11. tbl. 94. árg. 2008

Hugleiðing höfundar. Orð í belg - um ástarmálið íslensku. Kristín Helga Gunnarsdóttir

Hér er þessi mannvera og hún er fullkomin. Barnalæknirinn lét þessi orð falla um leið og hann rétti okkur foreldrunum yngstu dótturina og útskrifaði hana af fæðingardeild. Orðin voru hlaðin merkingu.

Hér er þessi mannvera. Heil mannvera var mætt og átti allt sitt undir þeim sem við tók. Og ég velti því fyrir mér hvort hún myndi höndla hamingjuna, heilsuna og alla veröldina.

Og hún er fullkomin, sagði hann. Manni er kennt að enginn sé fullkominn - eins og til þess að draga úr þeim mikilfengleik sem eitt líf er. Ég ákvað þó að vera sammála lækninum. Ætli allir séu ekki fullkomnir sem draga andann og lifa. Hið fullkomna er síbreytilegt og samofið úr ótal fellingum sorga og sigra. Ein manneskja er fullkomið kraftaverk í öllum sínum margbreytileika - þegar hún nærist, andar, hlær og grætur, hrasar, rís aftur á fætur, vaknar og sofnar. Þegar hún elskar og hatar.

Orð falla til jarðar allt í kringum okkur. Þau falla eins og sólargeislar, milt regn, hægur andvari og hlýr sunnanvindur. Þau geta líka skollið á eins og haglél, norðangarri, stormur og stórhríð. Sum orð látum við sem vind um eyru þjóta. En til eru þau orð sem við stingum í vasa og geymum sem nauðsynlega næringu í nesti.

Vertu til staðar, hér og nú - án þess að dæma, sagði jógakennari við nemendur á mánudagskvöldi í miðborginni. Ég greip orðin.

Vertu til staðar. Vertu meðvitaður og í sambandi. Hlustaðu á þinn eigin andardrátt og finndu fyrir sjálfum þér. Hér og nú. Njóttu stundarinnar og gríptu hana. Þú átt þessa stund, ekki stundina í gær og ekki stund morgundagsins. Og án þess að dæma, bætti jógakennarinn við. Þessi orð veittu mér frelsi til að vera án þess að dæma sjálfa mig og aðra - losa mig við fordóma, þröngsýni og reiði.

Orð skulu standa, sagði einhver. Það getur vel verið í sumum tilfellum. En við getum grafið í sandinn þau orð sem hefðu ekki átt að falla og sett í vasann orðin sem við nærumst á og byggja okkur upp sem mannverur.

Yfir hafið í gegnum fjölmiðla er hrópað: Have a nice day! Árum saman náðu frónskir ekki upp í þessa tilgerð, en smám saman þykir sjálfsagt að kalla á eftir vinum út í frostið: Njóttu dagsins! Og það hlýnar um nokkrar gráður við orðin sem leggjast yfir herðarnar eins og notaleg ábreiða.

Lúnir foreldrar lágu síðla kvölds í hjónarúmi þegar lítill uppfinningamaður læddist inn og hvíslaði í myrkrinu: „Takk fyrir daginn. Hann var góður þessi dagur.“ Með það tipplaði snúður til baka í sína holu. Hann skildi eftir sig galdra og bjó til hefð sem fylgdi honum til fullorðinsára. Að þakka samferðafólki sínu fyrir einn dag í einu er vísbending um að viðkomandi njóti stundarinnar. Og uppfinningamaður segi ég þar sem litli maðurinn gerði tilraunir með orð og framköllun hlýrra strauma.

Orð eru verkfæri tilfinninga, viðkvæmt listform og smíðaviður samskipta. Skoðum sögnina stóru sem umfaðmar allt - sögnina sem vefur sig eins og loðinn trefill umhverfis þá sem hennar njóta.

Sögnin að elska. Árið 1970 sagði enginn Íslendingur upphátt að hann elskaði annan. Menn hvísluðu það í eyra í rökkri og muldruðu ofan í bringu á ögurstundu. Engum frónverja kom til hugar að segja slíkt stundarhátt í dagsbirtu. Sögnin að elska var þeim óviðráðanleg. Menn sáu sögnina á prenti og hún rann yfir sjónvarpsskjáinn endrum og sinnum þegar erlendir þættir voru þýddir, en þá voru þeir yfirleitt að vestan. Bandarískir nýttu sér sögnina til daglegs brúks, en þóttu fyrir það væmnar væluskjóður.

Stöku sinnum hljómaði „I love you“ frá sjónvarpinu og maður lagðist í gólfið af skömm yfir því að sitja við tækið þegar hryllingurinn skall á. Verst var er foreldrarnir voru viðstaddir þegar ælovjú-slím lak skyndilega yfir skjáinn. Maður greip fyrir augu, stóð jafnvel upp, sneri sér einn hring, dæsti þunglega og lét sig svo hníga niður í stólinn aftur.

Oftast voru íslenskir þýðendur snarráðir og var ælovjú-slími snarað yfir á ástkæra og ylhýra sem: Mér þykir afar vænt um þig. Allir önduðu léttar þegar sögnin að elska var gengisfelld í þýðingu og dregin inn fyrir skynsemismörk íslenskrar hugsunar.

En svo þroskast þjóð og lærir að vera ekki hrædd við tilfinningar. Hún lærir að hættan felst ekki í fallegum sagnorðum, heldur í því að nota þau ekki. Þannig höfum við hér á hjara veraldar lært að nota sögnina að elska. Við höfum lært að það er ekki nóg að finna elskuna innra með sér. Það þarf að koma henni frá sér. Systur sem eru uppfinningamenn hafa komið á órjúfanlegri hefð í sinni fjölskyldu. Þær spyrja sitt fólk reglulega og tilgerðarlaust: Var ég búin að segja þér í dag hvað ég elska þig mikið?

Og nú er svo komið á landinu kalda að hörðustu naglar hefja hélaðan íslenskan daginn á því að líta í augu ástvinar og segja þessi heilandi orð sem bræða ísjaka:

Ég elska þig.

Það er enda við hæfi nú þegar samfélagsáherslan er á að við séum góð hvort við annað og munum að verðmætin felast í fólki en ekki í fjármunum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica