11. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Saga Klepps er þjóðarspegill - viðtal við Óttar Guðmundsson geðlækni

"Ég ákvað strax hvaða bók ég ætlaði ekki að skrifa," segir Óttar Guðmundsson geðlæknir, höfundur bókarinnar Kleppur í 100 ár, sem væntanlega er að renna útúr prentvélunum þegar viðtal þetta birtist. Óttar segir að Hannes Pétursson yfirlæknir hafi farið þess á leit við sig að skrifa sögu Klepps og hann hafi hugsað sig um vel og lengi áður en hann ákvað að þekkjast boðið.

Óttar Guðmundsson"Ég vildi ekki skrifa dæmigerða stofnanasögu, ekki hetjusögu stjórnenda spítalans, sem oft á tíðum erum skrifaðar af stjórnendunum sjálfum sem hafa ekkert annað betra að gera þegar sest er í helgan stein en að skrifa eigin sögu og lærifeðra sinna. Oft verður það mikil lofgjörð um viðkomandi. Ég tel reyndar að grundvöllur slíkrar söguritunar sé varla til í dag, fólk gerir aðrar kröfur til söguritunar og ég ákvað því að skrifa sögu Klepps útfrá þríþættu sjónarhorni,starfsfólksins, sjúklinganna og samfélagsins. Ég ákvað líka að leggja bókina upp í tímaröð og hafði til hliðsjónar gömlu Aldirnar og Ísland í tímanna rás, en með því gat ég sagt söguna án samhangandi framvindu í texta; en þó halda sig við tímaröðina og segja frá því sem mér þótti merkilegast á hverjum tíma. Þetta veitti mér mun meira frelsi en samhangandi söguritun hefði gert, að geta valið og hafnað hvað ég vildi skrifa um þó stundum væri það sjálfgefið."

u06-fig2

Mikilvæg gögn hafa glatast

Sagan lá þó ekki á lausu og margt af því sem fyrirfram hefði mátt telja nauðsynleg og sjálfsögð gögn reyndust ekki vera fyrir hendi. "Ég komst að því að það hefur gríðarlegu miklu af gögnum spítalans verið fleygt. Sjúkraskrár vantar og alls kyns önnur grunngögn eru ekki til lengur. Sjúklinga- og starfsmannabókhald frá fyrri árum er horfið og í ákveðnum tilfellum þar sem ég leitaði eftir upplýsingum um tiltekna sjúklinga sem ég vissi að höfðu dvalið á spítalanum fannst ekki lengur tangur né tetur um sjúkrahúsvist þeirra. Þannig vantar mikið af gögnum spítalans frá stofnun hans 1907 og fram undir 1960 og það sér hver maður að skráning sögunnar verður mun erfiðari en ella við þessar kringumstæður.

u06-fig3Aðalástæða þess að gögnum hefur verið fleygt er eflaust þau yfirgengilegu plássvandræði og þrengsli sem spítalinn mátti lengst af búa við; flutningar á milli húsa og breytingar á húsnæði hafa orðið til þess að mikilvægum gögnum var fleygt. Það er mjög lítið til á Þjóðskjalasafni, allt og sumt sem þar er geymt kæmist í tvo til þrjá skókassa. Skjalavarsla á gögnum spítalans komst ekki í viðunandi horf fyrr en uppúr 1950 en mikið vantar af gögnum sem nauðsynleg eru.

Tómas Helgason prófessor var mér reyndar mjög hjálplegur við útvegun eldri gagna, sérstaklega úr bréfa- og gagna safni föður hans, Helga Tómassonar, yfirlæknis á Kleppi sem Tómas hefur varðveitt."

Rituð gögn eru þó ekki það eina sem sagnaritarinn saknaði því ljósmyndir af starfinu á Kleppi eru fáar til og ástæðan er einföld. "Lengst af var bannað að taka myndir af sjúklingum spítalans og því eru ekki til myndir sem lýsa lífinu á Kleppi ef svo má segja; flestar myndanna frá fyrri tíð eru af húsbyggingum sem ekki eru mjög spennandi myndefni þó heimildagildið sé til staðar. Þannig vantaði margt þegar ég ætlaði að hefjast handa og verst var auðvitað að finna lítið af rituðum gögnum frá þeim tíma sem liggur utan við minni núlifandi fólks."

Hvað var þá til ráða?

"Ég las allt sem ég komst yfir, ævisögur og dagblöðin, ég las og fletti nánast öllum blöðum og tímaritum sem gefin voru út á síðustu öld og fann auðvitað ýmislegt. Kleppur er nefndur í ýmsum ævisögum og talsvert var fjallað um hann í dagblöðum. Það lagði mér talsvert til sjónarhorns sjúklinganna og samfélagsins sem ég nefndi áðan. Auk þess lá ég að sjálfsögðu yfir sjúkraskránum og las þær gaumglæfilega. Þar fann ég mikið af bréfum frá sjúklingum sem ekki höfðu verið send heldur sett beint í möppuna. Mörg þessara bréfa veita innsýn í hugarheim sjúklinganna."

Óttar segir að ýmislegt hafi komið sér á óvart við rannsókn á sögu Klepps en einnig hafi ýmsar hugmyndir hans sjálfs um Klepp fengist staðfestar við þessa rannsókn.

Illir andar og vatnsmeðferð

"Eitt það fyrsta sem maður rekur sig á er hversu einráðir yfirlæknarnir hafa verið Þeir höfðu í rauninni algerlega frjálsar hendur um hvaða meðferð var stunduð á spítalanum og það þýddi auðvitað líka að þeir réðu því hvaða meðferð var ekki stunduð. Geðlækningar á Íslandi stjórnuðust fyrst og fremst af hugmyndafræði þeirra tveggja einstaklinga sem réðu spítalanum fyrstu 50 árin sitt í hvoru lagi og saman um skeið, Þórðar Sveinssonar og Helga Tómassonar. Þá tekur Tómas Helgason við og hann hafði vissulega ráðandi stöðu en fleiri komu að stjórnun spítalans í hans tíð svo hann er ekki eins einráður og fyrirrennarar hans óumdeilanlega voru. Það sem kemur mér síðan verulega á óvart er innihald lækninga Þórðar Sveinssonar. Hann var að mörgu leyti mjög vel menntaður geðlæknir og stundaði nám sitt við eitt fremsta geðsjúkrahús Evrópu á þeim tíma, í München, og lærir þar nútímageðlækningar eins og þær voru stundaðar í upphafi 20. aldar. Þegar hann kemur heim virðist hann taka upp eigin stefnu að miklu leyti, með mikilli áherslu á vinnulækningar, að láta sjúklingana stunda vinnu á spítalanum og var í því sambandi með umfangsmikinn búrekstur á vegum spítalans um langt skeið; hann hafði algeran ímugust á lyfjum og notaði eiginlega engin af þeim lyfjum sem þá voru til. Hann hafði hinsvegar tröllatrú á vatnslækningum bæði innvortis og útvortis sem fólust í því að annaðhvort að láta sjúklinginn drekka heitt vatn eða sitja í heitu baði. Sumir voru reyndar líka settir í kalda sturtu í lækningaskyni. Stundum var sjúklingum ekki gefið neitt annað en 55 gráðu heitt vatna að drekka í nokkrar vikur og segja má að þetta hafi verið sveltimeðferð fremur en vatnsmeðferð. Þessar vatnslækningar Þórðar áttu sér ekki hliðstæðu annars staðar í geðlækningum hans samtíma að því er ég best veit heldur er þetta ævagömul læknisfræði sem rekja má allt aftur til Hippókratesar."

Þórður Sveinsson var landsþekktur maður og af honum hafa verið sagðar margar sögur. Hann var þekktur fyrir andatrú sína, spiritisma, og lá ekki á þeim áhuga sínum. "Það kemur greinilega fram í ýmsum skrifum hans og blaðadeilum að hann hefur látið spíritismann stjórna sér í geðlækningunum að talsvert miklu leyti. Hann trúði því að geðsjúklingar væru haldnir illum öndum sem þyrfti að reka út og hugmyndir hans um geðlækningar virðast mótast af þessum áhuga hans. Hann notaði mikið orðið "besættelese" um einkenni sjúklinga sinna eða þeir væru haldnir eins og nú er sagt. Hann trúði því að alkóhólismi stafaði af ásókn óæðri vera á sjúklinginn og aðferðir hans beindust að því að reka út illa anda og óæðri verur með svelti og svitameðferð. Hann taldi að með því að láta sjúklinginn svitna væri hann að ráðast gegn rótum geðveikinnar því að geðsjúklingar gætu ekki svitnað. Vatnslækningar Þórðar voru mjög umdeildar og reykvískir læknar lýstu opinberlega andstöðu sinni við og Þórður átti í ritdeilum við ýmsa sína um þessi mál."

Óttar segir að vissulega megi sjá ýmislegt jákvætt við lækningar Þórðar og sérstaklega hafi áhersla hans á vinnuþáttöku sjúklinganna verið af hinu góða. "Sumir líta einnig á óbeit hans á lyfjum sem jákvæðan hlut. En hvað aðrar lækningar hans varðar þá verður að segjast að hann var algerlega einn á báti með hugmyndir sínar og í engum tengslum við það sem menn töldu að væri réttast og best í geðlækningum þessa tíma."

Má álykta að geðlækningar á Íslandi hefðu þróast á annan veg ef annar maður en Þórður hefði verið við stjórnvölinn á Kleppi?

"Ég efast ekki um það og ég lýsi þeirri skoðun minni að danski læknirinn Schierbech sem hafði mikinn áhuga á því að taka að sér stjórn geðspítala hér á landi hefði orðið frábær stjórnandi. Hann var mikill vísindamaður og hafði mikinn áhuga á rannsóknum og geðlækningum. Með Helga Tómassyni, sem ráðinn var yfirlæknir 1930, hefst nýtt tímabil í sögu Klepps en Helgi var grandvar og góður vísindamaður og kemur með það allra nýjasta í geðlæknisfræðinni frá Danmörku. Í minningum Jónasar frá Hriflu, sem var dómsmálaráðherra og átti hvað stærstan þátt í að ráða Helga að Kleppsspítala, kemur fram að Helgi hafi neitað að vinna undir stjórn Þórðar Sveinssonar. Hann hafi talið það fyrir neðan sína virðingu sem vísindamanns að vinna undir stjórn manns sem tryði fyrst á fremst á vatn í meðhöndlun geðsjúkra. Þetta varð til þess að spítalanum var skipt í Gamla og Nýja Klepp og Helgi varð yfir- læknir yfir Nýja Kleppi og Þórður þeim Gamla. Þetta hefur auðvitað verið mikil niðurlæging fyrir Þórð sem stjórnað hafði spítalanum í 23 ár og loks þegar spítalinn er stækkaður úr 50 rúmum í 150 er ráðinn nýr yfirlæknir og Þórður heldur aðeins áfram sem yfirlæknir á gamla spítalanum yfir þeim 50 rúmum sem hann hafði haft frá upphafi. Jónas segir að hann hafi orðið að gera þetta til að fá Helga Tómasson til landsins sem vakið hafði mikla og verðskuldaða athygli sem geðlæknir í Danmörku."

 

Stóra-bomban

Tengsl þeirra Jónasar frá Hriflu og Helga fengu þó skjótan endi og á milli þeirra skapaðist hreinn fjandskapur eftir að Helgi lýsti því yfir opinberlega að Jónas væri geðveikur. Stóra-bomban var þetta mál kallað og var fátt meira umtalað í langan tíma.

"Helgi var afburða gáfaður maður og mjög vandaður læknir og vísindamaður og það er eiginlega með ólíkindum að hann skyldi láta hafa sig út í þetta mál svo vanhugsað og einkennilegt sem það var. Þetta var ekkert annað en pólitísk aðför að dómsmálaráðherra. Eflaust hefur Helgi trúað því að Jónas væri ekki heill á geði en það er mjög hæpið lýsa því yfir opinberlega að maður í slíkri valdastöðu sé geðveikur án þess að hafa rætt við hann eins og geðlæknir gerir við skjólstæðing og kynnt sér ástand hans. Yfirlýsing Helga er byggð á sögusögnum og slúðri sem gekk manna á meðal um Jónas. Á því leikur hinsvegar enginn vafi og ég legg áherslu á það í bókinni að Jónas frá Hriflu var mjög gallaður maður og hafði sína persónuleikabresti en hvort það var nægilegt til að lýsa hann geðveikan og krefjast þess að hann segði af sér finnst mér mjög hæpið. Þetta mál fór þó allt vel að lokum. Jónas kom því til leiðar að Helgi var rekinn en hann var ráðinn aftur ekki löngu síðar þegar sjálfstæðismaðurinn Ólafur Thors sat tímabundið í stöðu dómsmálaráðherra. Það var mikið heillaspor enda var Helgi langbesti maðurinn í stöðuna. Hann dró greinilega lærdóm af þessari lexíu því að hann kom hvergi fram eftir þetta í pólitískri umræðu sinnar samtíðar. Þetta var hans einasta innhlaup í pólitík og brenndi hann varanlega því margir tengja hann við þetta mál fyrst og fremst. Annað sem Stóru-bombu-málið hafði í för með sér var að Kleppur komst í skotlínu pólitískra flokkadrátta í fyrsta sinn og varð það lengi á eftir. Kleppur og Helgi Tómasson voru dreginn í einn sama dilk og vegna tengsla Sjálfstæðisflokksins og stuðnings Morgunblaðsins við Helga ætíð síðan, þá beindist andúð sumra vinstri manna að Kleppi. Þetta var mjög slæmt því hvergi á öðru sviði lækninga er jafn mikilvægt að byggja upp traust milli stofnunar, sjúklinga og samfélagsins og verst af öllu er ef geðsjúkrastofnun litast af pólitískum leðjuslag samtímans. Frægt er málið þegar skáldinu Vilhjálmi frá Skáholti var haldið nauðugum á Kleppi í nokkra mánuði og vinstri menn töldu óræka staðfestingu þess að Kleppur væri stjórntæki hinna hægri sinnuðu valdhafa. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki áttað mig á því áður hversu djúpt þessi pólitíski ágreiningur um Klepp risti í samfélaginu fyrr en ég fór að kynna mér söguna."

 

 

Gaukshreiðrið mótaði hugmyndir

Orðið sjálft, Kleppur, hefur í hugum þjóðarinnar fengið á sig mjög skýra og einfalda merkingu og ýmis orð og orðasambönd urðu til á síðustu öld sem tengdust spítalanum á Kleppi. Kleppsmatur, klepptækur, kleppsvinna hafa öll mjög ákveðna merkingu og upprunaleg merking orðsins sem er samkvæmt íslenskri orðabók klepri eða snurða eða klöpp hefur horfið. Ekki má gleyma orðinu kleppari sem þýddi einfaldlega að vera geðveikur.

"Þetta er plagsiður víða í kringum okkur og í sænsku er t.d. talað um vadstenara sem er dregið af geðsjúkrahúsi í bænum Vadstena. Vegna smæðar landsins og þess að þetta er eini geðspítalinn þá verður þetta enn meira áberandi fyrir vikið og einungis í neikvæðum skilningi. Þetta verður allt hluti af orðfari sem á að lýsa neikvæðum eiginleikum fari einstaklings. Þetta ýtir svo undir þá miklu fordóma sem voru í samfélaginu gagnvart Kleppi, það var ekkert jákvætt við að hafa legið á Kleppi og fólk tengdi Klepp fyrst og fremst við þá ímynd að þar væri fólk æpandi upp um alla veggi. Hræðslan við að verða innlyksa á Kleppi var líka mjög raunveruleg og átti sannarlega við rök að styðjast því margir áttu þaðan ekki afturkvæmt. Kleppur tengdist líka skuggaveröld geðveiki og glæpa samtímans því þar voru vistaðir flestir glæpamenn Íslands um lengri eða skemmri tíma. Staðfesting á þessu er hversu hrætt fólk var við staðinn og þeir sem bjuggu í Kleppsholtinu, í sundunum og við Langholtsveg lifðu margir hverjir í stöðugum ótta um að þeir eða börnin þeirra yrðu fyrir barðinu á geðsjúklingum á Kleppi. Það gerðist þó aldrei svo ég viti til. Í lesendabréfum dagblaðanna er fólk engu að síður að krefjast þess að í kringum Klepp verði reistur mannhæðarhár múr til að vernda almenning fyrir vistmönnunum."

Þú dregur fram greinar úr dagblöðum frá áttunda áratugnum þar sem blaðamenn fóru á Klepp og skrifuðu greinar um upplifun sína.

"Þetta virðist hafa verið nokkuð vinsælt á þeim tíma og það sem kom mér á óvart var hversu fáfróðir blaðamennirnir hafa verið og hversu flatt upp á þá virðist hafa komið margt af því sem telja má sjálfsagt í meðhöndlun geðsjúkra. Hugmyndir þeirra um Klepp eru einnig mjög barnalegar og hlaðnar ýmsum fordómum. Þeir eru undrandi á því að sjúklingarnir geti tjáð sig og hafi skoðanir á ýmsu, séu ekki þroskaheftir en það virðist hafa verið algengt að leggja þetta tvennt að jöfnu."

Mestur áhrifavaldur á skoðanir fólks á geðsjúkum og geðsjúkrastofnunum á áttunda áratug síðustu aldar er að mati Óttars kvikmyndin Gaukshreiðrið.

"Áhrif kvikmyndarinnar sem kom út 1973 og bókarinnar sem kom út í Bandaríkjunum 10 árum fyrr eru gríðarleg og mótuðu hugmyndir heillar kynslóðar um geðsjúka og geðsjúkrahús. Myndin sannfærði fólk um að á geðsjúkrahúsum væru sjúklingar gangandi um slefandi og heilalausir, meðhöndlaðir út í eitt með raflosti og lóbótómíu. Þessi mynd sem þarna er dregin upp er í engu samræmi við það sem var raunverulega að gerast í geðlækningum á þessum tíma. Höfundur Gaukshreiðursins, Ken Keasey, skrifar þessa skáldsögu útfrá reynslu sinni sem starfsmaður á geðsjúkrahúsi í Bandaríkjunum á sjötta áratugnum áður en nýju lyfin komu fram sem gjörbreyta ásýnd og yfirbragði geðdeilda í byrjun sjöunda áratugarins. Myndin gefur því kolranga mynd af samtímanum á áttunda áratugnum en gefur í rauninni ágæta mynd af því sem var að gerast á sjötta áratug aldarinnar. Gaukshreiðrið sló öll aðsóknarmet hér á landi og fólk taldi sig nú loksins vita hvað væri raunverulega að gerast á bakvið luktar dyrnar á Kleppi. Þarna var auðvitað ekkert samræmi á milli en fólk setti hiklaust jafnaðarmerki á milli Gaukshreiðursins og allrar geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þetta hafði þær afleiðingar að í mörgum skilningi leið geðheilbrigðisþjónustan fyrir þessar ranghugmyndir almennings í mörg ár á eftir."

Gaukshreiðrið sem gagnrýnið samtímaverk bendir einnig á hætturnar sem eru samfara því að bæla niður einstaklingseðlið, drepa niður frumkvæði og kæfa öll frávik frá meðalmennskunni sem gera fólk að skapandi einstaklingum.

"Hvað það varðar þá átti Gaukshreiðrið fullt erindi og ég kem inn á þetta í bókinni þar sem frásagnir aðstandenda sjúklinga á Kleppi, sérstaklega mæðra geðklofa ungra karlmanna, eru mjög neikvæðar og spítalanum alls ekki til framdráttar. En þessa sögu verður að segja líka eins og aðrar sögur um Klepp í 100 ár. Í þessum sögum kemur skýrt fram tilhneiging spítalans til að steypa alla í sama mótið, búa til þæga sjúklinga sem aðlagast stofnuninni og glata öllum sínum einstaklingseinkennum og verða eins og stofnunin vill hafa þá. Ég birti mjög merkilega frásögn eins starfsmanns spítalans frá þessum tíma þar sem glöggt má sjá að starfsfólkið ekki síður en sjúklingarnir varð hluti af stofnuninni. Allir mótuðust af sama hugarfarinu. Hann segir frá því að algengt hafi verið að gefa sjúklingum óvitandi haldóldropa í kaffið svo allir væru nú rólegir á deildinni. Mörgum árum síðar vaknaði þessi starfsmaður upp við vondan draum og áttaði sig á því að þetta var ekkert annað en valdbeiting af verstu sort. Maður skyldi því alls ekki afskrifa Gaukshreiðrið sem tímaskekkju að öllu leyti."

 

 

Geðdeildin við Hringbraut mikið happaspor

Stærsta breytingin að sögn Óttars í sögu Klepps og hlutverks hans í íslenskum geðlækningum verður þegar Geðdeild Landspítalans við Hringbraut er tekin í notkun.

"Með því verður Kleppur ekki lengur bráðasjúkrahús, heldur frekar endurhæfingarstofnun, og núna eru fáir inniliggjandi sjúklingar á Kleppi og þar hefur verið reynt eftir föngum að útskrifa alla sjúklinga sem mögulega er hægt að útskrifa og smám saman hefur Kleppur orðið eins konar miðstöð samfélagslækninga, þar sem hugsunin er sú að veita sjúklingnum þjónustuna þar sem hann er staddur í samfélaginu. Með nýjum og miklu betri lyfjum fyrir geðsjúka varð þetta mögulegt og þegar Tómas Helgason verður yfirlæknir uppúr 1960 þá rekur hann mjög aktíva stefnu fyrir því að útskrifa sjúklinga og koma undir þá fótunum í samfélaginu. Hann naut aðstoðar og hjálpar annarra ágætra manna, eins og Gísla Sigurbjörnssonar í Ási í Hveragerði sem opnaði dyr fyrir stórum hópi sjúklinga og þá er allt í einu hægt að útskrifa fólk af Kleppi og hefja virkari meðferð þeirra sem þar eru. Þrengslin á Kleppi fram að þessum tíma voru yfirgengileg. Í plássum fyrir 150 sjúklinga voru alla jafna um 200 manns og spítalinn var líka alltaf undirmannaður. Sjúklingarnir höfðu ekkert eigið rými og einn sjúklingur gat haldið vöku næturlangt fyrir 30 öðrum. Af skemmdalistum má einnig sjá hversu ófriðsamlegt hefur verið á deildunum."

Bygging geðdeildarinnar við Hringbraut mætti talsverðri andstöðu, ekki síst úr röðum lækna sjálfra.

"Andstaðan var aðallega úr röðum lækna og Tómas Helgason á allan heiður skilið fyrir að hafa komið þessari byggingu í gegn og það var mikið heillaspor fyrir geðlækningar í landinu að honum tókst með miklu harðfylgi að koma húsinu upp. Andstaðan gegn byggingunni stafaði af vælinu og öfundinni sem íslenskir læknar hafa tamið sér. Menn tala um það hvað þeir fái litla peninga og vonda aðstöðu og þannig níða þeir skóinn hver af öðrum. Þetta viðhorf er augljóst þegar maður les þær greinar sem lærðir læknar í öðrum sérgreinum skrifuðu í blöð gegn byggingu geðdeildar Landspítalans á þessum árum. Þetta eru oft á tíðum lítilmótleg og hlægileg rök sem menn beittu. Meðal þess var að menn spáðu því að geðdeildin yrði kölluð Landspítalakleppur og það yrði til að viðhalda fordómum gegn geðsjúkdómum í landinu. Þetta var tóm vitleysa. Á hinn bóginn má benda á að ákveðin mótsögn er fólgin í því að hér skyldi ráðist í byggingu nýrrar geðdeildar á sama tíma og sú stefna var upp í Evrópu að loka geðsjúkrahúsum og endurhæfa sjúklinga til samfélagsþáttöku. Þetta verður reyndar minni mótsögn þegar haft er í huga að Kleppspítali var úrsérgengið húsnæði á flestan hátt og mjög lélegt og hugmyndafræðin að baki spítalanum gamaldags. Nýja geðdeildin við Hringbraut var í samræmi við þá hugmyndafræði að geðsjúkdóma ætti að meðhöndla á sama hátt og á sama stað og aðra sjúkdóma en ekki í í leynum og helst fjarri mannabyggðum eins og Kleppur var þegar honum var valinn staður í upphafi síðustu aldar."Þetta vefsvæði byggir á Eplica