09. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Minningaorð um Ólaf Gunnlaugsson

1026_F0100_optÓlafur Gunnlaugsson læknir andaðist 28. júní eftir stutta legu. Banameinið var heilablæðing. Hann var fæddur 6. október 1934 í Reykjavík. Foreldrarnir voru Ólína Magnea Jónsdóttir húsfreyja og Gunnlaugur Jónsson verkamaður.

Bernsku sína og æsku ól hann austast í austurbænum þess tíma í Þverholtinu og gekk í Austurbæjarskólann. Snemma þótti hann námsfús sem skilaði honum greiðlega inn í M.R. þaðan sem hann útskrifaðist stúdent tvítugur að aldri með góðri einkunn.

Vissulega hefur það verið gott samfélag á fyrri hluta síðustu aldar, sem gerði svo mörgum börnum efnalítilla foreldra kleift að ganga menntaveginn. En fleira þurfti til að koma og umfram allt gáfur og vinnusemi ungmennisins sjálfs. Ólafur kostaði með eigin vinnu hluta af sínu námi frá upphafi. Ungur mun hann hafa sett stefnu á læknisnám. Hann innritaðist í læknadeild H.Í. og lauk þaðan embættisprófi 1962. Sem ungur maður átti hann við meltingarkvilla að stríða og seint á námstímanum ágerðist hann svo að skurðaðgerð var nauðsynleg, en í kjölfar hennar urðu innvortis blæðingar svo gríðarlegar að lífi hans var ógnað. Það er í minnum haft að læknanemar, félagar hans skiptust á um að vaka yfir honum á nóttunni og má segja að það hafi verið gjörgæsla þess tíma.

Óhjákvæmilega hafa þessi veikindi gert honum námið torsóttara, en eftir hremmingarnar náði Ólafur prýðisheilsu sem hélst lengst af síðan. Sérnámið í BNA var vel heppnað. Hann valdi meltingarsjúkdóma sem sérgrein. Látið hefur verið að því liggja að veikndin hafi ráðið nokkru þar um og væri það ekki einsdæmi. „Medicine cura te ipsum“ sagði einhversstaðar. Ólafur var vandlátur á staði vestanhafs til náms, var fyrst á Northwestern Hospital og síðan á Mayo Clinic í Minnesota 1964 – 1969 og loks á Temple University Hospital í Philadelphia 1968 – 1969.

Ólafi fórst þó sem fleirum að hugurinn leitaði og bar hann heim að fósturjarðar ströndum. Hann hóf störf annarsvegar á einkastofu, sem hann sinnti þar til yfir lauk og hinsvegar á sjúkrahúsi. St Jósefssystra í Landakoti. Starfið þar átti einkar vel við Ólaf. Spítalinn var sérstakur að því leyti að hann var í einkaeigu. Mikil samheldni var milli læknanna og samráð um erfiðari sjúkratilfelli og ekki síður var náið persónulegt samband læknis og sjúklings. Það var Ólafi mikils virði að sinna sínum sjúklingum og sparaði þá hvorki tíma né fyrirhöfn á degi sem nóttu. Um þetta vitna þeir sem gerst þekkja. Ófáar voru þær uppákomur innan fjölskyldu og í vinahópnum sem fóru forgörðum hjá Ólafi af þessum sökum. Við sameiningu Landakots- og Borgarspítala fluttist starfsvettvangur Ólafs inn á Sjúkrahús Reykjavíkur og síðan á Landspítala háskólasjúkrahús. Óhætt er að segja að Ólafi hafi ekki þótt sérlega mikið koma til þessara breytinga og hann hafi saknað andans af gamla Landakoti.

Það má segja að lungann úr síðustu öld hafi íslenskir læknar sótt sérfræðiþekkingu til útlanda og flutt heim allar framfarir á hverjum tíma, ekki einasta fræðilega þekkingu heldur og lyfja og tæknilega kunnáttu. Þetta var þjóðinni dýrmætt og alveg ókeypis. Helsta áþreifanlega framlag Ólafs að þessu leyti var innri speglun á meltingarveginum, á því sviði var hann meðal brautryðjenda.

Hann tók af áhuga þátt í fræðafélagi meltingarlækna og var þar formaður í tvígang, 1971 – 1972 og 1993 – 1997. Hann sat einnig í stjórn Sérfræðingafélags lækna í árunum 1983 – 1986, en á þeim tíma voru tilvísanamál mjög á döfinni og allhart tekist á um þau við stjórnvöld.

Ólafur var glæsimenni tilsýndar, hár og grannvaxinn, hægur en öruggur í framgöngu, dökkhærður og andlitsfallið reglulegt. Við nánari kynni komu mannkostirnir fram. Góðar gáfur og vinnusemi voru þegar nefnd, en staðfesta kom þá í ljós er á reyndi og það var aldrei djúpt á kímninni. Umfram annað var hann þó mikill mannvinur og dýra og gerði beinlínis ekki flugu mein. Hann eignaðist góða konu mikilla mannkosta, Sigríði Ásgeirsdóttur, og fjögur mannvænleg börn.

Með Ólafi er genginn í gegn maður og góður læknir í þess orðs bestu merkingu. Við hinstu kveðju er honum vottuð virðing og eiginkonu og börnum hluttekning.

Jón Hilmar Alfreðsson



Þetta vefsvæði byggir á Eplica