10. tbl 93. árg. 2007
Umræða og fréttir
Ný þjónustuskrá á Doktor.is
Almenningur sækir sér sífellt meiri upplýsingar um fjölbreytt málefni á netið og heilbrigðismál eru þar engin undantekning. Stór hluti notenda heilbrigðisþjónustu sækir sér þangað upplýsingar um sjúkdóma, greiningaraðferðir, lyf og fleira, fyrir eða eftir heimsóknir til lækna. Þetta hefur bæði kosti og galla í för með sér. Þetta hefur leitt til þess að sjúklingar hafa mun betri aðgang en áður að upplýsingum sem þá varða og eru betur meðvitaðir um sinn sjúkdóm, sjúkdómseinkenni, mögulega meðferð og annað slíkt. Því miður eru þó ekki allar upplýsingar sem sækja má á netið áreiðanlegar og þess eru dæmi að notendur heilbrigðisþjónustu sæki beinlínis rangar eða villandi upplýsingar á netið sem jafnvel geta valdið skaða. Íslenskar rannsóknir benda þó til að þeir einstaklingar sem eru duglegastir við að afla sér upplýsinga á netinu og annars staðar um heilsutengd málefni, ástundi betri heilsuhegðun en aðrir.*
Á Íslandi hefur um árabil verið starfræktur heilsuvefur undir heitinu Doktor.is sem getið hefur sér gott orðspor. Þetta hefur verið ein vinsælasta vefsíða landsins og langvinsælasti heilsuvefurinn. Segja má að Íslendingar búi vel að hafa aðgang að slíkum vef því frá upphafi hefur verið lögð á það áhersla að allt efni sem birtist á vefsíðunni sé unnið af fagfólki og að umfjöllunin sé aðgengileg og vel skiljanleg öllum þeim er þangað leita upplýsinga. Íslenskir læknar hafa lagt vefnum lið í ríkulegum mæli í gegn um tíðina, meðal annars með greinarskrifum og með því að taka þátt í að svara fyrirspurnum.
Sem dæmi um aukna sókn almennings í upplýsingar um heilbrigðismál á netinu má nefna að samkvæmt samræmdri veftalningu Modernus er fjöldi innlita á vefinn að meðaltali um 13 þúsund í viku hverri og var vefurinn í 18.-25. sæti yfir vinsælustu vefi landsins, tímabilið janúar-júlí 2007.
Meðal nýjunga á nýjum vef Doktor.is er sérstök þjónustuskrá sem ætluð er að auðvelda aðgengi almennings að upplýsingum um lækna, sérgrein þeirra og aðsetur. Með þessu móti gefst læknum tækifæri á að koma grunnupplýsingum um starfsemi sína á framfæri við almenning á auðveldan og markvissan hátt. Þessi þjónusta er endurgjaldslaus og geta áhugasamir skráð inn upplýsingar á www.doktor.is/thjonustuskra.
Lyfjasíðan á Doktor.is hefur einnig verið uppfærð og verður nú endurnýjuð mánaðarlega í samvinnu við Lyfju. Þannig er tryggt að notendur síðunnar hafi aðgang að nýjustu upplýsingum hverju sinni.
Unnur Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ritstjóri Doktor.is
Sími: 510 6507 og 893 9316
* Ágústa Pálsdóttir 2005. Health and lifestyle: Icelander´s everyday life information. Doktorsritgerð frá Åbo Akademi Universitet.