06. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Aldrei verið efast um tilgang eða heilindi Krabbameinsfélagsins. Viðtal við Sigurð Björnsson

Sigurður BjörnssonÞað er óhætt að segja að Sigurður Björnsson hafi verið vakinn og sofinn í baráttu sinni gegn krabbameinum allt frá því hann ungur maður ákvað að leggja lyflækningar krabbameina fyrir sig. "Ég fór til Bandaríkjanna í sérnám í lyflækningum árið 1971 og komst fljótlega að því að ýmislegt nýtt var að gerast í meðferð krabbameina. Ég ákvað því að leggja þetta fyrir mig. Ég kom heim 1978 og var þá fyrsti sérfræðilæknirinn með þessa undirgrein innan lyflækninga."

Tilefni samtals okkar Sigurðar eru þau tímamót að hann lét í vor af formennsku Krabbameinsfélags Íslands eftir áratug á þeim stóli en hann hefur setið í stjórn félagsins óslitið frá árinu 1981. Við formennskunni hefur tekið Sigríður Snæbjörnsdóttir.

Sigurður segir Krabbameinsfélagið hafa skipt sköpum í baráttunni gegn krabbameinum með fræðslu, forvörnum,vísindastarfi og leitaraðgerðum og hafa haft gríðarleg áhrif á meðvitund og skilning Íslendinga á þessum margbrotnu og skæðu sjúkdómum.

"Þegar Krabbameinsfélagið var stofnað árið 1951 var magakrabbamein eitt algengasta krabbameinið meðal Íslendinga. Það átti sér sínar skýringar í mataræði þjóðarinnar sem um aldir hafði borðað saltaðan, reyktan, súran, úldinn og myglaðan mat. Einn af aðalhvatamönnunum að stofnun félagsins, Níels Dungal, áttaði sig á samhenginu þarna á milli og nú er svo komið að nýgengi þessa krabbameins hefur lækkað verulega; neysluvenjur þjóðarinnar hafa gerbreyst og nú er slíkur matur ekki lengur daglega á borðum landsmanna."

Mikill árangur af starfi Krabbameinsfélagsins

"Krabbameinsfélag Íslands eru eins konar regnhlífarsamtök yfir einum 30 aðildarfélögum í landinu en í upphafi voru þau þrjú. Starfið felst annars vegar í fræðslu og forvörnum en hins vegar í rannsóknum og umfangsmikilli leit að krabbameinum í brjósti og leghálsi hjá konum á Íslandi. Skipuleg leit að leghálskrabbameini hófst hjá Krabbameinsfélaginu árið 1964 og árið 1987 hófst skipuleg leit að brjóstakrabbameini með myndatöku. Leitarstarfsemi Krabbameinsfélagsins hefur skilað gríðarlega góðum árangri enda skiptir öllu máli að greina krabbamein á byrjunarstigum þess. Krabbameinsfélögin hafa einnig stundað markvisst starf í baráttunni gegn reykingum og eiga stóran þátt í hversu mjög hefur dregið úr reykingum meðal þjóðarinnar á undanförnum árum."

Með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar sem í dag státar af einum lengsta lífaldri beggja kynja í heiminum er ljóst að Krabbameinsfélagið hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar og það ekki lítið. ?Krabbamein er sjúkdómur efri áranna og því er ekki skrýtið að það sé í mörgum tilfellum dánarmein aldraðra Íslendinga. Krabbameinsleit og forvarnir gegn því snúast um að koma í veg fyrir ótímabæran dauða af völdum krabbameina og að upplýsa fólkið í landinu um gildi forvarna og heilsusamlegt líferni. Þar skiptir mestu máli að hættan af reykingum sé öllum ljós svo og óhóf af öðru tagi hvort sem er í mataræði eða áfengisneyslu. Krabbameinsfélagið hefur notið mikils velvilja og meðbyrs meðal þjóðarinnar allt frá upphafi og aldrei hefur verið efast um tilgang þess eða heilindi í því starfi sem fer fram á vegum þess.

Margir geta þó í dag lifað góðu lífi eftir að hafa greinst með krabbamein og ég er ekki hlynntur því að skilgreina fólk sem hefur náð bata af krabbameini sem krabbameinsjúklinga. Ekki frekar en að sá sem hefur fótbrotnað er ekki kallaður fótbrotssjúklingur uppfrá því. Eitt algengasta krabbameinið meðal karla er blöðruhálskirtilskrabbamein og það kemur yfirleitt ekki fram fyrr en eftir sextugt. Greining á þessu krabbameini er vandmeðfarin þar sem margir geta lifað góðu lífi með þessa greiningu og oft getur verið álitamál hvort hefja eigi meðferð gegn því þar sem sjúkdómurinn fer sér iðulega hægt og truflar ekki lífsgæði einstaklingsins. Þetta verður þó að meta í hverju tilfelli fyrir sig.

Á næstunni mun hefjast umfangsmikil leit að krabbameini í ristli og endaþarmi á Íslandi.

Aðalhvatamaðurinn er hugsjónamaður í hópi meltingarlækna, Ásgeir Theodórs, sem hefur barist fyrir að koma slíkri leit á allan sinn starfsferil. Þetta er krabbamein sem auðvelt er að lækna eða halda í skefjum ef greining á sér stað nógu snemma en leitin reiðir sig á samstarf við fólkið í landinu þar sem þeir sem taka þátt þurfa að skila inn saursýni. Eitt af einkennum ristilkrabbameins er blóð í hægðum. Þetta er kannski ekki það allra geðslegasta sem fólk gerir en mjög mikilvægt engu að síður.

Víða um heim eru heilbrigðisyfirvöld að velta fyrir sér hvort hefja eigi bólusetningu ungra stúlkna gegn HPV vírus sem er einn helsti valdur að leghálskrabbameini. "HPV vörtuvírusinn smit- ast við kynmök og því þarf að bólusetja stúlkur áður en þær verða virkar í kynlífi. Talað er um að heppilegasti aldurinn sé 10-12 ára. Þetta er mjög öflug vörn gegn leghálskrabbameini síðar á ævinni en víða hefur umræðan snúist um siðfræðilegar hliðar málsins eins og hvort bólusetning leiði til þess að stúlkur verði kærulausari í kynlífi. Mikilvægt er að koma því til skila að bólusetning er hvorki getnaðarvörn né vörn gegn öðrum kynsjúkdómum."

Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins var stofnuð árið 1954 og er í dag nákvæmasta heimild um tíðni og tegundir krabbameina sem herjað hafa á þjóðina í nær 60 ár. "Þarna eru skráð öll tilfelli krabbameina sem fundist hafa ásamt ítarlegum upplýsingum um hvern og einn sjúkling, og því er skráin ekki aðeins merk heimild um þróun krabbameina meðal þjóðarinnar á þessum tíma heldur ómetanlegt vísindatæki við allar rannsóknir á krabbameinum meðal Íslendinga frá því um miðja síðustu öld," segir Sigurður. Hann bætir því við að mikilvægt sé að skráin sé í höndum aðila eins og Krabbameinsfélagsins, sjálfstæðrar stofnunar sem ekki heyrir undir opinber stjórnvöld en unnin í samvinnu við landlækni sem er ábyrgðarmaður skrárinnar. "Ég tel mjög mikilvægt að svo verði áfram og að gengið sé um þær upplýsingar sem þarna eru geymdar af virðingu, góðri siðfræði og vísindalegri nákvæmni."

 

Alltaf hægt að gera eitthvað

Eflaust er á engan hallað þó sagt sé að Sigurður Björnsson sé einn þekktasti krabbameinslæknir þjóðarinnar. Hann hefur helgað sig þessu starfi og þó hann vilji ekki taka undir orðið köllun, segir það hafa alltof hátíðleg og jafnvel trúarleg tengsl, þá er jafnljóst að læknisstarfið hefur mótað líf hans að flestu leyti.

"Ég hef ávallt unnið langan vinnudag og lagt á það áherslu að sjúklingar mínir geti náð til mín hvenær sem er. Ég hef ekki lagt fyrir mig tómstundaiðju sem tekur tíma frá starfinu og það er ekki tilviljun að ég valdi mér Krabbameinsfélagið sem vettvang utan vinnunnar. Starf mitt með Krabbameinsfélaginu hefur aldrei gengið á vinnutíma minn á sjúkrahúsunum og stjórnarfundir félagsins hafa alltaf verið haldnir utan vinnutíma af þeirri ástæðu. Mun fremur hefur það bitnað á fjölskyldu minni en á móti kemur að starfið hefur verið ákaflega gefandi og ég hef kynnst mjög góðu og kraftmiklu fólki hvaðanæva af landinu og sé ekki eftir neinu í því sambandi. Þá hefur samstarfið við starfsfólk Krabbameinsfélagsins verið einstakt enda þar valinn maður í hverju rúmi."

Næmi Sigurðar á tilfinningalegt ástand sjúklinga sinna er alþekkt og margir hafa kosið að halda sambandi við hann löngu eftir að bata er náð eða eftir að reglubundnu eftirliti er lokið. "Samskipti við sjúklinga og aðstandendur þeirra hafa gefið mér mikið, sem hljómar kannski einkennilega því oft eru aðstæður þannig að mikil sorg og mikil depurð ríkir vegna veikinda ástvina. Það sem skiptir máli er að fólkinu líði betur eftir samtal við lækninn þrátt fyrir að iðulega séu vandamálin yfirþyrmandi og skuggarnir langir."

Hér áður fyrr voru fá ráð til reiðu þegar krabbamein greindist og læknar kusu frekar að segja ekkert eða jafnvel ósatt fremur en þurfa að skýra frá staðreyndum. Í dag horfir þetta öðruvísi við og í mínum huga er alltaf hægt að gera eitthvað, það er alltaf hægt að bregðast við og finna einhverja leið til að lina sársauka bæði sjúklings og aðstandenda, jafnvel þótt ekki sé lengur von um lækningu. Mikilvægast af öllu er að segja sannleikann og veita fólki ekki falskar vonir. Þróunin í krabbameinslækningum hefur verið mjög mikil á undanförnum áratugum og margar leiðir færar í meðferð. Unnt er að kenna læknum ákveðin grundvallaratriði í samskiptum við skjólstæðinga sína en þeir verða að læra að halda sjálfum sér utan við aðstæðurnar, annars er hætta á að þeir brenni upp í starfinu. Ég hef séð dæmi um það.

Sigurður Björnsson talar af yfirvegun og reynslan skín úr hverjum drætti andlits hans. Hann kveðst ekki hafa orðið trúaður af starfi sínu og ábyrgð hans sem læknis sé honum fullljós. Lækningar í dag eru samstarf margra fagstétta og þar leggja allir sig fram af fremsta megni. Á endanum er það hins vegar læknirinn sem ber ábyrgð í því sem gert er og undan henni verður ekki vikist. Ég hlaut hefðbundið trúaruppeldi að þeirra tíma sið og móðir mín og ömmur kunnu fjölda sálma og kvæða og sjálfur átti ég auðvelt með að læra ljóð. Líkt og margir aðrir rifja ég oft upp bænirnar og barnatrúna þegar að þrengir og hef iðulega sótt þangað styrk.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica