03. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Minningarorð um Brian S. Worthington

Worthington_optÞann 9. desember sl. lést á heimili sínu nálægt Nottingham í Bretlandi Íslandsvinur og heiðursfélagi í Félagi íslenskra röntgenlækna (FÍR), Brian Worthington, fyrrum yfirlæknir og prófessor við röntgendeild Queens Medical Center og University of Nottingham í Bretlandi, á sjötugasta aldursári. Brian var hress og skemmtilegur maður, vel gefinn, athugull og með leiftrandi augnaráð. Hann var Íslandsvinur og hafði mikinn áhuga á landi og þjóð, sögu þess og menningu. Hans fyrsta ferð til Íslands var í apríl 1980 og var hann þá búinn að bjóða okkur í FÍR að flytja erindi um fyrstu rannsóknir þeirra í Nottingham með segulómun. Eftir það kom hann hingað til lands á hverju ári og oft tvisvar. Hann var með Ísland á heilanum eins og hann sagði gjarnan sjálfur. Hann var oftast með erindi í farangrinum og flutti mörg þeirra hjá FÍR en einnig fyrir lækna á spítölunum næstu árin. Hann var gerður að heiðursfélaga í Félagi íslenskra röntgenlækna 1986. Hann var heiðursgestur og fyrirlesari á hátíð félagsins 1995 þegar haldið var upp á 100 ára afmæli röntgengeislans.

Í ferðum sínum á sumrin ferðaðist hann allt í kringum landið og kynntist landi og þjóð mjög vel. Hann hélt alltaf góðu sambandi við þá röntgenlækna sem hann kynntist í upphafi og kom gjarnan í heimsókn. Stundum var hann einn í ferðum sínum til Íslands en eiginkona hans Margaret var líka oft með. Hann lærði íslensku, sótti um skeið tíma hjá Guðmundi Kristmundssyni í Nottingham og stundaði sjálfsnám. Hann las íslensku, skildi töluvert talað mál og var ófeiminn að taka menn tali hér á landi. Hann var fjölmenntaður maður með nám að baki í ekki einasta læknisfræði heldur einnig eðlisfræði, stærðfræði og fornleifafræði. Tal hans einkenndist af víðsýni, mikilli þekkingu og reynslu, áhuga á því sem aðrir voru að gera og einlægni. Hann setti sér háa staðla í starfi og tók því ekki þegjandi ef út af var brugðið hjá öðrum.

Virtasta framlag hans til læknavísindanna var í tengslum við uppfinningu segulómunar. Brian var virkur þátttakandi í þróun segulómunar sem hófst ekki síst við Nottingham-háskóla þar sem mikið af grunnrannsóknunum fór fram í læknisfræðilegri eðlisfræði á milli 1974 og 1979. Brian kom til skjalanna þegar klínískar rannsóknir hófust fyrir alvöru í apríl 1980. Hann var einn af höfundum fyrstu klínísku greinar sem birt var um segulómun sem sýndi meinsemd í höfði. Þar var megin kostum segulómunar sem myndgreiningartækni í fyrsta skipti lýst. Á næstu tveimur árum birtust samtals átta greinar í American Journal of Neuroradiology sem lögðu grundvöll að því hvernig hægt var að nota þá segulómun og greiningu og koma með því í veg fyrir inngrip sem til þessa höfðu verið nauðsynleg, svo sem vegna æxla í heiladingli, vegna lítilla taugaæxla í miðeyra, vegna æðagúla og æðavanskapnaða innan höfuðsins ásamt því að sýnt var fram á notagildi aðferðarinnar í sambandi við meinsemdir í augntóttum. Þessu fylgdu rannsóknir á segulómun í hjarta- og beinasjúkdómum, þar sem rannsóknahópurinn í Nottingham hafði forystu. Þá sýndi Nottingham-hópurinn fyrst fram á notagildi segulómunar í sambandi við sjúkdóma í legi, svo sem legbolskrabbameini til þess að meta dýpt íferðar inn í legvöðvann. Það sama átti við um leghálskrabbamein og rannsóknir á fylgjustaðsetningu. Brian vann að þessum rannsóknum í samstarfi við Sir Peter Mansfield, sem ásamt Paul Lauterbur fékk Nóbelsverðlaunin 2003 fyrir að finna segulómun klínískt notagildi í læknisfræði.

Brian hélt áfram rannsóknum eftir að hann hætti störfum fyrir rúmum tveimur árum og vann allt fram undir sína hinstu daga. Hann þróaði og skipulagði myndgreiningarþjónustuna í heimaborg sinni Nottingham og hafði mikil áhrif innan Bretlands og víðar í tengslum við slíkt skipulag. Hann sinnti jafnframt kennslu og var kallaður til ráðuneytis innan- og utanlands, þar á meðal á Íslandi. Samtals átti Brian einn og með öðrum þátt í um 400 vísindagreinum, bókum og bókarköflum og hélt yfir 300 fyrirlestra í heimalandi sínu og alþjóðlega, m.a. á föstudagsfundi Landspítalans fyrir um 15 árum. Hann var gerður heiðursfélagi í FÍR árið 1986. Hann var heiðursfélagi í Félagi finnskra röntgenlækna. Brian var gerður að "Fellow of the Royal Society" sem er sjaldgæfur heiður. Hann var þar í hópi með nöfnum eins og Sir Isaac Newton og Albert Einstein og fyrsti röntgenlæknirinn til að hljóta þessa viðurkenningu. Hann hlaut gullpening Royal College of Radiologists (RCR) og International Society for Magnetic Resonance in Medicine (ISMRM) fyrir störf sín. Árið 2004 var hann gerður heiðursfélagi hjá Radiological Society of North America (RSNA) í Bandaríkjunum. Margar fleiri viðurkenningar hlaut hann fyrir vísinda- og fræðslustörf sín í myndgreiningu frá mörgum stofnunum og félagasamtökum.

Brian náði allgóðum tökum á íslensku miðað við það að hann hafði lítil tækifæri nema í stuttum árlegum Íslandsheimsóknum til að æfa sig. Hann sagði þá sögu að hann fór eitt sinn í bókabúð Máls og Menningar og bað um barnabækur til að æfa sig í íslenskunni og var spurður að því hvað barnið væri gamalt. Svarið á íslensku var: "Barnið er 52 ára." Hann las síðan á kvöldin Litlu gulu hænuna fyrir Margaret konu sína og hún tók þessu einkennilega áhugamáli hans býsna vel. Í jakkabarmi bar hann gjarnan merki með fánum Íslands og Bretlands.

Þegar briskirtilskrabbamein greindist hjá Brian árið 2006 var hann nýkominn úr góðri ferð til Ástralíu stuttu eftir að hann lét af störfum. Síðasta ferð hans til Íslands var vorið 2006. Hann náði þokkalegum bata fram á sl. haust og hann átti sér þann draum að komast aftur til Íslands. Heilsan leyfði það ekki. Hann andaðist heima í faðmi fjölskyldu sinnar.

Vinir hans á Íslandi og félagar í Félagi íslenskra röntgenlækna minnast hans með þökk og virðingu.

Ásmundur Brekkan

Örn Smári Arnaldsson

Reynir Tómas Geirsson

Ólafur Eyjólfsson

Halldór Benediktsson,

formaður FÍR

 

Mynd birt með leyfi RSNA í Bandaríkjunum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica