03. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Mynd mánaðarins. Óttar Guðmundsson

mynd

 

Myndin sýnir Helga Tómasson yfirlækni að störfum á rannsóknarstofunni á Kleppi árið 1939. Helgi (1896-1958) tók við starfi yfirlæknis á Kleppi árið 1929. Hann hafði nokkru áður (1927) varið doktorsritgerð sína við Kaupmannahafnarháskóla sem hét Undersögelser over nogle af blodets elektrolyter (Ca, K, Na, H) og det vegetative nervesystem, særligt hos patienter med manio-depressiv psykose. Í lækningum sínum notaði Helgi svipaðar aðferðir og notaðar voru annars staðar þótt hann færi í ýmsu eigin leiðir. Skipti þar mestu viðamikil þekking hans á lífeðlis- og lífefnafræði sem mótaði hugsunarhátt hans og starfsaðferðir. Hann hafði mikinn áhuga á vegetatífa kerfinu og notaði mikið lyf sem virkuðu á það eins og asetýlkólón og efedrín. Hann var alla starfsævi sína afkastamikill vísindamaður og skrifaði margar greinar um hugðarefni sín. Mestan áhuga hafði hann ávallt á meðferð geðhvarfasjúklinga. Á myndinni er hann að sinna spectralanalýtískum rannsóknum á blóðsöltum hjá geðhvarfasjúklingum. Hann fékk styrk frá Rockefeller Foundation á árunum 1937 og 1938 til rannsókna á geðhvarfasjúkdómum og voru tæki þau sem hann stendur við meðal annars keypt að hluta til fyrir þann styrk.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica