01. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Minningar héraðslæknis. Læknisferð að Merkigili

gudmundur-helgi-thor[1]Þegar ég var héraðslæknir á Hofsósi á árunum 1954-61 kom það nokkrum sinnum fyrir að ég sinnti Sauðárkrókshéraði í fjarveru héraðslæknis ef hann þurfti að bregða sér frá og var það gagnkvæmt ef ég þurfti að fara frá. Bæði héruðin voru þá einmenningshéruð, en óheimilt var að fara út úr héraði, nema fá mann til að gegna fyrir sig. Þetta gerðist þó sjaldan og einungis í stuttan tíma í senn.


Það var eitt sinn síðla vetrar að Friðrik J. Friðriksson, sem þá var héraðslæknir á Sauðárkróki, þurfti að víkja sér frá í tvo daga og bað mig að ansa fyrir sig á meðan. Ég játaði þessu að sjálfsögðu. Þegar kom að nefndum degi lauk ég því sem fyrir lá á Hofsósi fyrri hluta dagsins, en fór að því búnu yfir á Sauðárkrók og tók þar á móti sjúklingum til kvölds.


Um það bil sem móttökunni var að ljúka eða í rökkurbyrjun var hringt frá Merkigili í Austurdal. Var Mónika húsfreyja í símanum og tjáði mér að dóttir sín væri mikið veik, hefði háan hita og höfuðverk, og bað mig að koma í vitjun sem allra fyrst. Veður var gott, stillt og bjart, en frost og svellalög mikil. Snjór var ekki mikill, en harðfenni það sem það var. Þegar kom fram á kvöldið, var dauft tunglskin, svo að greina mátti útlínur landslags í grófum dráttum, en ekki í smáatriðum.


Ég var á Willys-jeppa og því einfær um að komast ferða minna á láglendi þar sem greiðfært var. Það varð að samkomulagi að kunnugur maður kæmi á móti mér út á Kjálkann að Norðurá og æki mér upp Austurdalinn, þar sem til þess þyrfti kunnugan mann og vel búinn bíl. Þegar ég kom að Norðurá var þar kominn Hjörleifur Kristinsson frá Gilsbakka í Austurdal, næsta bæ við Merkigil. Hann var á litlum Willys-jeppa með tvöföldum keðjum á öllum hjólum.


Var nú haldið af stað upp Austurdal. Hjörleifur taldi færið varasamt vegna hálku og vonlaust að komast lengra en að Gilsbakka og sagði að ég myndi verða sóttur þangað á hestum. Leiðin upp dalinn liggur í fjallshlíð, sem er í fyrstu aflíðandi, en verður því brattari sem innar dregur og dalurinn þrengist. Lækjarskorningar ganga allvíða þvert á veginn, og voru lækirnir botnfrostnir og uppbólgnir með svellbunkum, sem virtust sums staðar ná niður í Jökulsárgil, en ég sá glitta í gilið, þegar ofar dró í dalinn. Fór þá umhverfið að verða skuggalegt í augum viðvaningsins. Tunglsljósið, sem var dauft, setti á þetta hálfdraugalegan blæ. Svellglottarnir í lækjaskorningunum og gilinu bættu þar ekki um.

Við mjökuðumst upp dalinn í fyrsta og öðrum gír. Það fóru ónot um mig þegar hann var að skrönglast yfir svellbunkana og ég var alltaf að gefa gilinu gætur. Þegar við vorum komnir milli bæjanna Keldulands og Stekkjarhóls komum við að læk, sem hafði breitt sérlega mikið úr sér og myndað breiðan kúptan svellbunka, sem lá niður eftir hlíðinni svo langt sem séð varð. Hér nam Hjörleifur staðar og bað mig að fara út og ganga yfir svellið, sagði að ráðlegra væri að einhver yrði til frásagnar ef illa færi. Síðan tók hann tilhlaup og hleypti á svellbunkann á eins mikilli ferð og unnt var. Jeppinn skrensaði til þegar kom yfir undir hinn bakkann og kom hálfflatur upp að bakkanum. Framhjólin náðu upp á bakkann, en þar staðnæmdist jeppinn og spólaði. Lét Hjörleifur hann spóla á fullri ferð, þar til afturhjólin höfðu grafið sig niður í svellið það langt, að ekki var hætta á, að hann rynni framaf. Stoppaði hann þá jeppann og tókst svo að lempa hann upp á bakkann. Ég staulaðist gangandi yfir og gekk það slysalaust. Hjörleifur lét sér hvergi bregða, var sýnilega vanur slíkum uppákomum.


Var ferðinni nú haldið áfram upp að Gilsbakka, en þá var ekki bílfært lengra. Þar beið ein af systrunum á Merkigili, Elín að nafni, með hesta. Settist ég nú upp á annað hrossið, en Elín upp á hitt, og var síðan haldið af stað inn að Merkigili. Tók hún læknatöskuna til varðveislu, hefur sennilega talið að þar væri henni betur borgið. Bar nú ekkert til tíðinda þar til við komum að svonefndu Stangarlækjargili um það bil miðja vegu milli Gilsbakka og Merkigils. Þetta var alldjúpt gil og brattir harðfennisskaflar í gilsbörmunum beggja megin, þó meira að sunnanverðu og örmjóir troðningar í þeim, rétt að markaði. Elín fór á undan og teymdi hrossið. Þegar hún var komin langleiðina upp á syðri gilbarminn, missti hrossið fótanna, datt á vinstri hliðina og síðan hrygginn og rann skáhalt niður í gilið, lengst af á lendinni, að nokkru uppisitjandi. Ferðin var svo mikil að það rann áleiðis upp í hinn gilbarminn en staðnæmdist síðan og kom undir sig fótunum. Mér fannst þessi atburður furðulegur og jafnframt óhugnanlegur þarna í tunglskímunni, ekki síst vegna þess, að ég vissi af Jökulsárgilinu rétt fyrir neðan og fannst að ferðin gæti allt eins vel endað þar niðri. Ekki sá ég Elínu bregða við þetta. Hún fór þegjandi og sótti hrossið, sem einnig tók þessu með jafnaðargeði, og teymdi það aðra ferð upp skaflinn, og gekk þá allt vel. Ég teymdi svo mitt hross á eftir.


Síðan var ferðinni haldið áfram fet fyrir fet, Elín á undan, ég á eftir. Þóttist ég nú vita, að Merkigilið væri ekki langt undan og sá brátt móta óljóst fyrir því framundan. Ég hafði heyrt sögur af þessu gili. Guðmundur Hagalín hafði þá fyrir nokkru gefið út bók sína um Móníku og dætur hennar og lýst gilinu sem hrikalegum farartálma. Þar hafði að minnsta kosti einn maður hrapað til dauðs og talin mikil mildi að þeir skyldu ekki vera fleiri. Og svo nálguðumst við gilið. Elín stýrði ferðinni, beygði upp með gilinu og nálgaðist brúnina æ meir. Mér varð litið fram af og sá lítið annað en svart, botnlaust myrkur. Þó glampaði á eitthvað, vatn eða ís, óralangt fyrir neðan. Mér fannst ég vera staddur á barmi hengiflugs. Loks fór Elín alveg fram á brúnina og fór að þræða sig eftir örmjóum sneiðingi utaní snarbrattri skriðu. Það var hörsl í troðningnum. Ég minntist uppákomunnar með hrossið rétt áður og líðan mín fór heldur versnandi. Ég fór af baki og teymdi, en Elín sat uppi á sínu hrossi, eins og henni kæmi þetta ekkert við. Loks varð sneiðingurinn svo tæpur, að mig langaði mest til að fara á fjóra fætur og skríða. En Elín sat.


Það er erfitt að lýsa þeim áhrifum, sem þessi augnablik höfðu á mig. Tröllslegt og geigvænlegt umhverfi, glottandi lífsháskinn í öllum áttum og leiðsögumanneskja, sem var svo ósnortin af þessum háska, að það var nánast ómennskt. Rólegheit þessarar konu voru svo gjörsamlega úr öllu samhengi við aðstæður að það var með ólíkindum og vakti mér geig.


Mér tókst þó að láta ekki á neinu bera og fetaði mig áfram einstigið hokinn í hnjánum og forðaðist að líta niður í gilið. Mér fannst ég svífa í lausu lofti. Loks fór Elín af baki og teymdi það yfir gilið. Það gekk allt slysalaust. Mér varð ekki eins mikið um að fara upp sunnan megin, þó að einstigið sé þar sýnu glæfralegra, liggur fram á klettasnösum. Það er alltaf skárra að fara upp en niður í svona tilvikum. Á einum stað bað Elín mig að fara varlega. Þar lá gatan tæpt á snös, en þverhnípt bjarg fyrir ofan.


Þegar upp var komið, var stigið á bak og riðið heim að Merkigili, en það er ekki löng leið. Var þá áliðið nætur. Mér var vísað í allstórt herbergi, sem sennilega hefur verið borðstofa. Þar var langborð með öðrum vegg. Þar sat Mónika húsfreyja fyrir enda, en dætur hennar til beggja handa. Lýsing var fremur dauf í herberginu, og hefur það sennilega verið þess vegna að mér fannst þessar konur meiri um sig og hærri í sæti en þær konur, sem ég hafði áður séð. Það má og vera að þar hafi komið til áhrif frá ferðalaginu eins og það, að ég hafði heyrt mikið látið af afrekum þessara kvenna.


Ég fékk höfðinglegar móttökur hjá Móniku húsfreyju. Ég skoðaði sjúklinginn, og reyndist sjúkdómur hennar ekki eins alvarlegur og óttast var. Ég gat leyst úr vandanum með lyfjum, sem ég hafði tekið með mér. Eftir að ég hafði þegið rausnarlegar veitingar, var lagt af stað sömu leið til baka. Sú ferð gekk áfallalaust. Þá var farið að birta af degi og ég orðinn ögn öruggari með mig. Ég frétti síðar að sjúklingnum hefði reitt vel af.

Þessi ferð hefur orðið mér minnisstæð. Ég kom að Gilsbakka 35 árum síðar og hitti þá fyrir Hjörleif Kristinsson sem bjó þar og var orðinn einsetumaður. Við minntumst þá þessarar ferðar og sagði hann mér að hún hefði verið talsvert umtöluð þar í sveit árin á eftir. Kannske hefur það þótt nokkrum tíðindum sæta að fara yfir Merkigilið í hálku og náttmyrkri.

Merkigil. Horft er yfir gilið til suðvesturs ofan úr hlíðinni á móti. Til vinstri sér klettahlíð Merkidalsins, áframhald Merkigilsins. Vegslóðin krókar sig upp suðvesturkinn gilsins og er aðeins reiðgata en ekki bílvegur. Horft er yfir hálsinn norðan við bæinn Merkigil og sér í Austurdalinn en í baksýn er fjallið milli Austurdals og Vesturdals og er það kollurinn á fjallinu Elliða sem hæst ber. Mynd: Hjalti Pálsson

Hjörleifur á Gilsbakka með hundi sínum árið 1985 á svokölluðum Höfða við Jökulsá. Ljósmyndari óþekktur. Myndin er fengin úr Héraðskjalasafni Skagfirðinga.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica