02. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Læknadagar 2009 - yfirlit

Læknadagar 2009 voru óhjákvæmilega markaðir því ástandi sem ríkt hefur í þjóðfélaginu undanfarna mánuði. Ekki með þeim hætti að svartsýni eða depurð einkenndi málþingin og fundina heldur var ljóst að læknar höfðu brugðist fljótt við þeim aðstæðum sem uppi eru og á annars fjölbreyttri dagskrá voru ein þrjú málþing sem tóku markvisst á því hvernig kreppuástand í samfélaginu hefur áhrif á heilsufar þjóðarinnar. Var þar bæði fjallað um andlegt og líkamlegt ástand fullorðins almennings, áhrif kreppu á börn og unglinga, og loks geðheilsu læknanna sjálfra sem þurfa að gera tvennt í senn; takast á við vanda skjólstæðinga sinna og bregðast við kreppunni í sínu persónulega lífi ekki síður en aðrir.

Dagskráin var þétt skipuð og fjölbreytt að vanda, með alþjóðlegu yfirbragði þar sem færustu sérfræðingar í ýmsum greinum voru sérstakir gestir. Arna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Læknadaganna, sagði þó hálft í gamni, hálft í alvöru, í setningarávarpi sínu að ástandið í þjóðfélaginu væri þess eðlis að næstu Læknadagar yrðu hugsanlega alíslenskir til að halda kostnaði innan marka.

Annað einkenni á Læknadögum sem skapar þeim ávallt nokkra sérstöðu er það tækifæri sem læknar í hinum ýmsu sérgreinum fá til að kynna sér hvað er efst á baugi í öðrum greinum en þeirra eigin. Einn viðmælandi Læknablaðsins tók svo til orða að þetta væri einstakt tækifæri til að kynna sér viðfangsefni annarra sérfræðinga því ráðstefnur erlendis snerust yfirleitt um mjög afmarkaða hluti innan sömu sérgreinar. Undir þetta hafa margir aðrir viðmælendur úr læknastétt tekið.

Heiðursgestur við setningu Læknadaga var Margrét Guðnadóttir og hélt hún athyglisverða brýningu til lækna um að þeir ættu að láta meira til sín taka í málefnum þjóðarinnar og láta skoðanir sínar óhikað í ljósi. „Síðustu árin hefur mér fundist allt of lítið heyrast í venjulegum starfandi læknum, hvort sem þeir starfa innan sjúkrahúss eða utan. Allt of sjaldan koma þeir á framfæri sínum skoðunum á heilbrigðismálum og starfsumhverfi vinnudýranna í stéttinni, og allt of sjaldan fáum við að heyra hvað þeim finnst um stefnu og störf hinnar nýju stéttar, rekstrarstjórnendanna, sem mér finnst að hafi eiginlega hertekið heilbrigðisþjónustuna,“ sagði Margrét meðal annars.

Heilbrigðisráðherrann, Guðlaugur Þór Þórðar-son, flutti einnig tölu um þær umtalsverðu breytingar sem standa fyrir dyrum í skipulagi heilbrigðisþjónustunnar og hvatti lækna til að taka þátt í þeim breytingum en sagði jafnframt að þær yrðu framkvæmdar í fullu samráði við fagstéttir heilbrigðisþjónustunnar, ekki síst lækna. Guðlaugur Þór svaraði síðan spurningum úr sal að lokinni tölu sinni og þá stóð Bryndís Benediktsdóttir heilsugæslulæknir upp og bað viðstadda að rétta upp hönd sem væru að vinna að breytingum á heilbrigðiskerfinu á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Einn rétti upp hönd og voru þó nær 200 læknar í salnum, margir hverjir í efstu stöðum á helstu sjúkrahúsum landsins. Með þessar upplýsingar í farteskinu hófust síðan eiginlegir Læknadagar og lauk þeim á hefðbundinn hátt með æsispennandi spurningakeppni á föstudagssíðdeginu og árshátíð Læknafélaganna á laugardagskvöld.Þetta vefsvæði byggir á Eplica