10. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Heilbrigðisþjónusta, rekstrarform, kostnaður og misrétti

Samanburður milli landa

Árangur heilbrigðisþjónustunnar

Mynd 1

Bróðurpartur umræðunnar um heilbrigðisþjónustu fjalla um kostnað en aðeins örlítið brot um árangur þjónustunnar. Á Íslandi erum við ekki á flæðiskeri stödd í þessum málum. Við búum við lægsta ungbarnadauða í heimi og lengstar ævilíkur karla og konur eru í öðru til þriðja sæti (1). Rétt er að hafa í huga að fleiri áhrifaþættir koma hér við sögu; við erum með tekjuhæstu þjóðum í heimi, almenn lífskjör, fjölskylduumhverfi og fleira.

Lítum á meðferðarárangur vel skilgreindra sjúkdóma. Fyrir milligöngu landlæknis hefur Ísland tekið þátt í Monica-rannsókn í allmörg ár. Hjartavernd sinnir þessari alþjóðlegu rannsókn

(25 þjóðir) og þar er meðal annars könnuð tíðni kransæðasjúkdóma í nokkrum borgum og nágrenni þeirra, aðgengi sjúklinga að sjúkrahúsum og árangur meðferðar (2).

Heilbrigðisþjónusta er að mestu rekin fyrir samfélagslegan kostnað í þessum löndum (80-85%) en læknar og sumt annað heilbrigðisstarfsfólk fá nokkurn aukasnúð fyrir verkin (tafla I, (3-8)). Kostnaður á íbúa (fee for services) var 2000-3400 dollarar á ári, það er 7,3-9,6% af vergri landsframleiðslu. Einkarekstur nam um 5-15% af heildarkostnaði en nokkrum prósentum hærri í Finnlandi (4). Jafnræði var milli kynja er varðar aðgengi á sjúkrahúsum og meðferðarárangur, jafnvel konum í vil.

Í Danmörku og Bretlandi er kostnaður við heilsugæslu ókeypis og tilvísunar krafist fyrir aðgengi að sérfræðingum. Besta aðgengi er á Íslandi og árangur læknismeðferðar er með því besta þrátt fyrir að hlutfallslega starfi færra heilbrigðisstarfsfólk á bráðasjúkrahúsum hér en í nágrannalöndunum (5). Meginorsök góðs árangurs er líklega sú að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk sækja langa framhaldsmenntun á góðum stofnunum erlendis. Of mikið vinnuálag er á sérdeildum svo að lítið má útaf bregða.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í Kanada greiða fylkin 70% af kostnaði við þjónustuna (skattar), um 30% af kostnaði fellur undir einkatryggingafélög (tafla II, (8-9)). Sjúkrahúsin eru ekki gróðarekin (non profit). Kostnaðurinn er rúmlega 10% af vergri landsframleiðslu.

Í Bandaríkjunum er 70% af íbúum tryggðir með einkatryggingum.Medicare er fjármagnað af launþegum og fylkjum og nær til fatlaðra.

Medicaid er greitt af fylkjum og nær til fátækra sem eru um 19% af íbúum. Samkvæmt opinberum skýrslum er um 84% af íbúu tryggðir en misvel (flestir hjá einkatryggingum) en 16% eru ótryggðir þar eru fjölmennastar láglaunakonur og meðal annarra einstæðar mæður og fólk með ótrygga

vinnu. Kostnaður á íbúa í Bandaríkjunum er um 5200 dollarar á íbúa, það er 50-100% hærri en á Norðurlöndunum en stjórnunarkostnaður vegur mjög þungt í Bandaríkjunum, heildarkostnaður 14,6% af vergri landsframleiðslu 2002. Bandaríkin hafa verið í fararbroddi varðandi tæknilegar nýjungar í hjartalækningum og á öðrum sviðum læknisfræðinnar og má líklega rekja nokkurn hluta hins háa kostnaðar til þess.


Niðurstaða

Monica-rannsóknin nær ekki til nema einstakra borga og segir því ekki alla söguna en gefur ákveðnar vísbendingar um aðgengi og árangur þjónustu í viðkomandi landi.

Aðgengi sjúklinga að þjónustu og árangur lækninga er yfirleitt bestur á Norðurlöndum, sérstaklega er varðar konur, nema í Danmörku, og stenst vel samanburð við Bandaríkin þrátt fyrir 50-100% minni kostnað.

Í fyrrgreindum löndum er yfirleitt jafnræði í þjónustu milli kynja en svo er ekki í Stanford í Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum eru um 38 milljónir manna ótryggðir og auk þess margir illa tryggðir. Komið hefur í ljós að ótryggðir gangast marktækt sjaldnar undir hjartaþræðingar en tryggðir (10). Einnig hefur komið í ljós að bráðainnlagnir á sjúkrahús erum færri á 1000 íbúa í Bandaríkjunum og legutíminn styttri en á Norðurlöndum (11). Sjálfsagt má leita fleiri skýringa á þessum mismun. Aðgengi og jafnræði milli kynja virðist vera best þar sem hið opinbera (almannatryggingar) hefur sterka stöðu í rekstri heilbrigðisþjónustunnar, jafnvel með samningum við verktaka. Okkur er ekki kunnugt um að áður hafi verið bent á kynjamisrétti er getur fylgt einkareknu tryggingakerfi frekar en samfélagsþjónustu í heilbrigðisþjónustunni.


Þakkir til Vilmundar Guðnasonar forstöðumanns fyrir yfirlestur og ábendingar.

Heimildir

1. World health report 2005; Geneve 2005.
2. Sigfússon N, Guðmundsdóttir II, Stefánsdóttir I, Sigvaldason H. Monica rannsókn á Íslandi 1981-1992. Rannsóknarstöð Hjartaverndar og landlæknisembættið. Heilbrigðisskýrslur. Fylgirit 1997 nr. 2.
3. Svensk sjukvård i international belysning. Svenska kommune och landsting, Stockholm april 2005.
4. European Observatory on Health care Systems. 2004. Health care Systems in Transition. Finland 2004
5. Health Stat. Nordic countries 2003, Copenhagen 2003.
6. Colombo F, Tapay N. Private Health Insurance in OECD Countries. The Benefits and Costs for Individuals and Health Systems. OECD Health working 2004. papers15.
7. Nolte E, Mckee Measuring the health af nations. BMJ 2003: 327: 1129.
8. OECD: Health Date 2004. Version 3 Paris 2004.
9. The Conference Board of Canada. Understanding Health Care Cost Drivers and Escalators. Publication 565 Ontario 2004.
10. Redelmeier DA, Fuchs VR. Hospital expenditures in the United States and Kanada. N Engl J Med 1993; 328: 772-8.
11. Hadley J, Steinberg EP, Feder J. Comparison of uninsured and privately insured hospital patient. Condition on admission, resource use, and outcome. JAMA 1991; 265: 374-9.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica