12. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Fjögur lönd segja sig úr CPME. Viðtal við Katrínu Fjeldsted

Nokkrar blikur virðast á lofti um framtíð Evrópusamtaka lækna, CPME, þar sem fjögur lönd hafa sagt sig úr samtökunum á þessu ári, Frakkland, Spánn og Ítalía tilkynntu úrsögn sína í lok júní og nú í nóvember bættist Portúgal í hópinn. Fjárhagsgrundvöllur samtakanna er með þessu í uppnámi og framundan er róttæk endurskipulagning á rekstri samtakanna að sögn Katrínar Fjeldsted, eins af fjórum varaforsetum CPME og fulltrúa Læknafélags Íslands í samtökunum. Katrín hefur verið fulltrúi LÍ frá 1999 og varaforseti samtakanna frá 2005.

„Óánægðir með að vægi atkvæðis hverrar aðildarþjóðar skuli vera jafnt,“ segir Katrín Fjeldsted um úrsögn Suður-Evrópuþjóðanna úr CPME.

CPME er upphaflega stofnað af læknafélögum þjóða innan Evrópusambandsins og hefur stækkað jafnt og þétt með auknum fjölda landa innan ESB en fyrir nokkrum árum var löndum utan ESB sem starfa á Evrópska efnahagssvæðinu boðin þátttaka, þar á meðal Íslandi, Noregi og Lichtenstein. Aðildarlönd að CPME eru nú 30 að þeim fjórum meðtöldum sem tilkynnt hafa úrsögn.

Þátttaka í CPME er bundin við landssamtök lækna í hverju landi, einstaklingsaðild er ekki í boði en önnur Evrópufélög lækna koma sínum sjónarmiðum að í gegnum fulltrúa heildarsamtaka sinna. Tilgangur og hlutverk CPME er að sögn Katrínar Fjeldsted fyrst og fremst sá að hafa áhrif á stefnumótun ESB í heilbrigðismálum og málefnum lækna og hefur orðið vel ágengt í þeim efnum á undanförnum árum.

„Fyrir nokkrum árum var tekin ákvörðun um að setja niður skrifstofu CPME í Brussel, höfuðstöðvum ESB, og ráða framkvæmdastjóra sem væri öllum hnútum kunnugur innandyra þar á bæ. Áður fylgdi skrifstofan forseta samtakanna frá einu landi til annars á tveggja ára fresti og það skilaði ekki nægilega góðum árangri að mati stjórnarinnar,“ segir Katrín.

Frá því að skrifstofan var opnuð í Brussel hefur CPME náð eyrum ráðamanna ESB mun betur og haft fingurinn á púlsinum þegar málefni lækna eru í umræðunni. „Þannig höfum við getað brugðist mun fyrr við málum og haft áhrif á stefnumótun í ýmsum málum og á okkur er hlustað og leitað eftir áliti okkar þegar heilbrigðismál eru til umfjöllunar.“

Á skrifstofunni í Brussel starfa fimm manns, lögfræðingar og stjórnmálafræðingar með sérhæfingu í Evrópumálefnum, og er framkvæmdastjórinn, hin hollenska Lisette Tiddens-Engwirda, vel þekkt innan embættismannakerfisins í höfuðstöðvum Evrópusambandsins. „Það er lykilatriði að hafa aðgang að augum og eyrum ebættismannanna ef ná á fram einhverjum málum innan ESB,“ segir Katrín.

 

Erfitt að skilja ástæðurnar

Katrín segir að úrsögn Frakklands, Spánar og Ítalíu hafi komið flestum í opna skjöldu og skýringar þeirra á úrsögninni hafi verið illskiljanlegar.

„Þau tiltóku þrjár ástæður en þar er í fyrsta lagi óánægja þeirra með að vægi atkvæðis hverrar aðildarþjóðar skuli vera jafnt í stað þess að stærri og fjölmennari þjóðir skuli ekki hafa meira vægi í atkvæðagreiðslum innan samtakanna. Það undarlega við þetta er sú staðreynd að enginn minnist þess að upp hafi komið svo djúpstæður ágreiningur við atkvæðagreiðslur að einhver þjóð hafi haft ástæðu til að telja að hennar sjónarmið yrðu undir. Önnur ástæða er sú að ekki skuli skýrt tekið fram í lögum samtakanna að framkvæmdastjórinn sé ábyrgur gagnvart allri stjórninni en ekki einungis gagnvart forsetanum. Þetta er í rauninni hreint formsatriði þar sem ekki hefur heldur orðið ágreiningur um þetta og framkvæmdastjórinn ávallt unnið eftir samþykktum stjórnarinnar og lagt sig fram við að kynna allar sínar gerðir fyrir stjórninni á fundum hennar. Ennfremur kom fram óaánægja með að varaforsetarnir fjórir væri ekki nægilega sýnilegir og var óskað eftir því að hlutverk þeirra væri skerpt.“

Katrín segir að strax hafi verið brugðist við þessu með því að setja á fót starfshóp sem skyldi leita leiða til að sætta þessi sjónarmið. Ennfremur var kallaður saman aukaaðalfundur en fulltrúar Frakklands og Ítalíu mættu ekki og spænska sendinefndin fór af fundi áður en honum lauk. „Engu að síður lagði starfshópurinn til að vægi atkvæða við afgreiðslu fjárhagsáætlunar samtakanna yrði breytt og að orðalagi í stofnsamþykkt yrði lagfært svo ekki færi á milli mála að framkvæmdastjóri væri ábyrgur gagnvart stjórn. Þetta hafði engin áhrif og í lok júní barst bréf frá hverju landanna fyrir sig þar sem þau sögðu sig formlega úr samtökunum. Samkvæmt stofnskrá CPME tekur úrsögnin ekki gildi fyrr en eftir eitt ár svo enn er tími til stefnu til að reyna til þrautar hvort þau skipta um skoðun en það virðist nú fremur ólíklegt.“

Úrsögn portúgalska læknafélagsins er í rauninni afleiðing þessa þar sem ljóst er af bréfi þeirra frá 12. nóvember að félagið hefur áhyggjur af því að þau félög sem eftir sitja í CPME muni þurfa að greiða hærra gjald fyrir þátttökuna til að standa undir starfseminni þegar framlags landanna þriggja nýtur ekki lengur við. Heildarframlag þjóðanna 30 til CPME var á síðasta ári 175 þúsund evrur og var hlutur Íslands 2600 evrur.

Katrín segir að hún hafi ekki heyrt neinar aðrar skýringar á úrsögnunum en þær sem þegar hafa verið nefndar en hún kveðst þó telja að óánægjan stafi meðal annars af ólíku fyrirkomulagi samtaka lækna innan landanna. „Ég veit að í Frakklandi eru alls ekki allir læknar innan franska læknafélagsins en framlög félaganna miðast engu að síður við fjölda starfandi lækna í hverju landi. Þannig er franska læknafélagið í rauninni að greiða aðildargjöld til CPME fyrir fjölda lækna sem ekki eru í þeirra félagi. Það getur verið þungur fjárhagsbaggi. Hvort þetta er þannig líka á Spáni og Ítalíu veit ég ekki. Frakkarnir segjast greiða fimmtung heildarframlagsins til CPME og það munar sannarlega um þátttöku þeirra.“

Þær skýringar hafa einnig heyrst að Frakkarnir séu ósáttir við niðurstöðu kosninga til forseta samtakanna árin 2005 og svo aftur 2007 en í hvorugt skiptið náði fulltrúi Frakklands kosningu. Ef vægi atkvæðis hvers lands væri í hlutfalli við fjárframlag þess þá hefði niðurstaða kosninganna orðið á annan veg.

Hvernig sem málin þróast er þegar hafin endurskipulagning starfsemi CPME, ef ekki á einfaldlega að hækka aðildargjöldin fyrir þær þjóðir sem eftir sitja og má þá jafnvel gera ráð fyrir að fleiri félög fari að dæmi Portúgalanna.

„Það væri sannarlega slæmt ef svo færi því auk sterkrar stöðu okkar gagnvart stjórnsýslu ESB þá hefur CPME gegnt hlutverki regnhlífarsamtaka fyrir samtök lækna sem notið hafa góðs af tilvist CPME. Það hefur einnig verið gagnkvæmt.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica