12. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Reynslusaga heimilislæknis í Tógó. Eyjólfur Guðmundsson

Nýlega gafst mér tækifæri til að heimsækja Tógó í Vestur-Afríku. Landið er helmingi minna en Ísland, íbúafjöldi um fimm milljónir og landið eitt hið þéttbýlasta í Afríku. Íbúarnir búa við mikla fátækt, meðaltekjur eru einn dollari á dag, en slíkt er hlutskipti sjötta hluta jarðarbúa.

Í Tógó ríkir efnahagsleg stöðnun og miklir örðugleikar við að brjóta sér leið út úr vítahring fátæktar þrátt fyrir jákvæða þróun stjórnarhátta í átt til lýðræðis undanfarin ár.

Ég slóst í för með Skoppu og Skrítlu ásamt fylgdarliði, en dóttir mín Katrín hefur aðstoðað við leiksýningarnar sem nú átti að sýna munaðarlausum börnum í Tógó. Einnig var samferða fólk frá hjálparsamtökunum SPES en Íslandsdeild samtakanna sem Njörður P. Njarðvík stýrir hefur einbeitt sér að Tógó og starfrækir þar í höfuðborginni heimili fyrir munaðarlaus börn af miklum myndarskap. Ég hafði áður verið í símasambandi við innfæddan lækni sem ætlaði að gera sitt besta til að kynna fyrir íslenska heimilislækninum starfsaðstöðu kollega sinna í Tógó. Ég bað um að fá að heimsækja sjúkrahús, læknastofur og ef möguleiki væri að fylgja læknum að störfum.

Eyjólfur GuðmunsdssonÞann 25. september sl. komum við til höfuðborgarinnar Lomé sem er hafnarborg við gömlu þrælaströndina og eru íbúar hennar um 700 þúsund. Fyrstu tvo dagana gafst tóm til að skoða sig dálítið um. Borgin iðar af lífi og alls staðar sést glaðvært og vingjarnlegt fólk. Umferðin er þétt og farartækin aðallega mótorhjól innan um hrörlegan bílaflota, fjölmennt er líka á hverju hjóli og flestir án hjálms. Það er eins og öllum liggi lífið á og flautan er óspart notuð til að greiða för. Ekki að undra að slysin séu tíð. Það er skrítið hversu umferðin er áköf, því mannlífið meðfram vegunum er fremur rólyndislegt. Þar er ekki að sjá skipulagða sorphreinsun og ruslahaugar safnast upp hér og þar. Þar má sjá börn að leik í draslinu, einstaka geit að snuðra og hænur á vappi með unga sína. Ég varð var við að Tógóbúum virtist almennt heldur illa við að láta taka myndir af sér, sem kannski hefur eitthvað með andatrúna að gera - nema börnin, þau þyrptust að manni glöð og kát og höfðu aldrei séð annað eins undur og myndavél.

Loks kom að því að lækningaforstjóri háskólasjúkrahússins í Lomé hafði samband og með aðstoð túlks var ég svo farinn að skoða mig um og ræða við lækna sjúkrahúsins. Á taugasjúkdómadeildinni tók á móti mér skrafhreifinn og hress læknir. Honum var talsvert niðri fyrir og sagði að unnið væri við erfiðar aðstæður, tilfinnanlegan tækjaskort og benti á ónothæfan tækjahaug í einu horninu - hjartalínuritið bilaði í gær. Hann bað mig um að aðstoða sjúkrahúsið við að útvega nauðsynleg lækningatæki, það vantaði tilfinnanlega hjartarafsjár og blóðsykurmæla, bara svo eitthvað væri nefnt. Svo rétti hann mér langan óskalista og sagði: ,,Ef þú hjálpar okkur - verður þín minnst með því að letra nafn þitt á silfurskjöld sem verður festur framan á stofuhurðirnar."

Vegna breyttra lifnaðarhátta hefur tíðni sjúkdóma breyst undanfarin ár og er farin að minna meira á það sem tíðkast á vesturlöndum. Sjúklingar koma vegna afleiðinga ómeðhöndlaðrar sykursýki, háþrýstings og aukinnar blóðfitu. Fyrirbyggjandi læknisfræði er ekki fyrir almenning í Tógó og fólki með þessa áhættuþætti er ekki sinnt. Tíðni heila- og hjartaáfalla er há og dánartíðni þeirra sem veikjast há enda öll aðstaða til meðferðar og endurhæfingar slíkra sjúklinga afar bágborin. Það sagði mér læknir síðar að í Benín, þar sem búa 11 milljónir manna, sé starfandi einn taugaskurðlæknir. Hann hlýtur að hafa mikið að gera. Hvað skyldu vera margir taugaskurðlæknar í Tógó?

Mér var sýnd deild þar sem á að vera sjúkra-þjálfun, en þar var ekki að finna nein þau áhöld eða aðstöðu sem gæti hjálpað við endurhæfingu sjúklinga. Lækninum var einnig tíðrætt um þá lækna sem flýja land vegna slæmrar starfsaðstöðu og lélegra kjara.

Allan tímann á meðan á heimsókn minni stóð og samræðum mínum við læknana var lækningaforstjórinn yfir okkur og leyndi sér ekki á svip hans að honum féll ekki allt vel í geð sem fram kom og sýndi ýmis merki um óþolinmæði. Það var eins og hann vildi að þessari heimsókn minni lyki sem fyrst.

Á hjartadeildinni mætti ég fámálum lækni með þunglyndislegt yfirbragð. Á deildinni voru fáir sjúklingar og í ljós kom að þar voru engin lyf, - ekki einu sinni morfín til verkjastillingar. Ef fjárhagur leyfir má ná í lyfið í næstu lyfjaverslun og þá er að vonast til að lyfið sé frá heiðarlegu lyfjafyrirtæki og hafi tilætlaða verkun. Skortur á verkjalyfjum er tilfinnanlegur. Krabbameinssjúklingar njóta ekki einu sinni þeirra sjálfsögðu mannréttinda.

Blóðrannsóknir eru einungis teknar ef fjárhagur sjúklings leyfir, annars notast menn við klíníska nefið. Ég komst að því að einföld blóðrannsókn kostar u.þ.b. 30 evrur sem er á við meðal mánaðarlaun og því lúxus ætlaður efnameira fólki. Ég kom að sjúkrarúmi gamals manns sem reyndist blóðlaus og vannærður, læknirinn taldi hann vera með malaríu og þegar ég spurði hvort hann væri á einhverri meðferð var lítið um svör en ég tók eftir að settur hafði verið upp hjá honum vökvi í æð.

Túlkurinn sagði mér að ekki væri áhugi á því að sýna mér bráðasjúkrahúsið sem var í öðru hverfi borgarinnar. Þar er slysadeildin en þangað koma meðal annars fórnarlömb tíðra umferðarslysa. Ef maður slasast í umferðinni er það sá sem hringir í sjúkrabílinn eða fer með sjúklinginn á móttökuna sem þarf að greiða fyrir læknismeðferðina og slíkan reikning hafa fæstir efni á að greiða. Iðulega gengur fólk því framhjá slösuðu eða dauðvona fólki eftir slys. Ef ekki finnst aðstandandi sem getur hjálpað er viðkomandi algerlega bjargarlaus. Einn læknanna á sjúkrahúsinu sagði mér að hann sinnti ekki slíkum sjúklingum þó þeir yrðu á vegi hans, vegna greiðsluskyldu fyrir meðferð og að síðan komi iðulega himinháir bakreikningar löngu síðar. Maður vissi aldrei hverju maður gæti átt von á.

Mér gafst kostur á að skoða sjálfstætt reknar læknastofur og voru þar aðstæður allt aðrar en ég hafði orðið vitni að á sjúkrahúsinu. Af bílaflotanum fyrir utan varð mér ljóst hverjir hefðu aðgang að þessari þjónustu. Þarna var ég meðal annars viðstaddur fæðingu sem fór fram við sómasamlegar aðstæður en um leið varð manni hugsað til þeirra fjölda mæðra sem ekki hafa aðgang að slíkri þjónustu því flestar konur fæða við frumstæðar aðstæður í heimahúsum án aðgangs að hreinu vatni. Mæðra- og ungbarnadauði er að sama skapi hár. Það er ekki tilviljun að börnin í Spes barnaþorpinu hans Njarðar í Lomé hafa mörg hver misst móður sína.

Í Tógó er engin skipulögð heilsugæsla og aðgengi efnalítils almennings að læknaþjónstu og lífsnauðsynlegum lyfjum er nánast ekkert. Fólkið leitar í andatrúna og sá ég merki þess á 5 ára dreng sem hafði greinilega verið illt í maganum, en hann var alsettur öramunstri á kviðnum. Gerð hafði verið tilraun til að hrekja illa anda út úr iðrum drengsins með því að skera með hnífi strikamunstur í kviðhúðina. Maður getur rétt ímyndað sér þjáningar barna sem fá ekki einfalda meðferð við amöbu- og ormasýkingum í þörmum. Algengasta dánarorsök barnanna er niðurgangur og ofþornun.

Í fylgd með túlkinum fór ég í nokkrar vitjanir í heimahús. Ég heimsótti fjölskyldu, hjón með 2 börn (2ja ára og 4ra ára) sem bjó í 10 fermetra herbergi, veggir voru steyptir en þakið úr einföldu bárujárni sem leiðir mjög vel hitann frá brennandi sólinni svo að innandyra var kæfandi hiti. Öll sváfu þau í sama rúminu en voru svo lánsöm að hafa net yfir rúminu til varnar moskítóflugunni. Malaría er skæð pest fyrir börn undir 5 ára aldri og má minnka dánartíðni barna vegna malaríu um allt að 40% ef notast er við slíkt net sem kostar kringum 10 dollara. Hægt er að gefa slíkt net ef farið er inn á slóðina www.malarianomore.com

Það spurðist fljótt að kominn væri læknir í heimsókn í hverfið og fólk dreif hvaðanæva að. Kona kom með hita, þrem vikum eftir barnsburð, hún kvartaði um slappleika og svitinn bogaði af henni, hún var trúlega með þvagfærasýkingu og ég bjó svo vel að eiga nokkur amoxicillin hylki í töskunni. Börnin kvörtuðu aðallega um maga-pínu og miðaldra kona kom með kvartanir sem samrýmdust við skoðun sykursýki og háþrýstingi. Í nálægu apóteki fann ég ódýrustu lyfjameðferðina við háþrýstingi sem kostar nálægt hálfum mánaðarlaunum sjúklingsins.

Ríkum löndum ber skylda til að efla heilbrigðisþjónustu í fátækum löndum eins og Tógó. Fátækt verður ekki útrýmt nema heilbrigðisþjónusta mjög fátækra landa sé stórbætt, sem er ein af undirstöðum þess að efnahagsframfarir geti átt sér stað. Meðalaldur er rétt um fimmtíu ár og dánartíðni ungs fólks á vinnufærum aldri hefur lamandi áhrif á þróun efnahags þó Tógóbúar séu ennþá það lánsamir að geta brauðfætt sig og búi ekki við hungur.

Í þessu sambandi er rétt að minna á háleit þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna (The Millennium Development Goals) sem miða að því að útrýma mikilli fátækt og að draga úr ungbarna- og mæðradauða auk þess að hefta útbreiðslu HIV og malaríu með markvissum aðgerðum til ársins 2015. Þar er sérstaklega kveðið á um samábyrgð allra jarðarbúa við að ná fram þessum markmiðum. Í sárri fátækt þrífst öfgakennd hugmyndafræði sem ógnar öryggari allra jarðarbúa, jafnt ríkra sem fátækra. Fjármagn til hernaðarumsvifa gerir heiminn ekki öruggari, þvert á móti væri þeim fjármunum betur varið til þróunaraðstoðar. Óskandi væri að Íslendingar létu ekki sitt eftir liggja í þeim efnum.

 

Greinarhöfundur í vitjun hjá fjölskyldu sem býr við erfiðar aðstæður í fátækrahverfi Lomé, höfuðborgar Tógó. Ljósmynd: Lena Magnúsdóttir (ritari SPES samtakanna)

Spjallað við lækna, læknanema og lækningaforstjóra Háskólasjúkrahúsins í Lomé.

Götumynd frá Lomé, höfuðborg Tógó. Ljósmynd: Lena Magnúsdóttir

Vitjun í úthverfi Lomé. Ljósmynd: Madjid Agbamba.Þetta vefsvæði byggir á Eplica