11. tbl. 94. árg. 2008

Fræðigrein

Maurar í húsryki á íslenskum bóndabæjum

House Dust Mites at Icelandic Farms

Ágrip

Bakgrunnur: Næming fyrir Dermatophagoides pteronyssinus (D. pteronyssinus) finnst hjá 9% Reykvíkinga þrátt fyrir að engir Der p 1 mótefnavakar hafi fundist á Reykjavíkursvæðinu. Nýleg rannsókn sýndi að næmir einstaklingar höfðu unnið eða dvalið í sveit á barnsaldri oftar en samanburðarhópur. Til að fylgja þessu eftir könnuðum við líkur á útsetningu fyrir maurum á bóndabæjum.

Efniviður og aðferðir: Sem hluti af rannsókn á heilsufari bænda var safnað 80 sýnum af ryki á 42 bóndabýlum á Suður- og Vesturlandi. Sýnum var safnað af dýnum í svefnherbergjum og af stofugólfi og leitað að maurum. Sýni voru meðhöndluð með sambærilegum aðferðum og notaðar voru í rannsókninni Lungu og heilsa sem framkvæmd var í Reykjavík.

Niðurstöður: Öfugt við niðurstöður frá Reykjavík fundust í ryki af bóndabæjum 17 tegundir af maurum. Þar af fannst Acarus siro á 13 bæjum og D. pteronyssinus á átta bæjum. Það sáust þó ekki merki um að nein tegund hefði átt bólfestu eða fjölgað sér þar sem sýnunum var safnað.

Ályktanir: Fundur D. pteronyssinus á bóndabæjum er hugsanleg skýring á því hvers vegna margir íbúar Reykjavíkur hafa þróað ofnæmi gegn þessum maur. Krossnæmi við aðrar maurategundir getur einnig verið orsökin í sumum tilfellum. Rannsóknir okkar styðja ekki þá hugmynd að maurarnir eigi sér bólfestu á bóndabæjum heldur hlýtur skýringa á fundi þeirra að vera að leita í umhverfi bóndabæjanna.

Inngangur

Rykmaurar lifa um heim allan í heimkynnum manna og nærast meðal annars á úrgangi frá mönnum eins og húðflögum. Þeir eru mikilvæg orsök astma og ofnæmis víða um heim. Talið er að rykmaurar innandyra séu orsök fyrir rykmaura-ofnæmi í kaldtempruðu loftslagi (1). Rannsóknir á maurum í íbúðum í Nuuk á Grænlandi og Umeå í Svíþjóð sem eru á svipaðri breiddargráðu og Reykjavík, sýndu að rykmaurar og heymaurar höfðu bólfestu í rúmdýnum þar (2, 3). Rannsóknir frá Noregi hafa sýnt að mikið finnst af rykmaurnum D. pteronyssinus á strandlengju Atlantshafsins á enn norðlægari breiddargráðum en í Reykjavík (4). Samkvæmt þessu mætti búast við því að finna rykmaura í svipuðu magni í Reykjavík; sérstaklega þar sem 9% ungra Reykvíkinga voru með sértæk IgE mótefni í blóði og 6,1% jákvæð húðpróf fyrir D. pteronyssinus í könnun sem gerð var árin 1990-1991 (5). Þetta voru svipaðar niðurstöður og fengust í sömu rannsókn í Uppsölum í Svíþjóð þar sem notaðar voru sömu rannsóknaraðferðir (5). Þess vegna kom á óvart að hverfandi magn af rykmaurum fannst í íbúðum í Reykjavík. Það fundust aðeins tveir maurar í 207 ryksýnum, báðir D. pteronyssinus (6) og mótefnavakinn Der f1 var greinanlegur í einu af 182 ryksýnum en Der p 1 fannst ekki í neinu ryksýni (7). Nýleg rannsókn sýndi að þeir sem höfðu sértæk IgE mótefni í blóði fyrir D. pteronyssinus í Reykjavík voru oftar karlmenn og höfðu oftar verið í sveit í barnæsku en samanburðarhópur þar sem IgE mótefni fyrir D. pteronyssinus fundust ekki í blóði (8). Þegar rannsóknin var gerð höfðu þeir háa tíðni af IgE mótefnum í blóði fyrir ofnæmisvökum með krossvirkni við D. pteronyssinus. Rannsóknir á heyi á íslenskum bóndabæjum sýndu mikla bólfestu heymaura sem sumir eru þekktir af því að hafa krossvirkni við D. pteronyssinus (9). Um ofnæmi (allergy) er talið að ræða ef einstaklingur er með klínísk einkenni til viðbótar við jákvæð húðpróf og/eða jákvæð sértæk IgE mótefni í blóði. Ef eingöngu er um að ræða jákvæð húðpróf og/eða jákvæð sértæk IgE mótefni í blóði er talað um næmingu (sensitization).

Til að athuga frekar algengi rykmaura á Íslandi rannsökuðum við bóndabæi. Rannsóknarspurn-ingin var sú hvort rykmaurar fyndust á bóndabæjum. Ef þeir fyndust gæti það skýrt næmi fyrir D. pteronyssinus í Reykjavík, að minnsta kosti að hluta til.

 

Efniviður og aðferðir

Rannsóknarhópur

Sýnum var safnað á bóndabæjum að vetri til frá 8. til 19. mars 2005. Staðsetning bændabýlanna sést á mynd 1. Fjarlægðin frá bóndabæ að sjó var lesin af landakorti af Vestur- og Suðurlandi í hlutföllunum 1:250.000. Meðalhitastig utandyra á söfnunartímanum var 2,8º C og rakastig var 84%. Safnað var 80 ryksýnum frá 42 bændabýlum. Þau voru valin úr hópi bændabýla þar sem bændur höfðu tekið þátt í rannsókn á heilsufari bænda með því að svara ítarlegum spurningalista um heilsufar og búskaparhætti. Í rannsóknina völdust þeir sem voru með búskap stærri en 100 ærgildi eða samsvarandi mjólkurframleiðslu. Bændasamtökin skilgreina slíka stærð af búi sem fullt starf. Búfénaður var á rannsóknartímanum fóðraður með heyi úr rúllum sem voru innpakkaðar í plast. Húðpróf með pikk-aðferð fyrir Dermatophagoides farinae (D. farinae), D. pteronyssinus og Lepidoglyphus destructor (L. destructor) voru gerð á bændunum. Notaðar voru ofnæmislausnir frá ALK-Abelló í Danmörku. Húðpróf var talið jákvætt ef svörunin var 3 mm eða meira.

Rannsóknin var samþykkt af Vísindasiðanefnd og Persónuvernd.

 

Mynd 1. Staðsetning bóndabýla og dreifing á tegundum rykmaura. Engir maurar fundust á 31 býli, Dermatophagoides pteronyssinus fannst á átta býlum og Dermatophagoides farinae á tveimur býlum.

 

Söfnun og meðhöndlun ryksýna

Ryksýnum var safnað úr rúmdýnum og af stofugólfum á sveitabæjum og með því að ryksuga í tvær mínútur flöt í ramma sem var 1 m2 með Electrolux Mondo ryksugu með ALK-Abelló síubúnaði. Sýnin voru síðan geymd við -20º C. Ryksýnunum var safnað og úr þeim unnið með sömu aðferðum og gert var í Reykjavík og áður hefur verið lýst (6). (0,1 g af ryki var leyst í mjólkursýru, litað með Lignin Pink, skoðað með 30x stækkun og greint til tegundar með 100x stækkun eða meira með „fasa andstæðu“ (phase contrast)). Kennsl voru borin á maura með aðferðum Hudges frá 1976 (10). Sami aðili rannsakaði ryksýnin og í könnuninni í Reykjavík.

 

 

Niðurstöður

Alls fundust 174 maurar sem tilheyrðu 17 tegundum (taxons) við rannsókn á 80 ryksýnum frá 42 bóndabýlum eins og sjá má í töflu I. Einnig eru sýndar niðurstöður úr svipaðri rannsókn í Reykjavík 2000-2001 (6). Hvert sýni vó 0,1 g. Yfirleitt fundust maurarnir ekki í eðlilegu ástandi né úrgangur frá þeim eins og búast hefði mátt við ef um heilbrigða og frjósama maura hefði verið að ræða með fast aðsetur á sýnatökustaðnum.

Mynd 2. Staðsetning bæja þar sem A. siro fannst við sjóinn (innfelld mynd). Maurum fækkaði með aukinni fjarlægð frá sjó.

 

Algengustu tegundirnar eru sýndar í töflu II. Meginniðurstöður rannsókna á maurum í Reykjavík eru líka sýndar (6). Um var að ræða 197 heimili sem voru valin af handahófi úr rannsókninni Lungu og heilsa. Einnig eru sýndar niðurstöður húðprófa úr rannsókn okkar og húðprófanir frá Reykjavík árin 1991-92 (5) og úr sveitum frá 1983 (15). Í þéttbýli í Reykjavík 1991-92 var fjöldi húðprófa 537 og efniviðurinn slembiúrtak þar sem flestir voru einkennalausir (5). Í rannsókn sem gerð var í dreifbýli árið 1983 var fjöldi þátttakenda 103 og voru þeir á aldrinum 6-50 ára og eingöngu prófaðir þeir sem fengu einkenni frá augum og öndunarfærum í heyryki (15). Meðalfjöldi D. pteronyssinus var 4,9 (0-77,1), af Acarus siro (A.siro) 3,6 (0-56,7), og af Tarsonemus sp. 0,9 (0-33), en aðrar tegundir komu sjaldnar fyrir en 0,5 maurar m2. Þegar borin voru saman sýni frá svefnherbergjum (rúmdýnum) og af stofugólfum var ekki munur á fjölda maura, fjölda tegunda né rykmagns í sýnunum. Sjaldgæfari tegundir maura fundust aðeins á einu býli hver þeirra: Psoroptes sp., Acarus gracilis, Cheyletus eruditus, Steneotarsonemus sp., Tetranychus sp. (einnig þekkt í húsaryki í Reykjavík (6)) og Tydeus interruptus. Einn rykmaur af tegundinni Euroglyphus maynei fannst einnig.

Húðpróf voru jákvæð fyrir D. farinae hjá einum, tvö voru jákvæð fyrir D. pteronyssinus og fimm próf voru jákvæð fyrir L. destructor.

 

Mynd 1 sýnir dreifingu þriggja rykmaura (D. farinae, D. pteronyssinus og Euroglyphus maynei). A. siro virðist oftar vera á bóndabæjum sem eru við sjávarsíðuna en á þeim bæjum í innsveitum sem rannsakaðir voru. Tengsl A. siro við sjóinn eru sýnd frekar á mynd 2. Hún sýnir að þeim fækkar með aukinni fjarlægð (x = km) til sjávar. Hallalínan var (fjöldi maura/ m2) = -0,70x + 17,37; r2 = 0,1211.

 

Umræða

Maurar fundust á 62% bóndabýlanna. Þetta er í fyrsta sinn sem lýst er meira en fáeinum rykmaurum í íbúðarhúsum á Íslandi. Rannsóknin í samanburði við fyrri rannsókn sýnir að D. pteronyssinus rykmaurinn er frekar að finna á bóndabýlum í dreifbýli en þéttbýli í Reykjavík (6, 7). Okkar rannsókn er gerð á sama hátt og fyrri rannsóknir og með sama búnaði. Ekki er talið líklegt að villur í aðferðafræði valdi þeim mun sem sést á niðurstöðum. Fjöldinn af D. pteronyssinus eða öðrum maurum náði ekki þeim 100 maurum á gramm af ryki sem taldir eru nauðsynlegir til að ofnæmi fyrir D. pteronyssinus maurum myndist (1). Þá fannst ekki merki um líf með maurunum, svo sem egg, lirfur eða saur. Því er ekki líklegt að maurar sem finnast inni í íbúðum á bóndabæjum séu orsök rykmauraofnæmis. Hugsanlegt er að maurar í umhverfi bóndabæja geti valdið rykmauraofnæmi. Þannig er mögulegt að tenging sé á milli þess sem fannst í húsrykinu og næmi fyrir maurnum, en að orsök næmisins séu ekki maurarnir í húsnæðinu (12). Þetta gengur þvert á þá almennu skoðun að næming eigi sér stað vegna maura í ryki í íbúðarhúsum (1). Það er mikið af maurum í umhverfinu á Íslandi en ítarlegar rannsóknir á maurafánu landsins hafa ekki sýnt fram á rykmaura. Þetta á bæði við um hey í hlöðum (16) og lifandi maura á túnum (17). Okkur grunar að rykmaurar og heymaurar geti komið frá fuglum eða hreiðrum þeirra (11) og að menn komist í snertingu við þá þegar maurarnir dreifast þaðan út. Þetta er mikilvægt að rannsaka nánar.

Það er greinilegt að í íbúðarhúsum á Reykja-víkursvæðinu er lítið af rykmaurum, mótefnum þeirra eða öðrum maurum (6, 7) en á bóndabýlum er mikið af maurum (sbr. töflu I). Þetta styður þá skoðun að næmir Reykvíkingar hafi verið útsettir fyrir rykmaurum þegar þeir dvöldu á sveitabæjum á barnsaldri. Þetta er vinnutilgáta vegna þess að við þekkjum hvorki tímasetningu né staðsetningu næmingar né heldur hvort maurafána í sveitum hefur breyst frá því um miðja síðustu öld.

Annar möguleiki er sá að börn hafi orðið næm fyrir heymaurum sem þekktir eru að krossvirkni við D. pteronyssinus (8, 13, 14), en það gæti leitt til falskt jákvæðra svara þegar prófað er með húðprófum eða sértækum IgE mælingum fyrir D. pteronyssinus. Í ljósi okkar niðurstaðna þar sem rykmaurar finnast í íbúðarhúsnæði á bóndabæjum er möguleiki á að niðurstaða sumra en ekki endilega allra húðprófa sé rétt. Hættan á rangri greiningu vegna krossvirkni verður ljós við skoðun á fyrri rannsókn á bóndabæjum (15) (tafla II) þar sem 18/103 mönnum voru með jákvæða svörun við maurnum Tyrophagus putrescentiae. Íslenskir bændur eru sennilega ekki útsettir fyrir T. putrescentiae. Þessi maur er viðkvæmur fyrir lágu hitastigi og hefur ekki fundist á Íslandi enn (16). Næmi fyrir þessari maurategund er sennilega frekar vegna krosssvörunar við Tyrophagus longior sem er þekktur úr mygluðu heyi (9) eða við Tyrophagus similis sem er algengur á túnum (17). Báðar þessar tegundir fundust í okkar rannsókn.

Rannsóknin sýndi í samanburði við fyrri rannsóknir að húðpróf eru oftast jákvæð í dreifbýli fyrir L. destructor, en í Reykjavík eru húðpróf oftar jákvæð fyrir D. pteronyssinus. Rannsókn sem gerð var í dreifbýli á fólki með einkenni um ofnæmi árið 1983 sýndi hærri tíðni jákvæðra húðprófa en í okkar rannsókn. Þetta getur verið vegna þess að rannsakað var fólk með einkenni en gæti líka endurspeglað breytta verkunarhætti á heyi sem gætu hafa fækkað maurum í heyi sem notað er til fóðrunar.

A. siro fannst helst á bóndabæjum sem eru nálægt sjó. Þessi maur er mjög algengur í illa verkuðu þurrheyi (9) og er því líklegur til að finnast alls staðar þar sem skepnur eru fóðraðar. Tengingin við sjávarsíðuna bendir til annars orsakasamhengis en heys í hlöðu til að skýra nærveru hans í íbúðarhúsum bænda. Hugsanlegar skýringar á meiri fjölda mauranna við sjávarsíðuna gæti verið meiri raki eða selta í andrúmslofti eða hærri lofthiti við sjávarmál á veturna. Þá ætti þessi maur einnig að hafa fundist í Reykjavík.

Í þessari rannsókn margar fundust tegundir af maurum í ryki af bóndabæjum. Þetta er öfugt við fyrri rannsókn úr Reykjavík þar sem nánast engir maurar fundust (það fundust 13 maurar, en aðeins tveir rykmaurar) þrátt fyrir að næming hafi átt sér stað. Þetta gæti skýrt næmi fyrir D. pteronyssinus í Reykjavík, að minnsta kosti að hluta til. Þess sáust ekki merki að maurarnir lifðu og tímguðust í íbúðarhúsum bænda. Líklega koma maurarnir úr umhverfi bóndabæja en sú tilgáta þarfnast frekari rannsóknar.

 

Þakkir

Rannsóknin var styrkt af Framleiðnisjóði bænda, Rannsóknamiðstöð Íslands (040465031), Sjóði Odds Ólafssonar (2004), Vísindasjóði Landspítala (2006), University of Iowa Environmental Health Sciences Research Center (NIH ES05605).

Þakkir fær Kristín Bára Jörundsdóttir sem undirbjó ryksýni fyrir skoðun og Keldur rannsóknastöð sem lagði til tæki og aðstöðu fyrir mauraskoðun.

 

 

Heimildir

1. Korsgaard J. House-dust mites and asthma: a review on house dust mites as a domestic risk factor for mite asthma. Allergy 1998; 53(Suppl. 48): 77-83.
2. Munir AKM. Mite sensitization in the Scandinavian countries and factors influencing exposure levels. Allergy 1998; 53(Suppl. 48): 64-70.
3. Porsbjerg C, Linstow ML, Nepper-Christensen SC, et al. Allergen sensitization and allergen exposure in Greenlander Inuits residing in Denmark and Greenland. Respir Med 2002; 96: 736-55.
4. Mehl R. Occurrence of mites in Norway and the rest of Scandinavia. Allergy 1998; 53(Suppl. 48): 28-35.
5. Gíslason D, Björnsson E, Gíslason Þ, et al. Sensitization to airborne and food allergens in Reykjavik (Iceland) and Uppsala (Sweden) ? A comparative study. Allergy 1999; 54: 1160-7.
6. Hallas TE, Gislason D, Björnsdottir US, et al. Sensitization to house dust mites in Reykjavik, Iceland, in the absence of domestic exposure to mites. Allergy 2004; 59: 515-9.
7. Zock J-P, Heinrich J, Jarvis D, et al. Distribution and determinants of house dust mite allergens in Europe: The European Community Respiratory Health Survey II. J Allergy Clin Immunol 2006; 118: 682-90.
8. Aðalsteinsdóttir B, Sigurðardóttir ST, Gíslason Þ, Kristensen B, Gíslason D. What characterizes house dust mite sensitive individuals in a house dust mite free community in Reykjavik, Iceland? Allergol Int 2007; 56: 51-6.
9. Hallas TE. Mites of stored hay in Iceland. J Agr Res Icel 1981; 13: 61-7.
10. Hughes M. Mites of stored food and houses. HMSO (London), 1976
11. Proctor H; Owens I. 2000. Mites and birds: Diversity, parasitism and coevolution. TREE (Elsevier) 2000; 15: 358-64.
12. Schram-Bijkerk D, Doekes G, Boeve M, et al. Nonlinear relations between house dust mite allergen levels and mite sensitization in farm and nonfarm children. Allergy 2006; 61: 640-7.
13. Luczynska CM, Griffin P, Davies RJ, Topping MD. Prevalence of specific IgE to storage mites (A. siro, L. destructor and T. longior) in an urban population and cross-reactivity with house dust mite Dermatophagoides pteronyssinus. Clin Exp Allergy 1990; 20: 403-6.
14. Sidenius KE, Hallas TE, Poulsen LK, Mosbech H. Allergen cross-reactivity between house-dust mites and other invertebrates. Allergy 2001; 56: 723-33.
15. Gíslason D, Gravesen S, Ásmundsson T, Magnússon V. Bráðaofnæmi í tveimur landbúnaðarhéruðum á Íslandi. I. Tíðni bráðaofnæmis og helstu ofnæmisvaldar. Læknablaðið 1988; 74: 303-8.
16. Kasuga S, Amano H. Influence of temperature on the life history parameters of Tyrophagus similis Volgin (Acari: Acaridae). Appl Entomol Zool 2000; 35: 237-44.
17. Hallas TE, Guðleifsson BE. Life cycles of Penthaleus major (Dugés)(Acari, Prostigmata) in hayfields in northern Iceland. Icel Agric Sci 2004; 16-17: 39-44.

 

Barst: 2. ágúst 2008, - samþykkt til birtingar: 13. október 2008.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica