10. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Af sjónarhóli stjórnar. Læknanemar í læknafélagi? Sigurbjörn Sveinsson

Fyrir rúmum áratug þegar ég tók sæti í stjórn Læknafélags Íslands (LÍ) bar töluvert á erfiðum samskiptum unglækna og forystu félagsins. Svo hafði verið um nokkurra ára skeið og virtist heldur bæta í en draga úr. Mér sem aðkomumanni fundust tilefnin oft léttvæg eða að minnsta kosti ekki þess eðlis að gæfu tilefni til hurðarskella og annarrar fyrirferðar.

Ég minntist þess ekki að ástandið hefði verið svona 15 árum áður þegar ég sat í stjórn LÍ fyrir unglækna en vera má að sá friður, sem þá ríkti í stjórn félagsins, hafi stafað af skorti á ágreiningi um kjaramál. Þau hafa enda jafnan verið erfiðasta úrlausnarefni kynslóðanna í LÍ. En tilfinning unglæknisins í stjórn á þeim tíma var mun frekar um stolt og ábyrgð en fyrir nýjum vígvelli eftir prófafargan læknadeildar. Samskipti unglækna og LÍ fóru bara versnandi undir lok síðustu aldar og óþarfi er að rifja upp hinn sögulega skilnað Félags ungra lækna (FUL) við LÍ í miðjum frágangi kjarasamnings vorið 2002. Þetta ástand var auðvitað erfitt fyrir stjórn LÍ og formann þess og krafðist skýringar og viðunandi úrlausnar. Óánægja unglækna með kjör var skiljanleg og þeir gerðu sanngjarnar athugasemdir bæði við grunnlaun sín og samningsbundna meðferð á vinnutíma og frí honum tengdum. Hins vegar virtust mér unglæknar almennt koma harkalega niður í samfélagi lækna og upplifa félagslegt umhverfi LÍ framandi og hin mörgu sameiginlegu mál önnur en kjaramál tæplega á vetur setjandi. Samninganefnd LÍ brást við hinu fyrra úrlausnarefni með ítarlegum undirbúningi kröfugerðar þar sem málefni unglækna fengu veglegan sess eða með öðrum orðum forgang. Var hlutur þeirra óumdeilanlega réttur meira en annarra í síðasta kjarasamningi. Stjórnin velti því síðan fyrir sér hvernig lending læknanema gæti orðið félagslega mýkri í röðum lækna og komu fulltrúar Félags læknanema á fund hennar til að ræða þessi mál síðastliðinn vetur. Úr varð sú hugmynd að þeir læknanemar, sem aðild eiga að FUL (aðildarfélagi LÍ), nemar á 5. og 6. ári, verði félagar í LÍ fyrir þá aðild. Hefur stjórnin gert tillögur að lagabreytingum í þessu skyni (sjá heimasíðu), sem kynntar voru á síðasta aðalfundi og mun bera þær upp að nýju að öllu óbreyttu. FUL mun á næsta aðalfundi væntanlega breyta lögum þannig að umræddir læknanemar verða fullgildir meðlimir FUL. Þegar læknanemar skyldu hefja störf á Landspítalanum síðastliðið vor kom í ljós að yfirstjórn sjúkrahússins hafði breytt einhliða kjörum þeirra frá fyrra ári. Læknanemar voru að vonum ósáttir við þessa niðurstöðu, höfðu þó engan samning og yfirstjórnin að öllum líkindum í réttu skjóli laganna. Þegar formaður FUL reyndi svo að tala máli þeirra bæði gagnvart spítala og almenningi fékk hann kárínur frá yfirmönnum sínum eins og hann hefur greint frá á öðrum vettvangi. Þessi staða var og er ómöguleg bæði fyrir læknanema og ekki síður lækna, þar sem hún getur skapað óvissu í upphafi hvers orlofstíma og óróleika á vinnustað. Því er það allra hagur að læknanemar hafi stuðning af stéttarfélagi.   

Síðasti aðalfundur félagsins samþykkti eftirfarandi ályktun: "Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn á Egilsstöðum dagana 1. og 2. september 2006, felur stjórn félagsins að koma inngöngu læknanema í félagið í framkvæmd." Í umræðum um þessa ályktunartillögu komu fram vangaveltur um stöðu læknanema gagnvart læknafélögum í nágrannalöndum. Í máli Sigurðar E. Sigurðssonar, varaformanns LÍ, kom fram að hann mælti eindregið með þessari breytingu á lögum LÍ og taldi að ungt fólk, sem von bráðar yrði læknar, myndi flytja með sér ferskan anda og kraft og að ekki væri hægt að ímynda sér neitt það við veru þess í LÍ, sem skaðað gæti hagsmuni eða ímynd lækna í bráð og lengd. Vitnaði hann meðal annars í reynslu Norðmanna, sem hafa farið þessa leið, gert eldri læknanema að fullgildum félögum í norska læknafélaginu og eru mjög sáttir við reynslu sína.

Eva Nilsson Bågenholm, formaður sænska læknafélagsins, segir aðspurð í bréfi til mín, að í Svíþjóð hafi læknanemar eigið félag, Félag læknanema. Þeir hafi mikil áhrif innan læknafélagsins; annars vegar eigi þeir 12 fasta fulltrúa á aðalfundi (af um 143) og hins vegar áheyrnarfulltrúa með málfrelsi í stjórn læknafélagsins sem geti haft mikil áhrif á umræðu. Jafnframt hafa þeir einn fulltrúa með atkvæðisrétt í samninganefnd ásamt fulltrúa í kennslu- og vísindanefnd. Aðild að félagi læknanema gefur aðild að sænska læknafélaginu. Stjórn Félags læknanema fær aðstoð frá læknafélaginu til þess að reka öflugt starf. Hún segir Félag læknanema mjög þýðingarmikið þegar kemur að nýliðun í læknafélaginu. Orðrétt segir hún: "Okkur er mjög í mun að hafa sterka nemendahreyfingu innan okkar félags því þau eru framtíðin!" Stjórn Læknafélags Íslands mun hlýða fyrirmælum aðalfundar á Egilsstöðum og vinna þessu máli brautargengi.Þetta vefsvæði byggir á Eplica