11. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Anders Jahre verðlaunin í læknisfræði

Hannes Pétursson geðlæknir tók sæti í haust í stjórn hins virta sjóðs sem stofnaður var af Norðmanninum Anders Jahre og eru verðlaunin úr sjóðnum þau stærstu í rannsóknum í líf- og læknisfræði á Norðurlöndunum. Aðalverðlaunin veitir háskólinn í Osló og eru þau ein milljón norskra króna.

Læknablaðið fór þess á leit við Hannes að hann gerði grein fyrir verðlaununum og skýrði frá sögu þeirra og tilurð. Varð hann góðfúslega við því.

"Að þessu sinni hlaut Jón Storm-Mathisen prófessor í Osló stærri verðlaunin fyrir brautryðjandarannsóknir á boðefnum í heilanum, einkum fyrir rannsóknir á glútamate. Úr hópi yngri vísindamanna deildu þeir Farrukh Abbas Chaudhry prófessor við háskólann í Osló og Poul Nissen prófessor við háskólann í Århus með sér verðlaunum yngri vísindamanna. Chaudhry hefur stundað rannsóknir á flutningspróteinum fyrir glútamate og glútamín. Poul Nissen hlýtur verðlaunin fyrir störf sín við kortlagningu á byggingu þýðingarmikilla frumupróteina sem tengjast próteinmyndunum og flutningi yfir frumuhimnur. "

Anders Jahre verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi rannsóknir á sviði læknisfræði á Norðurlöndum. Öllum virkum prófessorum í læknisfræði á Norðurlöndunum er boðið að senda tilnefningar til valnefndar og berist í lokuðu umslagi til formanns nefndarinnar, Ole M. Sejersted dr.med. Heimilisfang: Institute for Experimental Medical Research, Ullevaal University Hospital, N-0407 Oslo, Noregi. Tilnefningar þurfa að vera í fimm eintökum. Valnefnd tekur afstöðu til tilnefninga en meðal fylgigagna þarf ítarleg meðmæli fyrir þann sem tilnefndur er auk lista yfir vísindaleg verk og curriculum vitae. Erindi á að senda á ensku og valnefnd tekur ekki við tillögum á myndsendi. Í ár þurftu tilnefningar að berast formanni nefndarinnar fyrir 1. febrúar en dagsetning fyrir næsta ár hefur enn ekki verið ákveðin. Fyrirspurnum má beina til formanns valnefndar: o.m.sejersted@medisin.mio.no

Anders August Jahre (1891-1982) var Norð-maður sem m.a. fékkst við skipaútgerð. Hann var þó betur þekktur fyrir hvalveiðar sem hann stundaði frá Sandefjord. Hann stofnaði auk þess verksmiðjur sem unnu úr hvalaafurðum. Hann lærði lögfræði og lagði stund á þá grein um árabil þar til umsvif hans í skipaútgerð urðu hans aðalverkefni. Anders Jahre hlaut ýmsa virðingu og var heiðraður í Noregi og víðar. Hann var útnefndur heiðursdoktor í Osló fyrir stuðning hans við vísindastörf við háskólann þar. Hann hlaut sömu nafnbót í Lundi og var heiðursfélagi í vísindaakademíunni, norræna félaginu í læknisfræði í Stokkhólmi og norska læknafélaginu í Osló. Anders Jahre veitti auk þess stuðning á sviði menningarmála og velferðar.

Hannes PéturssonÞetta vefsvæði byggir á Eplica