03. tbl 93. árg. 2007

Hugleiðing höfundar. Læknisleikur. Guðmundur Andri Thorsson

andri_notaMér verður stundum hugsað til sögu af gömlum félaga mínum Jóni Thoroddsen, syni þeirra Drífu heitinnar Viðar málara og rithöfundar og Skúla heitins Thoroddsens sem var læknir. Jón svaraði stundum í heimilissímann sem krakki eins og gengur og stundum voru það sjúklingar að leita ráða hjá lækninum sínum, en líf Skúla á þessum árum var ein samfelld læknavakt. Fyrir kom að Skúli var ekki heima en slík var trú sjúklinganna á læknagenunum að þeir spurðu þá bara drenginn í staðinn, sem svaraði vitaskuld eftir bestu getu - og hefur kannski heyrt föður sinn gefa góð ráð og leiðbeiningar í símanum.

Nema hvað: Íslendingar mega helst ekki sjá börn án þess að spyrja undir eins hvað þau ætli að verða þegar þau verði stór, enda hefur bernskan löngum verið talin hér á landi einhvers konar limbó sem einstaklingar eru í á meðan þeir bíða þess að verða eitthvað raunverulegt. Hann Nonni litli átti gott svar við þessari eilífu spurningu: „Ætli maður verði ekki bara læknir,“ sagði hann og dæsti ögn mæðulega: „Maður kann hvort sem er ekkert annað.“

Hann varð ekki læknir heldur heimspekingur - sem er það fólk sem fæst við spurninguna um það hver við erum - og kennari - sem er það fólk sem fæst við það sem við kunnum.

Í aðra röndina svaraði Nonni litli eins og hver annar stoltur vörubílstjórasonur - ég ætla að verða það sem pabbi er - en í hina röndina svarar hann eins og einstaklingur sem hefur þegar verið úthlutað hlutskipti: maður kann hvort sem er ekkert annað. Hvað kunni hann? Kannski kunni hann að segja: Þú skalt bara reyna að halda kyrru fyrir og ekki ofreyna þig. Kannski sagði hann: Þú verður að taka lýsi... Og kannski sagði hann: Þú skalt mæla stelpuna og ef hún er með yfir 37 þá er hún með hita...

Ég er ekki viss um að hann hafi sagt: Gefðu barninu eina teskeið af rauðu mixtúrunni en hitt þykist ég nokkuð viss um að hann hefur verið að leika sér. Það er nefnilega það sem börn kunna og eiginlega ekkert annað. Vel heppnuð bernska er samfelldur leikur og samfellt nám, því þetta tvennt verður naumast slitið sundur hjá barni sem fær að vera barn.

Hann var í læknisleik og þar með kunni hann að vera læknir. Ef til vill hefur hann kunnað nokkrar einfaldar setningar sem hann hefur heyrt pabba sinn segja við fólk og hann hefur kunnað að segja þær með þeirri traustvekjandi mýkt í málrómnum sem allir góðir læknar hafa til að bera. Hann hefur meira að segja jafnvel hugsanlega kunnað að segja hugsi mmmhmm eins djúpum rómi og hann gat á meðan sjúklingurinn rakti raunir sínar. Og þar með var hann læknir.

Mér verður stundum hugsað til þessarar sögu. Mér varð til dæmis hugsað til hennar nýlega þegar ég horfði á helsta fréttaauka landsmanna, Kastljósið, þar sem Trausti Valdimarsson, sérfræðingur í meltingarsjúkdómum, mátti rökræða stólpípur við Jónínu Benediktsdóttur íþróttakennara, eins og þau væru jafningjar í þekkingu á öllum hlykkjum og útskotum meltingarvegarins og jafn bær til umferðarstjórnunar þar, og hún vissi jafnvel eitt og annað um þetta sem honum væri hulið. Nú hafa Íslendingar löngum vitað fátt skemmtilegra en gamansögur um verkfræðinga sem vissu ekki eitthvað um eitthvað brúarstæði sem bóndinn á bænum vissi af reynslu sinni og því fræga brjóstviti sem þjóðin virðist almennt telja að hún hafi til að bera umfram aðra og veiti henni djúpa innsýn í ótrúlegustu fræði: Íslendingar hafa takmarkalausa trú á nánast guðlegu innsæi sínu gagnvart ótrúlegustu verkefnum, en samt eru því takmörk sett hvað þeir telja sig ráða við. Það er til dæmis lítið um sjálfboðaliða í flugumferðastjórn. Við sjáum sjaldan menntaða flugumferðastjóra rökræða um fag sitt við fólk úti í bæ sem telur sig vita betur hvernig beri að haga umferðarstjórn háloftanna.?

En fólkið langar hins vegar í læknisleik. Þegar kemur að læknisfræðinni eru furðu margir ekki vaxnir upp úr hlutverkjaleikjunum.

Stólpípuráðleggingar íþróttakennara sem blæs á allt sem sérfræðingur í meltingarvegi og saurlifnaði þar hefur að segja eru bara eitt dæmi úr langri sögu skottulækninga á Íslandi. Af hverju eru ómenntaðir sérfræðingar í sjúkdómum og líkamsstarfsemi hér á annarri hverri þúfu? Kannski er það dulúðin sem löngum hefur umlukið læknisfræði - galdralegar launhelgarnar sem læknar nota til að aðskilja sig fákunnandi múgnum: latínutuldur, ólæsileg rithönd og hvítir sloppar... Kannski er ómótstæðilegt að öðlast vald yfir annarri manneskju með því að hlutast til um líkamsstarfsemi hennar... Kannski finnst okkur að við hljótum að hafa vit á eigin líkama: ég hlýt að vita að minnsta kosti jafn mikið um verkinn í mínu eigin prívatbaki og einhver annar, þótt sá skreyti sig og spjátri með einhverjum fínum gráðum...

En í rauninni snýst þetta allt um tvær sagnir: að vera og að kunna og samhengið þar á milli: maður er það sem maður kann.

Þetta gleymist stundum.

 

 

 

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica