03. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Endurlífgunarráð Íslands og evrópska endurlífgunarráðið

Endurlífgunarráð Íslands er fagráð sérfræðinga á sviði endurlífgunar, stofnað árið 2001. Það starfar á vegum Landlæknisembættisins og er ráðgjafi þess um endurlífgun og skyld málefni. Landlæknir skipar ráðið til fjögurra ára í senn. Meginmarkmið ráðsins er að bjarga mannslífum með því að auka upplýsingar, stuðla að fræðslu og bæta staðla í endurlífgun.

Endurlífgunarráð Íslands:

 

1. fylgist með nýjungum á sviði endurlífgunar

2. vinnur að gerð leiðbeininga og ráðlegginga í endurlífgun og mótar stefnu í endurlífgunarfræðslu til almennings og heilbrigðisstétta

3. kemur á framfæri og stuðlar að rannsóknavinnu

4. kemur á framfæri viðeigandi upplýsingum um endurlífgun

5. eykur meðvitund þjóðfélagsins um mikilvægi þekkingar í endurlífgun

6. samræmir vinnu þeirra sem tengjast rannsóknum og fræðslu á sviði endurlífgunar

 

Í janúar 2006 var gert samkomulag um verkaskiptingu Skyndihjálparráðs og Endurlífgunarráðs og ákveðið að Endurlífgunarráð yrði ráðgefandi um kennslu, útbúnað og vinnuferla í sérhæfðri endurlífgun en Skyndihjálparráð sinnti grunnendurlífgun. Ráðleggingar og kennsla almennings er því í höndum Skyndihjálparráðs.

Endurlífgunarráð telur að markmið ráðsins verði best náð með samvinnu við alþjóðlega aðila.

Evrópska endurlífgunarráðið ERC www.erc.edu er vísindalega stofnun í Evrópu með það markmið að stuðla að auknum lífslíkum með því að bæta endurlífgun í Evrópu svo og að samhæfa starfsemi stofnana sem hafa með endurlífgun að gera. Með því að ganga í ERC verður Endurlífgunarráð Íslands hluti af stærri heild og getur tekið þátt í evrópskri samvinnu og umræðu um endurlífgun. Inngangan veitir aukin tækifæri til að tryggja gæði kennslu í endurlífgun svo og annarra þátta er lúta að endurlífgun.

Æ fleiri Evrópulönd hafa gengið í ráðið og tekið þátt í mótun verkferla við kennslu og útbúnað í sérhæfðri endurlífgun. Engin opinber samhæfing hefur verið í þessum málum í Íslandi. Flestir hafa þó notað kennsluefni og leiðbeiningar frá Bandaríkjunum en hópur kennara er með réttindi frá samtökum bandarískra hjartalækna (AHA) til að kenna á námskeiðum í grunn- og sérhæfðri endurlífgun. Viðhaldi kennsluréttinda hefur þó verið ábótavant en enginn hefur borið ábyrgð á málaflokknum hér á landi. Með inngöngu í ERC tekur Endurlífgunarráð Íslands ábyrgð á kennslu og námskeiðum sem verða stöðluð.

Innganga í ERC er hafin. Fyrsta skrefið var tekið 22.-23. október síðastliðinn er tveir fulltrúar frá ERC komu og héldu námskeið fyrir leiðbeinendur í endurlífgun. Þátttakendur voru 23, bráðatæknar, læknar og hjúkrunarfræðingar. Næsta skref er að halda þrjú námskeið í sérhæfðri endurlífgun með fulltrúum ERC, fjórum kennurum frá Bretlandi. Með námskeiðunum er stefnt að því að fá hóp íslenskra leiðbeinenda með fullgild ERC leiðbeinendaréttindi. Ef allt gengur að óskum verður Ísland fullgildur aðili að ráðinu í lok árs 2007. Þá verða fullgildir kennarar hér á landi og umsjónarmenn sem geta menntað fleiri kennara.

Við inngöngu í ERC skuldbindum við okkur til að fara eftir leiðbeiningum þeirra um kennslu og námskeið. Við fáum kennslugögn og skipulag námskeiða frá ERC og getum þýtt þau á íslensku ef vilji er fyrir hendi. Breytingar vegna sérstakra aðstæðna hér á landi verður hægt að gera með því að bera það undir ERC og fá samþykki þeirra.

Eins og fram hefur komið starfar Endurlífgunarráð á vegum landlæknis og er án fjárframlaga. Meðlimir fá ekkert greitt fyrir setu sína en vinna flestir annaðhvort í frítíma eða launuðu leyfi frá vinnuveitenda. Ferðakostnaður ráðsins er greiddur af landlæknisembættinu.

Kostnaður við að ganga í ERC er óbeinn. Engar greiðslur eru til ERC vegna inngöngunnar en ERC hefur tekjur af námskeiðunum með bókum og skírteinum. ERC hefur styrkt undirbúninginn með því að greiða fargjald kennara hingað. Þessir kennarar kenna hér launalaust, aðeins uppihald þeirra er greitt af okkur. Sá kostnaður sem fellur til vegna inngöngunnar er mestur í upphafi og Endurlífgunarráð Íslands hefur leitað eftir fjárstyrk frá ýmsum sjóðum vegna þessa. Kostnaður við setu í ráðinu á ekki að vera mikill, vegna skráningar á námskeiðum og nemendum auk endurmenntunar kennara. Stefnt er að opnun heimasíðu, www.endurlifgun.is þar sem skráning og upplýsingar um námskeiðin fara fram. Landlæknisembættið mun reka heimasíðuna. Þátttaka í starfi ERC er mjög mikilvæg en verður þó háð áhuga og getu Endurlífgunarráðs Íslands eða fulltrúa þess. Markmiðið er að sækja að minnsta kosti einn fund á ári auk ráðstefnu ERC á tveggja ára fresti. Jafnframt er aukinn möguleiki á samvinnu í rannsóknum.

Önnur málefni sem Endurlífgunarráð Íslands vinnur að um þessar mundir og tengjast markmiðum ráðsins eru meðal annars:

1. Gerð heimasíðunnar www.endurlifgun.is. Þar mun í framtíðinni verða aðgengilegar allar leiðbeiningar sem ráðið gefur út, auk upplýsinga um námskeið í sérhæfðri endurlífgun.

2. Undirbúningur á sameiginlegri skráningu fyrir endurlífgun utan sjúkrahúsa fyrir allt landið samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Í dag er nokkuð góð skráning hjá neyðarbílnum og er von til að hægt sé að útfæra hana. Með því að ná yfir allt landið aukast möguleikar okkar á samvinnu á sviði rannsókna og gæðamat verður auðveldara.

3. Leiðbeiningar um þjálfun og kennslu heilbrigðisstarfsfólks í endurlífgun, innan stofnana. Í dag er hver stofnun með sínar venjur og eru þær mjög misjafnar. Námskeið í endurlífgun kosta bæði peninga og tíma fyrir stofnanir. Með slíkum leiðbeiningum er von til að þjálfunin verði markvissari, betur skipulögð og með sem minnstum tilkostnaði.

 

Áhugasamir nemendur: Viðar Magnússon og Bjarni Þór Eyvindsson.

Helga Magnúsdóttir, Hildigunnur Svavarsdóttir og John Ballance, kennari frá ERC á námskeiði í október 2006.Þetta vefsvæði byggir á Eplica