10. tbl 93. árg. 2007

Ritstjórnargrein

Íslenskur forseti WMA, Alþjóðafélags lækna

Sigurbjörn Sveinsson

r01-fig1

Jón Snædal, læknir og fyrrum varaformaður Læknafélags Íslands, tekur við embætti forseta Alþjóðafélags lækna, World Medical Association (WMA), á næstu dögum í Kaupmannahöfn. Það er sannarlega mikill persónulegur heiður fyrir Jón og viðurkenning fyrir það starf, sem hann hefur unnið fyrir WMA og ytra tákn þeirrar virðingar, sem hann nýtur á þeim vettvangi. Einnig er þetta viðurkenning til annarra íslenskra lækna og Læknafélags Íslands og þeirrar stefnu, sem það hefur staðið fyrir í Alþjóðafélagi lækna.

Árum saman stóð LÍ fyrir utan starfið í WMA þrátt fyrir skilvísi við greiðslu árgjalda til þess. Það má segja að afskiptaleysið hafi tekið kúvendingu á einni nóttu með umræðunni um hinn miðlæga gagnagrunn á heilbrigðissviði 1998. Fljótlega varð ljóst, að það var margvíslegum vanda undirorpið að fá málstaðinn í hendur öðrum læknafélögum, þegar litið var til WMA um hin siðferðilegu úrlausnarefni. Vorið 1999 var tekin sú ákvörðun að senda Tómas Zoëga, lækni, á fund stjórnar WMA í Santiago í Chile til þess að útskýra sjónarmið Læknafélags Íslands við setningu laga um hinn miðlæga gagnagrunn og hófst þar með virk þátttaka LÍ við stefnumótun WMA í hvers konar siðferðilegum álitaefnum, sem læknum veraldarinnar mæta á vettvangi hversdagsins. Þá sögu þekkja margir og ekki tóm til að rekja hana nánar hér. Jón Snædal gegndi formennsku í siðamáladeild stjórnar WMA um fjögurra ára skeið.

WMA var stofnað eins og allir vita af læknum, sem upplifað höfðu hörmungar heimsstyrjaldarinnar síðari. Fyrst og fremst var þeim ofarlega í huga ábyrgð lækna á siðlausum tilraunum á mönnum, pyntingum og öðrum mannréttindabrotum. Læknar voru sammála um að bindast samtökum, sem næðu yfir landamæri og gætu komið í veg fyrir að slíkir atburðir endurtækju sig. Læknar meðal þeirra þjóða, sem stríðið hafði komið einna harðast niður á og voru mitt í hringiðu átakanna, voru einna áhugasamastir um félagsstofnunina. Á heimasíðu WMA segir um félagið: The organization was created to ensure the independence of physicians, and to work for the highest possible standards of ethical behaviour and care by physicians, at all times. This was particularly important to physicians after the Second World War, and therefore the WMA has always been an independent confederation of free professional associations. Funding has been by the annual contributions of its members, which has now grown to approximately 80 National Medical Associations.

Þessi markmið félagsins eru vel þekkt um allan heim. Þau eru virt. Þau enduróma í samþykktum eins og Genfaryfirlýsingunni og Helsinkiyfirlýsingunni og mörgum öðrum samþykktum WMA. Þetta eru samþykktir sjálfstæðra lækna og læknafélaga, sem láta sér annt um siðamál og mannréttindi. Þetta er alkunna og því eru atriði úr þessum yfirlýsingum nú að finna í löggjöf margra þjóða, sem fjallar um réttindi sjúklinga og tilraunir á mönnum og önnur atriði, sem varða grundvallarmannréttindi. Slíkt hefði aldrei orðið, ef WMA væri ekki þekkt um víða veröld.fyrir að vera óháð og sjálfstætt félag lækna. Stoðir WMA standa í þjóðlegum aðildarfélögum þess. Þar er uppspretta hugmyndafræðinnar. WMA verður aldrei sterkara en keðjan sem þessi félög mynda. Hlutverk WMA er að fjalla um siðamál og mannréttindi. Í því felst styrkur þess. Læknar hafa mörg félög önnur til að fjalla um hagsmuni og pólitík og jafnvel fagleg málefni, sem tengjast sérstökum sviðum læknisfræðinnar. Læknar hafa jafnframt þrýstihópa. WMA er ekki þrýstihópur. Ekki nema vegna siðamála og mannréttinda. WMA á að viðhalda þessari stöðu sinni. Það verður ekki gert með fjárhag óháðum aðildarfélögum þess. Það er styrkur WMA að byggja tilveru sína á ákvörðunum og fjárframlögum aðildarfélaganna. Það er verkefni WMA að vinna að siðamálum lækna og mannréttindum, að pússa og fægja viðfangsefni sín og samþykktir og færa þau til nútímans hverju sinni. Fjárhagsleg átónómía eða tilvera byggð á fjárframlögum utanaðkomandi stórfyrirtækja færir hina hugmyndafræðilegu umræðu og ábyrgð á samþykktum WMA frá aðildarfélögunum til þeirra sem fjármagninu veita. Það yrði óumflýjanlegt. Þar með hættir WMA að vera rödd lækna veraldarinnar, sem hlustað er á og er virt.

Við eigum að sætta okkur við það að starfsemi WMA endurspeglar fjárhag aðildarfélaga þess og að hún tekur mið af því fé, sem þau eru tilbúin að leggja því til. Starfsemi WMA á að endurspegla vilja aðildarfélaganna og þann metnað, sem þau hafa fyrir hönd WMA.

Jóni Snædal eru færðar árnaðaróskir þegar hann tekur forsæti í þessu virðulega félagi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica