bankans og sinnti þar fjárfestingum fyrir hönd bankans á hlutabréfamörkuðum á Norðurlöndunum. Hann lauk kandídatsári sínu 2006 og starfaði sem deildarlæknir á Vogi þar til hann hóf störf í Landsbankanum. Hann sneri sér síðan aftur að læknisstarfinu í lok árs 2008 enda ekki um auðugan garð að gresja í Landsbankanum eftir hrunið. Hann hefur nú hafið framhaldsnám í geðlækningum og segir þá sérgrein hafa heillað sig lengi.

Menntun hans og reynsla af viðskiptalífinu hefur þó orðið til þess að hann sér læknanámið í öðru ljósi og segir mjög brýnt að taka upp kennslu í læknadeild sem efli kostnaðarvitund ungra lækna. „Samfélagið kallar á meiri kostnaðarvitund á öllum sviðum og fyrir lækna er mikilvægt að hafa kostnað í huga þegar ákvarðanir eru teknar þó ég sé alls ekki að segja að það eigi að vera ráðandi afl við ákvarðanir. Þetta þyrfti ekki að vera nema einn lítill kúrsus, það er fljótlegt að fara yfir hvað helstu rannsóknir og aðgerðir kosta og hvernig reikna má út heildarkostnað.“

Annað sem Oddur hefur velt fyrir sér og leitað lausna á er hvernig bregðast skuli við þrýstingi sem settur er á lækna að skrifa út sem ódýrust lyf. „Það er auðvitað alveg sjálfsagt að læknir geri það og sýni ábyrgð í þessu efni. Hins vegar er ekki auðvelt aðgengi að upplýsingum um ódýrustu lyfin og það getur verið mjög tímafrekt fyrir lækni að finna út hvaða lyf er ódýrast. Það vantar góðan gagnagrunn þar sem hægt er að skoða lyf með sambærilega virkni og verð á þeim. Ég er ekki að tala um samheitalyf, það geta apótekin séð um, heldur sambærileg lyf. Í slíkum gagnagrunni þarf að vera hægt að sjá á fljótlegan hátt annars vegar endanlegt verð til sjúklings og hins vegar verðið sem hið opinbera borgar fyrir lyfið. Ég hef verið í samstarfi um þetta mál við starfshópa geðlækna og öldrunarlækna og einnig hef ég sent ábendingar til lyfjaverðlagsnefndar um að bæta þurfi úr skorti á upplýsingum um lyfjaverð. Það er í rauninni mjög skrýtið að grunnupplýsingar af þessu tagi séu ekki til staðar með fullnægjandi hætti í þeim upplýsingakerfum sem læknum er ætlað að nota,“ segir Oddur Ingimarsson læknir og viðskiptafræðingur að lokum.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica