09. tbl. 94. árg. 2008
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Tóbakslaust Ísland á 15 árum. Kristján G. Guðmundsson
Talið er að um 300 einstaklingar deyi árlega ótímabærum dauða á Íslandi vegna reykinga. Reykingar eru þannig einn mesti bölvaldur í menningu samtímans, bölvaldur sem tóbaksiðnaðurinn heldur stöðugt lifandi með markaðssetningu sinni. Sala þess er réttlætt með misnotkun á frelsishugtakinu. Þó er öllum ljóst að sala ávanaefnis eins og tóbaks hefur ekkert með frelsi að gera. Á seinustu árum hefur mikið verið rætt um viðskiptasiðgæði. Stóru tóbaksframleiðendurnir eru almennt talin vera fyrirlitlegustu fyrirtæki samtímans. Þau lugu til um skaðsemi tóbaks í áratugi. Nú beina þau markaðs-setningu að ungmennum og fátæku fólki í þróunarlöndum. Þau bera ábyrgð á dauða tuga milljóna manna á seinustu öld, og faraldurinn mun kosta hundruð milljóna mannslífa á þessari. Það er nánast ekkert í samtímanum sem er eins svívirðilegt og markaðssetning og blekkingar þessa iðnaðar.
Við viljum helst ekki kaupa vörur nema þær séu vistvænar. Við kaupum helst ekki vörur sem eru framleiddar af aðilum sem sinna ekki lágmarks aðbúnaði starfsfólks. Hver væri ábyrgð dekkjasala sem seldi ónýt bíldekk sem yllu slysum? Slíkur söluaðili væri útilokaður þegar í stað af markaði.
En hvað með ábyrgð fyrirtækja og einstaklinga á Íslandi, á sölu og dreifingu þessa ávanaefnis? Væri ástæða til að birta lista yfir hvaða innflytjendur flytja inn tóbak og hvaða verslunarfyrirtæki á Íslandi hagnast á smásölu tóbaks, þannig að ábyrgir neytendur gætu beint viðskiptum sínum annað?
Fækkun bráðra hjartaþræðinga á Íslandi eftir bann við reykingum á veitingahúsum sýnir svo ekki verður um villst að verulegs ávinnings má vænta af aðgerðum til að draga úr tóbaksnotkun.
Undirritaður leggur til að mörkuð sé stefna í tóbaksvörnum, þannig að landið verði nánast tóbakslaust á 15 árum.
Til að ná slíku fram þarf samstillt átak fjölmargra aðila, svo sem stéttarfélaga, félagasamtaka sjúklinga, félaga um lýðheilsu, sveitarfélaga, stjórnmálaflokka, og ekki síst Alþingis með djarfri og skynsamlegri lagasetningu.
Hver ættu næstu skref í baráttunni við tóbaksfaraldurinn að vera?
Aðgerðum til að kveða niður þennan faraldur mætti skipta í þrennt.
Í fyrsta lagi að fækka þeim sem hefja reykingar, öðru lagi að aðstoða reykingafólk sem er orðið veikt af tóbakssjúkdómum, og í þriðja lagi aðstoða þá sem reykja og eru ekki komnir með tóbakssjúkdóma.
Fræðsla um afleiðingar tóbaksnotkunar er hornsteinn tóbaksvarna, en sú fræðsla nær ekki til allra og fræðsla dugar ekki ein til að hafa endanlega áhrif á tóbaksnotkun, frekar en fræðsla dugar til að stöðva notkun annarra fíkniefna.
Nauðsynlegt er að draga úr aðgengi ungmenna að tóbaki, með því að hækka leyfilegan aldur til að kaupa tóbak, til dæmis í 20 ár eins og gildir um áfengi. Tryggja þarf að aldursákvæðum við sölu á tóbaki sé fylgt, en á því er verulegur misbrestur. Eðlilegt væri að fækka útsölustöðum í áföngum, hætta sölu í matvörubúðum og bensínstöðvum strax og takmarka sölu við sjoppur. Síðar yrði útsölustöðum fækkað markvist, til dæmis á fimm árum. Að þeim tíma liðnum yrði tóbak eingöngu selt í tóbaksverslunum. Tryggja þarf án undantekninga að þeir sem eru yngri en tvítugir vinni ekki þar sem tóbak er selt.
Hækkun á útsöluverði tóbaks um 25 til 50% myndi þýða verulega minnkaða neyslu. Samkvæmt gögnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO, þýðir 10% hækkun verðs á tóbaki 4% minnkun á neyslu tóbaks.
Meðferð til að hætta reykingum þarf að vera sýnilegri, aðgengilegri, markvissari og ódýrari. Tóbaksmeðferð þarf að gera aðgengilegri í heilbrigðisþjónustu, bæði á Landspítala og á heilsugæslustöðvum. Komið yrði á meðferðarsviði á Landspítalanum með göngudeild, þar sem veitt yrði þverfagleg þjónusta við reykingafólk. Þar væri einnig möguleiki á innlögnum til að hætta reykingum. Deildin væri miðstöð rannsókna á tóbaksfaraldrinum. Hún tengdist grunnkennslu heilbrigðisstarfsfólks með prófessorsembætti við Háskólann. Sérstök reykleysismeðferð yrði í boði á heilsugæslustöðvum, þar sem heilsugæsluhjúkrunarfræðingar og heimilislæknar veittu bætta og sérhæfða þjónustu fyrir þá sem vilja hætta reykingum. Greiða þyrfti niður lyf sem notuð eru til að hætta reykingum.
Tóbaksvarnarþing yrði haldið annað hvert ár þar sem félagasamtök, áhugafólk um tóbaksvarnir og þeir sem vinna við rannsóknir og meðferð tóbakssjúklinga, ásamt stjórnvöldum, stilltu saman strengi sína.
Óhjákvæmilegt er að þessum áformum yrði fylgt úr hlaði með lagasetningum og í þeim er fólginn töluverður kostnaður. Höfum til fyrirmyndar baráttuna við aðra faraldra sem þjóðin hefur hrist af sér, svo sem sullaveiki og berkla. Með samstilltu átaki væri mögulegt að gera þjóðina tóbakslausa á 15 árum. Sem þýddi bætta heilsu, færri innlagnir á sjúkrahús, aukna vinnufærni, ásamt auknum lífsgæðum. Þess utan yrði hundruðum ótímabærra dauðsfalla afstýrt. Þessu fylgdi fjárhagslegur ávinningur samfélagsins alls sem metinn er á tugi milljarða árlega.