03. tbl. 95. árg. 2009

Ritstjórnargrein

Geðheilsa og fjármálakreppa

Ólafur Ó. Guðmundssongeðlæknirֽ barna- og unglingageðlækningum Landspítala

Við mat á afleiðingum fjármálakreppunnar á geðheilbrigði barna og unglinga þarf að taka mið af stöðunni fyrir kreppu. Þótt nýir áhættuþættir hafi komið til má ekki horfa fram hjá því að vægi annarra þátta gæti minnkað. Velta má fyrir sér hvort breyttar aðstæður foreldra, meðal annars styttri vinnutími og atvinnuleysi, leiði til þess að foreldrar hafi meiri tíma til að sinna sínum nánustu. Þannig gæti orðið jákvæð breyting á verðmætamati og aukin samkennd skapast innan fjölskyldna. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, skilgreinir hina réttu mælingu á stöðu þjóðar með hliðsjón af því hversu vel hún sinnir börnum sínum, ekki síst heilsu þeirra. Árið 2007, á toppi íslensku hagsveiflunnar, gerði UNICEF könnun meðal 15 ára nema á Norðurlöndunum þar sem þeir íslensku skáru sig úr, til dæmis upplifðu 9,8% þeirra sig utanveltu í samfélaginu (meðaltal 6,4%) og 10,3% þeirra sögðu sig einmana (meðaltal 7,3%).1

Vitað er að uppeldi er viðkvæmt fyrir ytra álagi, svo sem efnahagsþrengingum, atvinnuleysi og vinnuálagi, en jafnframt að félagsleg stuðningsúrræði geta vegið að nokkru upp á móti. Efnahagsþrengingar framkalla margskonar tilfinningaviðbrögð, svo sem sinnuleysi, þunglyndi, reiði og ótta, sem ýta undir árekstra foreldra sín á milli og við börn sín. Tengsl geðrænna vandamála foreldra og slakra uppeldishátta eru vel rannsökuð. Þunglyndum mæðrum mistekst frekar að hafa stjórn á börnum sínum og þunglyndir feður eru síður styðjandi og frekar refsandi. Þannig getur fjandsamleg ósamkvæm refsandi hegðun foreldra aukist og styðjandi hegðun minnkað sem getur framkallað bæði vanlíðan (kvíða, depurð) og andfélagslega hegðun. Samspili þessa hefur verið lýst með Fjölskyldu-Efnahags-Streitu-Líkani, FESL, sem lýsir því hvernig fjárhagsstaða, geðheilsa og samskipti foreldra sín á milli og við börnin verða áhættuþáttur fyrir geðheilsu þeirra.2

Í finnsku kreppunni á fyrri hluta tíunda áratugarins fór atvinnuleysi úr 3,4% í 18%, þjóðarskuldir sexfölduðust, skattar, verðlag og vextir hækkuðu. Í Finnlandi er félagslega öryggisnetið svipað og á öðrum Norðurlöndum. Í rannsókn frá 1994 var FES-líkanið notað til að meta áhrif finnsku kreppunnar á geðheilsu barna hjá 527 fjölskyldum (móðir-faðir-barn) þar sem meðalaldur barnanna var 12,6 ár. Markmiðið var að auka skilning á áhrifum efnahagserfiðleika á geðheilsu barna og þeim fjölskylduferlum sem þeir tengjast. Niðurstöður hennar staðfestu að kreppan jók virkni þeirra neikvæðu ferla sem líkanið lýsir og að geðheilsa barnanna versnaði. Ályktað var að efnahagsþrengingar væru áhættuþáttur fyrir geðheilsu barna í gegnum fjárhagsálag, geðheilsu foreldra, breytt samskipti foreldra og uppeldi.3 Niðurskurður félagslegs stuðnings og geðheilbrigðisþjónustu er því sérstaklega varhugaverður á krepputímum.

Læknar og aðrir þurfa að hafa í huga að hægt er að sporna við neikvæðum afleiðingum fjármálakreppunnar svo sem með því að ýta undir bætt tengsl barna og foreldra með hvatningu um aukna samveru, með umræðum og útskýringum á stöðunni í samræmi við aldur og þroska barnanna og með því að brýna fyrir foreldrum að vera samkvæmir sjálfum sér við að framfylgja þeim mörkum sem þeir setja börnum sínum. Þannig geta foreldrar dregið úr líkum á að tengsl þeirra við börn sín raskist. Þá er hægt að draga úr sinnuleysi, depurð, reiði og ótta foreldra með því að tryggja það að félagslega öryggisnetið verði ekki skert og benda fólki á leiðir innan þess.

Þótt bjargráð sem þessi séu mikilvæg og þótt ekki verði dregið úr félagslegum stuðningsúrræðum sveitarfélaga er óvissan um stærð hinna nýtilkomnu áhættuþátta það mikil að gera þarf ráð fyrir auknu álagi, þegar fram í sækir, á þá geðheilbrigðisþjónustu sem veitt er í heilsugæslu, með sérfræðiþjónustu og á sjúkrahúsum. Hætt er við að tímabundinn sparnaður hér geti leitt til aukins kostnaðar síðar, til dæmis með hærra hlutfalli örorku hjá ungu fólki eins og Finnar telja að hafi orðið raunin hjá sér. Það má því búast við að sérstaklega reyni á forvarnargildi æskulýðsstarfs, félagsþjónustu og geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga á næstu misserum.

Heimildir

1. UNICEF. Progress for Children: A World Fit for Children. Stat Rev 2007; 6.
2. Conger RD, Ge X, Elder GH Jr, Lorenz FO, Simons RL. Economic stress, coercive family process, and developmental problems of adolescents. Child Dev 1994; 65: 541-61.
3. Solanteus T, Leinonen J, Punamäki RL. Children´s mental health in times of economic recession: replication and extension of the family economic stress model in Finland. Dev Psychology 2004; 40: 412-29.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica