11. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Skemmtilegt og áhugavert - segir Jón Snædal um forsetatíð sína hjá WMA

„Þetta hefur verið bæði áhugavert og skemmtilegt því manni gefst tækifæri til að komast inn í ýmis málefni og kynnast starfsemi á vegum lækna og læknafélaga víða um heim, en viðfangsefnin eru okkur hér á Íslandi stundum nokkuð framandi,“ segir Jón Snædal sem nú í október lét af embætti forseta Alþjóðasamtaka lækna WMA á ársfundi samtakanna í Seúl í Suður-Kóreu.

Jón hefur gegnt embættinu í eitt ár en reyndar má segja að um þriggja ára skuldbindingu sé að ræða þar sem árið á undan er eins konar undirbúningstími og árið á eftir skilatími þar sem bæði verðandi forseti og fráfarandi forseti hafa ákveðnum skyldum að gegna innan samtakanna. Engu að síður er hinn starfandi forseti höfuð samtakanna á hverjum tíma og mæðir mikið á honum þetta ár sem hann gegnir embættinu.

„Hlutverk forseta felst að miklu leyti í því að koma fram fyrir hönd samtakanna bæði „innávið og útávið“,“ segir Jón Snædal fráfarandi forseti WMA, Alþjóðasamtaka lækna.

 

Jón segir að undangengið ár hafi verið annasamt og viðburðaríkt, mikil ferðalög hafi fylgt embættinu, en hlutverk forseta felst að miklu leyti í því að koma fram fyrir hönd samtakanna bæði ?innávið og útávið? eins og hann orðar það. „Stærri læknafélögin óska gjarnan eftir nærveru forseta samtakanna á á aðalfundum sínum, má nefna bandaríska, breska, þýska og kanadíska læknafélagið, og ég hef farið á aðalfundi þessara félaga sem er mjög áhugavert og ýmislegt sem má af því læra. Fundarsköp eru yfirleitt mun strangari en við eigum að venjast, tímamörk eru mjög skýr og mönnum leyfist ekki að fara framyfir þau. Eitt sem mér þykir eftirbreytnivert er að þegar menn óska eftir að taka til máls um ákveðið efni þá tilkynna þeir strax hvort þeir ætli að tala gegn því eða með því. Mér þótti líka athyglisverð samþykkt kanadíska læknafélagsins að fyrrverandi formenn hefðu atkvæðisrétt, auk málfrelsis og tillöguréttar, á aðalfundum félagsins í fimm ár eftir að formennsku þeirra lýkur. Hugsunin er að nýta reynslu þeirra og þekkingu enda hafa þeir yfirleitt langa reynslu af störfum í þágu félags síns.“

Jón segir að læknafélögin beiti aðalfundum félagsins markvisst til að koma skoðunum lækna á ýmsum málefnum á framfæri við samfélagið. „Þetta finnst mér að við ættum að taka upp á mun markvissari hátt en verið hefur. Gott dæmi af síðasta aðalfundi LÍ var ályktunin um tóbaksvarnir en við gætum gert þetta markvissara með því að taka fyrir ákveðið málefni og rætt það ítarlega á fundinum, með fyrirlestrum sérfræðinga og vandaðri undirbúningsvinnu. Efni sem læknar gætu tekið fyrir á þennan hátt eru auk tóbaksvarna umferðarslys, offita, fíkniefnaneysla og hvaðeina sem eru stór mál í samfélaginu. Aðalfundur LÍ er langbesti vettvangurinn til þess arna og við ættum að nota hann miklu meira en við höfum gert.“

 

Siðfræði í rannsóknum

Eitt af hlutverkum forsetans er að kynna sér aðstæður og starfsemi læknafélaga sem óska eftir inngöngu í WMA. „Ég heimsótti Læknafélag Albaníu í þessum tilgangi og ræddi við forsvarsmenn þess um hvernig WMA gæti stutt við bakið á þessu unga félagi sem er að koma sér áfram í samfélagi sem reist var úr rústum fyrir ekki svo löngu. Ég hef farið í fleiri slíkar heimsóknir sem eru mjög skemmtilegar og lærdómsríkar því þá kynnist maður náið þeim málefnum sem brenna á félögunum.“

Jón hefur um árabil verið einn helsti ráðgjafi Læknafélags Íslands um siðfræði lækna og er formaður Siðfræðiráðs. Störf hans á þessu sviði hafa aflað honum viðurkenningar bæði heima og heiman og átti stóran þátt í að eftir kröftum hans var sóst í embætti forseta WMA. Læknafélag Íslands sýndi þakklæti sitt í verki með því gera Jón að heiðursfélaga LÍ á aðalfundi sínum þann 27. september.

„Alþjóðalæknasamtökin byggja siðfræði sína um rannsóknir á mönnnum á Helsinkiyfirlýsing-unni svokölluðu sem gerð var 1964 og endurskoðuð reglulega, síðast árið 2000 en hún hefur verið í endurskoðun undanfarin tvö ár og ég hef tekið þátt í þeirri vinnu. Til að fá sem breiðasta yfirsýn hafa verið haldin þrjú þing um yfirlýsinguna í jafnmörgum heimsálfum og ég hef sótt tvö þeirra. Það sem nú er verið að taka fyrir er siðfræði faraldursfræðilegra rannsókna og rannsóknir á hópum sem eiga í einhverjum skilningi undir högg að sækja og getur verið varhugavert að rannsaka af heilsufarslegum eða öðrum ástæðum en þarf engu að síður að hafa upplýsingar um.

Annað málefni sem ég tekið virkan þátt í fjallar í sem stærstum dráttum um mörkin á milli lækna og annarra heilbrigðisstétta. Þetta er margslungið mál og byggir á samstarfi við ýmsar heilbrigðisstéttir og ég hef verið í vinnuhópi sem skilaði skýrslu til alþjóðasamtaka lyfjafræðinga um starfsvið lyfjafræðinga og hvernig þeir koma inn í starfsvið lækna. Þetta þarf að gerast með samstilltu átaki en í sumum löndum er vandinn sá að settar hafa verið reglur eða lög sem ganga gegn vilja þeirra sem um ræðir, yfirleitt læknanna. Verkefni vinnuhópsins sem ég var í snerist þó aðallega um hvernig nýta mætti þekkingu lyfjafræðinga sem best við meðhöndlun langvinnra sjúkdóma í teymisvinnu með læknum.“

Samstarf WMA við alþjóðastofnanir á sviði heilbrigðismála er verulegt og Jón nefnir sérstaklega verkefni á vegum WHO sem snýr að hvernig bregðast eigi við verulegum skorti á heilbrigðisstarfsfólki í mörgum löndum heimsins. „Þessi skortur hefur skilgreindur þannig að í 50 löndum í heiminum er hann talinn óásættanlegur og snýr ekki bara að skorti á læknum heldur öðrum heilbrigðisstarfsmönnum ekki síst hjúkrunarfræðingum. Það hefur verið brugðist við þessu með því að láta ólært fólk taka að sér ýmis verkefni sem heilbrigðisstarfsfólk myndi annars vinna. Læknar hafa unnið að þessu í samstarfi við stéttir hjúkrunarfræðinga, tannlækna, ljósmæðra og lyfjafræðinga. Það má segja að sýn okkar sé sameiginleg hvað þetta varðar, því um leið og við skiljum fullkomlega hver vandinn er viljum við forðast það að til verði stétt ?berfættra lækna? sem lært hafa til ákveðinna verka en hafa ekki heildarsýn eða þekkingu til að veita læknisþjónustu umfram það. Í tengslum við þetta verkefni verður haldinn fundur hér í Reykjavík 8. og 9. mars næstkomandi þar sem boðið verður á milli 50-100 manns víðsvegar að úr heiminum til að fjalla um þetta.“

Það er fjölmargt sem stuðlar að skorti á læknum í löndum heimsins og þar er ekki alltaf menntunarskorti um að kenna. „Mörg þeirra ríkja sem búa við læknaskort mennta fjölda lækna en horfa jafnóðum á eftir þeim til starfa í öðrum löndum. Þetta er í rauninni mun flóknara mál en svo að segja að það sé nóg af læknum á Vesturlöndum en skortur í öðrum heimshlutum. Það er alls ekki svo. Í mörgum löndum Afríku útskrifast fjölmargir læknar árlega en þeir hverfa til annarra Afríkulanda, Arabalandanna eða Asíulanda og það sama á reyndar einnig við ýmis Asíulönd. Þá er einnig algengt að fólk með heilbrigðismenntun fari úr opinberri heilbrigðisþjónustu í einkarekna þjónustu þar sem bjóðast betri kjör enda er þá þjónustan einungis í boði fyrir þá sem hafa efni á að greiða fyrir hana.“

 

Fátækt helsti vandinn

Jón segir að þrátt fyrir að samstarf við WHO á þessu sviði hafi gengið mjög vel fyrir séu samskiptin ekki alveg jafn greið á öðrum sviðum. „Á vegum WHO voru fyrir fáeinum árum stofnuð regnhlífasamtök heilbrigðisstétta en fyrir eru rótgróin samtök heilbrigðisstétta sem ekki koma nærri þeim á vegum WHO. Þarna þykir okkur sem verið sé að deila og drottna án nokkurs skynsamlegs samráðs. Ég hef sótt tvo fundi þessara WHO samtaka og á seinni fundinum var greinilega markvisst verið að forðast umræður, kannski vegna þess að á fyrri fundinum misstu þeir tökin að nokkru leyti vegna mikilla umræðna sem heilbrigðisráðherrar Afríkuríkja stóðu fyrir en þeim þótti WHO vera að leggja til einhvers konar annars flokks heilbrigðisþjónustu í löndum Afríku. Fyrir vikið varð þetta dálítið streitufullur fundur.“

Af öðrum málefnum sem WMA vinnur að nefnir Jón tóbaksvarnir en það segir hann að læknar séu almennt sammála um að sé einn helsti heilbrigðisvandi heimsbyggðarinnar. „Á aðalfundinum í Seúl verður málþing um tóbaksvarnir í löndum þriðja heimsins en til skamms tíma hefur tóbaksframleiðendum leyfst að valsa þar um að vild til að auka sölu á tóbaki. Samtökin hafa beitt sér á þann hátt að búa til álit sem byggir á bestri læknisfræðilegri þekkingu sem stjórnvöld geta nýtt sér í baráttu gegn ýmsum heilbrigðisvanda.“

Aðspurður um hver sé helsti heilbrigðisvandi heimsbyggðarinnar segir Jón hann ekki einhlítan. „Í fátækari löndum heims er vandinn fyrst og fremst fátæktin. Henni fylgir slæmur aðbúnaður fólks og í kjölfarið alls kyns heilsufarsleg vandamál sem stafa af lélegri næringu, skorti á hreinlæti, og takmarkaðri heilbrigðisþjónustu. Annað sem teljast verður heilbrigðisvandi heimsbyggðarinnar er hversu miklir flutningar eru á fólki á milli heimshluta. Faraldrar geta breiðst mjög hratt út yfir stór svæði og því hefur aldrei verið jafn mikilvægt að alþjóðlegt samstarf og flæði upplýsinga á þessu sviði sé sem virkast. Þetta er auðvitað fyrst og fremst verkefni WHO sem er gríðarlega öflug alþjóðastofnun með mörg þúsund starfsmenn á sínum vegum. Okkar framlag hefur verið fólgið í sérfræðilegu áliti eins og ég nefndi.“

Jón nefnir að lokum vinnu á vegum WMA er snýr að samskiptum lyfjafyrirtækja og lækna. „Þetta er mál sem snýst um gott siðferði og hvað mega teljast eðlileg samskipti á milli þessara aðila. Það er mjög auðvelt að rökstyðja að þarna á milli þurfi að vera gott samstarf og báðir aðilar stefni að sameiginlegu markmiði. Spurningin snýst um að lyfjafyrirtækin beiti réttu meðölunum og að allir geti verið sáttir við þau. Fyrirtækin styrkja ýmis góð mál á vegum læknasamtaka víða um heim og slíkur stuðningur þarf að vera í réttum skorðum. Ég get nefnt að eitt lyfjafyrirtæki styrkir sérstakt kennsluprógramm WMA um berkla fyrir lækna og annað styrkir alþjóðleg námskeið í stjórnun fyrir lækna. Samstarf við lækna er lyfjafyrirtækjunum mjög mikilvægt og læknum er mikilvægt að halda faglegu sjálfstæði sínu þrátt fyrir slíkt samstarf.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica