09. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Lækningaminjasafn á Seltjarnarnesi. Varðveisla og miðlun. Viðtal við Önnu Þorbjörgu Þorgrímsdóttur

Aðspurð um safnaeignina segir Anna Þorbjörg að hún sé svo nýkomin til starfa að hún hafi ekki enn haft tækifæri til að skoða munina sem eru í eigu safnsins. „Þetta hefur allt verið í læstri geymslu á vegum Þjóðminjasafnsins en meginuppistaðan að safnaeigninni er safn Jóns Steffensen sem hann gaf Læknafélagi Íslands á sínum tíma. Mitt fyrsta verk verður því að kynna mér safnaeignina og öðlast yfirsýn yfir hana.“

Gera má ráð fyrir að á næstu mánuðum komist skriður á framkvæmdir við byggingu Lækningaminjasafns í túnfæti Nesstofu á Seltjarnarnesi en nú eru tíu ár síðan efnt var til samkeppni um teikningu að nýju safnahúsi og verður í meginatriðum byggt eftir upprunalegu verðlaunatillögunni. Höfundar hennar eru Yrki arkitektastofa ehf. og hefur að sögn Önnu Þorbjargar verið aukið verulega við geymslurými safnsins í kjallara en útlit hússins og skipulag jarðhæðar verða hin sömu.

Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir, safnstjóri Lækningaminjasafns, með Nesstofu í baksýn og framtíðarstað Lækningaminjasafnsins þar hægra megin.

Anna Þorbjörg segir að safninu sé ætlað að bera ábyrgð á vörslu lækningaminja í landinu og það feli í sér samstarf og samvinnu við fjölmarga aðila. „Þar má nefna félög og starfsgreinar innan heilbrigðisgeirans, söfn um allt land sem geyma minjar er snerta þessa sögu og það er rétt að taka skýrt fram að Lækningaminjasafninu er ekki ætlað að varðveita hér á Seltjarnarnesi alla hluti er tengjast heilbrigðissögu þjóðarinnar. Margt af þeim gripum er vel varðveitt í söfnum nú þegar víða um landið. Lækningaminjasafnið ber hinsvegar ábyrgð á því að þessir munir séu varðveittir og sögunni haldið til haga. Það má segja að þetta sé hin opinbera safnastefna því fleiri sérsöfn, eins og til dæmis Hönnunarsafnið í Garðabæ og Flugminjasafnið á Akureyri, gegna sams konar ábyrgðar- og varðveisluhlutverki án þess að allir munir séu dregnir á einn stað. Lykilhugtakið er samvinna á milli safna og allra þeirra sem koma að varðveislunni.“

„Ég sé fyrir mér að safninu hér á Seltjarnarnesi verði skipt á milli Nesstofu og Lækningaminjasafnsins í nýja húsinu. Í Nesstofu verði áherslan á sögu lækninga og hin nánu tengsl á milli sögu lækninga í landinu og íbúaþróunar. Það má ekki gleyma því að Nesstofa var í þjóðbraut þegar farið var á milli Bessastaðastofu, Nesstofu, Kvosarinnar og Viðeyjarstofu á bátum fremur en ökutækjum. Breytingarnar sem verða á samgöngum, búsetuþróun, heilbrigði og stjórnarfari haldast þétt í hendur við lækningasöguna og stundum er erfitt að segja hver hefur leitt hvern. Í nýju byggingunni verði hreyfanlegri sýningar og meira tekið á afmörkuðum sögulegum þáttum. Nefna má sögu bólusetninga, þróun hjálpartækja, meðferð aldraðra og ýmislegt annað þar sem rakin er sagan frá upphafi eins og við þekkjum hana og fram til dagsins í dag. Hvað segir þetta um okkar samfélag og þróun þess? Hvernig var til dæmis búið að geðsjúkum fyrir 200 árum og hvernig er það í dag? Vissulega getur maður séð fyrir sér að með slíkum sýningum megi vekja máls á umræðu um ákveðin mál en þar verður samt að stíga mjög varlega til jarðar því höfuðskylda safns er að gæta hlutleysis þótt afhjúpa megi sögulegar staðreyndir. Söfn eiga ekki að reka áróður heldur eru þau fræðistofnanir þar sem almenningur á að geta treyst á hlutlægni og hlutleysi.“

Í nýja safnahúsinu er einnig gert ráð fyrir fundarsal þar sem ýmsir möguleikar bjóðast. „Það er hægt að hugsa sér að halda málþing um ýmis málefni, bjóða upp á menningarviðburði í tengslum við sýningar safnsins og jafnvel setja upp smærri sýningar til hliðar við aðalsýningu þegar það hentar.“

Anna Þorbjörg segir að vissulega kalli aukin starfsemi á aukið fjármagn en til hvers að reka lifandi safn ef þar er ekkert líf?

„Nútímasafn kallar á samstarf margra aðila og lifandi lækningaminjasafn hlýtur að höfða til margra aðila sem starfa á vettvangi heilbrigðis- og lækninga. Læknafélag Íslands og Þjóðminjasafnið eru augljósir samstarfsaðilar en einnig má nefna Háskóla Íslands, Lýðheilsustöð og fleiri sem sæju hag af því að efna til samstarfs um sýningar, kynningar og umræðna um mál er að þeim snúa. Markmið Seltjarnarnesbæjar er að hér verði rekið lifandi safn og það fellur algerlega að markmiðum Læknafélags Íslands. Þetta á að verða ákveðin miðstöð en auðvitað setja peningar hugmyndafluginu ákveðin takmörk í umfangi starfseminnar.“

Ekki er búið að ákveða hversu margir starfsmenn verða við safnið en Anna Þorbjörg segir að þetta verði ekki einsmannsstofnun en heldur ekki „risastofnun“. „Einhverjir fastir starfsmenn verða hér auk mín en ég sé frekar fyrir mér að fræðimenn og sérfræðingar komi til starfa hér tímabundið við ákveðin verkefni.“

Anna Þorbjörg hefur ákveðnar skoðanir á hlutverki safna og gerir skýran greinarmun á safni og sýningu. „Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir í hverju þessu munur felst. Safn er fræða- og varðveislustofnun þar sem stór hluti starfseminnar er ekki sýnilegur. Sýningarhald er einungis hluti af starfi safns. Þar eru rannsakaðar, skráðar og varðveittar minjar eftir mjög skýrri og viðurkenndri fræðilegri aðferðafræði. Munurinn á safni og sýningu er svipaður og hómópata og lækni þar sem að baki hinni sýnilegu starfsemi er allt önnur og meiri þekking. Á síðustu 100-200 árum hafa söfn lent í samkeppni sem afþreyingarmáti við alls kyns fyrirbæri eins og skemmtigarða og vaxmyndasöfn svo eitthvað sé nefnt. Það er því ekkert nýtt. Hér á Íslandi hefur hins vegar orðið ákveðin þróun á síðustu 10 árum eða svo þar sem menningartengd ferðaþjónusta hefur blandast saman við starfsemi safna og orðið til þess að rugla marga í ríminu og kannski ekki síst opinbera aðila þar sem verulegir fjármunir hafa verið settir í menningartengda ferðaþjónustu undir fjárlagaliðunum minjavarsla. Þar er því verið að setja peninga í starfsemi sem á meira skylt við skemmtigarða en raunverulega fræðilega minjavörslu. Ég vil þó taka skýrt fram að ég hef ekkert á móti menningartengdri ferðaþjónustu sem slíkri en henni má ekki rugla saman við fræðilega minjavörslu, enda er menningartengd ferðaþjónusta oftar en ekki byggð á þjóðsögum og munnmælum, eða þemum úr tilteknum Íslendingasögum. Allt er þetta góðra gjalda vert en á lítið skylt við fræðilegt safnastarf og raunverulega minjavörslu.“

Samkeppni er hluti af nútímaumhverfi safns og Anna Þorbjörg tiltekur nokkur atriði. „Við erum í samkeppni við fjölmarga aðila um athygli almennings. Við erum í samkeppni um fjármagnið og þurfum að hafa æ meira fyrir því að sýna fram á mikilvægi safnastarfseminnar. Við erum einnig í samkeppni um minjarnar við ýmsa aðila sem sjá sér hag í því að hampa þeim á eigin forsendum án þess að huga að sögunni eða varðveislunni. Safna-starf reiðir sig mjög á framtak einstaklinga og Jón Steffensen er frábært dæmi um einstakling sem gerði sér grein fyrir mikilvægi þess að varðveita minjar um íslenska lækningasögu. Þetta safn væri lítils virði án hans þrotlausu vinnu. Einstaklingar sem hafa áhuga á söfnun geta verið gríðarlega duglegir og unnið ómetanlegt gagn en um leið þurfa þeir að gera sér grein fyrir að ákveðnir hlutir eru þjóðminjar og eiga ekki að ganga kaupum og sölum að ekki sé talað um að hverfa úr landi.“

Framundan eru spennandi tímar hjá Lækningaminjasafninu. „Við þurfum að gera okkur skýra grein fyrir því hvernig við viljum standa að varðveislunni og hvernig við viljum sinna minjavörslunni héðan í frá. Söfnun lækningaminja undanfarin ár hefur ekki verið markviss og við þurfum að skoða hvernig við getum fyllt það skarð. Ég held þó ekki að við séum að missa af neinu ennþá varðandi sögu síðustu áratuga en óhefðbundnar lækningar og alþýðulækningar eru hverfulli fyrirbæri en engu að síður mikilvæg og þar þurfum að við gæta að því að minjar um slíkt renni okkur ekki úr greipum. Alþýðulækningarnar eru mikilvægur hluti af lækningasögu okkar og gefa oft skýra vísbendingu um hvar gloppur eru í hinu opinbera heilbrigðiskerfi.“

Anna Þorbjörg nefnir einnig að mikilvægt sé að halda á lofti sérkennum íslenskrar læknisfræði. „Hlutverk lækningaminjasafns á Íslandi er að sýna hvað er einstakt eða sérstakt við íslenskar lækningar. Þróunin í tækjabúnaði er mjög hröð og við þurfum að ákveða hvað við viljum varðveita og hvernig því engin leið er að geyma öll tæki sem úreldast á nútímasjúkrahúsi. Það er kannski ekki ástæða til þess heldur. Við gætum hins vegar ákveðið að varðveita allt sem tengdist ákveðinni grein lækninga. Möguleikarnir eru sannarlega margir. Það gerir þetta svo spennandi.“

tannlfknast

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fótstiginn tannlæknabor.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica