11. tbl. 94. árg. 2008
Umræða og fréttir
Hlakkar til að takast á við nýja starfið. Viðtal við Sigurð Guðmundsson
Það kom ýmsum á óvart að Sigurður Guðmundsson hefði verið skipaður sviðsstjóri hins nýja heilbrigðissviðs Háskóla Íslands. Ekki vegna þess að hann ætti ekki fullt erindi í embættið, heldur einfaldlega vegna þess að flestir töldu hann vera hæstánægðan í embætti landlæknis. Aðspurður tekur hann sjálfur undir þetta.
„Það erfiðasta við að fara í nýja starfið verður að hætta í núverandi starfi, það er bæði mjög fjölbreytilegt og skemmtilegt. Það verður mjög erfitt að fara héðan. Ég hef reyndar verið svo heppinn að þegar ég hef skipt um vettvang hef ég alltaf farið með mikilli eftirsjá úr fyrra starfi. Það er auðvitað kostur í sjálfu sér að þykja starf sitt skemmtilegt en ég hef alltaf verið mjög upptekinn af þeirri hugsun að maður eigi ekki að vera of lengi í sama starfi. Flestir missa kraftinn við að vera of lengi á sama stað og á því eru fáar undantekingar hefur mér sýnst.“
„Það felast tækifæri í þeirri stöðu sem við erum í núna,“ segir Sigurður Guðmundsson sem senn lætur af embætti landlæknis og tekur við stöðu sviðsstjóra heilbrigðissviðs Háskóla Íslands.
Landlæknir í tíu ár
Sigurður hefur verið landlæknir í tíu ár og segir að það hafi verið núna eða aldrei að skipta um vettvang. „Skipunartími minn í landlæknisembættið rennur út um núna í lok nóvember og ég hefði vissulega getað sótt um fimm ára skipun í viðbót. Þá hefði ég líklega klárað starfsferilinn hér þar sem hæpið er að skipta um starf kominn á miðjan sjötugsaldur. Ég hafði aldrei ætlað mér að verða ellidauður hér. Mig langaði einfaldlega til að takast á við eitthvað nýtt og leist feikivel á sviðsstjórastarfið í háskólanum og ákvað að láta slag standa og sækja um.“
Sigurður stendur sumsé á sextugu og það eru sannarlega ekki allir sem hafa hug á því að gera gagngerar breytingar á starfshögum sínum á þeim aldri. „Ég er bara svona gerður og hef líklega svona takmarkaða athyglisgáfu að geta ekki enst í því sama lengur en raun ber vitni. Sviðsstjórastarfið er svo sannarlega ekki neitt eftirlaunastarf og það verður áreiðanlega erfitt - það á að vera erfitt - en ég er líka sannfærður um að það verður andskotanum skemmtilegra. Ég hlakka til að takast á við það.“
Það er auðvitað við hæfi að líta um öxl á tímamótum og Sigurður kveðst mjög ánægður með hvað áunnist hefur í embætti landlæknis frá því hann tók við því. „Eflaust eru aðrir en ég færari um að meta hvað hefur gerst á þessum tíu árum. Þetta er mjög gamalt apparat, verður 250 ára árið 2010 og hefur breyst mjög mikið í aldanna rás. Embættið hefur stækkað og er orðin verulega öflug stofnun með mjög hæfu starfsfólki á mörgum sviðum. Verkefni embættisins eru fjölþætt og þeim hefur fjölgað frá því ég tók við af miklum snillingum sem hér voru á undan mér. Starfsmannafjöldinn hefur líklega þrefaldast á undanförnum áratug. Draga má þetta saman á einfaldan hátt þannig að mig langaði til að efla embættið sem lýðheilsustofnun en þróunin varð sú að samhliða fjölgun verkefna landlæknisembættisins var Lýðheilsustöð sett á laggirnar og ég skal viðurkenna að mér þótti fýsilegra að þetta yrði ein stofnun fremur en tvær en þetta varð niðurstaðan og ekkert nema gott eitt um það að segja. Ég vildi einnig sjá landlæknisembættið skerpa þríþætt hlutverk sitt. Í fyrsta lagi sem ráðgjafastofnun til opinberra aðila, stjórnvalda fyrst og fremst, en einnig til heilbrigðisstarfsmanna og almennings. Í öðru lagi eftirlitshlutverk sem snýr fyrst og fremst að gæðaþróun og eftirliti með því að þjónustan standist kröfur um gæði. Í þriðja lagi er skráningarhlutverk embættisins en það er algert grundvallaratriði til að hægt sé að sinna fyrrnefndu hlutverkunum tveimur að hafa góðar og aðgengilegar upplýsingar um allt er lýtur að heilbrigðisþjónustu og heilbrigði landsmanna og ekki síður til að skapa forsendur fyrir öflugri rannsóknastarfsemi. Ég held að okkur hafi tekist að ná utan um þetta þríþætta hlutverk og endurspeglast í lögunum um embættið sem sett voru á síðasta ári. Vonandi kemur svo sá sem tekur við af mér með nýjar hugmyndir því hér er ekkert þúsund ára ríki frekar en annars staðar.“
Samlegð í kennslu og skipulagi
Eins og marga rekur eflaust minni til voru gerðar gagngerar breytingar á skipulagi Háskóla Íslands í sumar. Honum var skipt í fimm svið í stað hinna hefðbundnu deilda sem áður voru; deildirnar halda sér en tilheyra nú hver sínu sviði sem lýtur stjórn sviðsstjóra. „Ég tel að þetta sé mjög jákvæð breyting sem beinir háskólanum í átt að því setta háleita markmiði að hann verði einn af 100 bestu háskólum í heiminum innan ákveðins tíma. Miðað við það sem hefur verið að gerast hér í rannsóknum, lífvísindum, svo sem læknisfræði, líffræði og erfðafræði, einnig jarðvísindum, er ég sannfærður um að þetta er raunhæft markmið. Samlegðaráhrifin sem nást með hinni nýju sviðsskipan ættu að ýta enn frekar undir þetta. Það hlýtur að vera markmiðið að draga úr deildarmúrunum og vinna frekar að því sem sameinar þær en aðskilur. Innan heilbrigðissviðs sameinast sex deildir, læknadeild, tannlæknadeild, hjúkrunardeild, lyfjafræðideild, sálfræðideild og matvæla- og næringarfræði. Innan læknadeildar eru svo geisla- og lífeindafræði. Síðast en ekki síst má nefna hina nýju deild lýðheilsuvísinda en þar eru mörg tækifæri til rannsókna sem ekki hafa átt sérstaklega upp á pallborðið hérlendis hingað til.“
Hvernig sérðu þessa samlegð deildanna fyrir þér?
„Það þarf auðvitað að ganga varlega að þessu. Ekki dugir að vaða inn eins og fíll í postulínsbúð. Þetta mun taka tíma. En nokkrar leiðir má nefna sem strax eru færar. Það er ljóst að heilbrigðissvið nær ekki flugi nema þetta takist. Í fyrsta lagi að setja upp sameiginlega sviðsskrifstofu þar sem allar helstu ákvarðanir og skipulagsmál eru ákveðin. Það er einnig tiltölulega auðvelt að ná samlegð í kennslu þar sem mörg fög eru sameiginleg mörgum greinum, sérstaklega í grunngreinunum, þetta hefur verið gert og var reyndar meira um þetta hér í eina tíð en undanfarin ár en þetta er klárlega eitt af því sem ganga má í að skipuleggja betur. Þetta er ekkert nýtt í sjálfu sér, Helgi Valdimarsson prófessor talaði mikið fyrir þessu fyrir um aldarfjórðungi og talaði þá um heilbrigðisvísindaskóla. Annar mikilvægasti pósturinn í starfi lifandi háskóla eru rannsóknir. Og þar getum við aukið þjónustu sviðsins til muna, sett upp eins konar rannsóknaþjónustustöð, fyrir kennara, doktorsnema og aðra nemendur sem vinna að rannsóknum á vegum deildanna. Þarna væri nemendum veitt aðstoð við að ganga frá texta greina, þjónusta við úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga. Með þessu er ég ekki að tala um að fella allar rannsóknarhugmyndir í sama farið, heldur hvetja markvisst til rannsókna og veita faglega og tæknilega aðstoð við vinnslu þeirra. Þjónustan felst líka í því að veita kennurum aðstoð við praktísk atriði eins og samsetningu prófataflna, raða niður tímum, skipuleggja námskeið, undirbúa fyrirlestra. Allt í rauninni til þess að fagfólkið nýtist best í það sem það kann best, að kenna sérgreinar sínar. Um þetta allt saman tel ég að auðvelt sé að ná samstöðu. Þá sé ég líka möguleika í því að ráða kennara til kennslu í fleiri en einni grein. Það er ekkert sem mælir gegn því að sami kennari kenni hjúkrun og sálfræði, eða læknisfræði og lyfjafræði svo eitthvað sé nefnt. Við eigum einnig að nýta í fleiri greinum möguleikana sem felast í því að kennarar séu starfandi fagmenn utan háskólans. Það er algengt að læknar séu bæði starfandi á Landspítala og kenni við læknadeild en þetta getum líka gert í hjúkrun, tannlækningum, sálfræði og matvælafræði. Jafnframt að tengja háskólastöðurnar við fleiri stofnanir en Landspítala. Í heilsugæslunni eru um 80-90% af öllum samskiptum í heilbrigðisþjónustunni og þar eru mikil sóknarfæri. Ekki má heldur gleyma kragastofnunum og sjúkrahúsinu á Akureyri. Á öllum þessum stofnunum getum við nýtt okkur þekkingu og kennslugetu mun meira en nú er.“
Þríþætt hlutverk heilbrigðisstarfsfólks
Sigurður færist allur í aukana og engin leið að efast um að þar fari ekki réttur maður í hið nýja starf.
„Við megum auðvitað ekki gleyma aðalmarkmiðinu sem er að mennta áfram gott heilbrigðisstarfsfólk. Það þarf að geta sinnt jafn vel hinu þríþætta hlutverki sínu. Að sinna veiku fólki, að búa til nýja þekkingu með rannsóknum og miðla þekkingunni til nýrra kynslóða. Fjórði þátturinn er einnig til og það er hið samfélagslega hlutverk heilbrigðisstarfsfólks. Þar gegnir háskólinn mikilvægu hlutverki í miðlun upplýsinga til almennings svo fólk geti sinnt heilsu sinni og farið eins vel með hana og kostur er hverju sinni. Þetta er auðvitað í samræmi við það sem háskólinn hefur gert markvisst undanfarin ár með tengslum sínum við atvinnulífið og samfélagið í heild sinni.“
Sérðu fyrir þér breytingu á inntaki námsins í einstökum greinum?
„Læknanámið hefur verið í þróun og tekið breytingum á undanförnum tveimur áratugum. Þar hefur kannski athyglin að undanförnu beinst að tímasetningu ákveðinna greina innan námsins. Hvenær sé heppilegast að kenna stóru fögin svokölluðu, lyflækningar og skurðlækningar. Meginmarkmiðið hvað læknisfræðina varðar er að auka valfrjálsa tímann og minnka kjarnann. Við erum núna með of mikið njörvað niður í kjarnann og eigum að losa um það. Tilgangurinn er tvíþættur, að geta bætt við nýjum áherslum í kjarnann og um leið boðið upp á meira val. Ég þekki því miður ekki jafn vel til í hinum deildunum en þetta er eitt af því sem ég mun skoða mjög vandlega hvort ekki eigi við að meira eða minna leyti í öllum greinum innan sviðsins.“
Samstarfið við Landspítala sem kennslusjúkrahús hlýtur að gegna lykilhlutverki í framtíðaráformum um heilbrigðissvið Háskóla Íslands.
„Það er eitt af stóru verkefnunum að efla Landspítala sem háskólasjúkrahús. Ég hef verið viðloðandi Landspítalann alveg frá því ég kom heim frá Bandaríkjunum 1985 og ætla að leyfa mér að segja að okkur hafi ekki enn tekist að búa til alvöru háskólasjúkrahús. Eflaust eru einhverjir á annarri skoðun. Við erum enn ekki komin með stofnun þar sem kennslan er hluti vinnunnar og vinnan hluti kennslunnar. Fyrir þessu eru margar ástæður þó sannarlega hafi Landspítali eflst á mörgum sviðum en í mínum huga er alveg ljóst að tengsl háskólans og spítalans þarf að efla til muna frá því sem nú er. Þetta þarf að gerast á öllum stigum, ekki síst yfirstjórn beggja stofnana og ég held að styrkur háskólans hafi vaxið með hinu nýja heilbrigðissviði. Þetta þarf líka að gerast á gólfinu og þar eru tvær leiðir færar. Í fyrsta lagi að fjölga kennslustöðum meðal klínískra sérfræðinga á spítalanum; þeir fái háskólatitil sem eykur kröfur til þeirra um hlutverk sem kennarar og vísindamenn. Samhliða þessu vil ég fella niður prósentuhlut hinna ýmsu starfa, að menn séu ekki dósentar í 37% starfi heldur hafi eina stöðu sem tekur til beggja stofnana og felur hvorttveggja í sér, klíník og kennslu. Þessu til viðbótar má spyrja hvernig við búum til tíma fyrir sérfræðingana til að sinna meira kennslu og rannsóknum. Það held ég að felist í betra skipulagi innan spítalans, menn skipti meira með sér verkum, stjórnunarleg ábyrgð sé færð meira á hendur þeirra sem stjórna einstökum einingum innan spítalans og sú krafa gerð til þeirra að menn geti losað sig úr klínískum störfum til að sinna rannsóknum eða kennslu. Þetta er gert annars staðar og hví skyldi það ekki vera gert hér líka. Ég er sannfærður um að þetta er hægt með betra skipulagi en nú er. Þá loks má spyrja um allar stofurnar og göngudeildirnar sem læknar eru að sinna ofan á allt annað og þetta hafa menn stundum nefnt sem eina ástæðu þess að treglega hefur gengið að gera Landspítala að því háskólasjúkrahúsi sem hann sannarlega á að vera. Ég veit ekki hvort það er rétt en hitt veit ég að það er alveg nauðsynlegt að læknar sinni ekki bara rúmliggjandi sjúklingum. Ég vil hins vegar sjá sem mest af þessari þjónustu undir hatti spítalans og þannig náum við að skapa það fjölþætta spítalaumhverfi sem hæfir háskólasjúkrahúsi.“
Sóknarfæri í núverandi stöðu
Það er kannski ekki hluti af þínu starfi að hugsa um kaup og kjör heilbrigðisstarfsfólks en mig langar samt að heyra hvort þér þyki ekki mótsagnakennt að leggja ofuráherslu á góða menntun og ítarlega þjálfun, tala jafnvel um besta heilbrigðisstarfsfólk í heimi, og launa það svo ekki að verðleikum þegar út í starf er komið.
„Þetta er auðvitað mótsagnakennt en um leið algjörlega pólitísk spurning og því ekki á mínu valdi að svara. Stjórnvöld verða auðvitað að svara þessu ef ætlunin er að halda úti þjónustu af þeim gæðum sem talað er um. Það er einnig ljóst að ein af leiðunum til að tryggja sér öflugasta fólkið er að launa því vel. Það er ekki eina leiðin en klárlega ein af þeim. Þetta hefur líka áhrif á námsval ungs fólks og þótt heilbrigðisgreinar höfði til hugsjóna og samkenndar með manneskjunni verðum við að gera okkur grein fyrir því að til að halda góðu fólki í akademíunni skipta kaup og kjör miklu máli. Það er alveg ljóst að við uppskerum einsog við sáum í þessu efni. Gott dæmi er reynsla Finna sem gengu í gegnum efnahagsþrengingar fyrir 20 árum og þurftu að skera niður víða í samfélaginu nema í rannsóknum og menntun. Þar héldu þeir sínu striki og bættu frekar í. Það er alveg á hreinu að þeir uppskera nú margfalt af þeirri sáningu. Ég ætla að vona að við berum gæfu til hins sama einmitt núna. Ef það fyrsta sem okkur dettur í hug er að skera niður menntun og rannsóknir förum við áratugi aftur í tímann. Ég vona svo innilega að sú leið verði ekki fyrir valinu. Það felast tækifæri í okkar stöðu. Galdurinn er að sjá þau og nýta þau.“