07/08. tbl 93. árg. 2007
Umræða og fréttir
Af sjónarhóli stjórnar. Nýr heilbrigðisráðherra: Fjölbreytt rekstrarform, forvarnir og vísindi í hjáverkum. Sigríður Ólína Haraldsdóttir
Nýr heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hefur tekið við embætti. Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að ríkisstjórnin hefur í hyggju að auka möguleika á fjölbreyttari rekstrarformum í heilbrigðiskerfinu. Þá hlýtur að vera komið að þvíað heimilislæknar fái að stunda stofurekstur eins og aðrir sérfræðingar og geri samning við ríkið um þá þjónustu sem þeir skuldbunda sig til að veita. Þjónustan ætti að vera sú sama og nú fer fram á öllum heilsugæslustöðvum landsins. Fjöldi fólks á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki heimilislækni og er það ótækt.Von er til að heilbrigðisráðherrann stigi þetta skref, þ.e. að leyfa sérfræðingum í heimilislækningum að reka eigin stofur, sem mundi gera fleirum kleift að hafa heimilislækni og er jafnframt sjálfsagt réttlætismál. Hvers vegna eiga ekki allir sérfræðingar í læknisfræði að sitja við sama borð í þessum efnum? Líta má til Noregs í þessu sambandi, en þar starfa heilsugæslustöðvar reknar af ríki/bæjarfélagi og læknum hlið við hlið.
Guðlaugur Þór sagði í fjölmiðlum að hann hefði sérstakan áhuga á forvörnum. Því ber að fagna. Við þurfum í mun meira mæli að beina sjónum okkar að öllum forvörnum. Tóbaksvarnarráð er fagráð sem á að gefa Lýðheilsustöð ráð-leggingar um hvernig standa skuli að forvörnum varðandi reykingar. Ráðið á einnig að fylgjast með því hvernig því fé, sem nota á til tóbaksvarna, er varið en skylt er að verja 0,9% af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarna. Ég var skipuð formaður tóbaks-varnarráðs í janúar sl. og gilti skipunin til 1. júní sl. Tóbaksvarnarráð heldur fundi með starfs- mönnum Lýðheilsustöðvar og þar hefur verið farið yfir mál sem tengjast tóbaksvörnum. Ég hef látið í ljós áhyggjur mínar vegna reykinga ungmenna á þessum fundum. Enn reykja um 10% 10. bekkinga að staðaldri. Það er alltof mikið. Vímuefnafræðsla hefur verið af mjög skornum skammti hingað til, nemendur grunnskóla fá einu sinni á vetri heimsókn fyrrum fíkils sem fræðir þau um bölið sem fylgir vímuefnum. Lýðheilsustöð hefur í samvinnu við skólaheilsugæslu og Miðstöð heilsuverndar barna þýtt og staðfært fræðsluefni um heilsu fyrir börn í grunnskóla. Skólahjúkrunarfræðingar eiga að sjá um fræðsluna. Ég sé fyrir mér að í sumum skólum verði þetta mjög virkt, öðrum ekki. Það er á valdi skólastjórnenda hvort skólahjúkrunarfræðingar fá tíma í stundatöflu til að kynna þetta fyrir nemendum. Heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra ættu að taka höndum saman og gera forvarnir að sérstakri námsgrein, sem ætti sinn stað í stundaskrá grunnskólanema. Að einn af hverjum tíu 15–16 ára unglingum reykir sýnir að fræðsla um skaðsemi reykinga hefur ekki náð til þeirra. Betur má ef duga skal.
Háskóli Íslands hefur sett sér að verða í fremstu röð háskóla í heiminum. Hluti af því markmiði er að fjölga þeim sem ljúka doktorsprófi. Hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi (LSH) er enginn sveigjanleiki í vinnutíma þannig að þeir sem vinna þar geti unnið að rannsóknum. Við erlend háskólasjúkrahús eru víða launaðar sérstakar stöður doktorsnema í læknisfræði, t.d. þriggja ára stöður þar sem unnið er að rannsóknum með það að markmiði að ljúka doktorsprófi. Þessir læknar skila einnig klínískri vinnu, t.d. með vinnu á göngu- deild og annast kennslu læknanema og annarra heilbrigðisstétta. Á LSH ættu að vera gríðarlegir möguleikar hvað varðar rannsóknarvinnu. Efla þarf tengslin við háskólann þannig að allir starfs-menn eigi kost á að nýta sér möguleikana sem felast í því að vinna á háskólasjúkrahúsi. Það á að vera eftirsóknarvert að vinna á LSH, þar ættu að vera möguleikar á að þróast í starfi, að vinna að rannsóknum og launin ættu að vera sambærileg við það sem tíðkast á markaðnum fyrir sambærileg störf. Einkennismerki sjúkrahússins ber það ekki með sér að spítalinn tengist Háskóla Íslands. Á enska bréfsefninu er krossinn efstur og undir honum stendur með mjög smáu letri að um sé að ræða háskólasjúkrahús. Hjá mörgum öðrum háskólasjúkrahúsum erlendis er merki háskólans í öndvegi og þannig er lögð áhersla á tengsl þessara stofnana.