02. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Aukinn starfsþroski - bætt heilbrigðisþjónusta

Fastanefnd evrópskra lækna, CPME, og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ESB, stóðu fyrir fundi 14. desember sl. í Lúxemborg um starfsþroska læknastéttarinnar. Fulltrúum ýmissa evrópskra læknafélaga, annarra félaga evrópskra heilbrigðisstarfsmanna, fulltrúum lyfjaiðnaðarins, tryggingafélaga og menntastofnana var einnig boðið til fundarins og höfðu sumir þessara aðila framsögu. Fyrir fundinum lá uppkast að samáliti um starfsþroska lækna og var það samþykkt með litlum breytingum. Birtist íslensk þýðing þess hér með. Stjórn LÍ og Fræðslustofnun lækna hafa símenntunarmál lækna til sérstaklegrar athugunar þetta misserið og munu halda vinnufund um málið um miðjan mars. Viðræður við vinnuveitandann eru að hefjast um hugsanlegar breytingar á samningsbundnum endurmenntunarréttindum lækna. Þær eru að frumkvæði ríkisins og óvíst til hvers þær leiða.

Aukinn starfsþroski - Gæði heilbrigðisþjónustunnar aukin með öryggi sjúklinga að leiðarljósi

Yfirlýsing um samálit

Á tæplega en einum mannsaldri hafa orðið stórstígar framfarir í læknavísindum og sú þróun heldur áfram. Beiting framfaranna er háð því að læknar læri hvernig ný tækni, meðferðir og klínísk hugtök geti bætt bæði gæði og öryggi þeirrar umönnunar sem þeir veita sjúklingum. Allt frá upphafi hafa læknar gert sér grein fyrir mikilvægi menntunar og hún hefur verið kjarni fagmennsku stéttarinnar og grunnregla í siðfræði hennar. Á nýrri öld, sem einkennist af hraðari breytingum, flóknari veruleika, áður óþekktri aukningu upplýsinga og stöðugt vaxandi væntingum samfélagsins, er afar mikilvægt að læknar njóti stuðnings í símenntun sinni, allt frá læknisnámi þar til þeir setjast í helgan stein. Njóti þeir þannig stuðnings og sé þeim treyst fyrir þeirri ábyrgð munu læknar verða færari um að beita gagnlegum áhrifum menntunarinnar og með þeim hætti að þróa og bæta klíníska frammistöðu sína. Auk þess að stuðla að bættri umönnun einstakra sjúklinga er aukinn starfsþroski einnig mikilvægur þáttur í að auka gæði heilbrigðiskerfisins. Það gerist með því að læknar verða meðvitaðir um þörfina fyrir bætta heilbrigðisþjónustu og hvernig eigi að ná því markmiði. Vegna ábyrgðar læknanna, bæði á sviði lækninga og stjórnunar, eru þeir vel í sveit settir til að framfylgja gagnlegum breytingum á gæðum, hagkvæmni og virkni heilbrigðisþjónustunnar. Þó grunnreglum þessarar yfirlýsingar sé einkum beint að auknum starfsþroska lækna eiga þær við í allri hinni þverfaglegu heilbrigðisþjónustu nútímans og gilda því einnig um aðrar heilbrigðisstéttir.

1) Aukinn starfsþroska má skilgreina sem þær aðferðir til menntunar sem læknar nýta sér til að tryggja að þeir viðhaldi og bæti faglega hæfni sína og klíníska frammistöðu. Þannig nær aukinn starfsþroski einnig yfir símenntun lækna og meira en það.

2) Það er á siðferðilegri og faglegri ábyrgð sérhvers starfandi læknis að tryggja að umönnun sem hann veitir sjúklingum sé örugg og byggð á gildum vísindalegum gögnum. Til að svo megi vera verða allir læknar að taka virkan þátt í að auka starfsþroska í sérgreinum sínum.

3) Það eru á endanum sjúklingar sem njóta góðs af því að læknarnir auki starfsþroska sinn þar sem heilbrigðisþjónustan verður betri og öruggari. Sjúklingar njóta einnig góðs af auknu framboði fræðsluefnis um lækningar því þannig geta þeir kynnt sér betur eigin heilsu, veikindi og meðferð. Sú þekking yrði efld enn frekar með því að auka hlutverk lækna í upplýsingamiðlun og samskiptum við sjúklinga sína.

4) Einu gildir hvers eðlis heilbrigðiskerfið er á vegum vinnuveitanda, með beingreiðslum eða endurgreiðslum frá tryggingafélagi - veita verður tilföngum til að tryggja að læknar geti sinnt því að auka starfsþroska sinn. Meðal nauðsynlegra tilfanga til að styðja við aukinn starfsþroska er fræðsla, aðgangur að upplýsingatækni, tími fyrir lækna að sinna menntun, stuðningur samstarfsmanna við „lærdómsmenningu“ og fjármunir ásamt menntunarferlum henni til stuðnings.

5) Læknar eru mjög vanir að læra en gera það með mismunandi hætti. Taka verður tillit til þess. Styðja ætti lækna til þess að notfæra sér þær námsaðferðir sem þeir kjósa í samræmi við mat á námsþörf þeirra og framboð menntunartækifæra verður að vera nógu fjölbreytt til að það sé hægt. Einnig þarf að hvetja lækna til að þróa nýjar lærdómsleiðir og kynna sér hvernig er hægt að nýta sér sem best nýja tækni sem getur auðveldað læknismenntun.

6) Sérhver starfandi læknir verður að viðhalda þeim þáttum aukins starfsþroska sem eiga við um alla lækna, svo sem góð samskipti, teymisvinna, draga lærdóm af endurskoðun og rannsóknum. Á sama hátt verður sérhver læknir að sinna „sérhæfðum“ þáttum við að auka starfsþroska fyrir hverja sérgrein eða undirsérgrein sem eiga við um sérsvið læknisins.

7) Sérstakri athygli verður að beina að vinnuumhverfi læknisins til að tryggja að þar sé stuðningur við að hann læri „í starfi“. Þannig eru læknar hvattir til að hugsa um og læra af atriðum sem eiga beint við um klínísk störf þeirra. Læknar eru mikilvægur hluti af teymum í heilbrigðiskerfinu og hvetja ætti þá til að styðja við fjölfaglega teymismenntun þar sem hún snertir umönnun sjúklinga.

8) Læknar ættu einnig að taka þátt í læknismenntun utan vinnustaðar, svo sem með lestri, fjarnámi, námi í smáum hópum og klínískum ráðstefnum. Þannig er stutt við þróun menntunar með vísun til menntunarstaðla sem ákveðnir eru af utanaðkomandi aðilum.

9) Mikilvægt er að tryggja að menntun sé líka sinnt þegar vandi kann að hafa komið upp í heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt því ætti að tengja menntun við klíníska endurskoðun, endurgjöf frá sjúklingum og öðrum læknum, sem og skýrslukerfi fyrir klínísk/alvarleg atvik, til að tryggja að slíkt stuðli að starfsmenningu þar sem unnið er að því að bæta gæði og öryggi.

10) Læknar ættu að hugsa um það sem þeir hafa lært og hvernig þeir geti beitt því í klínískum störfum sínum. Sérhver læknir ætti að fara reglulega yfir hvernig hann hefur aukið starfsþroska sinn, helst með samtali við aðra lækna, og skoða hvaða sviðum þarf að huga að áður en næsta mat fer fram. Til að auðvelda þetta ættu læknar að halda yfirlit um starfsþroska sinn og helst þannig að tilgreint sé hvað þeir hafi lært. Slíkt kerfi sem byggir á endurskoðun settra markmiða við að auka starfsþroska og þeirra sem hefur verið náð, er einnig grundvöllur fyrir ábyrgt sjálfsmat, auk þess sem það styður góða menntun.

11) Til að tryggja að læknar viti að þeir taki þátt í að auka starfsþroska sinn með formlegum hætti sem uppfyllir viðeigandi háa gæðastaðla verður að beita gæðaeftirliti sem byggir á vottun atvika til að auka starfsþroska og vottun veitanda. Yfirleitt er slíkt gert á landsvísu en hjá Evrópska vottunarráðinu fyrir símenntun lækna (EACCME) er einnig hægt að staðfesta vottun fyrir alþjóðlega fundi.

12) Til staðar verða að vera viðeigandi reglur um formlega starfsemi á sviði aukins starfsþroska. Allir þeir sem leggja til formlegar leiðir til að auka starfsþroska verða að fara eftir reglum, yfirleitt á landsvísu, sem tryggja að slík starfsemi verði laus við alla hlutdrægni. Fyrir verður að liggja skýr yfirlýsing frá skipuleggjendum og fyrirlesurum um alla mögulega og raunverulega hagsmunaárekstra, sem og gegnsæi varðandi fjármögnun fræðslu.Þetta vefsvæði byggir á Eplica