12. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Mynd mánaðarins. Þýskalandsferð læknanema 1929

Í desember 1928 sigldu níu læknanemar á síðasta ári náms síns áleiðis til Þýskalands. Fararstjóri þeirra var Níels Dungal dósent. Hópurinn kom til Hamborgar 4. janúar. Þar tók á móti þeim m.a. Brauer nokkur prófessor og dr. Dannmeyer, þekktur vísindamaður og Íslandsvinur. Greiddu þessir tveir mjög götu Íslendinganna. Hópurinn ferðaðist víða um Þýskaland, skoðaði fjölda heilbrigðisstofnana og hlýddi á fyrirlestra frægra lækna. Meðal þeirra má nefna hinn fræga prófessor Sauerbruch sem næstum braut sig sjálfur er hann ætlaði að sýna við hvaða aðstæður menn hlytu handleggsbrot. Meðal borga sem þeir félagar heimsóttu má nefna Berlín, Halle, Jena, Nürnberg, Wiesbaden, Düsseldorf og Dortmund að ógleymdri Hamborg en þar dvöldu þeir í þrjár vikur. Á heimleið með Esju voru þeir fjóra daga að komast gegnum ís á Eyrarsundi.

Níels Dungal ritaði ferðasögu hópsins og birtist hún í Læknablaðinu, 15. árgangi (1929) á bls. 48. Konunglegur hirðljósmyndari, Ólafur Magnússon, tók myndina sem er í einkaeign.

Í fremri röð á myndinni eru Stefán Guðnason, Níels Dungal og Jón Karlsson en í þeirri aftari Bragi Ólafsson, Gísli Fr. Petersen, Sigurður Sigurðsson, Karl Jónasson, Þórður Þórðarson, Jón Steffensen og Ólafur Einarsson.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica