10. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Af sjónarhóli stjórnar. Skyldur lækna. Sigurður E. Sigurðsson, Sigurbjörn Sveinsson

u01-fig1

r01-fig1

Ítrekað hefur komið fram í skoðanakönnunum að almenningur ber mikið traust til lækna og er það vel þar sem í þeirra hendur þarf fólk oft að leggja það dýrmætasta sem það á. Það er líka viðurkennd staðreynd að á Íslandi eru gæði heilbrigðisþjónustunnar almennt séð til fyrirmyndar og er það ekki síst að þakka að læknisþjónusta hér er veitt af vel menntuðum og góðum fagmönnum.

Þessu trausti, sem almenningur ber til okkar lækna, fylgir líka ábyrgð. Þó við teljum okkur veita góða og faglega þjónustu þegar til okkar er leitað vegna sjúkdóma og slysa þá höfum við kannski ekki sinnt okkar hlutverki í forvörnum og lýðheilsu sem skyldi. Með þessu er ekki verið að kasta rýrð á þau verk sem lýðheilsustöðin, landlæknisembættið eða einstakir læknar hafa unnið á þessum vettvangi. Hér er verið að brýna fleiri til að koma að þessu.

Það er við hæfi að þeir sem til dæmis sinna fórnarlömbum reykinga, annarra óhollra lífshátta og ofbeldis stígi fram á opinberan vettvang og reyni í krafti sinnar þekkingar, reynslu og þess traust sem til okkar er borið að stuðla að betri heilsu þjóðarinnar. Gott dæmi um þetta og í raun kveikjan að þessum hugleiðingum er sú umræða sem fram hefur farið um ofbeldið í miðbæ Reykjavíkur. Þar hafa læknar slysadeildar ítrekað komið fram í fjölmiðlum og bent á hversu slæmt ástandið er og að þörf sé úrbóta. Þetta virtist um tíma barátta við vindmyllur en með aukinni fjölmiðlaumfjöllun og vakningu yfirvalda virðist nú hafa orðið viðsnúningur og dregið hefur úr ósómanum að minnsta kosti um sinn.

Annað skemmtilegt dæmi úr fortíðinni er áskorun stjórnar Læknafélags Akureyrar þ. 10. mars 1981 til Flugfélags Íslands um að banna algerlega reykingar á flugleiðinni Akureyri-Reykjavík en þá var leyft að reykja öðru megin í flugvélinni. Í kjölfarið varð sennilega fyrsta reyklausa áætlunarflugið hér á landi og framhaldið þekkja allir fram til dagsins í dag með fleiri og fleiri reykbönnum. Þar velti lítil þúfa þungu hlassi.

Þetta eru eingöngu tvö dæmi en þau eru fleiri og of langt mál að telja upp í stuttum pistli. Hins vegar er þetta verkefni sem læknar geta sameinast um og ekki eru deildar meiningar um, heldur kannski frekar að sitji hjá í amstri dagsins. Í ráðherrastól heilbrigðisráðuneytis er ný sestur nýr ráðherra. Eðlilegt er að ætla honum tíma til að kynna sér starfssvið sitt gaumgæfilega áður en lögð er fram fullmótuð stefna. Hins vegar eru ákveðnar vísbendingar um nú þegar, að þessi ráðherra hafi mikinn áhuga á lýðheilsumálum og vilji ná árangri á því sviði.

Þar er ráðherra samstíga læknastéttinni og má þar leggja grundvöll að góðu samstarfi ráðuneytis og lækna. Þegar menn hafa fundið traustan flöt á samskiptum á einum stað verður vafalaust auðveldara að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma annars staðar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica