01. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Best að taka dönsku reglugerðina til fyrirmyndar

Reynir Tómas Geirsson prófessor og yfirlæknir á kvennasviði Landspítalans hefur um árabil talað fyrir endurskoðun reglugerðarinnar um lækninga- og sérfræðileyfi.

„Síðastliðin 6-7 ár hefur Læknadeildin verið að reyna fá reglugerðinni breytt. Ég var þá varadeildarforseti og síðar deildarforseti og kom talsvert að þessum málum. Í fyrsta lagi er brýnt að aðskilja umfjöllun um lækningaleyfi frá sérfræðileyfum. Lækningaleyfið veitir mikilsverð starfsréttindi sem ekki er sjálfgefið að menn fái eða haldi til æviloka, fremur en flugstjórar haldi sínu flughæfisskírteini. Hér byrja konur og karlar að stunda lækningar í ókláruðu námi og án þess að reynt hafi á kunnáttu þeirra ef þau koma erlendis frá eins og nú er að verða mun algengara. Það þarf að koma á takmörkuðu lækningaleyfi til eins árs í senn, bæði til læknanema, Íslendinga og útlendinga sem eru að vinna hér án þess að hafa lokið kandídatsári. Að loknu kandídatsári ætti að gefa út almennt lækningaleyfi til til dæmis fimm ára í byrjun. Hverfi viðkomandi af landinu ættu slík leyfi að falla úr gildi. Bretland hefur slíka takmörkun (limited registration). Takmarkað leyfi á að tengjast útgáfu svokallaðs „læknanúmers“ sem læknanemar fá á fjórða námsári. Það er of frjálslega farið með þetta „númer“ sem notað er til að lögmæta lyfseðla, rannsóknarbeiðnir og fleira. Hugsanlegt er að einhver fái svona „númer“ og ljúki svo ekki námi, en geti til dæmis haldið áfram að skrifa lyfseðla um skeið án þes að hafa lokið prófi. Þetta er séríslenskt fyrirbrigði, gert til að manna læknisstöður til afleysinga og til að mæta skorti á læknum. Þetta þarf að endurskoða.“

Gangast undir reglulegt hæfnispróf

„Spurningin um víðtæki lækningaleyfis er líka mikilsverð,“ segir Reynir. „Á Íslandi er lækningaleyfið nánast ótakmarkað og mætti ég, kvensjúkdóma- og fæðingarlæknirinn, gera heilaskurð ef ég á annað borð treysti mér til þess. Það þarf að gera lækningaleyfið sérhæfðara og ganga úr skugga um að menn viðhaldi hæfni sinni. Í löndunum í kringum okkur er verið að skoða hvort læknar eigi að gangast undir hæfnispróf eða sanna framhaldsmenntun og framhaldsþjálfun sína með reglulegu millibili.“

Reynir segir mjög auðvelt fyrir lækna hvar sem er innan Evrópusambandsins eða Evrópska efnahagssvæðisins að fá íslenskt lækningaleyfi. „Ekki þarf annað en senda viðeigandi pappíra til íslenska heilbrigðisráðuneytisins með réttum stimplum og vatnsmerkjum og ef ráðuneytinu finnst ekkert við þau plögg að athuga færðu lækningaleyfið sent til baka í póstinum. Í Bretlandi er þess krafist að viðkomandi mæti í eigin persónu til að sækja leyfið. Umsækjandi verður að færa sönnur á að hann sé sá sem hann segist vera vegna þess hve fölsun skjala er raunverulegt vandamál. Greiða þarf talsvert hátt gjald fyrir leyfið, einkum sérfræðileyfi, en hér er gjaldið mjög lágt og stendur engan veginn undir þeirri vinnu sem ætti að fara í meðal annars að sannreyna menntunina með því að fá upplýsingar beint frá erlendum háskólum og meta nám að gæðum. Reglur um þetta þarf nauðsynlega að endurskoða.“

Reglur um próf hjá læknadeild HÍ fyrir þá sem koma annars staðar frá voru hins vegar bættar verulega fyrir fjórum árum og nú verða umsækjendur að standast próf í öllum megin sérgreinum sem lúta að klínísku starfi auk heilbrigðisfræða og laga- og regluverks lækninga á Íslandi.

„Læknadeild hafði til skamms tíma það hlutverk á hendi að ganga úr skugga um að umsækjendur um lækningaleyfi væru í raun útskrifaðir frá þeim háskóla sem pappírinn var stimplaður af. Þetta er nauðsynlegt eftirlit í heimi þar sem auðvelt er að falsa alls kyns vottorð og pappíra. Þegar ég var deildarforseti í læknadeild þá gerðist það eitt sinn að við fengum fyrirspurn frá sjúkrahúsi í Bandaríkjunum hvort tiltekinn maður með íslensku nafni hefði lokið námi í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands. Í ljós kom að umræddur einstaklingur hafði aldrei stundað nám við læknadeildina. Hví skyldi þetta ekki geta gerst á hinn veginn líka? Læknadeild hefur ekki lengur þetta hlutverk á hendi, heldur gengur heilbrigðisráðuneytið frá þessu sjálft, þó það sé læknadeildin sem hefur bestu forsendurnar fyrir því að sannreyna námsupplýsingar.“

Löngu úrelt reglugerð

Reynir segir að reglugerðin um sérfræðileyfin sé löngu úrelt. „Þetta er gamaldags regluverk með mun vægari kröfum um tímalengd sérnáms í velflestum greinum en víðast hvar í Evrópu. Þá eru kröfurnar sem hér eru gerðar einungis um tímalengd á viðurkenndum stofnunum, oft þarf að afla óháðra upplýsinga um gæði þeirra stofnana sem umsækjendur hafa starfað á, en engar kröfur eru settar um inntak sérfræðinámsins og viðurkenningu náms í heimalandinu. Upplýsingar um þetta eru oft gloppóttar og fábreyttar. Mesti vandinn varðar þá sem sækja hingað með ófullkomin gögn frá ES eða EES og sleppa hér í gegn og fá íslenska pappíra sem gera þeim kleift að fara inn á vinnumarkað sem ekki vildi veita þeim tilskilið leyfi.“

Reynir segir alveg ljóst að í núverandi reglugerð vanti mun ítarlegri skilyrði um sérfræðinámið, inntak þess og kröfur sem gera þurfi varðandi námsstaði heima og erlendis. „Þetta varðar íslenska umsækjendur en er sérstakt vandamál varðandi þá mörgu útlendinga sem eru að leita eftir sérfræðileyfi hér. Í mat á námi þessa fólks fer mikil vinna vegna ófullkominna krafna um upplýsingar og gögn. Hún lendir á tveim fastamönnum sem fá litla umbun og vinna þetta í aukavinnu og einum til viðbótar, „ad hoc“ úr hverri sérgrein sem á að gera þetta launalaust. Greinilegt er að hingað eru oft að sækja um leyfi erlendir einstaklingar sem komast ekki í gegnum kerfið heimafyrir en hafa frétt af því að hér séu reglurnar vægari. Þetta er ekki orðspor sem við læknar viljum að fylgi íslensku sérfræðileyfi. Ef þess væri krafist að umsækjendur tækju hluta af sérfræðinámi sínu hér á landi, eins og flestir Íslendingar gera nú þegar, ef gjald fyrir leyfið væri mun hærra og menn yrðu að mæta sjálfir til að sækja það og framvísa sínum persónuskilríkjum þá yrði strax talsverð breyting til batnaðar, hvað þá ef endurnýjunar leyfisins eftir ákveðinn tíma yrði krafist (revalidation). Stundum er helmingur umsókna sem læknadeild afgreiðir á deildarráðsfundi frá útlendingum sem aldrei ætla sér að stíga fæti á Frón. Það var reynt að hækka leyfisgjaldið fyrir mörgum árum en það tókst ekki. Eins furðulegt og það er þá þarf að sækja til menntamálaráðuneytisins leyfi fyrir hækkun þó heilbrigðisráðuneytið gefi leyfið út. Þannig eru tvö ráðuneyti komin að málinu sem gerir úrlausn ekki auðveldari.“

Reynir tekur undir orð annarra viðmælenda Læknablaðsins að löngu sé tímabært að endurskoða reglugerðina um útgáfu sérfræðileyfa. „Í mínum huga væri langeinfaldast að taka dönsku reglugerðina, sem er góð, þýða hana á íslensku og láta síðan sérfræðifélögin fara yfir það sem að þeim snýr og ganga þannig frá málum að kröfurnar séu í samræmi við það strangasta sem tíðkast í löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Við þurfum þá líka að halda okkur við þær sérgreinar og undirsérgreinar sem viðurkenndar eru í ES svæðinu, en getum ekki búið til eitthvað sem á að henta sérstökum hagsmunum fólks hér heima. Við verðum að fylgja fordæmi landa Evrópusambandsins gegnum aðild okkar að sérgreinasamböndum þess, UEMS, Evrópusamband sérfræðilækna og UPPC, Evrópusamband heimilislækna, og aðild Íslands að EES.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica