12. tbl 92. árg. 2006

Hugleiðing höfundar. Vefst okkur íslensk tunga um tönn? Þórarinn Eldjárn

Dagur íslenskrar tungu, 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, hefur náð að festast vel í sessi á þeim ellefu árum sem liðin eru frá því hann var haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti. Misjafnt er þó hvernig dagurinn leggst í taugakerfið, á taugar okkar til móðurmálsins, hvort hann hressir eða hrellir. Sumum er hann dagur reiði en öðrum dagur vonar. Enn öðrum er alveg sama og það er verst, þann flokk fylla þeir sem gefa skít í allt. Við hin, reið eða vongóð, megum þó alls ekki gefa skít í skítgjafana. Æ sér gjöf til gjalda en við skítþegar megum þó ekki gefa hann til baka í þá þeim til geðs.

Já, sumir nota þennan dag til að viðra reiði sína yfir bágri stöðu móðurmálsins og kalla á aukna málvernd, eða málhreinsun, helst lögboðna, fleiri málfarslöggur, víkingasveitir og jafnvel dauðasveitir. Þeir vongóðu eru ef til vill sammála því að ástandið sé ekki nógu gott en mæla frekar með málstefnu, málvöndun - og hví ekki að mynda nýyrðið málsókn? Hvað sem því líður eiga reiðir og vongóðir allténd sameiginlega ást sína á tungunni og geta eflt hver annan í gagnkvæmum brýningum og heitstrengingum um að fara ekki á taugum þó eitthvað væsi um fjöreggið. Það er nefnilega hárrétt sem kerlingin sagði forðum, eins og reyndar allt annað sem hún sagði: "Ekkert er jafnseigdrepandi og taugarnar."

"Gat nú skeð," segir einhver, ef til vill skítgjafi sem allt í einu rankar við sér og reynist ekki algjörlega sama um allt: "Allt rétt og satt sem kerlingin sagði forðum en ekkert vit í neinu sem karlinn segir núna." Enda ekki í tísku rétt í bili að hafa metnað fyrir hönd tungunnar. Það er afturhald, málhreinsun, málofverndun, staðið í vegi fyrir eðlilegri þróun . . . tungan felld í óeðlilega fjötra . . . nær ekki að túlka nútímann . . . Um leið kemur rétttrúnaðurinn hlaupandi á vettvang enda fylgir hann alltaf því sem er í tísku. Í misskilinni fjölmenningarvímu heyrast jafnvel þær raddir að í því felist einhver yfirgengileg mismunun að fólk þurfi að tala íslensku á Íslandi. Sem betur fer er rétttrúnaðurinn nú um stundir heldur á móti íslenskri tungu. Sem betur fer segi ég af því hann hefur alltaf rangt fyrir sér.

Vissulega gengur hreintungustefna stundum út í öfgar og vissulega kemur það fyrir að fólk þorir varla að tala af ótta við málvillur. Það hefur stundum borið um of á þeirri skoðun að íslenska sé svo merkilegt mál og beri svo langt af öllum öðrum, jafnt að fegurð sem dýpt og orðgnótt, að það sé eiginlega ekki á færi annarra en andlegra ofurmenna að bera sér hana í munn svo vel fari, hvað þá að láta sjá eitthvað eftir sig á prenti. Eins er hægt að ganga of langt í því að vegsama fornmálið á kostnað nútímamáls. Hætt er við að ungu fólki sem hyggur á ritstörf þyki nokkuð hörð krafa Jóns Helgasonar prófessors sem hann setur fram í bók sinni Handritaspjalli í umfjöllun um Stokkhólms hómilíubókina, einhvern elsta texta íslenskan sem varðveist hefur: ". . . óvíða flóa lindir íslenzks máls tærari en í þessari gömlu bók, og er sá íslenzkur rithöfundur sem ekki hefur þaullesið hana, litlu betur undir starf sitt búinn en sá prestur sem enn á ólesna fjallræðuna." Ég held að vísu að hægt sé að verða skínandi gott skáld á íslensku án þess að hafa einu sinni grænan grun um að hómilíubókin hafi nokkurntíma verið til. Hitt er svo annað mál að það skaðar áreiðanlega engan að lesa hana vel og vandlega.

Æ, segja menn stundum, af hverju þurfum við að dragnast með þetta tungumál sem er svona fátalað og erfitt og getur aldrei slappað af og er alltaf í einhverri hættu og alltaf eitthvað heilagt og hátíðlegt og sífellt í stellingum og varla hægt að nota án þess að saurga það. Hvers vegna getum við ekki ósköp einfaldlega verið eins og allir aðrir: Bara talað og skrifað án þess það sé alltaf eitthvert vesin. Þetta sjónarmið byggir á þeim misskilningi sem virðist furðu útbreiddur að hvergi nema á Íslandi séu uppi áhyggjur af tungumálinu og þróun þess. Að enskir málvöndunarmenn séu ekki til eða danskir hreintungusinnar. Að bara með því að hætta að tala íslensku gætum við náð því draumastigi að mega segja hvað sem er og tjá okkur hvernig sem er. Svona eins og gert er á útlensku, það er að segja ensku.

Inn á við stafar íslenskri tungu ekki fyrst og fremst hætta af slettum og öðrum minni háttar útlitsgöllum. Henni stafar mun meiri hætta af dvínandi orðaforða, óskýrum framburði, tætingslegri hugsun, tafsi, hugarþoku, hikorðum og hjakkorðum. Nákvæmlega því sama og sækir að öðrum tungumálum. Þeir sem þannig tala eru ekkert betur settir með eitthvert annað tungumál, það kæmi alveg jafnilla út. Og sennilega miklu verr. Eins og Þorsteinn Gylfason benti á í bók sinni Að hugsa á íslensku gildir einu hversu góð við teljum okkur í erlendum málum, móðurmálið er þegar allt kemur til alls eina málið sem við getum sagt með nokkrum rétti að við kunnum. Íslendingur sem ekki getur talað og hugsað á íslensku getur það enn síður á nokkru öðru máli.

Út á við stafar íslensku síðan mest hætta nú um stundir af "sefjun enskufargansins" eins og Jóhannes Birkiland orðaði það svo spámannlega á sinni tíð. Ekki einasta vegna æ meira blygðunarleysis fjölmiðla okkar í því að bregða fyrir sig ensku innan um og saman við íslensku eins og sjálfgefið sé að við búum í tvítyngdu þjóðfélagi, heldur ekki síður vegna yfirburðastöðu engilsaxnesks menningarheims í kvikmyndum og sjónvarpsefni sem einhliða er haldið að okkur. Þarna er mikil þörf á harðri sókn og sem betur fer má nú sjá þess merki að stjórnvöld hafi áttað sig á því. Mikilvægur liður í þeirri sókn verður sú nútímavæðing á rekstrarformi Ríkisútvarpsins sem ríkisstjórnin hefur með vanmáttugu meirihlutaofbeldi reynt að koma í gegn á Alþingi um nokkurt skeið. Vonandi er að þessu ofbeldi fáist framgengt sem allra fyrst. Þó illt sé er það nefnilega svo miklu skárra en minnihlutaofbeldið.Þetta vefsvæði byggir á Eplica