10. tbl 93. árg. 2007
Umræða og fréttir
Líknareining Landspítala - Dag- og göngudeildin er glæsileg viðbót
Við Kópavogsbraut 5-7 er líknareining Landspítalans til húsa og með dyggum stuðningi Oddfellowreglunnar hefur verið búið einstaklega vel að einingunni, nú síðast með opnun dag- og göngudeildar sem nýtekin er í gagnið eftir gagngerar breytingar á húsnæðinu.
Valgerður Sigurðardóttir yfirlæknir segir stuðning Oddfellowreglunnar ómetanlegan. "Þeir hafa bókstaflega gert húsnæðið fokhelt og kostað hönnun og framkvæmdir við allar breytingar, innréttingar, húsgögn og allan annan búnað fyrir starfsfólk og sjúklinga. Björn Skaptason er arkitekt hússins og eins og sjá má er hönnunin ekki mjög "sjúkrahúsleg" heldur hefur áherslan verið lögð á hlýlegt og heimilislegt yfirbragð en um leið mjög nútímalegt og stílhreint."
Umhverfið er heldur ekki af verri endanum, Kópavogurinn og Arnarnesið blasa við og fallegur garður þar sem hægt er að njóta sólar að sumrinu ber natni Oddfellowa fagurt vitni þar sem þeir hafa gætt að öllum smáatriðum við frágang húss og lóðar.
Valgerður segir að skipta megi starfsemi líknareiningarinnar í fjóra meginþætti. "Það er legudeild með 8 rúmum, dag- og göngudeild, fimm-daga deild og heimahlynning sem sinnir á hverjum tíma á milli 45-50 sjúklingum í heimahúsum."
Nýjasta viðbótin er dag- og göngudeildin sem er að hefja starfsemi og er að sögn Jóhönnu Óskar Eiríksdóttur hjúkrunarfræðings opin einn dag í viku fyrsta kastið en markmiðið er að hafa opið þrjá daga vikunnar.
"Deildin tók til starfa fimmtudaginn 20. september og við reiknum með að hafa opið þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga og þá verður boðið upp á iðjuþjálfun á morgnana og sjúkraþjálfun eftir hádegið en þetta á allt eftir að slípast og ræðst talsvert af því hvernig sjúklingahópurinn er samsettur á hverjum tíma. Fólkið borðar hér hádegismat og þegar fimmdaga deildin verður komin í gagnið þar sem sjúklingar geta lagst inn frá mánudegi til föstudags þá verða þessar deildir reknar saman að nokkru leyti, hvað varðar iðju- og sjúkraþjálfunina og aðra meðferð sem boðið er uppá."
Valgerður lýsir markmiðum dagdeildarinnar með þeim orðum að henni sé ætlað að bæta lífsgæði einstaklinga sem þiggja líknandi meðferð og dvelja heima. "Við erum í nánu samstarfi við sjúklinginn og þá aðila sem sinna honum og fjölskyldu hans. Dagdeildin á að viðhalda sem mestu sjálfstæði einstaklingsins með endurhæfingu og hæfingu, ásamt markvissri meðferð einkenna og eftirliti. Tilgangurinn er einnig að minnka félagslega einangrun og veita andlegan stuðning til að einstaklingurinn ráði betur við streitu, kvíða og þunglyndi, efla sjálfsmat og sjálfsöryggi og viðhalda von og tilgangi. Það er einnig mikilvægt að veita ráðgjöf og stuðning til aðstandenda."
Líknardeildin er að sögn Valgerðar að langmestu leyti nýtt af krabbameinssjúklingum. "Það er algengur misskilningur að hér dvelji eingöngu einstaklingar sem komnir eru í sína síðustu legu. Sannleikurinn er sá að um 30-50% sjúklinganna útskrifast aftur heim til sín en árlegur fjöldi innlagna á líknardeildina er um 110. Með fjölbreyttari þjónustuleiðum er von okkar að fjölga megi innlögnum enda oft langur biðlisti. Meðalinnlögn í dag er um 22 dagar en helst vildum við ná því niður í 14 daga eins og algengt er víðast hvar erlendis í sambærilegri þjónustu"
Meginmarkmið með starfsemi líknareiningarinnar segir Valgerður vera þau að bæta lífsgæði einstaklinga með lífshættulega sjúkdóma með því að beita markvissri meðferð við erfiðum einkennum sjúkdómsins, draga úr og fyrirbyggja þjáningu. "Okkar hlutverk er einnig að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í líknandi meðferð og sinna kennslu fyrir allar starfstéttir innan heilbrigðiskerfisins. Hér er einnig unnið að rannsóknum og þróunarverkefnum á sviði líknandi meðferðar í tengslum við bæði innlenda og erlenda aðila."
Dóra Halldórsdóttir, Jóhanna Ósk Eiríksdóttir og Valgerður Sigurðardóttir.
Garðurinn er sælureitur á góðum degi.
Málverkið Staður 2000 eftir Erlu Þórarinsdóttur (f. 1955) er gjöf til líknardeildar Landspítala til minningar um hjónin Jóhönnu Björnsdóttur og Ásbjörn Sigfússon frá árgangi 1979 og öðrum vinum úr læknadeild og var afhent líknardeildinni 7. september 2007. Jóhanna lést 30. desember 2006 og Ásbjörn 8. september 2001. Á myndinni eru Ásta og Hulda Ásbjörnsdætur, dætur þeirra hjóna. Hulda útskrifaðist í vor úr læknadeild HÍ en Ásta er í framhaldsnámi í mannfræði í Edinborg.
Málverkið verður í setustofu hinnar nýju dagdeildar við líknareininguna í Kópavogi.
Setustofa hinnar nýju dagdeildar líknareiningarinnar.