10. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Hlustunarpípa 21. aldarinnar

David_Torisson_opt

Árið 1816 í Frakklandi datt snjöllum lækni í hug að rúlla saman dagblaði og leggja upp að brjóstkassa sjúklings. Við þetta varð til hin vel þekkta hlustunarpípa sem er í dag alþjóðlegt tákn læknisins. Það er ef til vill táknrænt að sífellt oftar má sjá USB kubb hangandi um háls lækna í stað hlustunarpípunnar. USB kubburinn er táknrænn fyrir tæknibyltingu sem hefur átt sér stað á svo stuttum tíma að nútíma læknirinn hefur varla áttað sig á hvort eða hverju hann er að missa af. Virt læknisfræðitímarit hafa ekki farið varhluta af byltingunni, til dæmis mátti lesa í BMJ á seinasta ári um leitarvélina Google sem greiningartæki. Unglæknar ganga nú um með handtölvur í stað þykkra uppflettirita og á örskotsstundu má finna læknisfræðilegar upplýsingar á netinu sem áður þurfti að leita að í doðröntum uppi í hillu.

Það eru allir sammála um að tæknin hafi gjörbreytt vinnuumhverfi okkar og -ferlum bæði til hagræðingar, gæða og sparnaðar. Til dæmis má í nýlegum skýrslum frá Bandaríkjunum lesa að rafræn lyfjaskráning geti hugsanlega fækkað röngum lyfjagjöfum um 70-80% og lækkað rekstrarkostnað heilbrigðiskerfisins um milljarða dollara www.hhs.gov/healthit/t050727.html. Þetta eru tölur sem ekki er hægt að líta framhjá. Ekki má gleyma að sjúklingar hafa sömuleiðis fært sér tæknina í nyt og eru almennt mun upplýstari um sjúkdóma, lyf og þess háttar en áður.

Undirritaður er tæknisinnaður og hefur unnið með LÍ að gerð vefsíðu félagsins. Auk þess að forrita vefinn er ég í ritnefnd félagsins sem hefur það að markmiði að auka notkun hans meðal félagsmanna og breikka efnisinnihald. Því fannst mér það tilvalið að setja af stað einhvers konar "tæknipistla" til að efla vitund lækna um það sem tæknin hefur upp á að bjóða til að létta á daglegum störfum lækna. Fastar skorður á slíkum pistaskrifum verða þó aðeins til að þyngja pennann og því vil ég hvorki setja tíma- né efnisramma en stefni á eftirtalin málefni:

  • Læknisfræðilegar vefsíður
  • RSS fréttaveitur
  •  Praktísk notkun leitarvéla í klínískri vinnu
  •  Handtölvur og forrit fyrir þær
  •  Læknisfræðilegur hugbúnaður
  •  Heilbrigðiskerfi (önnur en Saga)
  •  Heimasíðugerð

Þetta er engan veginn tæmandi listi og ef óskað er sérstaklega eftir einhverju málefni má að sjálfsögðu skoða það.

 

[Framhald pistilsins er á forsíðu www.lis.is.]



Þetta vefsvæði byggir á Eplica