03. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Læknar á krepputímum

gerdurÞað urðu líflegar umræður í kjölfar þriggja framsöguerinda á fundi LR og Félafs ungra lækna 24. febrúar sl. Framsögumenn voru Andrés Magnússon geðlæknir, Gerður Aagot Árnadóttir heimilislæknir og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur. Yfirskrift fundarins var: Hvernig tryggjum við heilbrigði landsmanna í kreppunni?

Andrés fjallaði um fjármálahrunið og þöggun um ýmis mál meðan á góðærinu stóð. Hann sagði að öflugir aðilar í viðskiptalífinu hefðu hótað niðurfellingu styrkja til vísindastarfsemi ef ákveðnir einstaklingar létu ekki af gagnrýni eða væru látnir halda áfram störfum sínum.

Gerður velti upp ýmsum spurningum varðandi samfélagslega ábyrgð lækna sem væri ótvíræð og vísaði til læknaeiðsins. Þar skrifuðu læknar undir að hafa velferð sjúklings og samfélags að leiðarljósi. Hún nefndi einnig gagnrýna hugsun og fagmennsku sem leiðarstef í vinnu lækna og spurði hvort ekki mætti beita henni víðar; hvort læknar gætu ekki spurt sig hvort ákveðin verk væru ávallt nauðsynleg og hvort ekki mætti spara með því staldra við og meta þörfina hverju sinni.

Sigurbjörg ræddi vanda opinberrar stjórnsýslu og svaraði spurningu þaraðlútandi með þeim orðum að í íslenskri stjórnsýslu væri vald stjórnmálamannanna slíkt að faglegar forsendur væru lagaðar að pólitískum ákvörðunum. Hún sagði þetta eflaust koma læknum spánskt fyrir sjónir sem væru vanari því að taka faglegar ákvarðanir útfrá fyrirliggjandi forsendum. Sigurbjörg sagði ennfremur að læknar mættu búast við því að verða þolendur efnahagskreppunnar ekki síður en aðrir þjóðfélagshópar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica