01. tbl 93. árg. 2007
Umræða og fréttir
Löngu tímabært að endurskoða reglugerðina
"Það er orðið löngu tímabært að endurskoða reglugerð um sérfræðileyfi," segir Helgi Jónsson sérfræðingur í gigtlækningum og formaður sérfræðinefndar heilbrigðisráðuneytisins, en nefndin fer yfir allar umsóknir um sérfræðileyfi og mælir með þeim sem standast kröfur reglugerðarinnar.
"Reglugerðin er frá árinu 1997 og byggir á þeirra tíma aðferðum við mat á sérfræðiréttindum og byggir fyrst og fremst á tímalengd sérfræðinámsins. Með því er átt við hvort umsækjandi hafi starfað að minnsta kosti 4 ½ ár sem aðstoðarlæknir á deild í viðkomandi sérgrein, hafi starfað í eitt ár á annarri deild eða stundað rannsóknarstörf sem metin eru til jafns við eins árs starf á sjúkrahúsdeild. Þetta eru kröfur reglugerðarinnar og þó í henni séu klausur um nám og viðurkenndar námsstofnanir þá er þetta frekar losaralegt allt saman," segir Helgi.
Hann segir að kröfur um sérfræðinám hafi tekið hraðfara breytingum á undanförnum árum, þekkingaraukning hafi verið gríðarleg og starfstímalengd ein og sér geti varla talist fullnægjandi þegar meta á hvort viðkomandi hafi náð þeirri sérfræðiþekkingu sem nútíminn gerir kröfur um.
"Um allan heim er lögð æ meiri áhersla á námsþátt sérfræðiþjálfunarinnar, byggja hana upp sem skipulagðar námstöður. Hér á landi hefur til dæmis verið unnin mikil og góð vinna við uppbyggingu fyrrihluta sérfræðináms í mörgum greinum, ekki síst í lyflækningum sem ég þekki best til. Við háskólasjúkrahús víða á Norðurlöndunum hefur verið tekin upp sú aðferð að prófessor eða annar sérfræðingur taki að sér hlutverk handleiðara og meti síðan hvenær viðkomandi læknir sé tilbúinn til að öðlast sérfræðiviðurkenningu.
Eins og reglugerðin er núna nægir að fólk hafi gegnt aðstoðarlæknisstöðum á sérdeildum í nægilega langan tíma, kannski uppsafnaður tími í afleysingum á mörgum deildum og litlar sem engar upplýsingar um hvað viðkomandi nákvæmlega fékkst við á starfstímanum. Það er varla boðlegt að starfa eftir slíkum reglum í dag."
Helgi segir að reglugerðin standist vissulega samanburð við reglugerðir víða í Evrópu en ef litið sé til Norðurlandanna sérstaklega þá sé samanburðurinn okkur verulega óhagstæður. Þar hafi kröfurnar verið hertar á undanförnum árum og nú sé svo komið að íslenska reglugerðin um sérfræðileyfi standi þeim norrænu verulega að baki.
"Norðurlöndin hafa skipulagt sérfræðinámið mun betur og uppfært kröfur í reglugerðum sínum í samræmi við það og í sumum fögum hafa þeir hreinlega lengt sérfræðinámið. Og þar liggur okkar langstærsti vandi þar sem talsvert stór hópur erlendra lækna sækir nú um íslenskt sérfræðileyfi þótt þeir hafi engin áform um að starfa á Íslandi. Langflestir þessara erlendu umsækjenda eru norskir, en þeir eru að notfæra sér íslensku reglugerðina til að stytta nám sitt í Noregi um allt að tvö ár. Þetta eru fyrst og fremst læknar í bæklunarlækningum og öðrum undirgreinum skurðlækninga svo sem lýtalækningum og einnig svæfingalækningum. Þessi fög eru lengri samkvæmt norskri reglugerð og þar eru gerðar mun ákveðnari kröfur um námsframvindu, þeir þurfa að halda skrá yfir allar aðgerðir sem þeir framkvæma og kröfurnar eru talsvert stífar um framgang í náminu. Við verðum að fylgja reglugerðinni og veita þessum umsækjendum sérfræðiviðurkenningu þó vitað sé að þeir muni aldrei starfa á Íslandi en séu eingöngu að þessu til að fá sérfræðiviðurkenninguna fyrr en ella. Samningar um að sérfræðiviðurkenning veitt af einu Norðurlandanna gildi á þeim öllum kemur þeim til góða að þessu leyti."
Helgi segir enga launung á því að íslenskir læknar séu ósáttir við þetta fyrirkomulag og telji að með þessu sé verið að rýra gildi íslenskrar sérfræðiviðurkenningar. Það stangist á við þá ímynd sem menn vilja að íslenskt læknanám hafi á sér; að það sé með því besta og kröfuharðasta sem völ er á.
Aðspurður um hvaða breytingar hann telji mögulegar á reglugerðinni til að mæta þeim auknu kröfum sem gerðar eru segir hann svarið í rauninni tvíþætt. "Annars vegar aðgerðir sem beinast að því að draga úr straumi umsókna erlendra lækna sem eru einungis að stytta sér leið í námi sínu og hafa alls ekki í hyggju að starfa hér á Íslandi. Til að draga úr þessu gætum við farið sömu leið og Bretar hafa gert, að krefja umsækjendur um talsvert hátt leyfisgjald og boða þá hingað í viðtal. Það myndi eflaust draga úr ásókninni til muna. Í dag kostar ekkert að fá íslenskt sérfræðileyfi og umsækjandi þarf ekki að koma hingað í eigin persónu, honum nægir að senda gögnin. Fleiri breytingar hafa verið skoðaðar, en erfitt er um vik vegna skuldbindinga Íslands við Norðurlöndin og EES. Síðan er eins og ég sagði í upphafi löngu tímabært að endurskoða reglugerðina í heild með tilliti til breyttra aðstæðna, aukinnar þekkingar og meiri krafna um skipulagt nám og námsframvindu. Það er vinna sem ætti í rauninni að vera löngu komin í gang og reglugerð af þessu tagi þyrfti að endurskoða allt að því árlega ef hún ætti að vera í fullu í samræmi við framþróun í læknavísindum á hverjum tíma."