06. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Framhalds-Saga. Sigurður Einar Sigurðsson

Sigurður E. SigurðssonÍ síðasta tölublaði Læknablaðsins var allmikil umfjöllun um rafræn sjúkraskrárkerfi þar sem undirritaður meðal annarra lagði nokkur orð í belg. Eftir að hafa lesið viðtölin sem birtust þar og umfjöllun annarra fréttamiðla finnst mér sem menn hafi farið vel geyst í yfirlýsingum sínum um hvernig ástandið er og að sumu leyti finnst mér verið að hengja bakara fyrir smið.

Ég vil, til að fyrirbyggja misskilning, taka fram að ég er svo sem enginn einlægur aðdáandi Sögukerfisins og geri mér fullvel grein fyrir þeim ágöllum sem lagfæra þarf og breyta, ef ekki skipta um kerfi þegar fram í sækir. Hins vegar er sumt sem menn virðast telja að sé ágalli á Sögunni sem ekkert kemur í sjálfu sér kerfinu við.

Dæmi um þetta er samtenging milli stofnana, svo sem heilsugæslu og sjúkrahúsa. Það er tæknilega ekkert flókið að tengja saman Sögukerfi á mismunandi stöðum en hins vegar hefur núverandi lagaumhverfi ekki boðið upp á að leyfa þetta með þeim hætti sem flestir myndu kjósa. Vonandi verður þessi þröskuldur að mestu úr sögunni með nýjum lögum um rafrænar sjúkraskrár en þangað til verða menn sennilega að búa við ákveðnar hömlur hvað þetta varðar. Það er þó svo í dag að innan sömu stofnunar er stór hluti upplýsinga eins og sjúkrasaga, aðgerðarlýsingar og fleira frá öllum deildum kominn á einn stað sem ég held að menn hljóti að sjá að sé breyting til batnaðar frá tímum pappírsblaða sem dreifð voru um allt ef þau fundust á annað borð.

Tengingar annarra rafrænna kerfa, svo sem rannsóknarkerfa, myndgreiningarkerfa og fleiri slíkra, við Söguna hafa verið mikill höfuðverkur þar sem bæði eru rafrænu kerfin í notkun fjölmörg og hver skrifuð með sínu lagi ef svo má segja þannig að samræming var alltaf fyrirsjáanlega erfið. Unnið er að því að finna á þessu viðunandi lausn þannig að aðgengi verði tiltölulega einfalt og fljótlegt fyrir hvern sjúkling og þrátt fyrir allt hefur margt áunnist þar. Á mínum vinnustað, Sjúkrahúsinu á Akureyri, hef ég til dæmis aðgang bæði að rannsóknar- og myndgreiningarkerfinu í gegnum Söguna og hef þannig orðið að miklu leyti ágætis yfirsýn yfir helstu atriði sjúkraskrár hvers sjúklings um leið og ég slæ inn kennitölu hans í Sögunni og verð að segja að í samanburði við hvernig aðgengi var að upplýsingum áður þá skilur að himinn og haf.

Aðgangsstýringar hafa líka verið mikið gagnrýndar. Eflaust má finna þar ýmislegt sem betur mætti fara en það verður kannski líka að horfa til þess hversu öflugt tæki rafræn skráning er og kannski að sumu leyti skiljanlegt að menn hafi viljað fara sér hægt, að minnsta kosti til að byrja með. En mín skoðun er sú að í framtíðinni munum við læknar hafa óheftan aðgang að þeim gögnum sem við þurfum á að halda fyrir hvern sjúkling sem við höfum til meðhöndlunar og verða á því fáar eða engar undantekningar. Þetta hefur hins vegar í raun ekkert með sjálfa Söguna að gera því hvaða rafræna sjúkraskrárkerfi sem væri hefði þurft að lúta þessum höftum. Þetta er ákvörðun sem tekin er á hverri stofnun fyrir sig í dag en verður vonandi meira samhæft þegar frá líður.

Í stuttu máli höfum við þó þrátt fyrir allt þokast áfram og ég trúi varla að nokkur vilji snúa aftur til fortíðar með rykföllnum pappírsskrám hér og þar og allsstaðar. Það er sjálfsagt að gagnrýna og krefjast úrbóta en reynslan sýnir að það gengur oftast best ef reynt er að gera á uppbyggilegan hátt fremur en með alhæfingum og gífuryrðum. Við eigum eftir að sjá hraða þróun og miklar breytingar á starfsumhverfi okkar á næstu árum og áratugum, ekki síst í þeim hluta sem snýr að upplýsingatækni, og ef satt skal segja höfum við ágætis forsendur til að standa þar í fremstu röð og við erum ekki langt á eftir öðrum í þessum málum eins og menn vilja vera láta. Það besta sem við gerum er að halda þessari umræðu gangandi á faglegum grunni, marka okkur stefnu sem samtök, frekar en að hrópa hver í sínu horni og gera okkur einnig grein fyrir að breytingar geta einnig krafist þess að við þurfum að aðlaga okkur að nýrri tækni og verklagi. Ef ekki, stöðnum við.

Hins vegar getum við ef haldið er rétt á spilunum orðið fremstir þjóða í að þróa heildræna rafræna sjúkraskrá fyrir alla og þar með betri heilbrigðisþjónustu. Látum það vera vegvísi okkar.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica