05. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Óviðunandi ástand. Um rafræna sjúkraskrá

Umræður og undirbúningur að heildstæðri rafrænni sjúkraskrá hafa staðið árum saman. Skýrslur hafa verið skrifaðar, ráðstefnur haldnar og kerfi hafa verið sett upp en staðan í dag að áliti þeirra lækna sem Læknablaðið hefur rætt við er einfaldlega óviðunandi. "Erum allt að áratug á eftir í þróun þessara mála," segir einn viðmælanda Læknablaðsins. Nýtt frumvarp heilbrigðisráðherra um rafræna sjúkraskrá liggur nú fyrir og má búast við að það verði lagt fram í haust.

Aðgangur og skráning sjúkraupplýsinga um sjúklinga á helstu sjúkrastofnunum landsins er í ólestri. Rafræn kerfi í notkun í eru mörg og aðgangur á milli þeirra þunglamalegur en þó er ekki nema hluti upplýsinga á rafrænu formi því enn eru í mörgum tilfellum færðar skýrslur á pappír. Þetta eykur líkur á því að mikilvægar sjúkraupplýsingar um sjúklinga komist ekki til skila þegar ákvarðanir um meðferð eru teknar.

Rafræn samskipti milli heilsugæslunnar og sjúkrahúsanna eru lítil og aðgangur að sjúkrarskrárupplýsingum á milli þessara tveggja stærstu aðila í heilbrigðiskerfinu er mjög svo takmarkaður. Sjúkraskrárkerfið Saga sem verið hefur í þróun um nokkurra ára skeið hefur alls ekki staðið undir væntingum.

Í umræðu undanfarin misseri um rafræna sjúkraskrá og aðgang að upplýsingum um sjúklinga hefur persónuvernd skipað verðugan sess en að áliti þeirra sem Læknablaðið ræddi við hefur sú umræða tafið framgang málsins og spurt er hvort ekki sé mikilvægast að læknar hafi greiðan aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum þegar á þarf að halda.

Frá því í fyrra hefur nefnd á vegum heilbrigðisráðherra unnið að samningu nýs frumvarps um rafræna sjúkraskrá og var jafnvel búist við að það yrði lagt fram á yfirstandandi þingi. Dögg Pálsdóttir er formaður nefndarinnar og sagði hún í samtali við Læknablaðið að nefndin hefði lokið störfum og skilað af sér frumvarpinu til heilbrigðisráðherra fyrir tveimur vikum. Ólíklegt verður að telja að frumvarpið verið lagt fram í vor þar sem samkvæmt þingsköpum skulu stjórnarfrumvörp lögð fram fyrir 1. apríl. Líklegra verður að telja að frumvarpið verði lagt fram í haust.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica