10. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Virkir læknar eða óvirkir . . . Elínborg Bárðardóttir

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort læknar séu nógu virkir í þjóðfélagsumræðunni. Læknar eru í þeirri stöðu að þekkja og standa mjög nálægt almenningi í landinu, eru ekki aðeins fagmenn sem greina og meðhöndla einkenni og sjúkdóma, heldur sífellt að hlusta á og reyna að styðja sjúklinga sína í lífsins ólgusjó.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort læknar séu nógu virkir í þjóðfélagsumræðunni. Læknar eru í þeirri stöðu að þekkja og standa mjög nálægt almenningi í landinu, eru ekki aðeins fagmenn sem greina og meðhöndla einkenni og sjúkdóma, heldur sífellt að hlusta á og reyna að styðja sjúklinga sína í lífsins ólgusjó.

Á Íslandi er öflugt heilbrigðiskerfi og gott almennt heilbrigði en það er þó ekki endilega gefið að umhverfi okkar stuðli að heilbrigði. Gott samfélag og umhverfi eru þó ein af nauðsynlegum forsendum heilbrigðis sem allir eiga rétt á.

Félag íslenskra heimilislækna (FÍH) mótaði fjölskyldustefnu FÍH á ári fjölskyldunnar 1994. Þar var lögð áhersla á þætti sem skipta höfuðmáli fyrir þarfir fjölskyldunnar, svo sem atvinnu, húsnæði, tíma til samveru, skóla og frístundastarf, kost á ódýrri heilbrigðisþjónustu, nám og loks var fjallað um áfengi og vímuefni. 14 árum síðar stendur fjölskyldustefna FÍH enn fyrir sínu þó margt hafi reyndar áunnist og batnað. Má þar nefna skólana og einsetningu þeirra, sem og lánamöguleika til húsnæðiskaupa sem verða þó í ljósi efnahagsþróunar síðustu mánaða að teljast í algjörri óvissu. Önnur vandamál hafa hins vegar orðið meira áberandi og er fíkniefnaneysla og sú firring sem henni fylgir nærtækasta dæmið. Það er sárt að horfa á ungt fólk sóa lífi sínu í neyslu og það á Íslandi í dag þegar möguleikarnir virðast óendanlegir eins og Ólympíusilfrið í handbolta er gott dæmi um.

Það er ekki að furða að maður velti fyrir sér hvað hafi farið úrskeiðis. Höfum við kannski sýnt of mikið umburðarlyndi? Verið of rög við að segja að nú sé nóg komið af frjálsræðinu til vitleysunnar? Frjálsræði sem leitt hefur til agaleysis, frelsi sem er ekki frelsi heldur bara stjórnleysi sem leiðir til taumleysis og óheilbrigðis.

Vanlíðan barna og unglinga helst gjarnan í hendur við vanlíðan foreldra og er oft við ramman reip að draga og margt sem veldur. Það sem upp úr stendur er þó mikilvægi þess að hlúa að börnum og stuðla að tilfinningalegri og andlegri vellíðan þeirra. Ég tel það eitt mikilvægasta verkefni foreldra dagsins í dag og samfélagsins í heild og þar verða allir að leggjast á eitt. Því miður ganga fyrirtæki á borð við áfengisframleiðendur fram í vitleysunni og ágirndinni og keppast við að auglýsa bjór (sem léttöl auðvitað) og neyslu hans sem eðlilegan hlut í daglegu lífi þjóðarinnar. Allt leyft og gert í nafni frjálsrar samkeppni og réttarins til að selja vöru sína þrátt fyrir að vera víðs fjarri sannleikanum um hollustu og heilbrigði. Það má einnig segja að framleiðendur skyndibita og sætinda séu undir sömu sök seldir þegar þeir auglýsa vöru sína í upphafi barnatíma og ýta þannig undir ofeldi og offitu barna.

Fyrir utan áfengis- og vímuefnavarnir eru tó- baksvarnir stórmál fyrir heilsufar þjóðarinnar og er mjög ánægjulegt að sjá þann árangur sem reykingabann hefur greinilega borið og með ólíkindum að heyra ennþá raddir sem í nafni frjálsræðis vilja ekki takmarka reykingar.

Að lokum langar mig að minnast á umræðuna um hvort leyfa eigi nektarstöðum að sýna nektardans. Nektarstaðir sem gera út á nekt fólks geta ekki talist til heilbrigðs umhverfis enda þekkt að slíkum stöðum fylgir gjarnan mannfyrirlitning og ofbeldi, vímuefnaneysla, mansal og vændi með tilheyrandi heilsuvanda. Lögum sem samþykkt voru á alþingi vorið 2007 var ætlað að koma í veg fyrir að gert væri út á nekt fólks. Með undanþáguákvæðum laganna virðist sveitafélögum hins vegar ekki stætt á að hafna slíkri starfsemi. Nekt er og verður þannig gerð að söluvöru og tilraunir til að sporna við slíkri starfsemi og þar með neikvæðum heilsufarslegum og siðferðilegum afleiðingum hennar virðast vera að renna út í sandinn. Mér finnst það miður enda tel ég það býsna mikilvægt að hlúa að og stuðla að heilbrigði, mannvirðingu og fjölskylduvænum gildum og engin ástæða til að láta glepjast af gróðasjónarmiðum og misskildu frjálslyndi í þeim efnum. Gott siðferði helst nefnilega í hendur við heilbrigði og mannvirðing og tækifæri til að þroskast á eðlilegan hátt er hluti af heilbrigði manna.

Ekki ætti heldur að vanmeta þau áhrif sem hægt er að hafa á börn og unglinga og fjölskylduna og þar með vaxtarskilyrði þeirra með því að halda á lofti áfengi og tóbaki eða skemmtistöðum sem gera út á nekt fólks. Allar tilraunir í þá átt grafa undan einu mikilvægasta verkefni okkar í samfélagi dagsins í dag sem er að stuðla að heilbrigði og vellíðan barna og fjölskyldna þeirra. Þess vegna varða þessi mál alla og sérstaklega lækna og við læknar ættum að mótmæla of miklu frjálsræði í meðförum á tóbaki, áfengi og öðrum vímuefnum og mótmæla nektarstöðum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica