11. tbl. 94. árg. 2008
Ritstjórnargrein
Lærdómar dregnir af spænsku veikinni 1918
Í þessu tölublaði Læknablaðsins eru birtar tvær greinar um spænsku veikina 1918. Byggjast þær á góðri úttekt á samtímaheimildum. Margar af þessum heimildum hafa íslensk yfirvöld haft til hliðsjónar við gerð viðbragðsáætlunar gegn heimsfaraldi inflúensu (1).
Heimsfaraldrar inflúensu eru misskæðir en hafa ávallt alvarlegri afleiðingar í för með sér en árlegir inflúensufaraldrar vegna þess að ónæmi er ekki til staðar hjá mönnum þegar nýr inflúensustofn berst um heiminn. Um 40 ár eru liðin frá síðasta heimsfaraldri og má því ætla að sá næsti sé yfirvofandi. Líklegt er að spænska veikin hafi verið með skæðustu farsóttum sem hafa gengið. Hún stafaði af inflúensu H1N1 sem virðist hafa borist frá fuglum til manna.
Í greinunum er lýst heimildum um einkenni veikinnar og hárri dánartíðni sem ekki eru að fullu skýrð. Það er athyglisvert að einkennin í spænsku veikinni eru hliðstæð þeim einkennum sem sjást hjá mönnum sem sýkjast af fuglainflúensu H5N1 sem geisar í fuglum um þessar mundir víða um heim. Einkenni geta stafað af beinum áhrifum veirusýkingarinnar á fjölmörg líffæri (2). Þótt fylgikvillar af völdum baktería hafi haft einhver áhrif á háa dánartíðni sjúkdómsins eru bein áhrif veirusýkingarinnar þýðingarmest. Eins og bent er á fór hraustasta fólkið verst út úr veikinni. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar áhættan er metin og viðbrögð ákveðin.
Höfundar gera viðbrögð heilbrigðisyfirvalda 1918 að umfjöllunarefni. Augljóst er að landlæknir vissi ekki um hið skæða eðli annarrar bylgju þessa heimsfaraldurs fyrr en farþegar komu með skipum til landsins seinni hluta októbermánaðar þessa árs. Fyrsta bylgjan, sem hófst í mars 1918, var tiltölulega væg. Önnur bylgjan skall á í ágúst sama ár eins og hendi væri veifað, nánast samtímis í Evrópu, Norður-Ameríku og Afríku með tíföldun á dánartíðni sjúkdómsins (3). Landlæknir benti réttilega á að það hafi verið um seinan að koma í veg fyrir að farsóttin breiddist út um landið eftir komu sýktu farþeganna í október 1918. Það er þó einkennilegt að hann virðist líkt og í afneitun skella skollaeyrum við þeim upplýsingum sem farþegarnir færðu landsmönnum um þessa skæðu sótt eins og lesa má í greinaflokki landlæknis í Morgunblaðinu frá þessum tíma. Landlæknir leit svo á að þessi inflúensa væri ekki frábrugðin öðrum inflúensufaröldrum sem gengu reglulega yfir landið. Ekki var gripið til neinna sérstakra ráðstafana, svo sem samkomubanns eða lokun skóla, í upphafi farsóttarinnar og er hugsanlegt að það hafi verið litið svo á að best væri að inflúensan gengi sem hraðast yfir. Afleiðingarnar urðu skelfilegar fyrir suðvesturhornið og sérstaklega Reykjavík.
Önnur hlið þessa máls er að það tókst með vegartálmum og sóttvarnaráðstöfunum í höfnum að koma í veg fyrir að farsóttin bærist norður og austur á land. Er hugsanlegt að hraður gangur spænsku veikinnar á Suðvesturlandi, sem ekki tók nema átta vikur að ganga yfir, hafi átt sinn þátt í að þessar sóttvarnaráðstafanir heppnuðust? Örlög spænsku veikinnar urðu eins og annarra heimsfaraldra að missa afl og breytast í árstíðabundna inflúensu þar til næsti heimsfaraldur reið yfir tæpum 40 árum síðar.
Í þeirri viðbragðsáætlun gegn heimsfaraldri inflúensu sem fyrir liggur er gert ráð fyrir þeim möguleika að landið allt eða hlutar þess verði sett í sóttkví. Augljóslega eru aðstæður allt aðrar nú á dögum en 1918, ferðalög greiðari og skjótari svo erfiðara verður um vik að beita slíkum sóttvarnaráðstöfunum. Það er þó nauðsynlegt að til séu áætlanir um slíkar ráðstafanir ef aðstæður verða með þeim hætti að þeim mætti beita með árangri.
Alþjóðasamfélagið (WHO) hefur innleitt alþjóðaheilbrigðisreglugerð sem tók gildi árið 2007 (4). Þar eru ítarleg ákvæði um að upplýsingar berist greiðlega um allar heilsufarsógnir sem snerta þjóðir heims og viðbrögð við slíkri vá. Vonandi þarf Ísland ekki að standa í sömu sporum með skort á upplýsingum sem það gerði haustið 1918.
Það er við hæfi á þessum tímum að benda á að í viðbragðsáætlun um skæðan heimsfaraldur inflúensu er gert ráð fyrir því að hann muni hafa alvarleg áhrif á fjármál og efnahag heimsins. Nú stöndum við ekki frammi fyrir heimsfaraldri inflúensu heldur alheimsfjármálakreppu. Á Íslandi var unnin skýrsla um efnahagsleg áhrif og hagvarnarráðstafanir vegna heimsfaraldurs inflúensu hér á landi árið 2006 (5). Var sú vinna nýtt til að bregðast við efnahagslegu hörmungunum sem steðja að landinu um þessar mundir?
Heimildir
1. Viðbragðsáætlun Almannavarna. Heimsfaraldur inflúensu, landáætlun. Sóttvarnalæknir, ríkislögreglustjórinn. www.influensa.is
2. The Writing Committee of the World Health Organization (WHO). Consultation on Human Influenza A/H5Avian Influenza A (H5N1) Infection in Humans. N Engl J Med 2005; 353: 1374-85.
3. Potter CW. Chronicle of Influenza Pandemics. In: Nicholson KG, Webster RG & Hay AJ (ed). Textbook on Influenza, pp.3-18, Blackwell Science, London 1998.
4. International Health Regulations (2005): www.who.int/csr/ihr/WHA58-en.pdf
5. Mat á efnahagslegum áhrifum og hagvarnarráðstafanir vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu, september 2006. www.forsaetisraduneyti.is/media/Skyrslur/Skyrsla_starfshops_ny_utgafa.pdf