02. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Opinn aðgangur að öllum upplýsingum - er boðorð Lundbergs, fyrrum ritstjóra JAMA

Á nýafstöðnum Læknadögum stóð Læknablaðið fyrir málþingi um lækna, rannsóknir og fjölmiðla. Aðalræðumaður þingsins var George D. Lundberg, meinafræðingur og aðalritstjóri JAMA um 18 ára skeið og síðan stofnandi og aðalritstjóri MedScape frá 1999. www.medscape.com er stærsta og eflaust virtasta nettímarit um læknisfræði í heiminum í dag. Þar eru frumbirtar fræðigreinar um allar greinar læknisfræði, auk fréttaþjónustu úr heimi læknisfræðinnar og greina af öðru tagi er tengjast læknisfræði. Medscape hefur frá árinu 2000 verið á gagnagrunni Medline sem telst ákveðin trygging fyrir fræðilegum áreiðanleika. Samhliða Medscape heldur útgáfan úti www.emedicin.com sem er læknisfræðilegur texti í sjö þúsund köflum eftir tíu þúsund höfunda um allar greinar læknisfræði. Þessi upplýsingagrunnur er uppfærður reglulega.

„Rafræn útgáfa er framtíðin og framtíðin er komin,“ segir George D. Lundberg aðalritstjóri Medscape.

 

„Læknar standa frammi fyrir tvenns konar fjölmiðlum. Annars vegar er um að ræða faglega miðla og hins vegar almennu fjölmiðlana. Þessir miðlar skarast stundum en oftar eru þeir aðskildir og ólíkir. Tengslin þarna á milli og hvernig læknar þurfa að staðsetja sig gagnvart báðum er mjög mikilvægt í því umhverfi sem við búum í dag,“ segir Lundberg sem hefur áratuga reynslu af hvorutveggja.

„Læknar þurfa að kunna að verja sig fyrir fjölmiðlunum og þeir þurfa einnig að kunna að nýta sér þá því í nútímaumhverfi þurfum við á fjölmiðlunum að halda en við megum ekki láta þá taka af okkur ráðin og stjórna ferðinni. Í dag eru skilin þarna á milli að sumu leyti óljósari en áður, sem ritstjóri faglegs nettímarits sem er opið öllum, þá má segja að sérhæfðar upplýsingar séu orðnar jafn aðgengilegar og aðrir fjölmiðlar eru og þarna er mjög spennandi snertiflötur sem ég hef tekið þátt í að skapa á undanförnum tíu árum.“

Lundberg var ritstjóri JAMA um 18 ára skeið til ársins 1999 er honum var sagt upp störfum af stjórn AMA fyrir að birta niðurstöður Kinsey rannsóknar á kynhegðun bandarískra háskólastúdenta en þar kom fram að 60% aðspurðra töldu munnmök ekki vera kynmök. Birting þessarar greinar vakti gríðarlega athygli í Bandaríkjunum og reyndar um heim allan þar sem Clinton Bandaríkjaforseti stóð í ströngu við að halda embætti vegna sambands síns við Monicu Lewinsky. Formanni AMA þótti Lundberg hafa blandað bandarísku læknasamtökunum inn í þessa pólitísku deilu með birtingu greinarinnar og rak hann umsvifalaust úr ritstjórastólnum.

„Það var svo mikið fjallað um þetta mál á sínum tíma að það er óþarfi að rifja það upp,“ segir Lundberg og bætir því við að ef nafn hans er gúgglað á netinu komi þetta yfirleitt strax upp. „Þeir sem hafa áhuga á að fræðast nánar geta gert það með auðveldum hætti, en þetta varð mér í rauninni til góðs því í kjölfarið stofnaði ég Medscape, læknatímarit á netinu, sem hefur vaxið gríðarlega og ég er sannfærður um að framtíðin liggur þar. Framtíð sem þegar er komin til að vera,“ segir hann.

Því má reyndar bæta við að Lundberg höfðaði mál gegn AMA vegna ólögmætrar brottvikningar og vann málið og hlaut umtalsverðar skaðabætur. „Þetta mál snerist um sjálfstæði faglegrar þekkingar gagnvart því sem er að gerast í samfélaginu á hverjum tíma og mér fannst ekki koma annað til greina en birta þessa rannsókn þó að ég sem blaðamaður hafi gert mér fulla grein fyrir áhrifunum sem birtingin myndi hafa vegna Clinton-málsins. Það hefði í rauninni verið ritskoðun af minni hálfu að fresta birtingu þess vegna.“

 

Upplýstur almenningur

Lundberg segir að í nútímaumhverfi þurfi læknar að vera gríðarlega vel upplýstir, ekki einasta að fylgjast vel með því sem birt er um sérgreinar þeirra heldur einnig vera stöðugt vakandi fyrir gæðum þeirra upplýsinga sem í boði eru. „Magn upplýsinganna er svo mikið að það verður sífellt mikilvægara að gæta að gæðunum og vita hvaða miðlum má treysta. Ritrýnd læknatímarit eru sígild í þeim skilningi en þar verður líka að hafa varann á því ekki er alltaf hægt að treysta öllum upplýsingum og meintum rannsóknarniðurstöðum. Við þekkjum dæmi um slíkt. Á hinn bóginn verða læknar í dag að taka með í reikninginn aðgang almennings að sérhæfðum upplýsingum og vera tilbúnir til að mæta því í störfum sínum. Almenningur á rétt á því að hafa aðgang að öllum upplýsingum og við eigum ekki að ritskoða eða hefta aðgang að læknisfræðilegum upplýsingum. Þá á ég að sjálfsögðu ekki við persónulegar upplýsingar heldur vísinda- og fræðilegar. Þar á ekki að leyna almenning neinu, hvort sem um er að ræða klínískar upplýsingar, rannsóknarniðurstöður, læknisfræðileg tilfelli eða faglega umfjöllun af einhverju tagi.“

Býður þetta ekki heim hættu á að fólk taki í einhverjum skilningi fram fyrir hendurnar á lækninum, hafi skoðun á því hvernig eigi að meðhöndla það, hvaða lyf eigi best við og svo framvegis?

„Við erum öll okkar eigin læknar í ákveðnum skilningi. Megnið af heilsugæslu hvers og eins felst í því að fylgjast með sjálfum sér. Ég fer yfir mitt eigið heilsufar á hverjum morgni og þegar ég vaknaði á hótelinu mínu í Reykjavík í morgun þá gekk ég úr skugga um að ég hefði ekki fengið hjartaáfall um nóttina. Ég komst að því að svo var ekki, heldur var bara kolniðamyrkur úti. Þá mundi ég hvar ég var staddur. Á Íslandi. Við leitum ráða hvert hjá öðru, gerum samanburð á einkennum og segjum reynslusögur. Allt gerist þetta áður en við leitum til læknis. Nú getum við líka leitað upplýsinga á netinu, bæði fyrir og eftir að við höfum fengið greiningu hjá lækninum okkar. Læknar ættu að fagna því að skjólstæðingar þeirra eru vel upplýstir og hafa aðgang að upplýsingum um sjúkdóma sína. Þegar ég byrjaði með netútgáfu af JAMA 1995 og síðar Medscape varð ég var við að læknar voru margir á móti svo auðveldu aðgengi að upplýsingum á netinu. Þeir sögðu þetta tefja sig í störfum sínum þar sem sjúklingarnir þyrftu að ræða alls kyns efni sem þeir hefðu lesið og læknirinn þyrfti að eyða dýrmætum tíma í að leiðrétta alls kyns misskilning og ranghugmyndir sjúklinganna. Þetta hefur breyst og undanfarin þrjú til fjögur ár hef ég ekki heyrt gagnrýni af þessu tagi. Læknar hafa gert sér grein fyrir að þetta er raunveruleiki sem bregðast verður við á jákvæðan hátt. Þetta útheimtir að læknirinn sé sjálfur mjög vel upplýstur um hvaða upplýsingar eru í boði á netinu og hann þarf hreinlega að láta sjúklinga sína hafa ?netseðil?, þar sem þeim er vísað á góðar og áreiðanlegar upplýsingar um sjúkdóm viðkomandi. Þannig sparast tími beggja, læknirinn getur haldið áfram skoðuninni og sjúklingurinn er ekki að lesa einhverja vitleysu.“

 

Framtíðin í rafrænni útgáfu

Lundberg segir magn upplýsinga á netinu geta skapað vandamál og erfitt fyrir leikmenn að átta sig á gæðum upplýsinganna. „Hlutverk læknisins í þessu efni er mjög mikilvægt. Þegar leitað er á netinu eftir upplýsingum um tiltekinn sjúkdóm kemur upp alls konar efni, mjög misjafnt að gæðum og sumt jafnvel varasamt. Ýmis netfyrirtæki hafa sérhæft sig í læknisfræðilegum upplýsingum og einnig eru alls kyns samtök fólks með heimasíður með upplýsingum um tiltekna sjúkdóma og þetta þurfa læknar að skoða og vita hvers eðlis er ef sjúklingurinn nefnir það. Læknar þurfa í sem fæstum orðum að vera mjög handgengnir netinu og hafa góða yfirsýn yfir hvað þar er í boði því staðreyndin er sú að tugir milljóna manna leita sér læknisfræðilegra upplýsinga á netinu á hverjum degi.“

Lundberg er sannfærður um að rafræn útgáfa sé framtíðin og hann leggur áherslu á sú framtíð sé nútíðin. „Medscape nettímaritið er stærsta læknisfræðiritið á netinu sem lýtur ströngustu reglum um ritrýni og meðhöndlun fræðigreina. Medscape hefur verið á Medline síðan árið 2000 og frá 2004 hafa fræðigreinar Medscape verið birtar á Medline í fullri lengd. Aðgangur að Medscape er ókeypis og öllum opinn.“

Medscape er í rauninni margþætt útgáfa þar sem fræðigreinahlutinn er að vissu leyti aðskilinn og dagleg frétta- og greinaútgáfa er það umhverfi sem opnast þegar farið er inn á heimasíðu útgáfunnar. Allt efnið er engu að síður jafn aðgengilegt og engum hindrunum háð.

„Rafræn útgáfa er einfaldari og ódýrari en prentuð útgáfa. Sumir læknar vilja frekar lesa greinar prentaðar á pappír en á skjánum og þá er einfalt mál að styðja á PRINT og fá efnið prentað á pappír. Ég vil hins vegar vera laus við fyrirhöfn og kostnað sem prentun og dreifing kallar á. Netútgáfa hefur bæði kosti og galla. Ég tel kostina fleiri en gallana og hef valið þá leið. Flest læknatímarit halda úti hvorutveggja, prentaðri útgáfu og rafrænni, og sjálfur les ég öll tímarit á netinu, prentaða útgáfan endar ólesin í ruslinu. Þeir læknar eru vissulega til sem finnst meira til um að fá greinar sínar prentaðar en birtar á netinu en flestum finnst skipta mestu máli hversu vel metin útgáfan er, hvort sem hún er prentuð eða rafræn. Medscape nýtur mikils álits og við erum að frumbirta allar okkar fræðigreinar.“

 

Obama lofar góðu

Lundberg hefur verið ótrauður við að halda fram skoðunum sínum um ýmis málefni er snerta lýðheilsu og heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum. Hann bendir á að 48 milljónir Bandaríkjamanna séu án sjúkratrygginga af nokkru tagi og að heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna sé alltof flókið, alltof dýrt og mismuni fólki á ýmsan hátt. Hann hefur einnig beitt sér gegn löggjöf um skotvopnaeign og bendir á að á sumum svæðum, borgum og/eða borgarhverfum sé algengasta dánarorsök ungs fólks, sérstaklega karlmanna, af völdum skotsára. „Það er auðvitað skelfilegt og skráning seldra skotvopna er í megnasta ólestri og í sumum fylkjum eru engar reglur um slíkt. Ekki þarf leyfi til að kaupa skotvopn og megnið af þeim skotvopnum sem seld eru í Bandaríkjunum eru einungis ætluð til að skjóta fólk því skammbyssur og hríðskotarifflar eru ekki veiðivopn. Læknar sem vinna á bráðadeildum ákveðinna borgarspítala í Bandaríkjunum hafa jafnvel meiri reynslu af meðhöndlun skotsára en læknar í hernum. Ég bind miklar vonir við að nýr forseti muni setja reglur um þetta í embættistíð sinni.“

Það er augljóst að Lundberg er ánægður með nýja forsetann og hann segir hiklaust að undanfarin átta ár undir stjórn Georg W. Bush hafi verið til skammar og nú loks geti Bandaríkjamenn litið kinnroðalaust framan í heiminn að nýju. „Ég bíð reyndar milli vonar og ótta um hvern Obama mun skipa í embætti landlæknis Bandaríkjanna. Þar hefur eitt nafn verið nefnt að undanförnu sem ég ásamt fleirum er ekki alls kostar sáttur við. Obama hefur sagt að undir hans stjórn verði lögð áhersla á menntun, rannsóknir og fræðslu sem ekki veitir af eftir tímabil afturhalds og íhaldssemi á öllum sviðum. Ég hef fulla trú á að hann standi við það.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica